• Heimsóknir

  • 119.039 hits
 • janúar 2012
  S M F V F F S
  1234567
  891011121314
  15161718192021
  22232425262728
  293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Fyrsta kennslubókin um hreyfiseðla

Út er komin í Svíþjóð fyrsta kennslubókin um notkun hreyfiseðla. Hreyfiseðlar eru ávísanir lækna á hreyfingu, sem getur eftir atvikum komið í stað lyfja eða minnkað þörfina fyrir þau.

Hreyfingarleysi er vaxandi vandamál sem eykur líkur á margs konar kvillum, með tilheyrandi kostnaði bæði fyrir heilbrigðiskerfið og viðkomandi einstaklinga. Áætlað er að um helmingur Svía hreyfi sig of lítið, og að u.þ.b. 1 af hverjum 10 sé í mikilli heilsufarslegri áhættu af þeim sökum. Fátt bendir til að ástandið sé betra á Íslandi.

Útgáfa hreyfiseðla þrefaldaðist í Svíþjóð milli áranna 2007 og 2010, en það ár voru gefnir út samtals 49.000 hreyfiseðlar þarlendis. Engu að síður telja yfirvöld heilbrigðismála að þessi aðferð sé enn verulega vannýtt, enda benda tölurnar hér að framan til þess að hátt í 1 milljón Svía búi við verulega heilsufarsáhættu vegna hreyfingarleysis.

Hugmyndin um hreyfiseðla felur í sér að hreyfing er notuð til lækninga og í fyrirbyggjandi skyni með sama hætti og önnur meðferð innan heilbrigðiskerfisins. Í Svíþjóð gerist þetta í grófum dráttum á eftirfarandi hátt:

 • Heilbrigðisstarfsfólk kannar hversu líkamlega virkur sjúklingurinn er, og ef hreyfingin er talin ófullnægjandi er viðkomandi tekinn í viðtal.
 • Í viðtalinu er farið yfir heilsufar sjúklingsins, áhættuþætti, hvers konar hreyfing væri æskilegust og félli sjúklingnum best í geð, og hversu tilbúinn sjúklingurinn sé til að breyta lífsháttum sínum.
 • Þegar náðst hefur samkomulag um hreyfinguna er hún skráð á hreyfiseðil, þar sem fram kemur hvers konar hreyfing skuli stunduð, hversu oft, hversu lengi í senn, hversu erfið hún skuli vera, og hvernig magnið skuli aukið jafnt og þétt.
 • Sjúklingur og heilbrigðisstarfsmaður koma sér saman um hvernig skuli fylgjast með framkvæmdinni og hversu oft.
 • Meðal algengra tegunda ávísaðrar hreyfingar má nefna gönguferðir, dans, hjólaferðir og garðvinnu, auk sérstakra æfinga einu sinni til tvisvar í viku til að auka styrk og þol.

Fyrirkomulagið er breytilegt eftir svæðum. Þannig hafa sum sveitarfélög stutt við verkefni af þessu tagi með ýmsum hætti, svo sem með niðurgreiðslum eða ríflegum afslætti af aðgangseyri líkamsræktarstöðva o.þ.h. Dæmi um þetta er að finna í bloggpistli mínum 11. febrúar 2011, þar sem sagt er frá fyrirkomulaginu í Landskrona.

Hreyfiseðlar hafa verið í umræðunni á Íslandi, en þó er ljóst að við erum langt á eftir frændum okkar hvað þetta varðar. Svo virðist sem íslenska heilbrigðiskerfið leggi aðaláherslu á að meðhöndla einkenni, en sinni lítt um orsakir þeirra.

(Þessi pistill er að langmestu leyti byggður á frétt á heimasíðu Lýðheilsustofnunar Svíþjóðar í gær. Myndin með pistlinum tengist honum hins vegar ekki beint. Hún er tekin í fjalla- og skemmtihlaupinu Þrístrendingi sl. sumar og gefur hugmynd um þau góðu áhrif sem útvist, hreyfing og góður félagsskapur hefur á geðheilsu og lífsgleði fólks).

Stóra saltmálið – Opinber rannsókn óskast

Ég á svolítið erfitt með að ná áttum í stóra saltmálinu. Þess vegna finnst mér gott að búa mér til lista yfir það sem ég veit um málið:

 1. Ölgerðin flutti inn iðnaðarsalt sem ekki var ætlað til matvælaframleiðslu.
 2. Ölgerðin seldi þetta salt til fjölmarga matvælaframleiðslufyrirtækja sem notuðu saltið í framleiðsluna sína.
 3. Ölgerðin komst upp með þetta árum saman – og hin fyrirtækin líka.
 4. Þetta salt var e.t.v. skaðlegra umhverfi og heilsu en annað salt.
 5. „Gert er gert og étið það sem étið er“. Sá skaði sem kann að hafa skeð verður ekki afturkallaður.

Það sem maður veit skiptir sjaldnast meginmáli. Það sem maður veit ekki er oftast mikilvægara. Svo er einmitt í þessu máli. Þess vegna finnst mér gott að búa mér til lista yfir það sem ég veit ekki um málið:

 1. Hverjir vissu að um væri að ræða salt sem ekki væri ætlað til matvælaframleiðslu?
 2. Hvenær vissu þeir það?

Málið er grafalvarlegt. Mesti alvarleikinn felst þó ekki í hugsanlegum heilsufarsáhrifum og heldur ekki í því að slagorðið „Egils salt og appelsín“ gæti orðið langlíft. Mesti alvarleikinn felst í því að við búum við ónýtt kerfi. Svona lagað á einfaldlega ekki að geta gerst. Hér birtist enn það grunnmein sem leiddi okkur inn í hrunið 2008.

Það er sjálfsögð krafa að gerð verði opinber rannsókn á þessu saltmáli með það að meginmarkmiði að fá svör við spurningunum tveimur hér að framan. Hafi einhverjir brugðist skyldum sínum með því að búa yfir þessari vitneskju en bregðast ekki við, þurfa þeir að sæta ábyrgð lögum samkvæmt. Þannig komum við í veg fyrir að svona „aulagangur“ endurtaki sig.

(Myndin með þessum pistli er tekin af heimasíðu RÚV).

Hlaupaannáll 2011 og markmið fyrir hlaupárið 2012

Þá er enn eitt hlaupaárið að baki og nýtt framundan, sem er meira að segja hlaupár í þokkabót. Á svona tímamótum er við hæfi að líta um öxl og rifja upp gang (eða hlaup) mála síðustu mánuði og setja sér ný markmið að glíma við á þeim næstu.

75% markmiðanna náðust
Fyrir ári síðan setti ég mér sex hlaupamarkmið fyrir árið 2011, eins og lesa má í þar til gerðum ársgömlum bloggpistli. Ég ætlaði sem sagt að 1) hlaupa a.m.k. 5 fjallvegi, 2) hlaupa a.m.k. 2 maraþonhlaup, (helst 3), 3) taka þátt í 7-tinda hlaupinu og Svalvogahringnum, 4) bæta mig í maraþoni og hálfmaraþoni, 5) hlaupa samtals a.m.k. 2.400 km á árinu og 6) hafa gleðina með í för í öllum hlaupum. Af þessum sex markmiðum náði ég fjórum og hálfu, eða 75%. Ég hljóp sem sagt 5 fjallvegi og 2 maraþonhlaup, tók þátt í 7-tinda hlaupinu en ekki Svalvogahringnum, bætti mig hvorki í hálfu né heilu maraþoni, hljóp samtals 2.428 km á árinu og var glaður allan tímann.

Best og skemmtilegast
Þegar ég lít til baka finnast mér fjórir viðburðir standa upp úr að öðrum ólöstuðum, þ.e.a.s. Þrístrendingur í júní, Hamingjuhlaupið og Trékyllisheiðin í júlí – og Jökulsárhlaupið í ágúst. Góður félagsskapur og góðar móttökur ráða þar mestu um.

Annállinn eins og hann leggur sig
Hlaupaárið 2011 var eitt það besta sem ég hef upplifað – og algjörlega áfallalaust. Meiðsli voru aldrei til ama, og í stórum dráttum gekk allt eins vel eða betur en til var stofnað. Reyndar var Reykjavíkurmaraþonið skelfing erfitt og árangurinn ekki eins góður og ég vonaði, en það jók bara reynsluna og telst alls ekki til áfalla.

Æfingar ársins
Æfingar gengu einkar vel fyrstu vikur árins. Magnið hafði farið hægt vaxandi frá því seint um haustið og sú stöðuga aukning hélst fram í febrúar. Var þá kominn í 60 km á viku. Hljóp m.a. 30 km eða þar yfir á hverri einustu helgi í janúar. Náði þá m.a. í fyrsta sinn að hlaupa Hvanneyrarhringinn (33 km) undir 3 klst., nánar tiltekið á 2:51:03, þrátt fyrir ísingu. Þetta varð líka langlengsti janúarmánuður lífs míns, samtals 256 km. 

Í febrúar losnaði aðeins um, nennti kannski ekki alveg að halda áfram að lengja vikurnar – og ekkert keppnishlaup framundan fyrr en í lok apríl. Langaði mikið til að hlaupa svo sem eitt maraþon í febrúar eða mars, enda fannst mér ég vera í einkar góðu standi til þess. Eftir á að hyggja „toppaði“ ég einfaldlega of snemma.

Í stuttu máli gengu allar æfingar eins og í sögu allt árið. Eftir á að hyggja hefði þó mátt vera meira um gæðaæfingar, þ.e.a.s. hóflega spretti og svoleiðis. Auk þess hægðist meira á mér yfir sumarið en ég ætlaði. Vegalengdirnar voru reyndar nægar. Til dæmis hljóp ég 322 km í júlí, sem var rúmlega 50 km lengra en nokkru sinni áður í einum mánuði. En um þessar mundir var frekar mikið um mjög löng hlaup með löngum hléum á milli. Þegar kom fram í ágúst var því formið aðeins farið að dala, og vikulöng hlaupalaus vinnuferð til Tékklands um miðjan mánuðinn bætti ekki úr skák. Raunin varð líka sú að ég hafði ekki nægt úthald í Reykjavíkurmarþonið. Tók svolitla dýfu eftir það, en áfram héldu þó æfingarnar jafnt og þétt. Um haustið fór ég að bæta fleiri intervalæfingum inn í, auk vikulegra styrktaræfinga í Íþróttamiðstöðinni að forskrift Kela frumburðar. Var ágætlega frískur í árslok, bjartsýnn á framhaldið og algerlega laus við allan líkamlegan krankleika, ef frá eru talin svolítil leiðindi í mjóbakinu. Hef fundið fyrir þeim síðan í júní 2010.

Eins og áður segir hljóp ég samtals 2.428 km á árinu, sem er það mesta á einu ári hingað til. Fyrra „metið“ var 2.170 km frá árinu 2009. Sumum kann að finnast þetta mikið, en allt er afstætt á þessum vettvangi. Á árinu 2011 skráðu 2.248 Íslendingar hlaupin sín í Hlaupadagbókina á hlaup.com. Þar af hlupu 85 lengra en ég. Ég hljóp alltaf eitthvað í hverri viku, enda nenni ég ekki að taka langar hvíldir og byrja svo aftur frá grunni. Síðast missti ég heila viku úr hlaupunum í byrjun febrúar 2010. Og til að koma enn fleiri tölum að, þá voru hlaupadagar árins samtals 158. Árið áður voru þeir 143 og árið þar áður 133. Hlýtur þetta ekki að vera merki um framför? Já, og mér sýnist að á árinu hafi ég verið 226 klst. og 35 mínútur á hlaupum. Það þýðir að hver kílómetri hefur tekið 5:36 mín. að meðaltali. Svoleiðis meðaltal segir reyndar ekki neitt, en tölur eru skemmtilegar.

Fjallvegahlaupin
Eins og fyrr segir hljóp ég 5 fjallvegi á árinu, að frátöldum þeim sem ég hafði hlaupið áður. Fyrsta viðfangsefnið var Skarðsheiðarvegurinn milli Leirársveitar og Skorradals, sem ég hljóp með góðum hópi í góðu veðri 21. júní. Það var skemmtilegt, og ekki spilltu veitingarnar í ferðalok upplifuninni. Viku seinna var ég aftur á ferð á svipuðum slóðum, nánar tiltekið á Síldarmannagötum milli Vatnshorns í Skorradal og Hvalfjarðarbotns. Þá var fylgdarliðið öllu þynnra, því að þar var ég einn á ferð. Lagði bílnum í Hvalfirði og byrjaði á að hlaupa norðuryfir til að geta svo hlaupið suðuryfir, sem var hið formlega fjallvegahlaup. Þriðja fjallvegahlaupið var yfir Trékyllisheiði úr Steingrímsfjarðarbotni norður í Trékyllisvík. Þetta var eitt af því skemmtilegasta sem ég gerði á árinu. Síðasti hluti leiðarinnar var reyndar frekar torfarinn, enda ekki hluti af neinni alfaraleið. Í Trékyllisvík beið hluti af fjölskyldunni minni, og úr þessu varð hin besta ferð! Tvö síðustu fjallvegahlaupin fór ég svo einn míns liðs á Norðausturlandi, fyrst bráðskemmtilega leið yfir Tunguheiði þvert yfir Tjörnes 8. ágúst, og síðan yfir Helkunduheiði daginn eftir, úr Þistilfirði til Finnafjarðar. Þetta voru síðustu dagar sumarleyfisins. Björk flutti mig milli staða á bílnum, borðaði með mér svið og beið mín hinum megin við fjöllin. Þetta varð því ágætis ferðalag, en Helkunduheiðin er fábreytt og lítið spennandi.

Blogghöfundur, Birkir Stefánsson og Ragnar Bragason á hjallanum sunnan við Glissu nyrst á Trékyllisheiði 18. júlí 2011 kl. 15:27. U.þ.b. 30,8 km að baki og ekki þreytumerki á nokkrum manni!

Sérverkefni
Á árinu tókst ég á við nokkur sérverkefni á hlaupunum. Man eftir fjórum slíkum í svipinn.

Fyrsta sérverkefnið var hinn árlegi Háfslækjarhringur, en sú hefð hefur skapast að ég hlaupi hann með nokkrum frískum Borgfirðingum á uppstigningardag. Hefðin varð til árið 2010 og er því ekki sú lengsta í veraldarsögunni. Hins vegar er lengri hefð fyrir því að ég hlaupi þennan sama hring í tíma og ótíma. Þetta tiltekna hlaup var þannig nr. 75 í röðinni hjá mér. Núna fórum við 6 saman og höfum aldrei verið fleiri. Hringurinn er 21,7 km heiman að frá mér og heim aftur. Hefðinni fylgi kjötsúpa að hætti Bjarkar að hlaupi loknu – og heitur pottur.

Næsta sérverkefni fólst í því að skokka frá Bifröst, tæplega 32ja km leið niður í Borgarnes 15. júní með Mömmunni (og hásininni), Klettinum, Mágkonunni og Maraþonmanninum, sem hlupu alla leiðina í kringum landið til styrktar krabbameinssjúkum börnum, undir yfirskriftinni „Meðan fæturnar bera mig“. Mér fannst sérlega gaman að taka ofurlítinn þátt í þessu frábæra framtaki, og frásagnir Signýjar voru uppáhaldslesefnið mitt meðan á þessu stóð.

Þriðja verkefnið var Þrístrendingur 25. júní, en hann var nú þreyttur öðru sinni. Þátttakendur voru 130% fleiri en árið áður, og eins og við mátti búast var þetta sérlega ánægjulegur dagur. Með smávegis aukaskokki tókst að teygja þennan dag í 42,2 km.

Loks var það svo Hamingjuhlaupið 2. júlí, frá æskuheimili mínu í Gröf í Bitru, yfir fjöll og dali stystu leið til Hólmavíkur, samtals tæpir 36 km. Við vorum 6 sem hlupum alla leiðina og komum afar hamingjusamir í tertuhlaðborð á Hamingjudögum á Hólmavík rétt fyrir kl. 9 um kvöldið. Nokkrir til viðbótar hlupu lengri og skemmri spotta af leiðinni. Þannig minnir mig að samtals hafi 16 hlauparar lagt að baki 5 km eða meira þennan dag. Þetta var 3. Hamingjuhlaupið, og er ekki annað en sjá en að hlaupið vaxi og hamingjan aukist ár frá ári.

Við gamla bæinn í Gröf í Bitru við upphaf Hamingjuhlaupsins 2011. Þaðan lögðu þessir hraustu hlauparar af stað upp úr kl. 16 laugardaginn 2. júlí 2001 áleiðis til Hólmavíkur, þar sem Hamingjudagar Á Hólmavík stóðu sem hæst. F.v. Gunnlaugur Júlíusson, Stefán Gíslason, Finnur Dagsson, Hafþór Benediktsson, Birkir Þór Stefánsson, Ingimundur Grétarsson og Guðmann Elísson. (Rögnvaldur Gíslason tók myndina).

Keppnishlaup
Í orði kveðnu eru keppnishlaup ekkert aðalatriði hjá mér. Hins vegar get ég svo sem viðurkennt að í mér blundar gamall keppnismaður, auk þess sem ég hef örlítið gaman af tölulegum samanburði. Nú, og svo æfi ég næstum alltaf einn, og fjallvegahlaupin, sem eru náttúrulega miðpunkturinn í þessu öllu saman, eru stundum ákaflega fámenn líka. Ein ástæðan fyrir því að mér finnst gaman að taka þátt í einu og einu almenningshlaupi er því sú að „þá hittir maður fleira fólk“, eins og einhver sagði einhvern tímann.

Á árinu 2011 urðu keppnishlaupin miklu fleiri en nokkru sinni fyrr – hvorki meira né minna en 12 stykki. Árið áður voru þau 8 og höfðu aldrei verið fleiri. Samtals eru þessi hlaup orðin 58 frá því að ég tók þátt í fyrsta götuhlaupinu 25. ágúst 1985. (Látið ykkur ekki detta í hug að ég hafi ekki haldið nákvæma skrá yfir þau öll)!

Tertuhlaupið í Flóanum (öðru nafni Flóahlaup Samhygðar) 9. apríl var fyrsta keppnishlaup ársins. Það gekk bara ágætlega. Alla vega leið mér miklu betur en árið áður og var um hálfri mínútu fljótari (10 km á 44:29 mín) þó að hvassviðrið væri engu minna. Terturnar brögðust líka betur en áður, (sem helgaðist einkum af góðu andlegu og líkamlegu ástandi mínu. Terturnar eru alltaf góðar)!

Næst var það svo Vormaraþon FM 30. apríl í slyddu og 0,5 stiga hita. Árangurslega var það líklega besta hlaupið mitt á árinu. Átti ekki von á neinu sérstöku, sérstaklega ekki í þessu fremur hráslagalega veðri. Var samt bara rúma mínútu frá mínu besta, á 3:18:23 klst. Viku seinna brá ég mér svo í Víðavangshlaup Íslands á Hvanneyri. Leit á það sem skyldu mína sem heimamanns. Þar voru hlaupnir 8 km um mela og móa, og þar upplifði ég það í fyrsta sinn (svo ég muni) að vera langsíðastur allra. Tíminn var svo sem alveg í lagi (35:44 mín), og svo einkennilegt sem það kann að hljóma var þetta í fyrsta sinn síðan 1974 sem ég kemst á pall á Íslandsmóti. Kom heim með brons (sem ég setti strax niður í skúffu).

Þann 11. júní var röðin komin að 37 km 7-tinda hlaupinu í Mosfellsbæ, sem er vafalítið eitt erfiðasta keppnishlaup á Íslandi. Mér gekk vel lengst af, en átti í miklum erfiðleikum með að brölta niður síðustu tindana. Bætti samt tímann minn frá því í hitteðfyrra um 8 mínútur, kom í mark á 4:33:32 klst. Eftir þetta sneri ég mér að sérverkefnum, alveg þangað til ég hljóp tíðindalítið 10 km Ármannshlaup 12. júlí á 43:19 mín.

Jökulsárhlaupið 6. ágúst var skemmtilegasta almenningshlaup ársins að mínu mati. Ég tók þátt í fyrsta Jökulsárhlaupinu 2004 og hafði hugsað mér að bæta tímann minn frá því hlaupi sæmilega. Það gekk eftir, ég sneiddi u.þ.b. korter af tímanum þrátt fyrir svolitla krampa í lokin – og kom í mark á 2:42:33 klst. Þessi hlaupaleið, 32,7 km frá Dettifossi niður í Ásbyrgi, er bara engu lík. Í þetta skipti fékk ég líka bestu móttökur í heimi á leiðarenda, þar sem lífsförunauturinn og annað fylgdarlið beið mín með nesti og andlega upplyftingu. Ég var líka nógu fljótur að jafna mig eftir þetta hlaup til að geta auðveldlega hlaupið fjallvegahlaup yfir Tunguheiði tveimur dögum síðar.

Jökulsárhlaupið var einstök skemmtun, en mest var þó gaman að koma í markið. (Ljósm. Sólrún Jónsdóttir)

Reykjavíkurmaraþonið 20. ágúst var 7. keppnishlaup ársins. Vikurnar á undan æfði ég lítið, og endaði það tímabil með vikulangri vinnuferð til Tékklands. Var ágætlega sprækur framan af hlaupi, en eftir rúma 30 km var orkan búin. Síðasti spölurinn var því talsverð raun, árangurinn nokkuð undir væntingum (3:20:21 klst) og alveg á mörkunum að gleðin entist í mark. En ég fékk góðan stuðning og góðar móttökur. Slíkt skiptir afar miklu máli á svona dögum!

Eftir RM var ég staðráðinn í að bæta um betur í Haustmaraþoninu. En mikið annríki í september gerði þá áætlun að engu, því að ég gat ekki æft eins og maraþonhlaupari. Hljóp um þessar mundir 5 km Sauconyhlaup 8. sept. á 20:59 mín með stífa kálfa, skemmtilegt 7 km Icelandairhlaup 15. sept. á 29:34 mín og fyrsta Poweradehlaupið mitt (10 km í þreifandi myrkri í Elliðaárdalnum) 13. okt. á 44:04 mín. Lét svo hálft maraþon nægja í Haustamaraþoninu 22. okt. Þetta var 10. hálfmaraþonið á ferlinum og tíminn sá næstbesti (1:33:16 klst). Hljóp loks 5 km Pump&Run hlaup við Hörpu 6. nóv. Þar náði ég reyndar besta 5 km tímanum mínum síðan um 1980, 20:15 mín. Enn vantar þó „herslumuninn“ á tímann minn frá Landsmótinu á Akranesi 1975.

Afrekaskráin
Afrekaskrár eru meðal helstu áhugamála minna í lífinu. Þess vegna tel ég nauðsynlegt að upplýsa að í lok ársins 2011 átti ég 221. besta maraþontíma Íslendings frá upphafi, en samtals hafði þá 1921 Íslendingur lokið maraþonhlaupi svo vitað væri. Staða mín á maraþonskránni minnir á stöðu ónefnds landsliðs á alþjóðlegum styrkleikalista að því leyti að á þessu eina ári hrundi ég niður um heil 29 sæti til viðbótar þeim 24 sem fallið nam árið 2010. Hlýtur þetta ekki að vera merki um afturför? Sé hins vegar litið á afrekaskrá ársins 2011 eina og sér, þá held ég að þar hafi ég þar verið í 58. sæti af öllum körlum og í 7. sæti í hópi þeirra sem orðnir eru fimmtugir.

Í heildina var þetta mikið maraþonár. Ég veit svo sem ekki hversu margir Íslendingar hlupu maraþon á árinu, en þó sýnist mér að 271 Íslendingur (karlar og konur) hafi hlaupið sitt fyrsta maraþon. Svo sýnist mér að 392 Íslendingar hafi sett persónulegt met í greininni 2011. Ætli það sé nokkuð fjarri lagi að giska á að alls hafi um 500 Íslendingar tekið þátt í maraþonhlaupi á þessu herrans ári?

Markmiðin 2012
Þá er komið að því að upplýsa um hlaupamarkmiðin mín fyrir hlaupárið 2012. Þau verða keimlík markmiðum nýliðins ár, eða nánar tiltekið eftirfarandi:

 1. Laugavegurinn undir 6 klst.
 2. A.m.k. sex fjallvegahlaup
 3. A.m.k. tvö maraþonhlaup
 4. Bæting í maraþoni
 5. Gleðin með í för í öllum hlaupum

Fyrsta markmiðið sker sig úr, því að það er ekki endurtekning á markmiðum fyrra árs. Ég hljóp Laugaveginn í fyrsta og eina skiptið 2007 á 6:41 klst. Sjálfsagt þarf ég að taka mig eitthvað saman í andlitinu (eða einhverju öðru) til að sneiða rúmar 40 mínútur af þeim tíma, en markmið þurfa að vera krefjandi – um leið og þau eru raunsæ. Nú, og eitthvað hlýtur manni að fara fram með aldrinum!

Þakkir
Mér finnst við hæfi að enda þennan stutta pistil á að þakka öllum þeim sem hafa stutt mig og umborið í þessu tímafreka tómstundagamni mínu. Eiginkonan Björk fær langmestar þakkir fyrir þolinmæðina, sonurinn Þorkell fyrir afar gagnleg skoðanaskipti og góð ráð og dæturnar Birgitta og Jóhanna fyrir skemmtilegheit og beina og óbeina aðstoð. Bestu þakkir fá líka allir þeir sem sýnt hafa fjallvegahlaupunum áhuga og slegist í för með mér í þeim eða í öðrum svipuðum ferðalögum. Með hverju ári fjölgar því skemmtilega fólki sem hlaupin hafa kynnt fyrir mér. Það er gaman að vera ég.

Hættuleg efni í snyrtivörum

Krabbameinsvaldandi og hormónatruflandi efni í snyrtivörum voru til umfjöllunar í opnugrein í norska dagblaðinu (Dagbladet) í dag. Þar var m.a. bent á að ýmsar snyrtivörur innihaldi efni á borð við parabena, tríklósan og síloksön, sem hugsanlega geta valdið alvarlegu heilsutjóni ef þau berast inn í líkamann.

Þetta eru svo sem ekki nýjar fréttir. En slæmu fréttirnar eru þær að fjölbreytni efnanna eykst jafnt og þétt, og að áhrifin koma ekki fram fyrr en eftir langan tíma þegar of seint er orðið að bregðast við. Í þokkabót getur skaðsemin magnast vegna samverkandi áhrifa fleiri efna, ekki bara efna í snyrtivörum heldur líka í byggingarvörum, plasti, íþróttafatnaði o.s.frv. Þetta er það sem kallað eru „hanastélsáhrif“ (e. Cocktail effect) og er stundum lýst með stærðfræðijöfnunni 0+0+0=7.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær, að núorðið er auðvelt að finna snyrtivörur sem eru lausar við þessi skaðlegu efni. Fljótt á litið er þetta kannski ekkert áhlaupaverk, því að innihaldslýsingar eru sjaldnast auðlesnar eða auðskildar. Hér koma umhverfismerkin til hjálpar, t.d. Norræni svanurinn. Í hillum verslana er auðvelt að finna Svansmerktar snyrtivörur til flestra nota. Eins og fram kemur á heimasíðu Svansins í Noregi í dag, geta þarlendir neytendur til að mynda valið á milli 250 tegunda af svansmerktum kremum, sápum og sjampóum. Sjálfsagt er úrvalið eitthvað minna á Íslandi, en þó er af nógu að taka núorðið, jafnvel þótt engar íslenskar snyrtivörur séu svansmerktar enn sem komið er. Hins vegar fer úrvalið af íslenskum lífrænt vottuðum snyrtivörum stöðugt vaxandi. Þær eru líka algjörlega lausar við þessi varasömu efni.

Í leitinni að umhverfisvottuðum og lífrænt vottuðum snyrtivörum er hægt að styðjast við grænu síðurnar á Náttúran.is. Þeir sem eru læsir á norsku geta líka haft mikið gagn af www.erdetfarlig.no.

Þessi pistill er aðallega byggður á frétt á heimasíðu Svansins í Noregi í dag.

Æfingaáætlun næstu vikna

Ég hef lítið bloggað um hlaup upp á síðkastið. Til að bæta úr þessum tilfinnanlega skorti hef ég ákveðið að upplýsa lesendur þessarar síðu um hlaupaáætlun næstu vikna.

Þessi tími ársins er frekar tíðindalítill hlaupatími, alla vega hvað mig varðar. Aðalviðfangsefnið er að halda sér í formi og undirbúa vorið og sumarið. Þá verða mörg skemmtileg hlaupaverkefni á dagskrá, eins og nánar verður greint frá í margra kílómetra löngum hlaupabloggum sem birt verða á næstu vikum. Ég býst við að fyrsta hlaupaverkefnið mitt á árinu, sem orð er á gerandi, verði þátttaka í Vormaraþoni Félags maraþonhlaupara, sem haldið verður í Reykjavík laugardaginn 21. apríl nk. Æfingaáætlun næstu vikna tekur mið af þessu.

Æfingaáætlunin er býsna einföld. Fyrstu viku ársins hljóp ég 45 km – og ætla að endurtaka það í vikunni sem í hönd fer. Síðan ætla ég að auka vikuskammtinn um 5 km aðra hvora viku. Með þessu áframhaldi verð ég kominn í 70 km á viku seint í mars. Til að ná þessum vikuskammti þarf a.m.k. 4 æfingar. Ein þeirra verður styrktaræfing sem miðar að því að byggja upp vanrækta kvið-, bak- og síðuvöðva. Önnur æfing verður intervalæfing, þ.e. endurteknir stuttir sprettir (100-600 m) með smáhvíld á milli. Hitt verða svo hlaupaæfingar. Lengsta hlaup vikunnar á að vera a.m.k. helmingur af heildarvegalengd viðkomandi viku.

Þetta var nú ekki flókið, en ætti samt að duga fyrir persónulegt met í vormaraþoninu, þ.e. ef veðrið verður sæmilegt.

Gleðidagur: Nú fæ ég loksins að vita það!

Í gær tók loksins gildi Reglugerð nr. 1038/2010 um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs, þ.e.a.s. hvað matvælin varðar. Upphaflega átti reglugerðin öll að taka gildi 1. september sl., en þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra frestaði gildistöku matvælahlutans á síðustu stundu fram til 1. janúar 2012, að því er virðist vegna þrýstings frá Jóni Geraldi Sullenberger, eiganda matvöruverslunarinnar Kosts og einhverjum fleiri innflytjendum og seljendum matvæla frá Bandaríkjunum.

Upplýsingar en ekki boð og bönn!
Ég held að einhverjir hafi misskilið þýðingu umræddrar reglugerðar. Málið snýst alls ekki um að banna sölu á erfðabreyttum matvælum, heldur aðeins um að upplýsa neytendur um það hvort tiltekin matvæli innihaldi erfðabreytt efni. Málið er því réttlætismál fyrir neytendur, hvort sem þeir vilja erfðabreytt á diskinn sinn eða ekki. Allir hljóta að vilja vita hvað þeir láta ofan í sig.

Íslendingar ekki lengur eftirbátar annarra Evrópuþjóða
Með gildistöku reglugerðarinnar hafa íslenskir neytendur loksins öðlast sama rétt og neytendur í öðrum löndum Evrópu hvað merkingar og rekjanleika erfðabreyttra matvæla varðar. M.a. þess vegna finnst mér gærdagurinn gleðidagur!!!

En samt finn ég engar merkingar
Það veldur mér reyndar pínulitlum áhyggjum að í könnunarferð í Nettó í Borgarnesi í dag fann ég ekki eina einustu matvöru sem innihélt erfðabreytt efni, svo séð væri. Þetta getur átt sér þrjár mismunandi skýringar:

 1. Matvörurnar sem ég skoðaði voru raunverulega allar lausar við erfðabreytt efni.
 2. Framleiðendur og seljendur hafa svikist um að merkja vörurnar.
 3. Gildistöku reglugerðarinnar hefur verið frestað aftur án þess að ég tæki eftir því.

Ég þykist nú þegar hafa útilokað þriðju og síðustu skýringuna með því að fletta í gegnum allar reglugerðir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins síðustu mánuði og til dagsins í dag. Hinar tvær þykja mér báðar ósennilegar. Ég veit með öðrum orðum ekki alveg hvað er hér á seyði.

Hvað getum við gert?
Neytendur sem hafa rökstuddan grun um að matvæli  sem ekki eru merkt samkvæmt framanskráðu innihaldi engu að síður erfðabreytt efni, ættu að biðja framleiðendur eða seljendur að leggja fram gögn sem staðfesta fjarvist slíkra efna, í samræmi við ákvæði reglugerðarinnar. Væntanlega geta heilbrigðisnefndir sveitarfélaga undir yfirumsjón Matvælastofnunar liðsinnt fólki hvað þetta varðar, en þessar stofnanir fara með eftirlit með því að ákvæðum reglugerðarinnar sé framfylgt.

Meira lesefni:
Bloggpistillinn Á morgun fæ ég að vita það 31. ágúst 2011
Bloggpistillinn Ísland er land þitt 1. september 2011