• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • janúar 2011
    S M F V F F S
     1
    2345678
    9101112131415
    16171819202122
    23242526272829
    3031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Þalöt í plastskóm

Þalöt eru enn í einhverjum mæli notuð sem mýkingarefni í neytendavörur úr plasti, svo sem skó. Þetta kom fram í nýlegri rannsókn á vegum Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen), en þar var leitað að tilteknum þalötum í plastsandölum fyrir börn og fullorðna. Þalöt fundust í einhverjum mæli í tæplega helmingi þeirra 60 skópara sem rannsóknin náði til, ýmist í sólunum eða í böndunum.

Hvað eru þalöt?
Þalöt eru sem fyrr segir gjarnan notuð sem mýkingarefni í plast, aðallega PVC-plast,  (sem auðkennt er með tölustafnum „3“ í þar til gerðum þríhyrningi). Þalöt eru hópur efna, sem ýmist geta truflað hormónastarfsemi líkamans eða eru grunuð um að hafa slík áhrif. Þau þykja þess vegna ekki æskileg í varningi sem fólk er í náinni snertingu við. Innan Evrópusambandsins er bannað að nota slík efni í leikföng fyrir börn yngri en þriggja ára.

Engar nýjar fréttir
Það er svo sem ekkert nýtt að hættuleg efni finnist í plastskóm. Sumarið 2009 (ef ég man rétt) birtu t.d. sænsku náttúruverndarsamtökin Naturskyddsföreningen fremur sláandi niðurstöður um eiturefnainnihald í svonefndum Crocskóm og nokkrum öðrum tegundum skófatnaðar úr plasti.

Hvað er til ráða?
En hvernig geta neytendur þá forðast þessi efni? Það er í raun ekki sérlega auðvelt. Naturskyddsföreningen og Danska upplýsingamiðstöðin um umhverfi og heilsu (IMS) hafa þó gefið út leiðbeiningar hvað þetta varðar. Hér verða tínd til nokkur atriði þaðan:

  • Kaupið umhverfismerkta skó, t.d. með Umhverfismerki Evrópusambandsins (Blóminu), (þeir eru til, en kannski vandfundnir)
  • Kaupið skó úr lífrænt vottuðum hráefnum eða úr endurunnu efni, sé slíkt fáanlegt
  • Spyrjið hvort framleiðandinn sé með umhverfisvottun
  • Veljið skó og gúmmístígvél án PVC, t.d. úr náttúrulegu gúmmíi
  • Veljið leður sem er sútað með jurtum eða án þess að notað sé þrígilt króm
  • Spyrjið í búðinni hvort skórnir innihaldi efni sem eru á lista Evrópusambandsins yfir hættuleg efni eða á svonefndum „kandídatlista“
  • Látið gera við skóna ykkar í stað þess að kaupa nýja
  •  

Verum dugleg að spyrja!
Það er ekki alltaf auðvelt að vera neytandi, sérstaklega í landi þar sem neytendavitund er enn í bernsku. Þess vegna eigum við að vera enn duglegri en ella að spyrja. Kannski fáum við ekki alltaf rétt eða greinargóð svör í búðum, en ef við spyrjum ekki, frétta seljendurnir aldrei að okkur sé ekki sama!

Lokaorð um díoxín og fleira
Svona í lokin er rétt að minna á að skór eiga ekki að enda ævi sína í ruslatunnum fyrir óflokkaðan úrgang. Skilið þeim endilega í fatagáma. Suma þeirra er nefnilega hægt að endurnýta, og svo innihalda þeir oft efni sem eru skaðleg fyrir náttúruna til langs tíma litið og eiga því ekkert erindi á urðunarstaði. Og af því að díoxín er vinsælt umræðuefni þessa dagana, þá sakar ekki að ítreka að plastskó ætti aldrei að brenna við opin eld. PVC er nefnilega gott hráefni í díoxínframleiðslu.

2 svör

  1. Bara svona ein praktísk spurning: eru til skór hér á landi sem uppfylla þessar kríteríur hér að ofan, einhverjar þeirra eða allar? Ég er ekki einu sinni viss um að sauðskinnsskór komist í þennan flokk… Eru einhverjir umhverfismerktir skór á markaði hér?

  2. Var einmitt að spá í það sama. Ég man ekki eftir að hafa séð umhverfismerkta skó hér á landi, en það sem gleður manni er þó að mann sér alltaf meira og meira af umhverfismerkt föt.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: