• Heimsóknir

    • 119.039 hits
  • júlí 2019
    S M F V F F S
     123456
    78910111213
    14151617181920
    21222324252627
    28293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Sumarylur á Laugaveginum

Síðastliðinn laugardag hljóp ég Laugaveginn í 5. sinn. Markmið dagsins var að komast þessa 53 km á skemmri tíma en 6 klst. en út frá árangri í keppnishlaupum fyrr um sumarið hafði ég reiknað út með hávísindalegum aðferðum að líklegur lokatími væri 6:01:11 klst. Framan af benti allt til að þessi markmið næðust – og vel það, en þegar á leið urðu sporin þyngri og þá varð smám saman ljóst að ég yrði að sætta mig við ögn lakari tíma. Endanleg niðurstaða varð 6:05:48 klst. og ég er kampakátur með þann árangur, sérstaklega eftir að hafa misst allt síðasta ár úr vegna langvinnra meiðsla. Fimm mínútur til eða frá er nánast ekki neitt þegar Laugavegurinn á í hlut. Þar getur allt gerst.

Undirbúningurinn
Undirbúningurinn fyrir Laugavegshlaupið hófst í raun í lok október á síðasta ári þegar ég gat loksins byrjað að skokka stuttar vegalengdir eftir 9 mánaða hlé. Fyrst var þetta allt mjög stutt og hægt, en smám saman lengdust æfingarnar og hraðinn þokaðist upp. Í janúar voru lengstu vikurnar komnar í 40 km, í febrúar var lengsta vikan hátt í 60 km og í mars fóru tvær vikur yfir 70 km. Apríl og maí urðu einhvern veginn ögn hógværari, án þess þó að fyrir því væri einhver sérstök ástæða. Júní varð hins vegar, nánast óvart, langlengsti hlaupamánuðurinn minn frá upphafi en þá lagði ég samtals 433 km að baki og fór tvisvar vel yfir 100 km á viku. Fyrra „mánaðarmetið“ var 324 km frá því í mars 2013 þegar ég var að æfa fyrir Parísarmaraþonið. Þá var ég reyndar í miklu betra formi en núna, enda segir kílómetrafjöldinn ekki allt um stöðu mála. Kílómetrafjöldinn í júní segir þó alla vega að ég var farinn að þola hnjaskið býsna vel. Í júní hljóp ég t.d. Skarðsheiðarveginn fram og til baka tvisvar sinnum – u.þ.b. 40 km í hvort skipti með 1.000-1.200 m hækkun, einn tvöfaldan Háfslækjarhring sem var líka tæpir 40 km, Þrístrending upp á rúma 40 km og Hamingjuhlaupið á Ströndum upp á rúma 50 km. Ég var ágætlega þreyttur eftir öll þessi hlaup en ekkert þeirra hafði nein teljandi eftirköst. Auk þess lagði ég stundum leið mína á Hafnarfjallið og náði einu sinni tvöfaldri ferð. Hefði líklega mátt gera meira af því, eftir á að hyggja.

Á Hafnarfjallinu 27. apríl 2019.

Löngu hlaupin í júní voru öll hæg og almennt var lítið um hraða- og styrktaræfingar á undirbúningstímabilinu. Þar hefði mátt gera betur, ekki bara til að komast í betra stand fyrir Laugaveginn heldur einnig og ekki síður til að minnka líkur á meiðslum. Einu eiginlegu hraðaæfingarnar voru í raun nokkur keppnishlaup sem ég tók þátt í á tímabilinu apríl-júní. Þau gengu öll nokkurn veginn í samræmi við væntingar, nema hvað ég þurfti að hætta í Mývatnsmaraþoninu seint í maí vegna eymsla í hægri ökkla og sköflungi.

Fyrir mér hafa keppnishlaupin a.m.k. fjórþættan tilgang. Í fyrsta lagi eru þessi hlaup bestu hraðaæfingar sem völ er á. Í öðru lagi er þau mælikvarði á getuna. Í þriðja lagi gefa þau mér tækifæri til að hitta góða hlaupavini sem lýsa upp tilveruna. Og í fjórða lagi gefa þau mér aukið sjálfstraust til að takast á við næstu verkefni. Í sumum þessara hlaupa verða einhvers konar kaflaskil, rétt eins og dyr opnist inn í nýja sali með nýjum tækifærum.

Fyrir Laugaveginn var ég búinn með 8 keppnishlaup frá því að ég komst aftur af stað á liðnum vetri. Í þremur þeirra fannst mér eins og nýjar dyr opnuðust. Fyrsta hlaupið var 20 mílna utanvegahlaup í Kielder í Bretlandi í byrjun apríl. Þá fann ég að ég gat þetta alveg, þó að skrokkurinn væri greinilega ekki kominn í það stand sem ég vil hafa hann í. Seinna í sama mánuði hljóp ég 5 km í Víðavangshlaupi ÍR alveg vandræðalaust á sæmilegum tíma. Og í byrjun maí fannst mér ég finna „fjölina mína“ í fyrsta sinn eftir meiðslin. Þá hljóp ég Heimaeyjarhringinn í Vestmannaeyjum og þar small einhvern veginn allt saman, bæði hið innra og hið ytra, eins og ég skrifaði einmitt um í pistli á hlaup.is.

Á Vestmannaeyjahringnum í vor – á leið upp Stórhöfða. (Ljósm. Hlaup.is).

Í stuttu máli gekk undirbúningurinn fyrir Laugavegshlaupið vel og áfallalaust. Framan af undirbúningstímabilinu fannst mér ólíklegt að ég gæti hlaupið Laugaveginn undir 6:30 klst., en svo lækkaði sú tala jafnt og þétt – fyrst niður fyrir 6:20, svo í 6:15 og loks í 6:01:11 eins og ég nefndi í inngangi þessa pistils. Sú tala var byggð á tölulegum samanburði við sumarið 2017 þegar ég hljóp Laugaveginn á 5:55:56 klst. Kannski er samt ofmælt í innganginum að þeir útreikningar hafi verið „hávísindalegir“.

Ferðalagið með Flandra
Strax á síðasta hausti varð ljóst að stór hópur hlaupafélaga minna í Hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi stefndi á Laugaveginn sumarið 2019 – og skömmu eftir að opnað var fyrir skráningu í hlaupið í janúar voru 17 nöfn komin á blað. Þetta gerði undirbúninginn mun skemmtilegri en ella, því að þarna var allt í einu orðinn til hópur sem allur stefndi að sama marki þó að væntingar um lokatíma væru eðlilega misjafnar. Af þessum 17 höfðu aðeins sex hlaupið Laugaveginn áður og það jók eftirvæntinguna í hópnum enn frekar. Það er eitthvað alveg sérstakt við að takast á við þessa áskorun í fyrsta skipti og bara það eitt að fylgjast með þessu ferli bætir gleði við lífið hjá manni eins og mér sem er hættur að vera byrjandi.

Því miður þurfti einn af sautján að hætta við þátttöku í Laugaveginum vegna meiðsla, en inn í hópinn komu aðrir þrír sem höfðu einhver tengsl við Flandra. Þessir 19 hlauparar lögu af stað saman á tveimur fjallabílum úr Borgarnesi kl 3:30 að morgni hlaupadagsins og héldu hópinn til kvölds. Og öll skiluðu þau sér í mark! Þetta ferðalag á eftir að lifa lengi í minni margra.

Morgunn í Landmannalaugum
Ég og allir hinir í Flandrahópnum vorum komin í Landmannalaugar um það bil einum og hálfum tíma fyrir hlaup. Einn af kostum þess fyrir svona hóp að vera á eigin vegum er að geta stjórnað tímanum sínum og verið komin á undan fjöldanum á staðinn. Þannig gefst góður tími fyrir síðustu skrefin í undirbúningi hlaupsins, þar með taldar klósettferðir og ákvarðanir um hlaupaföt og annan búnað. Dæmigerð umræðuefni á svona stundum er hvort maður eigi að vera í stuttbuxum eða ekki, í stuttermabol eða ekki og taka með sér regnföt eða ekki. Þennan morgun var hægur vindur og milt veður og ekki miklar líkur á úrkomu yfir daginn. Í mínum huga kallaði þetta á stuttbuxur og stuttermabol. Ég vil helst vera sem allra léttklæddastur á hlaupum og hafa sem minnstan farangur.

Allur Flandrahópurinn saman kominn í Landmannalaugum með Hauki bílstjóra. (Ljósm. Hulda Waage).

Síðustu skrefin í undirbúningi hlaups snúast ekki bara um klósettferðir og ákvarðanir um hlaupaföt, heldur einnig og ekki síður um að stilla hugann og njóta vitneskjunnar um að nú sé allt orðið eins tilbúið og það getur verið. Á svona stundum líður mér eins og fyrir prófin í Menntaskólanum í Hamrahlíð í gamla daga. Maður breytir ekki því sem maður getur ekki breytt. Og það er bara allt í lagi.

Áætlun dagsins
Ég skipti Laugaveginum alltaf í áfanga og geri áætlun um millitíma á helstu viðkomustöðum. Í þetta sinn miðaði ég auðvitað við vísindalega lokatímann 6:01:11 klst. og hafði eldri millitíma til hliðsjónar við útreikning á áfangaskiptingunni. Áætlun dagsins var í stuttu máli svona:

(Já, ég veit alveg að þetta er smátt. En myndin stækkar ef smellt er á hana).

Landmannalaugar-Hrafntinnusker
Laugavegshlaupararnir voru ræstir í fjórum ráshópum eftir því hvaða líklega lokatíma þeir höfðu gefið upp. Ég var að vanda í 1. ráshópi og þar voru líka sex aðrir úr hópnum mínum, þ.e.a.s. Almar, Birkir, Bjarni, Gunnar, Jósep og Kiddó. Fjóra þeirra sá ég ekki aftur fyrr en í endamarkinu, en við Bjarni fylgdumst hins vegar að frá upphafi og Almar var líka alltaf nálægur.

Á leið upp Brennisteinsöldu. (Ljósm. Hlaup.is).

Leiðin upp í Hrafntinnusker var óvenju snjólétt og líklega var ferðalagið ívið léttara fyrir bragðið. Mér leið reyndar ekki vel í fyrstu og nennti þessu eiginlega ekki, sem er sjaldgæf tilfinning í hlaupatilverunni minni. En það leið hjá og ég reyndi að fara mátulega hratt til að mér liði bærilega. Á svona leið hefur maður þó engin eiginleg viðmið fyrr en fyrsta áfangastaðnum er náð.

Þegar Hrafntinnusker nálgaðist sýndist mér tíminn lofa góðu og sú varð líka raunin. Þangað náði ég á 1:10:53 klst. sem var bara 13 sek. frá mínum besta tíma og rúmum 4 mín. betra en ég hafði áætlað. Reyndar var þetta líka miklu betri tími en 2015 þegar ég hljóp mitt besta Laugavegshlaup til þessa. Mér leið eins og 6 klst. markið ætti að vera viðráðanlegt, en vissi svo sem vel að of snemmt væri að draga stórar ályktanir.

Við Bjarni mættir í Hrafntinnusker fyrr en vænta mátti. (Ljósm. Sigurbjörg Hulda Guðjónsdóttir).

Hrafntinnusker-Álftavatn
Mér leið ekki alls kostar vel í fótunum þegar ég lagði af stað frá Hrafntinnuskeri og líðanin var kaflaskipt á ferðalaginu fram á brún Kaldaklofsfjalla. Ferðin niður Jökultungur gekk þokkalega, enda tel ég mig vera býsna sterkan á undanhaldinu. Samt var eins og ökklar og sköflungar væru örlítið feimnir við höggin og ég hlakkaði til að komast niður á jafnsléttu. Við Álftavatn sýndi klukkan 2:20:05 klst. sem var næstum 6 mín. betra en ég hafði áætlað og ekki nema 55 sek. frá mínum besta tíma. Þetta gekk sem sagt virkilega vel þegar á heildina var litið, Bjarni og Almar voru enn á svipuðu róli og ég og veðrið var nógu gott til að ég vissi að stuttbuxurnar og stuttermabolurinn voru góð hugmynd.

Álftavatn-Bláfjallakvísl
Þessi áfangi er ekki langur og þarna breyttist svo sem ekki neitt. Bjarni og Almar fylgdu mér fast eftir, sem mér fannst reyndar mjög þægilegt. En fæturnir voru áfram þreyttir. Tíminn við Bláfjallakvísl var 2:54:49 klst. og ég var enn með rúmlega 5 mín. forskot á áætlunina. Framundan voru sandarnir sem ég hafði einna helst kviðið fyrir að fást við, minnugur erfiðs barnings í mótvindi þar fyrir tveimur árum.

Bláfjallakvísl-Emstrur
Mér leið bara nokkuð vel á söndunum og fannst að ég hlyti að komast þá á skemmri tíma en síðast. Að vísu var vindurinn í fangið rétt eins og þá, en mér fannst það einhvern veginn ekki til trafala. Hitinn var farinn að hækka og yfirleitt kann ég því vel. En meiri hita fylgir meiri sviti og um leið meiri þörf fyrir vatn og steinefni. Ég þóttist svo sem vera með nóg af vatni meðferðis en hafði hins vegar ákveðið að steinefnatöflur væru óþarfar. Kannski var það rétt, kannski ekki. Þarna var ég aðeins byrjaður að finna fyrir krömpum neðarlega í kálfunum en krampar geta átt sér ýmsar orsakir.

Sunnarlega á söndum tók ég eftir að Bjarni var farinn að dragast aftur úr og Almar hafði ég ekki séð síðan við Bláfjallakvísl. Mér fannst þetta miður, en í svona hlaupum er einmanaleikinn samt bara hluti af áskoruninni.

Vegalengdin frá Bláfjallakvísl að Emstrum er u.þ.b. 10,7 km og að fenginni reynslu vil ég geta hlaupið þennan hluta Laugavegarins á 1 klst. eða þar um bil. Það hefði þýtt að ég næði í Emstrur á 3:55 klst. en ég var ákveðinn í að allt undir 4:00 klst. skyldi flokkast sem sigur. Á síðustu kílómetrunum fannst mér reyndar að ég væri orðinn óþarflega viðkvæmur neðst í fótleggjunum og ég gat ekki notið þess eins og stundum áður að spretta úr spori niður síðustu brekkurnar. Tíminn í Emstrum var 4:01:40 klst., þ.e. nánast sami tími og 2017. Þarna var ég enn 6 mín. á undan áætlun þrátt fyrir að spottinn frá Bláfjallakvísl hefði tekið vel yfir klukkutíma. Enn voru sem sagt góðar líkur á að ég næði að ljúka hlaupinu undir 6 klst. og jafnvel á ívið betri tíma en síðast.

Emstrur-Þröngá
Strax eftir að ég yfirgaf skálann í Emstrum og allt það góða fólk sem tók á móti mér þar, fann ég að síðasti áfanginn yrði erfiður. Fæturnir voru orðnir allt of stirðir og mér leið eins og leggirnir væru brothættir. Mér sóttist ferðin seint í hrjóstrinu og vissi að mínúturnar yrðu fljótar að étast upp. Hlauparar sem höfðu verið á eftir mér lengi náðu mér einn af öðrum. Almar var þar á meðal og ég sá Bjarna nálgast þegar ég leit um öxl. Það voru góðar fréttir en um leið vísbending um að ég væri farinn að gefa eftir.

Eftir u.þ.b. 44 km náði Elísabet Margeirsdóttir mér, heilsaði glaðlega og hvarf svo á braut. Ég gat ekki annað en undrast að einhver gæti verið svona fersk seint í hlaupinu og á þessum tímapunkti vissi ég samt ekki að hún hafði hitað upp með því að hlaupa Laugaveginn í hina áttina um nóttina og var þar af leiðandi búin með einhverja 90 km frá miðnætti. Svona samanburður kann að vera ögn niðurdrepandi en fyrir mér var hann hvatning og áminning um að næstum allt væri mögulegt. En ég var samt orðinn mjög þreyttur og í þokkabót var vatnið mitt allt í einu búið, enn um 4 km í drykkjarstöðina við Ljósá og lítið um álitleg vatnsföll. Hitastigið var þar að auki líklega komið upp fyrir hagkvæmnismörk, án þess að ég viti neinar tölur í því sambandi. En áhyggjur af ofþornun hjálpa manni ekki neitt. Trúin á eigin getu gerir það hins vegar. Nú var bara um að gera að líta nógu sjaldan á úrið til að sjá ekki hvað kílómetrateljarinn var farinn að ganga hægt – og vona að drykkjarstöðin við Ljósá birtist sem fyrst.

Drykkjarstöðin við Ljósá lét bíða eftir sér, en við ána eru búnir rúmir 48 km að hlaupinu. Þarna var ég kominn á söguslóðir, því að þarna datt ég á andlitið í hlaupinu 2017 og braut á mér öxlina í leiðinni. Ég gat alla vega glaðst yfir því að það endurtók sig ekki. Og svo gladdist ég líka yfir því að fá vatn á brúsann minn, þó að ég vissi að það breytti svo sem ekki öllu úr því sem komið var. Hvorki eymslin í fótunum né krampatilfinningin myndu skolast út með vatni.

Við Almar lögðum saman af stað frá Ljósá áleiðis upp Kápuna og okkur kom saman um að markmið okkar beggja um að hlaupa Laugaveginn undir 6 klst. væri fyrir bí. Kápan var með erfiðasta móti en léttist um allan helming þegar ég hljóp fram hjá fjórum ungum stúlkum sem kölluðu til mín þakkir fyrir minn hlut í sjónvarpsþáttunum „Hvað höfum við gert?“. Hvatningarorð hafa ótrúlega mikið að segja. Í þessu hlaupi voru þau mörg, að ógleymdum faðmlögum góðra vina á drykkjarstöðvunum. Hlýjan er á við mörg orkugel.

Það var gott að koma niður að Þröngá og vita að nú gætu ekki verið meira en 20 mín. eftir að hlaupinu. Klukkan sýndi 5:46:46 klst. sem þýddi að ég var orðinn næstum 3 mín. á eftir áætlun og myndi í besta falli klára hlaupið á 6:05 klst. eða þar um bil. En ég ákvað að vera ánægður með það. Það er alltaf afrek að hlaupa Laugaveginn, hvort sem það tekur nokkrum mínútum lengri eða skemmri tíma.

Þröngá-Húsadalur
Um þetta leyti voru fæturnir nánast alveg búnir að afþakka frekari hlaup en samt fannst mér skárra að láta þá líkja eftir hlaupahreyfingu en að skipta yfir á göngu. Enn héldu hlauparar áfram að streyma fram úr mér og meðal þeirra sem birtust var Sonja Sif og henni fylgja alltaf góðir straumar. Hápunkturinn dagsins var svo þegar ég kom auga á dætur mína uppi á einni hæðinni, en þær höfðu gert sér ferð í Þórsmörk til að taka á móti mér og upplifa hluta af stemmingu dagsins. Síðustu metrarnir voru léttir og ég kom í mark á 6:05:48 klst., verulega þreyttur en ágætlega sáttur þó að markmið dagsins hefðu ekki náðst. Á marksvæðinu komst ég reyndar að því að það sama gilti um flesta sem ég þekkti í þessu hlaupi. Kannski var veðrið óþarflega hlýtt og kannski var mótvindurinn drýgri en mér fannst sjálfum á söndunum.

Kominn í mark, þreyttur og glaður. (Ljósm. Hlaup.is).

Lærdómurinn
Hér ætlaði ég upphaflega að nota fyrirsögnina „Hvað fór úrskeiðis?“ en svo áttaði ég mig á því að það væri vanþakklæti. Vissulega gekk þetta ekki alveg eins og ég ætlaði en frávikið var innan skekkjumarka. Hins vegar ætti ég sem best að geta lært eitthvað af þessu ferðalagi, rétt eins og af öðrum ferðalögum.

Eftir á að hyggja held ég að þrennt hefði mátt betur fara, öðru fremur.

  1. Ég borðaði lélegan hádegismat daginn fyrir hlaup. Lét eril dagsins hafa of mikinn forgang og gleymdi að hafa þetta grundvallaratriði í lagi. Matarlystin í kvöldmatartímanum var líka í minna lagi, líklega vegna álags sem hafði einkennt dagana á undan, allsendis ótengt hlaupum. Sama gilti um síðustu klukkutímana fyrir hlaup. Ég tók með mér nesti til að borða í bílnum en gerði því ekki sérlega góð skil.
  2. Líklega drakk ég ekki nógu mikið á leiðinni. Í hlaupinu var ég með nýtt hlaupavesti/bakpoka með mjúkum drykkjarflöskum „skvísum“ sem hafa þann galla að maður fylgist ekki vel með hversu mikið er búið að drekka og hversu mikið er eftir. Ég miðaði þó lauslega við u.þ.b. 300 ml. af vatni fyrir hverja 10 km, af því að sú viðmiðun hefur dugað mér vel í maraþonhlaupum. En í utanvegahlaupum tekur hver km lengri tíma en í götuhlaupum og þess vegna duga ekki sömu reiknireglur. Þetta átti ég svo sem að vita. Auk þess var óvenju heitt í veðri og þó að ég væri sem betur fer léttklæddur eykst vökvaþörfin með hækkandi hitastigi.
  3. Kannski hefði ég átt að taka steinefnatöflur. Eins og ég hef áður sagt geta krampar átt sér ýmsar skýringar og steinefnaskortur er ein þeirra. Steinefnaþörfin eykst með auknum svita. Reyndar held ég að kramparnir mínir hafi frekar verið eftirköst eftir meiðslavandræði síðasta árs en um það get ég ekkert fullyrt.

Kannski vóg þó fjórða atriðið þyngst: Ég hefði líklega átt að taka fleiri styrktaræfingar og hraðaæfingar síðustu mánuði til að byggja upp meiri styrk frá mjóbaki og niðurúr. Æfingatímabilið einkenndist mjög af löngum utanvegahlaupum á litlu álagi. Svolítið meiri ákefð á svolítið harðara undirlagi hefði líklega verið til bóta. En það er reyndar hægara sagt en gert að endurnýja styrk í vanræktum vöðvum, sérstaklega þegar maður er bæði hættur að vera kornungur og miðaldra.

Með sigurlaunin í flokki 60-69 ára með Jóni Grímssyni (t.v., 3. sæti) og Halldóri Brynjarssyni (t.h., 2. sæti). (Ljósm. Jóhanna Stefáns Bjarkardóttir).

Meginniðurstaða
Ég náði ekki markmiðum mínum á Laugaveginum þetta árið, en engu að síður væri óskaplegt vanþakklæti að vera ekki ánægður með árangurinn. Mér verður reyndar orða vant þegar ég hugsa um hversu heppinn ég er að hafa náð að vinna mig út úr meiðslum síðasta árs og komast aftur af stað í hlaupin. Það var engan veginn sjálfsagt. Hlaupin skipta mig meira máli en flest annað og í hlaupaheiminum búa flestir af mínum bestu vinum. Þessi tengsl eru aldrei nánari en þegar tekist er á við krefjandi verkefni í sameiningu. Laugavegurinn er ofarlega á listanum yfir svoleiðis verkefni.

Með besta stuðningsliðinu að hlaupi loknu. (Ljósm. Gunnar Viðar Gunnarsson).

PS: Frásagnir mínar af fyrri Laugavegshlaupum má finna hér að neðan: