• Heimsóknir

  • 114.198 hits
 • október 2021
  S M F V F F S
   12
  3456789
  10111213141516
  17181920212223
  24252627282930
  31  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

202×2020

2020 131025Í dag birtist 202. umhverfisfróðleiksmolinn á umhverfisfróðleikssíðunni 2020.is. Ég skrifaði fyrsta molann á þessa síðu 30 . ágúst 2012 og síðan þá hef ég bætt við einum mola á hverjum virkum degi ef frá eru taldir þónokkrir dagar í vor, sumar og haust, þegar þetta tómstundagaman mitt varð undir í samkeppni um tímann við vinnuna mína og önnur gæluverkefni.

Moli dagsins fjallar um landbúnað í Argentínu. Málefnin eru annars álíka mörg og dagarnir sem líða. Megintilgangurinn með skrifunum er fræða um umhverfismál og sjálfbæra þróun með einföldum og auðskildum hætti, enda er fræðsla forsenda þekkingar – og þekking er forsenda framfara í umhverfismálum.

Þeir sem vilja fræðast um ritstjórnarstefnu 2020.is geta lesið sér til um hana á þar til gerðri síðu. Hinir, sem vilja bara fræðast um umhverfismál, geta hins vegar stytt sér stundir við að lesa alla 202 fróðleiksmolana, hvort sem þeir fjalla um efnavörur, erfðabreyttar lífverur, grænt hagkerfi, hafið, heilsu, líffræðilega fjölbreytni, lífræna framleiðslu, loftslagsmál, neytendamál, orku, samgöngur, siðræn viðskipti, sjálfbæra þróun, umhverfismerki, úrgang, vistkerfi eða vistvæna hönnun.

Vefsíðan 2020.is orðin að veruleika

Ég opnaði nýja vefsíðu á dögunum, vefsíðuna 2020.is. Þetta er vefsíða með stuttum, daglegum umhverfispunktum, sem ég hef lengi ætlað mér að koma upp, eiginlega alveg síðan „Íslenska Staðardagskrárverkefnið“ leið undir lok í árslok 2009. Hluti af því verkefni var sérstök síða með „Orðum dagsins“, þ.e.a.s. tilvitnunum og stuttum fréttum um umhverfismál. Árum saman hafði það verið ein helsta skemmtun mín í vinnunni að taka saman þessa punkta og klæða þá í búning sem ég taldi aðgengilegan fyrir lesendur. Þess vegna fannst mér svolítið leiðinlegt að hætta þessum skrifum. Fann bara ekki leiðina til að endurvekja þau – fyrr en nú.

Nú er eðlilegt að spurt sé hvort umfjöllun um umhverfismál hverfi þá af bloggsíðunni minni. Svarið er „nei“. Umfjöllunin á 2020.is er eingöngu í formi stuttra fróðleiksmola (5-15 línur), en eftir sem áður mun ég blogga í lengra máli um þau umhverfismál sem eru mér hugleiknust hverju sinni, þ.e. eftir því sem tími vinnst til. Báðar síðurnar flokkast undir tómstundagaman – og stundum myndast samkeppni á milli tómstundagamans og launaðrar vinnu. Þannig er lífið.

Reyndar hefur lítið farið fyrir umhverfismálum hérna á blogginu síðustu vikur, heldur hafa hlaupin verið nær allsráðandi. Þetta er alvanalegt á sumrin. Nú er hins vegar að koma haust og aldrei að vita nema ég setjist niður einhvern daginn og skrifi ógurlega langa bloggpistla um sjálfbæra hjöðnun, hanastélsáhrif eða skipulag hálendisins. Þeir sem nenna ekki að bíða eftir löngum pistlum sem birtast sjaldan ættu að byrja daginn með því að líta á nýjasta fróðleikinn á 2020.is. Þar verður eitthvert lífsmark flesta virka daga.