• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • júní 2023
    S M F V F F S
     123
    45678910
    11121314151617
    18192021222324
    252627282930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Að tilheyra hópi

SA Mind forsíðaMargt fólk sem ég þekki tekur þátt í einhvers konar hópstarfi. Viðfangsefni hópanna eru ólík og sum þeirra geta jafnvel virst fáfengileg við fyrstu sýn. En þegar betur er að gáð getur það skipt sköpum fyrir okkur sem einstaklinga að vera hluti af einhverjum hópi, alveg sama hvort það er brönugrasaklúbbur, Kiwanis, kvenfélag, kór aldraðra, leshringur eða hlaupahópur. Rannsóknir benda nefnilega til að þeir sem finnast þeir tilheyra hópi eigi síður vanda til að leggjast í þunglyndi með tilheyrandi hættu á neikvæðum hliðarverkunum, þ.m.t. sjálfsvígum. Í ljósi þessara rannsókna hefur orðið „hópmeðferð“ eiginlega öðlast nýja merkingu. Meðferðin þarf sem sagt alls ekki að beinast að sjúkdómnum sjálfum, heldur getur hún verið fólgin í nánast hvers konar hópstarfi sem verkast vill, allt eftir aðstæðum og áhuga þess sem í hlut á. Þessari nýju tegund hópmeðferðar eru gerð ágæt skil í grein eftir Tegan Cruwys og félaga sem birtist í tímaritinu Scientific American Mind (SA Mind) á síðasta hausti, en ég rakst á þetta hefti á biðstofu læknis á dögunum innan um snjáð tölublöð af Nýju lífi frá árinu 2004. Ég er alls enginn fræðimaður á þessu sviði, en í þessum pistli ætla ég samt að tína til nokkur atriði úr þessari grein, enda hygg ég að innihald hennar eigi erindi við fleiri en þá sem lesa SA Mind reglulega.

Í grein Cruwys og félaga eru raktar niðurstöður nokkurra nýlegra rannsókna á mikilvægi hópkenndar fyrir andlega líðan fólks. Í greininni kemur fram að við meðferð við þunglyndi sé alla jafna gengið út frá því að vandamálið eigi rætur í einstaklingnum sjálfum. Þess vegna sé meðferð annað hvort ætlað að breyta efnaskiptum í heila eða hafa áhrif á viðhorf einstaklingsins til lífsins og tilverunnar. Reynslan sýni hins vegar að það séu yfirleitt utanaðkomandi atvik sem hrindi atburðarásinni af stað. Þannig megi rekja 60-90% allra þunglyndistilfella til einhvers konar missis, svo sem atvinnumissis, tapaðrar vináttu eða ástarsorgar. Auk þess banki þunglyndi helst á dyrnar hjá þeim sem búa einir.

Eftir því sem þekking manna á þunglyndi eykst verður augljósara hversu mikinn þátt félagsleg einangrun á í vandanum. Því er rökrétt að draga þá ályktun að aukin samskipti við annað fólk hafi forvarnargildi. Rannsókn Fabio Sani og félaga við háskólann í Dundee í Skotlandi á 194 einstaklingum leiddi hins vegar í ljós að galdurinn felst ekki í samskiptunum sem slíkum, heldur í eðli samskiptanna. Þáttakendur í rannsókninni voru annars vegar spurðir hversu mikið þeir hittu og töluðu við nánustu fjölskyldumeðlimi og hins vegar hversu miklu máli þeir teldu þessa fjölskyldu skipta sig. Í ljós kom að tíðni samskipta hafði ekki mikil áhrif á þróun þunglyndis, en samkennd með fjölskyldunni hafði hins vegar mikið forvarnargildi. Í því sambandi skipti ekki máli hvers konar „fjölskyldu“ var um að ræða. Í tiltekinni austur-evrópskri herdeild hafði það t.d. miklu meira forvarnargildi að finna til sterkra tengsla við félagana en það eitt út af fyrir sig að verja miklum tíma með þeim.

En það er ekki nóg að ganga bara í einhvern hóp. Hópurinn verður að skipta einstaklinginn máli. Það eitt að mæta á staðinn og spila fótbolta með einhverjum, stunda listsköpun, sauma eða stunda jóga virðist ekki hafa marktæk jákvæð áhrif. Það er samkenndin með hópnum sem gerir útslagið, þ.e.a.s. tilfinningin að vera hluti af þessum hópi. Almennt talað skiptir engu máli hvert viðfangsefni hópsins er. Frá þessu eru þó undantekningar ef um er að ræða hópa sem myndast t.d. utan um eiturlyfjaneyslu eða andfélagslega hegðun.

Rannsóknirnar sem Cruwy og félagar vísa í leiða ekki einasta í ljós mikilvægi hóptilfinningarinnar til að vinna gegn þunglyndi, heldur virðist það eitt að hugsa um hópinn sinn draga úr líkum á að smitast af veirum sem maður hefur komist í tæri við, gera mann síður móttækilegan fyrir áreiti og auka sársaukaþol.

Ein af þeim ályktunum sem hægt er að draga af samantekt Cruwys og félaga er að hægt væri að ná miklum árangri í forvörnum og meðhöndlun þunglyndis með því einu að fá viðkomandi einstaklinga til að ganga í einn eða fleiri hópa. Og þá skiptir nánast engu máli hvers konar hóp er um að ræða, svo fremi sem eintaklingurinn upplifir sig sem hluta af hópnum. Meðferð af þessu tagi getur að sjálfsögðu ekki komið að öllu leyti í stað annarra dýrari úrræða, en hún getur í það minnsta bætt árangur án verulegs aukakostnaðar fyrir einstaklinginn eða samfélagið og án aukaverkana. Hún getur auk heldur nýst í aðstæðum eða á svæðum þar sem um fá önnur úrræði er að ræða.

(Þessi pistill er byggður á: Tegan Cruwys, S. Alexander Haslam og Genevieve A. Dingle, (2014): The New Group Therapy. Scientific American Mind, Sept.-okt. 2014, (60-63)).