Í fyrradag voru liðin 20 ár frá því að pabbi kvaddi þennan heim. Þess vegna finnst mér ekki úr vegi að rifja upp hver hann var, þó að ég sjái auðvitað bara mína takmörkuðu hlið á því máli. Ég þekkti pabba t.d. bara tæpan helming af þeim tíma sem hann var á lífi, þ.e.a.s. frá því að hann var um fimmtugt og þangað til dagsverki hans lauk upp úr níræðu.
Pabbi, eða Gísli Þórður Gíslason eins og hann hét fullu nafni, fæddist á Brunngili í Bitru 11. september 1908. Hann var yngstur af sex alsystkinum sem komust á legg og eini strákurinn í þeim hópi. Pabbi átti sem sagt fimm alsystur, auk hálfsystur sem ólst upp annars staðar og uppeldisbróður sem afi og amma á Brunngili tóku að sér þegar pabbi var 5 ára eða þar um bil.
Setið yfir ánum
Bærinn á Brunngili stendur í Brunngilsdal. Þar er votlent, tiltölulega lítið undirlendi og brattar hlíðar á báða vegu. Ég held að lífsbaráttan þar hafi verið frekar hörð, án þess þó að heimilisfólkið byggi við sára fátækt. Um átta ára aldur var pabbi farinn að sitja einn yfir ánum einhvers staðar lengst frammi á dal og ég held að hann hafi eiginlega unnið fulla vinnu eftir það, þ.e.a.s. næstu 80 árin. Sjálfsagt átti hefðbundin verkaskipting kynjanna þátt í að hann þurfti að standa sig í útivinnu svona ungur – og ég held að einveran á dalnum hafi mótað hann, bæði andlega og líkamlega. Þrennt hef ég til marks um það. Hann var í fyrsta lagi einstaklega brattgengur, fimur í klettum og skriðum og laus við lofthræðslu, já og reyndar flesta aðra hræðslu líka. Í öðru lagi var hann mjög harður af sér, kvartaði helst aldrei og var yfirmáta vinnusamur. Og í þriðja lagi var hann óvenjuléttur á fæti og hljóp reyndar oftast við fót frekar en að ganga rólega skref fyrir skref. Hlaupastíllinn bar þess líka merki af hlaupaskórnir hans mörg fyrstu árin voru sauðskinnsskór sem veittu litla vörn á hörðu undirlagi.
Skófatnaður og hlaupastíll
Svo ég skýri þetta með hlaupastílinn aðeins nánar, þá tók pabbi stutt og hröð skref, hljóp með lítið eitt bogin hné og lenti framarlega á fætinum, líklega ekki ósvipað þeim sem alast upp við að hlaupa berfættir. Þetta hélst alla tíð, þó að skófatnaðurinn breyttist. Reyndar er erfitt fyrir nútímamanninn að ímynda sér hvernig það er að vera allan daginn á göngu eða hlaupum í sauðskinnsskóm og alltaf votur í fætur í þokkabót. Ég held að pabbi hefði líka tekið undir það sem einhver sagði að mesta tækniframförin á 20. öldinni hafi verið gúmmístígvélin. Til er mynd af pabba í fyrstu gúmmístígvélunum sínum, líklega tekin árið 1925 þegar pabbi var 17 ára. Jakkafötin sem hann er í á myndinni segja sína sögu um mikilvægi þessa augnabliks.
90 ára gamall hefilbekkur
Um það leyti sem stígvélamyndin var tekin hleypti pabbi heimdraganum og fór að læra trésmíði hjá Guðjóni snikkara á Hólmavík. Þar var hann árin 1926-1930. Það ár tók hann sveinsprófið eftir því sem ég best veit. Sveinsstykkið var hefilbekkur sem hann notaði síðan alla tíð og er enn vel nothæfur 90 árum síðar.
Ég veit frekar lítið um viðfangsefni pabba á árunum 1930-1940. Veit þó að hann var eitthvað á sjó og eitthvað við bústörf, en aðallega vann hann þó við smíðar. Hann smíðaði m.a. íbúðarhúsið í Gröf í Bitru, líklega árið 1933. Hann og mamma keyptu þá jörð einmitt 25 árum síðar og í því húsi fæddist ég og ólst upp. Af öðrum smiðsverkum má nefna kirkjuna á Óspakseyri, sem var vígð sumarið 1940.
Ferðalög um atvinnusvæðið
Smíðavinnunni hans pabba fylgdu mikil ferðalög, bæði á fyrsta áratugnum eftir sveinsprófið og síðar. Atvinnusvæðið var þó ekki stærra en svo að vel mætti fara um það fótgangandi, eða hlaupandi, því að þannig fór pabbi oftast á milli staða. Að vísu var sjálfsagt stundum farið á báti, en vegasamgöngur voru stopular framan af starfsævinni og bílar fátíðir. Pabbi var enginn hestamaður – og tók reyndar heldur ekki bílpróf fyrr en í námunda við sextugsafmælið 1968. Þá var reyndar dráttarvélin búin að koma í góðar þarfir sem samgöngutæki í nokkur ár.

Pabbi og mamma fyrir utan húsið í Gröf, líklega sumarið 1977. Mottuna sem þau standa á heklaði mamma úr trollgarni og hafði hana lengi fyrir forstofumottu bakdyramegin.
Stærð þess svæðis sem hægt er fara um fótgangandi eða hlaupandi ræðst auðvitað af því hver á í hlut. Þannig held ég að vinnusvæði pabba hafi náð um allar Strandir, vestur á Ísafjörð og suður í Breiðafjörð. Verkfærin bar hann á bakinu í þar til gerðu kofforti og mér skilst að hann hafi frekar farið stystu leiðirnar en þær greiðfærustu. Þá þurfti hann kannski að henda koffortinu yfir gil og sprungur og stökkva svo sjálfur á eftir. Sú saga var alla vega sögð. Þessar ferðir hófust gjarnan svo snemma að morgni að hann náði fólki á áfangastað í rúmi þótt leiðin í vinnuna mældist jafnvel í tugum kílómetra.
Lokuð inni í hlöðu
Pabbi og mamma kynntust á Óspakseyri, líklega sumarið 1939 þegar mamma var búin með kennaranámið og var ráðskona hjá Ástu systur sinni og Þorkeli mági sínum. Ég tel mig hafa traustar heimildir fyrir því að Þorkell hafi lokað þau inni í hlöðu þangað til þau voru orðin par. Alla vega entist þetta samband þar til dauðinn aðskildi þau um aldamótin.
Pabbi og mamma giftu sig vorið 1944 og byrjuðu búskap hjá Sigríði systur pabba og Magnúsi eiginmanni hennar í Hvítarhlíð. Árið 1956 keyptu þau svo næstu jörð, Gröf, og bjuggu þar alla tíð síðan á meðan pabbi lifði. Þessa síðustu áratugi var búskapurinn aðalstarf pabba, en smíðarnar urðu aukavinna sem hann sinnti eftir föngum fram á níræðisaldurinn.
Steinsteypa og rekaviður
Í Gröf var lítil ræktun og útihús að niðurlotum komin. Þetta byggði pabbi allt saman upp smátt og smátt með lítilli aðstoð annarra en okkar hinna í fjölskyldunni. Fyrst var steypt upp hlaða árið 1958, svo komu ný fjárhús 1959 og eftir það voru nánast alltaf einhverjar byggingarframkvæmdir í gangi hvert einasta sumar. Mamma sagði mér einhvern tímann að pabbi hefði oft látið nægja að sofa þrjá tíma eða svo á hverri nóttu þegar mest var um að vera. Eitthvað reyndum við krakkarnir að hjálpa til, nágrannarnir komu og hjálpuðu til í steypuvinnu og svo vann pabbi fyrir þá í staðinn. Og á veturna var heldur ekki slegið slöku við. Þá stóð pabbi oft tímunum saman eftir seinni gjöfina í fjárhúsunum og sagaði rekavið með stórri handsög. Gröf á ekki land að sjó, en rekaviðinn fékk hann að launum fyrir vinnu á rekabæjum. Og raftarnir sem hann sagaði breyttust í sperrur, bökin í þakklæðningar og þar fram eftir götunum. Fyrri búskaparárin voru allir burðarviðir í útihúsin fengnir á þennan hátt. Trjábolir sem ekki voru sagaðir voru notaðir í stoðir og dregara og aðrir ýmist rifnir eða sagaðir í girðingarstaura. Bestur var rauðaviðurinn, sem ég held að hafi verið Oregon-fura. Hann var m.a. notaður í húsgögn.
Í stuttu máli var pabbi alltaf að vinna, en fyrir honum var vinnan ekki vinna, heldur bara lífið sjálft. Ég veit ekki hvort Magnús Gunnlaugsson á Ytri-Ósi var með pabba í huga í þessum ljóðlínum:
„Þreyttur að kvöldi þráir hann næsta dag
og þá á að vinna framundir sólarlag“.
Reyndar leit pabbi ekki á sólarlagið sem endahnútinn á vinnudeginum. En það var náttúrulega erfitt að vinna í miklu myrkri.
Einstaklingshyggja eða félagshyggja?
Pabbi var einstaklingshyggjumaður fyrir sjálfan sig en félagshyggjumaður fyrir aðra. Með þessu á ég við að hann vildi alltaf vera sjálfum sér nægur um allt og var lítið fyrir að biðja aðra um aðstoð. Hins vegar var hann alltaf boðinn og búinn að hjálpa öðrum og fannst skortur á hjálpsemi mikill ljóður á ráði fólks. Reyndar setti hann sjaldan út á aðra. Stundum fékk hann lítið eða ekkert borgað fyrir vinnuna sína og ég veit að honum fannst það hallærislegt. Menn áttu að vera borgunarmenn og láta ekki eiga hjá sér. En hann setti ekkert út á þetta, heldur hló hann bara. Kannski lækkuðu menn í áliti, en voru örugglega aldrei látnir líða fyrir það.
Rollur eru ekki langhlauparar
Pabbi var tæplega fimmtugur þegar ég fæddist og ég man eiginlega ekki eftir honum nema sem dálítið gömlum manni. Hann var samt alltaf hlaupandi, hvort sem það var á jafnsléttu, í bröttum giljum eða á langböndum á þaki hárra bygginga. Hann þurfti heldur ekki hesta eða hunda í smalamennskum, fundust svoleiðis dýr óþörf og líklega heldur til trafala. Karlarnir í sveitinni höfðu eftir honum að það væri ekkert mál að hlaupa uppi rollur, þær gæfust alltaf upp eftir tvo þrjá tíma. Þetta þótti sérstakt, en mér skilst að hinir bændurnir hafi ekki reynt að ganga úr skugga um hvort þetta væri rétt.
Það er líka hægt að vinna of mikið
Um sextugt var pabbi orðinn frekar slitinn af vinnu. Um það leyti hætti hann líka að hafa við yngsta barninu sínu á hlaupum. Það fannst honum verra, en svo vandist það. Einhvern tímann um þetta leyti, líklega á útmánuðum 1969, barst skæður inflúensufaraldur í sveitina, svonefnd Hong Kong inflúensa. Hún lagðist þungt á pabba, enda litlir möguleikar á að liggja í rólegheitum og láta sér batna. Reyndar veiktist fólkið á bæjunum í kring á undan okkur og þá fór pabbi á milli bæja að gefa fénu þar. En svo lögðumst við auðvitað líka. Í minningunni finnst mér að þarna hafi orðið einhver þáttaskil. Þetta voru líka erfið ár í búskapnum, hafísvor og lélegur heyskapur sumar eftir sumar.
Sumarið 1971 veiktist pabbi aftur, var um tíma á sjúkrahúsi og kom heim sem gamall maður, eða það fannst mér alla vega þá. Svo kom lungnabólga í kjölfarið á þessu um haustið. Pabbi náði sér svo sem alveg eftir þetta allt saman og lifði 30 ár í viðbót. En ég held að þrekið hafi aldrei náð fyrri hæðum.
Maður á að fara vel með dótið sitt
Pabbi var einstaklega nýtinn maður, eins og títt var með hans kynslóð. Þá var fólk ekki búið að læra að sóa. Um það leyti sem hann tók sveinsprófið keypti hann öll verkfæri sem smiðir þess tíma þurftu að eiga – og nánast öll þessi verkfæri entust þau 70 ár sem hann átti eftir ólifuð. Í þessum verkfærakassa voru auðvitað engin rafmagnsverkfæri, en þau fóru smátt og smátt að bætast í safnið eftir 1970. Ég man vel eftir mörgum þessara verkfæra. Hann átti t.d. þrjá hamra alla tíð, þar af einn sterklegan klaufhamar sem stundum þurfti að skipta um skaft á, annan svolítið minni – og svo vélahamarinn sem var ekki með klauf og hentaði vel til að berja á járni. Og svo átti hann líka þrjá vasahnífa, sem hver hafði sitt nafn. Þetta voru þeir Kátur, Jólfur og Miðlungur.
Nýtninni fylgdi nytjahyggja og viss andúð á óþarfa. Pabba fannst gaman að hitta fólk og spjalla, en honum fannst samt óþarfi að fara af bæ í erindisleysu. Sjálfsagt gilti það um fleiri af þeim sem fæddust í byrjun 20. aldar. Þessi áhersla endurspeglaðist m.a. í því að ég hitti aldrei eina af fimm systrum pabba, þó að hún næði frekar háum aldri eins og þau systkinin öll, og byggi lengst af inni í Miðfirði. Þangað er varla meira en 90 mín. akstur frá Gröf. Elstu systurina hitti ég fyrst í 100 ára afmælinu hennar. Hún bjó í álíka fjarlægð.
Fjölnota krossviðarspjöld
Pabbi var ekki langskólagenginn á nútímamælikvarða, en hann fylgdist mjög vel með, las mikið og kenndi okkur krökkunum margt um gang himintunglanna og annað það sem helst hafði áhrif á daglegt líf. Og svo var hann óvenju talnaglöggur. Hann hélt líka gott bókhald yfir allt í búskapnum, hvort sem það var vigtin á lömbunum eða vetrarfóðrunin. Í fjárhúsunum voru tölur gjarnan skráðar með blýanti á rúðustrikað krossviðarspjald – og þegar búið var að færa upplýsingar af spjaldinu í þar til gerðar bækur var hægt að bregða sandpappír á spjaldið og nota það aftur í næstu skráningu. Sama regla var á bókhaldi Óspakseyrarhrepps þau ár sem hann var oddviti hreppsnefndar. Hann sóttist ekki eftir því embætti frekar en öðrum, en einhver varð að gera þetta.
Dagsverkinu lokið
Þegar ellin fór að segja til sín tók Valdi bróðir smám saman við búinu í Gröf og það gerði pabba mögulegt að halda áfram við bústörfin fram undir það síðasta. Þegar hann var um áttrætt voru verkin orðin erfiðari og afköstin minni. En ég held að hann hafi samt náð að vinna nokkurn veginn fulla vinnu til 88 ára aldurs. Um það leyti var heilsan farin að gefa meira eftir. Síðustu tvö árin voru örugglega mjög erfið, því að hjá pabba var vinnan lífið. Hann var því vafalaust tilbúinn að kveðja þennan heim þegar kallið kom. Pabbi dó í hógværri einsemd eftir stutta legu á Sjúkrahúsinu á Hólmavík 10. janúar árið 2000, rúmlega 91 árs að aldri. Eftir situr þakklæti fyrir gildin sem hann kenndi mér, án þess að nefna þau nokkurn tímann beint, og þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast andblæ tímans sem hann lifði löngu fyrir mína daga. Pabbi var vandaður maður sem skildi eftir sig margt fleira en vel smíðuð hús.
Filed under: Ævisagan |
Færðu inn athugasemd