• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • júlí 2017
    S M F V F F S
     1
    2345678
    9101112131415
    16171819202122
    23242526272829
    3031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Er ég tilbúinn í Laugaveginn?

Laugav 2015. Hlaup.is.

Laugardaginn 15. júlí nk. ætla ég að hlaupa Laugaveginn í 4. sinn. Fór hann fyrst sumarið 2007 (á 6:40:50 mín) og svo aftur 2013 (5:52:33 klst) og 2015 (5:41:10 klst). Þetta hefur sem sagt verið saga stöðugra framfara. Eitt stærsta hlaupamarkmiðið mitt fyrir árið 2017 er að framlengja þessa sögu, þ.e.a.s. að bæta tímann minn frá 2015, þó ekki væri nema um 1 sekúndu. Og nú sit ég í svipuðum vangaveltum og margir aðrir hlauparar: Er ég tilbúinn í þetta?

Svar við spurningunni
Stutta svarið við spurningunni hér að framan er að ég sé vissulega tilbúinn að hlaupa Laugaveginn, en hins vegar séu líkurnar á bætingu talsvert minni en ég hefði kosið – jafnvel hverfandi. Ég tel mig reyndar að flestu leyti vera í góðu standi þrátt fyrir einhver ónot hér og þar í skrokknum. Ég á sem sagt ekki við nein veruleg meiðsli að stríða og hef enga sérstaka ástæðu til að ætla að einhver vandamál af því tagi skjóti upp kollinum á leiðinni. Hins vegar hafa æfingarnar það sem af er árinu ekki gengið sem skyldi og tímarnir í þeim keppnishlaupum sem ég hef farið í gefa ekki tilefni til bjartsýni.

Æfingarnar
Fyrstu sex mánuði ársins hljóp ég samtals 1.409 km á æfingum. Það er reyndar með mesta móti miðað við fyrri ár, en meira er ekki alltaf betra í þessum efnum. Þetta hefur líka að sumu leyti gengið skrykkjótt, eins og sjá má á stólpariti yfir vikulega hlaupaskammta frá áramótum. (Stærri mynd birtist ef smellt er á þessa).

Lengd hlaupaviknanna minna frá áramótum í kílómetrum talin. (Vika 27 stendur yfir þegar þetta er skrifað og því er þar ekki komin endanleg tala).

Eins og myndin gefur til kynna hafa hvað eftir annað komið skörð í þróunina, sérstaklega frá og með viku 15, þ.e.a.s. frá því í apríl. En svona gerast auðvitað kaupin á eyrinni hjá flestum hlaupurum. Heilsan er ekkert sem maður getur gengið að sem vísu og svo þarf maður stundum að gera eitthvað fleira en að æfa sig. En til að ná sem bestum árangri hefði þetta þurft að vera jafnara.

Keppnishlaupin
Það sem af er árinu hef ég hlaupið 9 keppnishlaup, sem er svo sem hvorki meira né minna en ég er vanur. Ég tók m.a. þátt í öllum þremur hlaupunum (5 km) í Atlantsolíuhlauparöð FH í janúar-mars. Tímarnir í þessum hlaupum sýndu að ég var ekki í jafngóðu 5 km formi og ég hef verið síðustu ár. Þetta kom gleggst í ljós í síðasta hlaupinu 30. mars þar sem ég hljóp 5 km á 20:47 mín (flögutími) við toppaðstæður. Það væri náttúrulega vanþakklæti af manni sem er nýorðinn sextugur að kvarta yfir svoleiðis tíma, enda sýnist mér að aðeins tveir íslenskir karlar á aldrinum 60-64 ára hafi náð betri tíma frá því að mælingar hófust. En ég ber mig ekki mikið saman við aðra, heldur fyrst og fremst við sjálfan mig, enda snýst þetta um að sigra mig en ekki hina. Og 5 km tímarnir í vetur voru með þeim lökustu sem ég hef náð síðustu árin. Þess vegna vissi ég í lok mars að ég hefði verk að vinna ef ég ætlaði að bæta mig eitthvað á árinu.

Fimm kílómetra hlaup gefa ekki mikla vísbendingu um líklega frammistöðu á Laugaveginum. Lengri hlaup eru hins vegar ívið betri mælikvarði, enda þótt brautarhlaup og utanvegahlaup séu sitt hvað. Í Miðnæturhlaupinu 23. júní hljóp ég hálft maraþon við góðar aðstæður á 1:35:56 mín, sem var 4:40 mín (um 5%) lakari tími en í sama hlaupi á sömu braut 2015, þ.e.a.s. árið sem ég hljóp Laugaveginn síðast. Sá tímamunur segir mér kannski eitthvað.

Líklegur tími á Laugaveginum
Reynslan hefur sýnt mér að ég stend mig yfirleitt hlutfallslega betur í hlaupum eftir því sem þau eru lengi. Þess vegna get ég svo sem dregið þá ályktun að ef ekkert annað skekkir myndina ætti ég ekki að vera meira en 5% lengur að hlaupa Laugaveginn núna en sumarið 2015. Þeir útreikningar gefa mér líklegan lokatíma upp á u.þ.b. á 5:58 klst. Eigum við ekki bara að segja að það væri ásættanleg eða alla vega raunhæf niðurstaða? Með því að setja þetta á blað er ég reyndar hugsanlega búinn að „búa mér til vonbrigði“, eins og ég hef einhvern tímann kallað þá stöðu sem maður setur sig í með því að setja sér (að óþörfu) markmið sem ekki næst. Önnur leið til að segja það, er að með þessu sé ég búinn að færa vonbrigðalínuna um 18 mínútur mér í hag, þ.e.a.s. úr 5:41 klst í 5:58 klst. Allt undir 5:58 klst er þá orðinn bónus og allt undir 5:41:10 klst mun leiða til enn taumlausari gleði en verið hefði ef ég hefði talið mig vera í toppstandi!

Spilar aldurinn inn í?
Auðvitað á aldurinn einhvern þátt í því hvernig manni gengur á hlaupum. En ég tók í hreinskilni sagt ekki eftir neinni breytingu við að árafjöldinn í lífi mínu breyttist úr 59 í 60 eina nótt í mars. Og ef ég verð 5% lengur að hlaupa Laugaveginn sextugur en 58 ára þarf að finna aðrar skýringar en aldurinn. Ég las alla vega einhverja fræðilega grein um daginn þar sem menn höfðu komist að þeirri niðurstöðu með rannsóknum að meðalafturför aldraðra hlaupara væri um 0,7% á ári. Það segir mér að ég get enn bætt mig. Til þess þarf bara rúmlega 0,7% meiri og markvissari æfingar en í fyrra. Og 5% eru miklu meira en 2×0,7%.

Meginniðurstaða
Ég tel mig sem sagt vera tilbúinn í Laugaveginn, þrátt fyrir að atvikin (en ekki aldurinn) hafi hagað því þannig að ég er ekki í alveg eins góðu hlaupaformi og ég hef oftast verið síðustu árin. Það er hins vegar líklegt að ég slái engin persónuleg met þetta árið og nái þar með ekki einu helsta hlaupamarkmiðinu mínu frá síðustu áramótum. Svo þarf líka að hafa í huga að sérhvert Laugavegshlaup er óvissuferð þar sem margt óvænt getur sett strik í reikninginn. En hvað sem þessu líður er ég staðráðinn í að láta Laugavegshlaupið næsta laugardag verða lið í að uppfylla mikilvægasta hlaupamarkmið árins, þ.e. að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum!

Eftirmáli
Að vanda geri ég ráð fyrir að skrifa sérstakt Laugavegsblogg að Laugavegshlaupinu loknu, þar sem upplifun mín og nýfengin reynsla verður tíunduð í allmiklum smáatriðum. Fyrri ferðasögur má finna undir þessum tenglum:

2 svör

  1. […] það að verkum að æfingatímabilið varð heldur skörðótt. Þetta rakti ég allt saman í þar til gerðum bloggpistli á dögunum. Þrátt fyrir þetta hafði ég trú á að ég gæti jafnvel bætt mig í þessu Laugavegshlaupi […]

  2. […] undirstöður þeirra áforma. Viku fyrir Laugaveginn mat ég stöðuna svo að ég væri „vissulega tilbúinn að hlaupa Laugaveginn, en hins vegar [væru] líkurnar á bætingu talsvert minni en ég hefði kosið – jafnvel hverfandi“. Sú […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: