Í gær var sagt frá því á Vísi.is að Björn bóndi í Botni neitaði að hleypa kúnum sínum út úr vélmennafjósinu á sumrin, jafnvel þótt Matvælastofnun krefðist þess af honum. DV gerði sama máli ítarleg skil á vef sínum í dag og Egill Helgason afgreiddi það snaggaralega á Eyjublogginu. Á þessu máli eru margar hliðar, en sú sem mér þykir hvað áhugaverðust er hlið húsmóðurinnar í Vesturbænum. Mér skilst sem sagt á Birni bónda að húsmóðirin í Vesturbænum hafi ekki vit á því hvað sé kúnum fyrir bestu, og þess vegna sé öfugsnúið að hlaupa eftir duttlungum hennar. En kjarni málsins er sá, að jafnvel þótt húsmóðirin í Vesturbænum láti e.t.v. stjórnast af vanþekkingunni einni saman, þá er það hún sem ræður því hvaða mjólk hún kaupir, eða mun alla vega ráða því þegar upp er staðið.
Þessi pistill er ekki um velferð kúa
Já, það eru margar hliðar á þessu máli. Ein hliðin snýr að velferð kúnna. Ólafur Dýrmundsson telur það kúnum fyrir bestu að fá að fara út á sumrin. Ég veit að hann hefur sitthvað til síns máls. Sjálfur man ég vel lætin í kúnum í Gröf þegar þeim var hleypt út á vorin. Ég túlkaði þessi viðbrögð sem gleðilæti. Ein kýrin virtist líka hafa afskaplega gaman af því að vaða í öllum tiltækum vatnsföllum. Þá sýndist mér henni líða vel, þó að þessi árátta yrði henni nánast að aldurtila á heimleið úr langri gönguferð til nautsins á Brekku. Þetta hefði hún farið á mis við ef hún hefði staðið inni allt árið, hversu fínt sem fjósið hefði verið. En þessi pistill er ekki um velferð kúa, hann er um húsmóður í Vesturbænum.
Þessi pistill er ekki um hollustu mjólkur
Önnur hlið málsins snýr að hollustu afurðanna. Eins og Ólafur Dýrmundsson bendir réttilega á skiptir útiveran máli í því sambandi. Hægt er að vísa í ýmsar rannsóknir því til stuðnings. Þarna getur hlutfall gróffóðurs átt sinn þátt. Hærra hlutfall gróffóðurs á kostnað korns virðist stuðla að betri heilsu kúnna og hollari afurðum. Alla vega kom það út úr einhverri rannsókn í svonefndu QLIF-verkefni Evrópusambandsins sem ég kynnti mér einhvern tímann. En þessi pistill fjallar ekki um hollustu mjólkur, hann er um húsmóður í Vesturbænum.
Húsmóðirin ræður
Kjarni málsins er þessi: Húsmóðirin í Vesturbænum ræður hvað hún kaupir. Hvorki bændur né aðrir sem framleiða fyrir hana vörur eða veita henni þjónustu geta endalaust látið hana kaupa það sem þeim finnst að hún ætti að kaupa. Húsmóðirin í Vesturbænum ræður þessu af því að hún greiðir atkvæði, ekki bara í kjörklefanum einstaka sinnum, heldur líka með gafflinum sínum – og í Melabúðinni þegar hún ákveður að kaupa eina vöru í stað annarrar. Þá greiðir hún atkvæði með einni framleiðsluaðferð en hafnar annarri. Það getur vel verið að hún sé fáfróð. En hún ræður þessu samt.
Vesturbærinn er víða
Í dag er húsmóðurinni í Vesturbænum vandi á höndum, því að mjólkinni frá fjósinu í Botni og öðrum vélmenna- og innistöðufjósum er blandað saman við alla hina mjólkina. En húsmóðirin í Vesturbænum er ekki ein á ferð. Ég spái því að einn daginn muni húsmæður í Vesturbæjum þessa lands rísa upp og krefjast þess að fá að vita úr hvers konar fjósi mjólkin kemur. Og þá verður reyndar líka spurt um sitthvað fleira. Við þessu munu afurðastöðvar bregðast. Og að lokum munu þeir sem fannst öfugsnúið að hlaupa eftir duttlungum húsmóðurinnar sitja eftir með verðminni vöru.
Framleiðendur þurfa að bera virðingu fyrir húsmóðurinni í Vesturbænum. „Vesturbærinn er víða“.
(Myndin með þessum pistli er ekki tekin í Súgandafirði og tengist innihaldi pistilsins ekki beint).
Filed under: Sjálfbær þróun | Tagged: útivera, fjós, húsmóðir, kýr, mólk | 1 Comment »