• Heimsóknir

    • 119.009 hits
  • mars 2012
    S M F V F F S
     123
    45678910
    11121314151617
    18192021222324
    25262728293031
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Veturinn er búinn

Ég er stundum svolítið hissa á tilætlunarsemi vina og kunningja, sem geta ómögulega sætt sig við vetrarveður á veturna og finnst einhvern veginn sjálfsagt að vorið byrji í janúar. Að vísu held ég að ég hafi einhvern tímann verið svona líka, a.m.k. fram til ársins 1964 eða þar um bil, en þá kom mamma með pottþétt rök gegn tilætlunarseminni. Ég spurði hana nefnilega til hvers allt þetta vonda veður væri. Og hún sagði mér að vonda veðrið væri gert til þess að við kynnum að meta góða veðrið þegar það kæmi.

En af því að það er mánudagsmorgun og ég í frekar góðu skapi, þá hef ég ákveðið að létta tilætlunarsemisfarginu af umræddum vinum og kunningjum með því að setja fram eftirfarandi veðurspá fyrir næstu vikur:

  1. Veturinn er búinn. Vonda veðrið sem sumir tóku eftir sunnan- og vestanlands í gærkvöldi var síðasta vetrarveðrið að sinni, ef vetrarveður skyldi kalla.
  2. Næstu daga fer veður hægt hlýnandi. Rigning verður algeng.
  3. Páskahret verður ekki þetta árið svo orð sé á gerandi, ef frá er talinn einhver slydduhryssingur á skírdag og föstudaginn langa.
  4. Síðari hluti aprílmánaðar verður óvenjuhlýr.
  5. Um miðjan maí gerir kuldakast sem stendur fram undir 10. júní. Nokkrir vinir og kunningjar munu hafa á orði að það „hausti snemma þetta vor“.
  6. Veðurblíðan síðari hluta júnímánaðar verður með eindæmum.
  7. Síðar í sumar gerir mikla rigningu. Ég veit bara ekki alveg hvenær, líklega í ágúst.
  8. Töluverð frávik geta orðið frá þessari spá í einstökum landshlutum, einkum norðaustanlands.

Jæja, þá er það komið á hreint. Ég spái því að þessi spá rætist, en tek fram að þeir sem taka mark á henni gera það samt á eigin ábyrgð.

Þrístrendingur 23. júní 2012

Laugardaginn 23. júní nk. verður fjalla- og skemmtihlaupið Þrístrendingur haldið í þriðja sinn. Þarna verður ekki keppt við tímann heldur miklu frekar keppst við að njóta dagsins og félagsskaparins. Hlaupið er öllum opið og þátttakendur velja alveg sjálfir hvort þeir hlaupa alla leiðina eða bara einn eða tvo áfanga af þremur. Þetta verður sem sagt afar óformlegt og galopið hlaup, og um leið skemmtileg hlaupaæfing og tilbreyting frá daglegu amstri. Í fyrra tóku rúmlega 20 manns þátt í þessu ævintýri og margt bendir til ört vaxandi þátttöku. Þess vegna er óskað eftir því að fólk skrái sig (sjá upplýsingar neðst í þessari færslu), því að aðstandendur hlaupsins þurfa að skipuleggja tvö eða þrjú smáatriði þar sem fjöldinn skiptir máli.

Aðstandendur
Aðstandendur hlaupsins eru allir þeir sem taka þátt í því, en þó aðallega frændurnir Dofri Hermannsson frá Kleifum í Gilsfirði og Stefán Gíslason frá Gröf í Bitrufirði. Eins og ráða má af því sem hér fer á eftir, liggur leiðin einmitt um æskuslóðir þessara frænda.

Fyrsti áfangi: Steinadalsheiði
Hlaupið hefst á hlaðinu á Kleifum í Gilsfirði laugardaginn 23. júní eins og fyrr segir. Þeir sem telja sig frekar hægfara leggja af stað kl. 10:30, en þeir sem telja sig fljótari í förum leggja af stað kl. 11:00. Þegar heimreiðin að Kleifum er að baki er beygt til hægri, hlaupinn smáspölur fyrir botn Gilsfjarðar og svo aftur beygt til hægri upp á Steinadalsheiði. Vegurinn yfir heiðina fer mest í 330 m hæð við Heiðarvatn. Þegar komið er niður af heiðinni að norðanverðu liggur leiðin yfir tvær ár, sem stundum er hægt að stikla yfir, en sjaldnast þó þurrum fótum. Leiðin liggur framhjá bæjunum Steinadal, Miðhúsum og Felli og skömmu síðar er komið niður á aðalveginn við botn Kollafjarðar. Þar er enn beygt til hægri og hlaupinn smáspölur fyrir fjarðarbotninn, framhjá bænum Undralandi. Þessum fyrsta hluta hlaupsins lýkur við heimreiðina að Stóra-Fjarðarhorni, en þangað eru 19-20 km frá Kleifum. Í ljósi reynslunnar má ætla að allir verði komnir að Stóra-Fjarðarhorni um kl. 13:00. Þar verður áð og stefnt að því að allir leggi samtímis upp í næsta áfanga.

Annar áfangi: Bitruháls
Frá Stóra-Fjarðarhorni liggur leiðin skáhallt upp hlíðina um þúfur og móa þar til komið er á gamla hestagötu. Henni er fylgt upp á Bitruháls, sem fer mest í u.þ.b. 380 hæð í svonefndum Skörðum,og áfram niður með Grafargili að bænum Gröf, þar sem Arnheiður húsfreyja og Rögnvaldur bóndi taka á móti hópnum með kaffi og pönnukökum fyrir þá sem vilja. Leiðin yfir hálsinn er tæpir 10 km. og líklegt að ferðalagið þar yfir taki a.m.k. einn og hálfan klukkutíma. Því má reikna með að hópurinn verði í Gröf um kl. 15:00.

Þriðji áfangi: Krossárdalur
Eftir hæfilega áningu í Gröf hefst endaspretturinn niður túnið og áfram inn Krossárdal, framhjá bæjunum Árdal og Einfætingsgili. Þangað er prýðilegur bílvegur, en innar í dalnum tekur við jeppafær slóði og síðan mýrar og móar. Leiðin suður dalinn (það er alltaf talað um að fara suður Krossárdal þó að leiðin liggi í raun í vestur) fer mest í 240 m hæð við Krossárvatn. Áfram er haldið með vatnið á vinstri hönd og áfram eftir hestagötum þar til komið er fram á klettabrún fyrir ofan Kleifar. Þaðan blasir Gilsfjörðurinn við. Loks liggur leiðin niður bratt og fremur laust einstigi sem nefnist Hafursgata. Þegar henni sleppir er ekkert eftir nema mjúkt graslendi heim að Kleifum. Leiðin þangað frá Gröf er rúmlega 11 km. Ekki er ósennilegt að flestir verði komnir að Kleifum um kl. 17:00. Annars skipta tímasetningar engu máli og eru bara settar fram hér til viðmiðunar.

Tímataka og veitingar
Engin formleg tímataka verður í hlaupinu, heldur notar hver og einn nærtækar klukkur eða dagatöl eftir því sem færi gefst. Drykkjarstöðvar verða hins vegar við hvern læk. Þær eru ómannaðar, nema drykkjarstöðin í Gröf, þar sem búið verður að hella upp á kaffi eins og fyrr segir. Að hlaupi loknu verður boðið upp á grillaðstöðu á Kleifum svo að hlauparar geti fengið sér eitthvað bitastætt áður en þeir skella sér aftur heim, nú eða í heita pottinn á Reykhólum sem er auðvitað besti endirinn á svona degi. Eins er upplagt að lengja ferðina og finna sér hentugan gististað nóttina eftir hlaup.

Smáa letrið
Þrístrendingur er í senn þriggja stranda hlaup, þriggja sýslna hlaup og þriggja fjallvega hlaup. Lagt er upp í Dalasýslu og komið við í Austur-Barðastrandarsýslu og Strandasýslu, áður en dagsverkinu lýkur í Dalasýslu á ný. Og svo koma strendur Gilsfjarðar, Kollafjarðar og Bitrufjarðar við sögu, þó að ekki verði endilega farið niður í allar tiltækar fjörur. Þeir sem taka þátt í hlaupinu gera það á eigin ábyrgð.

Lesefni og nánari upplýsingar
Hægt er að fá hugmynd um inntak og eðli Þrístrendings með því að skoða eftirfarandi síður:
Þrístrendingur 2010: Frásögn en engar myndir   
Þrístrendingur 2011: Frásögn og myndir
Fjallvegahlaup.is: Leiðarlýsing Steinadalsheiði
Fjallvegahlaup.is: Leiðarlýsing Bitruháls
Fjallvegahlaup.is: Leiðarlýsing Krossárdalur (í „öfuga átt“)
Síðast en ekki síst er ástæða til að benda á Fésbókarsíðu Þrístrendings 2012. Fésbókarsíðan er hin eiginlega miðstöð undirbúningsins, því að þar fara fram skoðanaskipti og hvers kyns spjall um hlaupið. Þeir sem hafa áhuga á að vera með eru vinsamlegast beðnir að skrá sig þar.

Allar nánari upplýsingar veita
Dofri Hermannsson, dofrihermannsson[á]gmail.com og
Stefán Gíslason, stefan[á]environice.is.

Þetta kort gefur hugmynd um leiðina, en á Fésbókarsíðunni er annað kort, örlítið nákvæmara.

Þessi mynd var tekin við upphaf hlaupsins í fyrra:

Ný tækni í landbúnaði

Ég hafði það á orði í einhverju útvarpsviðtali fyrr í vetur að fæðuvandi heimsins yrði hvorki leystur með erfðatækni né nýjum og fullkomnari landbúnaðartækjum, heldur væri lausna miklu frekar að leita í tækni á borð við reiðhjól og farsíma. Ég hef verið spurður hvað ég hafi átt við með þessu, og nú finnst mér kominn tími til að svara þeirri spurningu.

Nóg til af mat, það er bara kerfið sem virkar ekki
Fyrir það fyrsta er svo sem til nógur matur fyrir alla í heiminum. Það er bara skiptingin á þessum mat sem er í ólagi. Á Vesturlöndum hendir fólk heilum helling af mat og þjáist af offitu, en í þróunarlöndum er matarskortur og fólk deyr úr hungri, svo maður einfaldi þetta nú aðeins. Vesturlandabúar geta alveg notað peninginn sinn til að búa til erfðabreytt matvæli og stærri landbúnaðarvélar sem komast á styttri tíma yfir stærri og einsleitari akra en áður. En það er ólíklegt að þetta lagi stöðuna mikið hjá þeim sem mest þurfa á úrbótum að halda. Staða þeirra getur jafnvel versnað, og hefur í mörgum tilvikum þegar gert það, þegar landbúnaðartækni Vesturlandanna ryður aldagömlum ræktunarhefðum og enn eldri afbrigðum matjurta úr vegi í nafni hagræðingar og aukinna afkasta.

Tvö orð!
Ef einhver tvö orð eru til sem fela öðrum orðum fremur í sér lausn á fæðuvanda heimsins, þ.e.a.s. þeim hluta vandans sem snýr að vannærðum íbúum þróunarlanda, þá eru þau tvö orð: „Menntun kvenna“. Þessi tvö orð færa okkur nær umfjöllunarefni þessa pistils, þ.e.a.s. reiðhjólum og farsímum.

Reiðhjól???
Nú er von að spurt sé: „Hvernig geta reiðhjól stuðlað að aukinni fæðuframleiðslu í þróunarlöndunum eða að bættum lífskjörum þar yfirleitt“? Eitt dæmi um svar liggur í sögu Mawoubé, sem var þegar sagan gerist 14 ára stúlka í bænum Sokodé í Togo. Hún var ein þeirra fyrstu sem fengu reiðhjól sem úthlutað var á vegum fyrirtækisins Alaffia, en alls fengu 3.000 stúlkur á svæðinu slík hjól. Hjólið gerði Mawoubé mögulegt að komast í skólann af eigin rammleik og kom jafnvel í veg fyrir ótímabæra þungun. Það hefur nefnilega verið algengt að stúlkur á þessu svæði borgi með kynlífi fyrir skutl í skólann. Ótímabærar þunganir eru mjög algengar á svæðinu og þar með endar líklega skólaganga viðkomandi stúlkna. Stúlkurnar 3.000 sem fengu reiðhjólin hafa skorið sig úr hvað þetta varðar. Í þeim hópi eru ótímabærar þunganir nær eða alveg óþekktar. Þannig hafa reiðhjólin stuðlað að menntun stúlknanna, en menntunin er lykill að möguleikum þeirra til sjálfshjálpar, bæði hvað varðar fæðuframleiðslu og annað.

Farsímar???
Nú er líka von að spurt sé: „Hvaða máli skipta þá farsímar í þessu sambandi“? Tilfellið er að líklega hefur engin ein uppfinning skipt meira máli til að bæta stöðu kvenna í þróunarlöndunum, bæði hvað varðar fæðuframleiðslu og aðra þætti. Símarnir eru farvegir upplýsinga, sem annars eru af skornum skammti, þeir rjúfa einangrun kvennanna, auðvelda þeim að bindast samtökum, m.a. um markaðssetningu afurða, auðvelda öflun aðfanga, veita aðgang að upplýsingum um verð á mörkuðum, auðvelda fjármálaleg samskipti, þ.á.m. millifærslur og smálán til búrekstrar og heimilishalds – og nýtast líka sem neyðartæki, t.d. þegar ná þarf sambandi við dýralækni eða leita eftir annarri aðstoð.

Reiðhjól OG farsímar
Því má svo bæta við, svona rétt til uppfyllingar, að reiðhjól geta líka hjálpað til við að nýta kosti farsímans. Því fer nefnilega fjarri að allir farsímanotendur hafi aðgang að rafmagni heima hjá sér. Þá kemur sér vel að geta skroppið á hjólinu til nærliggjandi staðar þar sem hægt er að hlaða símana.

Eftirmáli og helstu heimildir
Þessum pistli er ekki ætlað að vera nein heildarúttekt á stöðu mála eða listi yfir öll tækifæri til úrbóta. Tilgangurinn með pistlinum er einungis að vekja athygli á að lausnirnar geta verið smærri, ódýrari og miklu skilvirkari heldur en okkur órar fyrir. Stundum hættir okkur til að sækja vatnið yfir lækinn. Pistillinn er að mestu byggður á: Dianne Forte, Royce Gloria Androa og Marie-Ange Binagwaho: Harnessing the Knowledge and Skills of Women Farmers, í State of the World 2011, Worldwatch Institute, USA, 2011, (bls. 121-129). Auk þess var innblástur sóttur í: Robert Engelman: MORE. Population, Nature and What Women Want. Island Press, USA, 2008 – og í bloggfærslur og skrif Danielle Nierenberg og fleira fólks á http://blogs.worldwatch.org/nourishingtheplanet, https://www.facebook.com/#!/WorldwatchInst og https://www.facebook.com/#!/worldwatchag. Svo má líka minna á að í gær var Alþjóðlegur baráttudagur kvenna, sbr. myndina hér að neðan, sem tekin var af Fésbókarsíðu Claudette Pace.

Fjórða æfingaáætlun ársins

Hlaupin eru hluti af lífi mínu, skemmtilegur hluti því að þau ganga eiginlega alltaf vel og eru að mestu óháð áhyggjum af Icesave, Casoron og vísitölu neysluverðs. Hlaupin færa mér gleði til viðbótar við alla hina gleðina sem lífið býður – og á hlaupum hreinsa ég hugann af amstri dægranna. En samt er þetta allt þaulskipulagt. Ég hleyp nefnilega í hlaupahópi, og þó að hlaupahópurinn sé alla jafna bara eins manns, og þó að hann hafi engan þjálfara, þá er alltaf einhver áætlun í gildi. Hlaupin eru nefnilega æfing í að setja sér markmið og ná þeim. Hlaup án markmiða hafa ekki reynst mér vel. Ef ég ákveð að hlaupa tiltekna vegalengd, þá hleyp ég hana. Ef ég sé fram á að áætlunin mín gangi ekki upp, þá geri ég nýja áætlun. Áætlunum má breyta. En það má ekki láta þær renna út í sandinn!

Í janúar gerði ég ágæta hlaupaáætlun fyrir sjálfan mig og birti hana á blogginu á 8. degi mánaðarins. Þessi áætlun gekk út á að auka vikulegt hlaupamagn jafnt og þétt, frá 45 km á viku í byrjun ársins upp í 70 km á viku í lok mars. Nokkrum dögum seinna breytti ég áætluninni, án þess þó að segja frá því á blogginu. Nýja áætlunin gekk út á örlítið meiri aukningu frá einni viku til annarrar, en svo átti þriðja eða fjórða hver vika að vera léttari til að leyfa líkamanum að „koma töðunni almennilega í hlöðu“. Eftir sem áður yrði ég kominn í u.þ.b. 70 km á viku í lok mars.

Nokkrum dögum eftir að nýja hlaupaáætlunin tók gildi áttaði ég mig á því að hún myndi ekki ganga upp. Þetta var um miðjan janúar. Skyndilega birtist nefnilega ljón í veginum: Vinna. Ég áttaði mig með öðrum orðum á því að til þess að skila tilteknum verkefnum í tæka tíð yrði ég að lengja vinnudaginn og láta ýmislegt annað víkja, þar á meðal hlaupin. Þá tók þriðja hlaupaáætlun ársins gildi. Hún gekk út á að hlaupa bara 20-30 km á viku þar til annað yrði ákveðið, þ.e.a.s. talsvert minna en ég hef yfirleitt gert síðustu 4 ár. Ég vissi svo sem ekkert hvernig líkaminn myndi bregðast við þessu. Kannski myndi hann t.d. ekki kæra sig um að hlaupa maraþon seint í apríl eins og að var stefnt. Maður verður jú að hlusta á líkamann, það er bara til eitt eintak af honum. En nokkurra vikna lægð gat alla vega varla stefnt fjallvegahlaupum sumarsins í hættu.

Þegar komið var fram yfir miðjan febrúar fór að hylla undir verklok í þessum ágætu vinnuverkefnum mínum. „Ágætu“ segi ég, vegna þess að enda þótt ég sæki viðbótargleði í hlaupin, þá veitir vinnan mín mér ákveðna grunngleði. Ég fæ nefnilega bara kaup þegar ég hef sæmilega mikið að gera. Og ég þarf kaup til að geta keypt mér lífrænt vottað kornflex og hlaupaskó, og til að geta útvegað bankanum mínum rekstrarfé. Og í tilefni af því að ég sá fram á verklok, útbjó ég fjórðu æfingaáætlun ársins. Þessi pistill er um hana.

Fjórða æfingaáætlun ársins er svona:
Vika 1 (20.-26. feb): 40 km, þar af 25 km á laugardegi eða sunnudegi.
Vika 2 (27. feb. – 4. mars): 45 km, þar af 30 km á laugardegi eða sunnud.
Vika 3 (5.-11. mars): 50 km, þar af 30 km á laugardegi eða sunnudegi.
Vika 4 (12.-18. mars): 55 km, þar af 33 km á laugardegi eða sunnudegi.
Vika 5 (19.-25. mars): 60 km, þar af 33 km á laugardegi eða sunnudegi.
Vika 6 (26. mars – 1. apríl): 65 km, þar af 35 km á laugardegi eða sunnud.
Vika 7 (2.-8. apríl): 70-85 km.
Vika 8 (9.-15. apríl): Bara svona 50 km eða eitthvað.
Vika 9 (16.-21. apríl): Ekkert voða mikið, nema Vormaraþon lau. 21. apríl.
(Aths.: Í hverri viku er gert ráð fyrir einni styrktaræfingu sem miðar að því að byggja upp vanrækta kvið-, bak- og síðuvöðva – og einni intervalæfingu (ef veður og færð leyfa), þ.e. endurteknum stuttum sprettum (100-600 m) með smáhvíld á milli).

Þessi áætlun er svo sem ekki alveg eftir bókinni, annars vegar vegna þess að hér er ekki slakað á fyrr en eftir 7 vikna stöðuga aukningu, og hins vegar vegna þess að langa helgarhlaupið er allt að því óeðlilega stór hluti af vikuskammtinum. En mér finnst gaman að hafa þetta svona. Það er málið. Núna er ég í viku 3 – og allt gengur eins og best verður á kosið!

Myndin sem fylgir þessum pistli var tekin í Róm 2008. Mér finnst gaman að hlaupa. Og Colosseum spillir ekkert fyrir. „Corro Ergo Sum“.

Besta afgangauppskriftin

Samtökin Grønn Hverdag í Noregi efndu á dögunum til samkeppni á Fésbókarsíðu sinni um bestu afgangauppskriftina. Sigurlaunin komu í hlut Lisbeth Hauge, sem sendi inn uppskrift sem nýtir afganga af soðnu grænmeti og kartöflum.

Uppskriftin frá Lisbeth Hauge er einföld: „Maður tekur bara afganga af soðnu grænmeti og kartöflum, skellir því í blandara með svolitlu af rjóma/mjólk/vatni, smjöri og kryddi. Úr þessu verður stórfín grænmetis/kartöflustappa sem nýtist sem meðlæti daginn eftir. Tekur enga stund“.

Grønn Hverdag birtir nýja afgangauppskrift á Fésbókarsíðu sinni á hverjum fimmtudegi. Það er því vel þess virði að láta sér líka við síðuna þeirra (sjá https://www.facebook.com/#!/gronnhverdag).

(Innihald þessa pistils og myndin sem fylgir eru fengin að láni af heimasíðu Grønn Hverdag í Noregi).

Teflon, goretex og feitar dætur

PFOS

Lífræn flúorsambönd skjóta síoftar upp kollinum í umræðu um umhverfi og heilsu í löndunum í kringum okkur. Hins vegar hef ég ekki orðið var við mikla umræðu um þessi efni hérlendis, þrátt fyrir að þau sé að finna í fjölmörgum neytendavörum, hafi tilhneigingu til að safnast upp í umhverfinu og eigi hugsanlega þátt í tilteknum heilsufarsvandamálum. Reyndar eru til vísbendingar um að mengun af völdum þessara efna sé minni hér en í nágrannalöndunum, en hér gildir „hið fornkveðna“ að „safnast þegar saman kemur“. Því finnst mér full ástæða til að ræða málið, kynna sér þessi efni og huga að því hvernig forðast megi óþarfa umgengni við þau. Um leið er upplagt að tileinka sér þá vitneskju að flúor og lífræn flúorsambönd er hreint ekki það sama. Þessi pistill er hugsaður sem ofurlítill fróðleiksmoli inn í þessa umræðu.

PFAA, einkum PFOS og PFOA
Lífrænu flúorsamböndin sem hér koma við sögu eru svonefndar perflúoralkýlsýrur (perfluoroalkyl acids), skammstafað PFAA. Fyrir þá sem gaman hafa af efnafræði má upplýsa að þetta eru kolefniskeðjur, 4-14 kolefnisfrumeindir að lengd, fullhlaðnar flúorfrumeindum með mismunandi efnahópa á endunum, t.d. súlfonat eða karboxílat. Af þessum efnum hafa PFOS (perflúoroktýlsúlfónat) og PFOA (perflúoroktansýra) helst verið í umræðunni, en þessar sameindir eiga það sameiginlegt að vera 8 kolefnisfrumeindir að lengd og vera notuð til að gera ýmsar vörur vatnsfráhrindandi. Teflon og goretex eru dæmi um efni af þessu tagi, en sitthvað fleira mætti nefna. PFOS og PFOA eru iðulega til staðar í blóði fólks í einhverjum styrk og eru býsna þrávirk. Útilokað er að segja til um hvernig efnin berast inn í blóðrásina í hverju einstöku tilviki, en hitt er víst að þau eiga uppruna sinn í manngerðum varningi. Helmingunartími þeirra er á bilinu 4-5 ár, en með helmingunartíma er átt við þann tíma sem það tekur styrk efnanna að minnka um helming miðað við að ekkert nýtt bætist við.

Á síðustu tveimur vikum hefur Danska upplýsingamiðstöðin um umhverfi og heilsu (IMS) sagt frá niðurstöðum tveggja rannsókna sem varða áhrif PFOS og PFOA á heilsu manna. Hér verður farið á hundavaði yfir þann fróðleik til að gefa örlitla hugmynd um viðfangsefnið:

Teflon, goretex og feitar dætur
Fyrirsögn þessa pistils vísar óbeint til rannsóknar sem sagt var frá á heimasíðu IMS 22. febrúar sl. Þar var að vísu hvorki minnst á teflon né goretex, enda engin leið að geta sér til um uppruna lífrænna flúorsambanda sem finnast í blóði fólks. En þarna var sagt frá niðurstöðum rannsóknar sem Þórhallur Ingi Halldórsson og aðstoðarmenn hans unnu og sagt er frá í tímaritinu Environmental Health Perspectives. Þar kom fram að hár styrkur PFOA í blóði verðandi mæðra virðist auka líkur á offituvandamálum hjá dætrum þeirra 20 árum síðar. Hins vegar virðast sveinbörn ekki verða fyrir sams konar áhrifum. Vísbendingar um þetta samhengi höfðu áður komið fram í músatilraunum.

Efnasull í matarumbúðum
Í athugun sem Matvælastofnun Danmerkur lét gera nýlega kom í ljós að matarumbúðir utan af ýmiss konar skyndimat innihéldu flúoreraðar kolefniskeðjur í 35 tilvikum af 84. Þarna var m.a. um að ræða umbúðir utan af örbylgjupoppi, kökum, brauði og hraðréttum, svo eitthvað sé nefnt. Hlutverk efnanna er hér sem annars staðar að koma í veg fyrir að umbúðirnar dragi í sig raka, fitu eða óhreinindi. Líklegt er að efnin geti að einhverju marki borist úr umbúðunum í matinn, en það verður kannað nánar á næstu vikum. Niðurstaðna úr þeirri rannsókn er að vænta með vorinu, en frá öllu þessu var sagt á heimasíðu IMS 1. mars sl.

Hvatt til frekari lesturs
Hér verður ekki farið út í nein smáatriði, enda er tilgangur pistilsins sem fyrr segir að vekja athygli á þessum efnum, sem við ættum e.t.v. að umgangast af meiri varúð en okkur hefur verið tamt. Hægt er að lesa sér miklu meira til með því að kíkja á bak við tenglana hér fyrir neðan.

Tannkrem og álver eru allt annað mál!!!
Að lokum er rétt að minna á, að engin tengsl eru á milli hugsanlegrar skaðsemi lífrænna flúorsambanda á borð við PFOS og PFOA annars vegar og flúorsambanda í tannkremi eða í útblæstri álvera hins vegar. Þar er um að ræða allt öðru vísi og mun minni sameindir með allt aðra virkni. Varast ber að rugla þessu tvennu saman!

Slatti af tenglum
Hægt er að lesa miklu meira um þetta allt saman í umfjöllun IMS um PFOA og offitu 22. feb. sl., frásögn Berlinske um sama mál 24. feb., grein Þórhalls Inga og félaga í Environmental Health Perspectives (pdf-skjal birt á netinu í feb. 2012), umfjöllun IMS um lífræn flúorsambönd í matarumbúðum 1. mars sl.fréttatilkynningu frá Matvælastofnun Danmerkur um sama mál 10. feb. sl. og samþjappaðan fróðleik IMS um flúoreraðar kolefniskeðjur.(Svo væri líka hægt að vísa í skrif um PFOS og PFOA sem birtust á heimasíðu Staðardagskrár 21 á Íslandi á sínum tíma (nánar tiltekið 28. júní 2005, 20. jan. 2006, 2. feb. 2009, 6. mars 2009 og 30. nóv. 2009), þ.e.a.s. ef þau skrif hefðu ekki horfið þegar Staðardagskrárverkefni Sambands íslenskra sveitarfélaga og umhverfisráðuneytisins leið undir lok í ársbyrjun 2010. Eitthvað af þessum fróðleikspunktum er þó að finna á Náttúran.is).

Heimsk húsmóðir í Vesturbænum?

Í gær var sagt frá því á Vísi.is að Björn bóndi í Botni neitaði að hleypa kúnum sínum út úr vélmennafjósinu á sumrin, jafnvel þótt Matvælastofnun krefðist þess af honum. DV gerði sama máli ítarleg skil á vef sínum í dag og Egill Helgason afgreiddi það snaggaralega á Eyjublogginu. Á þessu máli eru margar hliðar, en sú sem mér þykir hvað áhugaverðust er hlið húsmóðurinnar í Vesturbænum. Mér skilst sem sagt á Birni bónda að húsmóðirin í Vesturbænum hafi ekki vit á því hvað sé kúnum fyrir bestu, og þess vegna sé öfugsnúið að hlaupa eftir duttlungum hennar. En kjarni málsins er sá, að jafnvel þótt húsmóðirin í Vesturbænum láti e.t.v. stjórnast af vanþekkingunni einni saman, þá er það hún sem ræður því hvaða mjólk hún kaupir, eða mun alla vega ráða því þegar upp er staðið.

Þessi pistill er ekki um velferð kúa
Já, það eru margar hliðar á þessu máli. Ein hliðin snýr að velferð kúnna. Ólafur Dýrmundsson telur það kúnum fyrir bestu að fá að fara út á sumrin. Ég veit að hann hefur sitthvað til síns máls. Sjálfur man ég vel lætin í kúnum í Gröf þegar þeim var hleypt út á vorin. Ég túlkaði þessi viðbrögð sem gleðilæti. Ein kýrin virtist líka hafa afskaplega gaman af því að vaða í öllum tiltækum vatnsföllum. Þá sýndist mér henni líða vel, þó að þessi árátta yrði henni nánast að aldurtila á heimleið úr langri gönguferð til nautsins á Brekku. Þetta hefði hún farið á mis við ef hún hefði staðið inni allt árið, hversu fínt sem fjósið hefði verið. En þessi pistill er ekki um velferð kúa, hann er um húsmóður í Vesturbænum.

Þessi pistill er ekki um hollustu mjólkur
Önnur hlið málsins snýr að hollustu afurðanna. Eins og Ólafur Dýrmundsson bendir réttilega á skiptir útiveran máli í því sambandi. Hægt er að vísa í ýmsar rannsóknir því til stuðnings. Þarna getur hlutfall gróffóðurs átt sinn þátt. Hærra hlutfall gróffóðurs á kostnað korns virðist stuðla að betri heilsu kúnna og hollari afurðum. Alla vega kom það út úr einhverri rannsókn í svonefndu QLIF-verkefni Evrópusambandsins sem ég kynnti mér einhvern tímann. En þessi pistill fjallar ekki um hollustu mjólkur, hann er um húsmóður í Vesturbænum.

Húsmóðirin ræður
Kjarni málsins er þessi: Húsmóðirin í Vesturbænum ræður hvað hún kaupir. Hvorki bændur né aðrir sem framleiða fyrir hana vörur eða veita henni þjónustu geta endalaust látið hana kaupa það sem þeim finnst að hún ætti að kaupa. Húsmóðirin í Vesturbænum ræður þessu af því að hún greiðir atkvæði, ekki bara í kjörklefanum einstaka sinnum, heldur líka með gafflinum sínum – og í Melabúðinni þegar hún ákveður að kaupa eina vöru í stað annarrar. Þá greiðir hún atkvæði með einni framleiðsluaðferð en hafnar annarri. Það getur vel verið að hún sé fáfróð. En hún ræður þessu samt.

Vesturbærinn er víða
Í dag er húsmóðurinni í Vesturbænum vandi á höndum, því að mjólkinni frá fjósinu í Botni og öðrum vélmenna- og innistöðufjósum er blandað saman við alla hina mjólkina. En húsmóðirin í Vesturbænum er ekki ein á ferð. Ég spái því að einn daginn muni húsmæður í Vesturbæjum þessa lands rísa upp og krefjast þess að fá að vita úr hvers konar fjósi mjólkin kemur. Og þá verður reyndar líka spurt um sitthvað fleira. Við þessu munu afurðastöðvar bregðast. Og að lokum munu þeir sem fannst öfugsnúið að hlaupa eftir duttlungum húsmóðurinnar sitja eftir með verðminni vöru.

Framleiðendur þurfa að bera virðingu fyrir húsmóðurinni í Vesturbænum. „Vesturbærinn er víða“.

(Myndin með þessum pistli er ekki tekin í Súgandafirði og tengist innihaldi pistilsins ekki beint).