• Heimsóknir

  • 119.010 hits
 • júlí 2010
  S M F V F F S
   123
  45678910
  11121314151617
  18192021222324
  25262728293031
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Út að hlaupa – með lausum hundum

Á liðnum árum hef ég nokkrum sinnum hitt lausa hunda á hlaupum mínum. Þetta hefur sjaldnast angrað mig neitt að ráði, enda er mér ekkert sérlega illa við hunda. Í morgun varð ég hins fyrir því í fyrsta skipti að vera bitinn af hundi. Og þó að þetta væri ekki meira en misheppnað glefs sem skildi eftir sig óljóst tannafar á vinstra lærinu en ekkert sár, þá finnst mér þetta samt ekkert fyndið. Mér finnst með öðrum orðum að fólk eigi að geta gengið eða hlaupið hvar sem er á almannafæri, án þess að eiga á hættu að verða fyrir barðinu á illa uppöldum hundum, eða öllu heldur ábyrgðarlausum hundaeigendum.

Stundum finnst mér bara gaman að hitta hunda þegar ég er úti að hlaupa. Fyrir fáeinum árum hitti ég til dæmis vingjarnlegan smalahund í Skorradal, sem hvorki hafði í frammi grimmdar- né fleðulæti heldur fylgdi mér þá 10 km sem eftir voru af Andakílshringnum mínum – ekki bara einu sinni, heldur í nokkur skipti. Þetta var hreint ágætur félagsskapur. Minna gaman þótti mér þegar ég hitti óagaðan Schaefferhund í ónefndri sveit fyrir margt löngu. Vörslumanni viðkomandi hunds tókst með naumindum af fá hann til að velja sér annan morgunmat. Þá var ég hræddur. Hin skiptin eru fæst eins eftirminnileg.

Atvikið í morgun átti sér stað á göngustíg í útjaðri Hólmavíkur. Ég var að koma hlaupandi inn í þorpið á hefðbundum Óshring, en umræddur hundur var bandlaus úti að ganga með konu, sem ég kannast við og býst við að sé eigandi hundsins. Eitthvað leist hundinum illa á mig, því að hann réðst að mér með urri og gelti og fylgdi í engu ráðum konunnar. Ég hef svo sem heyrt urr og gelt áður og hljóp því áfram eins og ekkert hefði í skortist. En hundinum þótti ekki nóg að gert og tókst að glefsa svo sem tvisvar í mig áður en yfir lauk. Það var býsna hlýtt í veðri í morgun, en af einhverjum ástæðum hafði ég þó valið að hlaupa í síðbuxum. Eftir á að hyggja var það góð hugmynd, því að hundurinn einbeitti sér ekki nóg að glefsinu til að vinna á hlaupabuxunum.

Mér var svolítið brugðið eftir þessi viðskipti við hundinn, og sveið líka dálítið í lærið. En annars tók ég þessu bara eins og hverju öðru hundsbiti, kláraði Óshringinn og hljóp annan til. En eftir því sem ég hugsa meira um þetta atvik, því ósáttari verð ég. Bæði veit ég að á þéttbýlisstöðum eru víða til reglur sem banna lausagöngu hunda, og eins finnst mér það algjör lágmarkskrafa eins og fyrr segir að fólk þurfi ekki að óttast árásir af þessu tagi. Reyndar veit ég um fólk sem er hrætt við hunda og getur af þeim sökum hreinlega ekki farið út að ganga eða hlaupa, þótt það fegið vildi.

Ef ég man rétt gilti sú einfalda regla í minni sveit, að hundum sem réðust á fólk eða búfénað skyldi umsvifalaust lógað. Ekki veit ég hvort sama regla er skrifuð inn í samþykkt Strandabyggðar um hundahald. Ég tek heldur ekki að mér að kveða upp dauðadóma yfir hundum. Það sem ég get gert í málinu er fyrst og fremst að upplýsa stjórnendur sveitarfélagsins um umrætt atvik og hvetja til úrbóta til að tryggja öryggi fólks sem best. Svo get ég líka hvatt til umræðu um málið og hvatt hundaeigendur til að axla þá ábyrgð sem þeim ber.

Fjallvegahlaupasögur á netinu!

Vantar ykkur eitthvað skemmtilegt að lesa í sumarfríinu? Þá er um að gera að fara inn á www.fjallvegahlaup.is og lesa nýjustu ferðasögurnar af fjallvegahlaupum sumarsins. Þar gefur m.a. að líta glænýjar frásagnir af hlaupum yfir Steinadalsheiði, Bitruháls, Gagnheiði, Víknaheiði/Húsavíkurheiði, Nesháls og Hjálmárdalsheiði. Þessar einkar skemmtilegu sögur eru skreyttar með enn skemmtilegri myndum, á borð við þessa hér:

Hulda, Stefán, Pjetur og Fríða á hlaðinu við Húsavíkurskálann, tilbúin að leggja á Nesháls. (Ljósm. Jón Gauti)

Túlkar óskast

Á síðustu árum og áratugum hafa verið haldnar fjölmargar alþjóðlegar og evrópskar ráðstefnur um umhverfismál. Allt þetta ráðstefnuhald virðist þó ekki hafa skilað miklum sýnilegum árangri. Ég hef lengi velt fyrir mér hvernig á þessu standi, og er nú loksins búinn að finna skýringuna. Hana fann ég á mynd eftir hinn suður-afríska Zapiro:

Okkur vantar enn aðaltúlkinn

Á svona ráðstefnum eru ræður nefnilega jafnan þýddar jafnóðum á hin og þessi tungumál. En það hefur ekki enn tekist að ráða túlk sem þýðir orð yfir í gjörðir.

(Hugmyndina að þessari færslu fékk ég lánaða (sem oftar) frá Hans Nilsson).

Út að hlaupa – sem oftast

Það er ekki nóg að hlaupa langt, maður þarf líka að hlaupa oft. Þetta hef ég fundið síðustu vikur, þar sem hlaupin hafa orðið stopul annað slagið vegna annarra verkefna. Tilfinning mín er sú, að um leið og hlaupum fækkar, við skulum segja niður fyrir þrjú á viku, verður maður viðkvæmari fyrir hnjaski.

Annars var ég að bera hlaupaæfingar mínar þetta árið saman við árið í fyrra. Öfugt við það sem ég hélt eru hlaupadagar þessa árs orðnir fleiri en í fyrra. Núna í lok júní hafði ég sem sagt náð 73 hlaupadögum, borið saman við 69 í fyrra, þrátt fyrir hlé sem varð á æfingum síðari hluta janúar og fyrri hluta febrúar vegna tognunar. Hins vegar er heildarvegalengd ársins um 140 km styttri en í fyrra, þ.e. 954 km í stað 1.096. Skýringin á því er aðallega sú að þetta ár hefur verið helgað skammhlaupum það sem af er, þ.e. hálfu maraþoni og þaðan af styttri hlaupum. Æfingar hafa eðlilega tekið eitthvert mið af því.

Eins og fram kom í bloggfærslu 11. júní sl. er ég reyndar á fjallvegahlaupatímabilinu núna, og hef sagt skilið við skammhlaupin í bili. Þó getur svo sem vel verið að ég bregði mér í Ármannshlaupið á þriðjudagskvöldið. Þar eru hlaupnir 10 km á sæmilega flatri braut. Það er aldrei að vita nema ég reyni að bæta fimmtugs-, já og reyndar líka fertugsmetið mitt, sem er 42:03 mín. Svo er heldur ekki langt í þrítugs- og tvítugsmetið upp á 41:00 mín. Markmið ársins upp á 40:00 mín bíður hins vegar betri tíma (í orðsins fyllstu merkingu). Og að hvers kyns metum slepptum eru götuhlaup líka tækifæri til að hitta fleira fólk en í fjallvegahlaupunum. Götuhlaupin eru mér svolítið eins og krydd á góðan mat, rosalega góðan mat.

Og ég ætla að halda áfram að hlaupa sem oftast til að halda mér í formi. 🙂

Fimmta bloggsíðan

Ég setti upp þessa bloggsíðu fyrir nokkrum dögum, aðallega vegna þess hversu illa gekk að meðhöndla myndir á Vísisblogginu þar sem ég hef verið síðustu mánuði, þ.e.a.s. frá 4. apríl sl.

Já, ég veit að þetta jaðrar við fjöllyndi. Þetta er sem sagt fimmta bloggsíðan mín á þremur og hálfu ári. (Mig minnir einmitt að þriggja og hálfs árs afmælið sé á morgun). Fyrst var það http://stefangisla.blogcentral.is frá 11. janúar 2007 til 29. febrúar 2008, þá http://stefangisla.blog.is frá 29. febrúar 2008 til 24. september 2009 (kl. 16.30), næst http://stefangisla.bloggar.is frá 24. október 2009 til 20. mars 2010 og loks http://blogg.visir.is/stefangisla frá 4. apríl til 5. júlí 2010, sem er stysti líftíminn hingað til.

Fyrstu kynni mín af WordPress eru jákvæð. Alla vega virðist allt virka eins og það á að gera,  þ.m.t. myndvinnsla. Auk þess er boðið upp á fjölmarga möguleika til að laga útlitið að eigin smekk. Gallinn er hins vegar sá að slóðin er pínulítið torkennileg, af því að WordPress er jú útlenskt orð, sem maður veit jafnvel ekki hvort eigi að skrifa með einu eða tveimur essum. Svo tengist síðan heldur ekki neinum fjölmiðli sem netverjar heimsækja tíðum. Þess vegna rambar fólk kannski síður inn á svona wordpress-síðu en sumar aðrar síður. En það verður þá bara að hafa það.

Býst við að dvelja hér um stund. Síðan er enn á tilraunastigi og skrifuð í kyrrþey. En þegar fram í sækir vonast ég til að ná augum sem flestra, því að sá eru jú tilgangurinn, auk þess að varðveita eitt og annað sem mér dettur í hug að skrifa.

Hamingjuhlaup að baki

Ég hélt uppteknum hætti þetta árið og hljóp hamingjuhlaup í tengslum við Hamingjudagana á Hólmavík. Að þessu sinni lá leiðin sunnan úr Reykhólasveit um Gautsdal, Þröskulda og Arnkötludal. Endamarkið var að sjálfsögðu á hátíðasvæðinu neðan við Klifstúnið á Hólmavík.

Við lögðum fjórir saman upp frá vegamótunum neðan við bæinn Tinda í Geiradal sl. laugardagsmorgun kl. 10.46, þ.e. einni mínútu síðar en ætlað var. Með mér í för voru þeir Birkir Stefánsson skíðagöngumeistari og bóndi í Tröllatungu og Ingimundur Grétarsson sagnfræðinemi og sérlegur hlaupavinur minn úr Borgarnesi. Þeir tóku líka báðir þátt í hamingjuhlaupinu í fyrra, þegar við hlupum frá Drangsnesi til Hólmavíkur af sama tilefni. Fjórði maðurinn var Kristinn Schram þjóðfræðingur og forstöðumaður Þjóðfræðistofu á Hólmavík. Þarna var sem sagt valinn maður í hverju rúmi, enda á brattann að sækja.

Eins og sjá má á myndinni hér að neðan er vegalengdin frá umræddum vegamótum til Hólmavíkur alveg um 31 km, nánar tiltekið 31,36 km skv. opinberum tölum Vegagerðarinnar. Fyrstu 10 kílómetrarnir eru allir á fótinn, allt þar til 367 m hæð er náð á Þröskuldunum sjálfum. Þá tekur við 15 kílómetra kafli á þægilegu undanhaldi niður að Hrófá við Steingrímsfjörð, og þaðan eru svo um 6,5 km meðfram ströndinni til Hólmavíkur.

Tilbúnir til brottfarar. F.v. Kristinn, Birkir, Stefán og Ingimundur. Tindar í Geiradal í baksýn og 31 km til Hólmavíkur.

Veðrið þennan dag var svo sem ágætt, nema hvað strekkingsvindur úr norðri blés í fangið á okkur allan tímann. Veður var hins vegar þurrt að mestu og hitinn á láglendi 12-14 stig. Því var ástæðulaust að kvarta yfir veðrinu, sérstaklega þegar hugurinn reikaði tvö ár aftur í tímann þegar við Birkir og Ingimundur börðumst yfir Laxárdalsheiði milli þessara sömu byggða í stífum norðanvindi og slyddu. Þá voru líka hamingjudagar, þó að hlaupið væri ekki formlegur hluti af þeim eins og nú og í fyrra.

Það bar svo sem ekki margt til tíðinda á þessari leið okkar á laugardaginn. Að vanda gengum við að mestu upp brekkurnar, nema Kristinn sem hljóp þær allar sem ekkert væri og náði fljótlega góðu forskoti. Þegar komið var efst í Gautsdalinn hittum við tvö lömb, sem gerðu sig líkleg til að slást í för með okkur, en hættu við eftir stutta umhugsun. Það er reyndar frekar óvenjulegt að hitta svona spök lömb á fjalli, en líklega hafa þau alist upp sem heimalingar í vor af einhverjum ástæðum.

Spjallað við lömb í Gautsdal

Ég hafði gert ráð fyrir að við yrðum komnir upp á Þröskulda kl. 11:45. Það gekk þó ekki eftir, því að klukkan var orðin 12:03 þegar við náðum toppnum. Þetta var náttúrulega ekki alveg nógu gott skipulag, en ég þykist hafa tvennt mér til málsbóta. Annars vegar var spölurinn upp 10 km en ekki 8 eins og ég hafði reiknað með, og hins vegar gerði ég ekki ráð fyrir mótvindi, sem var reyndar töluverður, sérstaklega efst í Gautsdalnum, væntanlega eitthvað yfir 10 m/s.

Uppi á Þröskuldum bættist fimmti maðurinn í hópinn. Þetta var Rósmundur Númason á Hólmavík, skíðagöngukappi með meiru. Þegar þarna var komið sögu var Kristinn nær horfinn sjónum, en Birkir tekinn að dragast aftur úr. Við hinir þrír fylgdumst að áleiðis niður Arnkötludal, þangað til Rósmundur ákvað að bíða eftir Birki og við Ingimundur ákváðum að ná Kristni. Það reyndist seinlegt verk, en hafðist þó áður en komið var til byggða. 

Þegar við komum á vegamótin við Hrófá var klukkan orðin 13:23, eða 8 mínútum meira en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir. Þetta var þó ekkert sérstakt áhyggjuefni, því að tímaáætlunin fyrir síðasta áfangann var býsna rúm. Við höfðum að sjálfsögðu gert ráð fyrir að þarna væri búið að strengja línur meðfram veginum til að halda æstum mannfjöldanum í hæfilegri fjarlægð frá okkur. Við vorum enda vel undir þetta búnir, t.d. höfðum við sammælst um að veita engar eiginhandaráritanir fyrr en í markinu. En af einhverjum ástæðum var mannfjöldinn ekki eins þéttur og ætla mátti. Reyndar kom Sólrún, svilkona mín og fyrrum nágranni, á móti okkur út að Hnitbjörgum á hjóli og fylgdi okkur það sem eftir var. Hún var alveg nægur mannfjöldi til að gera síðasta spölinn hátíðlegan.

Dokað við nýja skiltið á Kálfanesskeiði. Bara svolítil bið eftir - og svo lokaspretturinn.

Ætlunin var að við myndum skeiða inn á hátíðarsvæðið rétt í þann mund sem Jón Gísli oddviti hefði lokið setningarávarpi sínu. Eitthvað dróst að ávarpið hæfist, og því varð úr að við hímdum hæfilega stund undir gafli félagsheimilisins áður en við tækjum lokasprettinn. Þetta var reyndar í góðu lagi, því að veðrið var hagstætt og enginn skafrenningur. Þarna gafst líka tími til að gera nokkrar teygjuæfingar, auk þess sem Ingimundur lumaði á góðu nesti sem við Kristinn átum frá honum þarna undir gaflinum. Eftir 11 mínútna bið þótti óhætt að hleypa okkur inn á staðinn, og þá skeiðuðum við léttir í spori, eða alla vega í huga, niður Sýslumannshallann og eftir Hafnarbrautinni inn á hátíðasvæðið. Birkir og Rósmundur skiluðu sér skömmu síðar, og þar með var þessu skemmtilega verkefni lokið.

Svona til að hafa tölfræðina á hreinu, þá mældist hlaupið allt 31,40 km þegar búið var að draga frá krókinn upp undir félagsheimilisgaflinn. Þetta verður að teljast vel innan skekkjumarka, þar sem opinber tala Vegagerðarinnar er 31,36 km eins og fyrr segir. Hlaupið allt tók okkur 3 tíma og 20 mínútur að frádregnum sama króki. Þetta var 5 mínútum lengri tími en áætlað var, en það var með vilja gert.

Ég er ekki í vafa um að hlaupið jók enn á hamingju mína, sem var þó ærin fyrir. Sama held ég að hafi gilt um hina fjóra. Hins vegar væri gaman að fá tillögur frá öðrum um það hvernig hægt væri að tengja svona hlaup betur við dagskrá hamingjudaganna. Ég velti því nefnilega fyrir mér hvort að það bæti einhverju við skemmtan eða hamingju þeirra sem standa eða sitja á Klifstúninu og fylgjast með setningarathöfn Hamingjudaga að sjá nokkra þreytta karla hlaupa inn á svæðið á fyrirfram ákveðnum tíma. Allar athugasemdir og ábendingar um þetta eru þegnar með þökkum.