• Heimsóknir

    • 119.667 hits
  • janúar 2011
    S M F V F F S
     1
    2345678
    9101112131415
    16171819202122
    23242526272829
    3031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Leynist PCB í íslenskum húsum?

Ég hef lengi velt fyrir mér þeirri þögn sem ríkir hérlendis um hættuna sem kann að stafa af PCB í gömlum byggingum. Annað hvort hljótum við að vera svo blessunarlega laus við þetta vandamál, að það taki því ekki að ræða það, enda þótt norrænir nágrannar okkar virðist hafa af þessu miklar áhyggjur hver heima hjá sér, eða þá að í okkur blundar meira kæruleysi og þekkingarskortur en hollt er. Ég get ekki lagt dóm á það hvor skýringin sé líklegri. Samt finnst mér hæpið að við getum afskrifað allar áhyggjur fyrr en við erum búin að kanna málið svolítið. Það hefur ekki verið gert mér vitanlega.

Hvar er þetta PCB?
PCB getur leynst víða í gömlum byggingum, svo sem í fúgumassa og í lími og þéttingum í tvöföldu gleri. Kannski er þetta stærra vandamál á hinum Norðurlöndunum en hér, vegna þess að þar er miklu hærra hlutfall bygginga gert úr hleðslusteini, og þar af leiðandi leynist miklu meiri fúgumassi í þarlendum byggingum en íslenskum. En einangrunargler og lím var jú notað á Íslandi líka á þeim tíma sem slíkar vörur innihéldu verulegt magn af PCB.

Vangaveltur um íslenskt gler
Í athugun sem ég gerði fyrir Félagsbústaði hf. á árunum 2001-2003 komst ég að því að rík ástæða væri til að ætla að „flestar gerðir samsetningarlíms og a.m.k. nokkrar þeirra kíttistegunda, sem notaðar voru við framleiðslu og ísetningu einangrunarglers hérlendis á árunum 1956-1980, og hugsanlega lengur, hafi innihaldið PCB, þar sem efnið var mjög almennt notað sem mýkingarefni fram eftir 8. áratug 20. aldar“. Eftir að hafa lesið mér svolítið til um innlenda glerframleiðslu á þessum árum taldi ég mig geta staðhæft að PCB hefði komið við sögu í framleiðslu og ísetningu á öllu einangrunargleri hérlendis á umræddu tímabili. PCB var á þessum tíma m.a. að finna í lími og kítti úr Thiokolefnum, sem notað var við samsetningu á CUDO-gleri og væntanlega einnig við ísetningu á CUDO-gleri og Glerborgargleri. Vitað er að á árunum í kringum 1970 innihéldu þessi Thiokolefni um 1-40% PCB, sem í því tilviki var notað sem mýkingarefni. PCB var líka í efninu PRC 408, sem notað var við samsetningu á Glerborgargleri og gleri frá Íspan. Sömuleiðis innihéldu þéttiefnin Bostic-vulkfil og Bostic Vulkseal (103 og 104) talsvert magn af PCB. Með einföldum útreikningum komst ég að því að hérlendis gætu tugir tonna af PCB hafa leynst í byggingum sem reistar voru eða endurbættar á árunum 1956-1980, en líklega væri mikill meirihluti þessa efnis þegar sloppinn út í umhverfið, m.a. vegna þess að íslenskt einangrunargler sem framleitt var um þetta leyti þótti ekki sérlega endingargott.

Hvað svo?
Nú eru bráðum 10 ár síðan þessum PCB-pælingum mínum lauk. Ég veit ekki til að hérlendis hafi neinn aðhafst neitt í þessum málum síðan þá, nema hvað iðnaðarmenn og húseigendur hafa haldið áfram að skipta út gömlu einangrunargleri og koma því til urðunar, óvarðir að öllu leyti, á sama tíma og norrænir kollegar þeirra stunduðu sömu iðju íklæddir einhverju sem líkist meira geimfarabúningi en gallasamfestingi frá Vinnufatabúðinni.

Varúðarreglan
Hér er rétt að endurtaka og undirstrika að ég hef ekki hugmynd um hversu mikil hætta leynist enn í PCB-menguðum byggingum á Íslandi. En ég er samt ekki í vafa um að hættan er til staðar, a.m.k. á meðan enginn hefur kannað málið og sýnt fram á að svo sé ekki. Hér ætti Varúðarreglan að gilda sem víðar.

Hvað segir Gúgúl?
Fyrr í dag gerði ég afar óformlega könnun á því á Google hversu oft PCB í byggingum ber á góma á íslenskum og norrænum vefsíðum. Sú könnun felur auðvitað ekki í sér neinn stóran sannleik, en gefur þó vísbendingu um hvort málið sé yfirleitt á dagskrá. Niðurstöðurnar voru þessar:

  • Leitarorðið „PCB í byggingum“ (væntanlega aðallega íslenskar vefsíður) gaf 7 svör (sem öll tengdust mér eða Norrænu ráðherranefndinni).
  • Leitarorðið „PCB i bygg“ (væntanlega aðallega norskar vefsíður) gaf um 1.600 svör.
  • Leitarorðið „PCB i bygninger“ (væntanlega aðallega danskar vefsíður) gaf um 6.620 svör.
  • Leitarorðið „PCB i byggnader“ (væntanlega aðallega sænskar vefsíður) gaf um 19.700 svör.

Af Dönum og Svíum
Ég gaf mér ekki tíma til að skoða allar þær vefsíður sem þarna var vísað í. En það sem fyrst vakti þó athygli mína voru harðorð skrif í Ingeniøren í Danmörku, þar sem umhverfisráðherrann Karen Ellemann er sökuð um að hunsa álit sérfræðinga með því að neita að setja lög um að PCB skuli fjarlægt úr byggingum. Umræddir sérfræðingar telja brýnt að gerð verði landsáætlun um það hvernig staðið skuli að hreinsuninni og vísa þar m.a. til fordæmis Svía. Þar voru reglugerðarákvæði um þessi mál skerpt á síðasta ári, með sérstakri áherslu á skyldu húseigenda til að greina PCB í byggingum og láta fjarlægja það innan tilskilins frests.

Niðurstaða
Niðurstaða mín er þessi: Það getur vel verið að PCB í byggingum sé ekkert vandamál á Íslandi. En efnið var samt notað hér á sínum tíma, og meðan ekki hefur verið sýnt fram á að það finnist ekki í skaðlegu magni, þá er ástæða til að óttast að svo sé. Varúðarreglan á að gilda í þessu sem öðru.

Lokaorð
Það skyldi þó aldrei vera að við höfum sofið á verðinum – og sofum enn.

(Meiri upplýsingar um þessi mál er m.a. að finna í rúmlega ársgömlu bloggi sem ég skrifaði eftir að hafa gluggað í danskt blað, og svo náttúrulega á þessum nokkurþúsund vefsíðum sem nefndar voru hér að framan, þ.á.m. í Ingeniøren og á heimasíðu sænsku umhverfisstofnunarinnar (Naturvårdsverket). Ef einhvern langar að fræðast enn meira get ég líka bent á norrænar skýrslur um málið, svo og aðrar norskar, danskar og sænskar heimildir).

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: