• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • desember 2020
    S M F V F F S
     12345
    6789101112
    13141516171819
    20212223242526
    2728293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Hlaupaannáll 2020 og markmiðin 2021

Nú er hlaupaárið 2020 að baki. Þetta var að mörgu leyti gott hlaupaár frá mínum bæjardyrum séð, þó að margt væri öðruvísari og fábreyttara en á venjulegu hlaupaári. Eins og einhver kann að hafa tekið eftir var árið 2020 nefnilega ekki venjulegt ár, hvorki á hlaupum né í öðrum daglegum viðfangsefnum. En það breytir samt engu um þá 14 ára gömlu venju mína eða kæk að setjast niður í lok ársins til að rifja upp helstu viðburði í hlaupalífinu mínu og gefa innsýn í væntingar mínar til næsta hlaupaárs.

Rondane 100
Fyrstu vikur ársins 2020 voru vikur draums og vona. Frá því sumarið áður hafði ég og nokkrir uppáhaldshlaupafélagar verið að skoða heppileg 100 km hlaup í útlöndum, helst í ágúst 2020. Þar kom margt til greina, en 13. desember 2019 var sú ákvörðun tekin að stefna á nýtt hlaup í Noregi, Rondane 100. Þar var reyndar ekki boðið upp á 100 km, heldur bara 50 og 100 mílur. Sum okkar, þ.á.m. ég, ákváðu að láta þá „bara“ 50 mílur (rúma 80 km) duga, en önnur stefndu á 100 mílurnar. Skráningin opnaði 20. janúar og þá var stokkið til. Æfingarnar fengu nýjan tilgang og hugsunin um þetta spennandi verkefni hélt mér við efnið næstu vikurnar. En svo kom COVID-19. Strax í mars byrjaði maður að efast um að þetta verkefni gæti orðið að veruleika, þær efasemdir ágerðust með hverri vikunni sem leið og jafnframt fölnaði tilgangur markvissra æfinga. Um miðjan maí kom svo tilkynning þess efnis, að vegna sóttvarnarráðstafana sæju aðstandendur hlaupsins ekki fram á að geta tekið við erlendum þátttakendum. Þar með var sá draumur endanlega úti.

Auðvitað hafa hlaupaæfingar annan og meiri tilgang en að undirbúa eitthvert eitt hlaup. En ákvörðun um að taka þátt í svoleiðis hlaupi bætir samt alltaf góðum skammti af tilgangi við þetta allt saman, sérstaklega þegar aðdragandinn er búinn að vera langur og skemmtilegur eins og raunin var í þessu tilviki. Í þessum aðdraganda vorum við m.a. búin að finna einkar heimilislega gistingu í nokkur hundruð metra fjarlægð frá endamarkinu, sem var ekki sjálfsagt. Miðstöð hlaupsins er nefnilega í smábænum Folldal, þar sem búa aðeins um 1.500 manns og hótel eru ekki á hverju strái. Svo voru flugmiðarnir auðvitað löngu tilbúnir og ekkert eftir nema æfa og njóta tilhlökkunarinnar.

Besti félagsskapurinn. Gitta mín (Birgitta Stefánsdóttir) á Óshringnum við Hólmavík 1. febrúar. (Á myndinni efst í þessum pistli er hún hins vegar á leiðinni upp í Siglufjarðarskarð með Haganesvík í baksýn).

Æfingarnar 2020
Ég hljóp tiltölulega mikið á fyrsta fjórðungi ársins og var kominn i 660 km í marslok, ekki síst drifinn áfram að hugsuninni um Rondane 100 (eða Rendurnar eins og ég kýs að kalla það). Reyndar hef ég bara tvisvar hlaupið meira í kílómetrum talið fyrstu þrjá mánuði ársins. Þrátt fyrir mikil hlaup náði ég mér þó einhvern veginn aldrei almennilega á strik. Reyndar held ég að ég hafi aldrei æft eins mikið með eins litlum árangri. Slæmska í vinstra hné átti sinn þátt í því, en hnéð hefur verið að stríða mér a.m.k. frá því í byrjun júlí 2019. Í byrjun mars var hnéð skoðað með sónar og þá sáust einhverjar skemmdir. Mér var sagt að þetta væri ekkert stórmál, ég þyrfti að vísu að hætta að hlaupa á hörðu undirlagi, en ég gæti gert ýmislegt annað skemmtilegt í staðinn. Daginn eftir hljóp ég 34 km á malbiki, svona rétt á meðan ég var að hugsa málið. Um sama leyti var flestu lokað vegna COVID-19, ræktin skellti í lás, sjúkraþjálfun var bönnuð, sameiginlegar hlaupaæfingar lögðust af – og keppnishlaupin sem ég var búinn að skrá mig í eða láta mig dreyma um hurfu af hlaupadagskránni eitt af öðru. Þar með gafst mér enn meiri tími til að hugsa málið. Nokkrum vikum síðar var ég orðinn sannfærður um að hnévandamálið tengdist ekki skemmdunum sem sáust í sónarnum, enda sýna rannsóknir að mikill meirihluti fólks á mínum aldri er með einhverjar skemmdir í hnjám sem aldrei gera vart við sig og myndu ekki uppgötvast nema með myndatöku. Langlíklegasta skýringin var skortur á vöðvastyrk í framlærisvöðvum. Þetta hnjávandamál er enn til staðar og sjálfsagt á ég eftir að skrifa eitthvað meira um það síðar.

Skortur á vöðvastyrk er ekki bara líkleg skýring á lélegri hnjáheilsu, heldur væntanlega líka á litlum sýnilegum árangri af æfingum þessa tímabils. Ég var alveg sérstaklega linur í brekkum og í erfiðri færð. Í því sambandi er sérstaklega eftirminnilegt þegar ég hljóp Hvanneyrarhringinn í góðum félagsskap en mjög erfiðu færi 21. mars og þurfti næstum því að skríða heim. Úthaldið vantaði ekki, en hnéð var í tómu tjóni og fæturnir að öðru leyti eins og lítið bakað brauð.

Ég tognaði eitthvað smávegis um mánaðarmótin mars/apríl og tíminn sem í hönd fór var heldur lélegur í hlaupalegu tilliti. Tognunin ein og sér átti sennilega ekki stærstan þátt í því, heldur miklu frekar ákveðið áhugaleysi sem tengdist einsemd á æfingum og skorti á krefjandi markmiðum. Þegar þarna var komið sögu var COVID búið að dæma alla hlaupasamveru úr leik og þá fann ég betur en nokkru sinni fyrr hversu miklu máli slík samvera skiptir. Ég hleyp nefnilega ekki bara „vegna þess að ég get það“, heldur líka vegna þess að hlaupalífið mitt er líka mjög stór hluti af félagslífinu mínu. „Maðurinn einn er ei nema hálfur“, og allt það. Þegar upp var staðið voru reyndar flestar æfingarnar mínar á árinu einsmannsæfingar.

Á hlaupaæfingu í Hafnarskógi.

Um miðjan júní fannst mér ég vera kominn allvel af stað í hlaupunum eftir erfitt vor með minni háttar tognunum af og til og smáskammti af leiðindum á öðrum sviðum. Um þetta leyti var búið að slaka á sóttvarnarráðstöfunum, ég gat notið fallegrar náttúru og nærandi samskipta í fyrstu fjallvegahlaupum ársins og nokkrar góðar æfingar í einrúmi í góðu veðri vestur við Langá bættu svo upp það sem á vantaði. Reyndar var lítið um hraðar æfingar, þar sem ég treysti ekki þessum vöðvarýru fótum almennilega í það. Þess í stað lagði ég aðaláherslu á líkamsbeitinguna og tel mig hafa náð nokkrum árangri í því. Þetta snýst ekki bara um sterka vöðva, heldur líka hvernig þeim er stjórnað og beitt.

Júlí var góður hlaupamánuður og ágúst enn betri. Kílómetrarnir í ágúst urðu samtals 325 og hafa aldrei verið fleiri. Þar munaði mikið um tvær rúmlega 40 km æfingar seint í mánuðinum, hálfpartinn til að bæta mér upp Reykjavíkurmaraþonið sem aldrei var hlaupið.

Þegar ágúst var að baki datt botninn svolítið úr æfingunum, hlaupaheilsan svo sem góð en engin almennileg markmið framundan – og mikið annríki í vinnu, sem ágerðist eftir því sem nær leið áramótum. Vikulegum æfingum fækkaði úr 4-5 í 1-3 og þá er ekki lengur nein von á framförum. Reynsla mín síðari árin er meira að segja sú, að eftir því sem æfingunum fækkar aukist meiðslahættan. Reyndar ætlaði ég ekki að hlaupa mikið síðustu mánuði árins, heldur var ætlunin að leggja aðaláherslu á styrktaræfingar. Fyrsta æfingin í þeirri áætlun var framkvæmd 16. september. Dagana þar á eftir fjölgaði COVID-smitum hratt og í framhaldinu var líkamsræktarstöðvum lokað. Þar með fór áætlunin út um þúfur, þar sem tiltækur búnaður og sjálfsagi bauð ekki upp á heimaæfingar að neinu gagni. Reyndar tók ég upp á því að vakna 10-15 mín fyrr en ella á hverjum morgni og náði þá að gera svo sem tvær æfingar fyrir venjulegan fótaferðatíma. Þetta gerði eflaust sitt gagn, en dugði samt engan veginn til að byggja upp þann styrk sem ég vissi að mig vantaði.

Hafnarfjall um haust.

Þar sem lítið varð úr styrktaræfingum hélt ég áfram að hlaupa eitthvað af og til. Í byrjun desember tognaði ég svo smávegis í hægri kálfanum og þar með var árið eiginlega búið. Núna, í lok ársins, er kálfinn enn ekki kominn í lag. Ég þykist svo sem vita hvað ég þarf að gera, en vitneskjan ein og sér leysir ekki vandann. Framundan eru styrktaræfingar með áherslu á kálfa, framlæri og mjaðmir – og liðleikaæfingar með áherslu á framanverðar mjaðmir og ökklalið. Það þýðir ekkert að byggja hús án sökkulveggja.

Mánaðarskammtarnir 2020. (Stærri mynd birtist ef smellt er á þessa).

Þegar upp var staðið var heildarvegalengd ársins komin í 2.368 km, sem er bara svipað og flest undanfarin ár. Nánar tiltekið var þetta 8. lengsta árið mitt frá upphafi.

Heildarvegalengdir síðustu 36 hlaupaár. (Stærri mynd birtist ef smellt er á þessa).

Keppnishlaupin
Öll keppnishlaupin mín þetta árið fóru forgörðum, var ýmist aflýst vegna COVID eða veðurs, eða þá að mig langaði ekki til að mæta. Sjálfsagt finnst einhverjum skrýtið að mig hafi ekki langað til að mæta þegar ég átti á annað borð kost á því. Mér fannst þetta svolítið skrýtið sjálfum, en svo áttaði ég mig á því að ég mæti ekki endilega í keppnishlaup til að fá tímann minn skráðan, heldur miklu frekar til að njóta samvista við hlaupavini mína. Þessar samvistir verða frekar snauðar þegar hlauparar eru ræstir einn og einn eða örfáir saman með löngu millibili, svo ekki sé nú talað um upplifunina á marksvæðinu þegar hópamyndun er bönnuð. Í þessu sambandi verður mér á að rifja upp þegar óreyndur hlaupari spurði mig í vormaraþoninu 2011 hvernig maður fagnaði góðu maraþonhlaupi. Ég svaraði því til að „maður legðist í grasið, gréti og faðmaði síðan alla viðstadda“. Mér finnst mikið vantar þegar þetta vantar, eða með öðrum orðum ef maður hefur ekki tækifæri til að vera „vandræðalega glaður“ að hlaupi loknu og deila þeirri upplifun með öðrum sem svipað er ástatt um.

Skemmtihlaupin
Alla jafna stend ég fyrir eða stuðla að þremur skemmtihlaupum á ári, þ.e.a.s. hinum árlega Háfslækjarhring og matarveislu á uppstigningardag, Þrístrendingi og Hamingjuhlaupinu. Tvö þessara hlaupa voru á sínum stað árið 2020, en Þrístrendingur féll niður.

Hinn árlegi Háfslækjarhringur var hlaupinn 21. maí, 11. árið í röð. Veðrið var býsna gott, svolítill strekkingur en þurrt og að mestu léttskýjað og hátt í 12 stiga hiti. Hlaupaleiðin var sem fyrr heimanað frá okkur hjónunum í Borgarnesi, framhjá fólkvanginum í Einkunnum, vestur að Langá og aftur heim. Leiðin var reyndar aðeins styttri en áður vegna þess að sumarið 2019 fluttum við hjónin okkur um set ögn ofar í bæinn. Þetta voru því rétt um 20,0 km í stað 21,5. Tvennt annað var líka með öðru sniði en áður. Annars vegar var engin lambakjötsveisla að hlaupi loknu, þar sem húsnæðið þótti ekki bjóða upp á nægar fjarlægðir á COVID-tímum. Og svo er heldur enginn heitur pottur á nýja staðnum. Við þetta bættist svo að sjálfur var ég nýtognaður og hljóp ekki neitt. En þetta var samt góður dagur.

Við upphaf hins árlega Háfslækjarhrings á uppstigningardag.

Hamingjuhlaupið fór fram í 12. sinn laugardaginn 27. júní. Venjulega reyni ég að finna nýja hlaupaleið á hverju ári og að þessu sinni var ætlunin að hlaupa yfir Kollabúðaheiði. Rallkeppni á Þorskafjarðarheiði gerði það hins vegar að verkum að ég varð að breyta hlaupaleiðinni á síðustu stundu. Þá varð Vatnadalur fyrir valinu, en það er gömul leið milli Gilsfjarðar og Steingrímsfjarðar. Vatnadalur var líka hlaupinn í Hamingjuhlaupinu 2014, en núna var upphafsstaðurinn annar og nær því sem væntanlega tíðkaðist í gamla daga. Veðrið var okkur ekki sérlega hliðhollt þennan dag, strekkingsmótvindur alla leið og þokusúld framan af. En hitastigið var nógu hátt til að þetta yrði engin vosbúð. Hamingjuhlaupið varð líka að fjallvegahlaupi nr. 58 (sjá síðar í þessum pistli). Sá hluti leiðarinnar mældist nákvæmlega 25,23 km, en samtals bættust 36,71 km í hlaupadagbókina mína þennan dag. Og félagsskapurinn var líka góður, enda var svolítið hlé á COVID-ástandinu um þessar mundir. Við vorum sjö sem kláruðum fjallvegahlaupahlutann af þessu ævintýri en þó nokkrir til viðbótar bættust í hópinn á síðustu kílómetrunum. Að vanda endaði hlaupið með veislu á Hólmavík, þar sem Hamingjudagar stóðu yfir. Þetta árið var þó ekkert tertuhlaðborð með almennri þátttöku eins og venjan hefur verið, þar sem slíkir viðburðir rúmuðust ekki innan gildandi samkomutakmarkana.

Í hvössum norðanvindi við Mávadalsá í Gilsfirði við upphaf Hamingjuhlaupsins 2020. F.v.: Birgitta Stefánsdóttir, Finnur Dagsson, Gunnar V. Gunnarsson, Ingveldur Ingibergsdóttir, SG og Birkir Þór Stefánsson. Björk tók myndina.

Fjallvegahlaupin
Sumarið 2020 var fjórða sumar síðari hluta fjallvegahlaupaverkefnisins míns. Fyrstu þrjú sumrin voru heldur rýr, þar sem náði bara tveimur fjallvegahlaupum sumarið 2017, missti sumarið 2018 alveg úr vegna meiðsla og hljóp bara tvö hlaup 2019 vegna annríkis við önnur verkefni. Þannig voru bara fjögur hlaup komin í bankann í árslok 2019. Þess vegna fannst mér ég þurfa að taka vel á því 2020. Skipulagði samtals 11 hlaup en þurfti að hætta við tvö þeirra. Fjallvegahlaupin þetta sumarið urðu því samtals níu.

Fjallvegahlaupin 2020 skiptust eiginlega í þrennt. Vertíðin hófst með þremur hlaupum (nr. 55-57) á Norðurlandi 13.-16. júní, þar eftir kom Hamingjuhlaupið um Vatnadal 27. júní (nr. 58) og loks fimm hlaup á sunnanverðum Vestfjörðum 11.-14. júlí (nr. 59-63). Síðan ætlaði ég að hlaupa yfir Ófeigsfjarðarheiði í lok júlí en varð að aflýsa því vegna óhagstæðrar veðurspár.

Á fullri ferð inn Garðsárdal í Eyjafirði. Rannveig Oddsdóttir fremst í flokki.

Hlaupin fyrir norðan voru fjölbreytt og skemmtileg og veðrið almennt gott. Fyrst hlupum við 6 saman á fallegum laugardagseftirmiðdegi 13. júní yfir Gönguskarð úr Garðsárdal í Eyjafirði að Reykjum í Fnjóskadal. Þetta var frekar langt og frekar erfitt hlaup, m.a. vegna þess að hittum ekki alveg á réttu leiðina fyrstu kílómetrana. Á mánudegi var svo röðin komin að Siglufjarðarskarði. Þar yfir liggur náttúrulega bílvegur, þannig að á venjulegum sumardegi er undirlagið býsna gott þótt brattinn sé mikill. En þessi dagur var ekki venjulegur sumardagur að því leyti að leiðin um skarðið var á bólakafi í snjó og varla hægt að fóta sig á snarbröttum fönnum, þótt nokkrum metrum undir fönninni lægi vegur í haganlega gerðum sneiðingum. Þar við bættist svartaþoka í skarðinu, þannig að við sáum varla handa skil. Ferðafélagarnir mínir þennan dag voru fjórar hraustar konur sem allar voru lausar við lofthræðslu. Annars hefði sennilega þurft að kalla út björgunarlið. Þetta var bráðskemmtileg og eftirminnileg ferð. Þriðja ferðin fyrir norðan var svo frá Siglufirði um Kálfsskarð út á Siglunes, einkar skemmtileg leið. Við hlupum þetta fjögur saman í blíðu veðri og vorum svo heppin að fá bátsferð til baka – með leiðsögn.

Í tæpum vegarkanti austan í Siglufjarðarskarði. F.v.: Gitta, Brynhildur Bjarnadóttir, Sigríður Bjarnadóttir og Sigríður Einarsdóttir.

Hamingjuhlaupið um Vatnadal fór svo fram 27. júní eins og fyrr segir. Ég valdi að fara upp úr Gilsfirði meðfram Mávadalsá, sem kallað er að fara „upp með Bergi“. Þetta er ein þriggja leiða sem mér skilst að hafi verið farnar á þeim tíma þegar tveir eða fjórir jafnfljótir voru enn helstu farartækin á milli byggðarlaga. Leiðin er ómerkt og þarna hafa fáir verið á ferli í seinni tíð.

Ég var ekki alveg jafnheppinn með veðrið fyrir vestan eins og ég hafði verið á Norðurlandi fyrr um sumarið. Þarna rigndi flesta daga og fjöll voru að miklu leyti hulin þoku. Það eru ekki kjöraðstæður til fjallvegahlaupa. Fyrsta hlaupið í þessari lotu var af Barðaströnd vestur á Rauðasand yfir Sandsheiði laugardaginn 11. júlí í mikilli rigningu og þoku, en þessi heiði var fjölfarin fyrrum. Við hittum ekki á réttu leiðina til að byrja með og lentum í miklu og afskaplega blautu kjarri. Villtumst líka smávegis á seinni hlutanum, þar sem skyggni var mjög takmarkað. Seinna sama dag var svo hlaupið yfir Hnjótsheiði frá Rauðasandi yfir í Örlygshöfn. Það gekk ágætlega og rigningin tók sér smá hlé. Daginn eftir var það svo Tunguheiði utan úr Kollsvík og inn í Örlygshöfn – og síðan Breiðuvíkurháls frá Breiðuvík í Hænuvík. Þar hittum við ekki heldur á bestu leiðina og fengum að brölta í grjóti „fyrir allan peninginn“. Tveimur dögum síðar hljóp ég svo í góðum félagsskap yfir Tunguheiði frá Tálknafirði til Bíldudals. Þar fór ekkert úrskeiðis þrátt fyrir dálítinn skammt af þoku.

Birkir og Gitta, aðalhlaupafélagarnir mínir 2020, við vörðu á Tunguheiði ofan við Örlygshöfn 12. júlí.

Frásagnir af fjallavegahlaupunum mínum er annars að finna á fjallvegahlaup.is. Ferðasögurnar eru ekki allar fullskrifaðar, en þær verða til smátt og smátt.

Persónumetin
Persónuleg met á hlaupum eiga það til að verða fátíð þegar árin færast yfir. Helsta bjargráðið er þá að hlaupa einhverjar vegalengdir sem maður hefur aldrei hlaupið áður, eða finna einhvern annan samanburð sem hægt er að skreyta sig með. Listinn sem hér fer á eftir hefur að geyma öll þau persónuleg met (PB) frá árinu 2020 sem mér hefur tekist að grafa upp úr tiltækum heimildum:

  1. Fjórfaldur Óshringur (um 33 km utanvega): 3:02:53 klst. 19. júlí. Fyrra met 3:13:31 klst. 30. júní 2007.
  2. Lengsti ágústmánuður: 325,26 km. Fyrra met 300,95 km 2014.
  3. Flest fjallvegahlaup á einu ári: 9 hlaup. Fyrra met 7 hlaup 2008 og 2016.
  4. Flest Hafnarfjöll á einu ári: 13 ferðir. Fyrra met 12 ferðir 2018.

Náðust markmiðin?
Ég setti mér fimm hlaupatengd markmið fyrir árið 2020 og náði bara einu þeirra. Eitt markmiðanna var sem sagt að hlaupa a.m.k. 8 fjallvegahlaup – og þau urðu 9 sem fyrr segir. Þrjú markmið voru tengd keppnishlaupum (5 km undir 21 mín, maraþon undir 3:20 klst og að ljúka 80 km keppnishlaupi). Þetta fór náttúrulega allt í vaskinn. Og ef ég á að vera hreinskilinn, þá tókst mér ekki að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum eins og að var stefnt. Ég var í það minnsta ekki glaður þegar ég skreið heim af Hvanneyrarhringnum 21. mars, þó að stundum þurfi maður náttúrulega að vera „rólegur á vanþakklætinu“.

Markmiðin 2021
Ég held að það sé hverjum manni nauðsynlegt að setja sér markmið, hvort sem það er í hlaupum eða einhverju öðru. Annars er ekki hægt að búast við árangri. Hlaupamarkmið sem ekki náðust eitthvert tiltekið ár hafa þann kost að hægt er að nota þau aftur næsta ár. Slík endurnotkun er augljóslega vinnusparandi – og svo er auðvitað ekkert að því að reyna aftur ef manni mistekst. Með þetta í huga ætla ég að nota drjúgan hluta af markmiðum árins 2020 aftur á árinu 2021.

Markmiðin mín fyrir hlaupaárið 2021 eru sem hér segir:

  • 5 km undir 21 mín.
  • Maraþon undir 3:20 klst.
  • Laugavegurinn undir 6 klst.
  • A.m.k. 7 fjallvegahlaup
  • Gleðin með í för í öllum hlaupum (margnotað og sígilt)

Hlaupadagskráin mín 2021
Hlaupadagskráin mín fyrir komandi sumar er ekki fullmótuð, en eðlilega tekur hún mið af markmiðunum hér að framan. Enn sem komið er er Hengill Ultra eina hlaupið sem ég er búinn að skrá mig í – og auðvitað er engu hægt að slá föstu um það hvernig þetta verður allt saman. Kófið er jú ekki alveg búið. En svona lítur þetta alla vega út eins og staðan er núna um áramót:

  1. Víðavangshlaup ÍR (5 km) á sumardaginn fyrsta (22. apríl)
  2. Heilt maraþon í Vormaraþoni FM 24. apríl
  3. Vestmannaeyjahringurinn (Puffin Run) 8. maí
  4. Eitt fjallvegahlaup suðvestanlands seinni partinn í maí
  5. Hengill Ultra (53 km) 5. júní
  6. Einhver fjallvegahlaup á Austurlandi fyrri hluta júlímánaðar
  7. Laugavegurinn (í 6. sinn) 17. júlí
  8. Súlur Vertical (55 km) 31. júlí
  9. Reykjavíkurmaraþon (heilt) 21. ágúst

Kannski hleypur maður líka eitthvað í útlöndum. En öll svoleiðis skipulagning bíður betri tíma.

Þónokkur orð að lokum
Árið 2020 gaf mér gott, en um leið óumbeðið, tækifæri til að velta því fyrir mér hvers vegna ég held alltaf áfram að hlaupa, þó að ástandið á skrokknum og annríki í vinnu væru á stundum hvort um sig næg ástæða til að láta af þessari iðju. Ástæðurnar eru reyndar margar – og flestar þeirra hef ég þekkt lengi. En á þessu óvenjulega ári skerptist enn frekar en áður vitund mín um það hversu miklu máli hlaupin skipta mig félagslega. Í hlaupunum hef ég kynnst stórum hluta þess fólks sem ég lít á sem bestu vini mína og kunningja. Og eins og ég hef sagt áður, þá kynnist maður fólki á annan hátt á fjöllum en á parketi. Hlaupavináttan er að mestu óháð stétt og stöðu og einhvern veginn hafin yfir það sem stundum gefur tilverunni og samskiptum við fólk gráleitan blæ. Á hlaupum þarf gleðin ekki að ganga með grímu. Og fátt er meira gefandi en sameiginleg augnablik þegar langþráðum markmiðum er náð, eða jafnvel þegar fullkomin uppgjöf er eina svarið. Hlaupin eru orðin mjög stór hluti af tilveru minni, eins og endurspeglast kannski í myllumerkinu #corroergosum, sem ég hef lengi notað með hlaupamyndum á Instagram. („Ég hleyp og þess vegna er ég“). Kannski finnst einhverjum þetta óþarflega dramatískt, en fullkomin rökhyggja á hvort sem er betur heima annars staðar.

Stuðningsaðili nr. 1, Björk Jóhannsdóttir, búin að fylgja mér í lífinu í rúm 40 ár, ferja mig í ótal hlaupaverkefni og bíða eftir mér í nokkur hundruð klukkutíma að hlaupum loknum. Myndin er tekin í Gilsfirði við upphaf Hamingjuhlaupsins 27. júní 2020.

Þakklæti er sú tilfinning sem er alltaf efst í huga mér í lok hlaupaárs, hvort sem hlaupaupplifanir ársins hafa getið af sér bros eða tár. Fyrst og fremst er ég þakklátur forsjóninni, aðstæðunum og erfðaefninu sem gera mér mögulegt að stunda þetta gefandi áhugamál á sjötugsaldrinum, en svo er ég líka óskaplega þakklátur fólkinu sem hefur hjálpað forsjóninni að skapa þessar aðstæður. Þar á konan mín stærstan þátt. Það eitt að umbera áhugamálið, eins tímafrekt og það er, er þakkarvert, en þar fyrir utan hefur hún varið óteljandi tímum og kílómetrum í að ferja mig á milli hlaupaævintýra. Og hún er með doktorsgráðu í að bíða, eins og mig minnir að hún hafi orðað það eftir eitthvert fjallvegahlaupið. Börnin mín eiga líka stóran þátt í að skapa þessar aðstæður, ýmist með beinni þátttöku í ævintýrunum, góðum ráðum eða öðrum stuðningi. Og ekki má gleyma hlaupafélögunum, bæði í Hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi og annars staðar á landinu. Mikið verður gott að hitta þetta fólk aftur á nýju ári!

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: