• Heimsóknir

    • 119.039 hits
  • júní 2011
    S M F V F F S
     1234
    567891011
    12131415161718
    19202122232425
    2627282930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Þrístrendingur 2011

Fjallvega- og skemmtihlaupið Þrístrendingur var þreytt öðru sinni síðastliðinn laugardag, en hlaupið er á góðri leið með að verða að árlegum viðburði. Í þessum pistli verður gripið niður í ferðasöguna.

Að morgni dags
Þessi ánægjulegi dagur í lífi mínu hófst með því að ég sníkti mér far vestur í Gilsfjörð með hjólreiðamanninum Ebenezer Dosta. Á leiðinni komst ég m.a. að því að hann var nýkominn úr Vätternrundan, sem er 300 km hjólreiðasprettur kringum alveg sæmilega stórt vatn í Svíþjóð. Hann var líka ákveðinn í að hjóla Þrístrending á meðan aðrir hlypu. Mér fannst það flott hugmynd, þó að ég öfundaði hann ekki af því að framkvæma hana, (enda var ekki til neitt hjól í minni heimasveit á öldinni sem ég ólst upp á – og færni mín sem hjólreiðamanns í allgóðu samræmi við það).

Veðurlýsing
Veðrið þennan dag var eiginlega bara gott, en hefði alveg mátt vera hlýrra. Norðan kaldi var á, skýjað og þurrt. Þegar við komum að Kleifum upp úr kl. 10 sýndi hitamælirinn 5°C. Það var í góðu samræmi við veðurspána, en 10 stigum kaldara en í frumhlaupinu í fyrra. Einhver þokuslæðingur var á fjöllum og svo sem ekki á vísan að róa með það.

130% ávöxtun
Við vorum snemma í því og smeygðum okkur því inn í hlýjuna á Kleifum, þar til klukkan nálgaðist 11 og fleiri hlauparar tóku að tínast á svæðið. Svo þurftu allir að finna réttu fötin og rétta nestið. Klukkan 11:19 var allt tilbúið, og þá lögðu 20 manns af stað af hlaðinu. Af þeim fóru 16 alla leið, en 4 skemmra. Þrír til viðbótar bættust í hópinn á síðari stigum, þannig að heildarfjöldi þátttakenda var 23. Þetta er hvorki meira né minna en 130% fjölgun frá fyrra ári, en þá voru samtals 10 með, þar af 7 alla leiðina. Margur hefur sætt sig við minni ávöxtun.

Við rásmarkið. Gári útihundur sá um að enginn stigi á línuna.

Steinadalsheiðin
Spölurinn niður heimreiðina að Kleifum og að vegamótum Steinadalsheiðar á móts við bæinn Gilsfjarðarbrekku mældist 1,1 km eins og við var búist. Skokkið þangað tók rúmar 7 mínútur, og þá tók Steinadalsheiðin við. Norðanáttið var í fangið upp brekkurnar, en einhvern veginn var það bara í góðu lagi, enda frostlaust og enginn skafrenningur. Reyndar var vegurinn yfir heiðina ekki opnaður fyrr en 4 dögum fyrir hlaup. Samt voru engar fannir við veginn, bara skaflar í fjöllum, nóg til þess að útvega vatn í ár.

Ebenezer Dosti hjólaði alla leið og var lagður á Steinadalsheiðina áður en ljósmyndara tókst að ná andlitsmynd. Gilsfjarðarbrekka í baksýn.

Fljótlega teygðist úr hópnum, enda hentar mismunandi hraði mismunandi fólki misvel. Ég reyndi lengst af að vera meðal þeirra fremstu, enda hafði ég fengið það hlutverk í samningaviðræðum við Dofra frænda minn. Hann ætlaði hins vegar að sjá til þess að enginn yrði skilinn eftir örmagna í óbyggðum.

Á leiðinni upp heiðina gat ég sagt sömu sögur og í hlaupinu í fyrra af sjálfum mér að keyra upp bröttustu brekkuna á framdrifnum bílum sem áttu það til að hrökkva úr gír. Að mér og Dofra frátöldum var Mæja Grafarvogshlaupari nefnilega sú eina sem var líka með í fyrra. Slíkt er hentugt fyrir sögumenn, því að í eyrum hinna hljóma gamlar sögur sem nýjar, og enginn tekur heldur eftir því þótt brekkurnar verði brattari eftir því sem sögurnar eru sagðar oftar.

Leiðin upp að Heiðarvatni á háheiðinni tók nánast jafnlangan tíma og í fyrra, þ.e. eitthvað um 48 mínútur frá vegamótunum við Gilsfjarðarbrekku. Eftir það var allt á undanhaldinu, og þá tóku sumir vel til fótanna. Niðurleiðin var tíðindalaus að mestu, nema hvað nú voru árnar mun vatnsmeiri en í fyrra, eins og áður hefur verið ýjað að. Allir komust þó yfir að lokum, bæði yfir Steinadalsá og Norðdalsá. Og fyrr en varði voru fyrstu menn komnir að vegamótunum neðst á Fellseyrum, 18,2 km að baki og réttar 2 klst. liðnar frá því að lagt var upp frá Kleifum.

Stefán, Ívar, Ólafur og Rósa við Norðdalsá í Steinadal.

Áð við Stóra-Fjarðarhorn
Frá vegamótum Steinadalsvegar er rúmur km að Stóra-Fjarðarhorni. Þar fyrir neðan túngarðinn hafði Vegagerðin verið svo vinsamleg að leggja veghefli sem myndaði ágætt skjól fyrir norðanáttinni, sem læddist ákveðin inn Kollafjörðinn. Skjólið kom sér vel á meðan fólk hugaði að nesti og skófatnaði. Þarna var staldrað við í 20 mínútur eða svo. Þarna voru líka komnir akandi frændur mínir af Kleifakyni, með fólk og farangur. Fjórir hlauparar tóku sér far með þeim yfir í Bitru, en í staðinn bættist einn í hópinn, þannig að við vorum 20-4+1=17 sem lögðum á Bitruhálsinn upp Fjarðarhornssneiðinga.

Áð við Stóra-Fjarðarhorn í Kollafirði. Guðmundur Magni og Lilja huga að fótabúnaði og öðrum nauðsynjum.

Ættfræðiágrip 1
Einhver spurði mig á leiðinni hvernig skyldleika okkar Kleifakynshlauparanna væri háttað, en í hópnum voru 6 af því kyni. Ég held að mér hafi ekki tekist að útskýra þetta, en allt er þetta þó mjög einfalt. Við 6-menningarnir erum sem sagt öll afkomendur Stefáns Eyjólfssonar og Önnu Eggertsdóttur, sem bjuggu á Kleifum á fyrri hluta 20. aldar. Þau eignuðust 9 börn sem komust til fullorðinsára, og 8 þeirra voru nógu ættrækin til að skíra syni sína Stefán. (Níunda barninu varð ekki barna auðið). Þessir Stefánar eiga slatta af börnum, systkinabörnum og afabörnum. Ég er yngsti Stefáninn; Dofri, Gunnhildur, Kormákur og Þ0rbjörn Atli eiga tvo aðra Stefána fyrir föðurbræður, og Ingvar á einn af þessum 8 fyrir afa. Einfaldara getur þetta ekki verið.

Ættfræðiágrip 2
Guðmundur Magni, 100-kall nr. 13, er frændi minn í hina áttina, en amma hans var hálfsystir pabba. Við bárum saman bækur okkar á leiðinni upp Bitruhálsinn. Hann var nýkominn af slóðum Inkanna, en átti eftir að heimsækja Brunngil í Bitru, þar sem sameiginlegur forfaðir okkar bjó mestan hluta ævinnar. Það verður gert við tækifæri. (Og ef einhver skyldi ekki vita hvað átt er við með 100-kalli nr. 13, þá þýðir það að sjálfsögðu að viðkomandi einstaklingur sé félagi nr. 13 í Félagi 100km hlaupara. Í þeim merku samtökum eru nú 34 félagar, og 12 til viðbótar hafa unnið sér rétt til inntöku, sem fer fram við hátíðlega athöfn á félagsfundi).

Á hraðferð upp Fjarðarhornssneiðinga. Sævar Skaptason í broddi fylkingar og Guðmundur Magni næstur.

Bitruháls
Á sínum tíma, (ekki þó á mínum tíma, því að hann kom seinna), voru Fjarðarhornssneiðingar færir með hestakerru. Nú eru þeir örugglega ófærir slíkum farartækjum, m.a. vegna þess að tvö ræsi á leiðinni upp eru hrunin. Slíkt er reyndar auðleyst nú til dags, þökk sé þeirri þörfu tísku að planka við hvert tækifæri sem gefst. Ívar gekk strax í þetta vandamál og leysti það með prýði. Menn eins og hann sem hafa hlaupið 38 maraþon og Laugaveginn 10 sinnum láta sig ekki muna um svoleiðis reddingar.

Eru ekki allir að planka þessa dagana? Hér er dæmi um hagnýtt gildi planka. Hvernig hefði Kristinn annars átt að komast yfir þetta ræsi í Fjarðarhornssneiðingum?

Í fyrra var Bitruhálsinn alauður þegar Þrístrendingur fór fram, en nú lá svolítill skafl enn í laut nálægt upptökum Broddár. Enginn datt niður í gegnum hann, en þegar skaflinum sleppti tók við mikil aurbleyta, enda frost ekki farið úr jörðu í þessari hæð, (sem er samt bara tæpir 400 m.y.s).

Okkur sóttist vel ferðin niður Bitruháls, um smalalönd og leiksvæði okkar bræðranna að Hól og Læk, eins og svæðið hét í þá daga. Og allt í einu vorum við komin niður að túngarðinum í Gröf í Bitru, þar sem ég fæddist og ólst upp á ofanverðri síðustu öld. Bitruháls var að baki á nákvæmlega 1:25:44 klst, hvorki meira né minna en 3,5 mínútum betri tíma en í fyrra. Heildarvegalengdin frá Kleifum var komin í 28,8 km og varla þreytu að sjá á nokkrum manni, ekki einu sinni á Dosta hjólreiðamanni sem fékk þó aldeilis að kenna á því hversu lítt Bitruhálsinn hentar til hjólreiða. En kannski eru líka verstu leiðirnar bestar.

Skíði æsku minnar
Við settumst niður í skjóli við gamla hænsakofann ofan við túngarðinn í Gröf, en þennan kofa byggði pabbi heitinn um 1960 þegar minkurinn var búinn að leggja þáverandi hænsnarækt í rúst. Þarna eru engar hænur lengur, en inni í kofanum fann ég gömlu skíðin sem pabbi smíðaði fyrir okkur bræðurna, líklega í kringum 1964. Þetta voru laglegar fjalir sem hann beygði á mjög leyndardómsfullan hátt í þvottapottinum. Svo var skellt á þetta leðurólum og með þetta fórum við bræðurnir upp í hlíð í stígvélum í staðinn fyrir skíðaskó. Mig minnir reyndar að skíðin hafi ekki látið vel að stjórn. Það gerði ekkert til, því að við kunnum hvort som er ekkert svoleiðis. Reyndar eignuðumst við upp úr þessu ágætt kennsluhefti, þar sem maður gat lært að taka Þelamerkursveiflu og hvaðeina, þ.e.a.s. að svo miklu leyti sem það verður numið af bókum.

Eftir að ég hafði frætt samferðafólkið um skíðaiðkun æskunnar, ljósavélarafmagn, farskóla og fleiri aðalatriði úr uppvextinum, varð einhverjum á að spyrja hvaða ár ég væri (eiginlega) fæddur. Ég nefndi strax ártalið 1896, enda hljóma þessar sögur mínar sjálfsagt eitthvað í takti við það.

Glaðir fjallvegahlauparar við gamla hænsnakofann í Gröf eftir að hafa lagt Steinadalsheiði og Bitruháls að baki - og farið létt með það. Á myndinni eru 14/23 af hópnum.

Nýtt hús og pönnukökur
Áningin í Gröf teygði sig í 40 mínútur, enda var innifalin í henni svolítið innlit í nýja húsið hjá Rögnvaldi bónda bróður mínum og Arnheiði, sambýliskonu hans. Arnheiður var að vanda búin að baka pönnukökur, og nokkrir hlauparar gripu sér sýnishorn af þeim til að eiga orku í síðasta áfangann.

Krossárdalur tekinn með áhlaupi
Mér dvaldist aðeins lengur en öðrum þarna á æskuslóðunum, og þegar ég loksins hafði mig af stað áleiðis suður (þ.e.a.s. vestur) Krossárdal voru sumir hlaupararnir horfnir úr augsýn. Ég einsetti mér að vinna upp þetta forskot, og þurfti að hafa töluvert fyrir því. En það hafðist þó smátt og smátt, og framundir Krossárvatni var ég aftur kominn í fremstu röð, enda rann mér blóðið til skyldunnar að senda ekki ókunnuga fram á dal án viðhlítandi leiðsagnar. Flýtirinn í dalnum varð reyndar til þess að ég fór að finna fyrir krampa í hægri kálfanum. Þetta var óvænt, því að yfirleitt er ég laus við svoleiðis nema í mjög erfiðum hlaupum.

Veðurlýsing – síðari hluti
Mér fannst eiginlega bara hlýtt þarna á dalnum, enda hitinn þar sjálfsagt kominn upp undir 10°C. Svo var vindurinn heldur í bakið, öfugt við það sem var í fyrra þegar vestanáttin tók til sinna ráða.

Hinkrað á kantinum
Við Krossárvatn bætti ég aftur svolítið í hraðann, annars vegar til að reyna að hafa við Halldóri, sem hafði slitið sig frá fjöldanum þegar hér var komið sögu, og hins vegar til að vera til staðar til að vísa fólki leið niður í Hafursgötuna. Hafursgatan er eina góða leiðin niður að Kleifum – og svo sem auðfundin, en ef maður sér hana ekki strax gæti eitthvert óöryggi gripið um sig. Mér fannst að það hlyti að vera skylda mín sem forystusauðs í þessu hlaupi að vísa öllum veginn þarna niður.

Ég verð að viðurkenna að ég átti aldrei möguleika á að halda í við Halldór, en hann var samt greinilega ekki í neinum vandræðum með að hitta á Hafursgötuna – og var þar með horfinn úr augsýn. Ég beið hins vegar þarna á brúninni eftir öllum hinum, samtals í nákvæmlega 34 mínútur, í góðum félagsskap steindepils sem átti greinilega heima þarna í vörðunni eða þar í kring. Svo komu hlaupararnir hver af öðrum, flestir afar sáttir við hlaupið ef marka mátti brosin og ummælin.

Dofri, Lilja, Arndís og Guðmundur Magni við vörðuna ofan við Hafursgötu. Eins og sjá má á skuggum er sól nokkuð gengin til vesturs, enda tekið að líða að lokum Þrístrendings 2011.

Endasprettir
Svo þegar hér um bil allir voru komnir, tók ég á rás niður Hafursgötuna og yfir túnið á Kleifum. Velheppnuðum Þrístrendingi var lokið og GPS-úrið sýndi 41,6 km (að meðtöldu öllu stjákli og útúrdúrum á leiðinni). Því fannst mér við hæfi að taka tvo eða þrjá létta aukaspretti upp og niður túnið, svona rétt til að teygja vegalengd dagsins í 42,2 km, sem mér finnst alltaf svolítið skemmtileg tala. Svo var sest inn í eldhús á Kleifum, þar sem fyrir var hópur af sáttu fólki og ljúfur skammtur af léttum veitingum. Og þar með var þessu lokið hvað mig varðaði; bara heimferðin með Dosta eftir.

Þakkir og langtímaspá
Þessum línum fylgja bestu þakkir til allra þeirra sem áttu þátt í því að gera þennan dag jafn ánægjulegan og raun ber vitni. Það er næsta víst að Þrístrendingur verður endurtekinn að ári.

PS:  Þátttakendur
Eftirtaldir hlauparar og hjólreiðagarpar tóku þátt í Þrístrendingi 2011:

  • Alla leið (3 fjallvegir með tilheyrandi):
    Árný Inga Pálsdóttir
    Bryndís Óladóttir
    Dofri Hermannsson
    Ebenezer Dosti Böðvarsson (á hjóli)
    Guðmundur Magni Þorsteinsson
    Guðni Magnús Eiríksson
    Halldór S. Halldórsson
    Ingólfur Björn Sigurðsson
    Ívar Adolfsson
    Kristinn Schram
    Lilja Björk Ólafsdóttir
    María Hlín Sigurðardóttir
    Ólafur Jón Ásgeirsson
    Rósa Friðriksdóttir
    Stefán Gíslason
    Sævar Skaptason
  • Tveir fjallvegir (Steinadalsheiði og Krossárdalur):
    Gunnhildur Sveinsdóttir
    Ingvar Hjartarson
    Jóhanna Eiríksdóttir
    Þorbjörn Atli Sveinsson
  • Tveir fjallvegir (Bitruháls og Krossárdalur):
    Arndís Steinþórsdóttir
  • Einn fjallvegur (Krossárdalur):
    Hallgerður Guðmundsdóttir
    Kormákur Hlini Hermannson

Þrístrendingur á laugardag

Fjallvega- og skemmtihlaupið Þrístrendingur verður háð í annað sinn á laugardaginn (25. júní). Sjálfsagt vita næstum allir næstum allt um þetta næstum heimsfræga hlaup, en hér á eftir ætla ég engu að síður að gera svolitla grein fyrir leiðinni.

Lagt verður af stað frá Kleifum í Gilsfirði 25. júní kl. 11.00 og endað þar aftur síðdegis eftir góðan hring um þrjár sýslur, þrjá fjallvegi og þrjá firði. Leiðin er í stuttu máli sem hér segir:

1. áfangi:  Gilsfjarðarbotn
Tegund: Upphitun
Vegalengd:  1,1 km
Mesta hæð:  Skiptir ekki máli
Leiðarlýsing: Lagt af stað af hlaðinu á Kleifum í Gilsfirði (N65°26,251 – V21°39,815), hlaupið niður heimreiðina, beygt til hægri eftir Steinadalsheiðarvegi (nr. 690) og endað við vegamót við brúna yfir Brekkuá (N65°27,474 – V21°40,755).

2. áfangi:  Steinadalsheiði
Tegund: Fjallvegur
Vegalengd:  16,9 km
Mesta hæð:  330 m við Heiðarvatn
Leiðarlýsing: Lagt af stað við vegamót við brúna yfir Brekkuá við botn Gilsfjarðar (N65°27,474 – V21°40,755), hlaupið eftir Steinadalsheiðarvegi (nr. 690) til norðurs áleiðis upp Brekkudal, um fremur brattar brekkur upp úr dalnum að Brimilsgjá og áfram að Heiðarvatni á háheiðinni (6,4 km), veginum fylgt sem leið liggur niður Rjúpnadal og síðan Þórarinsdal, yfir Þórarinsdalsá og niður Steinadal að vegamótum innan við bæinn Steinadal (13,1 km). Þaðan er hlaupið áfram eftir sama vegi yfir brú á Steinadalsá niður á sléttlendið við botn Kollafjarðar framhjá bæjunum Miðhúsum og Felli, niður með Fellsá að vegamótunum við aðalveginn norður Strandir (veg nr. 68), þar sem hlaupinu lýkur (16,8 km) (N65°33,582 – V21°29,147).
(Sjá nánar á www.fjallvegahlaup.is).

3. áfangi:  Kollafjarðarbotn
Tegund: Ferjuleið
Vegalengd:  1,2 km
Mesta hæð:  Við sjávarmál
Leiðarlýsing: Lagt af stað frá vegamótum Steinadalsheiðarvegar (nr. 690) og Innstrandavegar (nr. 68) (N65°33,582 – V21°29,147), hlaupið til suðausturs þvert fyrir fjarðarbotninn, framhjá Undralandi og að heimreiðinni að Stóra-Fjarðarhorni (N65°33,33 – V21°27,93). Þar verður áð.

4. áfangi:  Bitruháls
Tegund: Fjallvegur
Vegalengd:  9,5 km
Mesta hæð:  380 m við Skörð
Leiðarlýsing: Lagt af stað af heimreiðinni að Stóra-Fjarðarhorni (N65°33,33 – V21°27,93), hlaupið (eða líklega gengið) spölkorn upp í hlíðina þar til komið er á sæmilega greinilega reiðgötu sem síðan er fylgt alla leið. Gatan liggur inn og upp Fjarðarhornssneiðinga uppundir svonefnd Skörð á háhálsinum (N65°31,08 – V21°28,82). Þar er beygt til vinstri og eftir það liggur leiðin í suðsuðaustur undan aflíðandi halla, yfir vatnslitla Broddá og áfram um Móhosaflóa, niður með Grafargili að austanverðu, síðan vesturyfir gilið og áfram eftir reiðgötunni niður brúnina og beint af augum niður að bænum Gröf (N65°28,88 – V21°26,28). Þar verður áð.
(Sjá nánar á www.fjallvegahlaup.is).

5. áfangi:  Gröf
Tegund: Ferjuleið
Vegalengd:  0,4 km
Mesta hæð:  Skiptir ekki máli
Leiðarlýsing: Lagt af stað frá bænum Gröf (N65°28,88 – V21°26,28) og hlaupið niður heimreiðina að túnhliði skammt frá brúnni yfir Krossá (N65°28,689 – V21°26,554).

6. áfangi:  Krossárdalur
Tegund: Fjallvegur
Vegalengd:  11,5 km
Mesta hæð:  240 m við Krossárvatn
Leiðarlýsing: Lagt af stað frá túnhliði við Gröf í Bitru skammt frá brúnni yfir Krossá (N65°28,689 – V21°26,554), hlaupið frá hliðinu og brúnni áleiðis inn dalinn eftir bílvegi, fram hjá bæjunum Árdal og Einfætingsgili og síðan lengra inn dalinn eftir jeppafærum slóða alla leið inn undir Skáneyjargil (4,9 km) (N65°27,936 – V21°32,757) þar sem eiginlegur slóði endar. Best er þó að beygja til hægri af slóðanum þar sem hann tekur stefnu niður að ánni. Eftir að komið er yfir gilið er haldið áfram í sömu stefnu hægra megin í dalnum á mörkum mýra og hlíðar. Þar er engin greinileg gata. Enn er svipaðri stefnu haldið að Krossárvatni (N65°27,632 – V21°35,536) og hlaupið meðfram vatninu að norðan (hægra megin). Þar er komið inn á greinilegar og varðaðar reiðgötur niður nokkrar fremur lágar kleifar. Þessum götum er fylgt fram á brúnina við Hafursklett, þar sem útsýni opnast út á Breiðafjörð. Síðasta spölinn er farið niður Hafursgötu, brattan og fremur lausan sneiðing með Hafursklett á hægri hönd, og síðan áfram yfir gróna móa og tún heim á bæjarhlaðið á Kleifum (N65°26,251 – V21°39,815). Þar endar hlaupið, nema menn vilji endilega bæta svolitlu niðurskokki við til að ná vegalengdinni í 42,2 km. Hringurinn er nefnilega bara um 40,6 km.
(Sjá nánar á www.fjallvegahlaup.is. Þar er leiðarlýsing miðuð við að hlaupin sé gagnstæð leið, þ.e. frá Kleifum að Gröf).

Myndin hér að neðan gefur hugmynd um hvar þetta er á landinu:

Og svo er hérna önnur mynd, þar sem þetta er allt sýnt miklu nánar:

Rétt er að minna á að þeir sem taka þátt í Þrístrendingi gera það á eigin ábyrgð!

Saga af Skarðsheiðarvegi

Í gær (eða fyrradag eftir því hvernig á það er litið) hljóp ég Skarðsheiðarveginn í góðum félagsskap, auk þess sem ég fór í heita pottinn við Hreppslaug og sat veislu í boði Jóhannesar og Guðrúnar í Efri-Hrepp. Dagsverkin gerast ekki öllu ánægjulegri. Og svo var þetta tuttugastiogannar fjallvegurinn í fjallvegahlaupaáætluninni minni. Nú á ég bara 38 fjallvegi eftir áður en ég verð sextugur.

Skarðsheiðarvegurinn liggur ekki yfir Skarðsheiðina, heldur vestan við hana. Skarðsheiðin endar í Heiðarhorni, sem er hæsta fjallið í þessari gömlu eldstöð. Þar fyrir vestan fóru menn gjarnan yfir fyrr á árum á leið sinni milli Melasveitar og Skorradals, í stað leiðarinnar undir Hafnarfjalli, þar sem bílvegurinn liggur núna.

Við hlupum af stað frá Þjóðvegi nr. 1 á Skorholtsmelum kl. 4 síðdegis. Ferðalagið mitt byrjaði reyndar með því að Björk skutlaði mér þarna suður eftir. Mér yrði víst lítið úr fjallvegahlaupum ef ég þyrfti alltaf að byrja á því að hlaupa að heiman. Reyndar eru Skorholtsmelar ekki svo ýkja langt frá Borgarnesi, þar sem ég bý, eða eitthvað um 16 km. En það er nú samt töluvert fljótlegra að fara þetta á bíl heldur en tveimur jafnfljótum.

Skorholtsmelar eru jökulruðningurinn milli bæjanna Skorholts og Fiskilækjar í Melasveit, sem flestir Íslendingar hafa ekið hjá miklu oftar en einu sinni á lífsleiðinni. Þar leynist á einum stað svolítill afleggjari til norðurs, þ.e. til hægri ef leiðin liggur frá Reykjavík vestur og norðurum. Þarna byrjaði hlaupið.

Veðrið lék við okkur í gær; sólin skein og hitamælirinn sýndi 15 gráður í Melasveitinni. En norðanátt síðustu daga var ekki hætt að blása, þannig að við fengum drjúgan vind í fangið alla leið.

Fyrsta hálftímann eða svo fylgdum við greiðfærum malarvegi um mela og birkikjarr upp að fjallsrótum, og síðan tóku brekkurnar við. Áður en lagt var í þær áðum við góða stund við Lambagil, stutt frá þeim stað þar sem skátarnir á Akranesi áttu skála á sínum tíma. Að Lambagili eru 5,3 km frá Hringveginum. Við héldum okkur síðan á gömlu reiðgötunni vestan við Leirá. Þetta er þægileg leið, sem liggur upp malarholt og yfir nokkur grunn gil. Þarna eru engar mjög brattar brekkur, og maður getur ekki annað en hugsað um veðurblíðuna sem þarna hlýtur að ríkja á sumrum þegar vindur er hægur. Fjallahringurinn spillir heldur ekki upplifuninni, því að vestast í Skarðsheiðinni eru tilkomumikil fjöll sem blasa við þegar horft er í austur frá reiðgötunni. Syðst er Skarðshyrnan (946 m), þá Heiðarhornið (1.053 m) (næstum áföst Skarðshyrnunni) og loks Skessuhornið (963 m). Þessi fjöll báru glögg alhvít merki um kalt vor.

Ingimundur Grétarsson þokkalega sáttur á Miðfitjum. Miðfitjahóll er rétt handan við hólinn á miðri mynd.

Miðfitjar eru dálítið flatlendi rétt sunnan við hæsta punktinn á Skarðsheiðarveginum. Eiginlega eru þetta áreyrar, en þarna á Leirá leið um áður en hún hallar sér niður í Leirárdal. Á Miðfitjum stikluðum við yfir ána, tiltölulega þurrum fótum. GPS-tækið sýndi að 11,3 km væru að baki. Framundan var örstuttur spotti upp á Miðfitjahól (471 m), og eftir það var leiðin öll á undanhaldinu. Á Miðfjitjahól bættist 8. hlauparinn í hópinn, því að þangað hafði Kristinn Sigmundsson nágranni minn skokkað til móts við okkur.

Áð á Sjónarhól. F.v. Kristinn Sigmundsson, Ingimundur Grétarsson, Guðmann Elísson, Sævar Skaptason, Bryndís Óladóttir, Jóhannes Guðjónsson og Elín Gísladóttir.

Næsti áfangastaður var Sjónarhóll, en þaðan sést víða um Borgarfjarðarhérað. Áfram var svo haldið með Kattarhrygg og Merarhrygg á hægri hönd, og niður Brúarsund og Sauðahrygg. Og fyrr en varði vorum við komin niður á þjóðveginn í Skorradalnum – og Hreppslaug skammt undan. Þar biðu okkar sundföt sem við notuðum í heita pottinum og borgaralegur klæðnaður sem hentaði betur fyrir frábæran kvöldverð í Efri-Hrepp. Hjónin þar áttu stærstan þátt í gera þennan dag eins skemmtilegan og raun bar vitni. Jóhannes hljóp með okkur alla leiðina og á meðan útbjó Guðrún þessa dýrindis súpu. Það veit enginn nema sá sem reynt hefur hvílík dásemd það er að fá góða súpu eftir gott fjallvegahlaup.

Bryndís, Sævar og Elín Í veislunni í Efri-Hrepp - úti á palli í kvöldsólinni. Gæti það verið öllu betra?

Ég spurði Jóhannes að því á leiðinni yfir heiðina, eða réttar sagt framhjá heiðinni, hversu oft hann hefði hlaupið þarna yfir, hvort við værum þar ekki örugglega að tala um þriggja stafa tölu. Hann var hógværðin uppmáluð og vildi ekki nefna neinar tölur. En víst er þó að leið hans hefur oft legið þarna yfir, milli heimavallarins í Efri-Hrepp og vinnunnar og knattspyrnuvallarins á Akranesi.

Ég get svo sannarlega mælt með Skarðsheiðarveginum sem hlaupa- og gönguleið. Best er samt að fara þessa leið ekki án Jóhannesar í Efri-Hrepp, því að enginn núlifandi Íslendingur þekkir leiðina betur. Hann fræddi okkur ekki aðeins um örnefni og landamerki, heldur fylgdi ýmiss annar fróðleikur með. Til dæmis lærðum við að binda amerískan herhnút á skóþvengi og fengum fréttir af því þegar knattspyrnulið ÍA lék til úrslita við landslið Búrma á alþjóðlegu fótboltamóti í Indónesíu á ofanverðri síðustu öld.

Svona fyrir þá sem hafa gaman af tölum (les: sjálfan mig) get ég upplýst að samkvæmt GPS-úrinu mínu er Skarðsheiðarvegurinn 19,67 km frá Þjóðvegi nr. 1 á Skorholtsmelum að þjóðveginum í Skorradal. Þennan spöl fórum við á 2:53:37 klst. eða á 6,8 km/klst. meðalhraða. Það er nú svo sem enginn ógnarhraði, en það er líka ágæt hækkun í þessu. Og svo gáfum við okkur tíma til að á og spjalla á nokkrum stöðum. Svona fjallvegahlaup mega ekki bara snúast um að þjóta. Maður þarf líka að njóta. Það gerðum við!

Takk Bryndís, Elín, Guðmann, Ingimundur, Jóhannes, Kristinn og Sævar fyrir samfylgdina. Og takk Björk og Guðrún fyrir að gera góðan dag enn betri.

Formlegri ferðasaga verður bráðum skrifuð inn á www.fjallvegahlaup.is.

Sjö skemmtitindar í Mosfellsbæ

Í dag (eða kannski í gær ef maður gefur sér að nú sé kominn sunnudagur) tók ég öðru sinni þátt í 7-tinda hlaupinu í Mosfellsbæ, sem að margra mati er erfiðasta almenningshlaup á Íslandi. Hafði gert mér vonir um að bæta tímann minn frá því í hitteðfyrra, en þá skrönglaðist ég í mark á 4:41:20 klst. Vonirnar rættust, því að tíminn í dag (eða í gær) var 4:33:32 klst, sem sagt um 8 mín skemmri en í hitteðfyrra, þó að leiðin hafi reyndar verið hálfum kílómetra lengri.

Sjötindahlaupið er eitthvað um 37,5 km. Það er sem sagt styttra en maraþonhlaup, en eftir að hafa hlaupið tvö sjötindahlaup og átta maraþonhlaup get ég fullyrt að maraþonhlaup er töluvert auðveldara. Reyndar eru þessir 7 tindar engir Hvannadalshnjúkar, heldur frekar sakleysisleg fell sem rísa 216-550 m yfir sjó. En það er samt engin lygi að þetta er bara þónokkuð erfitt!

Hlaupið í dag (eða í gær) hófst við Íþróttamiðstöðina við Varmá, en ekki við Lágafellsskóla eins og í hitteðfyrra. Þetta er góð breyting, því að nú slapp maður við að hjakkast nokkra kílómetra á malbikinu í lokin. Ég var þokkalega léttur og hélt mig frekar framarlega til að byrja með. Annars bar lítið til tíðinda framan af, nema hvað ég fann strax að það hefði verið skynsamlegt að taka fleiri en eina brekkuæfingu fyrri hluta ársins. Var sem sagt frekar linur upp Úlfarsfellið (tind nr. 1), en ágætlega sprækur niður eins og venjulega. Tók þá fram úr slatta af liði. Reykjaborg (tindur nr. 2) og Reykjafell (tindur nr. 3) voru líka sigruð með svipuðum hætti. Tók millitíma á öllum toppum, en það gerði ég ekki í hitteðfyrra og hafði því engan samanburð. Fannst mér ganga betur núna á sléttu köflunum en kannski ívið verr í brekkunum.

Minnstu munaði að ég villtist á leiðinni niður af Reykjafellinu, því að þar vísuðu appelsínugulir hælar beina leið í stefnu á Reykjalund, en þar átti maður að beygja þvert af leið til hægri niður í Skammadal. Var svo heppinn að vera í fylgd gleggri manna sem leiðréttu stefnuna hjá mér. Ekki voru allir svo heppnir. Ég held að það hafi einmitt verið þarna sem sigurvegarinn í hlaupinu villtist, en þrátt fyrir að hann hlypi 5 km aukalega tókst honum að koma fyrstur í mark!

Lengst af var ég ýmis rétt á eftir eða rétt á undan Daníel Smára Guðmundssyni, þeim mikla hlaupara og kaupmanni. Hann tók fram úr mér í brekkum bæði upp og niður, en ég vann það upp á sléttu köflunum. Á drykkjarstöðinni í Skammadal hitti ég Herdísi frænku mína rétt sem snöggvast. Það er alltaf virkilega uppörvandi að sjá kunnugleg andlit á svona ferðum!

Mér gekk sæmilega upp á Æsustaðafjall (tind nr. 4), en missti þó einhverja fram úr mér í brekkunum. Reyndar skiptir svoleiðis lagað í sjálfu sér engu máli, því að ég legg það ekki í vana minn að keppa við aðra en sjálfa mig. En ef margir streyma fram úr manni finnst manni maður náttúrulega frekar slappur. Það er bara mannlegt held ég.

Vetrarmýrarnar voru erfiðar; mikil sina og mjúkar þúfur. Þúfur eru reyndar kjörlendi mitt, en þarna var ég kominn með hálfgerða kjörlendiseitrun. Mig minnir að sinan hafi ekki flækst svona mikið fyrir mér í hitteðfyrra.

Eftir sinuna tók við langerfiðasti kaflinn, upp Dauðabrekkuna upp á Grímmannsfell og áfram upp á Stórhól (tind nr. 5). Þarna var ég farinn að þreytast verulega, og var líka orðinn tæpur með vatn. Hafði bara tekið með mér einn 200 ml. brúsa, því að mér leiðist að bera mikið, (enda ekki nema nokkur grömm sjálfur). Fyllti á brúsann á drykkjarstöðvum og drakk þar líka væna sopa. En líklega voru einir 11 km á milli drykkjarstöðvarinnar í Skammadal og næstu stöðvar við Hraðastaði. Það er of langur spölur fyrir 200 ml. Það vildi hins vegar svo vel til að björgunarsveitarmennirnir á Stórhól höfðu gripið með sér kippu af vatnsflöskum. Það bjargaði mér alveg.

Leiðin niður af Stórhóli sóttist þokkalega, þangað til komið var í brekkurnar niður af Flatafelli. Þar komst ég að því að niðurhlaupafærnin mín, sem ég hef löngum státað af, var uppurin. Þetta varð sem sagt hálfgerður niðurgangur, sem sagt önnur áminning um að maður eigi kannski að æfa svolítil brekkuhlaup áður en maður hleypur 37 km upp og niður fjöll, þótt lág séu. Þarna var Daníel Smári næstum horfinn og einhverjir fleiri sigu líka fram úr.

Ég hresstist þegar ég var kominn niður í byggðina í Mosfellsdalnum og hélt góðum hraða á veginum frá Hraðastöðum (lýsandi bæjarnafn ekki satt?) að Mosfelli. Á þessum kafla náði ég t.d. Daníel Smára aftur og einhverjum fleirum, enda nokkuð innstilltur á mitt ágæta 4:40-maraþontempó. (Fyrir þá sem ekki lifa fyrir tölfræði hlaupa, þá þýðir þetta að maður hlaupi hvern km á 4:40 mín, sem dugar til að klára maraþon á 3:17 klst). Mér leið enn sæmilega á leiðinni upp Mosfellið (tind nr. 6) og sýndist allt stefna í að ég gæti lokið hlaupinu á svipuðum tíma og í hitteðfyrra (4:41 klst). En þegar ég kom fram á brúnina fyrir ofan Hrísbrú, langaði mig hreint alls ekki til að fara þar niður. Gat rétt með naumindum staulast niður skriðuna og minntist þess að þetta var miklu léttara í hitteðfyrra. Þarna streymdu líka hlaupararnir fram úr mér hver af öðrum.

Líðanin skánaði mikið þegar ég var kominn inn á Hrísbrúartúnið, og vegarspottinn þaðan að rótum Helgafells var kærkomin hvíld. Hraðamælirinn sýndi eitthvað um 4:50 mín/km. Þarna var sem sagt eitthvað farið að hægjast á mér, en allt í góðu samt. Sá fram á að mér dygði gönguhraði til að bæta tímann minn frá 2009. En Helgafellið (tindur nr. 7) var eftir. Staulaðist upp það eins og gamall maður og gladdist yfir hverjum 100 m sem lagðir voru að baki. Var ákveðinn í að taka það létt niður að Helgafellsbænum. Það tókst reyndar ekki, því að vöðvarnir framan á lærunum voru alveg orðnir grillaðir eftir niðurhlaupin. Hins vegar var alveg dásamlegt að komast á veginn í Helgafellshverfinu – og síðasti kílómetrinn var BARA skemmtilegur. Stóð mig reyndar að því að vera farinn að tala við sjálfan mig, en ætli það sé nokkuð óeðlilegra en hvað annað við þessar aðstæður.

Það var unun að hlaupa inn á völlinn við Varmá, og síst taldi ég það eftir mér að hlaupa einn hring á mjúku tartanbrautinni á vellinum, áður en ég skeiðaði léttfættur (að mér fannst) í markið á 8 mín. betri tíma en í hitteðfyrra, þrátt fyrir að vegalengdin væri hálfum kílómetra lengri (út af króknum inn á völlinn og þessum mjúka lokahring). Gat ekki annað en verið vel sáttur við þetta. Var að vísu ákaflega uppgefinn fyrst á eftir, en hleðsludrykkur, Snickers og heiti potturinn gerðu sitt gagn. Ég fann ekki fyrir krampa né neinum öðrum óþægindum sem orð er á gerandi, nema þreytu auðvitað. Það væri líka eitthvað bogið við það ef maður væri ekki þreyttur eftir svona hlaup.

Í svona pistlum þarf alltaf að gera grein fyrir nesti og öðrum búnaði. Ég var búinn að skrifa eitthvað um vatnið. En maðurinn lifir ekki á vatni einu saman. Þess vegna gleypi ég alltaf nokkra skammta af þar til gerð orkugeli í svona hlaupum, helst svo sem eitt gel á 7 km fresti, og drekk tvo gúlsopa af vatni með. Annað nesti vil ég ekki. Og mér er meinilla við orkudrykki, sérstaklega Powerade-ur, enda inniheldur sá drykkur gervisætuefni sem fara ekki vel í mig, hvorki huglægt né líkamlega.

Fatnaðurinn í hlaupinu var hefðbundinn, enda nota ég að grunni til alltaf sama búninginn í keppnishlaupum. Ef hitastigið er hærra en 6°C og ekki mikill vindur, þá eru stuttbuxur og hlírabolur málið. Stundum er ég að vísu í stuttermabol undir hlírabolnum. Hafði það þannig í þetta sinn. Heyrði utan að mér að fólki þótti þetta glænibbulegur klæðnaður, en hitastigið í byggð var jú 13°C, þannig að það hvarflaði ekki að mér að fara í langermabol og síðar buxur. Reyndar var mér ansi kalt á handleggjum og höndum uppi á Grímmannsfelli, enda er maður þar kominn í rúmlega 500 m. hæð. Auk þess blés allhvass austanvindur á okkur, og auðvitað mest þar sem hæst var. En veðrið var þurrt, og ef ekkert fer úrskeiðis hleypur maður jú sér til hita. Ég held sem sagt að þetta hafi verið hárréttur klæðnaður. Hitt er svo annað, að í svona hlaupi þar sem farið er um holt og skriður, er talsverð hætta á að maður hnjóti og hrufli sig. Þess vegna er sjálfsagt gott að hlífa hnjám og höndum. Ég sleppti því alveg, enda þykist ég vera frekar fótviss í ójöfnum (7,9,13).

Skórnir eru lykilatriði í svona hlaupum. Ég var í nýjum utanvegaskóm af gerðinni Asics Trail Attack 7, sem Birgitta dóttir mín gaf mér í 54-ára afmælisgjöf á liðnum vetri. Fyrir daginn í dag var ég bara búinn að hlaupa 17 km í þeim, sem er næstum því of lítið. En skórnir stóðu sig frábærlega. Reyndar þrengdu þeir eitthvað að vinstri hásininni framan af, en það lagaðist eftir að ég losaði örlítið um reimarnar.

Þetta gekk sem sagt eins og í góðri sögu, og í öllum góðum sögum eru einhverjir erfiðleikar. Sjálfsagt verð ég eitthvað stirður í fótunum næstu daga, en það gerir ekkert til. Vinnan bíður, og þar eru fæturnir ekki notaðir.

Takk Mosfellingar! Þetta var frábært hlaup! Enn má laga merkingar, en það er viðfangsefni en ekki vandamál.

Stefnt á 7 tinda á morgun

Á morgun ætla ég að taka þátt í 7-tinda hlaupinu í Mosfellsbæ. Þetta hlaup hefur alla burði til að vera með skemmtilegustu hlaupum ársins, og líka með þeim erfiðustu. Leiðin liggur sem sagt um 7 tinda í kringum Mosfellsbæ, nánar tiltekið Úlfarsfell (295 m), Reykjaborg (280 m), Reykjafell (269 m), Æsustaðafjall (220 m), Grímmannsfell (550 m), Mosfell (270 m) og Helgafell (216 m). Þetta er nú svo sem ekki háir tindar, en þeir síðustu geta verið dálítið strembnir, af því að þá verður vegalengdin farin að segja til sín. Samtals er leiðin rúmir 37 km.

Ég tók þátt í þessu hlaupi þegar það var haldið í fyrsta sinn í hitteðfyrra. Þá var lokatíminn minn 4:41:20 klst. Gaman væri nú að bæta þennan tíma á morgun. Eitthvað hlýtur manni jú að fara fram með árunum! Annars er aðalmálið að njóta stundarinnar, ég tala nú ekki um ef Sumardagurinn fyrsti verður á morgun eins og mér sýnist margt benda til.

Hlaupið hefst kl. 10 í fyrramálið, sem þýðir að ég vonast til að vera kominn í mark (við Íþróttamiðstöðina við Varmá) eigi síðar en kl. 14:41:20. Þeir sem vilja fagna góðri bætingu með mér þurfa að mæta fyrr, en þeir sem vilja hughreysta mig eftir misheppnað hlaup geta komið aðeins seinna.

Ég viðurkenni að myndin hérna efst tengist ekki efni þessa bloggpistils beint – og jaðrar jafnvel við að vera villandi, enda Matterhorn bara einn tindur en ekki sjö. Hér fyrir neðan er hins vegar raunsannari yfirlitsmynd af hlaupaleið morgundagsins. Það er rauða leiðin sem málið snýst um. Ef smellt er á myndina opnast stærri mynd.

Gleðilegar díoxínfréttir

Í gær birti Landlæknisembættið niðurstöður mælinga á díoxínmagni í blóði fólks sem búið hefur og unnið í nágrenni sorpbrennslustöðvanna þriggja sem um langa hríð hafa sleppt út díoxíni umfram það sem leyfilegt er samkvæmt regluverki Evrópusambandsins. Niðurstöðurnar hljóta að vera flestum fagnaðarefni, því að enda þótt nokkur hækkun hafi mælst í einhverjum tilvikum, var styrkur díoxíns í öllum tilvikum lægri en svo að hann sé talinn geta skaðað heilsu fólks.

Samkvæmt því sem fram kemur á heimasíðu Landlæknis var díoxínmagn í blóði 10 heilbrigðra einstaklinga frá Ísafirði og 10 frá Reyjavík mælt og notað til viðmiðunar. Notuð er mælieiningin píkógrömm díoxíns í  grammi af fitu (pg/g fitu), en 1 píkógramm er einn billjónasti úr grammi (0,000000000001 g). Viðmiðunargildið frá Reykjavík reyndist vera 9,7 pg/g fitu, en 10,2 pg á Ísafirði. Þetta er í góðu samræmi við það sem gengur og gerist á Norðurlöndunum. Díoxínmagn í blóði starfsmanna við brennsluofnana og íbúa í næsta nágrenni mældist hins vegar á bilinu 2,7–16,2 pg/g fitu.

Þetta þykja mér gleðitíðindi! Mér sýnast þessar tölur gefa nokkuð góða tryggingu fyrir því að fólkið sem dvalið hefur næst þessum díoxínuppsprettum þurfi ekki að óttast að heilsa þess bíði tjón vegna mengunarinnar sem það hefur búið við, hvorki nú né síðar á ævinni. Í frétt á visir.is í dag kemur fram að Bandaríkjamenn miði við 25-30 pg/g fitu sem heilsuverndarmörk, og í allstórri japanskri rannsókn  sem ég rakst á í gær reyndust meðalgildin vera nálægt 20 pg.

Ég held að hámarksgildi upp á 16 pg gefi ekki tilefni til að draga neinar ályktanir, þó að það sé 60% hærra en í „meðal-Jóninum“ á Ísafirði og í Reykjavík og annars staðar á Norðurlöndunum. Það er ekki einu sinni hægt að fullyrða að þessi munur sé marktækur, nema með því að greina frumgögnin. Og alla vega er þetta allt minna en í meðal-Japananum og vel fyrir neðan heilsuverndarmörk Bandaríkjamanna. 

Mér finnst þetta sem sagt vera mikill léttir. Ég óttaðist að ástandið gæti verið verra, en bjóst þó frekar við að það væri innan hættumarka (hver sem þau annars eru nákvæmlega). Það að díoxín í útblæstri, jarðvegi eða fæðu fari yfir viðmiðunarmörk þarf alls ekki að þýða að fólk verði fyrir skaða. Þarna reyna menn jú að hafa vaðið fyrir neðan sig með því að hafa umhverfismörkin mjög lág. Þá fá menn jú viðvörun í tæka tíð og geta ráðist strax beint að mengunarvaldinum (þ.e.a.s. ef þessir sömu menn sofa ekki á verðinum) áður en það er orðið of seint. Þar með á að vera hægt að koma í veg fyrir að heilsu fólks stafi hætta af.

Þrátt fyrir það sem hér hefur verið sagt, má alls ekki túlka þessar niðurstöður svo að nú sé óhætt að slaka á. Við verðum að hafa í huga að díoxín safnast upp í fituvefjum líkamans og yfirgefur þá ekki svo glatt, svo lengi sem við lifum. Svolítil árleg viðbót er nóg til þess að styrkurinn í fitunni verði kominn á hættulegt stig seint á ævinni. Þess vegna tel ég alls enga ástæðu til að slaka neitt á gagnvart hlutaðeigandi brennslustöðvum (á Ísafirði, Kirkjubæjarklaustri og Vestmannaeyjum). Við verðum að hafa vaðið fyrir neðan okkur hér eftir sem hingað til – og gæta fyllstu varúðar. Umhverfismörkin eru sett til að vernda okkur og börnin okkar. Við skulum gleðjast yfir því að þetta hafi sloppið fyrir horn í þetta sinn – og gera allt sem við getum til að svona uppákomur endurtaki sig ekki. Ef það kallar á lokun einhverra sorpbrennslustöðva, þá á bara að loka þeim.

Sorpbrennslustöðin í Sisimiut á Grænlandi. Myndin var tekin í júlí 2001 og tengist ekki efni þessa pistils með beinum hætti.

Hinn árlegi Háfslækjarhringur

Í morgun hljóp ég Háfslækjarhringinn í góðum félagsskap eins og jafnan á uppstigningardag. Hef gert það þennan dag á hverju ári, alveg síðan í fyrra. Stundum hleyp ég þennan hring líka aðra daga. Þannig var hringurinn í morgun sá sjötugastiogfimmti í röðinni hvað mig varðar. Byrjaði á þessu fyrir þremur árum og tveimur dögum, og hef engan veginn náð að venja mig af því.

Uppstigningardags-Háfslækjarhringir eru öðruvísi en aðrir Háfslækjarhringir að því leyti að þá hleypur jafnan slatti af fólki með mér. Annars er ég oftast einn á ferð. Vissulega er einveran góður félagsskapur, en þessi er þó enn betri. Í fyrra hlupum við 5 saman, en núna vorum við 6. Það er hvorki meira né minna en 20% aukning milli ára. Það þykir góð ávöxtun nú til dags.

Háfslækjarhringurinn í morgun var sem sagt enginn venjulegur Háfslækjarhringur. Sem fyrr segir var ég að hlaupa hringinn í 75. sinn, en helmingurinn af hópnum var að hlaupa hann í fyrsta sinn, sem er mun merkilegri áfangi. Í fyrra voru líka tímamót. Þá var ég að hlaupa hringinn í 50. sinn og flestir meðhlauparanna voru byrjendur á hringnum, rétt eins og núna.

Ferðasaga dagsins var í stuttu máli þannig að við lögðum upp heiman að frá mér u.þ.b. kl. 9:01 og hlupum hringinn sem leið liggur rangsælis. Veðrið var alveg eins og í fyrra; vestan gola, skýjað að mestu og 8 stiga hiti. Fátt bar til tíðinda þar til við nálguðumst fólkvanginn í Einkunnum, en þar beið Kristín nágranni eftir okkur með drykkjarbílinn, sem kom sér einkar vel og átti eftir að koma meira við sögu í hlaupinu. Svo héldum við bara áfram sem leið liggur vestur að Langá, niður með Langá og heim frá Langá eftir þjóðvegi nr. 54. Klukkan var eitthvað um 11:08 þegar hlaupinu lauk þar sem það hófst. GPS-tækið sýndi 21,44 km og 2:06:49 klst. Og allir voru stálslegnir eins og ekkert hefði í skorist.

Á Sólbakkanum í Borgarnesi, nýbyrjaðir, 2 km að baki. F.v. Kristinn nágranni, Torfi Jó, Hilmar Arason, Bjarni Trausta og Sigurjón á Rauðanesi.

Ég held að á engan sé hallað þótt því sé haldið fram að kjötsúpan hennar Bjarkar sé jafnan hápunkturinn á þessum árlegu Háfslækjarhringum. Þetta skipti var hreint engin undantekning hvað það varðar – og heitur pottur á eftir. Getur þetta verið mikið betra.

Þeir sem hafa áhuga á fornum sögnum geta lesið um Háfslækjarhringshlaupið á uppstigningardag í fyrra á þar til gerðri vefsíðu.

Takk fyrir samfylgdina Bjarni, Hilmar, Kristinn, Sigurjón og Torfi. Og takk fyrir hjálpina Kristín og súpuna Björk!

PS: Hér áttu að vera miklu fleiri myndir en WordPress-ritillinn spillti þeim áformum algjörlega fyrir mér. 😦