• Heimsóknir

  • 119.010 hits
 • mars 2012
  S M F V F F S
   123
  45678910
  11121314151617
  18192021222324
  25262728293031
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Þrístrendingur 23. júní 2012

Laugardaginn 23. júní nk. verður fjalla- og skemmtihlaupið Þrístrendingur haldið í þriðja sinn. Þarna verður ekki keppt við tímann heldur miklu frekar keppst við að njóta dagsins og félagsskaparins. Hlaupið er öllum opið og þátttakendur velja alveg sjálfir hvort þeir hlaupa alla leiðina eða bara einn eða tvo áfanga af þremur. Þetta verður sem sagt afar óformlegt og galopið hlaup, og um leið skemmtileg hlaupaæfing og tilbreyting frá daglegu amstri. Í fyrra tóku rúmlega 20 manns þátt í þessu ævintýri og margt bendir til ört vaxandi þátttöku. Þess vegna er óskað eftir því að fólk skrái sig (sjá upplýsingar neðst í þessari færslu), því að aðstandendur hlaupsins þurfa að skipuleggja tvö eða þrjú smáatriði þar sem fjöldinn skiptir máli.

Aðstandendur
Aðstandendur hlaupsins eru allir þeir sem taka þátt í því, en þó aðallega frændurnir Dofri Hermannsson frá Kleifum í Gilsfirði og Stefán Gíslason frá Gröf í Bitrufirði. Eins og ráða má af því sem hér fer á eftir, liggur leiðin einmitt um æskuslóðir þessara frænda.

Fyrsti áfangi: Steinadalsheiði
Hlaupið hefst á hlaðinu á Kleifum í Gilsfirði laugardaginn 23. júní eins og fyrr segir. Þeir sem telja sig frekar hægfara leggja af stað kl. 10:30, en þeir sem telja sig fljótari í förum leggja af stað kl. 11:00. Þegar heimreiðin að Kleifum er að baki er beygt til hægri, hlaupinn smáspölur fyrir botn Gilsfjarðar og svo aftur beygt til hægri upp á Steinadalsheiði. Vegurinn yfir heiðina fer mest í 330 m hæð við Heiðarvatn. Þegar komið er niður af heiðinni að norðanverðu liggur leiðin yfir tvær ár, sem stundum er hægt að stikla yfir, en sjaldnast þó þurrum fótum. Leiðin liggur framhjá bæjunum Steinadal, Miðhúsum og Felli og skömmu síðar er komið niður á aðalveginn við botn Kollafjarðar. Þar er enn beygt til hægri og hlaupinn smáspölur fyrir fjarðarbotninn, framhjá bænum Undralandi. Þessum fyrsta hluta hlaupsins lýkur við heimreiðina að Stóra-Fjarðarhorni, en þangað eru 19-20 km frá Kleifum. Í ljósi reynslunnar má ætla að allir verði komnir að Stóra-Fjarðarhorni um kl. 13:00. Þar verður áð og stefnt að því að allir leggi samtímis upp í næsta áfanga.

Annar áfangi: Bitruháls
Frá Stóra-Fjarðarhorni liggur leiðin skáhallt upp hlíðina um þúfur og móa þar til komið er á gamla hestagötu. Henni er fylgt upp á Bitruháls, sem fer mest í u.þ.b. 380 hæð í svonefndum Skörðum,og áfram niður með Grafargili að bænum Gröf, þar sem Arnheiður húsfreyja og Rögnvaldur bóndi taka á móti hópnum með kaffi og pönnukökum fyrir þá sem vilja. Leiðin yfir hálsinn er tæpir 10 km. og líklegt að ferðalagið þar yfir taki a.m.k. einn og hálfan klukkutíma. Því má reikna með að hópurinn verði í Gröf um kl. 15:00.

Þriðji áfangi: Krossárdalur
Eftir hæfilega áningu í Gröf hefst endaspretturinn niður túnið og áfram inn Krossárdal, framhjá bæjunum Árdal og Einfætingsgili. Þangað er prýðilegur bílvegur, en innar í dalnum tekur við jeppafær slóði og síðan mýrar og móar. Leiðin suður dalinn (það er alltaf talað um að fara suður Krossárdal þó að leiðin liggi í raun í vestur) fer mest í 240 m hæð við Krossárvatn. Áfram er haldið með vatnið á vinstri hönd og áfram eftir hestagötum þar til komið er fram á klettabrún fyrir ofan Kleifar. Þaðan blasir Gilsfjörðurinn við. Loks liggur leiðin niður bratt og fremur laust einstigi sem nefnist Hafursgata. Þegar henni sleppir er ekkert eftir nema mjúkt graslendi heim að Kleifum. Leiðin þangað frá Gröf er rúmlega 11 km. Ekki er ósennilegt að flestir verði komnir að Kleifum um kl. 17:00. Annars skipta tímasetningar engu máli og eru bara settar fram hér til viðmiðunar.

Tímataka og veitingar
Engin formleg tímataka verður í hlaupinu, heldur notar hver og einn nærtækar klukkur eða dagatöl eftir því sem færi gefst. Drykkjarstöðvar verða hins vegar við hvern læk. Þær eru ómannaðar, nema drykkjarstöðin í Gröf, þar sem búið verður að hella upp á kaffi eins og fyrr segir. Að hlaupi loknu verður boðið upp á grillaðstöðu á Kleifum svo að hlauparar geti fengið sér eitthvað bitastætt áður en þeir skella sér aftur heim, nú eða í heita pottinn á Reykhólum sem er auðvitað besti endirinn á svona degi. Eins er upplagt að lengja ferðina og finna sér hentugan gististað nóttina eftir hlaup.

Smáa letrið
Þrístrendingur er í senn þriggja stranda hlaup, þriggja sýslna hlaup og þriggja fjallvega hlaup. Lagt er upp í Dalasýslu og komið við í Austur-Barðastrandarsýslu og Strandasýslu, áður en dagsverkinu lýkur í Dalasýslu á ný. Og svo koma strendur Gilsfjarðar, Kollafjarðar og Bitrufjarðar við sögu, þó að ekki verði endilega farið niður í allar tiltækar fjörur. Þeir sem taka þátt í hlaupinu gera það á eigin ábyrgð.

Lesefni og nánari upplýsingar
Hægt er að fá hugmynd um inntak og eðli Þrístrendings með því að skoða eftirfarandi síður:
Þrístrendingur 2010: Frásögn en engar myndir   
Þrístrendingur 2011: Frásögn og myndir
Fjallvegahlaup.is: Leiðarlýsing Steinadalsheiði
Fjallvegahlaup.is: Leiðarlýsing Bitruháls
Fjallvegahlaup.is: Leiðarlýsing Krossárdalur (í „öfuga átt“)
Síðast en ekki síst er ástæða til að benda á Fésbókarsíðu Þrístrendings 2012. Fésbókarsíðan er hin eiginlega miðstöð undirbúningsins, því að þar fara fram skoðanaskipti og hvers kyns spjall um hlaupið. Þeir sem hafa áhuga á að vera með eru vinsamlegast beðnir að skrá sig þar.

Allar nánari upplýsingar veita
Dofri Hermannsson, dofrihermannsson[á]gmail.com og
Stefán Gíslason, stefan[á]environice.is.

Þetta kort gefur hugmynd um leiðina, en á Fésbókarsíðunni er annað kort, örlítið nákvæmara.

Þessi mynd var tekin við upphaf hlaupsins í fyrra: