• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • febrúar 2012
    S M F V F F S
     1234
    567891011
    12131415161718
    19202122232425
    26272829  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Rotvarin brjóst?

Parabenar sem notaðir eru sem rotvarnarefni í snyrtivörur o.fl., geta safnast fyrir í brjóstum kvenna. Þetta kom í ljós í breskri rannsókn sem sagt var frá í nýjasta tölublaði tímaritsins Journal of Applied Toxicology. Rannsóknin náði til 40 kvenna sem allar höfðu gengist undir skurðaðgerð vegna krabbameins í brjóstum. Ein eða fleiri tegund parabena fannst í brjóstum allra kvennanna.

Menn hafa lengi velt fyrir sér hugsanlegum skaðlegum heilsufarsáhrifum parabena. Líkur eru á að þessi efni trufli hormónastarfsemi líkamans, m.a. með því að líkja eftir áhrifum estrógena. Og þar sem estrógen eiga sinn þátt í sumum gerðum brjóstakrabbameina liggur beint við að ætla að parabenar hafi stuðlað að þessum 40 krabbameinstilfellum. Rannsóknin gefur þó ekki tilefni til slíkra ályktana, enda var henni ekki ætlað að kanna þetta samhengi. Niðurstaðan er bara sú að parabenar höfðu borist í líkama viðkomandi kvenna og sest fyrir í brjóstunum. Rannsóknin snerist ekki heldur um það hvernig parabenarnir hefðu komist í brjóstin, að öðru leyti en því að kannað var hvort samhengi væri á milli styrks parabena og notkunar svitalyktareyðis. Ekki tókst að sýna  fram á slíkt samhengi, enda finnast parabenar í fleiri vörum, bæði í öðrum snyrtivörum, matvælum og klæðnaði.

Þótt ekki þyki sannað að parabenar eigi þátt í brjóstakrabbameini hlýtur að vera ráðlegt að fara að öllu með gát, enda næsta víst að parabenar sem ekki berast inn í líkamann valda engum skaða þar. Því er þjóðráð að forðast vörur sem innihalda þessi efni.

En parabenar eru ekki einu varasömu efnin í neytendavörum. Einfaldasta leiðin til að forðast efni af þessu tagi í snyrtivörum er að velja vörur sem vottaðar eru með Norræna svaninum og áreiðanlegum astma- og ofnæmismerkjum. (Blái kransinn í Danmörku er dæmi um slíkt merki). Hvað matvæli varðar ætti að forðast vörur sem innihalda aukefnin E214, E215, E218 og E219, en þar er einnig um parabena að ræða.

Síðast en ekki síst er mikilvægt að hafa í huga að öll efni sem borin eru á húðina eiga góða möguleika á að dreifast um líkamann fyrr en síðar.

(Byggt á frétt á heimasíðu Forbrugerkemi 15. febrúar sl).