• Heimsóknir

    • 119.039 hits
  • maí 2012
    S M F V F F S
     12345
    6789101112
    13141516171819
    20212223242526
    2728293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Hlutdrægt hlutleysi?

Þóra Arnórsdóttir opnaði kosningamiðstöðina sína í dag. Fjöldi manns var þarna saman kominn í góða veðrinu og líklega varð enginn fyrir vonbrigðum með ræðu frambjóðandans. Þar komu margir áhugaverðir punktar fram. Fjölmiðlar gerðu þessu allgóð skil, í það minnsta mbl.is, visir.is og Stöð 2. Hins vegar vakti það athygli margra að ekkert var minnst á þennan viðburð í kvöldfréttum RÚV.

Eðlilega þarf RÚV að gæta fyllsta hlutleysis í umfjöllun sinni um forsetaframbjóðendur. Í þetta sinn er starfsmönnum þar á bæ þó sérstakur vandi á höndum, þar sem frambjóðandinn Þóra starfaði þar til skamms tíma eins og flestum er kunnugt. En þá vaknar sú spurning hvort hlutleysið geti gengið svo langt að jaðri við hlutdrægni, þ.e.a.s. hvort starfsfólk RÚV gæti þess sérstaklega að segja ekki frá viðburðum í kosningabaráttu Þóru, jafnvel þótt tíðindum sem tengjast meðframbjóðendum hennar séu gerð þokkaleg skil. Spurningin verður jafnvel enn áleitnari eftir innlit á forsetakosningasíðu RÚV, (sjá mynd neðst í þessum pistli).

Svona spurningum hlýtur náttúrulega hver að svara fyrir sig, því að það samræmist varla hlutleysisstefnu RÚV að standa í rökræðum um þetta. Sömuleiðis hlýt ég að svara þessari spurningu fyrir sjálfan mig. Svarið er tvíþætt:

  1. Ég hef engar áhyggjur af meintu hlutdrægu hlutleysi RÚV. Þar á bæ vinnur fagfólk sem gerir sitt besta í þessu máli sem öðrum.
  2. Auðvitað skiptir umfjöllun fjölmiðla um forsetaframbjóðendur einhverju máli. En Þóra kynnir sig best sjálf. Það mun hún m.a. gera í Landnámssetrinu í Borgarnesi annað kvöld, þriðjudagskvöldið 29. maí kl. 20:00. Það verður fyrsti fundur hennar með kjósendum eftir fæðingu dótturinnar og sá fyrsti eftir vel heppnaða opnun kosningamiðstöðvarinnar. Hvet fólk til að mæta snemma og ná góðum sætum á söguloftinu! Svo er líka upplagt að skoða kosningasíðunna hennar, www.thoraarnors.is.

Kannski vakna fleiri spurningar, t.d. hvers vegna ég sé einlægur stuðningsmaður Þóru Arnórsdóttur. Ástæðan er í stuttu máli sú, að af öllu því góða fólki sem gefið hefur kost á sér treysti ég henni best til að fá okkur til að rétta úr bakinu og horfa fram á veginn í stað þess að hjakka í sama farinu. Ég treysti henni best til að vera tákn sameiningar í stað sundrungar. Sjálfsagt skrifa ég meira um þetta síðar, t.d. eitthvað um leiðina yfir á fljótsbakka framtíðarinnar.

Skjámynd af kosningavef RÚV 28. maí 2012.

Hinn árlegi Háfslækjarhringur, þriðji kapítuli

Í fyrradag hljóp ég Háfslækjarhringinn í góðra vina hópi og borðaði kjötsúpu á eftir – eins og jafnan á uppstigningardag. Þessi áralanga hefð hófst vorið 2010 með því að við hlupum þennan spotta fimm saman. Leikurinn var svo endurtekinn vorið 2011, og nú var hinn árlegi Háfslækjarhringur hlaupinn þriðja vorið í röð.

Að sigra sjálfan sig
Háfslækjarhringurinn er rosalega langur, já eða rosalega stuttur, allt eftir því við hvað er miðað. Hringurinn sjálfur er 17,9 km, en samkvæmt hefðinni var hlaupið af hlaðinu heima hjá mér og heim í hlað aftur, og með því móti er leiðin öll um 21,4 km. Þetta er sem sagt þónokkur spotti til að hlaupa. Öll þessi ár sem hinn árlegi Háfslækjarhringur hefur verið hlaupinn hafa einhverjir þátttakendur sigrast á nýju markmiði. Það er ekkert sjálfsagt að geta hlaupið rúma 20 km í einu lagi og það er talsverður sigur þegar því marki er náð í fyrsta sinn! Sigurvegarar fimmtudagsins voru þrír hvað þetta varðar. 

Allt tilbúið á Þórðargötunni kl. 9 að morgni uppstigningardags. F.v. Ester Alda, Klara, Kristín, Bjarni (2), Torfi (1), Haukur (0), Stefán (89), Kristinn (1), Sigríður Guðbjörg (0), Sigríður Júlía (0), Hrafnhildur (0), Ingimundur (u.þ.b. 40), Ragnar (0). (Þau síðastnefndu sjást reyndar varla í skugganum). (Í svigum er fjöldi áður hlaupinna Háfslækjarhringja (svona rétt eins og fjöldi landsleikja ef þetta væri handboltalið)). Björk tók myndina.

Hlaupaleiðin
Hið árlega Háfslækjarhringshlaup fer þannig fram að þátttakendur hlaupa frá heimili mínu í Borgarnesi og sem leið liggur upp úr bænum. Við hringtorgið við Húsasmiðjuna er beygt til vinstri eins og ferðinni sé heitið til Stykkishólms. Þeirri stefnu er þó bara haldið í 100 metra eða svo, (enda allt of langt að hlaupa alla leið til Stykkishólms á einum morgni). Þá er beygt til hægri inn á Sólbakka og hlaupið áfram ofan við væntanlegt iðnaðarhverfi, áfram ofan við hesthúsahverfið, upp í fólkvanginn í Einkunnum og þar eftir fáförnum malarvegi alla leið vestur undir Langá. Þar er Jarlangsstaðaveginum fylgt niður með ánni að austanverðu þar til komið er niður á aðalveginn (Þjóðveg 54 (áleiðis frá Stykkishólmi)). Aðalveginum er fylgt alla leið að fyrrnefndu hringtorgi og þá er stutt heim til mín aftur. Efst í þessum pistli er loftmynd af hringnum (sem ég stal frá Dr. Torfa í fyrra). Þegar smellt er á myndina birtist stærri útgáfa sem hentar vel sem kort fyrir þá sem vilja æfa sig fyrir næsta uppstigningardag.

Veðrið klukkan níu
Hlaupið í fyrradag gekk aldeilis prýðilega. Við lögðum af stað hlaupandi 10 saman rétt upp úr kl. 9 árdegis í góðri fylgd þriggja harðsnúinna hjólastúlkna. Samtímis fór líka sérstakur hjálparbíll af stað með vatn og vistir. Veðrið lék við hvern sinn fingur. Hægur vindur blés úr suðri, sólin skein lengst af og hitamælirinn sýndi 4 gráður. Seint í hlaupinu kom reyndar svolítið haglél, svona rétt til að minna á hvers virði sumarið er. 

Aukin réttindi kvenna
Þetta var sögulegt hlaup. Frá því að land byggðist hafa nefnilega aldrei svona margir hlaupið Háfslækjarhringinn á einum degi. Og þetta var líka í fyrsta skipti sem konur hlupu Háfslækjarhringinn. Konur á Íslandi fengu almennan kosningarétt árið 1915, þannig að það var löngu orðið tímabært að Háfslækjarhringurinn yrði líka opnaður með svipuðum hætti.

Sigríður Júlía og Hrafnhildur á fullri ferð á leið norður úr Borgarnesi. Sól skín í heiði.

Af borvélum
Fljótlega eftir að við lögðum af stað dreifðist úr hópnum. Karlarnir fóru á undan og spjölluðu um heima og geima, en konurnar komu í humátt á eftir, ein og ein, steinþegjandi með tónlist í eyrunum. Kannski fór Hellisbúinn með fleipur þegar hann gaf í skyn að karlar væru fámálli og síður félagslyndir en konur. Reyndar fer engum sögum af umræðuefnum karlanna. Kannski töluðu þeir um borvélar allan tímann.

Hér sést undir iljar Ragnari, Ingimundi og Kristni á leið upp Einkunnaveginn. Um 5,5 km að baki og ekkert dregið af.

Hneggjandi herfi
Uppi við Álatjörn biðu Olga og Elías á hjálparbílnum. Þar var um þriðjungur hlaupsins að baki og þar fengu þreyttir hlauparar vatn og aðrar lífsnauðsynjar. Líklega voru þeir samt ekkert þreyttir, því að fyrr en varði voru þeir roknir af stað aftur. Framundan var hinn eiginlegi Háfslækjarvegur (eins og ég kýs að kalla hann) gegnum fólkvanginn í Einkunnum. Háfslækjarvegurinn er svo sem 4 km að lengd, en afar krefjandi fyrir hlaupara. Vegurinn er nefnilega mjög laus í sér á köflum, og ekki bætir úr skák að þar eru bílar bannaðar en hestar velkomnir. Hestar sem vegagerðartæki eiga meira skylt við herfi en valtara. Óslétt undirlag virtist þó ekki tefja þá hlaupara sem fyrstir fóru, með Ingimund Grétarsson næstreyndasta Háfslækjarhringshlaupara sögunnar í broddi fylkingar.

Á hraðferð í gegnum fólkvanginn í Einkunnum: Kristinn, Ragnar, Torfi, Ingimundur, Haukur og Bjarni.

Múrinn rofinn
Þessi uppstigningardagsmorgunn leið fljótt og fyrr en varði kom hjálparbíllinn aftur í ljós. Þá var ekkert eftir nema 8 km endasprettur upp Laufáshallann og heim Mýrarnar. Á þeim kafla féllu nokkur persónuleg met, því að nokkur í hópnum höfðu aldrei áður hlaupið lengra en 14-15 km. Samt vafðist þetta ekkert fyrir þeim.

Olga mætt með hjálparbílinn. Viðgerðarhlé nr. 2 fyrir hlaupara.

Metin falla
Endaspretturinn (eins og ég kýs að kalla hann) gekk eins og í sögu eins og allt annað í þessari sögu. Fyrstu menn komu í mark á Þórðargötunni 1:59:20 klst. eftir að þeir lögðu þaðan af stað. Þetta var hvorki meira né minna en nýtt uppstigningardagsmet, líklega bæting um einar 3 mínútur frá því í hitteðfyrra þegar þessi áralanga hefð hófst. Og þegar 2 klst og 22 mínútur voru liðnar voru allir komnir á leiðarenda sáttir og sælir.

Sigríður Júlía og Torfi að hlaupi loknu.

Bitrukjötsúpa a la Björk
Hluti af áralöngu hefðinni á uppstigningardag er að snæða kjötsúpu á Þórðargötunni að hlaupi loknu. Björk hafði staðið yfir pottunum meðan aðrir hlupu, og árangurinn olli engum vonbrigðum. Hráefnið var enda fengið á búgarði bróður míns í Bitrufirði, en þar er fé vænt og beit á ræktað land ekki iðkuð, enda rúmt í högum. Þetta var stórveisla, 16 manns í mat og vor í lofti.

Kjötsúpuveisla að hætti Bjarkar – bregst aldrei! Kristín Gísla tók myndina.

Allt er gott sem endar vel
Samkvæmt hefð endaði þessi vel heppnaða uppstigningardagshátíð í heita pottinum. Vatnið úr Deildartunguhver svíkur engan.

Stærðfræðilegur viðauki
Alls hlupu 9 manns allan Háfslækjarhringinn að þessu sinni. Í fyrra hlupu 6 manns og 5 í hitteðfyrra. Því er augljóst að fjöldi þeirra sem ljúka hlaupinu er 2. gráðu fall af raðnúmeri hlaups (x), nánar tiltekið fallið y = 1,5x(2)-3,5x+6. Þetta þýðir að næsta ár munu 16 manns ljúka hlaupinu, 26 árið 2014 og 39 árið 2015. Myndin hér fyrir neðan tekur af öll tvímæli um þetta.

Raunveruleg og fyrirsjáanleg þátttaka í hinum árlega Háfslækjarhring 2010-2015.

 

Minna en það hefði verið ef það hefði verið meira

Ég er talsmaður þess að fólk horfi á björtu hliðarnar. Stundum getur slík bjartsýni þó gengið of langt, t.d. í umhverfismálum þegar talsmönnum fyrirtækja eða stjórnvalda tekst að rökstyðja að frammistaða þeirra í umhverfismálum sé frábær og áformin metnaðarfull, enda þótt þar sé fátt að finna sem ekki hefði gerst hvort sem var. Þannig á orkumálaráðherra Svíþjóðar að hafa sagt á dögunum að það væri mikilvægt að spara orku, en það þyrfti bara að gerast með réttum hætti. Þetta túlkar umhverfisráðgjafinn og ofurbloggarinn Hans Nilsson, sem oft hefur verið vitnað í á þessum vettvangi, þannig að málið snúist ekki um að „nota minna, heldur um að nota minna en við hefðum gert ef við hefðum notað meira“.

Skyldum vér Íslendingar stundum hugsa svona líka? Sannfærum við okkur sjálf stundum um að það dugi að gera áætlanir (sem ekki endilega standast) um að nota minna af einhverju í framtíðinni en við myndum gera að óbreyttu, og það jafnvel þótt brýna nauðsyn beri til að draga úr notkuninni strax frá því sem nú er?

PS: Hans Nilsson veltir því líka fyrir sér í sama pistli hvort Vasagangan 2062 muni fara fram á sjóskíðum…..

Ólafsskarð og Kerlingarskarð

Nú er nýtt fjallvegahlaupatímabil að hefjast, enda vel farið að vora. Því er orðið tímabært að segja frá fyrstu verkefnunum:

1.  Ólafsskarð, þriðjudaginn 22. maí kl. 15:00
Ég ákvað á dögunum að bæta Ólafsskarði við verkefnaskrá ársins. Ólafsskarð verður þannig fyrsti fjallvegurinn 2012 – og sá 25. frá upphafi. Þetta var áður fyrr fjölfarin leið austur fyrir fjall, nánar tiltekið frá Litlu kaffistofunni áleiðis til Þorlákshafnar. Ég fékk ábendingu um þessa leið fyrir nokkrum misserum frá Magnúsi Karel á Eyrarbakka og hef verið að velta henni fyrir mér síðan. Sýnist hún liggja einkar vel við höggi, en veit annars frekar lítið um undirlag og aðrar aðstæður. Leiðin liggur þó um hraun og er sjálfsagt frekar gróf á köflum. Ætlunin er að leggja af stað frá Litlu kaffistofunni kl. 15:00 umræddan þriðjudag. Fyrstu 5 kílómetrana eða svo liggur leiðin eftir vegarslóða inn í Jósepsdal, en þá er beygt til vinstri upp í skarðið. Brekkan upp er frekar brött, en hækkunin ekki sérlega mikil. Eftir því sem ég kemst næst er Litla kaffistofan í um 230 m hæð yfir sjó, en hæst skilst mér að leiðin fari í 400 m. Eftir að komið er austur úr skarðinu liggur leiðin til suðurs „bak við“ Bláfjöllin þar til komið er að Fjallinu eina. Þar er beygt eilítið til vinstri, til suðausturs, og þeirri stefnu haldið og farið norðaustan við Geitafell. Áfram er svo haldið niður í Ölfus mitt á milli bæjanna Litlalands og Hlíðarenda, þvert yfir Suðurstrandarveginn og beint inn á gamla Þorlákshafnarveginn. Þá eru eftir um 5 km að sundlauginni í Þorlákshöfn, þar sem ætlunin er að ljúka hlaupinu. Öll er leiðin um 27 km og mér þykir líklegt að ferðalagið taki hátt í 4 klst., þannig að klukkan verði orðin 19:00 þegar komið er á leiðarenda. Í sundlauginni er upplagt að skola af sér og hafa fataskipti, (sérstaklega ef vel tekst til með að skipuleggja flutning á fatnaði þangað). Ég hef svo í hyggju að snæða kvöldverð á hentugum stað í Þorlákshöfn eða næsta nágrenni og halda síðan heim á leið. Allar ábendingar um veitingastaði eru vel þegnar! Vonast til að njóta félagsskapar sem flestra á þessari leið, svo og í kvöldverðinum. Gott væri að vita sem mest um þátttökuna fyrirfram, m.a. til að geta áttað sig betur á þörfinni fyrir flutninga og möguleikunum á að mæta þeirri þörf. Eins væri snjallt að panta borð með fyrivara ef hópurinn verður stór. 

2. Kerlingarskarð, laugardaginn 26. maí kl. 10:30
Kerlingarskarðið er á dagskrá fyrri part laugardags á Hvítasunnuhelginni. Lagt verður af stað frá söluskálanum á Vegamótum kl. 10:30 og gamla bílveginum fylgt norður yfir skarðið. Þetta eru líklega um 17 km á aflögðum bílvegi, sem fer mest í 311 m hæð. Mér finnst líklegt að þetta taki hátt í tvo og hálfan tíma, þannig að klukkan verði farin að nálgast 13:00 þegar hlaupið endar á aðalveginum norðanvert á nesinu, um það bil 6 km vestan við vegamótin ofan við Stykkishólm. Hér væri líka gaman að vita sem mest um þátttöku fyrirfram til að auðvelda samstarf um fólksflutninga og hugsanlega skipulagningu óvæntra viðburða að hlaupi loknu.

3. Allt hitt
Fyrst ég er sestur við skriftir á annað borð sakar ekki að rifja upp hin fjallvegahlaupa- og sérverkefnin sem eru á dagskránni minni í sumar.

  • Þrístrendingur verður á sínum stað laugardaginn 23. júní. Nánari upplýsingar eru á Fésbókarsíðu hlaupsins (https://www.facebook.com/#!/events/145720345549862/) og í bloggi sem ég skrifaði í mars (https://stefangisla.com/2012/03/11/thristrendingur-23-juni-2012/).
  • Hamingjuhlaupið verður líka á sínum stað 30. júní, 53 km frá Trékyllisvík til Hólmavíkur. Ég er að fínslípa tímaáætlunina og vonast til að geta birt hana á næstu dögum. Reikna með að síðustu 16 km verði rólegir til að gera sem flestum kleift að fylgja með og upplifa hamingjuna. Upplýsingar um hlaupið eru m.a. á http://strandabyggd.is/hamingjuhlaupid/.
  • Snjáfjallahringurinn verður svo hlaupinn 28. júlí, nefnilega Snæfjallaheiði, Staðarheiði og Dalsheiði. Þessar heiðar verða númer 27., 28 og 29 í röðinni að óbreyttu. Upplýsingar um tvær fyrrnefndu heiðarnar eru komnar inn á www.fjallvegahlaup.is. Þar eru líka aðrar upplýsingar um fjallvegahlaupaverkefnið í heild.

Vonast til sjá sem flesta á þessum hlaupum, en minni jafnframt á að þátttakan er á ábyrgð hvers og eins.

Leiðin um Ólafsskarð í grófum dráttum (gulleit lína)