Barnabókin Svante og Maggie sem kom út í Danmörku í byrjun mánaðarins hefur aldeilis gert það gott þar í landi. Fyrstu þrjár helgarnar runnu út 6.000 eintök, en vinsælar barnabækur seljast þar varla í mikið meira en 400 eintökum á viku.
En hvað er dönsk barnabók að vilja inn á þessa bloggsíðu? Jú, Svante og Maggie eru nefnilega engar venjulegar sögupersónur. Svante er norrænn svanur sem missti minnið þegar hann flaug í gegnum svart og ógeðslegt ský – og heldur nú að hann sé strútur, og Maggie er evrópskt blóm. Saman þurfa þau að leysa ýmsar þrautir. Sagan um Svante og Maggie varð til innan veggja dönsku umhverfismerkjaskrifstofunnar, og um leið og börnin hrífast af ævintýrum og útsjónarsemi sögupersónanna, fræða þær börn og fullorðna um umhverfismerkin.
Hægt er að panta Svante og Maggie á Fésbókarsíðu dönsku umhverfismerkjaskrifstofunnar. Þar er líka hægt að nálgast myndir til að lita – og upplestur Signe Lindkvist, sem Danir þekkja vel sem stjórnanda barnarásar danska ríkissjónvarpsins, Ramasjang.
Filed under: Sjálfbær þróun, Umhverfismál |
Færðu inn athugasemd