• Heimsóknir

  • 119.667 hits
 • júní 2012
  S M F V F F S
   12
  3456789
  10111213141516
  17181920212223
  24252627282930
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Út að hlaupa – eftir 12 daga hlé

Ég hljóp 5 km í gærkvöldi. Það telst ekki til stórtíðinda, en var samt svolítill áfangi fyrir sjálfan mig. Ég tognaði nefnilega fyrir tveimur vikum og hef tekið því rólega síðan. En hvers vegna tognar maður og hvernig kemur maður í veg fyrir svoleiðis?

Algengasta og næstum eina leiðin fyrir langhlaupara til að meiðast er að gera of mikið of fljótt. Það var einmitt það sem ég gerði. Orðin „mikið“ og „fljótt“ eru auðvitað afstæð. Merking þeirra er meira að segja breytileg frá degi til dags. Það er t.d. ekkert „of mikið“ fyrir mig að hlaupa 25-50 km í einum áfanga. Og það er heldur ekkert of mikið að endurtaka það daginn eftir. En það skiptir meginmáli hvernig það er gert og við hvaða aðstæður.

Mér er meinilla við að viðurkenna hvernig þessi umrædda tognun mín átti sér stað, en ég ætla samt að gera það, sjálfum mér og öðrum til viðvörunar – eða alla vega sjálfum mér, því að ég veit að fæstir læra mikið af reynslu annarra. En hvað um það, ég hljóp sem sagt yfir Ólafsskarð frá Litlu kaffistofunni til Þorlákshafnar 22. maí sl., 31 km leið í góðu veðri og enn betri félagsskap hátt í 20 hlaupara. Það var ekkert nema skemmtilegt, eins og ég mun greina frá síðar í löngu máli. En það var samt alveg sæmilega erfitt, undirlagið ójafnt og svona, langt frá því þó að vera eitt af mínum erfiðustu hlaupum, (þarf endilega að gera Excel-skrá yfir þau við tækifæri), en sæmilega erfitt samt. Daginn eftir var ég svolítið stirður í fótunum og datt ekki í hug að hlaupa neitt. Á öðrum degi var stirðleikinn svo sem horfinn, bara svolítil þreyta í skrokknum, alls staðar og hvergi. Á svoleiðis degi er ekkert „of fljótt“ að hlaupa, en það er ekki sama hvernig það er gert! Mig langaði til að hrista af mér slenið og í stað þess að njóta þess að skokka t.d. 12 km í rólegheitum, brá ég mér niður á íþróttavöll og tók nokkra hressandi 200 m spretti. Það á maður sem sagt ekki að gera ef maður er a) 55 ára, b) þreyttur í skrokknum eftir 30 km fjallahlaup tveimur dögum fyrr og c) búinn að hlaupa sér til ánægju í meira en 40 ár og á að vita betur. Þarna var ég búinn að koma mér upp kjöraðstæðum til tognunar – og þess vegna gerðist það.

Tveimur dögum eftir þessa tognun hljóp ég yfir Kerlingarskarð á Snæfellsnesi. Það var auðvitað bæði of mikið og of fljótt, en ég vissi það svo sem allan tímann. Ég ákvað bara að gera það samt, vitandi að það gæti varla skemmt neitt, heldur í versla falli seinkað batanum um einhverja daga. Það var rétt mat og þetta var ágætisferð, en hún skiptir ekki miklu máli í þessari sögu. Skrifa langt mál um hana síðar.

Tíminn læknar kannski ekki alveg öll sár, en hann er engu að síður eina góða lækningin við tognunum – og virkar vel sem slík. Það eina sem þarf að hafa í huga er að gera ekki of mikið of fljótt. Hins vegar er það afar slæm hugmynd að leggjast fyrir og bíða eftir að þetta lagist. Slíkt atferli nefnist KÖR101. Líkaminn þarf á hreyfingu að halda, því að til þess var hann frá upphafi ætlaður, og þannig helst blóðið á hreyfingu og batakerfið sem virkast. Þess vegna hef ég notað tímann til að ganga meira en venjulega, því að gangan reyndi ekki mikið á tognaða vöðvann. Eins gerði ég eitthvað af styrktaræfingum fyrir efri hluta líkamans. Það þarf nefnilega líka að hugsa um heildarmyndina í þessum efnum, alveg eins og í umhverfismálunum!

Það er gott að gera svona mistök, því að hverjum mistökum fylgir tækifæri til að læra eitthvað nýtt. Ég hef reyndar gert svipuð mistök áður, síðast fyrir rúmum tveimur árum. Það dugði greinilega ekki til að læra nógu mikið. Sjáum til hvernig það gengur í þetta sinn.

Fyrir áhugafólk um líffærafræði get ég upplýst að vöðvinn sem varð fyrir barðinu á þessum mistökum, sem voru vel að merkja byrjendamistök þrátt fyrir rúmlega 40 ára hlaupaferil, tilheyrir hópi vöðva sem í daglegu tali eru kallaðir „hip flexors“ og liggja framan á mjöðminni og niður á lærið.

Eitt svar

 1. mér sýnist það fullsannað að sprettir stuttu eftir löng hlaup eru algert eitur… já, og ég er í rauninni ekkert viss um að langhlauparar þurfi á sprettum að halda, en ég geri mér fullvel grein fyrir því að fáir eru sammála mér hvað það varðar

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: