• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • júní 2012
    S M F V F F S
     12
    3456789
    10111213141516
    17181920212223
    24252627282930
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Útskriftarræða 2011

Fyrir tæpu ári hélt ég ræðu við útskrift stúdenta í Menntaskóla Borgarfjarðar. Einhverjar hugmyndir voru uppi um að birta ræðuna kannski einhvers staðar, en það fórst fyrir. En í tilefni af því að þessa dagana er einmitt verið að útskrifa stúdenta út um allt land, datt mér í hug að birta þessa ársgömlu ræðu bara núna. Hún fer hér á eftir:

Ágætu útskriftarnemar/nýstúdentar, skólameistari, kennarar og gestir,

Núna fyrir nokkrum dögum gleymdi ég að halda upp á að þá voru liðin 35 ár síðan ég ústkrifaðist sjálfur sem stúdent. Og nú gæti ég sem best notað næstu mínútur til að segja ykkur frá því hvernig lífið var á þeim árum, ég gæti sagt ykkur frá því hvaða tækifæri biðu nýútskrifaðra stúdenta vorið 1976, ég gæti hvort heldur sem er haldið því fram að allt hefði verið betra í gamla daga, eða talað um hvað ég hafi nú verið óheppinn að útskrifast fyrir daga æpoda, æpada, æfóna og æcláda, sem sagt hvað ég hafi verið óheppinn að útskrifast allt of snemma til að geta notið allra tækifæranna sem bíða ykkar eftir daginn í dag, (án þess að ég ætli nú að halda því fram að þau tækifæri byggist öll á þessum tilteknu græjum sem ég var að enda við að nefna).

En ég ætla ekkert að tala um hvernig allt var fyrir 35 árum og hvernig allt er núna. „Gert er gert og étið það sem étið er“, eins og segir í heimsbókmenntunum. Á degi eins og í dag þurfum við ekki að gleyma okkur í samanburði við fortíðina. Við þurfum bara að njóta stundarinnar sem ER og hugsa svo um viðfangsefnin sem bíða okkar í framtíðinni. Og þá segi ég okkar en ekki ykkar, vegna þess að það skiptir engu máli hver útskrifaðist 35 árum á undan einhverjum öðrum. Það sem skiptir máli er að á morgun byrjar framtíð okkar allra – og hana þurfum við að móta í sameiningu?

Nú er von að spurt sé: Af hverju þurfum við að móta framtíðina? Kemur hún ekki bara hvort sem er? Og ráðum við einhverjum um það hvernig hún verður? Svörin við þessu eru einföld: Við þurfum að móta framtíðina, af því að við viljum að hún verði góð, bæði fyrir okkur sjálf og þá sem á eftir okkur koma. Og, jú, vissulega kemur framtíðin hvort sem er, það er að segja hvort sem við tökum þátt í að móta hana eða ekki. En tilfellið er að við ráðum miklu um það hvernig þessi framtíð verður. Og þess vegna eigum við að taka virkan þátt í að móta hana, í staðinn fyrir að láta öðrum það eftir á meðan við sýslum við eitthvað annað!

Og þá er von að spurt sé aftur: Hverju ráðum við svo sem um þessa framtíð? Hvert okkar um sig er jú bara einn einstaklingur af þessum 7.000 milljón einstaklingum sem búa á þessari jörð. Hvert okkar um sig er bara dropi í stóru hafi. En gleymum því ekki að án dropanna væri ekkert haf.

Ef okkur líkar ekki hvernig heimurinn er, þá eigum við að breyta honum. Það er einmitt verkefnið sem bíður okkar á morgun, og alla dagana, vikurnar, mánuðina og árin sem í hönd fara. Ef ég hefði fylgt útskriftarræðuformúlunni, þá hefði ég náttúrulega sagt að þið ættuð að breyta heiminum, af því að þið eigið að erfa landið. Útskriftarræðuformúlan er nefnilega skrifuð fyrir miðaldra hvíta karlmenn eins og mig, sem vilja vera stikkfrí, þykjast vera orðnir gamlir hundar sem er erfitt að kenna að sitja og þykjast mega liggja á meltunni á meðan unga fólkið reynir að bæta fyrir það sem þessir sömu miðaldra hvítu karlmenn hafa klúðrað. En, nei, ég er sem sagt ekki stikkfrí þó að ég sé búinn að halda upp á 35 ára stúdentsafmælið mitt, eða hafi öllu heldur gleymt að halda upp á það. Ef okkur líkar ekki hvernig heimurinn er, þá er það sameiginlegt verkefni okkar allra að breyta honum. Og það er mér mikið gleðiefni að fá tækifæri til að bjóða ykkur velkomin í hópinn. Þið verðið góðir liðsmenn – og verkefnin eru næg.

Og þá er von að enn sé spurt: Hverju getum við svo sem breytt, svona fá og smá í svona stórum heimi? Svarið við þessari spurningu er fólgið í kínverskum málshætti sem ég rakst einhvers staðar á: „Mörg lítil verk sem margt lítið fólk vinnur á mörgum litlum stöðum, geta breytt heiminum“.

Ég þekki þrjá bræður sem heita Einhver, Sérhver og Hversemer. Þegar eitthvað þarf að gera eða einhverju þarf að breyta, þá fáum við þá gjarnan í verkið. En reynslan hefur sýnt að það er ekkert á þessa þrjá bræður að treysta. Einhver, Sérhver og Hversemer gera nefnilega sjaldnast nokkuð af því sem við viljum að þeir geri. Þá er það fjórði bróðirinn sem gengur í verkið – án þess að hika – og án þess að kvarta. Þessi fjórði bróðir heitir Enginn.

Sagan af bræðrunum fjórum minnir okkur á það, að ef við viljum að eitthvað breytist, þá verðum við sjálf að gera eitthvað í því. Þannig höfum við áhrif. Ef við viljum að eitthvað breytist þýðir ekkert að liggja í fýlu heima og bíða eftir að Einhver, Sérhver eða Hversemer gangi í verkið. Ef við viljum að eitthvað breytist, þá verðum við sjálf að vera breytingin, eins og Mahatma Gandhi orðaði það á sínum tíma.

Við getum breytt, vegna þess að við ráðum, vegna þess að við erum kjósendur. Við kjósum ekki bara í kjörklefanum í alþingiskosningum, sveitarstjórnarkosningum, forsetakosningum, þjóðaratkvæðagreiðslum og hvað þetta nú heitir allt saman. Við kjósum á hverjum degi, til dæmis í Nettó, í Bónusi og við eldhúsborðið heima hjá okkur. Þegar við stöndum frammi fyrir búðarhillu og ákveðum að velja vöruna í bláa pakkanum en ekki vöruna í rauða pakkanum, þá erum við að kjósa. Við erum ekki bara að kjósa um það hvort við ætlum að eyða 400 kalli eða 450 kalli, við erum líka að velja tiltekna framleiðsluaðferð fram yfir aðra og við erum kannski líka að kjósa um framtíð einhvers fólks eða einhverrar fjölskyldu í fjarlægu landi. Kannski er önnur varan framleidd af börnum í þrælahaldi, sem vaða eiturefnin á verksmiðjugólfinu í mjóalegg. Kannski er hún einmitt ódýr af því að börnin fengu næstum ekkert kaup fyrir vinnuna sína. En kannski er hin varan með Fairtrade vottun sem tryggir að fólkið sem vann við framleiðsluna fái mannsæmandi laun og búi við félagslegt réttlæti. Ákvörðunin sem við tökum þarna við búðarhilluna hefur áhrif miklu lengra en ofaní veskið okkar, hún hefur jafnvel áhrif um allan heim. Ef við kaupum til dæmis vöruna sem var framleidd í barnaþrælkun, þá greiðum við atkvæði með því að svoleiðis barnaþrælkun haldi áfram. Í hverri svona ákvörðun felast skilaboð okkar um það hvernig heimi við viljum búa í. Með hverri svona ákvörðun tökum við þátt í að móta framtíðina!

Við getum líka breytt vegna þess að við erum fyrirmyndir, því að öll erum við fyrirmyndir einhverra, þó að við vitum það ekkert endilega sjálf. Til að útskýra þetta aðeins langar mig að segja ykkur sögu úr Háskólanum í Santa Cruz í Kaliforníu. Þar ákváðu skólayfirvöld að ráðast í orkusparnaðarátak til að minnka rekstrarútgjöldin. Liður í þessu átaki var að fá alla stúdenta til að skrúfa fyrir vatnið í sturtunni á meðan þeir bæru á sig sápu. Í Santa Cruz er nefnilega enginn Deildartunguhver með ódýru hitaveituvatni. Þar þarf að hita vatnið upp með tilheyrandi kostnaði. En alla vega. Það voru sem sagt sett upp skilti í sturtuklefanum sem á stóð „Orkusparnaðarátak! Vinsamlega skrúfið fyrir vatnið á meðan þið sápið ykkur“. En árangurinn olli vonbrigðum. Aðeins 6% stúdentanna fóru nefnilega að þessum tilmælum. Og hvað var þá til ráða? Jú, skólayfirvöld ákváðu að semja við heitasta gaurinn í skólanum um að hann myndi alltaf skrúfa fyrir á meðan hann bæri á sig sápuna. Engu öðru var breytt, ekkert var sagt, og skiltið hélt áfram að hanga þar sem það hafði hangið. Og viti menn, við það eitt að heitasti gaurinn sýndi gott fordæmi, steinþegjandi og hljóðalaust, hækkaði hlutfall þeirra sem skrúfuðu fyrir úr 6% í 49%. Og þegar líka var búið að semja við næstheitasta gaurinn, þá hækkaði hlutfallið í 66%! Þessi litla saga minnir okkur á mikilvægi fyrirmyndanna. Og eins og ég sagði áðan, þá erum við öll fyrirmyndir einhverra! Við höldum kannski að við séum ein um að pæla í hlutunum, en tilfellið er að þarna úti er fullt af fólki sem er að hugsa nákvæmlega það sama. Bara með því að sýna gott fordæmi getum við komið af stað hreyfingu sem er erfitt að stoppa.

En af hverju er ég aftur að tala um þetta? Jú, ég er að tala um þetta vegna þess að á morgun byrjar nýtt tímabil í lífi ykkar – og líka í mínu lífi, vegna þess að á morgun byrjar framtíðin. Mikilvægustu skilaboðin sem þið getið farið með út úr þessu húsi eru þau að þið getið haft raunveruleg áhrif á þessa framtíð. Allt sem þið gerið eða gerið ekki skiptir máli. „Mörg lítil verk sem margt lítið fólk vinnur á mörgum litlum stöðum, geta breytt heiminum“. Og þá er ekki endilega verið að tala um annað lítið fólk. „Við verðum að vera breytingin“!

Mig langar að enda þetta á orðum Edmunds Burke sem sagði: „Enginn gerði stærri mistök en sá sem gerði ekkert af því að honum fannst hann geta gert svo lítið“.

Takk fyrir að gefa mér tækifæri til að spjalla við ykkur á þessum fallega degi. Til hamingju með daginn og gangi okkur sem allra allra best að skapa góða framtíð, sem er gerð til að endast.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: