• Heimsóknir

    • 119.040 hits
  • ágúst 2011
    S M F V F F S
     123456
    78910111213
    14151617181920
    21222324252627
    28293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Á morgun fæ ég að vita það!

Morgundagurinn verður gleðidagur í lífi mínu sem neytanda, því að frá og með morgundeginum á ég rétt á því að vita hvort maturinn minn innihaldi erfðabreyttar lífverur eða efni unnið úr þeim. Á morgun tekur nefnilega gildi Reglugerð nr. 1038/2010 um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs.
 
Erfðabreytt matvæli???
Hingað til hef ég ekki haft hugmynd um hvort matvælin sem ég hef lagt mér til munns væru erfðabreytt eður ei, en með erfðabreyttum matvælum er átt við matvæli sem „innihalda eða samanstanda af erfðabreyttum lífverum eða eru framleidd úr eða innihalda innihaldsefni sem eru framleidd úr erfðabreyttum lífverum“, svo vitnað sé beint í reglugerðina. Ég hef bara vitað að meirihluti af öllum soja og maís sem kemur frá Bandaríkjunum er erfðabreyttur, og einhver lítill hluti af evrópskum maís líka. Og ég hef líka vitað að efni sem unnin eru úr maís finnast í ólíklegustu matvörum.

Hvernig verður þetta merkt?
Frá og með morgundeginum á það að sjást á umbúðum matvæla hvort þau innihaldi erfðabreytt efni, annað hvort með því að orðið „erfðabreytt“, komi fram innan sviga strax á eftir vöruheiti, þ.e.a.s. ef viðkomandi matvæli eru erfðabreyttar lífverur, eða þá með því að orðin „erfðabreytt“, eða „framleitt úr erfðabreyttu (nafn innihaldsefnisins)“ komi fram innan sviga strax á eftir viðkomandi innihaldsefni í innihaldslýsingu. Þessar upplýsingar mega reyndar líka koma fram í neðanmálsgrein við innihaldslýsingu, enda séu þær þá prentaðar með letri sem er að minnsta kosti jafnstórt og letrið á innihaldslýsingunni. Nú, og ef umbúðirnar eru engar eða svo litlar að upplýsingarnar komist ekki fyrir á þeim, þá eiga upplýsingarnar ávallt að vera sýnilegar þar sem matvælunum er stillt upp.

Hvernig verður þessu framfylgt?
Ef upp kemur rökstuddur grunur um að matvæli  sem ekki eru merkt samkvæmt framanskráðu innihaldi engu að síður erfðabreytt efni, þá ber framleiðendum eða seljendum að að leggja fram gögn sem staðfesta fjarvist slíkra efna. Nú, og svo eiga heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunnar að hafa eftirlit með því að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt.

Gaman hjá mér á morgun!
Á morgun ætla ég í búðir að skoða kornflexpakka, kexpakka, örbylgjupopp og alls konar aðrar matvörur til að fræðast um útbreiðslu erfðabreyttra matvæla. Og í framhaldinu ætla ég að taka upplýstar ákvarðanir um það hvað ég borða og hvað ekki. Þetta verður gaman!

Pínulítil leiðrétting
Já, ég sagði víst framarlega í þessum pistli að ég hefði hingað til ekki haft hugmynd um hvort matvælin sem ég hef lagt mér til munns væru erfðabreytt eður ei. Þetta er reyndar ekki alveg rétt. Ég kaupi nefnilega oft lífrænt vottuð matvæli. Í þeim er aldrei neitt erfðabreytt efni.

Nokkur merki sem votta lífrænan uppruna matvæla. Í lífrænt vottuðum matvælum eru engin erfðabreytt efni.

Markmiðin náðust ekki

Ég náði ekki markmiðunum sem ég setti mér fyrir Reykjavíkurmaraþonið á laugardaginn var. Ég hljóp sem sagt maraþonið ekki undir 3:17:07 klst. og tókst ekki að safna 100 þús. kr. fyrir FSMA. En svona gengur þetta stundum – og þá er ekki um annað að ræða en að standa sig betur næst, annað hvort í því að gera það sem maður ætlar sér, eða í því að setja sér markmið.

Maraþonið gekk mjög vel framan af. Fyrra hálfmaraþoninu lauk ég t.d. á 1:34:38 klst, sem er langbesti millitíminn minn í maraþoni til þessa. Og 30 km tóku ekki nema 2:16:47 klst. sem er besti tími sem ég hef náð á þeirri vegalengd. En eftir það var líka innistæðan búin og lokatíminn í hlaupinu varð 3:20:21 klst, eða um 3:30 mín. lakari tími en vænst var. Seinna hálfmaraþonið var þannig á 1:45:43 klst., sem sagt 11 mínútum hægara en það fyrra. Það er alltof mikill munur! Tíminn á seinni helmingnum var þó svipaður því sem ég náði í hálfu Reykjavíkurmaraþoni fyrir 10 árum, þannig að þetta var nú enginn heimsendir. Allt er þetta spurning um við hvað er miðað!

Þetta var annars 9. maraþonið mitt og 4. besti tíminn frá upphafi, sem lítur svo sem ekkert svo illa út.

Söfnunin fyrir FSMA skilaði 37.500 krónum. Það var líka undir væntingum – og reyndar talsvert lægri upphæð en í fyrra. En góðgerðarfélögunum á lista Reykjavíkurmaraþonsins  fjölgar jú með hverju ári sem líður, þannig að kannski dreifast framlögin sífellt meira. En 37.500 krónur eru jú 37.500 krónur. Ég er afar þakklátur öllum þeim sem lögðu fram peninga í þessa söfnun, og vona að féð komi FSMA að góðum notum.

Mér hefði þótt gaman að skrifa miklu lengri pistil um hlaupið og allt sem því fylgdi, en annríki við annað leyfir ekki tímafrek ritstörf. Hráa frásögn er þó að finna í Hlaupadagbókinni á www.hlaup.com. Þar er hægt að smella á tengilinn „Félagar“, leita að nafninu mínu og finna viðeigandi færslu með alls konar nördalegri tölfræði og opinskáum lýsingum á líðan minni (eða vanlíðan) í hlaupinu.

Þessi bloggsíða hefur verið alfarið helguð hlaupum síðustu mánuði. Nú verður þar væntanlega breyting á, enda sumarleyfi á enda og þar með mesta hlaupavertíðin. Með haustinu fá umhverfismálin aftur aukið vægi í daglega lífinu og þar með að öllum líkindum einnig á blogginu.

Þessi mynd af connect.garmin.com er svo sem ekkert sérstaklega skýr, en hún sýnir hvernig hraðinn á mér í Reykjavíkurmaraþoninu minnkaði jafnt og þétt eftir því sem leið á hlaupið. Svona á þetta náttúrulega ekki að vera.

Maraþon á morgun fyrir FSMA

Á morgun ætla ég að hlaupa maraþonhlaup til styrktar FSMA, Félagi aðstandenda og einstaklinga sem haldnir eru SMA sjúkdómnum.* Þetta geri ég sem þátttakandi í Reykjavíkurmaraþoninu, sem hefst í Lækjargötu kl. 8:40 í fyrramálið. Ég hef sett mér eftirtalin tvö markmið fyrir hlaupið:

  1. Safna 100 þúsund krónum fyrir FSMA
    Þegar þetta er skrifað er upphæðin komin í 37.500 krónur, þannig að enn er nokkuð langt í land. En þetta mjakast jafnt og þétt, rétt eins og hlaupið sjálft. Hægt er að koma áheitum til skila á síðunni Hlaupastyrkur.is, hvort heldur sem er með færslu af krítarkorti eða með því að senda töluna 1065 í tiltekin símanúmer sem tilgreind eru á síðunni. Tekið verður við framlögum til miðnættis á mánudagskvöld, þannig að enn er nægur tími til að láta gott af sér leiða með þessum hætti.
  2.  Hlaupa á betri tíma en 3:17:07 klst.
    Mig langar til að bæta persónumetið mitt í maraþoni, en það er sem sagt 3:17:07 klst. síðan í Reykjavíkurmaraþoninu 2009. Til að það gerist þarf flest að ganga mér í vil á morgun. Ég hef reyndar hlaupið afar lítið síðustu tvær vikur, en heilsan er góð og næg tilhlökkun til staðar. Ég ætla að reyna að hlaupa fyrstu kílómetrana á 13,3 km/klst, sem jafngildir 4:30 mín/km. Svo er bara að sjá til hversu lengi það endist. Mér dugar reyndar að klára kílómetrann á 4:40 mín. að meðaltali, þannig að ég hef nógan tíma. Varamarkmiðið er að njóta hlaupsins og vera glaður að því loknu.

Vonandi láta sem flestir gott af sér leiða með því að heita á mig og aðra hlaupara á Hlaupastyrkur.is, og svo væri líka gaman að sjá sem flesta meðfram hlaupaleiðinni og á marksvæðinu í Lækjargötunni um það leyti sem í ljós kemur hvort ég nái markmiði nr. 2. Það hlýtur að skýrast einhvern tímann á milli kl. 11:50 og 12:00.
🙂

*  SMA (Spinal Muscular Atrophy) er taugahrörnunarsjúkdómur sem stafar af fráviki í geni sem framleiðir tiltekið prótein sem er nauðsynlegt fyrir tilteknar frumur í framhorni mænunnar. Sé framleiðsla á þessu próteini lítil sem engin, eyðileggjast frumurnar og einstaklingurinn lamast smám saman.

Næstu fjallvegahlaup

Nú styttist í næstu fjallvegahlaup. Þau verða á Norðausturlandi, en þar stefni ég á Jökulsárhlaupið á laugardag. Skrái það sem fjallvegahlaup nr. 25 þar til annað verður ákveðið. Í framhaldinu er röðin svo komin að tveimur þægilegum heiðum nyrðra, þ.e. Tunguheiði milli Skjálfandaflóa og Öxarfjarðar – og Helkunduheiði milli Þistilfjarðar og Bakkaflóa.
 
Mánudaginn 8. ágúst ætla ég að hlaupa austur yfir Tunguheiði frá Syðri-Tungu á Tjörnesi (um 10 km fyrir utan Húsavík) að Fjöllum í Kelduhverfi. Þetta eru um 15 km með u.þ.b. 500 m hækkun. Svoleiðis hlaup gæti tekið hátt í 3 klst. Ég stefni að því að leggja af stað af þjóðveginum neðan við Syðri-Tungu (við brúsapallinn eða þannig) kl. 14:00. Einhver fróðleikur um leiðina er kominn inn á fjallvegahlaup.is.
 
Daginn eftir, þriðjudaginn 9. ágúst, er röðin svo komin að Helkunduheiðinni. Þá ætla ég líka að leggja af stað kl. 14:00, nú frá þjóðveginum í botni Þistilfjarðar (eða öllu heldur Lónafjarðar), rétt fyrir neðan Brúarás. Leiðin er rétt um 12 km og hækkunin ekki nema 200 m, þannig að þetta ætti varla að taka meira en 1:30 klst. Endamarkið er á þjóðveginum við Finnafjarðará í Bakkaflóa (eða öllu heldur Finnafirði). Einhver fróðleikur um þessa leið er líka kominn inn á fjallvegahlaup.is.
 
Gaman væri að fá fylgd sem flestra á þessum ferðalögum. En þeir sem slást í hópinn gera það á eigin ábyrgð.

Yfirlitsmynd af norðausturhorninu, þar sem heiðarnar tvær sjást ef vel er gáð. Ásbyrgi er líka merkt á kortið, því að þar endar Jökulsárhlaupið á laugardaginn.