• Heimsóknir

  • 107.184 hits
 • júní 2020
  S M F V F F S
   123456
  78910111213
  14151617181920
  21222324252627
  282930  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

40 ára hlaupaafmæli

Í dag eru liðin 40 ár síðan ég keppti í hlaupum í fyrsta sinn. Frumraunin var þreytt á héraðsmóti HSS í Sævangi við Steingrímsfjörð laugardaginn 19. ágúst 1972. Í minningunni snerist þátttaka mín í mótinu nánast eingöngu um keppni í 800 m hlaupi, en reyndar var ég búinn að taka þátt í 100 m hlaupi, langstökki og þrístökki áður en röðin kom að 800 metrunum.

Það var svo sem ekkert nýtt fyrir mér að hlaupa 800 metra, því að það hafði ég oft gert heima í sveitinni. Einhvern tímann höfðum við bræðurnir smíðað forláta mælistiku úr þremur prikum og notað hana til að stika út hæfilegar hlaupavegalengdir á gamla bílveginum sem liggur milli túnanna heima. Þar náði 800 m brautin frá Grafargili og út að Folaldslaut. Hallinn á brautinni er hagstæður ef hlaupið er í þessa átt, en ein brött brekka á leiðinni vinnur það sjálfsagt upp að mestu. Þessa braut hafði ég hlaupið á 2:37,5 mín fyrr um sumarið, nánar tiltekið 3. júlí. Eftir á að hyggja hef ég reyndar vissar efasemdir um þessa hálfu sekúndu, því að í stað skeiðklukku notaðist ég við Pierpont fermingarúrið mitt, sem vissulega var með sekúnduvísi, en engu umfram það.

Hlaupabrautin á Sævangi var eins og títt var til sveita, málaður hringur á sæmilega sléttu túni sem var slegið einum eða tveimur dögum fyrir mót. Endarnir á vellinum voru eitthvað leiðinlegir, þannig að brautin var bara um 350 m að lengd en ekki 400 m. Það skipti svo sem engu máli í 800 metrunum. Annað einkenni var kríuvarpið við norðurhorn vallarins. Kríunum var lítið gefið um knattspyrnuleiki og langhlaup og reyndu eftir megni að afstýra slíkum uppákomum. Líklega hefur nærvera þeirra hvatt hlaupara til dáða ef eitthvað var. Það sama gilti ekki um kalblettina sem höfðu lækkað lélegustu hluta brautarinnar um óþægilega marga sentimetra í tímanna rás. Það kom þó meira að sök í 100 metrunum, enda sérstaklega slæmur kalblettur nálægt miðri beinu brautinni.

Þar sem þetta var fyrsta frjálsíþróttamótið sem ég tók þátt í – og lítið um íþróttafataverslanir á Ströndum, bjó ég heldur illa að hlaupafötum og skótaui sem hæfðu viðfangsefninu. En ég var þó búinn að vera á Reykjaskóla einn vetur og hafði þar eignast forláta körfuboltabúning. Buxurnar voru ekki eins síðar og nú tíðkast í NBA, en þeim mun víðari. Þegar ég var kominn í þær minntu þær fljótt á litið meira á stutt pils en stuttbuxur, jafnvel þótt ég væri þá þegar orðinn álíka stór og sver og ég er núna. Mér fundust þær því ekki viðeigandi keppnisbúningur. Hins vegar var bolurinn fínn, gulur hlírabolur með rauðri bryddingu á köntum, stöfunum RSK framan á og tölunni 10 aftaná. Sniðið á bolnum var auk heldur svo nútímalegt að það líktist í einu og öllu því sem enn tíðkast, enda e.t.v. ekki mikið svigrúm til tilrauna við hönnun á hlírabolum. En buxnavandamálið þurfti að leysa með einhverjum hætti. Ég mætti því til leiks í ágætum tweedbuxum sem mamma hefur sjálfsagt verið nýbúinn að kaupa á mig sem betribuxur. Skótauinu er ég búinn að gleyma, en ég hafði ekki heyrt um ASICS þegar þetta var og gaddaskór komu ekki við sögu fyrr en ári síðar. Hins vegar átti ég örugglega ágæta strigaskó, því að svoleiðis skóbúnaður var ómissandi í sveitinni þegar unnið var í þurrheyi í góðu veðri eða hlaupið sér til skemmtunar á eftir heyvagninum.

Ég man svo sem ekki smáatriðin í hlaupinu sjálfu, nema hvað ég held að við höfum verið þrír sem lögðum af stað. Ég tók strax forystuna og sá aldrei til mannaferða eftir það. Eitthvað heyrði ég pískrað í áhorfendaskaranum um að þetta væri allt of hratt og að ég myndi springa. En mér var alveg sama um það. Hlaupinu lauk ég á 2:37,4 mín, sem mér fannst svo sem ekkert merkilegt, og hinir hlaupararnir voru um 100 metrum á eftir mér ef mig misminnir ekki.

Þetta var góður dagur í Sævangi og auðvitað var ég stoltur af verðlaunaskjölunum fjórum sem ég kom með heim um kvöldið. Skjalið fyrir 800 metrana skipti mig eðlilega langmestu máli. Það var hvítt á litinn eins og vera bar með skjöl sigurvegara. Hin voru bara blá, því að þar var ég í öðru sæti. En hvernig sem svona skjöl eru á litinn, þá eru þau töluvert persónulegri en allir þátttökupeningarnir sem hrúgast hafa upp á áratugunum sem liðnir eru síðan.

Ég velti því örugglega ekkert fyrir mér í ágúst 1972 hvort ég yrði enn að keppa í hlaupum 40 árum síðar. Líklega hefði mér þótt það fremur fjarstæðukennt ef einhver hefði spurt. Á þessum árum tíðkaðist heldur ekki að „gamalt fólk“ væri að spreyta sig í almenningshlaupum. Sjálfur var ég þó vanur því í sveitinni að fólk hlypi eins og fætur toguðu á meðan heilsan leyfði. Alla vega hélt pabbi heitinn áfram að hlaupa framundir andlátið, enda er sá ferðamáti fljótlegri en ganga. En hvað sem öðru líður er ég afskaplega þakklátur, bæði fyrir þessar gömlu minningar, fyrir að hafa lifað allar þær breytingar sem hafa átt sér stað síðan og fyrir að geta enn sinnt þessu áhugamáli mínu og haft gaman af!

Og verðlaunaskjalið fyrir 800 metrana geymi ég að sjálfsögðu!

Kalmansmaraþon

Jólafríið er tími til að gera eitthvað annað en alla hina dagana, til dæmis eitthvað annað en að sitja við tölvuna. Fyrir mig táknar þetta eitthvað annað til dæmis lestur, þ.e.a.s. bóklestur. Ég les nefnilega sjaldan bækur, en þess meira af rafrænum stöfum sem birtast á skjánum mínum, bæði í vinnutíma og utan hans.

Fyrir þessi jól kom út þriðja bókin í þríleik Jóns Kalmans Stefánssonar um strákinn, sem átti vin sem gleymdi stakki, sem gekk fram dal og yfir hásléttu, las Óþelló fyrir blindan skipstjóra, horfði á axlir úr tunglskini, gekk í löngu liðnum aprílmánuði með stórum landpósti yfir heiðar sem voru mislangt frá himninum og rann niður brekku með kalda hangikjötslykt í vitum.

Af því að það er jólafrí og af því að þessi bók kom út, ákvað ég að fara í Kalmansmaraþon, sem er náttúrulega ekki hlaup, heldur lestur, þ.e.a.s. bóklestur og að miklu leyti endurlestur. Mér fannst sem sagt ekki nóg að leggjast með þriðju og nýjustu bókina, Hjarta mannsins, heldur fannst mér nauðsynlegt að endurlesa hinar tvær fyrst til að rifja upp söguþráð og skynja norðanáttina, bæði í Himnaríki og helvíti og Harmi englanna. Byrjaði í gær og er búinn með þessar tvær, vitandi allan tímann að þær myndu færa mig hálfa leið inn í löngu liðinn aprílmánuð sem er svo óskaplega framandi nútímamanninum, en samt svo nálægt honum, eða alla vega nálægt mér, ekki bara vegna þess að ég hef lesið bróðurpartinn af Söguþáttum landpóstanna, heldur líka vegna þess að pabbi og mamma voru um það bil að fæðast þegar þessi aprílmánuður rann upp og vegna þess að ég ólst upp í einangrun á mælikvarða nútímans, þar sem norðanhríð boðaði margra daga einangrun og rafljósin dugðu ekki til að lýsa út í öll horn, sérstaklega ekki veturinn sem Listerinn var bilaður og steinolíulampar og kerti einu birtugjafarnir í skammdeginu.

Mér finnst Jón Kalman bera af öðrum höfundum samtímans, einmitt vegna þess að bækurnar hans færa mig hálfa leið inn í heim sem er svo fjarlægur en samt svo nálægur, einmitt vegna þess að á meðan ég les finnst mér ég sjálfur vera inni í sögunni, sjálfur að brjótast yfir Snæfjallaheiði með norðanhríð í andlitinu, hálfvegis meðvitaður um að leiðin til baka verði kannski aldrei farin.

Þangað til ég stend upp frá lestrinum og kveiki á uppþvottavélinni.

38 ár frá fyrstu skipulegu hlaupaæfingunni

Í dag eru liðin 38 ár frá því að ég mætti á fyrstu skipulegu hlaupaæfinguna. Þetta var fimmtudaginn 1. nóvember 1973. Snemma í september hafði ég komið suður yfir Holtavörðuheiði með Hallgrími bróður mínum á brúnni Cortínu til að hefja menntaskólanám, m.a. með þá hugmynd í farteskinu að fara að æfa frjálsar íþróttir af fullri alvöru. Mig minnir að ég hafi mætt á einhverjar æfingar á Melavellinum þarna um haustið, en í fljótu bragði finn ég engar áreiðanlegar heimildir um það. En þann 1. nóvember var ég sem sagt kominn með æfingaprógramm í hendurnar frá Guðmundi heitnum Þórarinssyni og mættur á fyrstu skipulegu æfinguna í Baldurshaga undir stúku Laugardalsvallarins. Sama dag byrjaði ég að halda æfingadagbók – og hef gert það með litlum hléum síðan.

Æfingadagbókin mín haustið 1973, bls. 1 (brot).

Ég man reyndar ekkert eftir þessu fimmtudagskvöldi í nóvemberbyrjun 1973. Og í æfingadagbókinni stendur ekkert nema „Æfing í Baldurshaga“. Hins vegar man ég eftir samtali við Guðmund heitinn þegar hann spurði mig hvaða greinar ég ætlaði að æfa, og ég sagðist ætla að sérhæfa mig í millivegalengdahlaupum og þrístökki. Ég held að hann hafi ekki alveg tekið mark á þessu með þrístökkið, en sjálfur þóttist ég vera álíka efnilegur í því eins og í hlaupunum, enda árangurinn eitthvað svipaður skv. stigatöflu. Líklega var ég á „Topp-5 listanum“ á Íslandi yfir 15-16 ára gutta í hvoru tveggja þetta árið.

Ég man heldur ekki hvernig það atvikaðist að ég fór að æfa með ÍR, en þar var Guðmundur sem sagt aðal-frjálsíþróttaþjálfarinn, hafði verið lengi og átti eftir að vera lengi enn. Kannski hafði ég einhverja hugmynd um að þar væri best að vera, eða kannski voru þetta áhrif frá skólabræðrum mínum í Hamrahlíð, þeim Þráni Hafsteinssyni og Þorvaldi Þórssyni, sem báðir áttu eftir að verða stórstjörnur á íslenska frjálsíþróttahimninum. Kannski kom MH-ingurinn Gunnar Páll Jóakimsson þarna eitthvað við sögu líka. Alla vega var þetta mikið lán, því að hjá ÍR var mér alltaf tekið sem heimamanni, jafnvel þótt ég keppti allan tímann fyrir HSS (Héraðssamband Strandamanna). Svipað gilti reyndar um Þráin, Þorvald og ýmsa fleiri.

Ég geymi enn þetta 38 ára gamla æfingaprógramm frá Guðmundi. Það hafði hann sjálfur handskrifað á stensil fyrir sprittfjölrita og skilið eftir eyður til að skrifa í hæfileg viðmið eftir getu hvers og eins. Efst á eintakinu mínu stendur með rauðum stöfum „Miðast við 2:20,1 á 800 og 4:47,9 á 1.500“, en þetta voru bestu tímarnir sem ég hafði náð fyrir norðan um sumarið og haustið. Í nóvember átti að taka 4 æfingar á viku, þar sem skiptust á þolhlaup, léttar lyftingaæfingar, leikfimi og spretthlaup. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá byrjunina á fyrstu síðunni, með áætluðum tímum fyrir sprettæfingarnar „miðað við snjólausa braut“.

Persónuleg æfingaáætlun frá Guðmundi Þórarinssyni fyrir nóvember 1973.

Ég æfði mjög vel þennan fyrsta vetur í Reykjavík og fram eftir þeim næsta. En svo fór eitthvað að halla undan fæti í þeim efnum. Og ég er nokkuð viss um að ég hugleiddi aldrei hvernig æfingaprógrammið mitt myndi líta út eftir 38 ár. Það prógramm er að vísu ekki til á pappír, hvorki úr sprittfjölrita né öðrum prenttækjum, en það er til engu að síður sem lausleg viðmið í eigin kolli, byggt á reynslu síðustu áratuga.

Næstu daga ætla ég að taka nokkrar æfingar úr prógramminu hans Guðmundar Þórarinssonar, alveg eins og haustið 1973. Læt ykkur vita hvernig það gengur. 🙂