• Heimsóknir

  • 117.708 hits
 • október 2022
  S M F V F F S
   1
  2345678
  9101112131415
  16171819202122
  23242526272829
  3031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Að nýliðnum yfirdráttardegi

EOD2013-A_web2Yfirdráttardagurinn 2013 var í fyrradag. Á þriðjudagskvöldið var mannkynið nefnilega búið að eyða öllu því sem náttúran getur framleitt á þessu ári, sem þýðir að frá og með gærdeginum verðum við að lifa á yfirdrætti til áramóta. Í gærmorgun stóð hinn vistfræðilegi tékkareikningur mannkynsins á núlli – og engin útborgun fyrr en á næsta ári.

Samtökin Global Footprint Network hafa þróað aðferð til að reikna vistfræðilegt fótspor þjóða, eða vistspor eins og það er venjulega kallað. Út frá sömu forsendum tímasetja samtökin „yfirdráttardaginn“ (sem á ensku er kallaður „Earth Overshoot Day“). Yfirdráttardagurinn er sá dagur þegar afrakstur ársins er genginn til þurrðar. Þá er með öðrum orðum búið að nota allar þær auðlindir sem jörðin getur gefið af sér á árinu og ekki um annað að ræða en að ganga á birgðir.

Að sjálfsögðu er ekki til nein ein rétt aðferð til að tímasetja yfirdráttardaginn og þar af leiðandi enginn einn réttur yfirdráttardagur, en smátt og smátt verður aðferðafræðin betri og niðurstaðan nær því að gefa rétta mynd af ástandinu. Yfirleitt hefur þessi dagsetning færst fram um nokkra daga á ári, en stundum verða meiri sveiflur þegar unnið er að lagfæringum á aðferðafræðinni. Árið 1993 bar yfirdráttardaginn upp á 21. október, 10 árum síðar, þ.e.a.s. 2003, var hann 22. september – og núna var hann 20. ágúst. Hann hefur þannig færst fram um u.þ.b. einn mánuð á hverju 10 ára tímabili – og flest bendir til að sú þróun haldi áfram enn um sinn.

Þriðjudagurinn í fyrradag var 232. dagur ársins, af 365. Það þýðir með öðrum orðum að á þessu ári notar mannkynið 365/232 = 1,57 jörð til að framfleyta sér, samkvæmt útreikningum Global Footprint Network. Svona getur þetta augljóslega ekki gengið til lengdar.

Nú er eðlilegt að spurt sé: Hvar fáum við þessar 0,57 jarðir sem vantar upp á? Svarið er einfalt: Þetta tökum við af höfuðstólnum, svo sem úr olíu og öðrum jarðefnum sem við höfum nurlað saman á milljónum ára, ef svo má að orði komast. Og við tökum þetta líka úr andrúmslofti og vatni, sem hafa kannski tekið við 57% meiri úrgangi en þau ráða við á einu ári, og úr jarðvegi og regnskógum, sem hafa kannski verið skert um 57% umfram það sem getur endurnýjast á einu ári.

Eins og vænta má gengur þjóðum heims misvel að lifa af því sem landið þeirra gefur af sér, já eða landið þeirra og sjórinn svo öllu sé nú haldið til haga. Þannig eru lönd á borð við Ástralíu, Brasilíu, Kanada, Svíþjóð og Madagaskar sæmilega aflögufær, því að neysla þessara þjóða hverrar um sig nemur aðeins um eða innan við helmingi af líffræðilegri getu viðkomandi lands, en með líffræðilegri getu er átt við þau gæði sem vistkerfi landsins geta gefið af sér á einu ári. Hins vegar eiga öll þessi lönd það sameiginlegt að líffræðileg geta þeirra hefur farið minnkandi á síðustu árum, í það minnsta ef tekið er til tillit til íbúafjölda. Það sem er til ráðstöfunar fyrir hvern einstakling hefur með öðrum orðum farið minnkandi ár frá ári, þó að enn sé borð fyrir báru. Væntanlega nýta aðrar þjóðir sér þessa umframgetu með einum eða öðrum hætti, sem er jú eins gott, því að víðast hvar er eftirspurn eftir landsins gæðum mun meiri en framboðið. Þannig þurfa Kínverjar um það bil tvö og hálft Kína til að framfleyta sér, Bandaríkjamenn þurfa næstum tvö Bandaríki og Japanir rúmlega sjö Japön, eða hvernig sem maður segir annars Japan í fleirtölu. Ef við lítum á þau ríki sem næst okkur standa, þá eru Norðmenn nokkurn veginn á pari, sem þýðir að þeir fullnýta auðlindir sínar frá ári til árs, Finnar nýta aðeins helming af líffræðilegri getu sinni, en Danir þurfa um það bil tvær Danmerkur til að standa undir sinni neyslu.

Sumar þjóðir eru svo heppnar, ef hægt er að orða það þannig, að vera fámennar og búa í stóru og gjöfulu landi. Mér finnst til dæmis líklegt að neysla hvers Svía sé ekki mjög frábrugðin neyslu hvers Dana. Samt gætu allir Svíar lifað á um það bil hálfri Svíþjóð á sama tíma og Danir þurfa tvær Danmerkur. Þegar neysla þjóða er borin saman er því í raun réttara að skoða hvað jarðarbúar myndu þurfa margar jarðir til að framfleyta sér ef allir lifðu eins og einstaklingar viðkomandi þjóðar. Þá kemur í ljós að Norðmenn, Svíar og Finnar eru allir á svipuðu róli. Ef allir jarðarbúar myndu lifa eins og þessar þjóðir þyrfti mannkynið líklega rétt rúmar 3 jarðir til að framfleyta sér. Danir virðast reyndar örlítið þyngri á fóðrum, því að í þeirra tilviki þyrfti um 4 jarðir.

Allt það sem hér hefur verið sagt miðast við útreikninga Global Footprint Network, en þar á bæ er hins vegar ekki til nein opinber tala fyrir Ísland. Í meistararitgerð sinni 2010 skoðaði Sigurður Eyberg Jóhannesson vistspor Íslands sérstaklega, en þar kom í ljós að erfitt er að beita sömu aðferðafræði til að leggja mat á stöðu Íslands, meðal annars vegna sérstæðs orkubúskapar og þess hversu stór fiskveiðilögsagan er miðað við flatarmál landsins. En hvernig sem litið er á málið er ljóst að Íslendingar eru í hópi neyslufrekustu þjóða í heimi. Ýmsar tölur hafa verið nefndar í því sambandi, en sú lægsta sem ég hef heyrt er að jarðarbúar myndu þurfa 5-6 jarðir til að framfleyta sér ef allir lifðu eins og Íslendingar. Það setur okkur á bekk með Sameinuðu arabísku furstadæmunum sem telst neyslufrekasta þjóð heims eins og staðan er í dag í bókhaldi Global Footprint Network. Meðaljóninn í heimsþorpinu þarf jú 1,57 jörð miðað við að afrakstur ársins sé uppurinn á 232. degi eins og ég gat um fyrr í þessum pistli.

Það má annars orða þetta með yfirdráttardaginn þannig, að nú séum við, þ.e.a.s. mannkynið, í sömu stöðu og bóndi sem er búinn að gefa ánum sínum eða kúnum allt heyið frá liðnu sumri. Hann á ekki nema um tvennt að velja; annað hvort að kaupa hey frá öðrum bændum sem eru betur settir, eða ganga á fyrningarnar, þ.e.a.s. ef hann á einhverjar fyrningar. Við erum svo heppinn að eiga enn slatta af fyrningum, en þær duga ekki endalaust, því að það eyðist jú sem af er tekið. Og fyrningarnar eru okkar eina von eins og staðan er, því að í okkar sveit er enginn annar bóndi.

(Þessi pistill er samhljóða pistli sem fluttur var í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1 í morgun).

Er hagvöxtur málið?

Hagvöxtur er lykilorð í þjóðfélagsumræðu samtímans. Áherslan á hagvöxt er sérstaklega áberandi þessi misserin þegar íslenska þjóðin er smám saman að vinna sig upp úr niðursveiflunni sem varð í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Í þessu sambandi virðast forsvarsmenn vinstristjórnarinnar sama sinnis og hægrisinnuð stjórnarandstaða. Hagvöxtur er að beggja mati besti – eða kannski eini – mælikvarðinn á það hvernig okkur miðar á leiðinni út úr „kreppunni“. En þetta er ekki svona einfalt. Hagvöxtur getur sem best verið leið út úr þeirri kreppu sem við teljum okkur stödd í þessa stundina, en um leið gæti hann verið aðgöngumiði að miklu stærri kreppu í náinni framtíð.

Um endanlega stærð jarðarinnar
Jörðin okkar er kúla með u.þ.b. 40.000 km ummál. Leiðin beint í gegn er eitthvað um 12.700 km, örlítið mislöng eftir því hvar er farið. Þessar tölur skipta svo sem engu aðalmáli, að öðru leyti en því að þær eru fastar, þ.e. þær breytast ekki að neinu marki frá einu árþúsundi til hins næsta. Það þýðir líka að á jörðinni og í jörðinni er eitthvert ákveðið magn efna sem breytist ekki neitt, eða er með öðrum orðum endanlegt. Það þýðir líka að ekkert á þessari jörð getur vaxið endalaust.

Maður þarf ekki að velta staðreyndinni um endanlega stærð jarðarinnar lengi fyrir sér til að sjá að endalaus hagvöxtur er ekki fræðilega mögulegur, þ.e.a.s. ef hagvöxturinn byggir á því að nýta þær náttúruauðlindir sem jörðin hefur að bjóða, hraðar en þær endurnýjast. Augljósustu dæmin um slíkar auðlindir eru kol, olía og málmar, en önnur álíka mikilvæg en e.t.v. síður augljós dæmi eru andrúmsloft, drykkjarvatn og fosfór, svo eitthvað sé nefnt.

Endimörk vaxtarins
Hægt er að rekja umræðuna um endimörk vaxtarins a.m.k. rúm 200 ár aftur í tímann. Á árunum í kringum 1970 var farið að orða þetta svo, að rjúfa þyrfti tengsl hagvaxtar og eyðingar náttúruauðlinda, þ.e.a.s. að áframhaldandi hagvöxtur yrði að byggjast á öðru en vaxandi álagi á náttúruna. Upp úr þessu spruttu hugtökin aftenging (e. decoupling) og vistvirkni (e. eco-efficiency). Úr sama jarðvegi spratt hugmyndin um Faktor-4, sem Hermann Daley nefndi svo fyrstur manna 1976, en þar var á ferð hugmynd um að fjórfalda vistvirknina, t.d. með því að framleiða tvöfalt meiri verðmæti úr helmingi minna hráefni eða orku. Aðrir hafa jafnvel talað um Faktor-10 sem möguleika.

1,51 jörð
Samtökin Global Footprint Network hafa þróað aðferð til að reikna vistfræðilegt fótspor þjóða. Samkvæmt þeim útreikningum þarf mannkynið 1,51 jörð til að framfleyta sér eins og staðan er í dag. Neysla jarðarbúa er með öðrum orðum komin 51% fram úr því sem jörðin getur afkastað til lengdar. Ef við gætum fundið leiðir til að hætta umframneyslunni, þannig að fótsporið minnkaði niður í 1,00 jarðir, þá gætum við haldið áfram endalaust að lifa álíka góðu lífi og við gerum nú, en bara með því skilyrði að neyslan myndi ekki aukast á ný á kostnað náttúruauðlinda. Þetta ætti ekki að vera óyfirstíganlegt. Alla vega fer því fjarri að við þurfum að fjórfalda vistvirknina. Málið snýst bara um nokkra tugi prósenta.

Líf án hagvaxtar
Hugsum okkur að hægt sé að minnka fótspor mannkynsins niður í 1,00 jarðir með einu pennastriki, t.d. frá og með 1. janúar 2013. Þá værum við í býsna góðum málum. Ef við gerum hins vegar ráð fyrir 2% hagvexti ári upp frá því, sem allur væri til kominn vegna aukinnar nýtingar náttúruauðlinda, þá myndi fljótt sækja í sama farið. Árið 2034 væri fótsporið nefnilega aftur komið í 1,51 jörð. Ávinningurinn af pennastrikinu myndi sem sagt hverfa á 21 ári. Og ef við reiknum með 3% hagvexti tæki þetta ekki nema 14 ár. Niðurstaðan er einföld: Áframhaldandi hagvöxtur er útilokaður nema hann byggi alfarið á öðru en nýtingu náttúruauðlinda umfram árlega framleiðslugetu þeirra. Vangaveltur um líf án hagvaxtar eru efni í næsta pistil.

Fjöldi jarða sem mannkynið þarf til að framfleyta sér miðað við eina jörð 2013 og 3% árlegan hagvöxt upp frá því, sem allur byggist á nýtingu náttúruauðlinda umfram endurnýjun.

Yfirdráttardagurinn er í dag

Í dag er yfirdráttardaginn 2012. Í kvöld verður mannkynið nefnilega búið að eyða öllu því sem náttúran getur framleitt á þessu ári. Frá og með morgundeginum verðum við að lifa á yfirdrætti til áramóta.

Samtökin Global Footprint Network hafa þróað aðferð til að reikna vistfræðilegt fótspor þjóða, og út frá sömu forsendum tímasetja samtökin „yfirdráttardaginn“ (e. Earth Overshoot Day). þ.e.a.s. daginn þegar afrakstur ársins er genginn til þurrðar. Á síðasta ári var þessi dagur 27. september, sem var reyndar óvenjuseint miðað við nokkur síðustu ár, en það stafar fyrst og fremst af því að reikniaðferðin er í stöðugri þróun. Vitanlega er ekki til nein ein rétt aðferð og þar af leiðandi enginn einn réttur yfirdráttardagur, en smátt og smátt verður aðferðafræðin betri og niðurstaðan nær því að gefa rétta mynd af ástandinu. Yfirleitt hefur þessi dagsetning færst fram um nokkra daga á ári.

Dagurinn í dag er 235. dagur ársins (af 366). Það þýðir með öðrum orðum að á þessu ári notar mannkynið 366/235 = 1,56 jarðir til að framfleyta sér, samkvæmt útreikningum Global Footprint Network. Svona getur þetta augljóslega ekki gengið til lengdar.

Nú er eðlilegt að spurt sé: Hvar fáum við þessar 0,56 jarðir sem vantar upp á? Svarið er einfalt: Þetta tökum við af höfuðstólnum, svo sem úr olíu og öðrum jarðefnum sem við höfum nurlað saman á milljónum ára, ef svo má að orði komast. Og við tökum þetta líka úr andrúmslofti og vatni, sem hafa kannski tekið við 56% meiri úrgangi en þau ráða við á einu ári, og úr jarðvegi og regnskógum, sem hafa kannski verið skert um 56% umfram það sem þau þola á einu ári.

Það er alveg hægt að ganga á innstæður eða lifa á yfirdrætti, en bara í tiltekinn tíma. Hér gildir það sama í bankanum. Að endingu kemur að skuldadögum.