• Heimsóknir

  • 119.667 hits
 • nóvember 2011
  S M F V F F S
   12345
  6789101112
  13141516171819
  20212223242526
  27282930  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

38 ár frá fyrstu skipulegu hlaupaæfingunni

Í dag eru liðin 38 ár frá því að ég mætti á fyrstu skipulegu hlaupaæfinguna. Þetta var fimmtudaginn 1. nóvember 1973. Snemma í september hafði ég komið suður yfir Holtavörðuheiði með Hallgrími bróður mínum á brúnni Cortínu til að hefja menntaskólanám, m.a. með þá hugmynd í farteskinu að fara að æfa frjálsar íþróttir af fullri alvöru. Mig minnir að ég hafi mætt á einhverjar æfingar á Melavellinum þarna um haustið, en í fljótu bragði finn ég engar áreiðanlegar heimildir um það. En þann 1. nóvember var ég sem sagt kominn með æfingaprógramm í hendurnar frá Guðmundi heitnum Þórarinssyni og mættur á fyrstu skipulegu æfinguna í Baldurshaga undir stúku Laugardalsvallarins. Sama dag byrjaði ég að halda æfingadagbók – og hef gert það með litlum hléum síðan.

Æfingadagbókin mín haustið 1973, bls. 1 (brot).

Ég man reyndar ekkert eftir þessu fimmtudagskvöldi í nóvemberbyrjun 1973. Og í æfingadagbókinni stendur ekkert nema „Æfing í Baldurshaga“. Hins vegar man ég eftir samtali við Guðmund heitinn þegar hann spurði mig hvaða greinar ég ætlaði að æfa, og ég sagðist ætla að sérhæfa mig í millivegalengdahlaupum og þrístökki. Ég held að hann hafi ekki alveg tekið mark á þessu með þrístökkið, en sjálfur þóttist ég vera álíka efnilegur í því eins og í hlaupunum, enda árangurinn eitthvað svipaður skv. stigatöflu. Líklega var ég á „Topp-5 listanum“ á Íslandi yfir 15-16 ára gutta í hvoru tveggja þetta árið.

Ég man heldur ekki hvernig það atvikaðist að ég fór að æfa með ÍR, en þar var Guðmundur sem sagt aðal-frjálsíþróttaþjálfarinn, hafði verið lengi og átti eftir að vera lengi enn. Kannski hafði ég einhverja hugmynd um að þar væri best að vera, eða kannski voru þetta áhrif frá skólabræðrum mínum í Hamrahlíð, þeim Þráni Hafsteinssyni og Þorvaldi Þórssyni, sem báðir áttu eftir að verða stórstjörnur á íslenska frjálsíþróttahimninum. Kannski kom MH-ingurinn Gunnar Páll Jóakimsson þarna eitthvað við sögu líka. Alla vega var þetta mikið lán, því að hjá ÍR var mér alltaf tekið sem heimamanni, jafnvel þótt ég keppti allan tímann fyrir HSS (Héraðssamband Strandamanna). Svipað gilti reyndar um Þráin, Þorvald og ýmsa fleiri.

Ég geymi enn þetta 38 ára gamla æfingaprógramm frá Guðmundi. Það hafði hann sjálfur handskrifað á stensil fyrir sprittfjölrita og skilið eftir eyður til að skrifa í hæfileg viðmið eftir getu hvers og eins. Efst á eintakinu mínu stendur með rauðum stöfum „Miðast við 2:20,1 á 800 og 4:47,9 á 1.500“, en þetta voru bestu tímarnir sem ég hafði náð fyrir norðan um sumarið og haustið. Í nóvember átti að taka 4 æfingar á viku, þar sem skiptust á þolhlaup, léttar lyftingaæfingar, leikfimi og spretthlaup. Á myndinni hér fyrir neðan má sjá byrjunina á fyrstu síðunni, með áætluðum tímum fyrir sprettæfingarnar „miðað við snjólausa braut“.

Persónuleg æfingaáætlun frá Guðmundi Þórarinssyni fyrir nóvember 1973.

Ég æfði mjög vel þennan fyrsta vetur í Reykjavík og fram eftir þeim næsta. En svo fór eitthvað að halla undan fæti í þeim efnum. Og ég er nokkuð viss um að ég hugleiddi aldrei hvernig æfingaprógrammið mitt myndi líta út eftir 38 ár. Það prógramm er að vísu ekki til á pappír, hvorki úr sprittfjölrita né öðrum prenttækjum, en það er til engu að síður sem lausleg viðmið í eigin kolli, byggt á reynslu síðustu áratuga.

Næstu daga ætla ég að taka nokkrar æfingar úr prógramminu hans Guðmundar Þórarinssonar, alveg eins og haustið 1973. Læt ykkur vita hvernig það gengur. 🙂

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: