• Heimsóknir

  • 109.619 hits
 • febrúar 2011
  S M F V F F S
   12345
  6789101112
  13141516171819
  20212223242526
  2728  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

10 ráð til að útrýma svörtum svönum

Í óbeinu framhaldi af pistli mínum fyrr í dag um áhættu vegna útiræktunar erfðabreyttra lífvera finnst mér ekki úr vegi að benda lesendum á stutta grein sem Nassim Nicholas Taleb skrifaði í Financial Times í apríl 2009 undir yfirskriftinni “Ten principles for a Black Swan-proof world”. Þar setur hann fram 10 hollráð til að koma í veg fyrir að svartir svanir geri vart við sig. Með svörtum svönum er hér átt við atburði sem eiga ekki að geta gerst en gerast samt, eða með orðum atburði með afar lágar líkur en gríðarlegar afleiðingar. Hollráð Talebs geta nýst okkur, hvort sem við viljum fyrirbyggja annað efnahagshrun, tjón af völdum erfðabreyttra lífvera eða aðra svarta svani með uppruna í manngerðum útungunarvélum.

Hollráð Talebs eru í stuttu máli þessi – í lauslegri þýðingu og endursögn:

 1. Látið það sem er brothætt brotna áður en það verður of stórt.
 2. Látið samfélagið ekki taka tapið á sig, á sama tíma og þið einkavæðið gróðann.
 3. Látið ekki fólk sem ekið hefur skólabíl blindandi (og klesst hann) fá nýjan bíl.
 4. Látið ekki mann með árangurstengdan kaupauka reka kjarnorkuver eða annast áhættustýringu.
 5. Finnið jafnvægi milli flækjustigs og einfaldleika.
 6. Gefið ekki börnum dýnamitstúbu, jafnvel þótt notkunarleiðbeiningar fylgi.
 7. Ríkisstjórnir eiga aldrei að þurfa að “endurvekja traust”.
 8. Gefið ekki fíkli dóp til að lækna fráhvarfseinkenni.
 9. Markaðsvæðið ekki ellilífeyrinn.
 10. Búið til eggjaköku úr brotnu eggjunum.

Hollráð Talebs hefur áður borið á góma  í umræðunni hérlendis, en mér finnst allt í lagi að rifja þau upp annað slagið. Þess vegna hvet ég lesendur líka til þess að lesa greinina alla. Þeir sem ekki hafa aðgang að Financial Times á netinu geta skráð sig frítt til að lesa nýlegar greinar.

Ég hef áður skrifað svolítið um svarta svani, en þeir sem vilja kynna sér hugtakið nánar geta fundið fjöldann allan af heimildum á netinu. Svo má auðvitað benda á bók Talebs, “The Black Swan: The Impact of the Highly Improbable”, sem víða hefur verið vitnað til í fjármálaumræðunni.

EBL: Líkur og áhætta er ekki það sama

Í umræðu síðustu daga um útiræktun erfðabreyttra lífvera hefur mönnum orðið tíðrætt um áhættuna, enda eðlilegt að menn velti henni fyrir sér. Ég fæ hins vegar ekki betur séð (eða heyrt) en að þarna séu menn í raun og veru að tala um líkur en ekki áhættu. Þetta er ekki það sama, a.m.k. ekki þegar rætt er um áhættumat.

Þegar meta á áhættu sem fylgir einhverri tiltekinni aðgerð eða ástandi, þarf að skoða tvennt; annars vegar líkurnar á að tjón verði og hins vegar stærð (fjárhæð) tjónsins. Margfeldi þessara tveggja þátta segir til um áhættuna. Mjög ólíklegur atburður getur þannig falið í sér verulega áhættu ef afleiðingar atburðarins eru gríðarlegar. Setja má þetta fram í einfaldri jöfnu:

Á = L x T

þar sem Á stendur fyrir áhættu, L fyrir líkur og T fyrir tjón. (Á ensku lítur þetta svona út: R(risk) = p(probability) x L(loss)).

Í umræðu síðustu daga hafa menn rætt töluvert um líkurnar á tjóni, og flestir eru sammála um að þær séu mjög litlar, en samt ekki engar. Hins vegar hef ég ekki heyrt minnst orði á mögulega stærð (fjárhæð) tjóns. Það er marklaust að tala um áhættu nema hafa hugmynd um hversu stórt tjónið kynni að verða. Það er með öðrum orðum marklaust að tala bara um líkurnar.

Tryggingafélög byggja tilveru sína á áhættumati. Það þarf því ekki að koma á óvart að eftir því sem ég best veit hefur ekkert tryggingarfélag í heiminum treyst sér til að selja tryggingu gegn tjóni sem kann að verða vegna útiræktunar erfðabreyttra lífvera. Menn geta hugsanlega komist að einhverri niðurstöðu um núll komma eitthvað prósent líkur, en óvissan um stærð tjónsins kemur í veg fyrir að hægt sé að meta áhættuna með nægri vissu til að tryggingarfélög hafi áhuga á viðskiptunum.

Tölum um allan pakkann, ekki bara líkurnar!