• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • apríl 2019
    S M F V F F S
     123456
    78910111213
    14151617181920
    21222324252627
    282930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Ævintýri í Kielder

Í byrjun apríl skruppum við fjögur saman til Kielder í Englandi til að taka þátt í utanvegahlaupi, 32-100 km eftir þörfum og þorsta hvers og eins. Tilefnið var fimmtugsafmæli eins úr hópnum, Gunnars Viðars Gunnarssonar í Borgarnesi. Þegar maður verður fimmtugur og er búinn að hlaupa maraþon 9 sinnum, Laugaveginn tvisvar og 90 km keppnishlaup einu sinni, þá þarf maður að finna hærri kílómetratölu til að glíma við. Þess vegna ákvað Gunnar að gefa sér 100 km hlaup í fimmtugsafmælisgjöf.

Forsaga málsins
Gunnar Viðar byrjaði að hlaupa árið 2012 og síðan hefur þróunin verið hröð. Fyrsta maraþonið var hlaupið vorið 2013 og Laugavegurinn 2015. Árið 2018 var svo ráðist í það stórvirki að hlaupa 90 km keppnishlaup í Svíþjóð, nánar tiltekið Ultravasan-90 þar sem hlaupið er í spor skíðagöngumanna sem hafa gengið þessa sömu 90 km leið í Vasagöngunni á hverju ári í rúm 90 ár í minningu frægrar ferðar Gustavs Vasa Svíakonungs milli Mora og Sälen árið 1520. Hlaupið í fyrra tengdist hálfrar aldar afmæli góðs hlaupafélaga okkar Gunnars, Birkis Þórs Stefánssonar bónda í Tröllatungu á Ströndum. Upphaflega hafði ég ætlað að fylgja Birki og Gunnari í þetta hlaup, en meiðsli komu í veg fyrir það, Kristinn Óskar Sigmundsson í Borgarnesi hljóp í skarðið og ég réði mig sem fararstjóra í staðinn.

Birkir, Gunnar og Kristinn skiluðu sér allir heilir mark í Ultravasan-90 eftir 10-12 tíma hnjask og undirbúningur fyrir fyrsta 100 km hlaupið hófst strax á marklínunni í Mora undir skiltinu „Í feðranna spor fyrir framtíðarsigra“.

Í framhaldi af bollaleggingunum á marklínunni í Mora hófst leit að hentugu 100 km hlaupi vorið 2019, sem næst fimmtugsafmæli Gunnars. Hlaupið átti helst ekki að fela í sér mikið fjallabrölt, helst ekki að vera óþarflega langt og helst að vera í viðráðanlegri fjarlægð til að halda ferðakostnaði og ferðatíma innan þolmarka. Fljótlega bárust böndin að Bretlandi og í vetrarbyrjun 2018 lá ákvörðun fyrir: Stefnan var sett á ofurhlaupið Kielder Ultra, nyrst í Norðymbralandi á Englandi, rétt sunnan við landamærin við Skotland. Þar var boðið upp á 100 km hlaup á frekar viðráðanlegu undirlagi, með hæfilegri blöndu af flötum skógarstígum og lágum fellum.

Ferðafélagarnir
Þar sem Gunnar Viðar hafði farið með Birki til Svíþjóðar í fyrra til að hjálpa honum að opna fimmtugsafmælisgjöfina, lá beint við að Birkir færi með Gunnari til Bretlands til að gjalda líku líkt. Ef allt hefði verið með felldu hefði ég náttúrulega hlaupið með þeim, en þrálát meiðsli komu í veg fyrir að ég gæti undirbúið mig nægjanlega. Ég varð því að hafa sama hátt á og í Ultravasan-90 í fyrra, þ.e. að ráða sjálfan mig sem fararstjóra. Ekki vill maður missa af svona afmælisveislum!

Strax eftir að Kielderferðin var ákveðin bættist fjórði ferðafélaginn í hópinn, Úlfhildur Ída Helgadóttir, sauðfjárbóndi með meiru á Ytra-Álandi í Þistilfirði. Áður en þetta ævintýri hófst þekkti hún engan okkar og við ekki hana. Úr þessu varð samt einstaklega samhentur fjögurra manna hópur, þar sem engan vantaði og engum var ofaukið. Úlfhildur á ekki langa hlaupasögu að baki og Laugavegurinn 2018 var eina keppnishlaupið hennar fram að hlaupinu í Kielder, þar sem hún skráði sig í 50 km hlaup.

Auk 100 km hlaups og 50 km hlaups var nú í fyrsta sinn boðið upp á styttra hlaup í Kielder, þ.e.a.s. 20 mílur, eða 32 km. Í samanburði við hinar vegalengdirnar hljómaði það sem einhvers konar Latabæjarhlaup fyrir aðstandendur ofurhlaupara, og þar sem mér hafði gengið þokkalega að æfa mig út úr meiðslum sá ég mér leik á borði að bæta virkri þátttöku við fararstjórahlutverkið. Skráði mig því í 32 kílómetrana, en sagði fáum frá því. Þegar maður er rétt að skríða upp úr langvarandi meiðslum er ekkert sjálfsagt að leiðin liggi beint upp á við. Og þá er best að fleipra sem minnst um glæst áform.

Undirbúningur fyrir 32 km
Eftir að ég gat byrjað að hlaupa stuttar vegalengdir í lok október 2018 gengu æfingar áfallalaust, og þó að mikið skorti enn upp á styrk og hraða var ég farinn að geta hlaupið 20 km vandræðalítið um mánaðarmótin janúar/febrúar. Þegar komið var fram í mars voru vikurnar farnar að teygjast upp í 50 km og jafnvel 70 km. Lengsta laugardagshlaupið fyrir ferðina til Kielder var 27 km, þannig að ég vissi vel að 32 km myndu ekkert vefjast fyrir mér. En þar sem getan var enn af skornum skammti miðað við það sem var fyrir meiðsli, ákvað ég að líta á hlaupið í Kielder frekar sem langa æfingu en keppni. Markmiðið var bara að ljúka hlaupinu og njóta þess eftir bestu getu. Aðaltilgangur ferðarinnar var eftir sem áður að vera Gunnari, Birki og Úlfhildi innan handar.

Ferðin til Kielder
Ferðin mín til Kielder hófst í Borgarnesi fyrri part aðfaranætur fimmtudagsins 4. apríl, þ.e.a.s. tveimur sólarhringum fyrir hlaup. Þegar ég skipulegg hlaupaferðir til útlanda fylgi ég einfaldri formúlu, sem byggir bæði á góðri reynslu og slæmri. Meginreglan er sú að fljúga út í síðasta lagi tveimur dögum fyrir hlaup og heim aftur í fyrsta lagi tveimur dögum eftir hlaup. Ef hlaupið er á laugardegi, eins og í þessu tilviki, hentar vel að fara út á fimmtudegi og heim á mánudegi. Aðalaukareglan í ferðaskipulaginu er að varast næturflug – og svo þykja bein flug mun æskilegri en tengiflug. Svo er líka voða gott að hægt sé að leggja vegalengdina frá flugvelli að gististað að baki á 2 klst. eða svo, en auðvitað er ekki á allt kosið í þeim efnum.

Ferðin frá Borgarnesi til Keflavíkur gekk algjörlega áfallalaust, auk þess sem þessi hluti ferðalagsins var rafknúinn og kolefnishlutlaus. Að vísu orsakaði rautt blikkandi ljós við norðurenda Hvalfjarðargangnanna dálitlar hjartsláttartruflanir, en þar var sem betur fer bara verið að hægja á umferð til að tryggja öryggi sópara inni í göngunum. Frá Keflavík var svo flogið með Icelandair til Glasgow, stutt flug og þægilegt.

Birkir, Úlfhildur og Gunnar lent á flugvellinum í Glasgow.

Á öfugum kanti
Áður en við lögðum af stað í þessa ferð hafði Gunnar lýst því yfir að hann kviði ekkert fyrir því að hlaupa þessa 100 km. Verra væri að þurfa að keyra 200 km – á öfugum vegarhelmingi. Svoleiðis keyrir fólk nefnilega í Bretlandi. Til að gera langa sögu stutta gekk þessi vinstrikantskeyrsla stóráfallalaust, þó að í eitt eða tvö skipti hafi hurð skollið nærri hælum – eða vinstri hlið nærri vörubíl. Hins vegar fær konan í leiðsögutækinu í bílaleigubílnum ekki háa einkunn fyrir leiðsögnina. Ef einhver Grjótháls væri á Englandi hefðum við örugglega keyrt yfir hann – og ef þar væri einhver Siglufjörður hefðum við komið þar við á Laugarvegi. Þess vegna varð tveggja tíma keyrsla á öfugum kanti að fjögurra tíma keyrslu á svo mjóum sveitavegum að þar þurfti að nota báða kanta jöfnum höndum og samtímis.

Á leið út í öfugsnúna umferð í Skotlandi. (Ljósm. Úlfhildur).

Á áfangastað
Það hafði vafist töluvert fyrir mér að finna hentugan gististað sæmilega nálægt Kielder þar sem hlaupið átti að hefjast og enda. En fyrir einhverja einstaka lukku hafði ég komist á snoðir um orlofshúsahverfi á vegum samtakanna Calvert Trust, sem er eins konar bresk útgáfa af Sjálfsbjörg eftir því sem ég kemst næst. Þessi samtök reka sem sagt orlofsbúðir fyrir fatlaða á nokkrum stöðum í Bretlandi, þ.á.m. rétt við Kielder uppistöðulónið, svo sem 10 km sunnan við Kielder. Þarna höfðum við tryggt okkur hús til að sofa í þessar fjórar nætur sem við áttum saman í Bretlandi – og þangað vorum við komin síðdegis á fimmtudeginum eftir ítarlega úttekt á sveitavegum syðst í Skotlandi.

Ég veit ekki hvort við fjórmenningarnir teljumst „venjulegir Íslendingar“, en það fyrsta sem við gerðum þegar við vorum komin inn í þetta annars stórgóða hús við Kieldervatnið var það sama og „venjulegir Íslendingar“ myndu líklega gera, þ.e.a.s. að athuga hvort þar væri þráðlaust netsamband. Svo reyndist ekki vera. Næsta mál var þá að tengjast netinu í gegnum farsímana, en þá kom í ljós að í húsinu var heldur ekkert farsímasamband, hvorki 4G, 3G, E, H, N, eða hvað þetta nú heitir allt saman. Það eina sem símarnir sýndu var hringur með skástriki yfir. Eftir að hafa gert þessa uppgötvun rölti ég út í miðstöðina sem þjónustar orlofshverfið og spurði frétta af símasambandinu. Þar var mér sagt að þarna væri ekkert svoleiðis, enda væri ég kominn svolítið langt út á land. Mig rámaði reyndar í að hafa sjálfur búið úti á landi lengst af og jafnvel verið í góðu símasambandi í snöggtum afskekktari byggðum en þessari. Hafði þó að sjálfsögðu ekki orð á því.

Í þjónustumiðstöðinni var þráðlaust netsamband og fræðilega séð hægt að komast á netið í gegnum það. Hraðinn á nettengingunni var hins vegar svipaður og í þá gömlu góðu daga þegar mótöldin voru upp á sitt besta. Þarna vantaði bara hljóðið sem fylgdi þeim.

Það þarf ekki að vera slæmt að vera án símasambands og netsambands. Helsti gallinn er sá að geta ekki látið fjölskyldur og vini vita af gangi mála. Sambandsleysi hóps við umheiminn er hins vegar til þess fallið að efla sambandið innan hópsins. Við þurftum sem sagt að tala saman í staðinn fyrir að „hanga á netinu“. Ég held að ekkert okkar hafi skaðast af því.

Yfirlitskort af svæðinu. 50 km hlaupaleiðin lá í kringum allt vatnið og 100 km hlaupararnir fóru tvo hringi. (Teiknað með aðstoð Strava.com).

Eitthvað verður maður að éta
Eftir að hafa kortlagt helstu matvöruverslanir á svæðinu með aðstoð fólksins í þjónustumiðstöðinni fórum við til Bellingham að kaupa í matinn, u.þ.b. 20 km akstur í suðaustur frá húsinu okkar. Bellingham er stærsta borgin á stór-Kielder svæðinu, með á að giska 1.300 íbúa. Þar fundum við stórgóða kaupfélagsbúð og við hliðina á henni byggingarvöruverslun, þar sem hnífapörum, keðjusögum og axlaböndum var stillt upp hlið við hlið. Allt minnti þetta á tíma sem eru að mestu liðnir heima á Íslandi, en þarna voru gestrisni og þjónustulund á heimavelli, auk þess sem þarna fékkst allt sem þurfti. Og svo var líka sæmilegt farsímasamband fyrir utan búðina. Sumu þarf ekki að breyta.

Fyrir utan kaupfélagið í Bellingham.

Eftir velheppnuð sameiginleg matarinnkaup í Bellingham var snæddur kvöldverður á veitingastað rétt utan við Falstone, stutt suðaustur af Kielder-stíflunni sem hlaupaleiðin liggur einmitt yfir.

Daginn fyrir hlaup
Föstudagurinn 5. apríl var dagurinn fyrir hlaup. Svoleiðis dagar eru öðruvísi en allir aðrir dagar, því að þá er hugurinn orðinn fullur af hlaupi og lítið pláss þar fyrir annað. Á svona dögum gæti öðru fólki fundist hlauparar frekar leiðinlegir, en það kemur ekki að sök þegar ekkert annað fólk er til staðar.

Dagurinn fyrir hlaup var m.a. nýttur í langa gönguferð í svölu vorveðri í skóginum. Í þeirri ferð vaknaði sú spurning hvers vegna ár og lækir væru dökk á litinn, en við því fékkst ekkert svar. Á Íslandi er rennandi vatn yfirleitt gagnsætt, nema jökulvatn. Sú skýring dugði ekki þarna.

Gönguferð í skóginum daginn fyrir hlaup.

Af öðrum helstu verkefnum dagsins má nefna útreikninga á akstursvegalengdum – og brautarskoðun, að því marki sem hægt var að framkvæma hana á bíl. Í þeirri ferð keyrðum við m.a. yfir Kielder-stífluna og komumst að því að á bílastæðinu hinum megin við hana er ágætis símasamband og mikið af kanínum. Fyrsta drykkjarstöðin í hlaupinu átti einmitt að vera þarna, u.þ.b. 14 km og 64 km frá rásmarkinu, eftir því hvort hlaupinn væri einn hringur (50 km) eða tveir hringir (100 km) í kringum lónið. Drykkjarstöð nr. 2 var við Lewis Burn, 36 og 86 km frá rásmarkinu og drykkjarstöð nr. 3 við rásmarkið. Þar með var það upptalið. Ekki var hægt að keyra að drykkjarstöðinni við Lewis Burn, sem gerði stuðning við hlauparana ögn flóknari en ella.

Expóið
Seinni part föstudagsins fórum við í Kielder kastalann að sækja hlaupagögnin okkar. Kastalinn reyndist vera gamalt tveggja hæða steinhús og þar á efri hæðinni voru númerin afhent. Framleiðendur íþróttavarnings nota jafnan tækifæri sem þessi til að sýna vörurnar sínar og selja þær með góðum afslætti. Það er það sem hlauparar tala um sem „Expóið“. Kielder var engin undantekning frá þessu, en eðlilega var allt smærra í sniðum en í München og Róm, þar sem ég hafði ráfað um risastórar vöruskemmur á svona degi nokkrum árum fyrr. Í Kielder var expóið bara eitt borð með vörum frá einum framleiðanda. En það var líka alveg nóg.

Fyrir utan Kielder kastalann. (Ljósm. Birkir).

Expóið í Kielder eins og það lagði sig. Búið að sækja gögnin.

Kielder Village Shop
Kielder er lítið þorp. Þar búa líklega um 200 manns sem hafa líklega m.a. atvinnu af því að þjónusta náttúruverndarsvæðið sem afmarkast af Kielder-uppistöðulóninu og skóginum í kringum það. Þarna er a.m.k. einn lítill gististaður, sveitakrá, kaffihúsið í kastalanum, bókasafn og búð, auk bensínstöðvar í útjaðri þorpsins. Og að öðrum viðkomustöðum ólöstuðum var búðin hugsanlega hápunktur ferðarinnar.

Búðin í Kielder fer ekkert fram hjá manni þegar ekið er inn í þorpið, því að þar er stórt skilti sem vísar á hana. Inni í þorpinu eru svo fleiri vegpóstar sem gegna sama hlutverki. Í búðinni fæst hins vegar næstum ekki neitt. Fljótleg vörutalning okkar leiddi í ljós þrjár appelsínur, fimm brauð, rúmlega 20 DVD-diska og nokkrar mjólkurflöskur í goskæli. Þarna áttaði ég mig á að verslun Kaupfélags Bitrufjarðar á Óspakseyri var stórmarkaður. Ég held reyndar að ég hafi vitað það fram á unglingsár, enda var þetta lengi vel eina búðin sem ég hafði komið í. Seinna gleymdi ég því og fór að halda að þetta hefði bara verið örlítil sveitaverslun.

Kielder Village Store fer ekkert fram hjá manni þegar ekið er inn í þorpið.

Fyrir framan búðina í Kielder.

Inni í búðinni í Kielder.

Fyrir aftan búðina í Kielder.

Um kvöldið eldaði Gunnar hakk og spaghettí úr búðinni í Bellingham (ekki Kielder) og ég veit ekki annað en við höfum öll farið södd og sæl að sofa, sum kannski örlítið spennt fyrir morgundeginum.

Síðasta kvöldmáltíðin fyrir hlaup.

Að morgni hlaupadagsins 6. apríl
Við fjögur vorum mætt til Kielder um það leyti sem bjart var orðið, þ.e.a.s. um kl. 6 þennan laugardagsmorgun. Hitastigið var nálægt 0,5°C, sem sagt ekki sérlega hlýtt, en hægviðri og skýjað og því nánast fullkomið hlaupaveður. Birkir og Gunnar voru ræstir af stað í 100 km hlaupið kl. 6:30 ásamt u.þ.b. 40 öðrum hlaupurum, en við Úlfhildur gátum haft það náðugt öllu lengur. Byrjuðum á að keyra niður að Kielder-stíflunni til að fylgjast með köppunum á fyrstu drykkjarstöð (14 km). Ferðin þangað tók þá um 1:25 klst, þannig að þeir voru mættir á staðinn laust fyrir kl. 8, vel útlítandi og eldhressir. Við náðum svo að kíkja á þá aftur á tveimur stöðum á næstu 4 km, þar sem hlaupaleiðin lá nálægt bílveginum. Næstu klukkutímana urðu þeir hins vegar að spjara sig án hvatningar frá okkur.

Gunnar og Birkir í morgunsvalanum, tilbúnir í langþráð 100 km hlaup.

Gunnar á fyrstu kílómetrunum. (Ljósm. Grand Day Out Photography).

Gunnar kominn að Kielder stíflunni. Ekki nema 86 km eftir.

Við Little Whickhope. U.þ.b. 18 km að baki. Þarna fann Birkir grindverk sem hann þurfti aðeins að bregða sér gegnum. Svona hlaup eiga að vera skemmtileg.

Kl. 9:30 lagði Úlfhildur upp í 50 km hlaupið frá Kielder kastalanum ásamt um 150 öðrum og þar með lauk hlutverki mínu sem fararstjóra í bili. Næstu klukkutíma hafði ég engar spurnir af gengi þeirra þriggja, en hugsaði þess meira um sjálfan mig.

Úlfhildur tilbúin í 50 km hlaupið.

Úlfhildur (aftan við miðja mynd) á fyrstu metrunum. Langt og skemmtilegt hlaup framundan.

Hlaupið mitt
Tuttugu mílna hlaupið mitt (32 km) var ræst í Kielder kl. 10:00. Ég lagði af stað í þetta hlaup laus við alla pressu, enda var þetta aukaafurð ferðarinnar en ekki megintakmark. Ég hafði auk heldur hvorki undirbúið þetta hlaup sérstaklega né byggt upp neina spennu – og þarna átti ég auðvitað engan „gamlan tíma“ sem ég „þurfti“ að bæta, eins og gjarnan gerist í götuhlaupum á þekktum vegalengdum.

Í hlaupinu voru 78 þátttakendur, líklega allt Bretar nema ég. Mikil hógværð ríkti við rásmarkið og enginn virtist hafa áhuga á að byrja alveg frammi við línuna. Ég er vanur örlítið meiri ágengni og var því fyrstur af stað og hélt forystunni fyrstu 200 metrana eða svo. Eftir það tóku fljótari hlauparar við og ég bjó mér strax til það tómstundagaman að telja þá sem fóru fram úr mér og fylgjast þannig með í hvaða sæti ég væri. Var fljótlega kominn niður í 10. sæti og svo það tólfta. Fyrstu kílómetrarnir voru frekar erfiðir, upp hlykkjótta skógarstíga, en inn á milli voru bílfærir vegarkaflar. Þegar þarna var komið sögu var hitinn líklega kominn í 3-4°C og aðstæður til hlaupa allar hinar bestu.

Ég sjálfur á fyrstu kílómetrunum. (Ljósm. Grand Day Out Photography).

Eftir 7-8 km fannst mér kominn tími til að fækka fötum, sem tók svolitla stund því að bakpokinn þvældist fyrir. Í honum var skyldubúnaður samkvæmt reglum hlaupsins, þ.m.t. regnföt, álteppi og fullhlaðinn sími, sem er auðvitað öryggistæki í utanvegahlaupi, kannski samt ekki í þessu tiltekna hlaupi þar sem leiðin var nánast öll utan þjónustusvæðis farsímakerfa. En maður hefði þá alla vega getað skoðað myndir af fjölskyldunni á meðan beðið var eftir hjálp sem ekki var hægt að hringja í.

Ég missti nokkra hlaupara fram úr mér á meðan ég fækkaði fötum, en náði þeim fljótlega öllum aftur. Taldist þá til að ég væri í 11. sæti í hlaupinu. Var þó líklega nr. 10. Maður getur alltaf ruglast í tölfræðinni. Stuttu áður en ég kom að drykkjarstöðinni við Kielder stífluna fór ég að ná öftustu hlaupurunum í 50 km hlaupinu. Var sem sagt búinn að vinna upp hálftíma forskot þeirra. Taldi þessa hlaupara líka mér til dundurs og var kominn upp í 10 þegar ég skokkaði niður úr fellunum ofan við drykkjarstöðina.

Við drykkjarstöðina sýndi úrið mitt 13,52 km og 1:19:07 klst, sem þýddi að meðalhraðinn hafði verið um 5:51 mín/km. Ég var vel sáttur við það, enda leiðin seinfarin um krókótta skógarstíga, holt, móa og mýrar. Yfirlýst markmið mitt var að ljúka hlaupinu á innan við 3:30 klst, en annað markmið til eigin nota var að klára þetta á 3:12 klst og til þess þurfti ég að vera á 6:00 mín/km að meðaltali. Ég var sem sagt vel á undan áætlun þegar þarna var komið sögu.

Við drykkjarstöðina skildust leiðir 50 og 100 km hlaupara annars vegar og skemmtiskokkara hins vegar. Leið aðalhlauparanna lá eftir stíflunni og síðan eftir krókaleiðum meðfram lóninu að suðvestanverðu, en ég og mínir líkar beygðu til hægri og hlupu aftur til Kielder eftir greiðfærum göngu- og hjólastíg norðaustan við lónið, (sjá yfirlitskort).

Seinni hluti hlaupsins var einsleitari en fyrri hlutinn þar sem nú var hlaupið eftir fólksbílafærum stíg, sem er reyndar ætlaður göngu- og hjólafólki en ekki bílum. Leiðin var samt svolítið erfið, þar sem hver smábrekkan tók við af annarri. Alla vega hægðist á mér. Verð reyndar að viðurkenna að mér hálfleiddist. Bæði var að ég fann ekki ferskleikann sem hefur fylgt mér lengst af á hlaupaferlinum, og svo hitt að leiðin var tilbreytingarlaus og ég aleinn á ferð að frátöldu hjólafólki sem ég ýmist mætti eða sá á eftir. Stuttu eftir að ég hljóp fram hjá drykkjarstöðinni mætti ég reyndar konu sem hafði verið talsvert langt á undan mér fram að því – og eðlilega fór ég þá að efast um að ég væri á réttri leið. Vissulega voru allar merkingar einstaklega bleikar og greinilegar, en þegar þarna var komið sögu hafði ég ekki séð nein merki lengi. Þau voru líka óþörf þar sem stígurinn var eina mögulega leiðin. Efinn hvarf svo við næsta merki, alllöngu síðar. Seinna í hlaupinu fór þessi sama kona fram úr mér aftur. Hún hefur væntanlega átt aðkallandi erindi á drykkjarstöðina og því ákveðið að leggja lykkju á leið sína.

Eftir 30 km hlaup náði ég að bæta stöðu mína með því að fara fram úr einum þreyttum Breta efst í 1,7 km langri brekku, sem mér tókst að skokka upp þrátt fyrir 100 m hækkun. Eftir það lá leiðin niður krókótta stíga og þó að síðasti áfanginn reyndist drýgri en ég hafði búist við var stutt eftir í markið. Þangað kom ég sæmilega haldinn og úrið mitt sýndi 32,75 km, 3:17:28 klst. og 6:01 mín/km. Ég hafði sem sagt hægt heldur mikið á mér á seinni hlutanum, en það skipti svo sem engu máli. Þetta hafði allt gengið áfallalaust, fyrsta keppnishlaupinu í eitt og hálft ár var lokið og ég í 9. sæti af 78 keppendum. Það var náttúrulega bara fínt, þó að eflaust hafi allir aðalhlaupararnir tekið þátt í 50 eða 100 km hlaupi en ekki „bara“ 32 km.

Í markinu fékk ég lítinn útprentaðan miða með tímanum mínum í hlaupinu og þar koma líka fram að ég hefði verið fyrstur allra í mark í flokki 60-69 ára. Það kom mér reyndar svolítið á óvart, því að snemma í hlaupinu hljóp gráhærður öldungur fram úr mér og ég náði honum aldrei aftur. Eftir á að hyggja var hann kannski miklu yngri en ég. En mér fannst gaman að hafa unnið aldursflokkinn, þó að ég upplifði það svo sem ekki sem neinn stórsigur.

Beðið við Lewis Burn
Eftir að hafa mokað í mig hitaeiningum á marksvæðinu settist ég með nokkrum erfiðismunum inn í bíl og ók sem leið lá áleiðis að drykkjarstöðinni við ána Lewis Burn þar sem ég hafði sagst ætla að hvetja félagana. Samkvæmt tímaáætlun sem ég gerði fyrir hlaupið var von á Úlfhildi þangað í fyrsta lagi kl. 14:30, en við þessa stöð voru 36 km búnir af 50 km hlaupinu. Ferðalagið þangað tók mig drykklanga stund, því að almenningi var bannað að fara þangað keyrandi. Ég þurfti því að leggja bílnum á bílastæði niður við lónið og komast á tveimur jafnfljótum um 2,5 km leið upp með Lewis Burn. Hvorugur þessara tveggja jafnfljótu var fljótur í förum þennan spöl, enda krampar í þeim báðum. Það tók mig nánar tiltekið 23 mín. að skakklappast þennan spotta, sem var að vísu heldur á fótinn. Var kominn á áfangastað kl. 14:33 og þá var Úlfhildur löngu farin hjá að sögn starfsmanna á drykkjarstöðinni. Það voru að vissu leyti vonbrigði en þó fyrst og fremst gleðiefni, því að þetta þýddi að hún var komin langt á undan áætlun.

Drykkjarstöðin við Lewis Burn. Allt frekar smátt í sniðum, en aðbúnaður og viðmót til fyrirmyndar.

Ég átti von á Birki og Gunnari að Lewis Burn á milli kl. 16:04 og 17:48 skv. upphaflegu tímaáætluninni. Hafði fengið upplýsingar á marksvæðinu í Kielder um að þeir hefðu lagt upp þaðan í seinni hringinn kl. 12:17, sem þýddi að tíminn á fyrri hring hafði verið 5:47 klst, sem var mjög nálægt því sem við höfðum reiknað með. Ég beið því hinn rólegasti og hélt á mér hita með því að „ganga um gólf“ á svæðinu. Átti líka gott spjall við breskan jarðfræðing á mínum aldri sem var þarna að bíða eftir dóttur sinni sem líka var meðal þátttakenda í 100 km hlaupinu. Hann var fróður um Ísland og fannst Ófærð frábært sjónvarpsefni.

Birkir birtist við Lewis Burn kl. 17:08 og Gunnar nákvæmlega 48 mínútum síðar. Báðir voru hinir kátustu, þó að auðvitað væri þreytan farin að segja til sín eftir 86 km hlaup. Gunnar sló á létta strengi við starfsfólkið á drykkjarstöðinni sem þáði þó ekki boð hans um bita af sviðasultunni sem hann var með í nesti. Samt útskýrði hann skilmerkilega úr hverju þessi eðalfæða væri gerð. Stórskrýtnir þessir Bretar! Þess má reyndar geta að Birkir og Úlfhildur höfðu bæði tekið sams konar góðgæti með sér að heiman. Hlaupagel eru sennilega orðin úrelt.

Birkir búinn með 86 km og kominn til Lewis Burn, ágætlega hress.

Gunnar kominn niður úr skóginum við Lewis Burn, búinn með 86 km af hólum, hæðum, móum og mýrum.

Þegar þarna var komið sögu var Gunnar orðinn nokkuð laskaður á fæti og sagðist búast við að þurfa að ganga mikið af þessum 14 km sem eftir voru. En hann kveið því ekkert, enda nógur tími til stefnu.

Þegar Gunnar var lagður af stað frá Lewis Burn í síðasta áfangann skokkaði ég aftur niður að bílastæðinu. Sú ferð gekk ögn fljótar en fyrr um daginn, nánar tiltekið rúmar 14 mín. (Þetta var auðvitað allt skilmerkilega skráð).

Allir í mark
Þegar ég kom aftur til Kielder var Úlfhildur auðvitað löngu komin í mark og búin að bíða þar í hátt í þrjá tíma. Hún hafði klárað 50 km hlaupið á 6:29:12 klst. sem var um hálftíma betri tími en við höfðum reiknað með. Sem betur fer hafði hún sett Top Reiter gallann sinn í geymslu á marksvæðinu og í svoleiðis klæðnaði verður manni víst aldrei kalt.

Úlfhildur komin í mark, óþreytt eftir 50 km krefjandi hlaup. (Ljósm. Óþekktur hlaupari).

Rétt eftir að ég mætti á marksvæðið birtist Birkir þar á gríðarlegum endaspretti á 12:12:53 klst. sem var mjög í takti við upprunalega áætlun. Gunnar bættist svo í hópinn rétt um það leyti sem birtu tók að bregða. Tíminn hans var 13:50:10 klst, heilsan bærileg en matarlystin takmörkuð. Þar með voru þessir tveir kappar búnir að hlaupa sig inn í 100 kílómetra félagið, en fá félög setja eins erfið inntökuskilyrði.

Birkir og Úlfhildur á marksvæðinu í Kielder með árangurinn sinn útprentaðan. (Takið eftir Top Reiter gallanum).

Gunnar búinn með langþráða 100 km. Svona gera ekki nema ofurmenni.

Kanínur og vont veður
Þegar allir voru komnir í mark voru enn tvö stórverkefni eftir þennan daginn, annars vegar að láta vini og vandamenn á Íslandi vita að allt hefði gengið vel og hins vegar að reyna að troða í sig sem mestum mat til að vinna upp hluta af brennslu dagsins. Við létum upplýsingamiðlunina ganga fyrir og ókum sem skjótast niður á bílastæðið við Kielder-stífluna þar sem við vissum að hægt væri að komast í samband við umheiminn. Á meðan við vorum þar kom til okkar frekar valdsmannleg kona á sendibíl og sagði okkur að þarna væri bannað að leggja bílum. Okkur kom það reyndar svolítið á óvart, þar sem þetta var jú merkt bílastæði. En þar sem við vildum ekki koma okkur í klandur í útlöndum bjuggumst við til brottfarar. Konan bætti því svo við að þarna væri mikið af kanínum og að ekki væri mjög gott að vera þarna í svona vondu veðri. Við vissum reyndar af þessu með kanínurnar en vorum í óvissu um hlutverk þeirra í sögunni. Þarna í kvöldstillunni var hins vegar ekkert sem minnti á vont veður.

Langþráður kvöldmatur
Eftir löng hlaup er maður oftast bæði svangur og latur að elda. Þess vegna var löngu ákveðið að við myndum finna okkur vel útilátinn kvöldverð á hentugu veitingahúsi, þó að vissulega værum við með vissar efasemdir um samkvæmisklæðnaðinn sem við vorum öll í. Auk þess var síðustu eldhúsum svæðisins lokað kl. 20:00 þetta kvöld sem var í það minnsta hálftíma of snemmt. Þess vegna höfðum við, af mikilli fyrirhyggju, pantað okkur tvöfalda brottnámsborgara (e. take away burgers) á línuna. Þeir voru hitaðir upp og snæddir af áfergju þegar heim í húsið var komið. Matartekjan var að meðaltali sæmileg, en borgarnir voru það svo sem ekki. Einhver minntist á bylgjupappa í því sambandi. En matur er matur, sérstaklega á svona stundum.

Í húsi fyrir fatlaða
Eins og fram hefur komið bjuggum við í húsi sem var byggt sem orlofshús fyrir fatlaða. Úlfhildur var samt sú eina sem bjó svo vel að vera með lyftu yfir rúminu sínu, og þar sem hún var sýnu best á sig komin eftir hlaup dagsins bauð hún 100-körlunum í hópnum að skipta við þá um herbergi. Þeir þáðu það ekki, en viðurkenndu samt daginn eftir að upphækkanir og slár á salernum hússins hefðu komið í góðar þarfir fyrstu klukkutímana eftir hlaup.

Daginn eftir hlaup
Sunnudagurinn var tíðindalítill enda tíðindi laugardagsins nóg fyrir heila helgi. Allar hlaupaæfingar og knattspyrnuleikir féllu niður þennan dag, en við náðum samt ágætum göngutúr. Og seinni partinn komumst við að því að stærsta veitingahúsinu á stór-Kieldersvæðinu er lokað kl. 18 á sunnudögum. Það kom þó ekki að sök, þar sem við fengum ágætan viðurgerning í veitingasal hótels í Bellingham. Þar var meira að segja rífandi netsamband.

Heimferðin
Við tókum mánudaginn snemma og vorum komin mjög tímanlega á flugvöllinn. Brugðum nefnilega á það ráð að afþakka aðra skoðunarferð um sveitir Skotlands í boði konunnar í leiðsögutækinu. Hraðbrautin frá Gretna Green til Glasgow var mun fljótfarnari. Í stuttu máli gekk allt að óskum þennan dag – og hópferðinni sem slíkri lauk í Reykjavík síðdegis.

Utan við húsið okkar eldsnemma að morgni brottfarardags.

Lent í Keflavík. (Ljósm. Starfsmaður í Leifsstöð).

Meginniðurstaða
Ferðin til Kielder var öðruvísi en aðrar ferðir og ég veit að hún verður okkur öllum lengi í minni. Margt var ólíkt því sem maður hélt að það yrði, en allt sem skipti máli gekk fullkomlega upp. Eftir standa minningar og þakklæti fyrir að hafa fengið að upplifa ævintýri þessara daga með góðu fólki sem allt var að takast á við nýjar áskoranir. Og enda þótt hlaupin séu ekki lífið sjálft eins og það leggur sig, þá er þau endurspeglun af lífinu. Þeir sem sigrast á áskorunum í hlaupum styrkjast í vissunni um að þeir geti tekist á við aðrar áskoranir sem bíða á leiðinni framundan.