Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) kannaði nýlega efnainnihald í 27 ódýrum leikföngum sem ganga að einhverju leyti fyrir rafmagni. Óleyfileg efni fundust í 7 þeirra, þ.á.m. blý.
Umrædd leikföng voru keypt í dagvöruverslunum, leikfangaverslunum og íþróttavöruverslunum í Kaupmannahöfn og voru öll í ódýrari kantinum eins og fyrr segir, kostuðu sem sagt innan við 100 danskar krónur (2.100 ISK). Úrvalið var fjölbreytt, allt frá leikfangabílum upp í sápukúluvélar. Bannað er að nota blý í vörur af þessu tagi, en það fannst engu að síður í fjórða hverju leikfangi, nánar tiltekið í rafbúnaðinum. Blýið var með öðrum orðum ekki á yfirborði leikfanganna, og því ólíklegt að börnin komist í beina snertingu við það. En þegar notkun lýkur lendir blýið líklega í ruslinu, og þar ætti það helst ekki að vera. Í einu leikfangi fannst líka eldvarnarefnið deka-BDE, sem er bannað efni sem inniheldur bróm, (brómerað eldvarnarefni).
Þeir sem vilja ekki að börnin þeirra leiki sér með skaðleg efni ættu m.a. að:
- kaupa sem minnst af rafknúnum leikföngum,
- kaupa rafknúin leikföng sem endast lengi,
- kaupa sem minnst af ódýrum leikföngum, því að þau eru líklegri til að innihalda skaðleg efni,
- nota svansmerktar hleðslurafhlöður í rafknúin leikföng,
- forðast að henda rafknúnum leikföngum í ruslið, en fara þess í stað með þau á flokkunarstöðvar,
- banna börnunum sínum að leika sér með gömul raftæki fyrir fullorðna, svo sem gamla farsíma.
(Þessi pistill er byggður á frétt á heimasíðu dönsku upplýsingamiðstöðvarinnar um umhverfi og heilsu (IMS) 14. janúar sl. Einnig má benda á frétt á heimasíðu Neytendasamtakanna 18. mars 2010).
Filed under: Umhverfismál |
Færðu inn athugasemd