Í dag eru liðin 100 ár frá því að mamma (Birgitta Stefánsdóttir eldri) fæddist, en það gerðist vestur á Kleifum í Gilsfirði mánudaginn 4. janúar 1915. Mamma var yngst 10 systkina, en þar af náðu 9 fullorðinsárum.
Heimilið á Kleifum var mannmargt og líklega þokkalega efnað á þess tíma mælikvarða. Þar var alltaf eitthvað um vinnufólk og mamma naut góðs af því í æsku. Anna móðir mömmu hafði nefnilega veikst af sullaveiki og barðist lengi við þann sjúkdóm áður en hann dró hana til dauða árið 1924 þegar mamma var 9 ára. En þarna voru „barnfóstrur“ sem sáu um að yngstu börnin skorti ekki neitt – og leystu það verk með prýði.
Jafnvel þótt Kleifaheimilið hafi verið talið vel efnum búið var ekki mögulegt að kosta allan barnaskarann til náms. Eftir því sem mamma sagði mér þótti Sigurkarl bróðir hennar (f. 1902) sérlega efnilegur og því lögðu foreldrarnir talsvert á sig til að stuðla að menntun hans. Seinna launaði hann greiðann með því að aðstoða yngstu systurnar tvær á mennabrautinni. Þetta varð til þess að mamma fór í Héraðsskólanum á Laugarvatni þar sem hún stundaði nám 1934-1936. Þaðan lá svo leiðin í Kennaraskólann þar sem hún lauk kennararaprófi vorið 1939. Meðan á því námi stóð bjó hún einmitt heima hjá Sigurkarli og fjölskyldu hans að Barónstíg 24 í Reykjavík.
Þá, rétt eins og nú, skipti máli fyrir námsmenn að komast í góða sumarvinnu til að eiga eitthvert skotsilfur fyrir veturinn. Hins vegar voru atvinnutækifærin á millistríðsárunum hvorki fjölbreytt né laus við kynjahalla. Strákarnir fóru í vegavinnu og stelpurnar í kaupavinnu. Mamma var kaupakona í sveit í þrjú sumur. Kaupið var 20 krónur á viku og þótti bara gott, en karlmenn fengu 40 krónur á viku.
Fyrst var mamma kaupakona í Hvítárholti í Hrunamannahreppi sumarið 1935. Skólasystir hennar á Laugarvatni var frá þessum bæ og útvegaði vinnuna. Þarna fannst mömmu best að vera af þessum þremur stöðum, en því miður var ekki hægt að ráða hana aftur sumarið eftir. Þá var hún í Norðtungu í Þverárhlíð ásamt Margréti systur sinni. Þarna fannst mömmu bara í meðallagi gott að vera. Hún sagði mér einu sinni að húsfreyjan í Norðtungu hefði verið ágæt, en hún hefði stundum notað tvenns konar klukkur, nefnilega búklukku á morgnana en símaklukku á kvöldin. Búklukkan var sumarklukka, því að á þessum tíma var klukkunni flýtt á vorin. Símaklukkan var alltaf á vetrartíma, sem kom sér vel fyrir vinnuveitendur síðdegis. Síðast var hún svo á Hárlaugsstöðum í Holtum, líklega sumarið 1938. Þarna sagði mamma að sér hefði svo sem þótt ágætt að vera og þetta var eini staðurinn þar sem borgað var aukalega ef unnið var á næturnar. Það var nefnilega þannig að þegar var góður þurrkur, þá var heyið oft bundið á næturnar. Vikulaunin, þ.e.a.s. 20 krónurnar, miðuðust við 10 tíma vinnu á dag 6 daga vikunnar, og venjulega var ekki um neinar aukagreiðslur að ræða þótt unnið væri á nóttunni.
Sumarið 1939 var mamma ráðskona hjá Ástu systur sinni og Þorkeli mági sínum á Óspakseyri í Bitru og hélt áfram þeim starfa eftir að hafa kennt handavinnu á Húsmæðraskólanum á Laugarvatni veturinn 1939-1940. Á Eyri kynntist hún pabba. Gamla fólkið í sveitinni sagði að Þorkell hefði lokað þau inni í hlöðu þangað til þau voru orðin par. Hvort sem það var nákvæmlega rétt eða ekki entist þetta samband þar til dauðinn aðskildi þau um aldamótin.

Pabbi og mamma fyrir utan húsið í Gröf, líklega sumarið 1977. Mottuna sem þau standa á heklaði mamma úr trollgarni og hafði hana lengi fyrir forstofumottu bakdyramegin.
Mamma og pabbi giftu sig vorið 1944 og byrjuðu búskap hjá Sigríði systur pabba og Magnúsi eiginmanni hennar í Hvítarhlíð í Bitru. Vorið 1956 fluttust þau svo að Gröf, sem þau höfðu þá fest kaup á. Pabbi hafði reyndar sjálfur smíðað íbúðarhúsið í Gröf á fyrstu árum sínum sem húsasmiður upp úr 1930. Verkkaupinn var líklega ekki stórhuga, því að honum þótti nóg að gera ráð fyrir 180 cm lofthæð í húsinu. Pabbi náði að smygla þessu upp í 215 cm, sem kom sér vel seinna þó að ekkert okkar í fjölskyldunni hafi nokkurn tímann talist hávaxið.
Þegar mamma og pabbi settust að í Gröf áttu þau þrjú börn og fjórða og síðasta barnið, ég, bættist við ári síðar. Þessi flutningur markaði líka þau tímamót að búskapurinn varð aðalstarf pabba, en áður hafði hann aðallega unnið við smíðar víða um sveitir. Því hélt hann reyndar áfram næstu áratugi, en í minna mæli.
Ég held að mamma hafi aldrei ætlað sér að verða sveitakona að ævistarfi. Hún sagði þetta kannski aldrei berum orðum, enda fannst henni ekki borga sig að tala mikið um svoleiðis lagað, sérstaklega ekki ef það var viðkvæmt. En þetta var svo sem ekki bara eitthvert einkenni mömmu. Hennar kynslóð hafði einfaldlega ekki vanist því að tjá sig mikið um tilfinningar sínar og langanir. Mamma reyndi auk heldur yfirleitt að sneiða hjá snörpum orðaskiptum og afdráttarlausu tali. Ef einhverjum fannst eitthvað algjörlega frábært, þá reyndi hún heldur að draga úr, og sama gilti um það sem þótti algjörlega ómögulegt. Það var heldur ekki alslæmt.

Birgitta Stefánsdóttir yngri með ömmu sinni og alnöfnu á fermingardegi þeirrar fyrrnefndu í Óspakseyrarkirkju vorið 2001.
Mamma hafði alltaf nógan tíma, eða þannig orðaði hún það að minnsta kosti. Pabba fannst hún hins vegar frekar seinlát þegar þau voru að fara eitthvað, sem var að vísu ekki oft. „Sjaldan skyldi seinn maður flýta sér“ var eitt af þeim orðatiltækjum sem mamma hélt hvað mest upp á. Samt var hún afskaplega afkastamikil kona, sérstaklega í hannyrðum. Þar liggur eftir hana gríðarmikið ævistarf, allt frá fínustu prjónadúkum og sjölum upp í heilu gólfteppin sem hún saumaði úr ullarbandi með góbelínsaum í strigapoka undan sykri.
Eftir að pabbi dó í ársbyrjun 2000 flutti mamma á Dvalarheimilið í Borgarnesi og dvaldist þar það sem eftir var. Þegar leið á þann tíma var getan til handavinnu upp urin og ættfræðin, sem hafði verið eitt af hennar helstu áhugamálum, var horfin til feðranna langt á undan henni. Þetta voru erfið ár og fátt eftir ógert þegar lífinu lauk 26. apríl 2008.
Hundrað ár eru einkennilega fljót að líða og ég er þakklátur fyrir að hafa náð að eiga helming af þessum tíma með mömmu. Hún hefði alveg getað verið ákveðnari í uppeldinu, en í þeim efnum verður hver að gera sitt besta miðað við þau spil sem hann eða hún hefur á hendinni. Þannig gengur þetta fyrir sig, kynslóð eftir kynslóð.
Mamma kenndi mér afskaplega margt. Sumt af því hef ég náð að tileinka mér en á öðrum sviðum hefur námið sjálfsagt ekki verið eins árangursríkt. En hún gerði alla vega sitt besta, og hennar besta var heilmikið. Þolinmæði og umburðarlyndi voru meðal þeirra grunngilda sem hún hafði í heiðri og kynnti fyrir börnunum sínum.
Takk mamma!

Sýnishorn af handavinnu mömmu. Gráa gólfteppið saumaði hún í strigapoka á árunum í kringum 1965. (Ljósm. Hallgrímur Gíslason 2002).
Filed under: Ævisagan |
Sæll Stefán og gleðilegt nýtt ár!
Ég las hvers og kruss gegn um pistilinn þinn um mömmu þína og rakst augu að heimilinu Gröf. Var þetta húsið Gröf við Kleppjárnsreykir kannski? Ég man vel eftir húsinu sem var reyndar að hruni komið þegar ég átti heima þar rétt hjá í Sólbyrgi.
Ég vona að þið hafið njótið góðar stundir kringum jólin og hafa náð að hlaðast upp fyrir vetrarmánuðina framundan. Við forum annar í jólum í nokkra daga ferð til Antwerpen, falleg og sögurík borg í hollenska mælandi hluta Belgiu. Ýmir sonurinn okkar íhugar að fara í háskóla þar í haust en hann tekur stúdentspróf núna í vor. Við hjónin vorum að byrja á námskeið í norsku, það gæti farið svo að við flytjum þangað einhvern tíma. Holland er ansi þröngt setið og nú vilja menn fylla þau fá auðsvæði sem eftir eru með stærðarvindmyllum, það ætlum við ekki að bíða. Við sjáum til en allavega er gott og líka gaman að vinna svolitið í ´plan B´.
Vonandi hittumst við á nýju ári, það er alltaf gaman að spjalla við þig en kannski sýður meira í pottinum í ár, hver veit. Ég er búinn að setja Lúðvík hjá sambandinu í málið, vonandi koma góð viðbrög þaðan.
Með bestu kveðjum sem fyrr,
Cees
Takk Cees! Nei, þetta var Gröf í Bitrufirði á Ströndum. Þar er ég fæddur og uppalinn. Bestu kveðjur til þín og þinna. SG
Sæll frændi og gleðilekt nýtt ár til ykkar alla.Mikið var gaman að lesa þennan pistil þinn. Það sem ég kintist móðir þinni var allt gott og heirði ég hana aldrei sega neitt ftigðaryrði, þetta á sömuleiðis við pabba þinn, heirði ég aldrei talað um þau nema það væri eitthvað jákvænt. Það er það sama sem má sega um ykkur syskinin í Gröf.Takk elsku frændi Kveðja Björg
Takk fyrir þessa fallegu kveðju frænka mín.
Takk fyrir þessa stórágætu grein. Alltaf kemur eitthvað sem maður ekki vissi, eins og til dæmis að foreldrar þínir hefðu verið í Hvítarhlíð áður en þau fluttu að Gröf. Ég vissi að pabbi þinn var frá Brunngili en ekki um þessa millilendingu í Hvítarhlíð.
Hafði heyrt þessa sögu af Þorkeli með að loka ungt fólk inní hlöðu en ekki í sambandi við foreldra þína. Enda var hann víst afkastamikill á þessu sviði og kannske náð betri og varanlegri árangri en stefnumótasíður nútímans:)
Takk fyrir innleggið Jón Bragi! Gaman að vita að þetta sé lesið sér til gamans eða gagns. Sögurnar skipta máli og þær eru fljótari að gleymast en mann grunar. Ég held að okkar kynslóð þurfi að vera duglegri í skrásetningunni. Við ólumst upp á tímum mikilla breytinga sem fyrr en varði eru orðnir fjarlæg fortíð. Bestu kveðjur till Sverige!
Sæll frændi og gleðilegt árið.
það er ekki leiðinlegt að geta sagst hafa verið í sveit hjá Gittu og Gísla í Gröf (þó varla teljist það hafa verið oft og lengi). Einhverra hluta vegna standa nýsteiktir ástarpungar kýr skýrir í huganum og það að fá ekki að vita hvað kraumaði í pottunum, fyrr en á borðið var komið.
Með kveðju að Austan, Sindri
Takk frændi, gaman að fá svona viðbót. Ég hef t.d. ekki velt því mikið fyrir mér hvað ykkur fannst um lífið í Gröf, strákunum sem voruð þar í sveit. Ég missti reyndar af þér að mestu leyti. Kiddi og kannski einhverjir fleiri voru þarna fyrir mitt minni – og svo komu Kalli Stefáns, Kári, Hjörtur og Freyr á þeim tíma sem ég var heima á sumrin.
(PS: Mamma kallaði ástarpungana alltaf „bollur“ og við lærðum þá nafngift. Hugsa að henni hafi ekki þótt þetta hljóma nógu kurteislega á frummálinu). 🙂
Þakka fyrir þessa fróðlegu og skemmtilegu lesningu, hef áður heyrt af hlöðutrixinu á Óspakseyri sem mun eiga við rök að styðjast.
Pabbi hefur þarna reynst lunkinn „matchmaker“.
Takk Sigurgeir. Já, pabbi þinn var seigur og einkar velviljaður. Hann hefur líklega séð fyrir að þetta fólk gæti barasta passað ágætlega saman. Og fyrst þú telur þetta eiga við rök að styðjast hlýtur þetta að hafa verið svona. Ég lít á þig sem trausta samtímaheimild þó að þú hafir kannski ekki fylgst með framkvæmdinni í smáatriðum. 🙂
[…] inni í hlöðu Pabbi og mamma kynntust á Óspakseyri, líklega sumarið 1940 þegar mamma var búin með kennaranámið og var […]