• Heimsóknir

    • 119.039 hits
  • desember 2010
    S M F V F F S
     1234
    567891011
    12131415161718
    19202122232425
    262728293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Endurnýttur jólapappír

Þeir sem fá mikið af jólagjöfum fá líka mikið af jólapappír. Stærstur hluti hans endar eflaust í ruslinu strax á jóladag. En jólapappír er ekki bara jólapappír. Hann er líka tré sem var fellt í einhverjum skógi, orka sem var notuð í einhverri verksmiðju og einhverjum flutningatækjum, litarefni sem voru notuð til að gera pappírinn svona fallegan og jafnvel málmagnir sem voru notaðar til að gera hann enn fallegri. Og pappírinn kostaði líka peninga, sem vel hefði mátt nota í eitthvað annað. Þegar pappírnum er hent í ruslið er sem sagt líka verið að henda trjám, orku, litarefnum, jafnvel málmögnum og örugglega peningum. Það er með öðrum orðum sóun að henda jólapappír – og það ýtir undir að auðlindir jarðar gangi til þurrðar fyrr en ella.

Til eru ýmsar leiðir til að komast hjá að sóa auðlindum með þeim hætti sem hér hefur verið lýst. Ein leið af mörgum er að hirða heillegan pappír utan af jólagjöfum ársins og nota hann til að pakka inn gjöfum um næstu jól. Þessu vandist ég í æsku. Mamma lagði sig mjög fram við að ná pappírnum sem heillegustum utan af pökkunum. Síðan braut hún hann vandlega saman og þurfti sjaldan að kaupa viðbót á næstu jólum. Þetta gat auðvitað verið svolítið þolinmæðisverk, því að það gat verið seinlegt að kroppa límbandið af. En þetta framlengdi auðvitað tilhlökkunina eftir því að vita hvað kæmi í ljós innan í bréfinu.

Þegar ég komst til fullorðinsára tók ég upp þennan sið mömmu með góðri aðstoð annarra í fjölskyldunni. Þegar pakkarnir eru teknir upp á aðfangadagskvöld lendir pappírinn undir stofuborðinu, og síðan fer ég í gegnum bunkann seinna um kvöldið eða að morgni jóladags, hirði allt sem nýtilegt er, fjarlægi kannski límbönd og klippi rifna kanta utan af – og rúlla síðan öllu saman upp á pappahólka sem einu sinni voru kjarninn í nýjum jólapappírsrúllum. Þetta er frekar skemmtilegt verk, enda er það orðið hluti af jólahaldinu, og oftar en ekki fæ ég líka góða aðstoð við það.

Reyndar kaupum við stundum jólapappír. Bæði eru stundum einhverjir að selja pappír til styrktar góðu málefni, og svo er ekki víst að endurnýtti pappírinn dugi utan um allar gjafirnar sem héðan fara. Alla jafna lætur þó nærri að hann dugi. Í kvöld erum við t.d. búin að pakka inn alveg slatta af gjöfum, og enn er töluvert eftir á endurnýtingarrúllunni.

Sem fyrr segir er þetta bara ein leið af mörgum til að draga úr þeim fjárhagslega og umhverfislega kostnaði sem fylgir jólapappírskaupum. Fyrr í kvöld setti ég einhverja punkta um þessi pappírsmál inn á Fésbókarsíðuna mína, og þar eru nú þegar komin nokkur góð ráð í athugasemdum. Vona að mér fyrirgefist þó að ég taki nokkur þeirra að láni og nefni þau hér:

  • Endurnýta pappír utan af gjöfum fyrra árs (sjá framar).
  • Pakka gjöfum til fjölskyldunnar inn í efnisbúta og safna þeim svo aftur eftir jólin.
  • Pakka inn í dagblöð með vel völdum fréttum frá árinu sem er að líða.
  • Pakka inn í ólitaðan pappír með myndum eftir börnin. (Slíkur pappír er alla jafna mun umhverfisvænni en jólapappír. Suman jólapappír er m.a.s. ekki hægt að endurvinna vegna þess hversu mikið er af öðrum efnum í honum).

Myndin sem fylgir þessari færslu er af einum pakka kvöldsins, (innihaldið er trúnaðarmál, svo og viðtakandinn). Þar má einnig sjá rúlluna góðu með nýtilegum pappír frá síðasta ári.

Marklaus vottun sjávarafurða

Íslenskar þorskveiðar hafa nú fengið vottun samkvæmt kerfi Fiskifélagsins undir merki „Iceland Responsible Fisheries“. Þetta er í sjálfu sér jákvætt, en ástæða er þó til að vara við væntingum um að það bæti stöðu íslenskra fiskafurða á alþjóðlegum mörkuðum. Þegar betur er að gáð virðist vottunin marklaus á þeim vettvangi, þar sem vottunarkerfið er ekki rekið af óháðum aðila.

Til að vottunarkerfi fyrir vöru eða þjónustu geti talist óháð þarf sá sem rekur kerfið að vera óháður bæði framleiðendum og kaupendum vörunnar. Í þessu sambandi er gjarnan talað um „óháða vottun þriðja aðila“. Sá sem rekur vottunarkerfið er „þriðji aðilinn“ í þessu samhengi, en framleiðandinn og kaupandinn eru aðilar númer eitt og tvö. Kerfið sem hér um ræðir er byggt upp af Fiskifélaginu, sem í eru helstu samtök hagsmunaaðila í íslenskum sjávarútvegi. Þarna er með öðrum orðum enginn „þriðji aðili“ til staðar. Það að óháð vottunarstofa sjái um úttektir samkvæmt kerfinu er jákvætt, en nægir þó ekki til að bæta úr þessum alvarlega ágalla. Vottunarstofan gerir í raun ekki annað í þessu tilviki en að staðfesta að vara framleiðandans uppfylli þær kröfur sem framleiðandinn hefur sjálfur sett.

Í frétt á vef RÚV um málið í fyrrakvöld kom fram að írsk óháð vottunarstofa hefði gert úttekt á þorskveiðum íslendinga og staðfest að veiðarnar samræmdust alþjóðlegum kröfum. Þetta er rangt. Vottunarstofan getur ekki staðfest neitt annað í þessu sambandi en að veiðarnar standist kröfur þessa íslenska vottunarkerfis. Það að kerfið taki mið af leiðbeinandi reglum Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) gerir það ekki að alþjóðlegu kerfi.

Það er dapurlegt að hagsmunaaðilar í íslenskum sjávarútvegi skuli verja miklum tíma og fjármunum í að þróa kerfi sem fyrirfram er vitað að getur ekki bætt stöðu íslenskra sjávarafurða á alþjóðlegum mörkuðum svo neinu nemi. Þessi þrönga áhersla getur jafnvel tafið fyrir nauðsynlegri aðlögun greinarinnar að kröfum markaðarins, ekki vegna þess að vottunin spilli neinu sem slík, heldur vegna þess að á sama tíma og Íslendingar sýsla við þetta eru samkeppnisaðilarnir á fullri ferð í þessari aðlögun. Ef svo heldur sem horfir er veruleg hætta á að íslenskar sjávarafurðir tapi þessu kapphlaupi að matborðum erlendra neytenda og verði að sætta sig við óstöðugri markaði og lægri verð en ella.

(Þeim sem vilja kynna sér nánar þær kröfur sem gerðar eru til óháðra vottunarkerfa er bent á að kynna sér staðalinn ÍST EN 45011:1998 – Almennar kröfur vegna aðila sem reka vöruvottunarkerfi (ISO/IEC-leiðbeiningar 65:1996). Í staðlinum er gerð grein fyrir þeim almennu kröfum sem þriðji aðili sem rekur vöruvottunarkerfi þarf að uppfylla til að geta talist hæfur og áreiðanlegur. Þar kemur m.a. fram í grein 4.2 að formgerð aðilans skuli vera með þeim hætti að hún styðji við áreiðanleika vottana á hans vegum. Sérstaklega skuli aðilinn vera óháður).

Helstu heimildir:
Frétt á heimasíðu RÚV 15. des. 2010: http://www.ruv.is/frett/vottunin-mikilvaeg-thorskutflutningi.
Frétt á heimasíðu LÍÚ 16. des. 2010: http://www.liu.is/frettir/nr/1308.
Íslenskur staðall ÍST EN 45011:1998 – Almennar kröfur vegna aðila sem reka vöruvottunarkerfi (ISO/IEC-leiðbeiningar 65:1996). Staðlaráð Íslands.

Sannar jólagjafir frá UNICEF

Í gær opnaði UNICEF á Íslandi vefverslun á heimasíðu sinni, þar sem hægt er að kaupa sannar jólagjafir fyrir vini og ættingja á borð við moskítónet, bólusetningu, vatnshreinsitöflur og skóla í kassa. Reyndar fær maður ekki vöruna senda heim, heldur er  hún send frá vöruhúsi UNICEF í Kaupmannahöfn til þeirra sem þurfa mest á henni að halda. Vinurinn eða ættinginn fær hins vegar persónulegt gjafabréf með ljósmynd eða lýsingu á gjöfinni. Svona jólagjafir eru sérlega hentugar fyrir þá sem eiga allt og vantar ekki neitt – annað en að vita að maður hugsi til þeirra á jólunum.

Það er gaman að gefa og fá jólagjafir. En á þeirri ánægju geta verið umhverfislegar og félagslegar skuggahliðar, því að hluturinn sem gefinn er hefur í mörgum tilvikum skilið eftir sig óþrifaleg spor í samfélaginu þar sem hann var framleiddur. Kannski voru vinnuaðstæður verkafólks á framleiðslustaðnum óviðunandi, og kannski voru notuð efni sem sköðuðu umhverfi þess og heilsu, svo eitthvað sé nefnt. Þessar skuggahliðar eru eiginlega því dekkri sem hluturinn er gagnslausari, en það á því miður einmitt stundum við jólagjafir, sem vissulega eru gefnar af góðum hug, en þó oft fremur af skyldurækni en til að uppfylla þarfir viðtakandans.

Gjafabréf frá UNICEF er sönn jólagjöf. Hún gleður ekki bara þann sem gefur gjöfina og þann sem fær hana, heldur getur hún líka bjargað mannslífum og bætt lífsskilyrði og afkomumöguleika annars fólks. Þannig verða áhrif hennar á umhverfi og samfélag jákvæð en ekki neikvæð.

Það er auðvelt að kaupa sanna jólagjöf hjá UNICEF. Slóð vefverslunarinnar er http://www.unicef.is/sannargjafir, og þegar inn er komið skýrir framhaldið sig sjálft.

Svínakjöt beint frá býli

Í framhaldi af síðustu færslu um uppruna hamborgarhryggja hef ég fengið nokkrar gagnlegar ábendingar um það hvar hægt sé að nálgast svínakjöt sem er upprunnið frá fjölskyldubúi í íslenskri sveit. Einfaldasta leiðin er að nýta sér heimasíðu Beint frá býli, félagi heimavinnsluaðila. Þar leynist nefnilega svolítill gagnagrunnur þar sem hægt er að sjá hverjir bjóða hvaða vöru.

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðunni bjóða tveir bæir svínakjöt beint frá býli, þ.e.a.s. bæirnir Laxárdalur í Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Miðsker í Nesjum. Reyndar þykist ég vita um þann þriðja, sem er Ormsstaðir í Grímsnesi. Bærinn er skráður á heimasíðunni, en þar eru engar upplýsingar um hvaða vörur séu þar til sölu. Hins vegar er Ormsstaðabúið með eigin heimasíðu þar sem hægt er að fræðast meira um málið.

Loks má nefna að Frú Lauga á Laugalæk í Reykjavík selur vel valdar vörur frá vel völdum heimavinnsluaðilum. Þar fæst t.d. svínakjöt frá Laxárdal.

Svo er líka hægt að gera eins og ég, að hringja einfaldlega í svínabónda sem maður þekkir. Sá sem ég hringdi í er reyndar ekki aðili að Beint frá býli, en hann tók nú samt vel í að útvega mér svínahamborgarhrygg frá búinu sínu.

Það er gaman að vera neytandi, vegna þess að sem neytandi getur maður haft áhrif! En þá þarf að hafa hugfast að maður þarf að banka á dyrnar. „Og það veit hvert mannsbarn að dyrnar opnast einungis þá“, eins og segir í kvæðinu.

Hvaðan kemur hamborgarhryggurinn?

Svínahamborgarhryggur verður eflaust á mörgum íslenskum matborðum á aðfangadag. En hversu margir sem sitja við þessu sömu borð skyldu velta því fyrir sér hvaðan þetta bragðgóða kjötstykki er upprunnið?

Mér finnst skipta máli hvaðan hamborgarhryggurinn kemur. Líklegast er að hann komi frá íslensku verksmiðjubúi, þar sem

  • nokkur þúsund grísir eru aldir samtímis,
  • velferð dýra er ekki ofarlega á forgangslistanum,
  • sjúkdómar breiðast hratt út,
  • sýklalyfjanotkun er tiltölulega mikil,
  • gríðarlegt magn af úrgangi fellur til og er jafnvel dælt í sjóinn,
  • vinnan er unnin af farandverkamönnum sem taka engan þátt í nærsamfélaginu og greiða engin gjöld til þess,
  • búið hefur verið byggt upp á skömmum tíma með miklum lántökum – og þar sem
  • einhver banki er löngu búin að taka búið upp í skuldir, „aflúsa“ það á kostnað almennings og selja það til nýrra eigenda á niðursettu verði.

Flest af þessu gildir nefnilega um þá framleiðslustaði sem sjá Íslendingum fyrir miklum meirihluta af árlegri svínakjötsneyslu þeirra.

Ólíklegra er að hamborgarhryggurinn komi frá íslensku fjölskyldubúi, þar sem

  • takmarkaður fjöldi grísa er alinn samtímis,
  • allvel er séð fyrir velferð dýranna,
  • sjúkdómar er tiltölulega fátíðir,
  • sýklalyfjanotkun er tiltölulega lítil,
  • úrgangur sem fellur til er nýttur á búinu,
  • vinnan er unnin af heimilisfólki sem tekur þátt í nærsamfélaginu og greiðir gjöld til þess – og þar sem
  • búið hefur verið byggt upp á tiltölulega löngum tíma fyrir eigið fé og hófleg lán, án þess að nokkurn tíma hafi komið til afskrifta.

Já, mér finnst skipta máli hvaðan hamborgarhryggurinn kemur. En þarna er mér og öðrum svínakjötsneytendum vandi á höndum. Umbúðirnar utan um hamborgarhrygginn í búðinni segja nefnilega fátt um upprunann, nema þá í hvaða fyrirtæki kjötstykkinu var pakkað í neytendaumbúðir. Til að bregðast við þessu hringdi ég á dögunum í svínabónda sem ég kannast við, einn af þessum fáu sem enn reka fjölskyldubú, og spurði hvort hann gæti útvegað mér hamborgarhrygg af einum grísanna sinna. Svona hringingar voru greinilega ekki daglegur viðburður, en bóndinn tók erindinu einkar ljúflega, og áður en yfir lauk var hann búinn að finna leið sem líklega mun duga til að ég geti boðið fjölskyldunni upp á hamborgarhrygg af þessum ólíklegri uppruna á aðfangadag. Bóndinn lét þess reyndar getið að líklega væri kjötið frá honum ekkert öðruvísi á bragðið en kjötið frá verksmiðjubúunum, því að svínin fengju nokkurn veginn sama fóður á báðum stöðum. En mér er svo sem sama um bragðið, bara ef mér finnst það gott. Það eru öll hin atriðin sem ég taldi upp hér að framan sem mér er ekki sama um.

Uppruni matvöru á ekki að vera neitt leyndarmál! Og ef fólki er ekki sama, og ef upplýsingar um upprunann eru ekki á umbúðunum, þá á þetta sama fólk að spyrja. Nærtækast er að spyrja í búðinni, og jafnvel þótt fátt verði um svör skiptir spurningin máli. Þegar nokkrir eru búnir að spyrja svipaðrar spurningar er þetta nefnilega orðið að „eftirspurn“, sem er nógu merkilegt hugtak í verslunarrekstri til að það kalli á viðbrögð. Nú, svo er líka hægt að hringja í svínabónda, ef maður þekkir einhvern svoleiðis.

Svínakjöt og svínakjöt er ekki endilega það sama, þó að það sé eins á bragðið!

Náttúra í gjaldþrotaskiptum?

Í dag birtist svolítil grein eftir mig í nýjasta fréttabréfi Norræna umhverfisfjármögnunarfélagsins (NEFCO) undir yfirskriftinni Iceland: A business in liquidation or a source of knowhow? Í greininni velti ég upp þeirri spurningu hvort Íslendingar hafi efni á sjálfbærri þróun eins og málum er nú háttað, eða hvort þeir séu tilneyddir að meðhöndla náttúruna „eins og hún væri fyrirtæki í gjaldþrotaskiptum“, eins og Herman Daly orðaði það á sínum tíma.

Hægt er að nálgast fréttabréf NEFCO á http://www.nefco.org/files/NEFCO_NEWS2_2010_LORES.pdf.
Umrædd grein er á bls. 16 í fréttabréfinu.

Niðursveifla eftir kosningar?

Lítið lífsmark hefur verið með þessari bloggsíðu síðustu daga. Því er eðlilegt að spurt sé hvort niðursveiflan eftir kosningarnar sé slík að hér þrífist ekkert líf lengur. Línuritið til hægri yfir fjölda innlita á síðuna gæti eimitt gefið það til kynna.

Hvað sem línuritum líður eru fréttir af andláti mínu og útför stórlega ýktar, eins og mig minnir að Mark Twain hafi orðað það. Næstu daga mun hellast hér inn hver bloggfærslan af annarri – um umhverfismál, hlaup og annað sem miklu skiptir í lífinu. Missið ekki af því.
🙂

Að kosningum loknum

Í gær kom í ljós að ég sest ekki á Stjórnlagaþing á útmánuðum. Var reyndar frekar nálægt því að ná kjöri, þar sem ég var sleginn út í 508. lotu af 509, ef svo má að orði komast. Varð sem sagt í 27. sæti í kosningunni, en það komust jú bara 25 inn.

Þegar menn tapa í kosningum gildir almennt sú regla að þeir hinir sömu snúa tapinu upp í sigur í útskýringum sínum eftir kosningar, í það minnsta varnarsigur. Ég var náttúrulega ekkert í vörn, heldur þvert á móti í sókn allan tímann, þannig að ég get engan veginn talað um varnarsigur í þessu sambandi. Hins vegar var ég svo heppinn að komast yfir 850 bls. pdf-skjal Landskjörstjórnar, og þar fann ég einmitt það sem mig vantaði til að geta lýst yfir sigri: Ég fékk 689 atkvæði í fyrsta sæti og varð nr. 14 af öllum frambjóðendunum hvað það varðar.

Þegar menn ná svipaðri útkomu í kosningum og hér hefur verið lýst, gildir almennt sú regla að þeir hinir sömu benda á alvarlega ágalla á kosningakerfinu. Kerfið hafi beinlínis, með ósanngjörnum hætti, komið í veg fyrir að þeir næðu kjöri. Ég ætla hins vegar að brjóta þessa reglu. Því meira sem ég velti þessu kerfi fyrir mér, þeim mun ánægðari verð ég nefnilega með það! Um þetta gæti ég haft mörg orð, en læt nægja að benda á að í þessu kerfi getur maður óhikað valið lítt þekktan frambjóðanda, þótt mann gruni að viðkomandi eigi litla möguleika á að ná kjöri. Reynist grunurinn réttur fer atkvæðið ekki til spillis, heldur gengur óskipt til næsta manns á listanum.

Nú er einu tímabili lífs mín lokið – og annað tekur við. Viðfangsefnin eru næg, og reynslan úr þessum kosningaundirbúningi mun nýtast vel í framhaldinu þegar búið er að hræra henni saman við alla hina reynsluna sem hefur safnast í áranna rás. En upp úr þessu öllu stendur þó þakklæti fyrir allan þann stuðning og velvilja sem ég fann fyrir í kosningaundirbúningnum. Ég vissi alveg að ég ætti góða að, en síðustu vikur hefur það virkilega rifjast upp fyrir mér hvers virði öll sú vinátta og kunningsskapur er! Sú vitund á eftir að reynast mér drjúg í næstu verkum!

Annars var ég að átta mig á því að ég er svona álíka góður í að bjóða mig fram til Stjórnlagaþings og að hlaupa maraþon. Í gær var ég sem sagt í 27. sæti af 522 keppendum, en í 14. sæti ef aðeins er litið á efstu línur kjörseðlanna. Í Reykjavíkurmaraþoninu í sumar var ég í 36. sæti af 565 keppendum, en í 16. sæti ef aðeins er litið á Íslendingana.

Lífið er langhlaup. Mér finnst gaman að hlaupa.
🙂