• Heimsóknir

  • 118.086 hits
 • janúar 2011
  S M F V F F S
   1
  2345678
  9101112131415
  16171819202122
  23242526272829
  3031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Leynist PCB í íslenskum húsum?

Ég hef lengi velt fyrir mér þeirri þögn sem ríkir hérlendis um hættuna sem kann að stafa af PCB í gömlum byggingum. Annað hvort hljótum við að vera svo blessunarlega laus við þetta vandamál, að það taki því ekki að ræða það, enda þótt norrænir nágrannar okkar virðist hafa af þessu miklar áhyggjur hver heima hjá sér, eða þá að í okkur blundar meira kæruleysi og þekkingarskortur en hollt er. Ég get ekki lagt dóm á það hvor skýringin sé líklegri. Samt finnst mér hæpið að við getum afskrifað allar áhyggjur fyrr en við erum búin að kanna málið svolítið. Það hefur ekki verið gert mér vitanlega.

Hvar er þetta PCB?
PCB getur leynst víða í gömlum byggingum, svo sem í fúgumassa og í lími og þéttingum í tvöföldu gleri. Kannski er þetta stærra vandamál á hinum Norðurlöndunum en hér, vegna þess að þar er miklu hærra hlutfall bygginga gert úr hleðslusteini, og þar af leiðandi leynist miklu meiri fúgumassi í þarlendum byggingum en íslenskum. En einangrunargler og lím var jú notað á Íslandi líka á þeim tíma sem slíkar vörur innihéldu verulegt magn af PCB.

Vangaveltur um íslenskt gler
Í athugun sem ég gerði fyrir Félagsbústaði hf. á árunum 2001-2003 komst ég að því að rík ástæða væri til að ætla að „flestar gerðir samsetningarlíms og a.m.k. nokkrar þeirra kíttistegunda, sem notaðar voru við framleiðslu og ísetningu einangrunarglers hérlendis á árunum 1956-1980, og hugsanlega lengur, hafi innihaldið PCB, þar sem efnið var mjög almennt notað sem mýkingarefni fram eftir 8. áratug 20. aldar“. Eftir að hafa lesið mér svolítið til um innlenda glerframleiðslu á þessum árum taldi ég mig geta staðhæft að PCB hefði komið við sögu í framleiðslu og ísetningu á öllu einangrunargleri hérlendis á umræddu tímabili. PCB var á þessum tíma m.a. að finna í lími og kítti úr Thiokolefnum, sem notað var við samsetningu á CUDO-gleri og væntanlega einnig við ísetningu á CUDO-gleri og Glerborgargleri. Vitað er að á árunum í kringum 1970 innihéldu þessi Thiokolefni um 1-40% PCB, sem í því tilviki var notað sem mýkingarefni. PCB var líka í efninu PRC 408, sem notað var við samsetningu á Glerborgargleri og gleri frá Íspan. Sömuleiðis innihéldu þéttiefnin Bostic-vulkfil og Bostic Vulkseal (103 og 104) talsvert magn af PCB. Með einföldum útreikningum komst ég að því að hérlendis gætu tugir tonna af PCB hafa leynst í byggingum sem reistar voru eða endurbættar á árunum 1956-1980, en líklega væri mikill meirihluti þessa efnis þegar sloppinn út í umhverfið, m.a. vegna þess að íslenskt einangrunargler sem framleitt var um þetta leyti þótti ekki sérlega endingargott.

Hvað svo?
Nú eru bráðum 10 ár síðan þessum PCB-pælingum mínum lauk. Ég veit ekki til að hérlendis hafi neinn aðhafst neitt í þessum málum síðan þá, nema hvað iðnaðarmenn og húseigendur hafa haldið áfram að skipta út gömlu einangrunargleri og koma því til urðunar, óvarðir að öllu leyti, á sama tíma og norrænir kollegar þeirra stunduðu sömu iðju íklæddir einhverju sem líkist meira geimfarabúningi en gallasamfestingi frá Vinnufatabúðinni.

Varúðarreglan
Hér er rétt að endurtaka og undirstrika að ég hef ekki hugmynd um hversu mikil hætta leynist enn í PCB-menguðum byggingum á Íslandi. En ég er samt ekki í vafa um að hættan er til staðar, a.m.k. á meðan enginn hefur kannað málið og sýnt fram á að svo sé ekki. Hér ætti Varúðarreglan að gilda sem víðar.

Hvað segir Gúgúl?
Fyrr í dag gerði ég afar óformlega könnun á því á Google hversu oft PCB í byggingum ber á góma á íslenskum og norrænum vefsíðum. Sú könnun felur auðvitað ekki í sér neinn stóran sannleik, en gefur þó vísbendingu um hvort málið sé yfirleitt á dagskrá. Niðurstöðurnar voru þessar:

 • Leitarorðið „PCB í byggingum“ (væntanlega aðallega íslenskar vefsíður) gaf 7 svör (sem öll tengdust mér eða Norrænu ráðherranefndinni).
 • Leitarorðið „PCB i bygg“ (væntanlega aðallega norskar vefsíður) gaf um 1.600 svör.
 • Leitarorðið „PCB i bygninger“ (væntanlega aðallega danskar vefsíður) gaf um 6.620 svör.
 • Leitarorðið „PCB i byggnader“ (væntanlega aðallega sænskar vefsíður) gaf um 19.700 svör.

Af Dönum og Svíum
Ég gaf mér ekki tíma til að skoða allar þær vefsíður sem þarna var vísað í. En það sem fyrst vakti þó athygli mína voru harðorð skrif í Ingeniøren í Danmörku, þar sem umhverfisráðherrann Karen Ellemann er sökuð um að hunsa álit sérfræðinga með því að neita að setja lög um að PCB skuli fjarlægt úr byggingum. Umræddir sérfræðingar telja brýnt að gerð verði landsáætlun um það hvernig staðið skuli að hreinsuninni og vísa þar m.a. til fordæmis Svía. Þar voru reglugerðarákvæði um þessi mál skerpt á síðasta ári, með sérstakri áherslu á skyldu húseigenda til að greina PCB í byggingum og láta fjarlægja það innan tilskilins frests.

Niðurstaða
Niðurstaða mín er þessi: Það getur vel verið að PCB í byggingum sé ekkert vandamál á Íslandi. En efnið var samt notað hér á sínum tíma, og meðan ekki hefur verið sýnt fram á að það finnist ekki í skaðlegu magni, þá er ástæða til að óttast að svo sé. Varúðarreglan á að gilda í þessu sem öðru.

Lokaorð
Það skyldi þó aldrei vera að við höfum sofið á verðinum – og sofum enn.

(Meiri upplýsingar um þessi mál er m.a. að finna í rúmlega ársgömlu bloggi sem ég skrifaði eftir að hafa gluggað í danskt blað, og svo náttúrulega á þessum nokkurþúsund vefsíðum sem nefndar voru hér að framan, þ.á.m. í Ingeniøren og á heimasíðu sænsku umhverfisstofnunarinnar (Naturvårdsverket). Ef einhvern langar að fræðast enn meira get ég líka bent á norrænar skýrslur um málið, svo og aðrar norskar, danskar og sænskar heimildir).

Blý í leikföngum

Umhverfisstofnun Danmerkur (Miljøstyrelsen) kannaði nýlega efnainnihald í 27 ódýrum leikföngum sem ganga að einhverju leyti fyrir rafmagni. Óleyfileg efni fundust í 7 þeirra, þ.á.m. blý.

Umrædd leikföng voru keypt í dagvöruverslunum, leikfangaverslunum og íþróttavöruverslunum í Kaupmannahöfn og voru öll í ódýrari kantinum eins og fyrr segir, kostuðu sem sagt innan við 100 danskar krónur (2.100 ISK). Úrvalið var fjölbreytt, allt frá leikfangabílum upp í sápukúluvélar. Bannað er að nota blý í vörur af þessu tagi, en það fannst engu að síður í fjórða hverju leikfangi, nánar tiltekið í rafbúnaðinum. Blýið var með öðrum orðum ekki á yfirborði leikfanganna, og því ólíklegt að börnin komist í beina snertingu við það. En þegar notkun lýkur lendir blýið líklega í ruslinu, og þar ætti það helst ekki að vera. Í einu leikfangi fannst líka eldvarnarefnið deka-BDE, sem er bannað efni sem inniheldur bróm, (brómerað eldvarnarefni).

Þeir sem vilja ekki að börnin þeirra leiki sér með skaðleg efni ættu m.a. að:

 • kaupa sem minnst af rafknúnum leikföngum,
 • kaupa rafknúin leikföng sem endast lengi,
 • kaupa sem minnst af ódýrum leikföngum, því að þau eru líklegri til að innihalda skaðleg efni,
 • nota svansmerktar hleðslurafhlöður í rafknúin leikföng,
 • forðast að henda rafknúnum leikföngum í ruslið, en fara þess í stað með þau á flokkunarstöðvar,
 • banna börnunum sínum að leika sér með gömul raftæki fyrir fullorðna, svo sem gamla farsíma.

(Þessi pistill er byggður á frétt á heimasíðu dönsku upplýsingamiðstöðvarinnar um umhverfi og heilsu (IMS) 14. janúar sl. Einnig má benda á frétt á heimasíðu Neytendasamtakanna 18. mars 2010).

Í fljótinu enn um sinn

Þann 9. nóvember 2008 skrifaði ég bloggfærslu um þann vanda sem þjóðin stóð frammi fyrir þá,

 • um að við hefðum gengið fram með fljóti sem við vissum innst inni að væri bæði straumþungt og kalt, en sem við þyrftum samt að fara yfir fyrr en síðar,
 • um að einn daginn hefði okkur verið hrint út í fljótið,
 • um að mörg okkar óskuðu sér þess heitast að verða dregin aftur upp á sama bakkann – og allt yrði sem fyrr, 
 • um að engin leið lægi til baka, því að fljótsbakki fortíðarinnar væri fullkannaður og tækifæri hans uppurin, þannig að þar gætum við ekki þrifist lengur,
 • um að hinum megin við fljótið væri fljótsbakki framtíðarinnar með ný tækifæri og nýja óvissu, þangað lægi eina leiðin, þar biðu okkar ný tækifæri sem við vissum ekki hver væru og þar yrði gott að halda göngu sinni áfram, fram með fljóti, frá fljóti og að næsta fljóti.

Alla daga síðan 9. nóvember 2008 höfum við svamlað í fljótinu. Alla daga síðan 9. nóvember 2008 höfum við deilt um það hvort væri betra, að láta drösla okkur upp á fljótsbakka fortíðarinnar til þess eins að hrjóta út í fljótið á ný fyrr en varir, eða að brjótast áfram yfir á fljótsbakka framtíðarinnar og takast á við allar þær áskoranir sem bíða okkar þar.

Stjórnlagaþingið var einn af þeim flekum sem gat fleytt okkur áleiðis að fljótsbakka framtíðarinnar. Í gær var sá fleki tekinn af okkur. Þá gladdist sá hópur í fljótinu sem sér endurtekna fortíð í hillingum.

Atburðir gærdagsins tefja leið okkar yfir fljótið. En atburðir gærdagsins breyta því ekki að leiðin yfir fljótið er eina leiðin. Þess vegna þurfum við að smíða nýjan fleka til að komast áleiðis. Hann má vera eins og sá fyrri, því að ástæða þess að sá var tekinn af okkur var ekki sú að hann væri gallaður, heldur hin að við höfðum notað gölluð áhöld við smíðina.

Svaml í fljóti tekur á þolinmæðina. En við höldum samt ótrauð áfram, knúin áfram af tilhlökkun til nýrrar göngu, fram með fljóti, frá fljóti og að næsta fljóti.

Púströr dagsins í dag eru ekki málið

Hlýnun loftslags á jörðinni verður ekki óyfirstíganleg þó að við höldum áfram að nota alla þá bíla, kolaorkuver og verksmiðjur sem nú eru í gangi, svo fremi sem við bætum ekki nýjum við.

Í grein Stevens J. Davis og félaga í Science í september 2010 eru birtir útreikningar á losun koltvísýrings frá öllum þeim koltvísýringslosandi fyrirbærum sem nú eru í notkun. Miðað við þær forsendur sem þeir félagar ganga út frá, mun öll losun frá þessum tækjum á líftíma þeirra leiða til þess að meðalhitastig á jörðinni hækki um 1,3°C fram til ársins 2060, samanborið við það sem var fyrir iðnbyltingu. Hitastigshækkunin verður því vel innan við þær 2°C, sem gjarnan er miðað við sem hættumörk. Samkvæmt þessu er ekki nauðsynlegt að skipta út þeim tólum og tækjum sem nú eru í notkun. Hins vegar er brýnt að kolefnishlutlaus tæki leysi þau af hólmi, strax og þau eru úrelt. Okkur er með öðrum orðum óhætt að láta núverandi tæki renna skeið sitt á enda, ef við hættum strax í dag að taka ný slík í notkun!

(Þessi stutti pistill er byggður á:  Steven J. Davis, Ken Caldeira og H. Damon Matthews: Future CO2 Emissions and Climate Change from Existing Energy Infrastructure. Science 10 September 2010. Vol. 329 no. 5997 pp. 1330-1333, (sjá útdrátt) eftir ábendingu frá Hans Nilsson hjá Fourfact í Svíþjóð).

Hlaupaannáll 2010 og markmið fyrir 2011

Þá er enn eitt hlaupaárið um garð gengið og tímabært að líta um öxl og rifja upp hvernig til tókst. Um leið er upplagt að horfa fram á veginn og opinbera markmið næsta hlaupaárs.
 
Engin markmið náðust
Í upphafi síðasta árs setti ég mér fjögur markmið fyrir hlaupin á árinu 2010. Í fyrsta lagi ætlaði ég að hlaupa 10 km undir 40 mín, í öðru lagi að hlaupa hálft maraþon undir 1:30 klst, í þriðja lagi að hlaupa 5 km undir 19:30 mín og í fjórða lagi að hlaupa 7 fjallvegi. Skemmst er frá því að segja að ekkert þessara markmiða náðist. Besti tími ársins í 10 km var 41:53 mín, 1:32:38 klst. í hálfu maraþoni, 5 km hljóp ég aldrei í keppni og fjallvegirnir urðu bara 6.
 
Meiðsli gera vart við sig
Ég var í góðu formi í upphafi ársins, enda hafði ég þá um nokkurt skeið verið að vinna í því að auka hraðann á æfingum. En um miðjan janúar fór ég aðeins yfir strikið á sprettæfingu í köldu veðri og tognaði í læri. Eins og ágætur vinur minn benti mér á var þetta samt ekki vegna þess að ég hefði tekið of mikið á því á sprettinum, heldur vegna þess að ég hafði tekið of lítið af styrktar- og liðleikaæfingum. Lítið varð úr æfingum næstu 3-4 vikur, og eftir þetta lét lærið alltaf vita af sér þegar ég ætlaði að gera einhverjar rósir. Um vorið var ég búinn að gefa öll hraðamarkmið upp á bátinn. Önnur smávægileg meiðsli voru eitthvað að angra mig um sumarið og haustið, en ekkert sem orð var á gerandi. Helst var bakið til leiðinda, líklega í framhaldi af svolítilli erfiðisvinnu í garðinum í júní.
 
Æfingar ársins
Æfingar gengu almennt mjög vel, ef þessi smávægilegu meiðsli eru frátalin. Reyndar missti ég líka aðeins úr vegna annríkis við undirbúning kosninga til Stjórnlagaþings í nóvember, en upp úr því náði ég líka þeim mun betri æfingatörn. Síðustu 6 vikur ársins voru þannig einhverjar þær bestu í sögunni hvað reglusemi við æfingar varðar. Þá hljóp ég alltaf þrisvar í viku og jók vegalengdirnar smátt og smátt. Var kominn í 52 km vikur í árslok, sem mér þykir allgott. Í heild var þetta næstlengsta ár sögunnar, en alls urðu kílómetrarnir 1.975 talsins. Aðeins árið á undan var lengra, 2.170 km. Apríl, október og desember urðu lengstu mánuðir sinnar tegundar hingað til. Háfslækjarhringurinn var sem fyrr helsta æfingabrautin, í heilu lagi eða að hluta. Reyndar fór ég ekki nema 20 ferðir heilan hring, sem var töluvert minna en árið áður. Allt er þetta náttúrulega skráð í ýtrustu smáatriðum, enda leikur að tölum ein helsta ástæða þess að ég held mér við efnið í hlaupunum.
 
Keppnishlaup
Á árinu 2010 tók ég þátt í fleiri keppnishlaupum en nokkru sinni fyrr, eða samtals 8. Fyrra metið hvað þetta varðar voru 7 keppnishlaup árið 2004. Keppnishlaup eru ekkert aðalatriði í þessu áhugamáli mínu, enda er ég líklega tiltölulega sjaldséður gestur í slíkum hlaupum. En mér finnst nauðsynlegt að skreppa í þetta annað slagið til að prófa getuna og hitta fólk.
 

Keppnistímabilið byrjaði með vetrarhlaupi á Akureyri í lok mars, 10 km á 44:43 mín. Það var svo sem langt undir væntingum, en færið var heldur ekki sem best. Næst var það svo Flóahlaupið, eða pönnukökuhlaupið eins og það er oftar nefnt. Þar var tíminn enn lakari, eða 45:04 mín, enda sunnan hvassviðri í Gaulverjabænum þennan dag. En veitingarnar á eftir voru þær langbestu á árinu. Svo var það Vormaraþonið í lok apríl. Þar fór ég hálft maraþon á 1:34:51 klst, sem var persónulegt met þrátt fyrir kulda og talsverðan blástur, en auðvitað langt frá markmiðinu. Fjórða hlaupið var svo 7 km Icelandairhlaupið snemma í maí. Þar voru aðstæður loks eins og best verður á kosið, og ég gerði virkilega mitt besta. Tíminn var 29:00 mín, sem var í raun endanleg staðfesting á því að 40 mínútna markið í 10 km væri ekki í boði þetta árið. En þetta var skemmtilegt hlaup. Þá var röðin komin að Fjölnishlaupinu 20. maí. Þar fór ég 10 km á 42:03 mín, sem var besti tíminn minn eftir fertugt, bráðskemmtilegt hlaup en brautin svolítið erfið undir lokin.

Næst var það hálft maraþon á Akranesi í júní. Það gekk vonum framar þrátt fyrir frekar hryssinglegt veður og vind. Ég fann mig vel og bætti persónulega metið í 1:32:38 klst. Í Ármannshlaupinu í júlí tókst mér svo að klípa 10 sek. af fertugsmetinu mínu í 10 km með því að hlaupa á 41:53 mín. Fékk einhvern krampa í tognaða lærið í lokin og kom örþreyttur í mark með sögulega grettu á andlitinu, eins og sést á mynd Gunnlaugs Júlíussonar hér til hliðar. Var nokkuð lengi að jafna mig almennilega á þessu, og ætlaði t.d. ekkert í Reykjavíkurmaraþonið, nema þá í mesta lagi í hálft. Náði heldur ekki að æfa vel þessar vikur, alltaf með einhver ónot í baki og fótum. En eftir að hafa hlaupið 40 km hring í kringum Skorradalsvatn í byrjun ágúst sá ég að þetta væri náttúrulega ekkert stórmál. Lét því slag standa með maraþonið. Var alls ekki vel undirbúinn, en fyrstu 35 kílómetrana leit þó út fyrir að ég myndi bæta tímann minn frá því í fyrra, sem var þó betri en mig hafði dreymt um að ná í lífinu. En svo fékk ég krampa undir lokin, eins og ég gat svo sem búist við. Lauk hlaupinu á 3:18:47 klst, eða 100 sek lengri tíma en í fyrra. Var í 7. himni með þetta, og ekki spillti fyrir að Þorkell sonur minn skellti sér með, fylgdi mér lengst af og var ekki nema 52 sek á eftir mér í markið, þrátt fyrir að vera fyrst og fremst 400 m hlaupari. Ég held að þessi árangur hafi dugað mér í 43. sæti á afrekaskrá ársins, og líklega í 5. sæti meðal karla á sextugsaldri. Þegar litið er á Íslandssöguna alla rétt hangi ég inni á topp-200, var líklega í 192. sæti í árslok og hafði þá lækkað um 24 sæti á árinu. Maður þarf nefnilega að vera í stöðugri framför til að halda stöðu sinni á þessum hála lista. Alls hafa u.þ.b. 1.650 Íslendingar hlaupið maraþonhlaup það sem af er, og fer ört fjölgandi. Maraþon er ekki lengur sérverkefni fyrir sérstaka sérvitringa, heldur raunhæft markmið og viðfangsefni fyrir venjulegt fólk.

Með Reykjavíkurmaraþoninu lauk keppnistímabili ársins. Markmiðin náðust sem sagt ekki, en auðvitað er ég samt hæstánægður með þetta allt saman. Annað væri bara vanþakklæti! Það eru hreinlega forréttindi að geta leikið sér í svona áhugamáli þegar maður er kominn vel yfir fimmtugt. 

Fjallvegahlaup
Fjallvegahlaupin gengu eins og í sögu á árinu. Þetta var fjórða sumarið í því verkefni, en ætlun mín er að hlaupa yfir 50 fjallvegi á 10 árum, þ.e. fyrir sextugsafmælið. Vertíðin byrjaði með hlaupum yfir Steinadalsheiði og Bitruháls, en þessi hlaup voru hluti af bráðskemmtilegum Þríhyrningi í júní. Seinna í sama mánuði tók ég Víknaslóðir fyrir og hljóp þar fjóra fjallvegi á einni helgi í góðum félagsskap og blíðskaparveðri, nánar tiltekið Gagnheiði, Víknaheiði/Húsavíkurheiði, Nesháls og Hjálmárdalsheiði. Þetta er með öðrum orðum leiðin frá Borgarfirði eystri til Seyðisfjarðar. Þar með eru fjallvegahlaupin orðin 21 frá upphafi. Verkefnið er sem sagt alveg á áætlun og einum fjallvegi betur. Um þetta er hægt að lesa MIKLU meira á http://www.fjallvegahlaup.is/.

Fjallvegahlaupadagskrá ársins er í smíðum og verður eflaust birt á blogginu mínu og á http://www.fjallvegahlaup.is/ fljótlega. Að þessu sinni er sjónum helst beint að Norðausturlandi og fjallvegum norðan Ísafjarðardjúps. Trékyllisheiði hefur einnig verið nefnd í þessu sambandi, og sömuleiðis einhverjir handhægir fjallvegir í grennd við Borgarnes. En þetta skýrist sem sagt von bráðar.

Sérverkefni
Að vanda stóð ég fyrir eða tók þátt í nokkrum sérverkefnum á hlaupum á árinu. Fyrst má þar nefna sérstakan Háfslækjarhring á uppstigningardag með hlaupurum úr Borgarnesi og víðar að, með matarveislu og heitum potti á eftir. Svo var það Þrístrendingur sem minnst var á hér að framan, fjalla- og skemmtihlaup um þrjá firði, þrjár strendur og þrjá fjallvegi (þ.á.m. Krossárdal sem ekki var nefndur í fjallvegahlaupaupptalningunni hér að framan, því að þar var um endurtekningu að ræða). Frumkvæði að þessu átti Dofri Hermannsson, hlaupari í Grafarvogi. Hann og nokkrir hlaupafélagar hans voru um helmingur af harðsnúnu liði hlaupara sem skemmti sér saman þennan dag. Í byrjun júlí var svo röðin komin að Hamingjuhlaupinu á Hólmavík, sem er líklega um það bil að verða að hefð. Að þessu sinni hlupum við fjórir saman vestan úr Geiradal í góðum mótvindi, um Gautsdal, Þröskulda og Arnkötludal til Hólmavíkur. Og fleiri slógust í hópinn á leiðinni.

 


Markmiðin 2011

Og nú er komið nýtt ár með nýjum markmiðum. Þau eru nokkuð annars eðlis en í fyrra, alla vega að því leyti að nú er ætlunin að leggja minna upp úr hraða og meira upp úr vegalengdum. Sennilega er sú áhersla í einhverjum takti við aldur þess sem markmiðin setur, því að þó að ég sé í aldeilis prýðilegu standi, þá er ég orðinn örlítið hægari en ég var á tvítugsaldrinum. Markmiðin fyrir árið 2011 eru þessi:

 • A.m.k. 5 fjallvegir
 • A.m.k. 2 maraþonhlaup, (helst 3)
 • Þátttaka í 7-tinda hlaupinu og Svalvogahringnum
 • Bæting í maraþoni og hálfmaraþoni
 • Heildarvegalengd a.m.k. 2.400 km
 • Gleðin með í för í öllum hlaupum

Lokaorð og þakkir
Það er við hæfi að ljúka þessum pistli með þökkum til allra þeirra sem hafa gert mér það mögulegt og skemmtilegt að sinna áhugamálinu mínu. Þar er þolinmóð og þrautseig fjölskylda efst á blaði og síðan Ingimundur Grétarsson og allir aðrir sem hafa hlaupið með mér, hjálpað mér og hvatt. Oftast hleyp ég einn, en það er nú samt bara þannig, að “maðurinn einn er ei nema hálfur, með öðrum er hann meiri en hann sjálfur”.

(PS: Með þessum pistli áttu að birtast fleiri myndir, en bloggkerfið hindraði mig í að setja þær inn á sómasamlegan hátt).

Um skó, hænur og egg

Kavat Amanda - umhverfismerktur skór frá Svíþjóð

Í  gær bloggaði ég um þalöt í sandölum og fékk í framhaldi af því góðar spurningar um það hvort íslenskir neytendur gætu yfirleitt nokkuð nálgast umhverfismerkta skó eða aðra skó sem teldust þokkalega skaðlausir umhverfi og heilsu. Í þessari færslu ætla ég að leitast við að svara þessum spurningum.

Ég veit því miður ekki hvort umhverfismerktir skór séu fáanlegir í íslenskum verslunum, enda heldur enginn aðili hérlendis tæmandi skrá um slíkt – og sjálfur er ég fáséður gestur í skóbúðum, nema þá helst í vefverslunum með hlaupaskó. Hugsanlega er þó hægt að finna einhverjar vísbendingar um þetta á vefnum Náttúran.is. Hitt veit ég að um þessar mundir hafa u.þ.b. 10 evrópskir skóframleiðendur leyfi til að merkja skóna sína með Umhverfismerki Evrópusambandsins (Blóminu). Þar af er einn sænskur (Skofabriken Kavat), einn finnskur (Urho Viljanmaa), einn franskur, tveir spænskir og 4-5 ítalskir. Lista yfir vottaða skó og framleiðendur þeirra er hægt að kalla fram á vefsíðunni http://www.eco-label.com/default.htm með því að velja tengilinn „Product / service“ í vinstri jaðri síðunnar og síðan vöruflokkinn „Footwear“. Kannski væri ráð að punkta hjá sér niðurstöðurnar og leita síðan markvisst eða spyrja í skóbúðum hvort þau eigi ekki svoleiðis.

Þess má geta í þessu sambandi að Norræni svanurinn hefur ekki gefið út viðmiðunarreglur fyrir skó.

Hér sem oftar kemur upp spurningin um það hvort komi á undan, eggið eða hænan. Á maður að bíða rólegur eftir því að einhverjum skókaupmanni detti í hug að flytja inn umhverfismerkta skó, eða á maður að spyrja eftir þeim í tíma og ótíma til að sýna fram á að einhver eftirspurn sé til staðar? Hvers vegna ættu líka skókaupmenn að eltast við þetta ef enginn kaupandi hefur sýnt þessu áhuga? Sem fyrr segir veit ég ekki hvort umhverfismerktir skór fáist hérlendis, en hvort heldur sem er ráðlegg ég kaupendum að spyrja!

Og fyrst ég minntist á hlaupaskó, þá sakar ekki að geta þess að á þeim vettvangi hefur mikið verið gert til að reyna að draga úr neikvæðum áhrifum skónna á umhverfi og samfélag. Þannig gaf tímaritið Runners World út sérstakt „grænt tölublað“ í nóvember 2008, sem að miklu leyti var helgað fróðleik um þessi mál. En ég veit ekki til að umhverfismerktir hlaupaskór séu komnir á markað.

Þalöt í plastskóm

Þalöt eru enn í einhverjum mæli notuð sem mýkingarefni í neytendavörur úr plasti, svo sem skó. Þetta kom fram í nýlegri rannsókn á vegum Umhverfisstofnunar Danmerkur (Miljøstyrelsen), en þar var leitað að tilteknum þalötum í plastsandölum fyrir börn og fullorðna. Þalöt fundust í einhverjum mæli í tæplega helmingi þeirra 60 skópara sem rannsóknin náði til, ýmist í sólunum eða í böndunum.

Hvað eru þalöt?
Þalöt eru sem fyrr segir gjarnan notuð sem mýkingarefni í plast, aðallega PVC-plast,  (sem auðkennt er með tölustafnum „3“ í þar til gerðum þríhyrningi). Þalöt eru hópur efna, sem ýmist geta truflað hormónastarfsemi líkamans eða eru grunuð um að hafa slík áhrif. Þau þykja þess vegna ekki æskileg í varningi sem fólk er í náinni snertingu við. Innan Evrópusambandsins er bannað að nota slík efni í leikföng fyrir börn yngri en þriggja ára.

Engar nýjar fréttir
Það er svo sem ekkert nýtt að hættuleg efni finnist í plastskóm. Sumarið 2009 (ef ég man rétt) birtu t.d. sænsku náttúruverndarsamtökin Naturskyddsföreningen fremur sláandi niðurstöður um eiturefnainnihald í svonefndum Crocskóm og nokkrum öðrum tegundum skófatnaðar úr plasti.

Hvað er til ráða?
En hvernig geta neytendur þá forðast þessi efni? Það er í raun ekki sérlega auðvelt. Naturskyddsföreningen og Danska upplýsingamiðstöðin um umhverfi og heilsu (IMS) hafa þó gefið út leiðbeiningar hvað þetta varðar. Hér verða tínd til nokkur atriði þaðan:

 • Kaupið umhverfismerkta skó, t.d. með Umhverfismerki Evrópusambandsins (Blóminu), (þeir eru til, en kannski vandfundnir)
 • Kaupið skó úr lífrænt vottuðum hráefnum eða úr endurunnu efni, sé slíkt fáanlegt
 • Spyrjið hvort framleiðandinn sé með umhverfisvottun
 • Veljið skó og gúmmístígvél án PVC, t.d. úr náttúrulegu gúmmíi
 • Veljið leður sem er sútað með jurtum eða án þess að notað sé þrígilt króm
 • Spyrjið í búðinni hvort skórnir innihaldi efni sem eru á lista Evrópusambandsins yfir hættuleg efni eða á svonefndum „kandídatlista“
 • Látið gera við skóna ykkar í stað þess að kaupa nýja
 •  

Verum dugleg að spyrja!
Það er ekki alltaf auðvelt að vera neytandi, sérstaklega í landi þar sem neytendavitund er enn í bernsku. Þess vegna eigum við að vera enn duglegri en ella að spyrja. Kannski fáum við ekki alltaf rétt eða greinargóð svör í búðum, en ef við spyrjum ekki, frétta seljendurnir aldrei að okkur sé ekki sama!

Lokaorð um díoxín og fleira
Svona í lokin er rétt að minna á að skór eiga ekki að enda ævi sína í ruslatunnum fyrir óflokkaðan úrgang. Skilið þeim endilega í fatagáma. Suma þeirra er nefnilega hægt að endurnýta, og svo innihalda þeir oft efni sem eru skaðleg fyrir náttúruna til langs tíma litið og eiga því ekkert erindi á urðunarstaði. Og af því að díoxín er vinsælt umræðuefni þessa dagana, þá sakar ekki að ítreka að plastskó ætti aldrei að brenna við opin eld. PVC er nefnilega gott hráefni í díoxínframleiðslu.

Díoxínmálið á Ísafirði

Sorpbrennslustöðin Funi á Ísafirði hefur verið mikið í fréttum síðustu daga eftir að díóxín yfir leyfilegum mörkum greindist í mjólk frá Efri-Engidal. Á þessu máli eru margar hliðar. Hér verður minnst á nokkrar þeirra.

Hvað er díoxín?
Díoxín eru þrávirk efni, sem brotna seint niður í náttúrunni. Þau eru auk heldur afar eitruð fyrir menn og aðrar lífverur, jafnvel í mjög lágum styrk. Í versta falli duga t.d. um 0,001 mg til að drepa lítil nagdýr. Skaðleg áhrif á menn eru margvísleg, og nægir þar að nefna að efnin eru krabbameinsvaldandi.

Reyndar er þetta svolítil einföldun. Díoxín er nefnilega samheiti yfir heilan hóp efna, en þegar rætt er um díoxínmengun er jafnan átt við svonefnd fjölklóruð tvíbensódíoxín. Fyrir þá sem gaman hafa af efnafræði má geta þess, að þarna er um að ræða tvo bensenhringi sem tengdir eru saman með súrefnisfrumeindum og hafa eitthvað af klórfrumeindum á hornum sér, ef svo má að orði komast, (sjá mynd).

Díoxín eru ekki framleidd viljandi, heldur verða þau til við brennslu lífrænna efna við 200-800°C, þar sem klórsameindir eru til staðar (jafnvel bara úr matarsalti). Þetta gerist að einhverju marki í náttúrunni, svo sem skógarelda og eldgos, en fyrst og fremst myndast díoxín þó sem úrgangur í iðnaðarferlum og við ófullkomna sorpbrennslu. Brennsla á PVC-plasti er dæmi um auðvelda leið til að framleiða díoxín.

Tæknilega hliðin
Tæknilega séð er ekkert flókið að koma í veg fyrir að díoxín sleppi út frá sorpbrennslustöðvum. En það kostar peninga. Lausnin felst í eftirbrennslu þar sem reykurinn er hitaður upp í 850-1100°C. Við þetta hitastig sundrast díoxín í minna skaðleg efni. Þetta er einn af þeim þáttum sem gera það að verkum að sorpbrennsla er ekki fýsilegur kostur frá fjárhagslegu sjónarmiði nema fyrir allfjölmennar byggðir. Sumir hafa nefnt 15.000 manns sem lágmarkstölu í því sambandi, en líklega er talan mun hærri, sérstaklega þar sem vel er staðið að flokkun úrgangs.

Reglur um sorpbrennslu
Vegna aðildar sinnar að Evrópska efnahagssvæðinu (EES) ber Íslendingum að innleiða Evróputilskipanir á sviði umhverfismála. Lagaramminn fyrir sorpbrennslur er skilgreindur í svonefndri sorpbrennslutilskipun nr. 2000/76/EC frá 4. desember 2000. Tilskipunin var innleidd í íslenskt regluverk með reglugerð nr. 739/2003 um brennslu úrgangs. Samkvæmt viðauka við reglugerðina má styrkur díoxína í útblæstri sorpbrennslustöðva ekki fara yfir 0,1 ng/m3, (ng = nanógramm = einn milljónasti úr milligrammi). Í innleiðingarferlinu tókst Íslendingum hins vegar að fá undanþágu frá þessu ákvæði fyrir starfandi stöðvar, að mér skilst með þeim rökum að hér væri svo dreifbýlt og brennslustöðvarnar svo litlar að heildarmagn díoxína gæti aldrei orðið neitt meiriháttar vandamál. Ég tek það samt fram að ég hef ekki séð nein skjöl um þetta. En alla vega kemur fram í reglugerðinni að starfandi stöðvar á Íslandi þurfi ekki að uppfylla þetta skilyrði.

Sorpbrennslustöðvar þurfa starfsleyfi frá Umhverfisstofnun, þar sem m.a. er tilgreint hversu mikið af hinum og þessum efnum stöðvarnar megi losa út í umhverfið. Sorpbrennslustöðin Funi starfar skv. starfsleyfi frá 19. febrúar 2007. Í starfsleyfinu eru ekki tilgreind nein losunarmörk fyrir díoxín, enda féll stöðin undir fyrrnefnt undanþáguákvæði, sem að því er virðist er án tímamarka. Eina skyldan sem lögð er á stöðina í starfsleyfinu hvað varðar díoxín í útblæstri, er að þau skuli mæld „minnst einu sinni fyrir 1. janúar 2008 í samráði við Umhverfisstofnun“. Í starfsleyfinu stendur ekkert um hvað skuli gert við þessar mælingar, t.d. hvort birta þurfi niðurstöðuna eða bregðast við með einhverjum hætti ef tölurnar gefa tilefni til.

Framkvæmdin
Ég hef ekki séð nein frumgögn í málinu, en mér skilst að díoxín hafi verið mæld einu sinni á tilsettum tíma, þ.e.a.s. fyrir árslok 2007, í samræmi við fyrrnefnt ákvæði í starfsleyfi. Styrkurinn kvað þá hafa verið 2,1 ng/m3, eða rúmlega 20-falt leyfilegt magn. Eftir því sem næst verður komist var ekkert brugðist við þessu fyrr en í desember 2010 þegar Mjólkursamsalan ákvað að láta mæla díoxín í mjólk eftir að fyrirspurnir bárust frá íbúum. Málið komst svo í hámæli þegar í ljós kom að díoxín í mjólkinni var yfir viðmiðunarmörkum. Reyndar skilst mér að Umhverfisstofnun hafi sent Ísafjarðarbæ áminningu í maí 2010 vegna óhóflegrar mengunar frá Funa – og gefið frest til 1. september til úrbóta. Hins vegar er mér ekki alveg ljóst hvort díoxínmengun var með í þeim pakka.

Hvað fór úrskeiðis?
Frá því í ársbyrjun 2008 vissu menn að díoxínmengun frá Funa væri rúmlega 20 sinum meiri en leyfilegt er skv. reglum Evrópusambandsins (ESB). Samt virðist nær ekkert hafa verið aðhafst í málinu fyrr en í árslok 2010, og þá vegna utanaðkomandi áreitis. Mér finnst eðlilegt og algjörlega nauðsynlegt að velta fyrir sér og fara vel ofan í saumana á því hvernig hægt var að láta þessi þrjú ár líða aðgerðarlaus, því að í mínum hugar er þessi töf afar alvarleg.

Fljótt á litið virðist veilan liggja fyrst og fremst í regluverkinu. Líklega voru stærstu mistökin þau að setja ekki tímamörk á þær undanþágur frá Evróputilskipuninni sem íslensk stjórnvöld herjuðu út fyrir starfandi sorpbrennslur. Reyndar voru sett tímamörk, en ef ég skil málið rétt giltu þau ekki fyrir stöðvar sem brenndu minna en 5.000 tonn á ári. Funi var í þeim hópi. Með setningu reglugerðar nr. 739/2003 um brennslu úrgangs var því í raun búið að festa í sessi þá meginreglu að Funi og þaðan af minni sorpbrennslustöðvar á Íslandi gætu losað  hversu mikið díoxín sem verkast vildi út í andrúmsloftið. Þar með voru heldur engar forsendur til að setja losunarmörk í starfsleyfi og þar með skipti engu máli hvort losunin væri 20 sinnum eða 20.000 sinnum meiri en leyft er skv. reglum ESB.

Hvað átti Umhverfisstofnun þá að gera?
Ef allt það sem hér hefur verið sagt er rétt, bar Umhverfisstofnun engin lagaleg skylda til að gera eitt né neitt í þessu díoxínmáli. Sama gilti og um rekstraraðila stöðvarinnar, þ.e. Ísafjarðarbæ. Eina skyldan var að mæla díoxín í útblæstri einu sinni fyrir árslok 2007. Það var gert, en niðurstaðan skipti engu máli. Hitt er svo annað, að mönnum átti að vera fullljóst eftir að niðurstöður þessarar einu mælingar lágu fyrir, að við svo búið mætti ekki standa. Því álít ég að Umhverfisstofnun hefði átt að bregðast við með tilliti til þeirrar augljósu hættu sem mengun skapaði nánasta umhverfi stöðvarinnar og fólkinu sem þar bjó. Lagalega skyldan var líklega ekki fyrir hendi, en umhverfislegar og siðferðilegar skyldur voru til staðar engu að síður. Reyndar tel ég allt þetta mál endurspegla þann innbyggða veikleika opinberra stofnana að geta aðeins farið eftir regluverkinu, jafnvel þótt augljóst sé, eins og ég tel að verið hafi í þessu tilviki, að ófullkomleiki regluverksins sé ógn við umhverfi og heilsu. Hafi ekki aðrar leiðir verið færar, hefði þá einfaldlega átt að stoppa í gatið á regluverkinu með einfaldri breytingu á reglugerðinni.

Vegna þess hversu hættuleg díoxín eru, þá tel ég að alltaf ætti að grípa til aðgerða þegar í stað þegar þau mælast yfir viðmiðunarmörkum, jafnvel þótt „gleymst“ hafi að fella umrædd mörk inn í regluverkið. Í þessu tilviki hefði verið eðlilegt að krefjast þegar í stað annarrar mælingar til að staðfesta niðurstöðurnar og grípa í framhaldinu til róttækra aðgerða til úrbóta án nokkurs afsláttar af ýtrustu kröfum, þ.e.a.s. ef síðari mælingin hefði staðfest niðurstöður þeirrar fyrri um að styrkur efnanna væri yfir viðmiðunarmörkum. Þetta hefði Umhverfisstofnun að mínu mati átt að gera þegar niðurstöðurnar frá 2007 lágu fyrir.

Upplýsingaskyldan
Í umræðu um þetta Funamál hefur verið kvartað yfir því að almenningur og kjörnir fulltrúar skyldu ekki hafa verið upplýstir um stöðu mála, þ.e. um niðurstöðu mælingarinnar frá 2007. Auðvitað hefði átt að upplýsa fólk um þetta, en hins vegar bar engum skylda til að gera það samkvæmt regluverkinu. Og ekki bætti úr skák að þótt undarlegt megi virðast ber Funa ekki að skila grænu bókhaldi skv. reglugerð þar um nr. 851/2002. Ég finn með öðrum orðum ekki stafkrók um upplýsingaskyldu eins né neins í málinu. Hvernig hlutaðeigandi aðilar gátu sofið rólegir með þessa vitneskju í kollinum í þrjú ár er mér aftur á móti hulin ráðgáta. Reyndar veit ég ekki hverjir þessir „hlutaðeigandi aðilar“ voru, en einhver eða einhverjir starfsmenn Umhverfisstofnunar hljóta að hafa verið þar á meðal, svo og einhver eða einhverjir tengiliðir vestra.  Hverjir svo sem vissu um niðurstöður mælinganna, þá þykir mér líklegt að Umhverfisstofnun hafi verið eini aðilinn í þeim hópi sem hafði forsendur til að átta sig á alvöru málsins. Þar vinnur jú fagfólk á þessu sviði, en fyrir flesta aðra hljóta tölulegar niðurstöður úr svona mælingum að vera „eins og hver önnur hebreska“, sérstaklega þegar margar tölur yfir gjörólíka þætti í mismunandi einingum eru samankomnar á einu blaði. Hvað segir það t.d. leikmanni að styrkur díoxína sé 2,1 nanóeitthvað en ekki 0,1 nanóeitthvað? Svona tölur fara einfaldlega framhjá manni, nema ef manni er bent sérstaklega á þær, eða ef maður er sérfræðingur á viðkomandi sviði.

Vissu ekki allir um mengunina frá Funa?
Í umræðu um Funamálið hefur komið fram að mönnum hafi átt að vera ljóst allan tímann að mikil mengun kæmi frá Funa, enda hefði oft verið á það bent og yfir því kvartað. Jú, auðvitað vissu allir sem búnir voru sjón og lyktarskyni að frá stöðinni bærist einhver mengun. Slíkt fylgir allri starfsemi af þessu tagi. En hins vegar var útilokað að vita hvort díoxín væru með í þeim pakka. Reykur lítur alveg eins út hvort sem hann inniheldur nokkur nanógrömm af díoxínum eða ekki. Fólk verður einfaldlega að geta treyst því að stjórnvöld verji það fyrir slíkum efnum með því að setja mengandi starfsemi viðeigandi skorður.

Í þessu sambandi öllu verður að hafa í huga að díoxín hafa töluverða sérstöðu meðal algengustu mengunarefna vegna þess hversu alvarleg og langvinn áhrif þau geta haft á lífríkið og heilsu fólks. Í raun geta menn alls ekki leyft sér að umgangast þessi efni og vísbendingar um óhóflegan styrk þeirra með viðlíka léttúð og ef um önnur og minna eitruð efni væri að ræða.

Hverjir eru í hættu?
Í umræðu um Funamálið hafa heyrst ýmis rök um það hversu alvarlegt eða léttvægt málið sé. Sumir hafa sagt að málið skaði stöðu Íslands á alþjóðlegum vettvangi, því að Ísland barðist jú lengi fyrir því að settar yrðu alþjóðlegar takmarkanir við losun díoxíns og fleiri þrávirkra lífrænna efna, sem tilgreind eru í svonefndum Stokkhólmssamningi. Aðrir hafa bent á að íslensk matvæli séu holl og heilsusamleg og þegar búið sé að blanda díoxínmenguðu mjólkinni saman við alla hina mjólkina stafi engum nein hætta af, enda sé þetta svo örlítið brot af heildinni. Hvað sem um þessi rök má segja, þá skipta þau að mínu mati engu máli í þessari umræðu. Díoxínmengunin frá Funa breytir engu í sambandi við Stokkhólmssamninginn né hollustu íslenskra matvæla. Sömuleiðis þykja mér engar líkur á að hún hafi nokkur áhrif á heilsu Ísfirðinga. En eftir stendur sú grafalvarlega staðreynd, að í allra næsta nágrenni stöðvarinnar býr fólk sem framleiðir matvæli örskammt frá stöðinni og neytir þeirra sjálft. Þessu fólki þarf að huga að og taka af öll tvímæli um hvort mengunin hafi spillt landi þeirra eða heilsu. Allt það tal um strjálbýli og litlar brennslustöðvar, sem Íslendingar virðast hafa beitt fyrir sig til að fá undanþágu frá reglum ESB, verður einkar hjáróma í eyrum þeirra sem eiga heima í stróknum.

„PR-slys“?
Ráðamenn voru virkilega „gripnir í bólinu“ þegar niðurstöður úr efnagreiningum Mjólkursamsölunnar spurðust út í síðasta mánuði. Það var reyndar sérstaklega vandræðalegt að einkafyrirtæki „úti í bæ“ skyldi þurfa að vekja athygli á þessu á eigin kostnað. Við slíkar aðstæður skiptir máli að aðilar málsins bregðist skynsamlega við, þannig að þeir kalli ekki yfir sig eitthvert „PR-slys“ í ofanálag, en með „PR-slysi“ er hér átt við það þegar menn gera málstað sinn enn verri en ella með klaufalegri framkomu í fjölmiðlum.

Ég vil ekki orða það svo að fyrstu viðbrögð forsvarsmanna Ísafjarðarbæjar og Umhverfisstofnunar hafi verið „PR-slys“, en þó tel ég að hvorugir hafi hitt á „besta leikinn í skákinni“. Það eina rétta hefði að mínu mati verið að viðurkenna strax alvöru málsins og biðjast afsökunar á því að ekki skyldi hafi verið brugðist strax við niðurstöðunni veturinn 2007-2008, jafnvel þótt það hafi í sjálfu sér ekki verið lagaleg skylda. Inn í þessa umræðu átti ekkert að blanda heilnæmi íslenskra matvæla, umræðu um reyk og sjónmengun, skuldbindingum Íslands gagnvart Stokkhólmssamningnum, vangaveltum um hvort farið hafi verið mikið eða lítið fram úr mengunarmörkum, hvort mengunarmörkin séu of lág eða of há, né neinu öðru. Forstjóri Umhverfisstofnunar átti heldur ekki að segja að fólki stafaði engin hætta af. Það er íslenskur ósiður að fara alltaf í vörn þegar svona mál koma upp, afsaka sig, drepa málum á dreif, fullyrða að einhver annar beri ábyrgðina o.s.frv. Slík viðbrögð eru ávísun á vandræði og til þess fallin að fólk fái það á tilfinninguna að viðkomandi sé að reyna að fegra hlut sinn eða hylma yfir eitthvað. Ég held að besta leiðin sé alltaf að viðurkenna að eitthvað hafi farið úrskeiðis, biðjast afsökunar á því og lofa að málið verði skoðað þegar í stað. Þetta á jafnt við hvort sem viðkomandi telur sig bera ábyrgð á málinu eður ei. Auðmýkt og einlægni geta gert kraftaverk!

Hér að framan var talað um fyrstu viðbrögð, sem líklega voru ekki „besti leikurinn í skákinni“. Þar var ég m.a. með í huga viðtal í Kastljósi RÚV 4. jan. sl. Hins vegar finnst mér sérstök ástæða til að hrósa forstjóra Umhverfisstofnunar fyrir „næsta leik“, því að í kvöldfréttum RÚV 5. jan sl. viðurkenndi hún að Umhverfisstofnun og Umhverfisráðuneytið hefðu brugðist í þessu máli. Þá var hún líka búin að boða forsvarsmenn sorpbrennslustöðva til fundar og leggja á ráðin um úrbætur.

Lokaorð
Mér finnst allt þetta mál enn eitt dæmið um slakt verklag í íslensku stjórnkerfi. Þar vantar einfaldlega gæðastjórnun á flestum sviðum, þar með taldar verklagsreglur um „frábrigði“, þ.e. hvernig bregðast skuli við ef vandamál koma upp. Í þessu tilviki má reyndar rökræða hvort nokkurt vandamál hafi komið upp, fyrst að háu gildin sem komu út úr díoxínmælingunni 2007 voru í góðu lagi gagnvart starfsleyfi og reglugerð um brennslu úrgangs. Þarna erum við komin að öðru vandamáli, nefnilega því sem virðist oft vera grunnreglan í starfi embættismanna hjá opinberum stofnunum, að „ef það sé ekki í reglugerðinni, þá komi mér það ekkert við og ég megi líklega ekkert gera í því“. Yfirleitt virðast mér hugsjónir vera bannaðar á þeim vettvangi. Heilbrigð skynsemi er örugglega til staðar í ríkum mæli, en henni er helst ekki beitt nema það sé skylt skv. reglugerðinni.

Og við hvern er þá að sakast? Ég álít að aðgerðarleysið í Funamálinu og vinnubrögð stofnana séu engum einum að kenna, heldur liggi vandinn í óagaðri þjóðarsál. Þar þarf að taka til.