• Heimsóknir

  • 118.534 hits
 • febrúar 2023
  S M F V F F S
   1234
  567891011
  12131415161718
  19202122232425
  262728  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Sumarylur á Laugaveginum

Síðastliðinn laugardag hljóp ég Laugaveginn í 5. sinn. Markmið dagsins var að komast þessa 53 km á skemmri tíma en 6 klst. en út frá árangri í keppnishlaupum fyrr um sumarið hafði ég reiknað út með hávísindalegum aðferðum að líklegur lokatími væri 6:01:11 klst. Framan af benti allt til að þessi markmið næðust – og vel það, en þegar á leið urðu sporin þyngri og þá varð smám saman ljóst að ég yrði að sætta mig við ögn lakari tíma. Endanleg niðurstaða varð 6:05:48 klst. og ég er kampakátur með þann árangur, sérstaklega eftir að hafa misst allt síðasta ár úr vegna langvinnra meiðsla. Fimm mínútur til eða frá er nánast ekki neitt þegar Laugavegurinn á í hlut. Þar getur allt gerst.

Undirbúningurinn
Undirbúningurinn fyrir Laugavegshlaupið hófst í raun í lok október á síðasta ári þegar ég gat loksins byrjað að skokka stuttar vegalengdir eftir 9 mánaða hlé. Fyrst var þetta allt mjög stutt og hægt, en smám saman lengdust æfingarnar og hraðinn þokaðist upp. Í janúar voru lengstu vikurnar komnar í 40 km, í febrúar var lengsta vikan hátt í 60 km og í mars fóru tvær vikur yfir 70 km. Apríl og maí urðu einhvern veginn ögn hógværari, án þess þó að fyrir því væri einhver sérstök ástæða. Júní varð hins vegar, nánast óvart, langlengsti hlaupamánuðurinn minn frá upphafi en þá lagði ég samtals 433 km að baki og fór tvisvar vel yfir 100 km á viku. Fyrra „mánaðarmetið“ var 324 km frá því í mars 2013 þegar ég var að æfa fyrir Parísarmaraþonið. Þá var ég reyndar í miklu betra formi en núna, enda segir kílómetrafjöldinn ekki allt um stöðu mála. Kílómetrafjöldinn í júní segir þó alla vega að ég var farinn að þola hnjaskið býsna vel. Í júní hljóp ég t.d. Skarðsheiðarveginn fram og til baka tvisvar sinnum – u.þ.b. 40 km í hvort skipti með 1.000-1.200 m hækkun, einn tvöfaldan Háfslækjarhring sem var líka tæpir 40 km, Þrístrending upp á rúma 40 km og Hamingjuhlaupið á Ströndum upp á rúma 50 km. Ég var ágætlega þreyttur eftir öll þessi hlaup en ekkert þeirra hafði nein teljandi eftirköst. Auk þess lagði ég stundum leið mína á Hafnarfjallið og náði einu sinni tvöfaldri ferð. Hefði líklega mátt gera meira af því, eftir á að hyggja.

Á Hafnarfjallinu 27. apríl 2019.

Löngu hlaupin í júní voru öll hæg og almennt var lítið um hraða- og styrktaræfingar á undirbúningstímabilinu. Þar hefði mátt gera betur, ekki bara til að komast í betra stand fyrir Laugaveginn heldur einnig og ekki síður til að minnka líkur á meiðslum. Einu eiginlegu hraðaæfingarnar voru í raun nokkur keppnishlaup sem ég tók þátt í á tímabilinu apríl-júní. Þau gengu öll nokkurn veginn í samræmi við væntingar, nema hvað ég þurfti að hætta í Mývatnsmaraþoninu seint í maí vegna eymsla í hægri ökkla og sköflungi.

Fyrir mér hafa keppnishlaupin a.m.k. fjórþættan tilgang. Í fyrsta lagi eru þessi hlaup bestu hraðaæfingar sem völ er á. Í öðru lagi er þau mælikvarði á getuna. Í þriðja lagi gefa þau mér tækifæri til að hitta góða hlaupavini sem lýsa upp tilveruna. Og í fjórða lagi gefa þau mér aukið sjálfstraust til að takast á við næstu verkefni. Í sumum þessara hlaupa verða einhvers konar kaflaskil, rétt eins og dyr opnist inn í nýja sali með nýjum tækifærum.

Fyrir Laugaveginn var ég búinn með 8 keppnishlaup frá því að ég komst aftur af stað á liðnum vetri. Í þremur þeirra fannst mér eins og nýjar dyr opnuðust. Fyrsta hlaupið var 20 mílna utanvegahlaup í Kielder í Bretlandi í byrjun apríl. Þá fann ég að ég gat þetta alveg, þó að skrokkurinn væri greinilega ekki kominn í það stand sem ég vil hafa hann í. Seinna í sama mánuði hljóp ég 5 km í Víðavangshlaupi ÍR alveg vandræðalaust á sæmilegum tíma. Og í byrjun maí fannst mér ég finna „fjölina mína“ í fyrsta sinn eftir meiðslin. Þá hljóp ég Heimaeyjarhringinn í Vestmannaeyjum og þar small einhvern veginn allt saman, bæði hið innra og hið ytra, eins og ég skrifaði einmitt um í pistli á hlaup.is.

Á Vestmannaeyjahringnum í vor – á leið upp Stórhöfða. (Ljósm. Hlaup.is).

Í stuttu máli gekk undirbúningurinn fyrir Laugavegshlaupið vel og áfallalaust. Framan af undirbúningstímabilinu fannst mér ólíklegt að ég gæti hlaupið Laugaveginn undir 6:30 klst., en svo lækkaði sú tala jafnt og þétt – fyrst niður fyrir 6:20, svo í 6:15 og loks í 6:01:11 eins og ég nefndi í inngangi þessa pistils. Sú tala var byggð á tölulegum samanburði við sumarið 2017 þegar ég hljóp Laugaveginn á 5:55:56 klst. Kannski er samt ofmælt í innganginum að þeir útreikningar hafi verið „hávísindalegir“.

Ferðalagið með Flandra
Strax á síðasta hausti varð ljóst að stór hópur hlaupafélaga minna í Hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi stefndi á Laugaveginn sumarið 2019 – og skömmu eftir að opnað var fyrir skráningu í hlaupið í janúar voru 17 nöfn komin á blað. Þetta gerði undirbúninginn mun skemmtilegri en ella, því að þarna var allt í einu orðinn til hópur sem allur stefndi að sama marki þó að væntingar um lokatíma væru eðlilega misjafnar. Af þessum 17 höfðu aðeins sex hlaupið Laugaveginn áður og það jók eftirvæntinguna í hópnum enn frekar. Það er eitthvað alveg sérstakt við að takast á við þessa áskorun í fyrsta skipti og bara það eitt að fylgjast með þessu ferli bætir gleði við lífið hjá manni eins og mér sem er hættur að vera byrjandi.

Því miður þurfti einn af sautján að hætta við þátttöku í Laugaveginum vegna meiðsla, en inn í hópinn komu aðrir þrír sem höfðu einhver tengsl við Flandra. Þessir 19 hlauparar lögu af stað saman á tveimur fjallabílum úr Borgarnesi kl 3:30 að morgni hlaupadagsins og héldu hópinn til kvölds. Og öll skiluðu þau sér í mark! Þetta ferðalag á eftir að lifa lengi í minni margra.

Morgunn í Landmannalaugum
Ég og allir hinir í Flandrahópnum vorum komin í Landmannalaugar um það bil einum og hálfum tíma fyrir hlaup. Einn af kostum þess fyrir svona hóp að vera á eigin vegum er að geta stjórnað tímanum sínum og verið komin á undan fjöldanum á staðinn. Þannig gefst góður tími fyrir síðustu skrefin í undirbúningi hlaupsins, þar með taldar klósettferðir og ákvarðanir um hlaupaföt og annan búnað. Dæmigerð umræðuefni á svona stundum er hvort maður eigi að vera í stuttbuxum eða ekki, í stuttermabol eða ekki og taka með sér regnföt eða ekki. Þennan morgun var hægur vindur og milt veður og ekki miklar líkur á úrkomu yfir daginn. Í mínum huga kallaði þetta á stuttbuxur og stuttermabol. Ég vil helst vera sem allra léttklæddastur á hlaupum og hafa sem minnstan farangur.

Allur Flandrahópurinn saman kominn í Landmannalaugum með Hauki bílstjóra. (Ljósm. Hulda Waage).

Síðustu skrefin í undirbúningi hlaups snúast ekki bara um klósettferðir og ákvarðanir um hlaupaföt, heldur einnig og ekki síður um að stilla hugann og njóta vitneskjunnar um að nú sé allt orðið eins tilbúið og það getur verið. Á svona stundum líður mér eins og fyrir prófin í Menntaskólanum í Hamrahlíð í gamla daga. Maður breytir ekki því sem maður getur ekki breytt. Og það er bara allt í lagi.

Áætlun dagsins
Ég skipti Laugaveginum alltaf í áfanga og geri áætlun um millitíma á helstu viðkomustöðum. Í þetta sinn miðaði ég auðvitað við vísindalega lokatímann 6:01:11 klst. og hafði eldri millitíma til hliðsjónar við útreikning á áfangaskiptingunni. Áætlun dagsins var í stuttu máli svona:

(Já, ég veit alveg að þetta er smátt. En myndin stækkar ef smellt er á hana).

Landmannalaugar-Hrafntinnusker
Laugavegshlaupararnir voru ræstir í fjórum ráshópum eftir því hvaða líklega lokatíma þeir höfðu gefið upp. Ég var að vanda í 1. ráshópi og þar voru líka sex aðrir úr hópnum mínum, þ.e.a.s. Almar, Birkir, Bjarni, Gunnar, Jósep og Kiddó. Fjóra þeirra sá ég ekki aftur fyrr en í endamarkinu, en við Bjarni fylgdumst hins vegar að frá upphafi og Almar var líka alltaf nálægur.

Á leið upp Brennisteinsöldu. (Ljósm. Hlaup.is).

Leiðin upp í Hrafntinnusker var óvenju snjólétt og líklega var ferðalagið ívið léttara fyrir bragðið. Mér leið reyndar ekki vel í fyrstu og nennti þessu eiginlega ekki, sem er sjaldgæf tilfinning í hlaupatilverunni minni. En það leið hjá og ég reyndi að fara mátulega hratt til að mér liði bærilega. Á svona leið hefur maður þó engin eiginleg viðmið fyrr en fyrsta áfangastaðnum er náð.

Þegar Hrafntinnusker nálgaðist sýndist mér tíminn lofa góðu og sú varð líka raunin. Þangað náði ég á 1:10:53 klst. sem var bara 13 sek. frá mínum besta tíma og rúmum 4 mín. betra en ég hafði áætlað. Reyndar var þetta líka miklu betri tími en 2015 þegar ég hljóp mitt besta Laugavegshlaup til þessa. Mér leið eins og 6 klst. markið ætti að vera viðráðanlegt, en vissi svo sem vel að of snemmt væri að draga stórar ályktanir.

Við Bjarni mættir í Hrafntinnusker fyrr en vænta mátti. (Ljósm. Sigurbjörg Hulda Guðjónsdóttir).

Hrafntinnusker-Álftavatn
Mér leið ekki alls kostar vel í fótunum þegar ég lagði af stað frá Hrafntinnuskeri og líðanin var kaflaskipt á ferðalaginu fram á brún Kaldaklofsfjalla. Ferðin niður Jökultungur gekk þokkalega, enda tel ég mig vera býsna sterkan á undanhaldinu. Samt var eins og ökklar og sköflungar væru örlítið feimnir við höggin og ég hlakkaði til að komast niður á jafnsléttu. Við Álftavatn sýndi klukkan 2:20:05 klst. sem var næstum 6 mín. betra en ég hafði áætlað og ekki nema 55 sek. frá mínum besta tíma. Þetta gekk sem sagt virkilega vel þegar á heildina var litið, Bjarni og Almar voru enn á svipuðu róli og ég og veðrið var nógu gott til að ég vissi að stuttbuxurnar og stuttermabolurinn voru góð hugmynd.

Álftavatn-Bláfjallakvísl
Þessi áfangi er ekki langur og þarna breyttist svo sem ekki neitt. Bjarni og Almar fylgdu mér fast eftir, sem mér fannst reyndar mjög þægilegt. En fæturnir voru áfram þreyttir. Tíminn við Bláfjallakvísl var 2:54:49 klst. og ég var enn með rúmlega 5 mín. forskot á áætlunina. Framundan voru sandarnir sem ég hafði einna helst kviðið fyrir að fást við, minnugur erfiðs barnings í mótvindi þar fyrir tveimur árum.

Bláfjallakvísl-Emstrur
Mér leið bara nokkuð vel á söndunum og fannst að ég hlyti að komast þá á skemmri tíma en síðast. Að vísu var vindurinn í fangið rétt eins og þá, en mér fannst það einhvern veginn ekki til trafala. Hitinn var farinn að hækka og yfirleitt kann ég því vel. En meiri hita fylgir meiri sviti og um leið meiri þörf fyrir vatn og steinefni. Ég þóttist svo sem vera með nóg af vatni meðferðis en hafði hins vegar ákveðið að steinefnatöflur væru óþarfar. Kannski var það rétt, kannski ekki. Þarna var ég aðeins byrjaður að finna fyrir krömpum neðarlega í kálfunum en krampar geta átt sér ýmsar orsakir.

Sunnarlega á söndum tók ég eftir að Bjarni var farinn að dragast aftur úr og Almar hafði ég ekki séð síðan við Bláfjallakvísl. Mér fannst þetta miður, en í svona hlaupum er einmanaleikinn samt bara hluti af áskoruninni.

Vegalengdin frá Bláfjallakvísl að Emstrum er u.þ.b. 10,7 km og að fenginni reynslu vil ég geta hlaupið þennan hluta Laugavegarins á 1 klst. eða þar um bil. Það hefði þýtt að ég næði í Emstrur á 3:55 klst. en ég var ákveðinn í að allt undir 4:00 klst. skyldi flokkast sem sigur. Á síðustu kílómetrunum fannst mér reyndar að ég væri orðinn óþarflega viðkvæmur neðst í fótleggjunum og ég gat ekki notið þess eins og stundum áður að spretta úr spori niður síðustu brekkurnar. Tíminn í Emstrum var 4:01:40 klst., þ.e. nánast sami tími og 2017. Þarna var ég enn 6 mín. á undan áætlun þrátt fyrir að spottinn frá Bláfjallakvísl hefði tekið vel yfir klukkutíma. Enn voru sem sagt góðar líkur á að ég næði að ljúka hlaupinu undir 6 klst. og jafnvel á ívið betri tíma en síðast.

Emstrur-Þröngá
Strax eftir að ég yfirgaf skálann í Emstrum og allt það góða fólk sem tók á móti mér þar, fann ég að síðasti áfanginn yrði erfiður. Fæturnir voru orðnir allt of stirðir og mér leið eins og leggirnir væru brothættir. Mér sóttist ferðin seint í hrjóstrinu og vissi að mínúturnar yrðu fljótar að étast upp. Hlauparar sem höfðu verið á eftir mér lengi náðu mér einn af öðrum. Almar var þar á meðal og ég sá Bjarna nálgast þegar ég leit um öxl. Það voru góðar fréttir en um leið vísbending um að ég væri farinn að gefa eftir.

Eftir u.þ.b. 44 km náði Elísabet Margeirsdóttir mér, heilsaði glaðlega og hvarf svo á braut. Ég gat ekki annað en undrast að einhver gæti verið svona fersk seint í hlaupinu og á þessum tímapunkti vissi ég samt ekki að hún hafði hitað upp með því að hlaupa Laugaveginn í hina áttina um nóttina og var þar af leiðandi búin með einhverja 90 km frá miðnætti. Svona samanburður kann að vera ögn niðurdrepandi en fyrir mér var hann hvatning og áminning um að næstum allt væri mögulegt. En ég var samt orðinn mjög þreyttur og í þokkabót var vatnið mitt allt í einu búið, enn um 4 km í drykkjarstöðina við Ljósá og lítið um álitleg vatnsföll. Hitastigið var þar að auki líklega komið upp fyrir hagkvæmnismörk, án þess að ég viti neinar tölur í því sambandi. En áhyggjur af ofþornun hjálpa manni ekki neitt. Trúin á eigin getu gerir það hins vegar. Nú var bara um að gera að líta nógu sjaldan á úrið til að sjá ekki hvað kílómetrateljarinn var farinn að ganga hægt – og vona að drykkjarstöðin við Ljósá birtist sem fyrst.

Drykkjarstöðin við Ljósá lét bíða eftir sér, en við ána eru búnir rúmir 48 km að hlaupinu. Þarna var ég kominn á söguslóðir, því að þarna datt ég á andlitið í hlaupinu 2017 og braut á mér öxlina í leiðinni. Ég gat alla vega glaðst yfir því að það endurtók sig ekki. Og svo gladdist ég líka yfir því að fá vatn á brúsann minn, þó að ég vissi að það breytti svo sem ekki öllu úr því sem komið var. Hvorki eymslin í fótunum né krampatilfinningin myndu skolast út með vatni.

Við Almar lögðum saman af stað frá Ljósá áleiðis upp Kápuna og okkur kom saman um að markmið okkar beggja um að hlaupa Laugaveginn undir 6 klst. væri fyrir bí. Kápan var með erfiðasta móti en léttist um allan helming þegar ég hljóp fram hjá fjórum ungum stúlkum sem kölluðu til mín þakkir fyrir minn hlut í sjónvarpsþáttunum „Hvað höfum við gert?“. Hvatningarorð hafa ótrúlega mikið að segja. Í þessu hlaupi voru þau mörg, að ógleymdum faðmlögum góðra vina á drykkjarstöðvunum. Hlýjan er á við mörg orkugel.

Það var gott að koma niður að Þröngá og vita að nú gætu ekki verið meira en 20 mín. eftir að hlaupinu. Klukkan sýndi 5:46:46 klst. sem þýddi að ég var orðinn næstum 3 mín. á eftir áætlun og myndi í besta falli klára hlaupið á 6:05 klst. eða þar um bil. En ég ákvað að vera ánægður með það. Það er alltaf afrek að hlaupa Laugaveginn, hvort sem það tekur nokkrum mínútum lengri eða skemmri tíma.

Þröngá-Húsadalur
Um þetta leyti voru fæturnir nánast alveg búnir að afþakka frekari hlaup en samt fannst mér skárra að láta þá líkja eftir hlaupahreyfingu en að skipta yfir á göngu. Enn héldu hlauparar áfram að streyma fram úr mér og meðal þeirra sem birtust var Sonja Sif og henni fylgja alltaf góðir straumar. Hápunkturinn dagsins var svo þegar ég kom auga á dætur mína uppi á einni hæðinni, en þær höfðu gert sér ferð í Þórsmörk til að taka á móti mér og upplifa hluta af stemmingu dagsins. Síðustu metrarnir voru léttir og ég kom í mark á 6:05:48 klst., verulega þreyttur en ágætlega sáttur þó að markmið dagsins hefðu ekki náðst. Á marksvæðinu komst ég reyndar að því að það sama gilti um flesta sem ég þekkti í þessu hlaupi. Kannski var veðrið óþarflega hlýtt og kannski var mótvindurinn drýgri en mér fannst sjálfum á söndunum.

Kominn í mark, þreyttur og glaður. (Ljósm. Hlaup.is).

Lærdómurinn
Hér ætlaði ég upphaflega að nota fyrirsögnina „Hvað fór úrskeiðis?“ en svo áttaði ég mig á því að það væri vanþakklæti. Vissulega gekk þetta ekki alveg eins og ég ætlaði en frávikið var innan skekkjumarka. Hins vegar ætti ég sem best að geta lært eitthvað af þessu ferðalagi, rétt eins og af öðrum ferðalögum.

Eftir á að hyggja held ég að þrennt hefði mátt betur fara, öðru fremur.

 1. Ég borðaði lélegan hádegismat daginn fyrir hlaup. Lét eril dagsins hafa of mikinn forgang og gleymdi að hafa þetta grundvallaratriði í lagi. Matarlystin í kvöldmatartímanum var líka í minna lagi, líklega vegna álags sem hafði einkennt dagana á undan, allsendis ótengt hlaupum. Sama gilti um síðustu klukkutímana fyrir hlaup. Ég tók með mér nesti til að borða í bílnum en gerði því ekki sérlega góð skil.
 2. Líklega drakk ég ekki nógu mikið á leiðinni. Í hlaupinu var ég með nýtt hlaupavesti/bakpoka með mjúkum drykkjarflöskum „skvísum“ sem hafa þann galla að maður fylgist ekki vel með hversu mikið er búið að drekka og hversu mikið er eftir. Ég miðaði þó lauslega við u.þ.b. 300 ml. af vatni fyrir hverja 10 km, af því að sú viðmiðun hefur dugað mér vel í maraþonhlaupum. En í utanvegahlaupum tekur hver km lengri tíma en í götuhlaupum og þess vegna duga ekki sömu reiknireglur. Þetta átti ég svo sem að vita. Auk þess var óvenju heitt í veðri og þó að ég væri sem betur fer léttklæddur eykst vökvaþörfin með hækkandi hitastigi.
 3. Kannski hefði ég átt að taka steinefnatöflur. Eins og ég hef áður sagt geta krampar átt sér ýmsar skýringar og steinefnaskortur er ein þeirra. Steinefnaþörfin eykst með auknum svita. Reyndar held ég að kramparnir mínir hafi frekar verið eftirköst eftir meiðslavandræði síðasta árs en um það get ég ekkert fullyrt.

Kannski vóg þó fjórða atriðið þyngst: Ég hefði líklega átt að taka fleiri styrktaræfingar og hraðaæfingar síðustu mánuði til að byggja upp meiri styrk frá mjóbaki og niðurúr. Æfingatímabilið einkenndist mjög af löngum utanvegahlaupum á litlu álagi. Svolítið meiri ákefð á svolítið harðara undirlagi hefði líklega verið til bóta. En það er reyndar hægara sagt en gert að endurnýja styrk í vanræktum vöðvum, sérstaklega þegar maður er bæði hættur að vera kornungur og miðaldra.

Með sigurlaunin í flokki 60-69 ára með Jóni Grímssyni (t.v., 3. sæti) og Halldóri Brynjarssyni (t.h., 2. sæti). (Ljósm. Jóhanna Stefáns Bjarkardóttir).

Meginniðurstaða
Ég náði ekki markmiðum mínum á Laugaveginum þetta árið, en engu að síður væri óskaplegt vanþakklæti að vera ekki ánægður með árangurinn. Mér verður reyndar orða vant þegar ég hugsa um hversu heppinn ég er að hafa náð að vinna mig út úr meiðslum síðasta árs og komast aftur af stað í hlaupin. Það var engan veginn sjálfsagt. Hlaupin skipta mig meira máli en flest annað og í hlaupaheiminum búa flestir af mínum bestu vinum. Þessi tengsl eru aldrei nánari en þegar tekist er á við krefjandi verkefni í sameiningu. Laugavegurinn er ofarlega á listanum yfir svoleiðis verkefni.

Með besta stuðningsliðinu að hlaupi loknu. (Ljósm. Gunnar Viðar Gunnarsson).

PS: Frásagnir mínar af fyrri Laugavegshlaupum má finna hér að neðan:

Mótlæti á Laugaveginum

Rásnúmerið mitt, vælubílsnúmerið 113. Var þetta fyrirboði?

Síðastliðinn laugardag hljóp ég Laugaveginn í fjórða sinn. Þó að leiðin sé alltaf sú sama eru engar tvær ferðir eins og upplifunin ný í hvert skipti. Þessi Laugavegur var t.d. ríkari af mótlæti en tveir þeir næstu á undan. Annars vegar höfðum við vindinn í fangið næstum alla leið og hins vegar lenti ég í óhappi undir lokin sem setti strik í reikninginn. En ég er sáttur við árangurinn eins og hann mældist í mínútum. Og öll ný reynsla bætir einhverju við lífið.

Undirbúningurinn
Æfingarnar fyrir Laugaveginn gengu ekki alveg eins vel og ég hafði ætlað mér. Mörgu ferðirnar sem ég ætlaði upp á Hafnarfjallið urðu að fáum ferðum og minni háttar meiðsli og veikindi gerðu það að verkum að æfingatímabilið varð heldur skörðótt. Þetta rakti ég allt saman í þar til gerðum bloggpistli á dögunum. Þrátt fyrir þetta hafði ég trú á að ég gæti jafnvel bætt mig í þessu Laugavegshlaupi ef aðstæður yrðu hagstæðar. Ég hafði tekið tiltölulega margar langar hlaupaæfingar og hraðinn, sem ég vissi að ég átti ekki til, var ekki líklegur til að skipta sköpum í svona löngu utanvegahlaupi. Ég taldi sem sagt að í mér byggi býsna þrautseigur langhlaupari, þó að spretthlauparinn væri í fríi. Það var helst að brekkurnar gætu orðið erfiðar, sérstaklega upp í móti, því að brekkuhlauparinn var ekki upp á sitt besta.

Að morgni hlaupadags
Ég var ekki aldeilis einn á ferð frá Borgarnesi þennan laugardagsmorgun. Auk mín ætluðu þrír félagar mínir úr Hlaupahópnum Flandra að hlaupa Laugaveginn og þar við bættist Strandamaðurinn Birkir Stefánsson í Tröllatungu sem oft áður hefur veitt mér góðan félagsskap á hlaupum. Og af því þetta var nú orðinn svona álitlegur hópur var ákveðið að sleppa rútuferðinni þetta árið og reyna þess í stað að finna fararskjóta sem gæti flutt allt liðið í Landmannalaugar og heim aftur frá Þórsmörk, þ.m.t. yfir Krossá. Haukur Þórðarson, hlaupafélagi okkar, hafði fyrir löngu boðið sig fram sem bílstjóri og Björgunarsveitin Heiðar í Borgarfirði var svo vinsamleg að leigja okkur öflugan bíl til fararinnar. Þar með var allt til reiðu og við lögðum af stað úr Borgarnesi stundvíslega kl. 4 að morgni.

Borgarnesi kl. 4 á laugardagsmorgni.

Ferðin upp í Landmannalaugar gekk eins og í sögu. Vorum komin þangað um kl. 7:30, vel á undan rútunum sem fluttu flesta hlauparana á staðinn. Þessu fylgdu tiltekin forréttindi, svo sem greiður aðgangur að annars takmörkuðum fjölda salerna. Veðurspá dagsins gerði ráð fyrir suðvestan kalda, skúrum og fremur svölu veðri, en veðrið í Landmannalaugum var stórfínt, hægur vindur, þurrt og svalt.

Fyrsti hópurinn í Laugavegshlaupinu var ræstur upp úr kl. 9 og tíminn þangað til var að vanda notaður í vangaveltur um hvernig best væri að klæða sig, hvaða búnað og nesti ætti að taka með sér og hvað væri betur geymt í bílnum þannig að grípa mætti til þess í Þórsmörk að hlaupi loknu. Þarna er vandrataður meðalvegurinn á milli þess annars vegar að vera of lítið klæddur og verða gegnkaldur þegar hitastigið lækkar á fjöllum og hins vegar að burðast með óþarfa sem þyngir mann í hverju skrefi. Reynslan kemur að góðum notum í þessu, en samt verður hver og einn að finna þá lendingu sem hentar honum best.

Allt tilbúið í Landmannalaugum. F.v.: Birkir Þór Stefánsson, Gunnar Viðar Gunnarsson, SG, Kristinn Óskar Sigmundsson, Auður H Ingólfsdóttir og Haukur Þórðarson. (Ljósm. Brynjar Berg).

Áætlun dagsins
Áætlun mín fyrir hlaupið var einföld: Ég ætlaði að reyna að ná sömu millitímum á helstu viðkomustöðvum og ég gerði í hlaupinu 2015 þegar ég náði mínum besta tíma til þessa, 5:41:10 klst. Ef það gengi ekki upp var ég tilbúinn að gefa mér 5% afslátt, sem myndi þýða lokatíma upp á 5:58:14 klst. Ég hefði útbúið lítið spjald með helstu vegalengdum og tímasetningum, sem ég skellti í vasann til að geta rifjað upp áformin. Reyndar notaði ég þetta spjald lítið. Á frekar auðvelt með að muna tölur.

Kjarninn í áætlun dagsins.

Við „Flandratröllin“ höfðum gert ráð fyrir að fylgjast að mestu að til að byrja með, en svo yrði framhaldið auðvitað að ráðast af líðan hvers og eins. „Flandratröll“ var nafnið á fjögurra manna sveit sem var skipuð okkur Gunnari Viðari, Kristni (Kiddó) og Birki. Þrír okkar eru félagar í Hlaupahópnum Flandra og Birkir hefur fylgt okkur í ýmsum hlaupum síðustu árin. Nafnið á sveitinni er augljóslega tengt nafni hlaupahópsins og búgarði Birkis, en í því felst jafnframt tilvísun í vaxtarlag okkar félaganna, sem mörgum þykir með knappara móti.

Í samantektinni hér á eftir nota ég vegalengdirnar sem úrið mitt sýndi á laugardaginn. Þær eru örlítið frábrugðnar sams konar tölum úr sams konar bloggi frá 2015, enda má alltaf búast við einhverjum mun á svona mælingum frá ári til árs.

1. áfangi: Landmannalaugar – Hrafntinnusker: 9,99 km
Félagar mínir þrír eru allir talsvert sterkari í brekkum en ég, sérstaklega á uppleiðinni. Ég hafði því hvatt þá til að nýta þennan styrkleika af festu og ábyrgð á leiðinni upp í Hrafntinnusker, þó að það myndi þýða að leiðir skildu. Ég myndi svo hugsanlega saxa á forskotið á flatari köflum þegar líða tæki á hlaupið og reynslan og þolið færu að segja til sín. Birkir og Kiddó virtust hafa ákveðið að fara að mínum ráðum. Alla vega náðu þeir fljótlega góðu forskoti þrátt fyrir að ég hefði reynt að fara sem hraðast á fáeinum stuttum og flötum köflum í upphafi hlaupsins. Gunnar var hins vegar lengst af í humátt á eftir mér og þegar ég var kominn lengra upp í brekkurnar fór hann að dragast aftur úr. Þá vissi ég strax að ekki var allt með felldu. Hins vegar var vinur okkar, Gunnar Ólason, allan tímann í námunda við mig. Hann sagðist staðráðinn í að fara ekki fram úr mér snemma í hlaupinu, því að það hefði aldrei reynst honum vel. Þar var hann að vísa í einhver löng hlaup sem við höfum verið samferða í síðustu tvö árin.

Veðrið á þessum fyrsta kafla var ekkert til að kvarta yfir og náttúrufegurðin jafn óviðjafnanleg og alltaf. Ég fylgdist lítið með klukkunni, enda lítið um viðmiðanir á þessari leið. Mér leið frekar vel þó að mér fyndist ég ekki sérlega ferskur, en svoleiðis tilfinningar í upphafi langra hlaupa hafa lítið forspárgildi.

Ofan við Stórahver sat enn talsverður snjór í giljum, þó ekki nærri eins mikill og 2015 ef ég man rétt. Ég reyndi að halda mig utan við troðnustu brautina í sköflunum, því að þar finnst mér undirlagið oft fastara fyrir. Reyndar miðaði mér ágætlega upp skaflana og var farinn að draga verulega á Kiddó og Birki. Ofarlega í brekkunum fór að rigna og svo breyttist rigningin í slyddu. Þá var gott að grípa til lambhúshettunnar sem ég hafði geymt í vasa mínum til öryggis. Annars er ég lítið gefinn fyrir höfuðföt.

Og allt í einu birtist skálinn í Hrafntinnuskeri, miklu fyrr en mig hafði minnt. Við þremenningarnir skokkuðum þar í hlaðið næstum samtímis, ég var óþreyttur og mér leið vel þrátt fyrir að vera orðinn vel blautur. Tölurnar á klukkunni komu verulega á óvart. Þar stóð 1:10:43 klst, sem þýddi að ferðin uppeftir hafði tekið 3:47 mín styttri tíma en ég hafði best gert áður. Nú var gaman!

2. áfangi: Hrafntinnusker – Álftavatn: 10,99 km
Ég hef vanið mig á að eiga litla viðdvöl á drykkjarstöðvum. Hélt uppteknum hætti að þessu sinni og staldraði ekkert við í Hrafntinnuskeri, þáði bara fyllingu á vatnsbrúsann minn og hélt svo ferðinni áfram, glaður í bragði, á móti sunnanáttinni sem var aðeins farin að sækja í sig veðrið. Slyddan var hætt en gekk á með skúrum. Líðanin var góð en einhvern veginn fannst mér ég þó vera farinn að lýjast, fyrr en ég hefði viljað. Að vanda fylltist hugurinn af gleði þegar útsýni opnaðist suður af fjöllunum og yfir Álftavatn og ég sá ekki betur en þar skini sól inn á milli skúraklakkanna. Framundan var leiðin niður Jökultungur, sem sögð var óvenju viðsjárverð að þessu sinni. Sögur höfðu jafnvel borist af klaka og hálku.

Leiðin niður Jökultungur reyndist allsendis klakalaus, en álíka brött og laus í sér og vant er. Niðurhlaup hafa löngum verið mín sterkasta grein en þarna fannst mér mig vanta styrk í fæturna til að geta „látið vaða“ eins og mig langaði til. En þetta gekk nú samt ágætlega og við talningarstöðina við Álftavatn sýndi klukkan 2:19:08 klst, sem var 3:22 mín betra en 2015. Ég var sem sagt búinn að glutra niður 25 sek af forskotinu sem ég vann mér inn á leiðinni upp í Hrafntinnusker, en þetta leit samt ágætlega út. Kannski myndi ég ná að bæta „PB-ið“ mitt þegar allt kæmi til alls. En, samt, eitthvað var farið að hægjast á mér og greinilegt að suðvestanáttin var ekkert hætt að blása í fangið á okkur. Kiddó og Birkir voru þarna rétt hjá mér og Gunnar Ólason sömuleiðis. Kiddó hafði átt í einhverjum vanda með innlegg í skónum sínum, en að öðru leyti virtust þeir félagar þokkalega ferskir.

3. áfangi (a): Álftavatn – Bláfjallakvísl: 5,20 km
Ég hef tekið upp þann sið að skipta Laugaveginum í sex áfanga en ekki bara fjóra eins og flestir gera. Þannig fæ ég oftar vísbendingu um gang mála og um leið finnst mér leiðin styttast. Í svona löngum hlaupum finnst mér best að beina huganum að einum áfanga í einu, því að mér finnst léttara að hugsa um 5 kílómetrana sem eru eftir að næsta viðkomustað en 32 kílómetrana sem eru eftir í mark.

Á þessum kafla var ég farinn að finna meira fyrir mótvindinum. Kannski var hann að aukast, eða kannski var ég bara orðinn þreyttur. Annað slagið gerði skúrir en þær öngruðu mig ekki neitt. Þetta var ekki svo mikið að maður blotnaði að gagni, hitastigið var bærilegt og lambhúshettan komin á sinn stað í vasanum. Ég hafði meiri áhyggjur af því að hlaupafélagarnir voru farnir að dragast aftur úr. Gunnar Ólason var þó alltaf í sjónmáli.

Millitíminn við Bláfjallakvísl olli vonbrigðum en kom ekki beinlínis á óvart, 2:52:22 klst. Nú voru bara 2:08 mín eftir af forskotinu á tímann minn frá 2015 og ég vissi að næsti áfangi gæti reynst mér drjúgur í mótvindinum. En ég hafði enga ástæðu til að kvarta, fann hvergi til, bara svolítið lúinn.

3. áfangi (b): Bláfjallakvísl – Emstrur: 10,74 km
Vatnið í Bláfjallakvísl náði mér rúmlega í hné þar sem dýpst var og mér fannst það kalt. En ég hélt ferðinni strax áfram og hlýnaði fljótt aftur. Það var bara verst þetta með vindinn. Framundan voru sandarnir, hátt í 11 km leið sem mér hafði tekist að hlaupa á sléttum klukkutíma, bæði 2013 og 2015. Nú hafði ég á tilfinningunni að þetta gæti orðið seinlegra.

Á þessum kafla var ég lengst af einn á ferð. Sá þó Gunnar Ólason alltaf tilsýndar þegar ég leit um öxl og eins sá ég nokkra hlaupara drjúgan spöl á undan mér, þ.á.m. sænska konu sem hafði farið fram úr mér á leiðinni frá Álftavatni að Bláfjallakvísl. Hún varð einmitt þriðja kona í mark á tæpum 5:38 klst, sem er einmitt tími sem ég gæti vel hugsað mér að ná. Mér finnst reyndar ekkert endilega verra að vera einn á ferð á svona köflum, það er bara öðruvísi. Þegar fleiri eru saman er hægt að gleyma tímanum við spjall um eitthvað annað en hvað manni líði illa og hversu langt sé eftir, auk þess sem hægt er að skiptast á um að kljúfa vindinn. Sjálfur hef ég reyndar aldrei velt þessu vindsamstarfi neitt fyrir mér. Í einverunni reyni ég hins vegar að gleyma tímanum með því að slökkva sem mest á skynjuninni og hugsa ekki um neitt nema e.t.v. taktinn í einhverju lagi sem hljómar í huganum. Þar á ég innbyggðan lagalista sem gott er að grípa til og oft á tiltekið lag einhverja tengingu við tiltekna minningu, t.d. minningu úr hlaupi þar sem allt lék í lyndi. Takturinn getur sameinast fótataki manns sjálfs eða einhverju öðru hljóði, t.d. reglubundnu hringli í salttöflum sem ég tek stundum með mér í litlu boxi í löng hlaup, af því að ég held að svoleiðis töflur minnki líkurnar á krömpum.

Í öllum löngum hlaupum er ég með fyrirframgerða næringaráætlun og í þetta sinn var hún mjög einföld. Á 45 mínútna fresti skyldi sporðrennt einu hnausþykku GU-geli með koffíni og einni salttöflu í bragðbæti og hvoru tveggja skolað niður með tveimur gúlsopum af vatni. Þess á milli skyldi dreypt á vatni af og til, nógu miklu til að á hverjum 10 km kafla lækkaði um 300-400 ml. í vatnsbrúsanum sem ég hafði meðferðis. Á hverri drykkjarstöð lét ég svo bæta nógu vatni í brúsann til að hann entist í næsta áfanga – og helst ekkert umfram það. Þetta var fyrsta Laugavegshlaupið þar sem gel var eina nestið, enda sagði reynslan að það myndi duga mér ágætlega. Sú varð og raunin. Ég býst við að löngu hlaupin mín síðustu misseri hafi þjálfað líkamann í að brenna fitu þegar á þarf að halda. Af henni á ég nóg, þótt það sjáist kannski ekki í fljótu bragði.

Mér tókst vel að hverfa inn í einsemdina á söndunum, þó að ég fyndi vissulega að hægt miðaði. Reyndi að sniðganga úrið algjörlega, það tifaði víst jafnhratt hvort sem var. En svo tók ég allt í einu eftir því að tónlist saltboxins var þögnuð. Ástæðan var augljós, boxið hafði dottið úr beltinu og myndi nú sjálfsagt veltast um úti í náttúrunni í 1.000 ár með öllu hinu plastinu sem ég og allt hitt fólkið hafði misst frá sér á lífsleiðinni. Þetta voru ekki góðar fréttir. Reyndar hafði ég engar stórar áhyggjur af salttöfluleysinu, aðallega vegna þess að áhyggjur leysa engan vanda en líka vegna þess að gelin mín innihéldu eitthvað af natríum, alla vega sum. Hitt var öllu verra, að ég skyldi eiga þennan þátt í að menga þessa dásamlegu náttúru.

Rétt áður en ég kom að drykkjarstöðinni á söndunum, spölkorni sunnan við Innri-Emstruá, heyrði ég Gunnar kalla til mín að hann væri með boxið sem ég týndi. Ég hinkraði augnablik við stöðina svo að Gunnar næði mér, fékk boxið og tróð því í vasa sem það átti ekki að geta dottið úr og hélt svo áfram ferðinni í svipuðum takti og fyrr. Minn hluti af mengunarvanda dagsins var úr sögunni, þökk sé Gunnari. Gætti þess að líta aldrei á klukkuna og hugsa aldrei hversu langt væri eftir í Emstrur. Einbeitti mér þess í stað að því að hlaupa afslappaður með slakar axlir. Það getur verið gott að hugsa um smáatriði þegar stóra myndin er ekki hagstæð. Emstrur létu bíða eftir sér, en alltaf finnst mér samt jafngott að koma þangað. Núna var það jafnvel enn betra en venjulega, því að þar tóku Erla Gunnarsdóttir og annað starfslið mér svo sannarlega opnum örmum. En klukkan hafði tifað og sýndi 4:01:47 klst. Það var meira að segja hægara en í hlaupinu 2013 þegar millitíminn í Emstrum var 4:00:00 klst. Þar með voru allar hugmyndir um að bæta tímann frá 2015 afskrifaðar. Nú snerist þetta bara um að ljúka hlaupinu á innan við 6 klst. Það átti enn að vera hægt.

4. áfangi (a): Emstrur – Þröngá: 13,31 km
Starfsfólkið í Emstrum sagði mér að nú væri mesti mótvindurinn búinn. Það fannst mér gott að heyra, þó að ég vissi að það gæti naumast verið rétt. Vindurinn hlaut að ná sér aftur á strik þegar komið væri upp úr gljúfri Fremri-Emstruár. Sú varð líka raunin. En mér var svo sem alveg sama, þetta snerist bara um að halda áfram jafnt og þétt hvað sem á gengi. Og það gerði ég, ákveðinn í að vera sáttur við tímann minn hver sem hann yrði. Þetta var erfitt en virkilega gaman.

Eftir mjög drjúga stund með lágmarksskammti af hugsunum sýndist mér ég sjá Kápuna framundan. Nú var sem sagt farið að síga verulega á seinnihlutann, þreytan í líkamanum bara svipuð og hún hafði verið og engir krampar eða önnur vandamál höfðu gert vart við sig. En þá gerðist það, bara nokkrum metrum áður en ég kom að drykkjarstöðinni við Ljósá. Ég steyptist fram fyrir mig og lenti beinlínis á andlitinu á jörðinni. Hef ekki hugmynd um hvað fór úrskeiðis, kannski gleymdi ég mér bara við að horfa á drykkjarstöðina og gleðjast yfir því hvað ég ætti stutt eftir, bara rétt um 5 km – og hægur vandi að ljúka hlaupinu á innan við 6 klst. Þarna lá ég alla vega, alveg flatur á troðnum moldarstíg. Hefði varla getað fundið betri stað á allri leiðinni til að detta á. Þetta var samt vont og ég fann að það blæddi einhvers staðar úr andlitinu á mér. Eftir að hafa legið smástund til að reyna að ná áttum brölti ég á fætur með góðri hjálp starfsfólksins á drykkjarstöðinni. Ég gat alla vega labbað, það var gott og ég hlaut að vera óbrotinn. Nú væri líklega næsta mál að rölta á leiðarenda og gleyma 6 tíma markmiðinu. Framundan var Kápan og upp hana myndi ég hafa labbað hvort sem var.

Á leiðinni upp Kápuna skolaði ég mesta blóðið og moldina úr andlitinu með vatni sem hafði verið bætt í brúsann minn á drykkjarstöðinni. Var greinilega með sár á efri vörinni en virtist hafa sloppið mjög vel að öðru leyti. Meira að segja gleraugun voru bæði heil og hrein. Þegar upp var komið byrjaði ég að skokka en fann þá að hægri handleggurinn hafði ekki áhuga á frekari þátttöku í þessu hlaupi. Ég vissi svo sem ekki til að hann hefði orðið fyrir hnjaski í byltunni, en þarna var greinilega eitthvað í ólagi. Reyndar var þessi handleggur ekkert sérstaklega góður fyrir, því að síðustu mánuði hafði ég glímt við einhverja klemmu í öxlinni og ekki haft betur. Núna var hann bara u.þ.b. tífalt verri en vanalega.

Ég var frekar illa til reika þegar ég kom að Þröngá. Hitti Ingvar Garðarsson við vaðið eins og stundum áður og sagði farir mínar ekki sléttar. Reyndi svo að láta eitthvað af mold skolast af fötunum mínum í ánni. Klukkan sýndi 5:37:36 mín, sem þýddi að ég gat enn gert mér vonir um 6 tímana. Árið 2015 hljóp ég þennan síðasta spöl á 17:10 mín og þrátt fyrir afleitt ástand hlaut ég að geta skreiðst þetta á 22 mín. Þetta eru ekki nema 2,8 km.

Nýkominn yfir Þröngá og hægri handleggurinn kominn í varanlega stöðu. (Ljósm. Magnús Jóhannsson).

4. áfangi (b): Þröngá – Húsadalur: 2,76 km
Í þann mund sem ég var kominn yfir Þröngá náði Reimar Snæfells Pétursson mér, en við höfðum hist sem snöggvast fyrr í hlaupinu. Reimar var hinn hressasti og ágætt að skiptast á hvatningarorðum fyrir lokasprettinn. Þetta varð þó auðvitað enginn sprettur í mínu tilviki en ég fann út að með því að halda þéttingsfast með hinni ósamstarfsfúsu hægri hendi í framstykkið á hlaupajakkanum mínum gat ég svo sem alveg skokkað. Þessi síðasti áfangi tók þegar allt kom til alls ekki nema 18:19 mín, þ.e. rúmri mínútu lengri tíma en 2015, og þegar ég kom í mark sýndi klukkan 5:55:56 klst. Ég gat ekki annað en verið mjög sáttur við það miðað við aðstæður. En ég hef sjálfsagt oftast litið betur út á marklínunni.

Stundirnar eftir hlaup
Marksvæðið í Laugavegshlaupinu er alltaf í sérstöku uppáhaldi hjá mér og ég reyni helst að staldra þar við eins lengi og ég get til að spjalla við allt það góða fólk sem þar hefur safnast fyrir. Þetta var svo sem eins í þetta sinn, en upplifunin var önnur en venjulega því að sjálfum leið mér verulega illa í öxlinni og þar í kring. Náði þó að tína í mig næringu af ýmsu tagi og gleðjast yfir góðum degi. Gunnar Ólason kom í mark tæpum tveimur mínútum á eftir mér. Hann hafði nánast aldrei misst sjónar af mér alla leiðina og það var gott að vita af honum í nágrenninu. Kiddó skilaði sér svo fyrr en varði, glaður í bragði og allvel haldinn á 6:06:35 klst. í sínu fyrsta Laugavegshlaupi. Birkir og Gunnar komu svo rúmum 20 mín. síðar, báðir dálítið lerkaðir. Auður var talsvert lengur á leiðinni eins og við mátti búast, en hún náði tímamörkunum og vel það. Og þar með var allur hópurinn í höfn.

Flandratröll að hlaupi loknu. (Ljósm. Felix Sigurðsson).

Þegar hér var komið sögu gerði ég mér grein fyrir að sturtuferð gæti orðið mér ofviða. Frestaði henni því til betri tíma og lét mér nægja að skipta um föt. Það var ærið verkefni og sársaukafullt, en þetta hafðist og við tók hefðbundinn kvöldverður og verðlaunaafhending. Ég reyndist vera öruggur sigurvegari í flokki 60-69 ára, réttum 38 mín á undan næsta manni og rúmlega einum og hálfum tíma á undan næsta Íslendingi. Mér finnst alltaf gaman að vinna til verðlauna. Verkir í öxl breyta engu um það.

Heimferðin
Haukur bílstjóri beið okkar í Þórsmörk eins og til stóð og þjónustaði okkur þar á alla lund. Það er ómetanlegt að hafa aðgang að annarri eins hjálparhellu á stundum sem þessum. Hann hafði reyndar lent í töluverðum hremmingum sjálfur, því að á leiðinni úr Landmannalaugum sprakk á bílnum. Einhvern veginn tókst honum að komast á leiðarenda á lánsdekki, en dekk á fullvaxna bíla liggja ekkert endilega á lausu. Þegar allt var yfirstaðið röðuðum við okkur inn í fararskjótann og héldum af stað heimleiðis eftir að hafa ferjað fáeina hlaupara yfir Krossá. Ferðalaginu lauk svo í Borgarnesi um miðnættið, 20 tímum eftir að það hófst.

Eftirköstin
Ég var nokkuð góður í fótunum daginn eftir hlaup og gat ekki annað en glaðst yfir því. Hins vegar hafði verkurinn í öxlinni hreint ekki skánað, enda leiddi læknisskoðun sunnudagsins í ljós að öxlin var brotin. Góðu fréttirnar voru þær að axlarliðurinn er heill og ef allt gengur að óskum ætti beinið að vera orðið gróið eftir 4-5 vikur í fatla. Það verður því lítið um hlaup á næstunni og sumar daglegar athafnir munu reynast ögn snúnari en á venjulegum degi.

Þakkir
Ég á mörgum mikið að þakka eftir þetta Laugavegshlaup. Þar ber fyrst að nefna eiginkonuna Björk sem hefur umborið þetta tímafreka áhugamál mitt í áratugi og aðstoðað mig við að sinna því, hversu mikið sem það hefur bitnað á öðrum verkefnum. Svo fá ferðafélagar dagsins sérstakar þakkir og þó sérstaklega bílstjórinn Haukur. Það var ný og afar jákvæð upplifun að fara þessa ferð í svona litlum og samhentum hópi, þar sem allir leggja gott til mála. Og svo má ekki gleyma öllum þeim fjölda starfsmanna, sjálfboðaliða og þátttakenda sem gera Laugavegshlaupið að þeim glæsilega stórviðburði sem það er. Það eru forréttindi að hafa heilsu og möguleika til að taka þátt í svona ævintýrum. Ég er lánsamur maður. Brotin öxl breytir engu um það.

Er ég tilbúinn í Laugaveginn?

Laugav 2015. Hlaup.is.

Laugardaginn 15. júlí nk. ætla ég að hlaupa Laugaveginn í 4. sinn. Fór hann fyrst sumarið 2007 (á 6:40:50 mín) og svo aftur 2013 (5:52:33 klst) og 2015 (5:41:10 klst). Þetta hefur sem sagt verið saga stöðugra framfara. Eitt stærsta hlaupamarkmiðið mitt fyrir árið 2017 er að framlengja þessa sögu, þ.e.a.s. að bæta tímann minn frá 2015, þó ekki væri nema um 1 sekúndu. Og nú sit ég í svipuðum vangaveltum og margir aðrir hlauparar: Er ég tilbúinn í þetta?

Svar við spurningunni
Stutta svarið við spurningunni hér að framan er að ég sé vissulega tilbúinn að hlaupa Laugaveginn, en hins vegar séu líkurnar á bætingu talsvert minni en ég hefði kosið – jafnvel hverfandi. Ég tel mig reyndar að flestu leyti vera í góðu standi þrátt fyrir einhver ónot hér og þar í skrokknum. Ég á sem sagt ekki við nein veruleg meiðsli að stríða og hef enga sérstaka ástæðu til að ætla að einhver vandamál af því tagi skjóti upp kollinum á leiðinni. Hins vegar hafa æfingarnar það sem af er árinu ekki gengið sem skyldi og tímarnir í þeim keppnishlaupum sem ég hef farið í gefa ekki tilefni til bjartsýni.

Æfingarnar
Fyrstu sex mánuði ársins hljóp ég samtals 1.409 km á æfingum. Það er reyndar með mesta móti miðað við fyrri ár, en meira er ekki alltaf betra í þessum efnum. Þetta hefur líka að sumu leyti gengið skrykkjótt, eins og sjá má á stólpariti yfir vikulega hlaupaskammta frá áramótum. (Stærri mynd birtist ef smellt er á þessa).

Lengd hlaupaviknanna minna frá áramótum í kílómetrum talin. (Vika 27 stendur yfir þegar þetta er skrifað og því er þar ekki komin endanleg tala).

Eins og myndin gefur til kynna hafa hvað eftir annað komið skörð í þróunina, sérstaklega frá og með viku 15, þ.e.a.s. frá því í apríl. En svona gerast auðvitað kaupin á eyrinni hjá flestum hlaupurum. Heilsan er ekkert sem maður getur gengið að sem vísu og svo þarf maður stundum að gera eitthvað fleira en að æfa sig. En til að ná sem bestum árangri hefði þetta þurft að vera jafnara.

Keppnishlaupin
Það sem af er árinu hef ég hlaupið 9 keppnishlaup, sem er svo sem hvorki meira né minna en ég er vanur. Ég tók m.a. þátt í öllum þremur hlaupunum (5 km) í Atlantsolíuhlauparöð FH í janúar-mars. Tímarnir í þessum hlaupum sýndu að ég var ekki í jafngóðu 5 km formi og ég hef verið síðustu ár. Þetta kom gleggst í ljós í síðasta hlaupinu 30. mars þar sem ég hljóp 5 km á 20:47 mín (flögutími) við toppaðstæður. Það væri náttúrulega vanþakklæti af manni sem er nýorðinn sextugur að kvarta yfir svoleiðis tíma, enda sýnist mér að aðeins tveir íslenskir karlar á aldrinum 60-64 ára hafi náð betri tíma frá því að mælingar hófust. En ég ber mig ekki mikið saman við aðra, heldur fyrst og fremst við sjálfan mig, enda snýst þetta um að sigra mig en ekki hina. Og 5 km tímarnir í vetur voru með þeim lökustu sem ég hef náð síðustu árin. Þess vegna vissi ég í lok mars að ég hefði verk að vinna ef ég ætlaði að bæta mig eitthvað á árinu.

Fimm kílómetra hlaup gefa ekki mikla vísbendingu um líklega frammistöðu á Laugaveginum. Lengri hlaup eru hins vegar ívið betri mælikvarði, enda þótt brautarhlaup og utanvegahlaup séu sitt hvað. Í Miðnæturhlaupinu 23. júní hljóp ég hálft maraþon við góðar aðstæður á 1:35:56 mín, sem var 4:40 mín (um 5%) lakari tími en í sama hlaupi á sömu braut 2015, þ.e.a.s. árið sem ég hljóp Laugaveginn síðast. Sá tímamunur segir mér kannski eitthvað.

Líklegur tími á Laugaveginum
Reynslan hefur sýnt mér að ég stend mig yfirleitt hlutfallslega betur í hlaupum eftir því sem þau eru lengi. Þess vegna get ég svo sem dregið þá ályktun að ef ekkert annað skekkir myndina ætti ég ekki að vera meira en 5% lengur að hlaupa Laugaveginn núna en sumarið 2015. Þeir útreikningar gefa mér líklegan lokatíma upp á u.þ.b. á 5:58 klst. Eigum við ekki bara að segja að það væri ásættanleg eða alla vega raunhæf niðurstaða? Með því að setja þetta á blað er ég reyndar hugsanlega búinn að „búa mér til vonbrigði“, eins og ég hef einhvern tímann kallað þá stöðu sem maður setur sig í með því að setja sér (að óþörfu) markmið sem ekki næst. Önnur leið til að segja það, er að með þessu sé ég búinn að færa vonbrigðalínuna um 18 mínútur mér í hag, þ.e.a.s. úr 5:41 klst í 5:58 klst. Allt undir 5:58 klst er þá orðinn bónus og allt undir 5:41:10 klst mun leiða til enn taumlausari gleði en verið hefði ef ég hefði talið mig vera í toppstandi!

Spilar aldurinn inn í?
Auðvitað á aldurinn einhvern þátt í því hvernig manni gengur á hlaupum. En ég tók í hreinskilni sagt ekki eftir neinni breytingu við að árafjöldinn í lífi mínu breyttist úr 59 í 60 eina nótt í mars. Og ef ég verð 5% lengur að hlaupa Laugaveginn sextugur en 58 ára þarf að finna aðrar skýringar en aldurinn. Ég las alla vega einhverja fræðilega grein um daginn þar sem menn höfðu komist að þeirri niðurstöðu með rannsóknum að meðalafturför aldraðra hlaupara væri um 0,7% á ári. Það segir mér að ég get enn bætt mig. Til þess þarf bara rúmlega 0,7% meiri og markvissari æfingar en í fyrra. Og 5% eru miklu meira en 2×0,7%.

Meginniðurstaða
Ég tel mig sem sagt vera tilbúinn í Laugaveginn, þrátt fyrir að atvikin (en ekki aldurinn) hafi hagað því þannig að ég er ekki í alveg eins góðu hlaupaformi og ég hef oftast verið síðustu árin. Það er hins vegar líklegt að ég slái engin persónuleg met þetta árið og nái þar með ekki einu helsta hlaupamarkmiðinu mínu frá síðustu áramótum. Svo þarf líka að hafa í huga að sérhvert Laugavegshlaup er óvissuferð þar sem margt óvænt getur sett strik í reikninginn. En hvað sem þessu líður er ég staðráðinn í að láta Laugavegshlaupið næsta laugardag verða lið í að uppfylla mikilvægasta hlaupamarkmið árins, þ.e. að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum!

Eftirmáli
Að vanda geri ég ráð fyrir að skrifa sérstakt Laugavegsblogg að Laugavegshlaupinu loknu, þar sem upplifun mín og nýfengin reynsla verður tíunduð í allmiklum smáatriðum. Fyrri ferðasögur má finna undir þessum tenglum:

Dásamlegur Laugavegur

Á endasprettinum í Þórsmörk. (Ljósm. Sævar Skaptason).

Á endasprettinum í Þórsmörk. (Ljósm. Sævar Skaptason).

Um síðustu helgi (18. júlí) hljóp ég Laugaveginn í þriðja sinn. Leiðin er alltaf jafnlöng en að öðru leyti eru engin tvö hlaup eins, því að bæði breytast aðstæður í náttúrunni og í manni sjálfum. Þess vegna er þetta ný og spennandi áskorun í hvert einasta sinn. Þessi þriðja ferð var enn ánægjulegri en hinar og ekki spillti fyrir að ég bætti tímann minn frá því síðast um rúmar 11 mínútur.

Undirbúningurinn
Meiðsli trufluðu hlaupaæfingarnar mínar á liðnum vetri og líklega bætti rysjótt tíðarfar ekki úr skák. Ég hafði gert ráð fyrir að vera kominn í mitt besta hlaupaform í byrjun apríl og geta svo byggt afrek sumarsins á þeirri innistæðu. En innistæðan var sem sagt ekki fyrir hendi og því þurfti að nota vorið og fyrrihluta sumars til að búa hana til. Allt miðaðist þetta við aðalhlaupamarkmið ársins, þ.e.a.s. að hlaupa Laugaveginn á skemmri tíma en áður, eða með öðrum orðum undir 5:52:33 klst. Þess vegna bjó ég til nýja æfingaáætlun í byrjun apríl undir vinnuheitinu „Björgum Laugaveginum“. Í þeirri áætlun var gert ráð fyrir tilteknum fjölda æfinga af mismunandi tagi og tilteknum fjölda kílómetra í hverri viku. Sumum þessara kílómetra átti að ná með 11 ferðum upp á topp á Hafnarfjallinu.

Til að gera langa sögu stutta gekk áætlunin um björgun Laugavegarins upp í öllum aðalatriðum. Samkvæmt henni ætlaði ég að hlaupa samtals 870 km á tímabilinu frá 13. apríl fram að Laugavegi, en í reynd urðu þetta 885 km eða um 65 km á viku. Kílómetrafjöldinn segir auðvitað ekki allt, því að það skiptir ekki bara máli hversu mikið maður gerir, heldur hvað maður gerir. Magn og gæði fara ekki alltaf saman. Þannig fór ég ekki nema fjórum sinnum upp á topp á Hafnarfjallinu og líklega þrisvar í viðbót langleiðina í of vondu veðri eða of vondri færð til að fært væri á toppinn. Á þessum tíma hljóp ég líka Þrístrending og Hamingjuhlaupið, auk fjallvegahlaups um Flatnaveg. Auk þess tók ég þátt í nokkrum keppnishlaupum, þ.m.t. fjórum hálfmaraþonhlaupum. Fæst þessara hlaupa gengu alveg að óskum en úr þeim mátti þó lesa batnandi líkamsástand, þó að framfarirnar væru hægari en ég hafði gert ráð fyrir. Dagana fyrir Laugaveginn hafði ég þó á tilfinningunni að ég ætti að geta bætt mig ef aðstæður yrðu þokkalegar. Ég taldi mig vera komin í betra fjallahlaupaform en nokkru sinni fyrr, og þó að eitthvað vantaði upp á maraþonformið taldi ég ástandið vera orðið nógu gott að meðaltali til að markmiðið gæti náðst.

Áhyggjur af snjó
Dagana fyrir Laugavegshlaupið var mikið talað um hversu snjóþungt væri á leiðinni og að þess vegna gæti hlaupið orðið með erfiðasta móti. Ég var frá upphafi ákveðinn í að hafa ekki áhyggjur af þessu. Laugavegurinn er ekki hlaupabretti, hann er bara hluti af náttúrunni og þess vegna gilda þar engar staðlaðar aðstæður. Ef færið er verra en í meðallagi verður ferðalagið seinlegra en ella. Að öðru leyti breytir þetta svo sem engu, nema hvað útbúnaðurinn verður alltaf að taka mið af líklegum aðstæðum.

Góð veðurspá
Þeir sem ætla að hlaupa Laugaveginn þurfa að fylgjast með veðurspánni og muna að á hálendinu getur veðurfar verið talsvert miskunnarlausara en í byggð. En í þessu tilviki þurfti maður engu að kvíða. Spáin fyrir hlaupadaginn lofaði góðu, norðanátt í kortunum og þar með meðvindur, nær engar líkur á úrkomu sem máli skipti og hitastigið líklega nógu lágt til að snjóbráð yrði í lágmarki á fjöllum og nógu hátt til að ekki yrði hrollkalt í Landmannalaugum í upphafi hlaups eða í Þórsmörk í lokin. Þetta leit vel út!

Fatatíska ársins
Það er alltaf vandasamt að klæða sig rétt fyrir hlaup á fjöllum og auk þess er besta leiðin í þeim efnum einstaklingsbundin. Fólk er misheitfengt, fer mishratt yfir og þekkir eigin takmörk misvel. Ég er frekar mikill naumhyggjumaður hvað þetta varðar og reyni að klæða mig heldur minna en meira fyrir svona verkefni, án þess þó að stefna eigin öryggi í augljósa tvísýnu. Ég ákvað að klæðast langerma hlaupabol, hlírabol utanyfir, þunnum vindheldum hlaupajakka, hlaupanærbuxum, síðum hlaupabuxum, þunnum hlaupasokkum og hlaupahönskum úr ull. Lambhúshetta átti líka að vera með í för en hana skildi ég reyndar eftir eftir að hafa endurmetið aðstæður við komuna í Landmannalaugar. Ég er lítið fyrir húfur, enda veitir hárið þokkalegt skjól í þurrviðri. Meðvindur í hlaupi jafngildir líka næstum því logni þegar maður er kominn af stað. Skófatnaðurinn var löngu ákveðinn. Ég ætlaði  að vera í utanvegaskóm af gerðinni Adidas Kanadia 4 TR, þeim sömu og ég hljóp Laugaveginn í fyrir tveimur árum og einhverja 700 km því til viðbótar við ýmis tækifæri. Þessir skór höfðu reynst mér einkar vel og voru enn til þess að gera óslitnir. Ég ætlaði sem sagt í þetta ferðalag með nesti, en ekki með nýja skó. Hins vegar var ég búinn að fjárfesta í nýjum skóhlífum í ljósi reynslunnar frá Laugavegshlaupinu 2013 þegar ég hvolfdi svo sem einni matskeið af grófum sandi úr hvorum skó í Borgarnesi daginn eftir hlaup.

Vaknað snemma
Laugavegsdagar eru langir dagar. Ég vaknaði kl. 2 árdegis þennan dag eftir góðan 4 klst. svefn og var lagður af stað til Reykjavíkur um kl. 3 ásamt Gunnari Viðari, hlaupafélaga mínum úr Borgarnesi. Kl. 4:30 var lagt af stað með rútu úr Laugardalnum og komið á leiðarenda í Landmannalaugum upp úr kl. 8. Eitthvað tókst að dotta á leiðinni, en að öðru leyti verður ekki orðlengt um þennan hluta ferðarinnar. Í Landmannalaugum var fremur hægur norðanvindur, þurrt veður og líklega um 6 stiga hiti, allt eins og best varð á kosið og í góðu samræmi við veðurspána. Dagurinn lagðist vel í mig.

Við rásmarkið
Við Gunnar höfðum báðir gefið upp lokatíma í kringum 6 klst. sem þýddi að við vorum báðir í fyrsta ráshópi af þremur. Nú hafði verið tekin upp sú nýbreytni að rífa þar til gerða miða af rásnúmerinu til að halda yfirsýn yfir hverjir hefðu lagt af stað. Það gekk fljótt og vel. Fyrir tveimur árum þurftu hlauparar að skrá sig sérstaklega í Landmannalaugum. Það gekk seint og illa. Til þess er einmitt reynslan að læra af henni og finna betri leiðir í stað annarra sem virka ekki sem skyldi.

Við rásmarkið hitti ég Norðmanninn Bjørn Lindberg sem var að hlaupa Laugaveginn þriðja árið í röð. Við höfðum einmitt verið samferða drjúgan spöl á söndunum sunnan við Bláfjallakvísl í hlaupinu 2013 – og í fyrra hittumst við vestur í Dýrafirði eftir að hafa hlaupið Vesturgötuna. Svona kynni eru skemmtileg og eiga það til að endast. Bjørn á tengdafólk á Íslandi og reiknaði með að halda áfram að koma til Íslands á þessum tíma árs og taka þátt í Laugavegshlaupinu.

1. áfangi: Landmannalaugar – Hrafntinnusker: 9,85 km
Og svo var klukkan orðin níu og þá var hlaupið ræst með óvæntu flauti. Landslagið á fyrsta kílómetranum er þannig að maður hleypur bara svipað hratt og næsti maður á undan, því að óvíða gefast færi á að færa sig framar í röðina. Þetta tafði mig svolítið í hlaupinu 2013, en þá var ég í ráshópi nr. 2 með mörgum hægari hlaupurum. Nú var þetta ekkert vandamál, nema þá kannski fyrir þá sem voru næstir á eftir mér. Þessi fyrsti spölur er líka svo ósléttur að maður getur lítið hlaupið. Þessa vegna byrjar hlaupið sjálfkrafa á hæfilegri upphitun þar sem líkami og sál eru búin undir átökin sem framundan eru.

Við Gunnar höfðum ráðgert að fylgjast að á meðan báðir entust. Hann var þó hógværari en ég í startinu og því var ég alltaf nokkrum skrefum á undan. Leit af og til við í beygjum til að ganga úr skugga um að allt gengi að óskum hjá honum líka.

Fyrstu 2,5 kílómetrarnir að baki og allt í góðu. (Ljósm. Hlaup.is).

Fyrstu 2,5 kílómetrarnir að baki og allt í góðu. (Ljósm. Hlaup.is).

Fyrstu 10 kílómetrarnir upp í Hrafntinnusker eru nánast allir á fótinn og því fer ekki mikið fyrir hlaupum á þeim kafla, nema þá kannski hjá þeim allra bestu. Þeir voru farnir sína leið þegar hér var komið sögu. Mikill snjór var á leiðinni eins og við var búist, en mér miðaði sæmilega áfram í sköflunum. Á þessum kafla valdi ég þann kost að fylgja slóðinni sem göngumenn og fyrstu hlaupararnir höfðu mótað, en þar var efsta lagið reyndar orðið dálítið laust í sér. Þarna var hópurinn enn nokkuð þéttur og margir góðir kunningjar úr hlaupunum á næstu grösum, ef hægt er að nota það orðalag. Gauti Gíslason var t.d. lengst af rétt á undan mér og Anton Magnússon nokkrum skrefum á eftir. Bjørn Lindberg og Gunnar Viðar voru heldur ekki langt undan, svo einhverjir séu nefndir.

Í hlaupinu 2013 var ég 1:15 klst upp í Hrafntinnusker. Nú þóttist ég vera í betra brekkuhlaupaformi og bjóst því við að þetta væri sá kafli í hlaupinu þar sem ég gæti helst bætt mig. Með einhverjum útreikningum hafði ég meira að segja fundið út að ég gæti hugsanlega komist þessa leið á 1:09 klst, án þess að það væri þó nokkurt markmið í sjálfu sér. Löngu áður en hæstu hæðum var náð sá ég að það var engan veginn raunhæft. Þegar ég hljóp í hlaðið við skálann í Hrafntinnuskeri sýndi klukkan 1:14:30 klst. Ég var sem sagt „kominn hálfa mínútu í plús“ miðað við hlaupið 2013 og var hæstánægður með það. Kannski hafði snjórinn tafið mig eitthvað og hvernig sem á málið var litið var þarna alla vega komin vísbending um að ég ætti að geta lokið hlaupinu á svipuðum tíma og síðast.

2. áfangi: Hrafntinnusker – Álftavatn: 10,91 km
Ég staldraði ekkert við í Hrafntinnuskeri, þáði bara fyllingu á vatnsbrúsann minn og hélt svo rakleiðis áfram áleiðis suður fjöllin. Reynslan segir mér að ég geti auðveldlega borið með mér alla þá næringu sem ég þarf í svona hlaup, að vatni frátöldu, og því finnast mér áningar vera tímasóun. Samt er það alltaf tilhlökkunarefni að koma á næstu drykkjarstöð, sumpart vegna þess að þá er ákveðnum áfanga lokið, en aðallega þó vegna þess hve móttökurnar eru alltaf góðar. Frískir Flóamenn og aðrir sem mönnuðu drykkjarstöðvarnar á Laugaveginum þetta árið eiga sérstakar þakkir skildar fyrir einstaklega vinsamlegt viðmót sem létti manni skrefin inn í næsta áfanga.

Ég fann fyrir svolítilli þreytu um það leyti sem ég var kominn upp í Hrafntinnusker, aðallega í kringum bæði hnén. Það olli mér engum áhyggjum, enda hef ég oft áður fundið fyrir þreytu snemma í hlaupi án þess að það hefði nein áhrif á líðanina síðar. Hlaup á fjölbreyttu undirlagi, eins og Laugavegurinn er svo sannarlega, hafa það líka sér til ágætis að sumir kaflar eru erfiðir fyrir tiltekna vöðva sem fá svo kannski góða hvíld á næsta kafla þar sem aðrir vöðvar bera hitann og þungann af verkefninu.

Það tók mig svolitla stund að finna taktinn að nýju eftir Hrafntinnusker en í heildina fannst mér þetta ganga ágætlega. Þarna uppi voru miklar samfelldar fannir og í stað þess að fylgja slóðinni eins og ég hafði gert lengst af á uppeftirleiðinni valdi ég nú þann kostinn að hlaupa sem lengst fyrir utan hana í því sem næst ósnertum snjó. Þar var undirlagið ögn stöðugra og mér fannst það koma betur út. Ég held reyndar að snjórinn á þessum kafla hafi kannski flýtt fyrir mér, því að þarna er mikið af giljum og skorningum sem nú voru öll barmafull og leiðin því greið þó að undirlagið væri hvítt á litinn og ögn laust í sér.

Á þessum kafla reyndi ég að hugsa sem minnst um hvað tímanum leið, enda hefur maður svo sem enga viðmiðun í svona hlaupi að frátöldum einhverjum fáum föstum punktum sem kveikja minningar úr fyrri hlaupum, tölulegar eða aðrar. Annað slagið leit ég um öxl til að leita frétta af Gunnari – og þegar ég sá glitta í gula derhúfu vissi ég að þar væri allt á réttu róli.

Skyggnið þennan dag var ekkert til að kvarta yfir, enda loftið tært og háskýjað. Fyrr en varði sá ég líka Álftavatn lengst framundan. Þá vissi ég að skammt væri eftir suður á brún Kaldaklofsfjalla og að nú gæti ég farið að hlakka til að hlaupa niður Jökultungur. Þar taldi ég mig aftur eiga inni bætingu frá því í hlaupinu 2013 eftir afar vel heppnaðar niðurhlaupsæfingar á Hafnarfjallinu síðustu vikur. Mörgum finnast Jökultungurnar einn erfiðasti kaflinn í Laugavegshlaupinu, en ég hef alltaf verið frekar góður í að hlaupa niður í móti og líklega aldrei betri en nú.

Sjálfsagt var ég tiltölulega fljótur niður Jökultungurnar, en þær reyndust þó torfærari en ég hafði átt von á. Gatan var orðin mjög troðin og lausir smásteinar ofaná. Við slíka aðstæður getur manni skrikað illa fótur ef of hratt er farið. Eftir því sem lausa lagið er þykkara er auðveldara að fóta sig á miklum hraða. Ég neyddist sem sagt til að fara svolítið varlega þarna niður.

Nú var stutt eftir að Álftavatni og leiðin greið á tiltölulega sléttu landi. Ég vonaðist auðvitað til að mér tækist að halda þessari hálfu mínútu sem ég tók með mér í nesti frá Hrafntinnuskeri og jafnvel að bæta heldur við hana. Í hlaupinu 2013 var tíminn við Álftavatn 2:26 klst og ég var því bæði undrandi og glaður þegar klukkan sýndi 2:22:30 klst í þann mund sem ég kom þar í hlaðið. Mér hafði sem sagt tekist að bæta þremur mínútum við forskotið og var „kominn með þrjár og hálfa mínútu í plús“.

Ég hafði lagt af stað um morguninn í vindjakka sem hægt er að breyta í lítið mittisveski með ól. Þessa breytingu framkvæmdi ég á hlaupum rétt áður en ég kom að Álftavatni og í þessu veski var líka pláss fyrir ullarhanskana sem ég hafði haft á höndunum. Uppi á fjöllunum blés napur norðanvindur í bakið á hlaupurunum, en þarna niðurfrá var vindur hægari og loftið talsvert hlýrra, auk þess sem sólin var farin að skína. Þörfin fyrir vindjakka og ullarhanska var úr sögunni þennan daginn og óhætt að hlaupa með uppbrettar ermar.

Við Álftavatn skildi ég eftir þar til gerðan miða af rásnúmerinu mínu, en með þessu móti ganga aðstandendur hlaupsins úr skugga um að allir skili sér af fjöllunum. Að öðru leyti staldraði ég ekki við heldur hélt rakleiðis áfram þegar búið var að hella vatni í drykkjarbrúsann minn. Við Álftavatn sá ég Lilju Kristófersdóttur á Akranesi í hópi starfsmanna. Hún hafði ætlað að vera með í hlaupinu en þurft að hætta við vegna meiðsla og slegist í hóp starfsmanna í staðinn. Kunnugleg andlit á drykkjarstöðvum auka manni gleði og kraft í næsta áfanga.

3. áfangi (a): Álftavatn – Bláfjallakvísl: 5,18 km
Venjulega er litið á áfangann frá Álftavatni í Emstrur sem þriðja áfanga Laugavegshlaupsins. Það geri ég líka, en mér finnst þó enn betra að skipta þessum áfanga í tvennt og fjölga þannig tilhlökkunarefnum og samanburðarstöðum fyrir klukkuna. Mér fannst mér miða vel á þessum kafla og bilið milli mín og annarra hlaupara virtist haldast nokkuð svipað. Gauti var oftast nokkurn spöl á undan mér og Anton ýmist fáum skrefum á undan eða eftir. Ég sá hins vegar lítið til Gunnars og reiknaði með að hann væri heldur farinn að dragast aftur úr. Þetta var líka fyrsta Laugavegshlaupið hans og í þokkabót var hann að glíma við meiðsli sem gera mátti ráð fyrir að gerðu honum lífið leitt þegar liði á hlaupið. Það er ekkert smáverkefni að hlaupa Laugaveginn.

Víða á leiðinni hlupum við framhjá göngufólki sem hafði vikið úr vegi til að hvetja hlauparana til dáða. Svona hvatning skiptir mig miklu máli, og eins og ég hef einhvern tímann skrifað finnst mér alltaf að þetta fólk sé þarna alveg sérstaklega fyrir mig. Hvatningin gefur manni orku sem auðvelt er að virkja sér í hag. Það er kannski ögn sjálfhverft að eigna sér hvatninguna, en þetta er svo sem ekki frá neinum tekið og nýtist næsta manni örugglega jafnvel eftir sem áður.

Við skálann í Hvanngili var sem víðar dálítill hópur af sérlegum stuðningsmönnum mínum sem ég þekkti ekki neitt og frá Hvanngili var ekki langt að Bláfjallakvísl. Þangað hafði ég náð á sléttum 3 klst í hlaupinu 2013, en núna sýndi klukkan 2:54:30 klst. Ég hafði sem sagt grætt 2 mín frá því við Álftavatn og var kominn með 5:30 mín í plús þegar á heildina var litið.

Vatnið í Bláfjallakvísl náði mér vel upp fyrir hné, en var ekki svo ýkja kalt. Á bakkanum hinum megin beið aukafarangur þeirra sem höfðu kosið að skipta um föt eða bæta á nesti þegar þarna var komið sögu. Ég valdi þann kost í fyrsta Laugavegshlaupinu mínu 2007 en að fenginni þeirri reynslu finnst mér ávinningurinn af þessu lítill sem enginn. Þarna hefði svo sem verið gott að losa sig við mittisveskið með vindjakkanum og hönskunum, en það þyngdi mig ekki neitt. Ég hélt því ótrauður áfram suður á sandana með allt mitt hafurtask, bjartsýnn á framhaldið. Eftir þetta var fáliðað í kringum mig, því að margir höfðu greinilega átt erindi í farangurshrúguna.

3. áfangi (b): Bláfjallakvísl – Emstrur: 10,69 km
Sandarnir sunnan við Bláfjallakvísl eru vafalítið tilbreytingarlausasti hluti Laugavegarins en að sama skapi sá fljótfarnasti. Þarna hafði ég farið tiltölulega hratt yfir í hlaupinu 2013 enda var ég í mínu besta maraþonformi það sumarið. Bjóst varla við að geta gert öllu betur í þetta sinn, en þó gat ég bundið einhverjar vonir við hagstæðari aðstæður. Nú var jú vindurinn í bakið, sól á lofti og þokkalega hlýtt, en 2013 var frekar svalur mótvindur og svolítil úrkoma. Ég reyndi alla vega að halda góðum hraða. Held að það hafi gengið þokkalega, í það minnsta á meðan hlaupið var eftir veginum. Eftir að veginum sleppti tók við lausari sandur sem mér gekk ekki eins vel að hlaupa í. Þegar sunnar dregur liggur leiðin yfir nokkra hóla og hæðir og þar fannst mér heldur vera farið að draga af mér.

Einhvers staðar í grennd við Innri-Emstruá náði ég fótfráustu konunni á Laugaveginum þetta árið, Amber Ferreira frá New Hampshire. Við fylgdumst að miklu leyti að næstu kílómetra, nema hvað ég seig heldur fram úr á sléttu köflunum og hún náði mér aftur í brekkunum. Amber er enginn aukvisi í úthaldsgreinum. Hún hefur keppt a.m.k. 10 sinnum í Ironman (járnkarli), sem felst í að synda 3,8 km í sjónum, hjóla 180 km og hlaupa svo maraþon í lokin. Besti tíminn hennar í þessari grein er 9:07 klst. Hún er reyndar atvinnumaður í þríþraut og á að baki ótrúlegan feril á því sviði þrátt fyrir tiltölulega ungan aldur. Besti tíminn hennar í maraþonhlaupi er 3:03 klst, en þá var hún búin með tilheyrandi sund og hjólreiðar. Sjálfur þykist ég góður að hafa náð að hlaupa á 3:08 klst eftir markvissan undirbúning og góðan nætursvefn. Amber hefur líka orðið Bandaríkjameistari í snjóþrúguhlaupi svo eitthvað sé nefnt.

Hápunkturinn í Laugavegshlaupinu mínu 2013 var að koma niður að skálanum í Emstrum og sjá að þá voru ekki enn liðnar 4 klst. af hlaupinu. Núna fannst mér auðvitað lágmark að ég yrði 5:30 mín fljótari, þ.e.a.s. að ég næði að hlaupa kaflann frá Bláfjallakvísl á sama tíma og síðast. Helst vildi ég ná enn meira forskoti á tímann minn frá 2013, þrátt fyrir að maraþonformið væri tæplega eins gott og þá. Stundum er maður tilætlunarsamur.

Þegar klukkan var komin vel yfir 3:50 klst. bólaði enn ekkert á skálanum í Emstrum og þegar hann loks kom í ljós var tíminn kominn yfir 3:53 klst. Reyndin varð sú að hlaupið frá Bláfjallakvísl að Emstrum tók nánast nákvæmlega jafnlangan tíma og síðast, þ.e.a.s. 1 klst. Millitíminn í Emstrum var 3:54:30 klst. Ég var sem sagt enn með u.þ.b. 5:30 mín í plús miðað við 2013. Forskotið hafði ekki aukist, en ég var samt mjög sáttur. Ég hlaut að ná að ljúka hlaupinu á mínum besta tíma ef ekkert óvænt kæmi upp á á síðasta áfanganum. Það væri klúður að tapa niður meira en 5 mínútna forskoti, sérstaklega þegar haft var í huga að nú var meðvindur, þurrt og hlýtt, en 2013 var mótvindur og slagveðursrigning mestalla leiðina frá Emstrum og suðurúr.

4. áfangi (a): Emstrur – Þröngá: 13,31 km
Ég gaf mér rétt tíma til að endurnýja vatnsbirgðirnar í Emstrum og flýtti mér svo áleiðis, fullur gleði og tilhlökkunar. Þetta hafði allt gengið að óskum, mér leið vel þrátt fyrir svolitla þreytu í lærunum og fannst frekar stutt eftir. Ég skipti reyndar um skoðun á því á leiðinni upp úr gljúfrinu við Fremri-Emstruá og á leið upp brekkurnar þar fyrir sunnan. Það var engu líkara en roskinn fjallgöngumaður með þungan bakpoka hefði verið ráðinn í sumarafleysingar fyrir fjallahlauparann í mér, sem ég hafði þó haldið að væri sterkari en nokkru sinni fyrr. Á þessum kafla fór Hallgrímur Vignir Jónsson fram úr mér og þegar ég leit við sá ég að Amber var aftur farin að nálgast, en leiðir okkar höfðu skilið að mestu í grennd við Emstrur. Reyndar er mér alveg sama í svona hlaupum hvort ég verði á undan eða eftir einhverjum í mark, því að ég er sjálfur eini keppinauturinn. Þegar samferðamennirnir hópast fram úr mér hlýt ég samt að taka það sem vísbendingu um að heldur sé farið að halla undan fæti.

Þegar komið var lengra suður með Markarfljótsgljúfrum tók aftur við heldur sléttara land. Þar kom í ljós að maraþonhlauparinn í mér hafði hvergi nærri sagt sitt síðasta orð þó að fjallahlauparinn væri kominn í sumarfrí. Á þessum kafla kom ég sjálfum mér á óvart og náði að auka hraðann jafnt og þétt. Þarna náði ég Hallgrími aftur og eftir það sá ég í rauninni aldrei aðra hlaupara. Allir sem ég hafði fylgst með á leiðinni höfðu dregist aftur úr og næstu menn á undan voru með of mikið forskot til að þeir kæmu nokkurn tímann inn í sjónsviðið. Einhvers staðar á þessum kafla hitti ég fólk sem sagði mér að Þorbergur Ingi Jónsson hefði náð að ljúka hlaupinu á innan við 4 klst. Það töldu menn með öllu ómögulegt til skamms tíma. Hann var sem sagt að koma í mark þegar ég var ný lagður af stað frá Emstrum! Ótrúlegur afreksmaður!

Ég á erfiðar minningar úr Fauskatorfum frá því í Laugavegshlaupinu 2007, en þar var ég algjörlega þrotinn að kröftum. Núna var þessu þveröfugt farið. Mér hafði sjaldan liðið betur á hlaupum. Veðrið var dásamlegt og landslagið skartaði sínu fegursta til allra átta. Gleðin jókst enn frekar þegar ég sá stóran hóp göngufólks framundan og heyrði nafnið mitt kallað. Þar var komin Gunnur Róbertsdóttir með fríðu föruneyti. Þessi hlýja og persónulega hvatning var ómetanlegt nesti fyrir þá fáu kílómetra sem eftir voru.

Fyrr en varði var ég komin að Ljósá. Þar var drykkjarstöð sem kom í góðar þarfir, því að ég var orðinn vatnslaus fyrir nokkru. Vatnsskammturinn sem hafði dugað í hráslaganum 2013 var ekki nægur þennan sólskinsdag. Allt var þetta þó innan skekkjumarka og engin hætta á ofþornun. Nú var ekkert eftir nema Kápan og svo endaspretturinn frá Þröngá niður í Húsadal. Brosið var fast á andlitinu.

Kápan er aldrei létt yfirferðar þegar maður er búinn að hlaupa 48 km eða þar um bil. Ég var svolítið lengi upp en þess fljótari niður hinum megin. Þröngá var vatnslítil og þar stóð Magnús Jóhannsson úti í miðri á, hlaupurum til aðstoðar. Þetta var orðið svo skemmtilegt að elstu menn mundu varla annað eins.

Í miðri Þröngá, 50 km að baki og gleðin allsráðandi. Rjúpnafell í baksýn. (Ljósm. Magnús Jóhannsson).

Í miðri Þröngá, 50 km að baki og gleðin allsráðandi. Rjúpnafell í baksýn. (Ljósm. Magnús Jóhannsson).

4. áfangi (b): Þröngá – Húsadalur: 2,82 km
Við Þröngá sýndi klukkan 5:24 klst. Ég mundi ekki alveg hversu langt var þaðan í markið. Hafði séð einhvers staðar að það væru 4 km, en hafði samt hugboð um að það væri styttra og að þennan spotta gæti ég jafnvel hlaupið á korteri á góðum degi. Ákvað samt að stilla öllum væntingum í hóf og gera bara mitt besta. Ef þetta væru tæpir 4 km hlyti ég að geta afgreitt málið á 24 mín, þannig að lokatíminn yrði 5:48 klst. Það væri bara frábær niðurstaða. Þetta var alla vega örstutt og ég vissi að mér væri óhætt að taka á því sem til væri.

Í rauninni var nóg til. Á þessum síðasta kafla eru reyndar nokkrar stuttar brekkur sem ég neyddist til að ganga upp, en að öðru leyti hljóp ég eins og fætur toguðu. Ég hafði tekið steinefnatöflur reglulega alla leiðina til að bæta upp það sem tapast með svita, og hvort sem það var þeim að þakka eða einhverju öðru hafði ég ekki fundið fyrir minnsta votti af krömpum þegar hér var komið sögu. Það er algjör óskastaða. Í löngum hlaupum hef ég næstum alltaf þurft að berjast við krampa síðustu kílómetrana, og þó að þeir nái ekki yfirhöndinni er nánast útilokað að auka hraðann við slíkar aðstæður. Nú var það leikur einn.

Kominn í mark, alsæll. (Ljósm. Gunnlaugur Júlíusson).

Kominn í mark, alsæll. (Ljósm. Gunnlaugur Júlíusson).

Spölurinn frá Þröngá niður í Húsadal var enn styttri en mig minnti. Allt í einu sá ég ljósastaur sem ég mundi að var rétt fyrir ofan grasflötina við endamarkið. Og svo tók grasflötin við og ég heyrði rödd kalla rásnúmerið mitt í talstöð til að auðvelda þulunum í markinu að þekkja komumann. Ég tók góðan endasprett og kom alsæll og lítið lerkaður í markið á 5:41:10 klst. Ég hafði sem sagt hlaupið áfangann úr Emstrum á nærri 6 mínútum betri tíma en 2013 og bætt minn fyrri árangur um rúmlega 11 mínútur. Hlaupið var búið og mér leið hreint stórkostlega, bæði til sálar og líkama.

Á marksvæðinu
Í markinu tók við þetta hefðbundna, einhver myndataka, spjall við eitthvað af því góða fólki sem þar tók á móti mér og ótæpileg næringarinntaka í tjaldinu sem aðstandendur hlaupsins höfðu komið upp. Ég hafði líklega eytt um 3.600 hitaeiningum (kcal) í hlaupinu og orkugelin sex og önnur næring sem ég hafði innbyrt á leiðinni hafði að hámarki skilað 650 hitaeiningum til baka. Maður þolir alveg svoleiðis skuld í einhvern tíma, en ef hún er ekki endurgreidd að miklu leyti á fyrsta hálftímanum eftir hlaup er hætt við að eftirköstin verði þyngri en ella.

Næsta verk var að fylgjast með næstu hlaupurum koma í mark. Í þeim hópi kannaðist ég við marga. Einhverjir höfðu hitt Gunnar á leiðinni og þannig gat ég haft hugmynd um hvenær hann væri væntanlegur. Gunnar er ekki maður sem hættir við hálfklárað verk, og þó að heilsan væri ekki góð skilaði hann sér í mark á góðum tíma.

Á marksvæðinu hitti ég meðal annarra fimmtugan bónda úr Öræfum, Ármann Karl Guðmundsson á Svínafelli. Hann var ekki bara að ljúka sínu fyrsta Laugavegshlaupi, heldur var þetta líka fyrsta keppnishlaupið hans frá upphafi. Og árangurinn var glæsilegur. Hann lauk hlaupinu á 5:58 klst. og náði 31. sæti af öllum skaranum. Ármann ákvað um síðustu áramót að spreyta sig á þessu verkefni og hóf skipulegan undirbúning í janúar. Hann var auðvitað vel á sig kominn fyrir, en saga hans er samt gott dæmi um þann árangur sem hægt er að ná með markvissum undirbúningi. Ef menn sá, þá uppskera þeir. Annars ekki.

Eftirvinnslan
Þegar Gunnar var búinn að næra sig svolítið brugðum við okkur út í örstutt niðurskokk. Flestum finnst kannski nóg að hlaupa rúma 50 kílómetra, þó að maður bæti ekki einhverju við að óþörfu. En niðurskokk er til þess fallið að draga úr eftirköstum. Fyrstu skrefin eru kannski ekki auðveld, en svo mýkist maður smátt og smátt. Þegar við komum til baka úr þessari stuttu ferð rákumst við á Ívar Adolfsson sem stóð fyrir stórfelldum pönnukökubakstri í grennd við marksvæðið. Sævar Skaptason og Bryndís Óladóttir voru þarna líka, en þau hafa verið í hópu dyggustu hlaupavina minna síðustu ár. Veitingarnar sem ég þáði hjá Ívari voru punkturinn yfir i-ið og nánast endanleg trygging fyrir því að þetta Laugavegshlaup myndi ekki hafa nein teljandi eftirköst.

Sturturnar í Húsadal virkuðu óaðfinnanlega í þetta skiptið, ólíkt því sem var 2013. Síðan tók við hefðbundin matarveisla og verðlaunaafhending, þar sem ég hreppti 2. sætið í flokki 50-59 ára á eftir ótrúlega sprækum fimmtugum Ítala sem kláraði hlaupið á 4:58 klst. Þarna kom líka í ljós að ég hafði verið 17. maður í mark af 361 sem skilaði sér í mark og að af þessum 16 sem voru á undan mér voru ekki nema 6 Íslendingar. Ég gat ekki annað en verið alsæll með þessa tölfræði.

Samantekt um millitíma og næringu
Hvert hlaup færir manni nýja reynslu sem bætist við þá sem fyrir er. En flestir eru fljótir að gleyma, og þrátt fyrir ást mína á tölum er ég engin undanteking hvað það varðar. Þess vegna finnst mér borga sig að skrásetja sem flest af því sem gerist í hverju hlaupi sem líklegt er að nýtist mér (og kannski öðrum) í næstu ferð. Vegalengdir og millitímar eru dæmi um upplýsingar af þessu tagi, en mér finnast minnispunktar um klæðaburð, næringarinntöku o.fl. ekki síður mikilvægir. Klæðaburðinn hef ég áður tíundað, en hinum atriðunum ætla ég að safna saman í þessum kafla.

Lítum fyrst á tölulegar upplýsingar um vegalengdir og tíma, þ.m.t. samanburð við hlaupið 2013.

Tölulegur samanburður við hlaupið 2013. (Smellið á myndina til að fá stærri og ögn læsilegri útgáfu).

Tölulegur samanburður við hlaupið 2013. (Smellið á myndina til að fá stærri og ögn læsilegri útgáfu).

Næringin mín í þessu hlaupi var aðallega orkugel af gerðinni High-5+. Hvert gel er 40 g og orkugildi hvers þeirra er rétt um 90 kcal. Auk þess hafði ég meðferðis slatta af hnetum og rúsínum sem ég hafði saltað dálítið aukalega. Orkugildið í þessari næringu liggur ekki alveg fyrir, auk þess sem erfitt er að mæla inntökuna nákvæmlega í grömmum.

Ég hef það fyrir reglu að fylgja fyrirfram næringaráætlun í hlaupum, enda segir reynslan mér að getan til að taka skynsamlegar ákvarðanir minnkar eftir því sem líður á. Í þessu hlaupi ætlaði ég að taka eitt gel á 45 mínútna fresti og nota hnetur og rúsínur í staðinn ef ég yrði leiður á gelinu eða finndi fyrir óþægindum í maga. Með hverju geli ætlaði ég að taka tvo góða gúlsopa af vatni og drekka vatn þar fyrir utan eftir þörfum. Samtals átti vatnsdrykkjan ekki að vera minni en 300 ml á hverja 10 km. SaltstickAuk þess sem hér hefur verið talið hafði ég meðferðis nokkur steinefnahylki af gerðinni Saltstick, sem ég hafði keypt á sínum tíma hjá Daníel Smára í Afreksvörum. Þessi hylki ætlaði ég að taka samtímis orkugelunum og drekka þá kannski örlítið meira vatn en ella. Hylkin innihalda natríum, magnesíum, kalíum, kalsíum og D-vítamín og er ætlað að bæta upp eitthvað af því sem tapast með svita. Lauslegar tilraunir mínar á sjálfum mér benda til að inntaka hylkjanna dragi úr líkum á krömpum.

Ég fylgdi áætluninni í öllum aðalatriðum. Tók fjögur fyrstu gelin og samsvarandi steinefnahylki eftir 45, 90, 135 og 180 mín. Á söndunum sunnan við Bláfjallakvísl ákvað ég að skipta yfir í hneturnar og rúsínurnar. Þeirri fæðu tel ég hæfilegt að skófla í mig á 20 mínútna fresti, svo sem einni lúku í senn. Þessir matartímar voru því þegar 3:45 og 4:05 klst. voru búnar af hlaupinu, með steinefnahylki í fyrra skiptið. Að þessu sinni fannst mér þessi næring ekki alveg virka og því skipti ég aftur yfir í gelið. Gel nr. 5 og 6 voru því tekin eftir 4:30 og 5:15 klst. Samtals urðu þetta því 6 gel, 7 steinefnahylki og eitthvað af hnetum og rúsínum. Vatnsdrykkjan varð eitthvað meiri en að var stefnt, líklega um 400 ml á hverja 10 km. Vatnsmagnið verður eðlilega að ráðast af aðstæðum. Þannig þarf meira vatn í hlýju og þurru veðri en í slagviðri og kulda.

Hvort sem það var vatni, næringu, steinefnum eða einhverju öðru að þakka var heilsan með allra besta móti í öllu hlaupinu og að hlaupi loknu. Maginn var þokkalegur alla leið, orkuástand með besta móti og krampar víðsfjarri. Þetta gat varla verið betra.

Því er svo við að bæta að skóhlífarnar voru bylting til hins betra. Nú gat ég óhikað tekið til fótanna í lausum sandi og möl án þess að eiga það á hættu að fylla skóna af fylgihlutum. Þessi búnaður mun örugglega fylgja mér í utanvegahlaupum framtíðarinnar.

Þakkarorð og næstu skref
Gleði er góð tilfinning og af henni átti ég nóg eftir þetta Laugavegshlaup. Í svona hlaupi getur maður ekki treyst á neinn nema sjálfan sig, því að enginn annar gerir þetta fyrir mann. Engu að síður eiga margir aðrir mikinn hlut að máli. Þess vegna eru gleðin og þakklætið eins og síamstvíburar á svona stundum. Þakklætið í huga mínum beindist mest að fjölskyldunni minni og þá sérstaklega eiginkonunni Björk sem hefur umborið þetta tímafreka áhugamál mitt í áratugi og lagt margt gott til málanna þegar mest hefur á reynt. Svo er líka ástæða til að þakka hlaupafélögum mínum í Flandra, og þá sérstaklega Gunnari Viðari sem hefur fylgt mér af meiri elju en nokkur annar síðustu tvö árin. Aðstandendur Laugavegshlaupsins eiga líka þakkir skildar, þar með taldir allir starfsmennirnir sem virtust eiga endalausa ljúfmennsku í pokahorninu. Allt það góða fólk sem ég hef kynnst á hlaupum síðustu árin eiga líka skilinn sinn skerf af þakklæti. Í þessu hlaupi lék Gunnur einna stærsta hlutverkið. Hún og þeir sem voru í fylgd með henni voru svo sannarlega rétt fólk á réttum tíma. Annað göngufólk á Laugaveginum átti líka stóran þátt í að gera þennan góða dag að góðum degi. Og svo mætti lengi telja.

Næstu skref? Jú, þau verða hlaupin hér og þar, t.d. í Barðsneshlaupinu, í fjallvegahlaupum á Austurlandi, í Jökulsárhlaupinu og í Reykjavíkurmaraþoni í ágúst. Næsta sumar ætla ég að taka Hlaupahátíð á Vestfjörðum fram yfir Laugaveginn, en þessir tveir viðburðir lenda oft á sömu helginni. Sumarið 2017 verður svo kominn tími á fjórða Laugaveginn. Hann verður hluti af sextugsafmælisgjöfinni minni til mín, ef allt gengur að óskum. Markmiðið fyrir það hlaup er einfalt: Hlaupa á skemmri tíma en 5:41:10 klst og njóta hverrar mínútu.

Sæla á blautum Laugavegi

???????Ég hljóp Laugaveginn síðastliðinn laugardag, þ.e.a.s. þann Laugaveg sem liggur milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Þessi pistill hefur að geyma dálitla frásögn af hlaupinu og ýmsu sem tengdist því. Tilgangurinn með pistlaskrifunum er tvíþættur. Annars vegar gæti einhver haft gaman eða jafnvel gagn af því að lesa frásögnina, (þó að til þess þurfi reyndar álíka mikið úthald og til að hlaupa Laugaveginn) – og hins vegar er bloggið býsna öruggur staður til að geyma svona pistil á, sjálfum mér til upprifjunar fyrir næsta Laugavegshlaup. Upprifjun stuðlar að því að maður endurtaki ekki fyrri mistök en byggi frekar á því sem vel tókst.

Undirbúningurinn
Ég taldi mig vera í mjög góðu formi fyrir Laugaveginn þetta árið, ekki þó vegna þess að ég hefði æft svo mikið fyrir hann, heldur vegna þess að ég æfði mjög vel sl. vetur fyrir Parísarmaraþonið, þar með taldar allmargar intervalæfingar, svo og reglulegar styrktaræfingar að ráði Þorkels sonar míns. Þessar æfingar tel ég að hafi skipt sköpum. Æfingar sumarsins höfðu verið stopulli, en þó líklega dugað að miklu leyti til að halda fengnum hlut. Helsti veikleikinn var skortur á brekkuhlaupum. Upphaflega var ætlunin að byrja að vinna í þessu í apríl, þ.e.a.s. strax eftir París, en í reynd veigraði ég mér við því vegna meiðsla frá síðasta ári, sem ég finn eiginlega aldrei fyrir á meðan ég held mig á jafnsléttu. Einu brekkuæfingarnar þegar til kom voru þrjár ferðir á Hafnarfjallið, einn Þrístrendingur og eitt Hamingjuhlaup. Hins vegar tók ég nokkrar góðar æfingar á sléttu síðustu vikurnar.

Væntingarnar
Ég hafði sett mér það markmið fyrir löngu að hlaupa Laugaveginn undir 6 klst. Þetta átti að vera mjög raunhæft, m.a. þegar haft er í huga að árið 2007 hljóp ég minn fyrsta og eina Laugaveg til þessa á 6:40:50 klst. með miklu „færri kílómetra í löppunum“ og með miklu minni reynslu í kollinum. Varamarkmiðið var að bæta þann tíma, enda getur margt gerst á Laugaveginum sem setur strik í hinn ætlaða reikning. Þriðja markmiðið var að njóta hverrar stundar og hafa gleðina með í för allan tímann. Því skyldi náð hvað sem öðrum markmiðum liði.

Stundirnar fyrir hlaup
Það vildi þannig til að ég var aleinn heima kvöldið fyrir Laugaveginn. Þennan tíma nýtti ég vel í smáatriðaundirbúning af ýmsu tagi, svo sem til að ákveða nákvæmlega hvað ég ætlaði að taka með mér og í hvaða hirslu það ætti að vera. Mér finnst gott að hafa þetta allt á hreinu áður en gengið er til náða. Annars er hætt við að hugurinn haldi fyrir manni vöku við að fara í gegnum allan pakkann aftur og aftur í leit að einhverju sem gæti hafa gleymst. Áður en þessi undirbúningsvinna hófst hafði ég reyndar keypt mér ágæta fiskmáltíð á veitingastaðnum Edduveröld í Borgarnesi. Síðasta kvöldmáltíðin skiptir máli, og þegar maður er einn heima er snarlmatur óþarflega handhægur. Ef einhvern langar að vita hvort ég hlaði mig ekki upp af kolvetnum „karbólódi“ fyrir svona hlaup, þá er því fljótsvarað. Það hef ég aldrei gert og fer varla að byrja á því „á gamals aldri“. Mig grunar jafnvel að fyrirbærið sé ofmetið, auk þess sem ég get tekið undir með ágætum fyrrum kollega mínum vestan af fjörðum: „Ég hef nú aldrei verið mikið fyrir pasta“.

Eftir allan smáatriðaundirbúninginn gekk ég til náða stundvíslega kl. 21:45. Hugsanir um hlaupið og undirbúning þess létu mig alveg í friði, en samt náði ég ekki að sofna fyrr en um kl. 23:15. Líkaminn lætur ekki alltaf snúa á sig þegar rótgrónar venjur hans eru annars vegar.

Kl. 2:15 hringdi vekjarinn minn góðlátlega. Þar með hófst næsti hluti fyrirfram ákveðinnar atburðarásar í sama smáatriðastílnum, þ.m.t. sturta, morgunmatur (full skál af AB-mjólk með múslíi), endanleg röðun smáatriða í viðeigandi hirslur o.s.frv. Kl. 3:20 var ég svo lagður af stað akandi til Reykjavíkur – með allt á sínum stað.

Rútan í Landmannalaugar lagði af stað frá Skautahöllinni í Laugardal um kl. 4:30. Þar niðurfrá hitti ég Birki Þór Stefánsson, bónda og skíðagöngukappa í Tröllatungu á Ströndum. Hann var að fara sinn fyrsta Laugaveg, en á síðustu árum höfum við hlaupið ýmsa fjallvegi saman. Þeir sem hafa farið í nokkrar Vasagöngur eins og Birkir, vita líka nokkurn veginn við hvað hugurinn þarf að glíma. Við Birkir höfðum haft samráð um ýmislegt í undirbúningi hlaupsins og höfðum í hyggju að fylgjast að svo lengi sem hvorugur tefði fyrir hinum.

Tíminn í rútunni var fljótur að líða við spjall um heima og geima – og fyrr en varði renndum við í hlað við hálendismiðstöðina í Hrauneyjum þar sem þeir sem vildu gátu fengið keyptan morgunverð. Við Birkir vorum báðir í þeim hópi. Þessum pistli er ekki ætlað að vera nein veitingahúsarýni, en það verður þó að segjast að Hrauneyjar stóðu ekki undir væntingum. Staðurinn virtist engan veginn ráða við að afgreiða þennan þó fyrirsjáanlega fjölda fólks á svona stuttum tíma. Við okkur blöstu m.a. tómir hafragrautarpottar og fátæklegt hvítt brauð, og tímans vegna varð minna úr kaffidrykkju, tedrykkju og klósettferðum en stefnt hafði verið að. Ég hefði betur látið mér nægja seinni skonsuna og ostinn sem ég átti í fórum mínum í rútunni og afganginn af appelsínusafanum sem ég hafði skolað fyrri skonsunni niður með fyrr um morguninn. En þetta var svo sem allt í lagi. Stundum tekur maður bara rangar ákvarðanir. Það eina skynsamlega sem hægt er að gera í slíkri stöðu er að taka aðra ákvörðun næst þegar svipuð staða kemur upp.

Landmannalaugar
Það var hráslagalegt í Landmannalaugum þennan morgun, einhver sunnan gola, súld og líklega um 5 stiga hiti. Allir þurftu að skrá sig áður en lagt var af stað, enda nauðsynlegt í óbyggðahlaupum að vita hverjir leggja í hann og hverjir ekki. Þetta gekk frekar hægt til að byrja með og þess vegna myndaðist biðröð sem mér fannst ákaflega kalt að standa í. En reynslan hefur kennt mér að kuldahrollur fyrir hlaup er fljótur að gleymast þegar maður er kominn af stað. Naumlega tókst að ljúka skráningunni áður en fyrsti hópurinn var ræstur af stað í hlaupið kl. 9:00. Þessi fyrsti ráshópur var með gul keppnisnúmer og var því kallaður „guli hópurinn“. Við Birkir vorum hins vegar í „rauða hópnum“ sem var ræstur kl. 9:05. Röðun í hópa ræðst af áætluðum lokatíma. Þar hafði ég gefið upp 6 klst. en Birkir 7, auk þess sem við höfðum beðið um að vera í sama ráshópi.

Í Landmannalaugum skömmu áður en hlaupið hófst. Birkir tók myndina.

Í Landmannalaugum skömmu fyrir hlaup. Birkir tók myndina.

1. áfangi: Landmannalaugar-Hrafntinnusker
Kl. 9:05 lagði „rauði hópurinn“ af stað. Við Birkir vorum framarlega í hópnum, enda bjóst ég við að við værum með þeim hraðskreiðustu meðal rauðra. Fyrsti spölurinn upp frá Landmannalaugar liggur um þrönga götu í hrauninu. Þar verður maður að halda sér rólegum í röðinni, en af og til gefast tækifæri til að skjótast fram úr ef mikið liggur við.

Fyrstu kílómetrarnir voru tíðindalitlir. Við smeygðum okkur smám saman framar í röðina, en gengum upp flestar brekkur enda varla annað hægt á þessum slóðum. Áður en langt um leið tókum við að grilla í síðustu menn úr „gula hópnum“ og eftir rúman hálftíma vorum við búnir að brúa bilið. Okkur fannst okkur miða allvel áleiðis. Þarna hefur maður reyndar litla viðmiðun, því að meðalhraðinn á hverju tilteknu augnabliki segir svo sem ekki neitt. Í bröttustu brekkunum fer maður örhægt, en getur skokkað sæmilega þess á milli.

Á uppeftirleiðinni, 3 km að baki. Lambhúshettan á sínum stað og Birkir fylgir fast á eftir. (Ljósm. Hlaup.is (birt með leyfi)).

Á uppeftirleiðinni, 3 km að baki. Lambhúshettan á sínum stað og Birkir á næstu grösum, ef svo má að orði komast. (Ljósm. Hlaup.is (birt með leyfi)).

Þegar ofar dró fórum við að fá á tilfinninguna að sumarið væri ekki komið, heldur væri ennþá mars með vægri hláku. Þarna voru allar lautir fullar af hjarni, en efst var þunnt lag af nýföllnum snjó sem rigningarúðinn bræddi smátt og smátt. Fannirnar voru sæmilega greiðfærar því að bráðnun í efsta laginu var ekki mikil. Svona færi verður fyrst erfitt þegar mikil sólbráð er, því að þá er hálfbráðna lagið miklu þykkara.

Ég hafði áætlað að ferðin frá Landmannalaugum upp í Hrafntinnusker tæki 1:12 klst., þ.e.a.s. 20% af þeim 6 klst. sem ég ætlaði í hlaupið í heild. Þetta náðist ekki alveg, því að millitíminn í Hrafntinnuskeri var 1:15 klst. Þrjár mínútur til eða frá skipta hins vegar litlu sem engu máli í þessu samhengi, og því engin ástæða til að örvænta. Til viðmiðunar hafði ég líka millitímann frá hlaupinu 2007, en þá var ég 1:20 klst. þarna uppeftir.

Áfangi Samanlagt
Landmannalaugar-Hrafntinnusker 1:15:00 1:15:00
Áætlun 2013 1:12:00 1:12:00
Hlaup 2007 1:20:00 1:20:00

Það var skrýtið að koma upp í Hrafntinnusker. Þykkt snjólag var allt í kringum skálann, en breið geil meðfram öllum veggjum. Þarna var alautt þegar ég átti leið um í Laugavegshlaupinu 2007. Þegar þarna var komið sögu hafði Birkir dregist örlítið afturúr, en ég lét ótrauður fylla á vatnsbrúsann minn og hélt svo áleiðis í áfanga 2.

2. áfangi: Hrafntinnusker-Álftavatn
Mér leið vel þegar ég yfirgaf skálann í Hrafntinnuskeri eftir örstutta viðdvöl. Þessu var allt öðru vísi varið 2007, því að þá var ég tekinn að þreytast um þetta leyti og þótti langt eftir. Veðrið var enn svipað, svolítil gola í fangið og ísköld súld, enda hitinn varla nema um 2 gráður þarna uppi. Öll gil voru full af snjó og leiðin því líklega fljótfarnari en ella, sérstaklega fyrir þá sem láta snjóinn ekki angra sig. Einhvers staðar þarna uppi á fjöllunum lenti ég í smávegis vandræðum með ruslapokabeltið sem okkur var uppálagt að vera með. Ég hafði nælt keppnisnúmerinu í beltið, og þegar ég reyndi að opna pokann með krókloppnum fingrum skemmdist ein nælan þannig að ég gat ekki lokað henni aftur. Eftir það tróð ég því rusli sem til féll í annað hólf sem ég var með á drykkjarbeltinu mínu. Þetta sérhannaða ruslapokabelti verður varla notað meira, nema þá til að festa á það keppnisnúmer. Það virkar vel til þess.

Fyrst minnst er á rusl er rétt að taka fram að ég var vel birgur af orkugeli sem ég ætlaði að nota í hlaupinu. Geláætlunin mín hljóðaði upp á eitt stykki (38 g) á u.þ.b. 35 mínútna fresti. Samkvæmt þessu hefði ég þurft um 10 gel í ferðina. Af rælni hafði ég hins vegar líka með mér um 190 g. af hnetum og rúsínum sem ég hafði saltað dálítið aukalega í smáatriðaundirbúningi kvöldsins áður. Seinna í hlaupinu skipti ég að miklu leyti yfir í þessa fæðu, þrátt fyrir þá almennu reglu mína að breyta áætlun um fæðuinntöku aldrei í miðju hlaupi.

Birkir náði mér aftur á meðan ég glímdi við ruslapokabeltið og saman skokkuðum við sem leið lá suður á brún Kaldaklofsfjalla og niður Jökultungur. Ég fann vel á þessum köflum að Birkir var mun sterkari en ég í brekkum, en á jafnsléttu snerist dæmið við. Þetta kom svo sem ekkert á óvart, því að æfingarnar mínar höfðu í reynd miðast við maraþonhlaup á sama tíma og brekkuæfingar höfðu orðið útundan. Það var því öllu minni völlur á mér í Jökultungum en árið 2007 þegar ég geystist þar niður í óheftum unggæðingshætti.

Skömmu eftir að við komum niður af fjöllunum lá leiðin yfir Grashagakvísl, sem er fyrsta teljandi vatnsfallið á leiðinni. Vatnið var ákaflega kalt, enda við því að búast að teknu tilliti til lofthita og snjóþyngsla á fjöllum. Þarna reyndi á ódýru Adidas utanvegaskóna sem ég var með á fótunum þennan dag. Þeir stóðust prófið að því leyti að mér gekk sæmilega að stappa úr þeim vatninu þegar yfir var komið. Sumir aðrir skór eru þó betri hvað þetta varðar. Þegar þarna var komið sögu var ég reyndar farinn að finna töluvert fyrir sandi og smásteinum í skónum, enda  í örþunnum sokkum og ekki með neinar legghlífar. Ég ákvað að láta þetta ekki angra mig að sinni, enda tefst maður talsvert við að fara úr skóm og í þá aftur. Á endanum hljóp ég reyndar alla leið með sandinn í skónum – og varð ekki meint af.

Á sléttlendinu ofan við Álftavatn drógst Birkir aftur úr á nýjan leik, enda náði ég mér vel á strik á þessum kafla. Garminúrið sýndi iðulega 4:45 mín/km og Álftavatn nálgaðist óðfluga.

Millitíminn við Álftavatn var 2:26 klst., sem var 2 mín á eftir áætluninni minni. Ég hafði sem sagt unnið upp eina mínútu af þessum þremur sem vantaði á í Hrafntinnuskeri. Þarna staldraði ég ekkert við, lét bara fylla á vatnsbrúsann og hélt svo áfram ferðinni. Birkir var rétt á eftir mér.

Áfangi Samanlagt
Hrafntinnusker-Álftavatn 1:11:00 2:26:00
Áætlun 2013 1:12:00 2:24:00
Hlaup 2007 1:16:00 2:36:00

3. áfangi: Álftavatn-Emstrur
Mér leið enn ljómandi vel þegar ég yfirgaf skálann við Álftavatn. Veðrið hafði lítið breyst, nema hvað vindurinn var orðinn ívið austlægari. Áfram ringdi smávegis annað slagið, en alls ekkert til óþæginda.

Ég var kominn að Bláfjallakvísl eftir réttar 3 klst. Þar var strengdur kaðall yfir og aðstoðarmenn til taks, enda náði áin mér hátt upp á læri. Þegar ég kom upp úr að sunnanverðu voru fæturnir mjög dofnir af kulda, en það lagaðist fljótt á hlaupunum. Í hlaupinu 2007 skipti ég um skó sunnan við Bláfjallakvísl. Þá var ég kominn með krampa í fæturna og lentur í mesta basli. Núna átti ég engan farangur þarna á miðri leið og fann enga þörf til að staldra við eða hagræða einu né neinu. Sunnan við ána hitti ég franskan hlaupara búsettan í Kanada, sem var að hlaupa Laugaveginn til að halda upp á fertugsafmælið sitt. Við fylgdumst að dálítinn spöl, en síðan drógst hann aftur úr. Birki hafði ég ekki séð í nokkurn tíma.

Þessi merkimiði var aldrei notaður, enda lífið örlítið einfaldara án hans.

Þessi merkimiði var aldrei notaður, enda lífið örlítið einfaldara án hans.

Framundan voru sandarnir og ég hugsaði mér gott til glóðarinnar að nýta flatlendisformið sem ég kom mér upp í æfingunum fyrir Parísarmaraþonið. Þarna bar fátt til tíðinda, ég hitti fáa og hljóp bara sem leið lá án þess að fylgjast mikið með tímanum eða hraðanum. Þannig finnst mér tíminn líða hraðar, jafnframt því sem ég nýt stundarinnar betur. Það gerði ég virkilega á þessum kafla. Hlakkaði til að koma í Emstrur og sjá millitímann þar, en hann átti helst að vera um eða undir 4:12 klst. samkvæmt áætluninni minni. Og allt í einu blasti skálinn við – og klukkan ekki einu sinni komin í 4 klst. Þetta var gleðistund, mér fannst ég vera sigurvegari og var léttstígur þegar ég kom inn á pallinn hjá skálanum. Millitíminn var nákvæmlega 3:59:58 klst! Þessi þriðji áfangi hafði tekið 14 mín. skemmri tíma en ég hafði reiknað með og 21 mín. skemmri en í hlaupinu 2007.

Áfangi Samanlagt
Álftavatn-Emstrur 1:34:00 4:00:00
Áætlun 2013 1:48:00 4:12:00
Hlaup 2007 1:55:00 4:31:00

4. áfangi: Emstrur-Húsadalur
Mér dvaldist ekkert við skálann í Emstrum, nema til að láta fylla á vatnsbrúsann. Brúsinn tekur um 600 ml, og eftir að hafa áætlað vatnsþörfina það sem eftir var hlaups sullaði ég dálitlu niður til að minnka magnið í 450 ml. Það átti að vera hæfilegt miðað við að drekka u.þ.b. 300 ml. á hverjum 10 km. Mér finnst best að vera með nokkuð fasta fyrirfram gerða áætlun um vökva og fæði, því að ályktunarhæfnin eykst síður en svo þegar á líður hlaupið. Eftir sem áður þarf maður að læra að hlusta á líkamann og reyna að skynja hvað er honum fyrir bestu á hverjum tíma.

Nokkru áður en ég kom í Emstrur var ég farinn að finna örlitla krampatilfinningu í hægri kálfanum annað slagið. Meðal annars þess vegna breytti ég um mataræði, gaf gelinu frí og fékk mér þess í stað salthnetur og rúsínur á svo sem 20 mín. fresti til að reyna að koma í mig einhverjum steinefnum. Það virtist nú svo sem ekki hafa nein afgerandi áhrif, krampatilfinningin var enn til staðar, en líðanin að öðru leyti stórgóð. Auðvitað fann ég fyrir einhverri þreytu í skrokknum, en hugurinn var í sínu besta formi. Satt best að segja hef ég sjaldan skemmt mér betur en á þessum síðasta áfanga hlaupsins. Ég var í hreinskilni sagt með tárin í augunum af gleði yfir því að geta notið einmitt þessara gæða sem skipta mig svo miklu máli, þ.e.a.s. að geta verið á hlaupum allan daginn úti í náttúrunni. Um leið varð mér hugsað til vina og kunningja sem hefðu svo gjarnan viljað vera í þessum sporum en áttu þess engan kost – og líka til minna nánustu sem hafa skapað með mér aðstæður sem gera mér kleift að sinna þessu tímafreka áhugamáli mínu. Það er ekkert sjálfsagt að lífið leiki svona við mann. Það minnsta sem maður getur gert er að fyllast þakklæti og njóta stundarinnar á meðan hún gefst.

Þegar þarna var komið sögu var ég alveg viss um að ég myndi ljúka hlaupinu á 6:10 klst. í allra mesta lagi ef ekkert stórvægilegt kæmi fyrir. Þessi vissa byggðist á því að árið 2007 skrönglaðist ég síðasta áfangann á 2:10 klst. frekar illa á mig kominn. Ef allt gengi samkvæmt áætlun gæti tíminn hins vegar farið allt niður í 5:48 klst, og ef fjórði áfanginn yrði álíka léttur og sá þriðji eygði ég jafnvel möguleika á að bæta tímann minn frá 2007 um heilan klukkutíma niður í 5:41 klst. En hvað sem lokatímanum liði stæði ég uppi sem sigurvegari í keppninni við sjálfan mig.

Um þetta leyti jókst úrkoman til muna. Fram að þessu hafði þetta bara verið einhver súld og smárigning annað slagið, en núna fór að rigna fyrir alvöru. Og mótvindurinn jókst að sama skapi. Ég var nýbúinn að taka af mér lambúshettuna sem ég hafði haft meira og minna á hausnum alla leiðina. Var búinn að koma henni svo vel fyrir á drykkjarbeltinu að ég nennti ekki að draga hana fram aftur. Enginn er verri þótt hann vökni. Ég var auðvitað orðinn alveg gegndrepa frá hvirfli til ilja, en þó að hlýindi væru af skornum skammti vissi ég að ég gæti vel haldið á mér hita svo lengi sem ég héldist á hreyfingu. Ég hef oft hlaupið óþarflega fáklæddur í verra veðri en þessu.

Þrátt fyrir að þreytan og úrkoman hertu tökin smátt og smátt kom það ekki niður á gleðinni. Hún jókst jafnt og þétt. Allt í einu voru bara 12 km eftir. Þá hlaut ég að geta klárað á 1:20 mín. Svo voru 9 km eftir, sem gátu varla tekið meira en klukkutíma. Og þannig liðu kílómetrarnir í einskærri hamingju. Á nokkrum stöðum rifjuðust upp fyrir mér augnablik úr hlaupinu 2007, þar með talin erfið augnablik þegar ég vissi ekkert hvernig ég ætti að afgreiða kílómetrana sem eftir voru. Þá var ástandið verst í Fauskatorfum, þar sem á að giska 7 km eru eftir af hlaupinu. Núna var ég hins vegar staddur í einhverri allt annarri veröld. Þessir 7 km sem virtust svo langir fyrir 6 árum voru ekkert annað en þægilegur smáspotti sem ég hlakkaði til að kynnast á nýjan leik.

Þröngá var djúp og köld í rigningunni, en ferðin yfir hana var létt. Þar stóð Ingvar Garðarsson í miðjum streng, hlaupurum til halds og trausts. Mér fannst gaman að rekast á hann þarna. Ingvar er einn fárra sem hafa verið viðloðandi hlaupin álíka lengi og ég, nema hvað hann hefur lengst af verið langtum virkari. Þar hafa fá ár dottið úr síðustu fjóra áratugi.

Skógarstígarnir frá Þröngá niður í Húsadal voru mjúkir og hálir í bleytunni, en það skipti engu máli. Þetta var að verða búið, og ekki spillti fyrir að stórir hópar íslenskra göngumanna hvöttu mig óspart á lokasprettinum. Ég veit að ég fékk enga sérmeðhöndlun, en mér fannst ég samt vera aðalmaðurinn, já eiginlega ótvíræður sigurvegari hvað sem leið öllum þeim fjölda hlaupara sem komnir voru í mark á undan mér. Ég rétt náði að harka af mér til að ég kæmi ekki hágrátandi af gleði í markið. Það er lágmark að vera sæmilega frískur á markmyndinni, þó að sjálfsagt hafi ég verið með sjúskaðra móti, svona útlitslega séð. Hvað sem því leið sýndi markklukkan 5:57 klst. þegar ég skokkaði yfir línuna, sem þýddi að ég hafði lokið hlaupinu á 5:52 klst, því að  markklukkan var stillt fyrir „gula hópinn“ sem var ræstur 5 mín fyrr en „rauði hópurinn“ minn. Öll markmið höfðu náðst!

Síðustu skrefin, 3 sek. eftir í mark. (Klukkan á myndinni er 5 mín. of fljót, því að hún tók tímann á „gula hópnum“. Hér ríkir gleðin ein. (Ljósm. Hlaup.is (birt með leyfi)).

Síðustu skrefin, 3 sek. eftir í mark. (Klukkan á myndinni er 5 mín. of fljót, því að hún tók tímann á „gula hópnum“). Hér ríkir gleðin ein. (Ljósm. Hlaup.is (birt með leyfi)).

Áfangi Samanlagt
Emstrur-Húsadalur 1:52:33 5:52:33
Áætlun 2013 1:48:00 6:00:00
Hlaup 2007 2:09:50 6:40:50
Sigurvegari í unglingaflokki fullorðinna. (Ljósm. Guðmundur Löve (birt í fullkomnu leyfisleysi)).

Sigurvegari í unglingaflokki fullorðinna. (Ljósm. Guðmundur Löve (birt í fullkomnu leyfisleysi)).

Hrollur og hamingja
Starfsfólk Laugavegshlaupsins á miklar þakkir skildar fyrir alla þolinmæðina og umhyggjuna sem virtist hreint óþrjótandi þennan rigningardag. Ekki voru móttökurnar í markinu sístar, þar sem hópur fólks hjálpaði manni við að upplifa sig sem sigurvegara hvernig sem ástandið annars var. Reyndar var ástandið á mér alveg prýðilegt, svona líkamlega séð, og langt fyrir ofan öll eðlileg hámörk, svona andlega séð. Ég byrjaði á að stafla í mig hinum ólíklegustu fæðutegundum og fór svo að bauka við að komast í þurrt. Ég ætla ekkert að fjölyrða um þær aðfarir, að öðru leyti en því að ég hef sjaldan skolfið eins mikið. Ekki minnkaði skjálftinn þegar ég komst að því að sturtuhausarnir á útisturtunum sem ætlaðar voru karlhlaupurum voru einmitt á þeirri stundu sem ég stóð undir þeim eini þurri staðurinn á þessum landshluta. En hvað sem sturtuferðinni leið var ég kominn í þurrt eftir nokkra stund, þurfti reyndar smáhjálp við að reima skóna, en leið að öðru leyti stórvel. Birkir skilaði sér líka fyrr en varði. Hann hafði lokið þessu fyrsta hlaupi sínu á 6:11 klst þrátt fyrir lítinn undirbúning, sem þýddi að hann hafði í raun alls ekki dregist svo mikið aftur úr. Hann var vissulega ótvíræður sigurvegari!

Nú tók við hefðbundin slökun, spjall og neysla kjöts og annarra góðra veitinga. Svo var komið að verðlaunaafhendingunni – og ekki minnkaði gleðin þegar í ljós kom að ég hafði verið fyrstur í mark af körlum á aldrinum 50-59 ára. Þessu hafði ég alls ekki reiknað með, þó að mér hefði vissulega flogið möguleikinn í hug. Þetta var gaman!

Heim á leið
Strax að lokinni verðlaunaafhendingu settist ég upp í fyrstu rútu til Reykjavíkur. Leiðin þangað leið fljótt við spjall við Birki, Guðmund Löve og fleiri góða hlaupara, og frá Reykjavík tók við hefðbundinn akstur upp í Borgarnes. Á þeirri leið rifjaðist enn upp samanburðurinn við hlaupið 2007. Þá vildi það mér til happs að vera á sjálfskiptum bíl. Hægri fóturinn var nefnilega óökufær vegna krampa, en með því að leggja þann vinstri yfir og leyfa honum að sjá um bensíngjöfina komst ég alla leið heim. Nú var aksturinn ekkert vandamál, jafnvel þótt bíllinn væri beinskiptur og því nokkurt annríki hjá báðum fótum. Reyndar lét ég ekki staðar numið í Borgarnesi, heldur hélt áfram sem leið lá til Hólmavíkur þar sem öll fjölskyldan mín var stödd. Þar gekk ég til náða réttum sólarhring eftir að ferðalagið hófst.

Lokaorð
Þetta var ógleymanlegur dagur. Kannski fannst einhverjum veðrið leiðinlegt og færðin vond, en mér fannst þetta allt vera nákvæmlega eins og best verður á kosið. Kannski hefði verið örlítið fljótlegra að hlaupa þetta við örlítið betri aðstæður, en forréttindin eru þau sömu. Meiri gleði og meira þakklæti er varla hægt að upplifa á einum sólarhring.

Örlítið velkt þátttökunúmer að hlaupi loknu. Þátttakandinn var líka örlítið velktur, en ekkert umfram það.

Örlítið velkt þátttökunúmer að hlaupi loknu. Þátttakandinn var líka örlítið velktur, en ekkert umfram það.

Eftirmáli um nesti og búnað
Þessi eftirmáli er að miklu leyti hugsaður til eigin nota, en er þó eins og sjá má galopinn hverjum sem hafa vill. Eftirmálann ætla ég að lesa í byrjun júlí 2017 í lokaundirbúningi fyrir næsta Laugavegshlaupið mitt (að öðru óbreyttu). Er þegar byrjaður að hlakka til!

Ég var kappklæddur á Laugaveginum: Langerma hlaupabolur, hlírabolur utanyfir, hlaupajakki, hlaupanærbuxur, síðar hlaupabuxur, stuttir þunnir hlaupasokkar, utanvegaskór af gerðinni Adidas Kanadia 4 TR, þunnir en nokkuð vindheldir hlaupahanskar, lambhúshetta hálfa leiðina. Ég tel þetta hafa verið alveg hæfilegan klæðnað. Léttar legghlífar gætu þó verið góð hugmynd fyrir næstu ferð. Hvað skóna varðar, þá hef ég ekki hlaupið í Adidasskóm í u.b.b. 20 ár. Keypti þessa af því að þeir voru ódýrir. Þeir reyndust prýðilega og fóru vel með fæturna.

Ég var með þrjú belti en engan bakpoka, þ.e.a.s. drykkjarbelti með einum 600 ml brúsa, gelbirgðum og sérvasa fyrir annað nesti, einfalt belti með síma og nokkrum gelum – og ruslapokabelti í boði Laugavegarins. Þetta reyndist allt vel, nema ruslapokabeltið sem hentar vel til að festa á það hlaupanúmerið en síður til annars. Enginn farangur var geymdur við Bláfjallakvísl. Það tel ég hafa verið rétta ákvörðun.

Upphaflega ætlaði ég að taka gel (38 g / 80 kcal) á u.þ.b. 35 mín. fresti. Var með nógar birgðir til þess arna. Tók líka með slatta af hnetum og rúsínum sem ég hafði saltað aukalega, án þess að vera ákveðinn í hvenær og hvernig það skyldi notað. Skipti um áætlun á leiðinni, (sem ég geri annars aldrei). Tók ekki nema 5 gel, einkum á fyrri hluta leiðarinnar, en skipti svo yfir í hitt. Át þó varla meira en 60 g af því. Giska á að heildarorkuinntakan hafi ekki verið nema 700 kcal. Held að það sé frekar lítið, en orkan hélst vel alla leið. Aðkenning að krömpum í kálfa var eina vísbendingin um mistök hvað þetta varðaði. Veit ekki alveg hvað ég þarf að laga til að bæta þetta. Drakk 300 ml. af vatni á hverja 10 km, eða um 1,5 l samtals. Bætti á brúsann á drykkjarstöðvum eftir þörfum. Allt bendir til að vatnsbúskapurinn hafi verið í topplagi.

Hér lýkur þessum eftirmála og þar með pistlinum öllum.