• Heimsóknir

  • 118.148 hits
 • mars 2011
  S M F V F F S
   12345
  6789101112
  13141516171819
  20212223242526
  2728293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Nokkur orð um díoxín og vítissóda

Á skömmum tíma hafa tvö alvarleg mengunarmál verið á hvers manns vörum hérlendis, annars vegar díoxínmengun frá sorpbrennslu Funa á Ísafirði og hins vegar óhóflegur styrkur vítissóda í frárennsli aflþynnuverksmiðju Becromal á Krossanesi við Eyjafjörð. Á þessum málum eru margar hliðar, og í þessum pistli verður velt vöngum yfir nokkrum þeirra.

Ólík efni
Efnin vítissódi og díoxín eiga fátt sameiginlegt nema það að vera mjög eitruð. Hins vegar koma eituráhrifin fram með afar ólíkum hætti.

Vítissódi er mjög ætandi við snertingu. Lífvera sem kemst í snertingu við sterka vítissódalausn sleppur í besta falli með sár, en deyr mjög fljótt ef lausnin dreifist á stóran hluta lífverunnar eða kemst í mikilvæg líffæri, t.d. tálkn fiska. Ef lífveran sleppur lifandi og sárin gróa er líklegt að hún beri lítinn varanlegan skaða af. Áhrif díoxíns koma hins vegar fram á löngum tíma. Díoxín í hættulegu magni getur leynst í umhverfinu án nokkurra sýnilegra ummerkja, og örlítið magn getur valdið verulegum skaða, sem kemur oftast fram löngu eftir að díoxín berst í viðkomandi lífveru, jafnvel áratugum síðar. Vítissódi leysist mjög auðveldlega í vatni, og lausnin þynnist samstundis og hreinu vatni er bætt við hana. Díoxín er hins vegar fituleysanlegt, en leysist ekki upp í vatni. Berist díoxín í lífverur safnast það upp í feitustu vefjum þeirra, svo sem í lifur, og helst þar árum eða áratugum saman, enda brotnar efnið seint eða ekki niður og skolast ekki út. Díoxín er með öðrum orðum þrávirkt efni.

Af þessum einfalda samanburði er augljóst að díoxín er mun erfiðara í meðförum en vítissódi, þar sem nær útilokað er að losna við efnið þar sem það hefur á annað borð safnast fyrir. Brennsla við hátt hitastig er nær eina trygga leiðin, en slíkum aðferðum er augljóslega ekki hægt að beita þegar lifandi verur eiga í hlut. Vítissódi skolast hins vegar auðveldlega burt með vatni, auk þess sem skaðleg áhrif verða að engu ef sýru er bætt við lausnina. Í raun virkar saltsýra best af öllum sýrum í þessu tilliti, því að sé saltsýrulausn blandað við vítissódalausn í nákvæmlega réttum hlutföllum verður ekkert eftir nema vatn og matarsalt. Hins vegar er saltsýran engu mildari en vítissódinn ein og sér.

Mælingar og eftirlit með díoxínmengun er mun erfiðara, flóknara og dýrara heldur en mælingar og eftirlit með vítissódamengun. Þegar um díoxín er að ræða þarf flóknar mæliaðferðir og tækjabúnað, enda snýst málið þá jafnvel um að greina billjónustuhluta úr grammi. Hins vegar er hægt að fá sæmilega vísbendingu um vítissódamengun á augabragði með því að dýfa ódýrum strimli í viðkomandi lausn. Reyndar er þá ekki verið að mæla vítissódann sem slíkan, heldur sýrustigið eða pH-gildið. Sterk vítissódalausn er mjög basísk, eða hefur með öðrum orðum hátt pH-gildi. Á þeim skala er 14 fræðilegt hámark. Vatnslausn með pH=14 er með öðrum orðum það basískasta sem til er. Lausn með pH=7 er hlutlaus (t.d. hreint vatn), en lausn með lægra pH-gildi er súr. Talan 0 er lægsta gildið sem er fræðilega mögulegt.

Í fréttum af vítissódamenguninni frá verksmiðju Becromal hefur komið fram að hæsta pH-gildið sem mælst hefur í frárennslinu hafi verið um 12. Slík lausn er afar basísk og þar með mjög ætandi. pH-skalinn er lógaritmískur. Það þýðir t.d. að tiltekin vatnslausn með pH=12 er tífalt basískari en lausn með pH=11. Þetta mætti líka orða svo að ef 500 lítra lausn með pH=12 er þynnt með 5.000 lítrum af vatni ætti pH-gildið að vera komið niður í u.þ.b. 11. Í stuttu máli: pH-gildið lækkar um einn í hvert sinn sem vatnsmagnið er tífaldað, þ.e. þar til maður nálgast pH=7. Þessi einfaldi útreikningur gefur lauslega hugmynd um hversu mikinn sjó þarf til að lækka pH-gildi tiltekinnar basískrar lausnar í fráveitu niður í eitthvert æskilegt gildi.

Eins og ráða má af framangreindu getur pH-gildi í sjó fljótt verið komið niður undir einhver tiltekin eðlileg mörk, þó að mjög basískur vökvi renni úr tilteknu frárennsli, þ.e.a.s. ef straumar og aðrar aðstæður eru þannig að vökvinn blandist sjónum hratt og ef magn vökvans er ekki þeim mun meira. Því má geta sér þess til að lífverur sem staddar eru nálægt frárennsli þegar slíkum vökva er sleppt út verði fyrir mjög miklum skaða eða drepist á augabragði, en að nokkrum sekúndum síðar eða nokkrum metrum utar gæti pH-gildið hins vegar verið komið niður fyrir hættumörk. Í tilfelli Becromal má því telja frekar líklegt að mælingar sem gerðar voru í sjó um síðustu helgina hafi ekki sýnt nein veruleg frávik frá náttúrulegu pH-gildi sjávar (sem er nálægt 8). Að vísu er rétt að hafa í huga í þessu sambandi að margar sjávarlífverur eru afar viðkvæmar fyrir breytingum á sýrustigi. Frávik sem varir í skamman tíma getur því reynst mjög skaðlegt, þó að ekkert mælist á sama svæði skömmu síðar.

Það eina sem þarf að gera til að koma í veg fyrir vítissódamengun frá tiltekinni starfsemi þar sem sódi er notaður, er að hlutleysa fráveituvatnið með hæfilegu magni af sýru áður en því er sleppt út. Sem fyrr segir hentar saltsýra best til þessara nota. Þessi mengunarvarnaraðferð er í raun eins tæknilega auðveld og hægt er að hugsa sér, en auðvitað kallar hún á einhvers konar sjálfvirka skömmtun til að sýrumagnið sé ávallt hæfilegt miðað við magn og styrk sódalausnarinnar. Þó að þetta sé tæknilega einfalt er það því ekki alveg ókeypis. Tryggasta aðferðin er líklega að láta fráveituvatnið standa um stund í jöfnunartönkum þar sem sýru er bætt út í. Sírennsli er mun erfiðara að höndla hvað þetta varðar.

Þáttur stjórnvalda
Í grófum dráttum má segja að hlutverk stjórnvalda í mengunarmálum sé tvíþætt; annars vegar að ákveða leikreglurnar og hins vegar að sjá til þess að þeim sé fylgt. Leikreglurnar eru tilgreindar í lögum, reglugerðum sem byggja á lögunum og starfsleyfum sem gefin eru út á grundvelli laga og reglugerða. Alþingi setur lögin, í reynd oftast til að uppfylla kröfur sem Ísland hefur undirgengist með aðild sinni að Evrópska efnahagssvæðinu. Umhverfisráðuneytið gegnir lykilhlutverki í undirbúningi lagasetningar, og umhverfisráðherra gefur síðan út viðeigandi reglugerðir. Það kemur hins vegar í hlut Umhverfisstofnunar að gefa út starfsleyfi fyrir starfsemi sem getur haft mengun í för með sér, þ.e.a.s. þegar um stærri fyrirtæki er að ræða. Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga gefur hins vegar út sambærileg starfsemi vegna umfangsminni rekstrar. Í raun og veru ætti kannski frekar að tala um mengunarleyfi en starfsleyfi, því að starfsleyfið felur í sér leyfi til handa viðkomandi fyrirtæki til að sleppa mengandi efnum út í umhverfið, en þó aðeins upp að þeim mörkum sem tilgreind eru í starfsleyfinu og byggjast yfirleitt, eða ættu að byggjast, á evrópskri fyrirmynd. Sá sem gefur út starfsleyfið sér líka um eftirlitið. Gerð er krafa um ákveðnar mengunarmælingar í samræmi við eðli og umfang starfseminnar, niðurstöðum um þetta þarf að skila til eftirlitsaðilans og hann á að grípa til aðgerða ef kröfum starfsleyfis um mælingar er ekki fylgt eða ef niðurstöður mælingar lenda utan leyfilegra marka.

Þegar frammistaða stjórnvalda er skoðuð, annars vegar í díoxínmálinu og hins vegar í vítissódamálinu, kemur nokkuð ólík niðurstaða í ljós. Í díoxínmálinu má segja að regluverkið hafi brugðist öðru fremur. Þar höfðu Íslendingar af einhverjum ástæðum herjað út tímabundna undanþágu frá Evrópuregluverkinu, sem leiddi m.a. til þess að í starfsleyfi fyrir sorpbrennsluna Funa á Ísafirði (sem þetta mál snerist upphaflega um), voru engin losunarmörk fyrir díoxín. Þar stóð bara að mæla skyldi styrk díoxíns einu sinni fyrir tiltekinn tíma. Þetta var gert, en engum bar svo sem skylda til að gera neitt með niðurstöðuna hver sem hún yrði. Í vítissódamálinu virðist regluverkið hins vegar vera í lagi, en þar vantaði eftirlit og eftirfylgni. Að vísu skilst mér að einhverjar athugasemdir hafi verið gerðar við forsvarsmenn Becromal, en fljótt á litið var fyrirtækinu sýndur allt of mikill sveigjanleiki þegar haft er í huga hversu einfalt hlýtur að hafa verið að bæta úr. Málið var sem fyrr segir alls ekki neitt flókið tæknilega, þó að auðvitað kosti allt einhverja peninga.

Þáttur rekstraraðila (framleiðanda)
Þegar frammistaða rekstraraðila er skoðuð, annars vegar frammistaða Ísafjarðarbæjar í díoxínmálinu og hins vegar frammistaða Becromal í vítissódamálinu, kemur líka býsna ólík niðurstaða í ljós. Ísafjarðarbæ bar sem sagt ekki að gera eitt né neitt í framhaldi af þessari einu díoxínmælingu sem gerð var á sínum tíma. Auk heldur má telja ólíklegt að þar hafi verið til staðar þekking sem þurfti til að túlka tölur um styrk díoxíns í útblásturslofti, þar sem þær hafa í þokkabót líklega verið birtar í einhverri skýrslu innan um haug af öðrum tölum um óskyld mál, án þess að vakin væri athygli á þeim sérstaklega. Því má telja líklegt að forsvarsmenn sveitarfélagsins hafi ekki haft neinar forsendur til að átta sig á að grípa þyrfti til aðgerða. Reyndar er vitað að Ísafjarðarbær gerði lítið með aðfinnslur Umhverfisstofnunar vegna reksturs stöðvarinnar, en þær aðfinnslur snerust ekki um díoxín og eru því ekki til umræðu hér. Becromal fær lægri einkunn hvað þetta varðar. Þar hlýtur öll nauðsynleg þekking að hafa verið til staðar, enda verksmiðjan væntanlega rekin af fólki sem þekkir þessa tilteknu starfsemi frá öllum hliðum. Auk heldur var stöðugt fylgst með pH-gildi í frárennsli – og menn vissu vel að það var stundum langt fyrir ofan viðmiðunarmörk. Samt var ekkert gert í málinu, væntanlega vegna þess að ekki var rekið eftir því af eftirlitsaðilanum, sem er þó í besta falli fremur léleg afsökun í tilviki sem þessu. Í þokkabót var látið í það skína að unnið hefði verið að lausn málsins um langa hríð, enda erfitt í nýjum rekstri að hitta á réttu blönduna. En um leið og málið var komið í hámæli var svo að skilja að hægt væri að kippa því í lag á tveimur dögum sem áður var búið að kljást við í marga mánuði. Af þeim upplýsingum sem fyrir liggja verður þannig varla annað séð en að forsvarsmenn Becromal hafi dregið lappirnar í úrbótunum gegn betri vitund.

Þáttur kaupenda
Kaupendur vöru og þjónustu eru í reynd þeir sem hafa eða geta haft mest áhrif á það hvernig staðið er að framleiðslu vörunnar eða þjónustunnar. Í þeim tilvikum sem hér um ræðir er þáttur kaupendanna þó að öllum líkindum léttvægur.

Þáttur fjölmiðla
Fjölmiðlar geta haft mikil áhrif á það hvernig rekstraraðilar haga umhverfismálum í starfsemi sinni. En til þess þurfa fjölmiðlar að vera vakandi og hafa fjárhagslega og faglega burði til að fara dýpra í mál en svo að endurbirta fréttatilkynningar án nokkurrar gagnrýnnar skoðunar. Fjölmiðlarnir þurfa líka að vera nógu óháðir til að birting óþægilegra staðreynda sé ekki líkleg til að valda þeim verulegu tjóni eða ógna starfsöryggi eða öðru öryggi þeirra sem þar vinna. Þau mál sem hér um ræðir benda til að íslenskir fjölmiðlar séu að styrkjast. Fréttablaðið sýndi t.d. díoxínmálinu mikinn áhuga, aflaði mikilvægra gagna og átti stóran þátt í að koma af stað gagnrýnni umræðu. Fleiri fjölmiðlar komu þar einnig við sögu. Í vítissódamálinu átti Kastljós RÚV beinlínis upptökin að umræðunni. Þessir fjölmiðlar eiga hrós skilið fyrir aðkomu sína!

Þáttur almennings og frjálsra félagasamtaka
Fólkið í landinu ræður nokkurn veginn því sem það vill ráða, einfaldlega vegna þess að fólkið í landinu er jafnframt kjósendur og neytendur. Umræðan um díoxínmálið á Ísafirði og vítissódamálið í Eyjafirði hefði ekki komist á skrið nema vegna þess að fólkinu í landinu er ekki sama hvernig gengið er um umhverfi þess. Umræðan ber þess vitni að umhverfisvitund almennings fer vaxandi. Fólk lætur sig þessi mál miklu varða, og að sjálfsögðu ræður áhugi almennings miklu um það hvernig fjölmiðlar nálgast mál sem þessi. Aðkoma almennings mun enn styrkjast þegar ákvæði Árósasamningsins verða að fullu komin inn í íslenskt regluverk. Þar er m.a. kveðið á um rétt almennings til umhverfisupplýsinga og um rétt til að teljast formlegur aðili að umhverfismálum, sem felur m.a. í sér auknar kæruheimildir.

Niðurstöður og ályktanir
Að öllum líkindum eru díoxínmálið á Ísafirði og vítissódamálið í Eyjafirði ekkert öðruvísi en ýmis önnur mál sem komið hafa upp á liðnum árum. Það eru miklu frekar viðbrögðin sem eru öðruvísi. Fólki eru ekki lengur sama. Aukin umhverfisvitund almennings skapar þrýsting á stjórnvöld að efla eftirlit með starfsemi fyrirtækja. Og áhugi almennings á umhverfismálum gerir það að verkum að fjölmiðlar sinna þessum málaflokki mun betur en áður.

Almenningur og fjölmiðlar eru komin skrefi á undan stjórnvöldum, eins og sést í báðum þessum málum. Díoxínmengunin á Ísafirði komst í hámæli vegna þess að Mjólkursamsalan, sem átti engan hlut að máli, lét gera mælingar á díoxíni í mjólk til að bregðast við áhyggjum almennings. Og vítissódinn í Eyjafirði var á allra vörum eftir að Kastljós RÚV skoðaði málið að eigin frumkvæði, væntanlega eftir að hafa fengið ábendingar frá fólki sem vissi hvað var þarna á seyði. Í báðum tilvikum voru stjórnvöld heldur sein að grípa inn í, því að í báðum tilvikum mátti þeim vera ljóst að aðgerða væri þörf. En stjórnvöldum var viss vorkunn, því að annars vegar voru gloppur í regluverkinu og hins vegar hefur stofnanamenning á Íslandi einkennst af mikilli lagahyggju, þar sem ekki tíðkast að bregðast við neinu sem er ekki beinlínis í blóra við regluverkið, jafnvel þótt aðgerðarleysið gangi gegn tilgangi þess eða markmiðum.

Rekstraraðilarnir koma ekki vel út úr þessum málum, sérstaklega ekki Becromal. En rekstraraðilar eru í eðli sínu svolítið eins og börn, sem fara yfirleitt jafn langt og þau komast upp með. Ef aga og aðhald skortir getur margt farið úrskeiðis. Hitt er svo annað, að ólíkt börnum þurfa rekstraraðilar að huga að ímynd sinni. Það getur tekið langan tíma og kostað talsverða fjármuni að lagfæra laskaða ímynd. Góður orðstír er ekki eini orðstírinn sem lifir lengi.

Á sama hátt og óheppileg uppátæki óþekkra barna verða foreldrum oft hvatning til að skoða betur en áður hvað börnin hafast að á öðrum sviðum, hlýtur sú hugsun að læðast að manni að e.t.v. hafi Becromal sýnt af sér kæruleysi í umgengni sinni við fleira en vítissóda.  Hjá fyrirtækinu er t.d. geymt og meðhöndlað mikið magn (tugir tonna) af efnum á borð við saltsýru, fosfórsýru, ammoníumhýdróxíð og bórsýru, auk nokkurs magns af kvikasilfri. Væntanlega hefur verið gert ítarlegt áhættumat og viðbragðsáætlun vegna þessara efna, en atburðir síðustu vikna gefa þó tilefni til að fara vandlega yfir þessi mál.

Síðustu daga hefur verið töluvert um það rætt hvort rétt sé að tilkynna rekstraraðilum fyrirfram um heimsóknir eftirlitsaðila, eða hvort slíkar heimsóknir ættu að vera óundirbúnar. Að mínu mati er hvort tveggja bráðnauðsynlegt. Það gefur auga leið að eftirlitsaðilinn þarf að hitta lykilfólk á staðnum reglulega til að fara yfir stöðu mála, skiptast á upplýsingum, fara yfir það sem gert hefur verið frá síðustu heimsókn o.s.frv. Þess vegna eru undirbúnar heimsóknir nauðsynlegar. Óundirbúnar heimsóknir geta ekki komið í staðinn, en þær eru nauðsynleg viðbót, sem líklega hefur verið vanrækt. Hugsanlega stafar sú vanræksla, ef nota má það orð, m.a. af fjárskorti, því að auðvitað kostar gott eftirlit töluverða peninga. Eftirlitið er fjármagnað með eftirlitsgjöldum, og eðlilega vilja rekstraraðilar halda slíkum kostnaði í lágmarki. Há eftirlitsgjöld kalla á umræðu um svokallaðan „eftirlitsiðnað“, sem hljómar nánast sem blótsyrði í munni sumra rekstraraðila. Ef til vill hefur þessi „eftirlitsiðnaður“ haldið of þétt að sér höndum til að losna við neikvæða umræðu. En væri þá ekki möguleiki að innleiða nýjan gjaldstofn til að standa undir kostnaði við aukið óundirbúið eftirlit, í stað þess að hækka eftirlitsgjöldin? Þessi gjaldstofn gæti t.d. heitið „dagsektir“, sem beitt væri af einurð og festu í þeim tilvikum þar sem óundirbúna eftirlitið leiðir í ljós veruleg frávik af hálfu rekstraraðila.

Lokaorð
Ætli agi og aðhald séu ekki einmitt lykilorðin í þessum málum? Bæði þessi mál eru birtingarform þess agaleysis sem einkenndi íslenskt þjóðfélag á árunum fyrir hrun – og er fjarri því úr sögunni enn. Það er gott að fá þessi mál upp á yfirborðið núna, vegna þess að þau hjálpa okkur til að velja leiðina fram á veginn. Stjórnvöld sváfu vissulega á verðinum, en nú hafa þau brugðist vel við. Það endurspeglast m.a. í skjótum og markvissum viðbrögðum Umhverfisstofnunar eftir að umrædd mál komust í hámæli, og einnig í vinnu umhverfisráðuneytisins við endurbætur á regluverkinu, sem reyndar var komin á góðan skrið áður en þessi mál komu upp. Innleiðing Árósasamningsins er gott dæmi um þessa vinnu. Vissulega hefði þetta átt að vera búið fyrir löngu, en fortíðin er liðin og henni verður ekki breytt.

Við höfum fengið mörg tækifæri til að læra af reynslunni. Sá lærdómur hefur gengið hægt, en nú sjást merki um breytingar þar á. Því ber að fagna!

(Hægt er að fræðast meira um aflþynnuverksmiðju Becromal á Krossanesi í úrskurðum Skipulagsstofnunar um matsskyldu, dags. 18. mars 2008  og 13. maí 2009).

Þúsundmílnaskór

Einu sinni þegar ég var að velja mér hlaupaskó var sagt við mig að ég væri “eins og versta kona”. Ég hef enga hugmynd um merkingu þessa orðatiltækis, en hitt veit ég að ég á 10 pör af hlaupaskóm. Alla þessa skó hef ég eignast á síðustu 5 árum, þ.e.a.s. á þeim tíma sem liðinn er síðan ég komst á sæmilegan hlaupaaldur. Og á dögunum náði eitt þessara skópara þúsund mílna markinu, sem er langmesta þrautseigja sem nokkurt skópar í minni eigu hefur sýnt.

Almennt þykir ekki ráðlegt að hlaupa meira en 800-1.000 km á sömu hlaupaskónum, eða kannski 1.000-1.200 km ef um er að ræða mjög vandaða (og dýra) skó. Þegar þar er komið sögu kvað dempunin í skónum vera farin að gefa sig, og eins hættir sólanum til að slitna eftir því sem kílómetrunum fjölgar. En mér var kennt í æsku að nýtni væri dyggð, og því skirrtist ég við að leggja þessum ágætu skóm þótt kílómetrar þeirra væru taldir. En nú, þegar 1.609 km eru að baki hyggst ég láta staðar numið.

Umræddir skór er af gerðinni Asics Kayano 15, sem sagt vandaðir (og dýrir) skór. (Hér er rétt að skjóta því inn að ég er ekki á prósentum hjá framleiðandanum. Hins vegar finnst mér full ástæða til að framleiðandinn hugi að breytingum á því fyrirkomulagi í framhaldi af þessari ágætu auglýsingu). Kayano-skórnir eru einkum gerðir fyrir þunga hlaupara sem þurfa innanfótarstuðning. Ég er alls ekki þungur og þarf svo sem engan stuðning. Ég byrjaði bara að nota svona skó fyrir margt löngu, og hef ekki séð ástæðu til að breyta því, fyrr en þá kannski núna þegar framundan er naumhyggjutímabil í hlaupaskótísku.

Hlauparar eins og ég, sem hlaupa u.þ.b. 2.000 km á ári, slíta u.þ.b. tveimur skópörum við þá iðju árlega. Þess vegna er e.t.v. ekkert skrýtið að ég hafi komið mér upp 10 skópörum á 5 árum. Nokkur þessara para hafa svo sem lokið hlutverki sínu, en ég er samt að hugsa um að henda engu þeirra, ekki bara vegna þess hve illa mér er við úrgang, heldur líka vegna þess að þegar ég hætti að hlaupa eftir 45 ár ætla ég að opna hlaupaskósafn með öllum 100 pörunum sem hef þá náð að nurla saman. Og með hverju pari verður ofboðslega löng frásögn af svaðilförum viðkomandi skótaus. Það verður sem sagt nóg að gera hjá mér þegar hlaupaferlinum lýkur árið 2056. Bjart framundan!

Þúsund mílna skónum mun þó ekki fylgja ofboðslega löng frásögn á skósafninu, því að þeir hafa svo sem ekki tekið þátt í neinu sérstöku, t.d. hafa þeir hvorki hlaupið fjallvegi né keppnishlaup, ef frá er talið tertuhlaupið í Flóanum í fyrra. Hlutverk þeirra hefur fyrst og fremst falist í tilbreytingalitlum æfingahlaupum. En þessar þúsund mílur voru samt ágætar.

Þúsundmílnaskórnir

Kvartað yfir veðrinu

Íslendingar eru duglegir að finna sér umkvörtunarefni. Þetta hef ég m.a. séð á Fésbókinni síðustu daga, þar sem fólk keppist við að kvarta undan vetrinum. Og þá er ég ekki að tala um fólkið fyrir norðan, þar sem veturinn hefur líklega verið í öflugra lagi, svona miðað við síðustu ár, heldur fólkið hérna fyrir sunnan, sem virðist vera farið að örvænta um að vorið komi bara nokkurn tímann, nú séu komin jafndægur og enn þurfi að skafa snjó af bílrúðum, enda búin að vera vetrartíð í heila viku, ef ekki 10 daga.

Svona vetur er bara hugarástand. Auðvitað er notalegra að koma út á morgnana þegar allt er þurrt og hlýtt, heldur en þegar skafrenningurinn smeygir sér ofan í hálsmál og inn um allar glufur vanhugsaðs vetrarklæðnaðar. En samt er þetta bara hugarástand. Maður velur sér einfaldlega sjálfur hvað manni finnst um þetta. Ef maður hugsar og talar nógu mikið um hvað allt sé ömurlegt og kalt, þá líður manni illa. En ef maður rifjar upp að enn er bara mars og vikulangur vetur hefur aldrei talist til harðinda í annálum – og hugsar og talar um hvað snjórinn sé fallegur og frískandi, þá líður manni vel.

Maður getur sem sagt valið hverju maður lýgur að sjálfum sér, svo notuð séu orð Bodil Jönsson úr bókinni Tíu þankar um tímann. Þar var umræðuefnið reyndar ekki sunnlenskur smávetur, heldur tímaskorturinn sem margir kvarta yfir. Bodil bendir á að í stað þess að segja „Ég hef engan tíma“ við öll hugsanleg tækifæri, geti maður sjálfur valið að segja „Ég hef nógan tíma“. Og viti menn, þannig verður allt léttara  – og fólkið í kringum mann jafnvel glaðara. Þetta er það sem mig minnir að Bodil kalli að „skipta um lífslygi“ (s: „byta livslögn“).

Kæru landsmenn. Það er bjart framundan. Veðrið getur alveg verið gott, þó að snjór fjúki ofan í hálsmálið á manni illa klæddum. Það er mars ennþá sko!

Jóhanna Stefáns við fánastöngina í garðinum á Hólmavík í mars 1995

Fjallvegahlaup 2011

Nú líður senn að 5. sumrinu í stóru fjallvegahlaupaáætluninni, sem ég gaf sjálfum mér í fimmtugsafmælisgjöf fyrir nokkru síðan. Á þeim fjórum sumrum sem liðin eru hef lagt að baki 21 fjallveg, sem er einum yfir pari ef svo má segja. Á sumri komanda bætast a.m.k. 6 fjallvegir við. Þessi pistill fjallar um þau fjallvegahlaupaáform.

1. Skarðsheiðarvegurinn 21. júní
Fjallvegahlaup sumarsins byrja síðdegis þriðjudaginn 21. júní með hlaupi um Skarðsheiðarveginn sunnan úr Leirársveit og að Hreppslaug í Andakíl, þar sem endað verður á góðu baði. Þessi leið er u.þ.b. 20 km.

2. Þrístrendingur 25. júní
Þrístrendingur verður hlaupinn í annað sinn laugardaginn 25. júní, en í fyrra var þar um frumhlaup að ræða. Lagt verður af stað frá Kleifum í Gilsfirði kl. 11 þennan laugardag og hlaupið sem leið liggur um Steinadalsheiði norður í Kollafjörð á Ströndum, þaðan yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf – og loks suður Krossárdal að Kleifum. Þessi hringur er rétt rúmlega 40 km. Þetta verður ekkert keppnishlaup, heldur fyrst og fremst þokkalega langt skemmtiskokk í góðum félagsskap – með drykkjarstöð í hverjum læk. Reyndar er þetta hlaup ekki beinlínis hluti af fjallvegahlaupaverkefninu mínu, því að ég er svo sem búinn að hlaupa þessa þrjá fjallvegi áður, suma oftar en einu sinni. Samt má ég til með að tíunda þetta hér, til að öll helstu hlaupaáformin mín séu nú örugglega skráð á einum stað.

3. Síldarmannagötur 28. júní
Síðdegis þriðjudaginn 28. júní ætla ég að hlaupa Síldarmannagötur úr botni Hvalfjarðar yfir Botnsheiði að Vatnshorni í Skorradal, samtals tæpa 13 km. Þetta verður svolítil endurtekning á Skarðsheiðarþriðjudeginum, nema hvað vegalengdin er styttri og óvíst með sundlaugarferðina.

4. Hamingjuhlaup 2. júlí
Þetta hlaup tengist bæjarhátíðinni Hamingjudögum á Hólmavík. Lagt verður upp frá æskuheimili mínu í Gröf í Bitrufirði, hlaupið norður yfir Bitruháls (sömu leið og í Þrístrendingi viku fyrr, en í öfuga átt), fyrir botn Kollafjarðar, upp í Deildarskarð utan við Litla-Fjarðarhorn, yfir Hvalsárdal og eina smáhæð norðan við hann þar til komið er að bænum Heydalsá í Steingrímsfirði. Þaðan eru um 15 km til Hólmavíkur eftir veginum, en öll er leiðin líklega u.þ.b. 32 km. Þetta verður þriðja árið í röð sem ég stend fyrir svona formlegu hamingjuhlaupi á Hamingjudögum. Árið 2009 lá leiðin frá Drangsnesi til Hólmavíkur og 2010 var hlaupið sunnan úr Geiradal, norður yfir Þröskulda og Arnkötludal til Hólmavíkur. Í bæði skiptin lauk hlaupinu á hátíðarsvæðinu um 2-leytið á laugardegi, þ.e. um það leyti sem setningarathöfnin hófst. Nú er hins vegar stefnt að því að taka seinnipartinn í þetta og koma til Hólmavíkur um kvöldið í þann mund sem hið heimsfræga tertuhlaðborð Hamingjudaganna verður opnað. Þetta hlaup gefur gott tilefni til fjölskylduferðar á Strandir. Þeir fjölskyldumeðlimir sem ekki hlaupa, geta þá dvalið á Hólmavík og notið fjölbreyttrar dagskrár yfir daginn. Hamingjuhlaupið er, rétt eins og Þrístrendingur, hálfgert hliðarspor í fjallvegahlaupaverkefninu, því að Bitruháls er eini almennilegi fjallvegurinn á þessari leið – og hann hef ég jú hlaupið áður.

5. Trékyllisheiði 18. júlí
Mánudaginn 18. júlí liggur leiðin norður Trékyllisheiði. Lagt verður upp frá eyðibýlinu Bólstað neðst í Selárdal innst í Steingrímsfirði og ekki linnt látum fyrr en í Trékyllisvík. Áður fyrr var leiðinni oftar heitið í kaupstað í Kúvíkum, eða þá til Djúpuvíkur, en mér líst betur á Trékyllisvík sem áfangastað. Hugsa mér gott til glóðarinnar að gera úr þessu dágóða skemmtiferð, með sundlaugarheimsókn í Krossnes og gistingu í Norðurfirði að hlaupi loknu. Nákvæm vegalengd liggur ekki fyrir, en ég býst við að þetta séu svo sem 36 km.

6. Jökulsárhlaupið 6. ágúst
Laugardaginn 6. ágúst er röðin komin að Jökulsárhlaupinu frá Dettifossi niður í Ásbyrgi, tæplega 33 km leið. Þetta er reyndar keppnishlaup – og ekkert á mínum vegum sem slíkt. Ég ákvað bara einhvern tímann að þetta væri fjallvegur sem ætti að teljast sem hluti af fjallvegahlaupaverkefninu. Reyndar hef ég farið þetta einu sinni áður, nánar tiltekið sumarið 2004 þegar hlaupið var þreytt í fyrsta skipti. En það var fyrir daga fjallvegahlaupaverkefnisins og telst því ekki með. Nú bíð ég spenntur eftir að opnað verði fyrir skráningar í Jökulsárhlaupið, því að þar komast hugsanlega færri að en vilja. Hlaupið er orðið geysivinsælt, enda leiðin stórfengleg.

7. Tunguheiði 8. ágúst
Mér finnst upplagt að hlaupa meira á norðausturlandinu fyrst ég verð kominn þangað á annað borð. Ég treysti sem sagt á það að Jökulsárhlaupið verði horfið úr fótunum á mér þegar mánudagurinn 8. ágúst rennur upp bjartur og fagur. Hlaupið yfir Tunguheiði hefst við bæinn Syðri-Tungu rétt norðan við Húsavík og endar við bæinn Fjöll í Kelduhverfi. Þetta var fjölfarin leið á fyrri tíð, póstleið og hvaðeina, samtals líklega tæpir 15 km.

8. Helkunduheiði 9. ágúst
Helkunduheiði hentar vel í þennan norðausturpakka, og því ætla ég að skokka yfir hana daginn eftir Tunguheiðina. Helkunduheiði liggur milli Þistilfjarðar og Finnafjarðar og er að ég held bara um 12 km. löng.

Vefsíðan www.fjallvegahlaup.is geymir annars öll áform mín og aðrar upplýsingar um fjallvegahlaupaverkefnið, þ.m.t. ferðasögur úr þeim fjallvegahlaupum sem þegar eru að baki, auk lýsinga á óhlaupnum heiðum. Reyndar eru margar slíkar lýsingar enn óskrifaðar, en það vinnst smátt og smátt.

Eins og fram kemur á fjallvegahlaupasíðunni þigg ég með þökkum allar ábendingar um hlaupalega fjallvegi. Ég vil líka endilega fá góða fylgd á sem flestum leiðum, en tek þó fram að þeir sem slást í för með mér gera það á eigin ábyrgð.

Þetta verður gaman!!!

Þrístrendingshlauparar við bæjargilið í Gröf 19. júní 2010. Steinadalsheiði og Bitruháls að baki, sem sagt 30 km búnir og 10 eftir. (Myndin efst á síðunni var hins vegar tekin á Ólafsfirði á Jónsmessunni 2008 þegar skóþvengir voru reimaðir áður en lagt var á Rauðskörð til Héðinsfjarðar),

Ofvirk á nammibarnum

Sú var tíðin að börn fengu að kaupa sér nammi yfir búðarborð fyrir smápeninga, svona rétt neðan í litla græna plastpoka. Á þeim tíma sem liðinn er síðan börnin mín voru lítil hafa hins vegar öll viðmið í þessum efnum brostið. Nú halda foreldrar börnum sínum til beitar í risastórum nammibörum í verslunum, þar sem miklu er hægt að moka á stuttum tíma fyrir lítið verð. Líklega eru nammibarirnir m.a. notaðir sem verðlaun, t.d. ef börnin hafa vælt óvenjulítið í búðarferðinni eða kannski beðið alla vikuna eftir að nammidagurinn rynni upp bjartur og fagur. Mig grunar sem sagt að foreldrar telji sig gera börnunum sínum greiða með því að veita þeim aðgang að þessum litskrúðugu kræsingum. En um leið er hugsanlega verið að stuðla að ofvirkni eða annarri hegðunarröskun, sem fáum þykir hátíðlegt að fást við, nema kannski þeim sem selja ritalín til að bregðast við vandanum. Rannsóknir benda nefnilega til að tiltekin litarefni í matvælum geti stuðlað að ofvirkni í börnum, og þessi litarefni eru að öllum líkindum til staðar í ríkum mæli í margnefndum nammibörum.

Varúðarmerkingar í nágrannalöndunum
Hugsanleg tengsl litarefna við ofvirkni í börnum eru ekki nýjar fréttir. Ég veit ekki hvenær fyrstu vísbendingarnar um þessi tengsl komu fram, en elstu niðurstöður sem ég man eftir að hafa séð eru frá árinu 2000. Síðar hafa fleiri rannsóknir bent í sömu átt, þó að skaðsemi litarefnanna hvað þetta varðar hafi ekki beinlínis verið sönnuð. Líkurnar þykja þó það miklar að Evrópusambandið hefur talið sig knúið til aðgerða. Með Evrópureglugerð nr. 1333/2008 um aukefni í matvælum var þannig lögfest sú skylda að öll matvæli (önnur en áfengir drykkir) sem innihalda umrædd litarefni skuli merkt með áletruninni “Getur haft óæskileg áhrif á hegðun og einbeitingu barna” (e: “May have an adverse effect on activity and attention in children”). Merkingarskyldan tók gildi í löndum Evrópusambandsins 20. júlí 2010, en ekki er enn búið að fella þessi ákvæði inn í íslenskt regluverk.

Hvaða efni eru þetta?
Litarefnin sem um ræðir tilheyra öll nema eitt flokki svonefndra azo-litarefna. Efnin eru oftast auðkennd með E-númerum, en framleiðendur mega þó tiltaka heiti þeirra í staðinn. Þar með flækist málið fyrir neytendur sem vilja forðast þessi efni, því að heitin á bak við E-númerin eru margvísleg. Eftirfarandi upptalning gefur nokkurn veginn tæmandi yfirlit yfir umrædd efni og mismunandi heiti þeirra:

 • E102  Tatrasín (Cl Food Yellow 4, FD&C Yellow #5)
 • E104  Kínólíngult (Cl Food Yellow 13, FD&C Yellow #10) (ekki azo-litarefni)
 • E110  Sunset Yellow (Cl Food Yellow 3, FD&C Yellow #6, Orange, Orange Yellow, Para-orange, Yellow S)
 • E122  Asórúbín (Karmósín, Cl Food red 3)
 • E124  Panceau (Cl Food red 7, Kochenillerautt A, New coccine, Nykockin)
 • E129  Allúra rautt (Cl Food red 17)

Frostpinnar og fleira gott
Nammibarirnir eru ekki einu staðirnir þar sem þessi efni er að finna. Reyndar get ég ekkert fullyrt um málið hvað nammibarina varðar, því að enn hef ég hvergi séð nammibar með innihaldslýsingu, sem seljendum er þó skylt að setja upp!!! Það gefur manni reyndar tilefni til að óttast að þeir gleymi líka að hengja upp varúðarmerkin þegar reglugerðin tekur gildi hérlendis. Nei, efnin eru sem sagt víðar í notkun, svo sem í einhverjum drykkjum og í ýmsu sælgæti, jafnt innfluttu sem íslensku. Þessi litarefni eru meira að segja í flestum gerðum frostpinna frá a.m.k. öðrum af stærstu ísframleiðendunum hérlendis.

Þetta VAR bannað
Reyndar voru azo-litarefni bönnuð hérlendis þegar börnin mín fengu nammi í litlum grænum pokum. Bannið var hins vegar afnumið árið 1997 til samræmis við regluverk Evrópska efnahagssvæðisins. Neytendasamtök hérlendis og erlendis (m.a. í Danmörku) hafa um árabil ýmist barist fyrir því að þessi efni verði bönnuð eða hvatt framleiðendur til að hætta notkun þeirra, enda nóg til af öðrum efnum til sömu nota. Reglan um varúðarmerkingu er skref í þessa átt, en enn þykir mönnum skaðsemin ekki nægjanleg sönnuð til að hún réttlæti algjört bann. (Þarna er Varúðarreglunni að vísu snúið á haus).

Skilaboð til foreldra
Skilaboðin til foreldra eru einföld: Varist þessi efni. Börnin ykkar og þið sjálf eigið betra skilið!

(Þessi pistill er m.a. byggður á fréttum á heimasíðu Neytendasamtakanna 1. febrúar og 25. janúar 2011, frétt á heimasíðu dönsku neytendasamtakanna (Forbrugerrådet) 13.júlí 2010 og grein í 3. tbl. Neytendablaðsins 2007. Upplýsingar um nafngiftir litarefnanna eru fengnar úr lista á heimasíðu Matvælastofnunar).

Fólk er fljótt að gleyma

Alveg finnst mér magnað hversu fljótt gleymskan breiðist yfir gengna tíð! Ég var nefnilega rétt í þessu að lesa frétt á vef RÚV þess efnis að stjórnvöld í Þýskalandi ætli kannski að fresta ákvörðun um að framlengja starfsemi í þarlendum kjarnorkuverum í ljósi atburðanna í Japan undanfarna daga. Voru menn sem sagt búnir að gleyma að rekstri kjarnorkuvera fylgir svolítil áhætta á kjarnorkuslysum!?

Kjarnorkuver eru ekkert hættulegri núna en þau voru í gær eða í fyrra, hvað sem atburðum í Japan líður. Svona atburðir verða einfaldlega annað slagið, jafnvel oftar en einu sinni á hverri mannsævi. Ég held t.d. að fáir þjóðarleiðtogar séu svo ungir að þeir muni ekki eftir slysinu í Chernobyl 1986. Það er bara eins og menn muni ekki neitt! Vissulega var verið í Chernobyl gamalt og úrelt, en áhættan í kjarnorkunni leynist ekki bara í slíkum verum.

Ég er sem sagt alveg gáttaður á minnisleysinu! Og í tilefni fréttarinnar á vef RÚV finnst mér allt í lagi að rifja upp eftirfarandi klausu úr bloggpistli sem ég skrifaði 20. apríl 2009: „En ef ég á að rýna í framtíðina, þá tel ég augljóst að frekari þróun kjarnorku (alla vega kjarnaklofnunar) til orkuvinnslu muni stöðvast mjög skyndilega innan fárra ára, nefnilega við næsta stóra kjarnorkuslys. Slík slys verða nefnilega fyrr eða síðar. […] [T]íminn sem liðinn er frá slysinu í Chernobyl 1986 er orðinn nógu langur til að óttinn sé farinn að gufa upp úr minninu. Næsta slys mun endurræsa þennan ótta“.

Ég vona svo sannarlega að atbuðir þessara daga í Japan verði ekki flokkaðir sem „stórt kjarnorkuslys“. En slík slys munu verða. Og ég býst við að tíðni þeirra verði í réttu hlutfalli við minnisleysi stjórnmálamanna og almennings.

Auðvitað hækkar olían

Ég er hissa á að nokkur skuli vera hissa á hækkandi olíuverði. Eins og bent er á í ítarlegri umfjöllun The Economist 3. mars sl. ráða tveir þættir olíuverði á heimsmarkaði; annars vegar lögmálið um framboð og eftirspurn og hins vegar óttinn. Þessir áhrifaþættir eru báðir til staðar þessa dagana.

Þegar ég tala um „þessa dagana“ er ég aðallega að vísa til ástandsins í Líbýu, eða öllu heldur ástandsins í Norður-Afríku og í Mið-Austurlöndum, því að Líbýa ein og sér hefur engin afgerandi áhrif á olíumarkaðinn. „Þessir dagar“ líða fyrr en varir, en í þeirra stað koma nýir dagar sem lúta sömu lögmálum framboðs, eftirspurnar og ótta. Þegar rýnt er í framtíðina er næsta augljóst að olíuverð mun hækka jafnt og þétt, með tímabundnum sveiflum upp og niður. Þetta höfum við vitað lengi, en þykjumst samt enn vera hissa!

Ef við lítum á framboðið, þá fer því fjarri að olíulindir heimsins tæmist á næstunni. Það verður sem sagt nægt framboð á olíu enn um sinn. Hins vegar hækkar vinnslukostnaðurinn jafnt og þétt eftir því sem fara þarf lengra út á haf, bora dýpra o.s.frv. Samtímis minnkar nettóávinningurinn. Það þarf með öðrum orðum smám saman fleiri lítra af olíu til að sækja hvern lítra. Þegar þetta hlutfall nálgast 1:1 er olíuvinnslu sjálfhætt, þó að enn séu til ríkulegar olíulindir. Þetta gerist ekki á næstu árum, en sá dagur mun engu að síður koma. Framboðið ræðst auðvitað líka af stjórnmálaástandi og duttlungum olíuframleiðsluríkja, en það eru skammtímamál.

Eftirspurnin eykst jafnt og þétt, bæði vegna þess að hagvöxtur í ríkustu löndum heims byggir enn að miklu leyti á aukinni orkunotkun – og vegna hins að hagkerfi annarra landa vaxa nú sem óðast. Í því sambandi nægir að nefna Kína. Gott ef ég heyrði ekki einhvers staðar á dögunum að Kínverjar stefni að því að tvöfalda þjóðarframleiðslu sína fyrir árið 2020 (sel það samt ekki dýrara en ég keypti). Flest bendir til að þetta hafi í för með sér gríðarlega aukningu á eftirspurn eftir olíu, því að jafnvel þótt Kínverjar (svo ég taki þá aftur sem dæmi) leggi mikið upp úr því að verða fremstir meðal jafningja í nýtingu endurnýjanlegrar orku, þá nota þeir enn um 50% meiri olíu á framleiðslueiningu en t.d. Bandaríkjamenn, (sbr. greinina í The Economist).

Og óttinn er alltaf samur við sig. Þar er ég ekki bara að tala um ótta við ótryggt stjórnmálaástand í Norður-Afríku og í Mið-Austurlöndum, heldur líka óttann við skort. Þannig mun óttinn við minnkandi framboð á olíu hafa áhrif til hækkunar á olíuverði löngu áður en framboðið tekur í raun og veru að minnka. Óttinn við skort getur verið erfiðari viðfangs en skorturinn sjálfur, rétt eins og Khalil Gibran segir í Spámanninum; („Er ekki ótti við þorsta, þegar brunnur þinn er fullur, sá þorsti, sem ekkert fær svalað?“).

Við þurfum sem sagt ekkert að vera hissa. Og við þurfum heldur ekki að óttast neitt, eða við þyrftum öllu heldur ekki að óttast neitt ef við hefðum horfst í augu við það augljósa og byrjað fyrir löngu venja okkur af olíunni! Það þarf engan sérfræðing til að spá fyrir um þróun olíuverðs til lengri tíma litið! Og ef okkur Íslendingum dytti í hug að líta í eigin barm, þá myndum við sjá að við höfum stórkostlega möguleika til að losna undan olíufíkninni. Við erum nefnilega svo rík að orku! Gallinn er bara sá að við getum bara notað hverja kílówattstund einu sinni. Ef við seljum hér um bil alla orkuna okkar fyrir smápeninga til hráefnisframleiðslu fyrir erlend stórfyrirtæki – og sendum svo afganginn óunninn úr landi um sæstreng, þá er of snemmt að afboða óttann! 

(Auk greinarinnar í The Economist var innblástur í þennan pistil sóttur til Hans Nilsson hjá Fourfact í Svíþjóð).