• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • janúar 2011
    S M F V F F S
     1
    2345678
    9101112131415
    16171819202122
    23242526272829
    3031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Díoxínmálið á Ísafirði

Sorpbrennslustöðin Funi á Ísafirði hefur verið mikið í fréttum síðustu daga eftir að díóxín yfir leyfilegum mörkum greindist í mjólk frá Efri-Engidal. Á þessu máli eru margar hliðar. Hér verður minnst á nokkrar þeirra.

Hvað er díoxín?
Díoxín eru þrávirk efni, sem brotna seint niður í náttúrunni. Þau eru auk heldur afar eitruð fyrir menn og aðrar lífverur, jafnvel í mjög lágum styrk. Í versta falli duga t.d. um 0,001 mg til að drepa lítil nagdýr. Skaðleg áhrif á menn eru margvísleg, og nægir þar að nefna að efnin eru krabbameinsvaldandi.

Reyndar er þetta svolítil einföldun. Díoxín er nefnilega samheiti yfir heilan hóp efna, en þegar rætt er um díoxínmengun er jafnan átt við svonefnd fjölklóruð tvíbensódíoxín. Fyrir þá sem gaman hafa af efnafræði má geta þess, að þarna er um að ræða tvo bensenhringi sem tengdir eru saman með súrefnisfrumeindum og hafa eitthvað af klórfrumeindum á hornum sér, ef svo má að orði komast, (sjá mynd).

Díoxín eru ekki framleidd viljandi, heldur verða þau til við brennslu lífrænna efna við 200-800°C, þar sem klórsameindir eru til staðar (jafnvel bara úr matarsalti). Þetta gerist að einhverju marki í náttúrunni, svo sem skógarelda og eldgos, en fyrst og fremst myndast díoxín þó sem úrgangur í iðnaðarferlum og við ófullkomna sorpbrennslu. Brennsla á PVC-plasti er dæmi um auðvelda leið til að framleiða díoxín.

Tæknilega hliðin
Tæknilega séð er ekkert flókið að koma í veg fyrir að díoxín sleppi út frá sorpbrennslustöðvum. En það kostar peninga. Lausnin felst í eftirbrennslu þar sem reykurinn er hitaður upp í 850-1100°C. Við þetta hitastig sundrast díoxín í minna skaðleg efni. Þetta er einn af þeim þáttum sem gera það að verkum að sorpbrennsla er ekki fýsilegur kostur frá fjárhagslegu sjónarmiði nema fyrir allfjölmennar byggðir. Sumir hafa nefnt 15.000 manns sem lágmarkstölu í því sambandi, en líklega er talan mun hærri, sérstaklega þar sem vel er staðið að flokkun úrgangs.

Reglur um sorpbrennslu
Vegna aðildar sinnar að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) ber Íslendingum að innleiða Evróputilskipanir á sviði umhverfismála. Lagaramminn fyrir sorpbrennslur er skilgreindur í svonefndri sorpbrennslutilskipun nr. 2000/76/EC frá 4. desember 2000. Tilskipunin var innleidd í íslenskt regluverk með reglugerð nr. 739/2003 um brennslu úrgangs. Samkvæmt viðauka við reglugerðina má styrkur díoxína í útblæstri sorpbrennslustöðva ekki fara yfir 0,1 ng/m3, (ng = nanógramm = einn milljónasti úr milligrammi). Í innleiðingarferlinu tókst Íslendingum hins vegar að fá undanþágu frá þessu ákvæði fyrir starfandi stöðvar, að mér skilst með þeim rökum að hér væri svo dreifbýlt og brennslustöðvarnar svo litlar að heildarmagn díoxína gæti aldrei orðið neitt meiriháttar vandamál. Ég tek það samt fram að ég hef ekki séð nein skjöl um þetta. En alla vega kemur fram í reglugerðinni að starfandi stöðvar á Íslandi þurfi ekki að uppfylla þetta skilyrði.

Sorpbrennslustöðvar þurfa starfsleyfi frá Umhverfisstofnun, þar sem m.a. er tilgreint hversu mikið af hinum og þessum efnum stöðvarnar megi losa út í umhverfið. Sorpbrennslustöðin Funi starfar skv. starfsleyfi frá 19. febrúar 2007. Í starfsleyfinu eru ekki tilgreind nein losunarmörk fyrir díoxín, enda féll stöðin undir fyrrnefnt undanþáguákvæði, sem að því er virðist er án tímamarka. Eina skyldan sem lögð er á stöðina í starfsleyfinu hvað varðar díoxín í útblæstri, er að þau skuli mæld „minnst einu sinni fyrir 1. janúar 2008 í samráði við Umhverfisstofnun“. Í starfsleyfinu stendur ekkert um hvað skuli gert við þessar mælingar, t.d. hvort birta þurfi niðurstöðuna eða bregðast við með einhverjum hætti ef tölurnar gefa tilefni til.

Framkvæmdin
Ég hef ekki séð nein frumgögn í málinu, en mér skilst að díoxín hafi verið mæld einu sinni á tilsettum tíma, þ.e.a.s. fyrir árslok 2007, í samræmi við fyrrnefnt ákvæði í starfsleyfi. Styrkurinn kvað þá hafa verið 2,1 ng/m3, eða rúmlega 20-falt leyfilegt magn. Eftir því sem næst verður komist var ekkert brugðist við þessu fyrr en í desember 2010 þegar Mjólkursamsalan ákvað að láta mæla díoxín í mjólk eftir að fyrirspurnir bárust frá íbúum. Málið komst svo í hámæli þegar í ljós kom að díoxín í mjólkinni var yfir viðmiðunarmörkum. Reyndar skilst mér að Umhverfisstofnun hafi sent Ísafjarðarbæ áminningu í maí 2010 vegna óhóflegrar mengunar frá Funa – og gefið frest til 1. september til úrbóta. Hins vegar er mér ekki alveg ljóst hvort díoxínmengun var með í þeim pakka.

Hvað fór úrskeiðis?
Frá því í ársbyrjun 2008 vissu menn að díoxínmengun frá Funa væri rúmlega 20 sinum meiri en leyfilegt er skv. reglum Evrópusambandsins (ESB). Samt virðist nær ekkert hafa verið aðhafst í málinu fyrr en í árslok 2010, og þá vegna utanaðkomandi áreitis. Mér finnst eðlilegt og algjörlega nauðsynlegt að velta fyrir sér og fara vel ofan í saumana á því hvernig hægt var að láta þessi þrjú ár líða aðgerðarlaus, því að í mínum hugar er þessi töf afar alvarleg.

Fljótt á litið virðist veilan liggja fyrst og fremst í regluverkinu. Líklega voru stærstu mistökin þau að setja ekki tímamörk á þær undanþágur frá Evróputilskipuninni sem íslensk stjórnvöld herjuðu út fyrir starfandi sorpbrennslur. Reyndar voru sett tímamörk, en ef ég skil málið rétt giltu þau ekki fyrir stöðvar sem brenndu minna en 5.000 tonn á ári. Funi var í þeim hópi. Með setningu reglugerðar nr. 739/2003 um brennslu úrgangs var því í raun búið að festa í sessi þá meginreglu að Funi og þaðan af minni sorpbrennslustöðvar á Íslandi gætu losað  hversu mikið díoxín sem verkast vildi út í andrúmsloftið. Þar með voru heldur engar forsendur til að setja losunarmörk í starfsleyfi og þar með skipti engu máli hvort losunin væri 20 sinnum eða 20.000 sinnum meiri en leyft er skv. reglum ESB.

Hvað átti Umhverfisstofnun þá að gera?
Ef allt það sem hér hefur verið sagt er rétt, bar Umhverfisstofnun engin lagaleg skylda til að gera eitt né neitt í þessu díoxínmáli. Sama gilti og um rekstraraðila stöðvarinnar, þ.e. Ísafjarðarbæ. Eina skyldan var að mæla díoxín í útblæstri einu sinni fyrir árslok 2007. Það var gert, en niðurstaðan skipti engu máli. Hitt er svo annað, að mönnum átti að vera fullljóst eftir að niðurstöður þessarar einu mælingar lágu fyrir, að við svo búið mætti ekki standa. Því álít ég að Umhverfisstofnun hefði átt að bregðast við með tilliti til þeirrar augljósu hættu sem mengun skapaði nánasta umhverfi stöðvarinnar og fólkinu sem þar bjó. Lagalega skyldan var líklega ekki fyrir hendi, en umhverfislegar og siðferðilegar skyldur voru til staðar engu að síður. Reyndar tel ég allt þetta mál endurspegla þann innbyggða veikleika opinberra stofnana að geta aðeins farið eftir regluverkinu, jafnvel þótt augljóst sé, eins og ég tel að verið hafi í þessu tilviki, að ófullkomleiki regluverksins sé ógn við umhverfi og heilsu. Hafi ekki aðrar leiðir verið færar, hefði þá einfaldlega átt að stoppa í gatið á regluverkinu með einfaldri breytingu á reglugerðinni.

Vegna þess hversu hættuleg díoxín eru, þá tel ég að alltaf ætti að grípa til aðgerða þegar í stað þegar þau mælast yfir viðmiðunarmörkum, jafnvel þótt „gleymst“ hafi að fella umrædd mörk inn í regluverkið. Í þessu tilviki hefði verið eðlilegt að krefjast þegar í stað annarrar mælingar til að staðfesta niðurstöðurnar og grípa í framhaldinu til róttækra aðgerða til úrbóta án nokkurs afsláttar af ýtrustu kröfum, þ.e.a.s. ef síðari mælingin hefði staðfest niðurstöður þeirrar fyrri um að styrkur efnanna væri yfir viðmiðunarmörkum. Þetta hefði Umhverfisstofnun að mínu mati átt að gera þegar niðurstöðurnar frá 2007 lágu fyrir.

Upplýsingaskyldan
Í umræðu um þetta Funamál hefur verið kvartað yfir því að almenningur og kjörnir fulltrúar skyldu ekki hafa verið upplýstir um stöðu mála, þ.e. um niðurstöðu mælingarinnar frá 2007. Auðvitað hefði átt að upplýsa fólk um þetta, en hins vegar bar engum skylda til að gera það samkvæmt regluverkinu. Og ekki bætti úr skák að þótt undarlegt megi virðast ber Funa ekki að skila grænu bókhaldi skv. reglugerð þar um nr. 851/2002. Ég finn með öðrum orðum ekki stafkrók um upplýsingaskyldu eins né neins í málinu. Hvernig hlutaðeigandi aðilar gátu sofið rólegir með þessa vitneskju í kollinum í þrjú ár er mér aftur á móti hulin ráðgáta. Reyndar veit ég ekki hverjir þessir „hlutaðeigandi aðilar“ voru, en einhver eða einhverjir starfsmenn Umhverfisstofnunar hljóta að hafa verið þar á meðal, svo og einhver eða einhverjir tengiliðir vestra.  Hverjir svo sem vissu um niðurstöður mælinganna, þá þykir mér líklegt að Umhverfisstofnun hafi verið eini aðilinn í þeim hópi sem hafði forsendur til að átta sig á alvöru málsins. Þar vinnur jú fagfólk á þessu sviði, en fyrir flesta aðra hljóta tölulegar niðurstöður úr svona mælingum að vera „eins og hver önnur hebreska“, sérstaklega þegar margar tölur yfir gjörólíka þætti í mismunandi einingum eru samankomnar á einu blaði. Hvað segir það t.d. leikmanni að styrkur díoxína sé 2,1 nanóeitthvað en ekki 0,1 nanóeitthvað? Svona tölur fara einfaldlega framhjá manni, nema ef manni er bent sérstaklega á þær, eða ef maður er sérfræðingur á viðkomandi sviði.

Vissu ekki allir um mengunina frá Funa?
Í umræðu um Funamálið hefur komið fram að mönnum hafi átt að vera ljóst allan tímann að mikil mengun kæmi frá Funa, enda hefði oft verið á það bent og yfir því kvartað. Jú, auðvitað vissu allir sem búnir voru sjón og lyktarskyni að frá stöðinni bærist einhver mengun. Slíkt fylgir allri starfsemi af þessu tagi. En hins vegar var útilokað að vita hvort díoxín væru með í þeim pakka. Reykur lítur alveg eins út hvort sem hann inniheldur nokkur nanógrömm af díoxínum eða ekki. Fólk verður einfaldlega að geta treyst því að stjórnvöld verji það fyrir slíkum efnum með því að setja mengandi starfsemi viðeigandi skorður.

Í þessu sambandi öllu verður að hafa í huga að díoxín hafa töluverða sérstöðu meðal algengustu mengunarefna vegna þess hversu alvarleg og langvinn áhrif þau geta haft á lífríkið og heilsu fólks. Í raun geta menn alls ekki leyft sér að umgangast þessi efni og vísbendingar um óhóflegan styrk þeirra með viðlíka léttúð og ef um önnur og minna eitruð efni væri að ræða.

Hverjir eru í hættu?
Í umræðu um Funamálið hafa heyrst ýmis rök um það hversu alvarlegt eða léttvægt málið sé. Sumir hafa sagt að málið skaði stöðu Íslands á alþjóðlegum vettvangi, því að Ísland barðist jú lengi fyrir því að settar yrðu alþjóðlegar takmarkanir við losun díoxíns og fleiri þrávirkra lífrænna efna, sem tilgreind eru í svonefndum Stokkhólmssamningi. Aðrir hafa bent á að íslensk matvæli séu holl og heilsusamleg og þegar búið sé að blanda díoxínmenguðu mjólkinni saman við alla hina mjólkina stafi engum nein hætta af, enda sé þetta svo örlítið brot af heildinni. Hvað sem um þessi rök má segja, þá skipta þau að mínu mati engu máli í þessari umræðu. Díoxínmengunin frá Funa breytir engu í sambandi við Stokkhólmssamninginn né hollustu íslenskra matvæla. Sömuleiðis þykja mér engar líkur á að hún hafi nokkur áhrif á heilsu Ísfirðinga. En eftir stendur sú grafalvarlega staðreynd, að í allra næsta nágrenni stöðvarinnar býr fólk sem framleiðir matvæli örskammt frá stöðinni og neytir þeirra sjálft. Þessu fólki þarf að huga að og taka af öll tvímæli um hvort mengunin hafi spillt landi þeirra eða heilsu. Allt það tal um strjálbýli og litlar brennslustöðvar, sem Íslendingar virðast hafa beitt fyrir sig til að fá undanþágu frá reglum ESB, verður einkar hjáróma í eyrum þeirra sem eiga heima í stróknum.

„PR-slys“?
Ráðamenn voru virkilega „gripnir í bólinu“ þegar niðurstöður úr efnagreiningum Mjólkursamsölunnar spurðust út í síðasta mánuði. Það var reyndar sérstaklega vandræðalegt að einkafyrirtæki „úti í bæ“ skyldi þurfa að vekja athygli á þessu á eigin kostnað. Við slíkar aðstæður skiptir máli að aðilar málsins bregðist skynsamlega við, þannig að þeir kalli ekki yfir sig eitthvert „PR-slys“ í ofanálag, en með „PR-slysi“ er hér átt við það þegar menn gera málstað sinn enn verri en ella með klaufalegri framkomu í fjölmiðlum.

Ég vil ekki orða það svo að fyrstu viðbrögð forsvarsmanna Ísafjarðarbæjar og Umhverfisstofnunar hafi verið „PR-slys“, en þó tel ég að hvorugir hafi hitt á „besta leikinn í skákinni“. Það eina rétta hefði að mínu mati verið að viðurkenna strax alvöru málsins og biðjast afsökunar á því að ekki skyldi hafi verið brugðist strax við niðurstöðunni veturinn 2007-2008, jafnvel þótt það hafi í sjálfu sér ekki verið lagaleg skylda. Inn í þessa umræðu átti ekkert að blanda heilnæmi íslenskra matvæla, umræðu um reyk og sjónmengun, skuldbindingum Íslands gagnvart Stokkhólmssamningnum, vangaveltum um hvort farið hafi verið mikið eða lítið fram úr mengunarmörkum, hvort mengunarmörkin séu of lág eða of há, né neinu öðru. Forstjóri Umhverfisstofnunar átti heldur ekki að segja að fólki stafaði engin hætta af. Það er íslenskur ósiður að fara alltaf í vörn þegar svona mál koma upp, afsaka sig, drepa málum á dreif, fullyrða að einhver annar beri ábyrgðina o.s.frv. Slík viðbrögð eru ávísun á vandræði og til þess fallin að fólk fái það á tilfinninguna að viðkomandi sé að reyna að fegra hlut sinn eða hylma yfir eitthvað. Ég held að besta leiðin sé alltaf að viðurkenna að eitthvað hafi farið úrskeiðis, biðjast afsökunar á því og lofa að málið verði skoðað þegar í stað. Þetta á jafnt við hvort sem viðkomandi telur sig bera ábyrgð á málinu eður ei. Auðmýkt og einlægni geta gert kraftaverk!

Hér að framan var talað um fyrstu viðbrögð, sem líklega voru ekki „besti leikurinn í skákinni“. Þar var ég m.a. með í huga viðtal í Kastljósi RÚV 4. jan. sl. Hins vegar finnst mér sérstök ástæða til að hrósa forstjóra Umhverfisstofnunar fyrir „næsta leik“, því að í kvöldfréttum RÚV 5. jan sl. viðurkenndi hún að Umhverfisstofnun og Umhverfisráðuneytið hefðu brugðist í þessu máli. Þá var hún líka búin að boða forsvarsmenn sorpbrennslustöðva til fundar og leggja á ráðin um úrbætur.

Lokaorð
Mér finnst allt þetta mál enn eitt dæmið um slakt verklag í íslensku stjórnkerfi. Þar vantar einfaldlega gæðastjórnun á flestum sviðum, þar með taldar verklagsreglur um „frábrigði“, þ.e. hvernig bregðast skuli við ef vandamál koma upp. Í þessu tilviki má reyndar rökræða hvort nokkurt vandamál hafi komið upp, fyrst að háu gildin sem komu út úr díoxínmælingunni 2007 voru í góðu lagi gagnvart starfsleyfi og reglugerð um brennslu úrgangs. Þarna erum við komin að öðru vandamáli, nefnilega því sem virðist oft vera grunnreglan í starfi embættismanna hjá opinberum stofnunum, að „ef það sé ekki í reglugerðinni, þá komi mér það ekkert við og ég megi líklega ekkert gera í því“. Yfirleitt virðast mér hugsjónir vera bannaðar á þeim vettvangi. Heilbrigð skynsemi er örugglega til staðar í ríkum mæli, en henni er helst ekki beitt nema það sé skylt skv. reglugerðinni.

Og við hvern er þá að sakast? Ég álít að aðgerðarleysið í Funamálinu og vinnubrögð stofnana séu engum einum að kenna, heldur liggi vandinn í óagaðri þjóðarsál. Þar þarf að taka til.

9 svör

  1. Takk fyrir þetta Stebbi. Nú skilur maður allavega örlítið meira hvað felst í díóxíni.

  2. Takk fyrir þetta Stebbi. Góð grein hjá þér og opnar fyrir mér fleiri hliðar málsins.

  3. Takk fyrir þessa umfjöllun, hún er bæði upplýsandi og gott innlegg í umræðuna um hvað skuli gera næst.

  4. Bestu þakkir fyrir þessa grein, Stefán. Góð greining á vandanum og viðbrögðum bæjaryfirvalda og eftirlitsstofnana. Sitthvað eiga menn eftir að læra!

  5. Takk fyrir góða grein.

  6. Góð grein hjá þér Stefán. Þú ert mikill diplómat

  7. Stebbi… ég gúgglaði nafnið þitt til að finna þetta blogg… og þurfti að klikka mig í gegnum 4 gömul blogg 😀 þú ættir kannski að reyna að fá þetta blogg til að vera það fyrsta sem kemur upp þegar maður gúgglar ! 😀 það eru oft svona einhverjar stillingar þar sem maður getur skrifað leitarorð sem maður vill fá „hits“ á !

    🙂 góð saga…

  8. Einstaklega vönduð og fróðleg samantekt.

  9. Sæll Stefán
    Takk fyrir þessa ágætu samantekt. Mig langar aðeins að gera athugasemdir við lokaorðin. Undanfarin ár hefur þótt afar ófínt að vinna við eftirlit þ.m.t umhverfiseftirlit. Talað hefur verið um „eftirlitsiðnaðinn“ í niðrandi merkingu og þótti mörgum ráðamönnum slík starfsemi nánast óþörf. Í skýrslu rannsóknanefndar Alþingis er fjallað um hversu skaðlegt þetta reyndist þjóðinni. Hvort sem það er afleiðing af þessari andúð á opinberu eftirliti eða einhverju öðru, þá þróaðist meðal íslenskra lögmanna þ.m.t. dómurum svokölluð lögskýringaraðferð við túlkun laga, þ.e.a.s að stjórnvaldsákvarðanir verða að byggja á skýrum lagatexta. Ef texti í lögum eða reglugerðum sem bannaði tiltekna háttsemi var ekki skýr, þá skyrptu dómarar því út úr sér. Allt var túlkað þröngt í óhag stjórnvaldsins eða eftirlitsins. Skipti þá engu hver andi laganna væri eða hvaða tilgang lagasetningin hefði haft. Ég held að aðgerðaleysi UST í þessu dioxin máli megi skýra út frá þessu.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: