• Heimsóknir

  • 119.040 hits
 • febrúar 2011
  S M F V F F S
   12345
  6789101112
  13141516171819
  20212223242526
  2728  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Ágengar tegundir: Þörf á aukinni varúð!

Spánarsnigill (Arion lusitanicus). Ljósmynd http://www.nobanis.org, Hans Erik Svart

Á síðustu vikum hefur verið togast dálítið á um drög að frumvarpi til laga um breytingar á náttúruverndarlögum, sérstaklega þær greinar sem lagt er til að komi í stað 41. greinar núgildandi laga. Í þessum nýju greinum eru settar fram skýrari reglur en áður um innflutning lifandi framandi lífvera og um dreifingu lifandi lífvera. Tilgangurinn er að draga úr hættu á tjóni á lífríki Íslands af völdum framandi lífvera.

Ég hef ekki haft tök á að fylgjast nákvæmlega með umræðunni um frumvarpsdrögin, en tilsýndar sýnast mér þeir sem tekið hafa til máls skiptast í tvær fylkingar; annars vegar hóp skógræktar- og garðræktarfólks sem telur of langt gengið í takmörkun og eftirliti með innflutningi og dreifingu lífvera – og hins vegar vistfræðinga sem leggja áherslu á varúðina, enda hafi ágengar lífverur víða valdið miklu tjóni.

Ég er talsmaður varúðarinnar, enda er varúðin hornsteinninn í hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, þeirrar hugmyndafræði sem vill að látið sé af “hinum gamla húsgangshætti, að hugsa eingöngu um stundarhaginn, nokkra aura í svipinn, en láta sér standa á sama hvort gerður er stór skaði öldum og óbornum”, svo vitnað sé í orð Þorvaldar Thoroddsen frá 1894. Þess vegna tek ég undir orð vistfræðinga sem hvetja til þess að varúðarákvæðin í náttúruverndarlögunum séu styrkt.

Máli sínu til stuðnings benda vistfræðingarnir á útreikninga sem gerðir hafa verið á tjóni af völdum ágengra tegunda. Mér finnst þörf á að hnykkja enn frekar á þessu atriði, því að tjón af þessu tagi kemur oftast fram löngu eftir að flutningur lífverunnar á sér stað. Þannig er líklegt að á síðustu áratugum höfum við í ógáti (varúðarleysi) stofnað til skuldar sem er hvergi skráð og kemur ekki á gjalddaga fyrr en að okkur gengnum. Þekkt tjón af völdum ágengra tegunda stafar líklega fyrst og fremst af flutningi tegunda á fyrri hluta 20. aldar, en áhrif af flutningum síðari tíma eiga að miklu leyti eftir að koma fram. Endanlegt tjón af því sem þegar hefur gerst gæti því orðið langt umfram þau 5% af landsframleiðslu, sem nefnd hafa verið í þessu sambandi.

Vangaveltur mínar hér að framan um skuldina sem enn hefur ekki verið bókuð, eru byggðar á grein eftir Franz Essl, Stefan Dullinger, Wolfgang Rabitscha og 10 aðra vísindamenn, sem birtist 4. janúar sl. í Proceedings of the National Academy of Sciences. Meginniðurstaða greinarinnar er að áhrif ágengra tegunda í Evrópu nú um stundir séu fremur afleiðing mannlegra athafna á árunum kringum 1900, en athafna um nýliðin aldamót. Innflutningur framandi tegunda hafi aukist mjög á síðustu 50-60 árum, og líklega muni áhrif þeirra flutninga ekki koma fram að fullu fyrr en að nokkrum áratugum liðnum. Þannig sé í raun þegar búið að stofna til skuldar sem kynslóðir framtíðar munu þurfa að kljást við.

Umrædd grein felur í sér áminningu til þeirra sem fjalla um flutning framandi tegunda um að gæta enn betur að sér en gert hefur verið. Líklega er ástæða til að skerpa varnarákvæðin í frumvarpsdrögunum enn frekar ef eitthvað er, enda hvetja greinarhöfundar einmitt til breytinga í þá átt í ljósi niðurstaðna sinna.

(Aðalheimild: Franz Essl, Stefan Dullinger, Wolfgang Rabitscha, et al. (2011). Socioeconomic legacy yields an invasion debt. Proceedings of the National Academy of Sciences. 108:203-207).

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: