• Heimsóknir

  • 118.508 hits
 • febrúar 2012
  S M F V F F S
   1234
  567891011
  12131415161718
  19202122232425
  26272829  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Fjallvegahlaup 2012

Nú er löngu kominn tími til að kunngjöra fjallvegahlaupaáætlun ársins 2012. Reyndar sendi ég hana út á fjallvegahlaupapóstlistann minn fyrir allnokkru síðan, en hér birtist hún almenningi í fyrsta sinn. Ég geri fastlega ráð fyrir að þjóðin hafi beðið í ofvæni eftir þessu!
 
1. Kerlingaskarð í maí (Fjallvegahlaup nr. 25)
Kerlingaskarð á Snæfellsnesi verður fyrsta fjallvegahlaup sumarsins. Ég er enn ekki búinn að ákveða dagsetninguna endanlega, en líklega verður þetta seint í mánuðinum. Miðvikudagurinn 23. maí og laugardagurinn 26. maí hafa verið nefndir í þessu sambandi, en enn er allt galopið hvað þetta varðar – og allar ábendingar vel þegnar. Yfirleitt set ég fjallvegahlaupin á helgar, en vegna staðsetningar sinnar og hóflegrar vegalengdar er svo sem vel hægt að hlaupa Kerlingaskarð síðdegis á virkum degi. Þetta eru líklega um 17 km á aflögðum bílvegi, sem fer mest í 311 m hæð. Ég á eftir að ákveða hvort hlaupið verður til norðurs eða suðurs. Kannski er upplagt að hlaupa til norðurs og enda daginn á málsverði í Stykkishólmi. Þigg allar tillögur um þetta með þökkum.

2. Þrístrendingur, laugard. 23. júní
Nú verður Þrístrendingur hlaupinn í þriðja sinn – og sem fyrr lagt upp frá Kleifum í Gilsfirði. Þeir sem telja sig hægfara leggja væntanlega af stað kl. 10:30 árdegis, en þeir sem telja sig hraðskreiðari fara kl. 11:00. Frá Kleifum verður hlaupið norður Steinadalsheiði að Stóra-Fjarðarhorni við botn Kollafjarðar á Ströndum. Þangað eru um 19 km frá Kleifum. Við Stóra-Fjarðarhorn verður hópurinn sameinaður á ný og síðan hlaupið yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf og loks þaðan suður Krossárdal að Kleifum. Leiðin öll er rúmir 40 km, og á henni eru þrír fjallvegir. Þetta er samt ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu mínu, því að þessar leiðir hef ég allar farið áður. En þetta er upplagt æfinga- og skemmtihlaup í góðum félagsskap. Í fyrra fóru 16 manns alla leið og 7 til viðbótar einn eða tvo leggi af þremur. Hægt er að fræðast meira um þetta tiltæki og lesa ferðasöguna frá því í fyrra og í hitteðfyrra í samtímaheimildum. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag hlaupsins á sumri komanda verða birtar fljótlega.

3. Hamingjuhlaupið, laugard. 30. júní
Nú verður Hamingjuhlaupið þreytt í 4. sinn, en þar er ekki keppt við tímann heldur er keppst við að auka hamingju þátttakenda, svo og þeirra sem bíða eftir því að þeir skeri fyrstu sneiðina af tertunum á hinu heimsfræga hnallþóruhlaðborði Hamingjudaga á Hólmavík. Reyndar er ekki búið að ákveða fyrirkomulagið á tertuskurðinum, en hlaupaleiðin er löngu ákveðin, eins og sjá má á heimasíðu Hamingjudaganna. Hamingjuhlaupið hefst að þessu sinni við Árnes í Trékyllisvík að morgni dags. Hlaupið verður um Naustvíkurskörð til Reykjarfjarðar, áfram eftir veginum til Djúpuvíkur, þaðan um Trékyllisheiði að Bólstað við botn Steingrímsfjarðar og loks eftir veginum síðasta spölinn til Hólmavíkur. Alls eru þetta á að giska 53 km, og líklega verða teknar í þetta 7-8 klst. Drög að tímaáætlun eru komin inn á fyrrnefnda Hamingjudagasíðu. Hægt er að rifja upp hamingjuhlaup fyrri ára með lestri viðeigandi bloggpistla frá 2011, 2010 og 2009. Hamingjuhlaupið er orðið árvisst, en það er svo sem ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu. Nánari upplýsingar um hlaupið verða birtar þegar nær dregur.

4. Laugavegurinn, laugard. 14. júlí
Laugavegurinn er ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu, en ég nefni hann samt hér til þess að ég muni örugglega eftir að hlaupa hann.

5. Snjáfjallahringur, laugard. 28. júlí (Fjallvegir nr. 26, 27 og 28)
Þennan laugardag ætla ég að hlaupa þrjá fjallvegi norðan Ísafjarðardjúps, nánar tiltekið í fyrsta lagi frá Unaðsdal, út Snæfjallaströnd og yfir Snæfjallaheiði til Grunnavíkur (um 29 km), í öðru lagi frá Grunnavík um Staðarheiði inn í Leirufjörð (um 18 km) og í þriðja lagi yfir Dalsheiði úr Leirufirði að Unaðsdal (um 15 km). Samtals er þetta því ágætis dagleið, eða samtals á að giska 62 km. Upplagt er að skella sér í góða útilegu við Dalbæ (rétt hjá Unaðsdal) í tengslum við þetta, en þar er tjaldsvæði og ýmiss önnur þjónusta – og margt að skoða í nágrenninu fyrir fylgdarfólk sem ekki hugnast svona dagleiðir. Snæfjallaheiðin og Staðarheiðin koma mjög við sögu í „Harmi englanna“ eftir Jón Kalman Stefánsson, að vísu undir öðrum nöfnum. Því er mælt með lestri þessarar bókar (og hinna tveggja í þríleik Jóns) áður en hlaupið er af stað.

Lengra er ég ekki kominn í skipulagningunni. Samt inniheldur þessi upptalning bara fjóra nýja fjallvegi. Þyrfti helst að ná tveimur í viðbót til að komast upp í 30 samtals. Allar tillögur eru vel þegnar! Á svo sem slatta af hugmyndum á fjallvegahlaupasíðunni minni. Þetta er bara spurning um val (af þeim lista eða öðrum) og hentugar tímasetningar.

Öllum er velkomið að taka þátt í þessu tómstundagamni með mér. Í fjallvegahlaupunum er engin keppni, engin tímataka (umfram það sem hver og einn ákveður fyrir sjálfan sig), engin þátttökugjöld, engar drykkjarstöðvar nema í ám og lækjum, engin öryggisgæsla – og bara yfirleitt ekkert nema góður félagsskapur og íslensk náttúra. Og þeir sem slást í hópinn gera það alfarið á eigin ábyrgð.

Heimasíða fjallvegahlaupaverkefnisins er www.fjallvegahlaup.is.

Þarna lauk fjallvegahlaupum síðasta árs, í Finnafirði, að loknu hlaupi nr. 24.

Rotvarin brjóst?

Parabenar sem notaðir eru sem rotvarnarefni í snyrtivörur o.fl., geta safnast fyrir í brjóstum kvenna. Þetta kom í ljós í breskri rannsókn sem sagt var frá í nýjasta tölublaði tímaritsins Journal of Applied Toxicology. Rannsóknin náði til 40 kvenna sem allar höfðu gengist undir skurðaðgerð vegna krabbameins í brjóstum. Ein eða fleiri tegund parabena fannst í brjóstum allra kvennanna.

Menn hafa lengi velt fyrir sér hugsanlegum skaðlegum heilsufarsáhrifum parabena. Líkur eru á að þessi efni trufli hormónastarfsemi líkamans, m.a. með því að líkja eftir áhrifum estrógena. Og þar sem estrógen eiga sinn þátt í sumum gerðum brjóstakrabbameina liggur beint við að ætla að parabenar hafi stuðlað að þessum 40 krabbameinstilfellum. Rannsóknin gefur þó ekki tilefni til slíkra ályktana, enda var henni ekki ætlað að kanna þetta samhengi. Niðurstaðan er bara sú að parabenar höfðu borist í líkama viðkomandi kvenna og sest fyrir í brjóstunum. Rannsóknin snerist ekki heldur um það hvernig parabenarnir hefðu komist í brjóstin, að öðru leyti en því að kannað var hvort samhengi væri á milli styrks parabena og notkunar svitalyktareyðis. Ekki tókst að sýna  fram á slíkt samhengi, enda finnast parabenar í fleiri vörum, bæði í öðrum snyrtivörum, matvælum og klæðnaði.

Þótt ekki þyki sannað að parabenar eigi þátt í brjóstakrabbameini hlýtur að vera ráðlegt að fara að öllu með gát, enda næsta víst að parabenar sem ekki berast inn í líkamann valda engum skaða þar. Því er þjóðráð að forðast vörur sem innihalda þessi efni.

En parabenar eru ekki einu varasömu efnin í neytendavörum. Einfaldasta leiðin til að forðast efni af þessu tagi í snyrtivörum er að velja vörur sem vottaðar eru með Norræna svaninum og áreiðanlegum astma- og ofnæmismerkjum. (Blái kransinn í Danmörku er dæmi um slíkt merki). Hvað matvæli varðar ætti að forðast vörur sem innihalda aukefnin E214, E215, E218 og E219, en þar er einnig um parabena að ræða.

Síðast en ekki síst er mikilvægt að hafa í huga að öll efni sem borin eru á húðina eiga góða möguleika á að dreifast um líkamann fyrr en síðar.

(Byggt á frétt á heimasíðu Forbrugerkemi 15. febrúar sl).

Að búa til kjöt úr engu

Í kvöldfréttum Ríkissjónvarpsins var sagt frá tilraunum vísindamanna til að rækta kjöt í tilraunaglösum. Ég hef reyndar heyrt eða séð nokkrar svipaðar fréttir síðustu daga og vikur. Ætli þetta hafi ekki verið sú fjórða. Innihald fréttanna er allrar athygli vert, en mér þykir þó athyglisverðast að í engri þessara fjögurra frétta var minnst orði á hráefnin í framleiðsluna.

Almennt er okkur óhætt að gera ráð fyrir því að efni hvorki myndist né eyðist, heldur skipti það bara um form. Kjöt er engin undantekning hvað það varðar. Það er afrek út af fyrir sig að fá dýrafrumur til að skipta sér nógu oft og með þeim hætti að þær raðist saman í nothæfan vef. En til þess að vefurinn vaxi, þ.e. auki massa sinn og verði að álitlegu kjötstykki, þarf bæði efni og orku. Þess vegna er augljóslega ekki hægt að gæða sér á hamborgara úr tilraunastofukjöti „án þess að hafa náttúruspjöll á samviskunni“, eins og það var orðað í sjónvarpsfrétt kvöldsins. Náttúruspjöllin verða alltaf einhver, þó að þau geti fræðilega séð verið minni en við verksmiðjuframleiðslu á kjöti eins og nú tíðkast. Hins vegar verða þau fræðilega séð meiri heldur en við framleiðslu á sama magni af jurtafæðu, því að dýrafrumur hafa ekki þann eiginleika plöntufrumna að geta ljóstillífað, þ.e. búið til lífrænt efni (fæðu eða annað) úr vatni og koltvísýringi einu saman. Væntanlega þarf að nota lífrænt efni úr plöntum til að rækta kjötið, og við það tapast alltaf einhver orka. Þess vegna verður alltaf hagkvæmara frá umhverfislegu sjónarmiði að halda sig við jurtafæðið.

Hér eru sem sagt bæði góðar og slæmar fréttir á ferð. Góða fréttin er sú að framfarir í vísindum geta nýst til góðra verka. Slæma fréttin er sú að þetta er ekki alveg eins umhverfisvænt og það hljómar. Kannski finnst einhverjum líka slæmt að það skuli kosta einhvern 40 milljón kall að framleiða fyrsta hamborgarann. Mér finnst hins vegar verstur skorturinn á gagnrýnni hugsun sem endurspeglast í því að hver fréttaveitan af annarri flytur frétt sem þessa án þess að spyrja hvaðan hráefnið í framleiðsluna eigi að koma.

(Farið er örlítið (en ekki mikið) dýpra í málið t.d. á http://news.discovery.com/tech/test-tube-hamburger-120220.html og http://www.mirror.co.uk/news/world-news/would-you-eat-a-frankenburger-made-692349).

Þurfa Kópavogsbúar meirihluta?

Bæjarstjórnarfólk í Kópavogi leggur mikið á sig þessa dagana við að koma saman nýjum meirihluta eftir að meirihluti bæjarstjórnar „sprakk“ fyrir nokkru síðan. En er allt þetta erfiði nauðsynlegt? Ég held ekki. Kópavogsbúar geta að mínu mati vel lifað án þess að formlegur meirihluti sé starfandi í bæjarstjórn. Og tíma bæjarstjórnarfólks væri betur varið í margt annað en meirihlutaviðræður. Sjálfsagt bíða mörg mál afgreiðslu – og ekkert því til fyrirstöðu að afgreiða þau bara strax.

Stórlega ofmetið fyrirbæri
Ég er almennt þeirrar skoðunar að formlegur meirihluti í sveitarstjórnum sé stórlega ofmetið fyrirbæri. Í sveitarstjórnarlögum er hvergi minnst á þetta fyrirbæri, þannig að ekki kemur krafan um meirihlutaviðræður þaðan. Mér er næst að halda að sú trú að nauðsynlegt sé að mynda meirihluta eigi annað hvort rætur í einhvers konar minnimáttarkennd sem fær menn til að reyna að líkja eftir stóra bróður, þ.e.a.s. Alþingi, eða þá í tiltölulega ómeðvitaðri viðleitni til að taka umræðu um það sem máli skiptir út úr sviðsljósinu. Þá er hægt að ná niðurstöðu í helstu mál á „sellufundum“ bak við luktar dyr, en gera sveitarstjórnarfundina að málfundum þar sem menn geta sýnt almenningi mælsku sína.

Lýðræðishalli
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum gildir einfaldur meirihluti við afgreiðslu velflestra mála á sveitarstjórnarfundum. Þar stendur hins vegar hvergi að menn þurfi að vera búnir að afgreiða mál áður en fundirnir hefjast með því að ákveða fyrirfram og jafnvel til langs tíma hvernig atkvæði skuli falla. Auðvitað er ekkert í lögunum heldur sem bannar formlegt meirihlutasamstarf. Mér finnst bara ástæða til að gjalda varhug við þeim lýðræðishalla og skorti á gagnsæi sem getur falist í ákvörðunum meirihluta utan sveitarstjórnarfunda.

Hvernig rekur maður þá bæjarstjóra?
Nú, en hvernig eiga menn þá að koma sér saman um hvort eða hvernig eigi að ráða eða reka bæjarstjóra, en það skilst mér að hafi sett þessa meirihlutahringekju af stað í Kópavogi? Svarið við þessu er ekkert flókið, enda stendur það nokkuð skýrum stöfum í sveitarstjórnarlögunum. Sveitarstjórn ræður einfaldlega framkvæmdastjóra – og rekur hann þá væntanlega líka ef ástæða þykir til. (Það stendur hvergi að meirihlutinn eigi að gera það, hvað þá einstakir sveitarstjórnarmenn)! Þetta þýðir að ef einhvern í bæjarstjórninni langar til að bæjarstjórinn verði rekinn, þá ber sá hinn sami bara upp tillögu um það. Tillagan er rædd á fundi og síðan tekið fyrir í atkvæðagreiðslu þar sem meirihluti atkvæða ræður. Ef tillagan er felld, þá situr bæjarstjórinn áfram og einhverjir bæjarstjórnarmenn verða að játa sig sigraða, rétt eins og gerist eftir flestar atkvæðagreiðslur. Sé tillagan hins vegar samþykkt eru tillögur um það hvernig skuli staðið að ráðningu nýs bæjarstjóra og síðan um það hver skuli ráðinn afgreiddar á sama hátt.

Við hvað eru menn hræddir?
Ég hef aldrei skilið hvers vegna fólk þarf að vera svona hrætt við að ræða og afgreiða mál fyrir opnum tjöldum án þess að vita niðurstöðuna fyrirfram. Þetta minnir á orð sem ónefndur oddviti austur á landi á að hafa látið falla þegar honum fundust menn vera orðnir heldur langorðir á hreppsnefndarfundi: „Eigum við ekki að fara að koma okkur að því að samþykkja það sem búið var að samþykkja að samþykkja hér í kvöld“?

(Sjá einnig bloggpistil frá 21. júní 2010).