• Heimsóknir

    • 119.039 hits
  • mars 2023
    S M F V F F S
     1234
    567891011
    12131415161718
    19202122232425
    262728293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Bara hlaupablogg?

Ég hugsa að þetta blogg sé að breytast í hreinræktað hlaupablogg. Hingað til hefur þetta verið sitthvað um umhverfismál og eitthvað um hlaup, svona hvað með öðru, nema hvað undanfarna mánuði hefur þetta eiginlega ekki verið neitt. Um þessar mundir er staðan þannig að ég fæ þokkalega útrás fyrir tjáningarþörfina á umhverfissviðinu í Sjónmálsþáttum Rásar 1 og á 2020.is. Reyndar liggja hjá mér nokkur mál sem mig langar að gera ítarlegri skil, en hvert slíkt mál útheimtir um það bil heilt dagsverk, og dagsverk eru takmörkuð auðlind. Þetta eru mál á borð við reynslu þjóða heims af því að beita varúðarreglunni samanborið við að beita henni ekki, umfjöllun um hollustu Sushi og mikilvægi þess að fólk sé gagnrýnið á það sem það lætur ofan í sig, umfjöllun um grænþvott úr hörðustu átt o.s.frv. Þessi mál bíða betri tíma eða úreldingar ef betri tími kemur ekki. Hér eftir sem hingað til verður þessi síða hins vegar helsti vettvangur fyrir vangaveltur mínar um hlaup. Þær vangaveltur eiga það til að ágerast þegar vorar.

Blogg í andarslitrum?

Svo hávær hefur þögn þessarar bloggsíðu verið síðustu vikur að ætla mætti að hún væri liðin undir lok. Fréttir af andláti hennar eru þó ýktar. Mörg blogg bíða þess að vera skrifuð, sérstaklega blogg um slitna hlaupaskó, undirbúning fyrir Parísarmaraþonið 7. apríl og um varúðarregluna sem hefði átt að beita miklu oftar en gert hefur verið. Blogg er bara tómstundagaman af því tagi að það er látið víkja þegar vinna og önnur frekari og/eða tímafrekari áhugamál eru hvað ágengust. Svo er nú. En minn tími mun koma.

Þetta er Stefán Gíslason sem bloggar frá Borgarnesi.

Sex ára bloggafmæli

Bloggmánuðir í 6 árÍ dag er mikið um dýrðir, því að í dag eru liðin 6 ár frá því að ég gerðist bloggari. Þessum tímamótum hef ég fagnað með tedrykkju allan daginn, með hléum.

Þegar bloggferill minn hófst var óljóst hvert leiðin lægi. Svo er enn. Því er þó ekki að neita að bloggum hefur farið fækkandi eftir því sem árin hafa liðin, eins og sjá má á grófu línuriti yfir mánaðarlegan fjölda blogga, sem skýrist ef smellt er á litlu myndina hér efst til hægri. Þessi mikilvæga og stórkostlega gagnlega tölfræðilega greining bendir til eindreginnar en nokkuð óstöðugrar hnignunar. Öll á þróunin sínar skýringar, sem ég er örugglega búinn að gleyma. Þó hygg ég að eftir að ég hóf að leggja lag mitt við Fésbók á tveggja ára bloggafmælinu þann 11. janúar 2009 hafi bloggum fækkað smátt og smátt, enda auðvelt að fá útrás á Fésbókinni fyrir skrifþörf í litlum skömmtum. Stærri skrifþarfarköst leiða hins vegar enn til bloggskrifa. Annað sem skipti máli fyrir framgang þessara mála var ris og hnig Moggabloggsins. Þar var hægt að skrifa blogg um fréttir með einföldum og snöggsoðnum hætti. Það fannst mér stundum gaman. Hins vegar fannst mér ekki gaman þegar Moggabloggið eyðilagðist haustið 2009. Þegar rýnt er í línuritið má merkja ákveðið hrun nálægt miðri mynd, en það hrun átti sér einmitt stað sumarið 2009, nokkrum mánuðum eftir fyrstu kynni mín af Fésbókinni og nokkrum mánuðum fyrir brotthvarf af Moggablogginu.

Framhaldið er óljóst, en ég mun þó örugglega halda áfram að skrifa bloggpistla annað slagið. Reyndar hef ég síðustu mánuði fengið útrás fyrir hluta af skrifþörfinni og jafnframt ákjósanlegan farveg fyrir óráðstafaðan tíma á vefsíðunni http://2020.is. Þar er stefnt að linnulausu framhaldi enn um sinn.

Læt ég hér lokið afmælisfagnaðarskrifum að sinni. Teið drekkur sig ekki sjálft.

Vefsíðan 2020.is orðin að veruleika

Ég opnaði nýja vefsíðu á dögunum, vefsíðuna 2020.is. Þetta er vefsíða með stuttum, daglegum umhverfispunktum, sem ég hef lengi ætlað mér að koma upp, eiginlega alveg síðan „Íslenska Staðardagskrárverkefnið“ leið undir lok í árslok 2009. Hluti af því verkefni var sérstök síða með „Orðum dagsins“, þ.e.a.s. tilvitnunum og stuttum fréttum um umhverfismál. Árum saman hafði það verið ein helsta skemmtun mín í vinnunni að taka saman þessa punkta og klæða þá í búning sem ég taldi aðgengilegan fyrir lesendur. Þess vegna fannst mér svolítið leiðinlegt að hætta þessum skrifum. Fann bara ekki leiðina til að endurvekja þau – fyrr en nú.

Nú er eðlilegt að spurt sé hvort umfjöllun um umhverfismál hverfi þá af bloggsíðunni minni. Svarið er „nei“. Umfjöllunin á 2020.is er eingöngu í formi stuttra fróðleiksmola (5-15 línur), en eftir sem áður mun ég blogga í lengra máli um þau umhverfismál sem eru mér hugleiknust hverju sinni, þ.e. eftir því sem tími vinnst til. Báðar síðurnar flokkast undir tómstundagaman – og stundum myndast samkeppni á milli tómstundagamans og launaðrar vinnu. Þannig er lífið.

Reyndar hefur lítið farið fyrir umhverfismálum hérna á blogginu síðustu vikur, heldur hafa hlaupin verið nær allsráðandi. Þetta er alvanalegt á sumrin. Nú er hins vegar að koma haust og aldrei að vita nema ég setjist niður einhvern daginn og skrifi ógurlega langa bloggpistla um sjálfbæra hjöðnun, hanastélsáhrif eða skipulag hálendisins. Þeir sem nenna ekki að bíða eftir löngum pistlum sem birtast sjaldan ættu að byrja daginn með því að líta á nýjasta fróðleikinn á 2020.is. Þar verður eitthvert lífsmark flesta virka daga.

Vægt lífsmark

Í dag er liðinn mánuður frá síðasta bloggi. Fréttir af andláti bloggsins eru þó nokkuð ýktar. Ég hef bara haft mikið að gera í vinnunni – og þá situr bloggið á hakanum. Svo mun sjálfsagt verða fram á Einmánuð. Af nógu er samt að taka. Meðal blogga sem bíða eftir að verða skrifuð má nefna:

  • Á morgun fæ ég að vita það (2. tilraun)
  • Byggðaráð og lýðræði
  • Endurtekning 38 ára gamalla hlaupaæfinga (2. kapítuli)
  • Endurvinnsla geisladiska
  • Eru „Önnur mál“ mál?
  • „Ertu ekki slæmur í hnjánum“?
  • Fagleg stöðnun landbúnaðarháskólans
  • Farsímar í afrískum landbúnaði
  • Fjallvegahlaupaáætlunin 2012
  • Hlaupaannáll 2011 og markmiðin 2012
  • Matjurtarækt í þéttbýli
  • Munu raunvísindin bjarga mannkyninu?
  • Nauðhemlun 2017
  • Ný störf við lífræna framleiðslu
  • Reiðhjól til lausnar fæðuvanda heimsins
  • Rætur „Hins íslenska fóðurblöndupoka“
  • Svarthvítir Íslendingar
  • Tár fellt vegna ólöglegrar markaðssetningar
  • Urðun lífræns úrgangs
  • Verkjalyf og hlaup

En ég lofa engu.

Niðursveifla eftir kosningar?

Lítið lífsmark hefur verið með þessari bloggsíðu síðustu daga. Því er eðlilegt að spurt sé hvort niðursveiflan eftir kosningarnar sé slík að hér þrífist ekkert líf lengur. Línuritið til hægri yfir fjölda innlita á síðuna gæti eimitt gefið það til kynna.

Hvað sem línuritum líður eru fréttir af andláti mínu og útför stórlega ýktar, eins og mig minnir að Mark Twain hafi orðað það. Næstu daga mun hellast hér inn hver bloggfærslan af annarri – um umhverfismál, hlaup og annað sem miklu skiptir í lífinu. Missið ekki af því.
🙂

Fimmta bloggsíðan

Ég setti upp þessa bloggsíðu fyrir nokkrum dögum, aðallega vegna þess hversu illa gekk að meðhöndla myndir á Vísisblogginu þar sem ég hef verið síðustu mánuði, þ.e.a.s. frá 4. apríl sl.

Já, ég veit að þetta jaðrar við fjöllyndi. Þetta er sem sagt fimmta bloggsíðan mín á þremur og hálfu ári. (Mig minnir einmitt að þriggja og hálfs árs afmælið sé á morgun). Fyrst var það http://stefangisla.blogcentral.is frá 11. janúar 2007 til 29. febrúar 2008, þá http://stefangisla.blog.is frá 29. febrúar 2008 til 24. september 2009 (kl. 16.30), næst http://stefangisla.bloggar.is frá 24. október 2009 til 20. mars 2010 og loks http://blogg.visir.is/stefangisla frá 4. apríl til 5. júlí 2010, sem er stysti líftíminn hingað til.

Fyrstu kynni mín af WordPress eru jákvæð. Alla vega virðist allt virka eins og það á að gera,  þ.m.t. myndvinnsla. Auk þess er boðið upp á fjölmarga möguleika til að laga útlitið að eigin smekk. Gallinn er hins vegar sá að slóðin er pínulítið torkennileg, af því að WordPress er jú útlenskt orð, sem maður veit jafnvel ekki hvort eigi að skrifa með einu eða tveimur essum. Svo tengist síðan heldur ekki neinum fjölmiðli sem netverjar heimsækja tíðum. Þess vegna rambar fólk kannski síður inn á svona wordpress-síðu en sumar aðrar síður. En það verður þá bara að hafa það.

Býst við að dvelja hér um stund. Síðan er enn á tilraunastigi og skrifuð í kyrrþey. En þegar fram í sækir vonast ég til að ná augum sem flestra, því að sá eru jú tilgangurinn, auk þess að varðveita eitt og annað sem mér dettur í hug að skrifa.