• Heimsóknir

  • 119.010 hits
 • apríl 2012
  S M F V F F S
  1234567
  891011121314
  15161718192021
  22232425262728
  2930  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Úrgangur er gulls ígildi

Í einkar áhugaverðri skýrslu sem Evrópusambandið gaf út sl. mánudag er minnt á þau miklu verðmæti sem liggja í úrgangi. Skýrslan er eins konar framhald af yfirlýsingu sem framkvæmdastjórn sambandsins gaf út í september 2011, þar sem m.a. var sett fram sú sýn að árið 2020 verði alfarið litið á úrgang sem auðlind, en ekki sem vandamál sem brýnt sé að losna við. Í skýrslunni er m.a. bent á að 6 af ríkjum sambandsins hafi sýnt fram á það með fordæmi sínu að þessi sýn sé fyllilega raunhæf. Og málið snýst ekki bara um að nýta úrganginn betur, heldur líka um að byggja upp öflugt atvinnulíf og bæta hag þjóða.

Sex fyrirmyndarríki
Fyrirmyndarríkin 6 sem nefnd eru í skýrslunni eru Belgía, Danmörk, Þýskaland, Austurríki, Svíþjóð og Holland. Þessi ríki eiga það sameiginlegt að þar fer minna en 3% af heimilisúrgangi til urðunar. Þau 9 Evrópusambandsríki sem verst standa sig á þessu sviði grafa hins vegar meira en 75% af úrgangi sínum í jörð, og tapa þar með bæði dýrmætum auðlindum og atvinnutækifærum.

Í skýrslunni er rýnt sérstaklega í hvernig fyrirmyndarríkin 6 hafi náð þessum árangri. Þrjú lykilatriði virðast standa upp úr eftir þá skoðun:

 1. Skattlagning og/eða bann við urðun og brennslu.
 2. „Borgaðu þegar þú hendir“ – fyrirkomulag á gjaldtöku vegna úrgangs.
 3. Framleiðendaábyrgð, (sem þýðir væntanlega að til lengri tíma litið endurspeglast kostnaður við úrgangsmeðhöndlun í verði viðkomandi vöru).

Evrópusambandið hvetur aðildarríki sín til að fylgja fordæmi fyrirmyndarríkjanna 6, en þess er að vænta að fyrr en síðar verði aðferðir þeirra lögfestar í tilskipunum og reglugerðum sambandsins. Sömuleiðis er verið að skoða möguleika á að gera ábyrga meðhöndlun úrgangs að skilyrði fyrir tilteknum styrkjum úr sjóðum sambandsins.

Allir græða
Sem fyrr segir snúast úrgangsmálin ekki bara um að nýta auðlindir betur, heldur verður nýting úrgangs sífellt mikilvægari hluti hagkerfisins. Árið 2008 velti úrgangsgeirinn í Evrópu um 145 milljörðum evra og skapaði um 2 milljónir starfa. Reiknað er með að báðar þessar tölur muni hækka mjög verulega á allra næstu árum.

Takk pabbi (not)
Úrgangur er hráefni á villigötum og magn hráefna er takmarkað, rétt eins og stærð jarðarinnar, (þ.e.a.s. að undanskildum þeim hráefnum sem plöntur framleiða með ljóstillífun). Þess vegna þurfum við að nýta öll hráefni eins vel og framast er kostur. Annars sitja afkomendur okkar í súpunni, olíulaus og fosfórlaus og ég veit ekki hvað og hvað. Að óbreyttu hafa þessir afkomendur enga ástæðu til að þakka okkur forfeðrum sínum fyrir umhyggjuna. Þvert á móti munu þau hugsa okkur þegjandi þörfina fyrir að hafa sóað sameiginlegum auðlindum okkar og þeirra – og jafnvel grafið þær hálfnotaðar í jörð hist og her, eða skolað þeim til sjávar, þar sem engin leið er að endurheimta þær.

VIÐ ÞURFUM AÐ TAKA OKKUR SAMAN Í ANDLITINU!!!

(Auk þeirra heimilda sem tenglar eru á í textanum hér að framan, byggir þessi pistill á fréttatilkynningu Evrópusambandsins 16. apríl sl.).

Klæðskiptadagur

Laugardaginn 21. apríl nk. verður haldinn sérstakur klæðskiptadagur í rúmlega 60 bæjum og borgum í Svíþjóð. Þennan dag getur fólk mætt á tiltekin stað með nýleg föt sem það er orðið leitt á, fengið greitt fyrir þau í sérstakri klæðskiptamynt, og notað svo myntina til að greiða fyrir nýleg föt sem einhver annar er orðinn leiður á. Með þessu móti getur þetta sama fólk aukið lífsgæði sín meira en ella með þeim peningum sem það vinnur sér inn. Ef grannt er skoðað eykur það nefnilega ekki lífsgæði fólks að kaupa föt eða annan varning og grafa í jörð það sem það er orðið leitt á.

(Þessi pistill er byggður á frétt dagsins á heimasíðu sænsku náttúruverndarsamtakanna Naturskyddsföreningen, eftir ábendingu félaga Hans Nilsson. Myndin sem fylgir er hins vegar tekin beint úr íslenskum veruleika).

Hversu munu komandi kynslóðir þakka oss gjafir þær er vér þeim færum?

Of gott til að vera satt?

„Ef eitthvað er of gott til að vera satt, þá er það líklega ekki satt“. Þessa meginreglu lærði ég í skóla í útlöndum fyrir nokkrum árum. Pistillinn sem ég birti á bloggsíðunni minni í gær (1. apríl) var kannski dæmi um eitthvað sem var aðeins of gott til að vera satt. Þar var því haldið fram að dönskum vísindamönnum hefði tekist að láta tiltekna tegund brönugrasa, Bulbophyllum meraprilum, framleiða lífhvata sem drægi úr bensíneyðslu bíla um a.m.k. 40% þegar hann væri notaður sem íblöndunarefni. Og í þokkabót bjó ég til Fésbókarsíðu, þar sem áhugasamir gátu skráð sig til þátttöku í tilraunaverkefni til að prófa þetta úrvalsefni við íslenskar aðstæður. Hér með biðst ég velvirðingar á þessu annars sakleysislega aprílgabbi.

Plantan Bulbophyllum meraprilum er ekki til. Reyndar er ættkvíslin Bulbophyllum alveg rosalega mikið til. Innan hennar eru um 2.000 tegundir, sem gerir hana að „næst fjölmennustu“ ættkvísl plönturíkisins. Kannski hefði ég átt að láta plöntuna heita Bullophyllum meraprilum til að gefa gleggri vísbendingu. Mér fannst það samt spor í rétta átt að láta april koma fyrir í nafninu. Svo fannst mér líka óskaplega snjallt að tala um genið JOK e.1.4, sem minnir óneitanlega svolítið á Joke 1/4. Mig skortir nefnilega samviskuleysi til að ljúga almennilega að fólki, án þess að gefa jafnframt vísbendingar um illan ásetning minn.

Ég ætla að fjarlægja umræddan aprílgabbpistil af bloggsíðunni á næstu dögum. Það myndi nefnilega ekki draga úr samviskubiti mínu ef einhverjir saklausir netverjar myndu finna þessi ósköp á vafri sínu og nota sem heimildir í skólaritgerðir eða eitthvað þaðan af verra, grunlausir um mikilvægi dagsetningarinnar. Fésbókarsíðunni verður líka eytt.

Eins og fram kom í upphafi þessa pistils lærði ég meginregluna „Ef eitthvað er of gott til að vera satt, þá er það líklega ekki satt“ í skóla í útlöndum. Ég held að þessi meginregla hafi til skamms tíma ekki verið kennd í íslenskum skólum. Líklega varð HRUNIÐ m.a. einmitt þess vegna.