Þeir sem fá mikið af jólagjöfum fá líka mikið af jólapappír. Stærstur hluti hans endar eflaust í ruslinu strax á jóladag. En jólapappír er ekki bara jólapappír. Hann er líka tré sem var fellt í einhverjum skógi, orka sem var notuð í einhverri verksmiðju og einhverjum flutningatækjum, litarefni sem voru notuð til að gera pappírinn svona fallegan og jafnvel málmagnir sem voru notaðar til að gera hann enn fallegri. Og pappírinn kostaði líka peninga, sem vel hefði mátt nota í eitthvað annað. Þegar pappírnum er hent í ruslið er sem sagt líka verið að henda trjám, orku, litarefnum, jafnvel málmögnum og örugglega peningum. Það er með öðrum orðum sóun að henda jólapappír – og það ýtir undir að auðlindir jarðar gangi til þurrðar fyrr en ella.
Til eru ýmsar leiðir til að komast hjá að sóa auðlindum með þeim hætti sem hér hefur verið lýst. Ein leið af mörgum er að hirða heillegan pappír utan af jólagjöfum ársins og nota hann til að pakka inn gjöfum um næstu jól. Þessu vandist ég í æsku. Mamma lagði sig mjög fram við að ná pappírnum sem heillegustum utan af pökkunum. Síðan braut hún hann vandlega saman og þurfti sjaldan að kaupa viðbót á næstu jólum. Þetta gat auðvitað verið svolítið þolinmæðisverk, því að það gat verið seinlegt að kroppa límbandið af. En þetta framlengdi auðvitað tilhlökkunina eftir því að vita hvað kæmi í ljós innan í bréfinu.
Þegar ég komst til fullorðinsára tók ég upp þennan sið mömmu með góðri aðstoð annarra í fjölskyldunni. Þegar pakkarnir eru teknir upp á aðfangadagskvöld lendir pappírinn undir stofuborðinu, og síðan fer ég í gegnum bunkann seinna um kvöldið eða að morgni jóladags, hirði allt sem nýtilegt er, fjarlægi kannski límbönd og klippi rifna kanta utan af – og rúlla síðan öllu saman upp á pappahólka sem einu sinni voru kjarninn í nýjum jólapappírsrúllum. Þetta er frekar skemmtilegt verk, enda er það orðið hluti af jólahaldinu, og oftar en ekki fæ ég líka góða aðstoð við það.
Reyndar kaupum við stundum jólapappír. Bæði eru stundum einhverjir að selja pappír til styrktar góðu málefni, og svo er ekki víst að endurnýtti pappírinn dugi utan um allar gjafirnar sem héðan fara. Alla jafna lætur þó nærri að hann dugi. Í kvöld erum við t.d. búin að pakka inn alveg slatta af gjöfum, og enn er töluvert eftir á endurnýtingarrúllunni.
Sem fyrr segir er þetta bara ein leið af mörgum til að draga úr þeim fjárhagslega og umhverfislega kostnaði sem fylgir jólapappírskaupum. Fyrr í kvöld setti ég einhverja punkta um þessi pappírsmál inn á Fésbókarsíðuna mína, og þar eru nú þegar komin nokkur góð ráð í athugasemdum. Vona að mér fyrirgefist þó að ég taki nokkur þeirra að láni og nefni þau hér:
- Endurnýta pappír utan af gjöfum fyrra árs (sjá framar).
- Pakka gjöfum til fjölskyldunnar inn í efnisbúta og safna þeim svo aftur eftir jólin.
- Pakka inn í dagblöð með vel völdum fréttum frá árinu sem er að líða.
- Pakka inn í ólitaðan pappír með myndum eftir börnin. (Slíkur pappír er alla jafna mun umhverfisvænni en jólapappír. Suman jólapappír er m.a.s. ekki hægt að endurvinna vegna þess hversu mikið er af öðrum efnum í honum).
Myndin sem fylgir þessari færslu er af einum pakka kvöldsins, (innihaldið er trúnaðarmál, svo og viðtakandinn). Þar má einnig sjá rúlluna góðu með nýtilegum pappír frá síðasta ári.
Filed under: Sjálfbær þróun, Umhverfismál | 1 Comment »