• Heimsóknir

  • 117.714 hits
 • ágúst 2012
  S M F V F F S
   1234
  567891011
  12131415161718
  19202122232425
  262728293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

40 ára hlaupaafmæli

Í dag eru liðin 40 ár síðan ég keppti í hlaupum í fyrsta sinn. Frumraunin var þreytt á héraðsmóti HSS í Sævangi við Steingrímsfjörð laugardaginn 19. ágúst 1972. Í minningunni snerist þátttaka mín í mótinu nánast eingöngu um keppni í 800 m hlaupi, en reyndar var ég búinn að taka þátt í 100 m hlaupi, langstökki og þrístökki áður en röðin kom að 800 metrunum.

Það var svo sem ekkert nýtt fyrir mér að hlaupa 800 metra, því að það hafði ég oft gert heima í sveitinni. Einhvern tímann höfðum við bræðurnir smíðað forláta mælistiku úr þremur prikum og notað hana til að stika út hæfilegar hlaupavegalengdir á gamla bílveginum sem liggur milli túnanna heima. Þar náði 800 m brautin frá Grafargili og út að Folaldslaut. Hallinn á brautinni er hagstæður ef hlaupið er í þessa átt, en ein brött brekka á leiðinni vinnur það sjálfsagt upp að mestu. Þessa braut hafði ég hlaupið á 2:37,5 mín fyrr um sumarið, nánar tiltekið 3. júlí. Eftir á að hyggja hef ég reyndar vissar efasemdir um þessa hálfu sekúndu, því að í stað skeiðklukku notaðist ég við Pierpont fermingarúrið mitt, sem vissulega var með sekúnduvísi, en engu umfram það.

Hlaupabrautin á Sævangi var eins og títt var til sveita, málaður hringur á sæmilega sléttu túni sem var slegið einum eða tveimur dögum fyrir mót. Endarnir á vellinum voru eitthvað leiðinlegir, þannig að brautin var bara um 350 m að lengd en ekki 400 m. Það skipti svo sem engu máli í 800 metrunum. Annað einkenni var kríuvarpið við norðurhorn vallarins. Kríunum var lítið gefið um knattspyrnuleiki og langhlaup og reyndu eftir megni að afstýra slíkum uppákomum. Líklega hefur nærvera þeirra hvatt hlaupara til dáða ef eitthvað var. Það sama gilti ekki um kalblettina sem höfðu lækkað lélegustu hluta brautarinnar um óþægilega marga sentimetra í tímanna rás. Það kom þó meira að sök í 100 metrunum, enda sérstaklega slæmur kalblettur nálægt miðri beinu brautinni.

Þar sem þetta var fyrsta frjálsíþróttamótið sem ég tók þátt í – og lítið um íþróttafataverslanir á Ströndum, bjó ég heldur illa að hlaupafötum og skótaui sem hæfðu viðfangsefninu. En ég var þó búinn að vera á Reykjaskóla einn vetur og hafði þar eignast forláta körfuboltabúning. Buxurnar voru ekki eins síðar og nú tíðkast í NBA, en þeim mun víðari. Þegar ég var kominn í þær minntu þær fljótt á litið meira á stutt pils en stuttbuxur, jafnvel þótt ég væri þá þegar orðinn álíka stór og sver og ég er núna. Mér fundust þær því ekki viðeigandi keppnisbúningur. Hins vegar var bolurinn fínn, gulur hlírabolur með rauðri bryddingu á köntum, stöfunum RSK framan á og tölunni 10 aftaná. Sniðið á bolnum var auk heldur svo nútímalegt að það líktist í einu og öllu því sem enn tíðkast, enda e.t.v. ekki mikið svigrúm til tilrauna við hönnun á hlírabolum. En buxnavandamálið þurfti að leysa með einhverjum hætti. Ég mætti því til leiks í ágætum tweedbuxum sem mamma hefur sjálfsagt verið nýbúinn að kaupa á mig sem betribuxur. Skótauinu er ég búinn að gleyma, en ég hafði ekki heyrt um ASICS þegar þetta var og gaddaskór komu ekki við sögu fyrr en ári síðar. Hins vegar átti ég örugglega ágæta strigaskó, því að svoleiðis skóbúnaður var ómissandi í sveitinni þegar unnið var í þurrheyi í góðu veðri eða hlaupið sér til skemmtunar á eftir heyvagninum.

Ég man svo sem ekki smáatriðin í hlaupinu sjálfu, nema hvað ég held að við höfum verið þrír sem lögðum af stað. Ég tók strax forystuna og sá aldrei til mannaferða eftir það. Eitthvað heyrði ég pískrað í áhorfendaskaranum um að þetta væri allt of hratt og að ég myndi springa. En mér var alveg sama um það. Hlaupinu lauk ég á 2:37,4 mín, sem mér fannst svo sem ekkert merkilegt, og hinir hlaupararnir voru um 100 metrum á eftir mér ef mig misminnir ekki.

Þetta var góður dagur í Sævangi og auðvitað var ég stoltur af verðlaunaskjölunum fjórum sem ég kom með heim um kvöldið. Skjalið fyrir 800 metrana skipti mig eðlilega langmestu máli. Það var hvítt á litinn eins og vera bar með skjöl sigurvegara. Hin voru bara blá, því að þar var ég í öðru sæti. En hvernig sem svona skjöl eru á litinn, þá eru þau töluvert persónulegri en allir þátttökupeningarnir sem hrúgast hafa upp á áratugunum sem liðnir eru síðan.

Ég velti því örugglega ekkert fyrir mér í ágúst 1972 hvort ég yrði enn að keppa í hlaupum 40 árum síðar. Líklega hefði mér þótt það fremur fjarstæðukennt ef einhver hefði spurt. Á þessum árum tíðkaðist heldur ekki að „gamalt fólk“ væri að spreyta sig í almenningshlaupum. Sjálfur var ég þó vanur því í sveitinni að fólk hlypi eins og fætur toguðu á meðan heilsan leyfði. Alla vega hélt pabbi heitinn áfram að hlaupa framundir andlátið, enda er sá ferðamáti fljótlegri en ganga. En hvað sem öðru líður er ég afskaplega þakklátur, bæði fyrir þessar gömlu minningar, fyrir að hafa lifað allar þær breytingar sem hafa átt sér stað síðan og fyrir að geta enn sinnt þessu áhugamáli mínu og haft gaman af!

Og verðlaunaskjalið fyrir 800 metrana geymi ég að sjálfsögðu!

Tíunda maraþonið að baki

Í gær (laugardag) hljóp ég maraþonhlaup í 10. sinn. Svo skemmtilega vildi til að sama dag voru liðin nákvæmlega 16 ár frá fyrsta maraþoninu mínu. Í þessu maraþonbloggi verður sagt nánar frá atburðum dagsins.

Undirbúningur – eða ekki
Maraþonið í gær var óvenjulegt að mörgu leyti. Ég hef til dæmis aldrei áður lagt upp í maraþonhlaup eins illa undirbúinn. Æfingar sumarsins fóru að talsverðu leyti í vaskinn vegna meiðsla sem enn sér ekki fyrir endann á – og svo þurfti ég endilega að ná mér í einhverja hálsbólgu á síðustu stundu. Ákvað samt að hlaupa, það var þá alltaf hægt að hætta ef heilsan brygðist. Mér finnst nefnilega pínulítið tvíbent að gefast upp án þess að reyna. Ef maður byrjar einu sinni á svoleiðis löguðu, þá er auðvelt að láta líka undan næst. Þetta tengist reyndar einni af grundvallarreglum mínum í hlaupunum: Ef ég ætla að gera eitthvað, þá geri ég það. Og ef eitthvað kemur í veg fyrir að ég geti það sem ég ætla, þá reyni ég að taka því með jafnaðargeði – en ekki fyrr en það er fullreynt.

Áætlun dagsins
Besti tíminn minn í maraþoni er 3:17:07 mín. frá því í Reykjavíkurmaraþoninu 2009. Þann tíma ætla ég að bæta við tækifæri, en ég vissi vel að það tækifæri byðist ekki núna. Reynslan sagði mér að miðað við æfingar sumarsins myndi ég hlaupa á 3:24-3:38 klst. Með hliðsjón af því ætlaði ég að byrja hlaupið á hraða sem dugar til að klára hvern kílómetra á 4:50 mín, sem er svona rétt rúmlega 12 km/klst. Það skilar lokatíma upp á 3:24 klst. En af því að ástandið á mér var eins og það var, gat þetta svo sem farið alla vega.

Fyrstu kílómetrarnir
Mér leið vel við rásmarkið, enda engin pressa á mér að ná neinum tilteknum árangri. Líðanin var áfram góð fyrsta spölinn, og þegar ég gáði á klukkuna sá ég að hraðinn var nokkurn veginn eins og að var stefnt. Millitíminn eftir 10 km var t.d. 48:02 mín, sem jafngildir 4:48 mín/km. Þetta var reyndar á svipuðu róli og í fyrsta maraþoninu fyrir 16 árum, nánað tiltekið 14 sekúndum hægara.

Málin rædd á leiðinni
Eitt af því góða við Reykjavíkurmaraþon er að þar hittir maður ævinlega fjöldann allan af skemmtilegu fólki, bæði fyrir hlaupið, í hlaupinu sjálfu og eftir það. Þeir sem ekki þekkja til telja kannski að maður geti ekkert spjallað í svona hlaupum. En það er misskilningur. Það virkar nefnilega ekki að vera sprengmóður í maraþonhlaupi. Þá þrýtur mann kraft fyrr en síðar. Í svona hlaupi er sem sagt gott næði og nógur tími til að spjalla. Á þessum fyrsta spotta hitti ég m.a. Halldór Arinbjarnarson á Akureyri, Gunnlaug ofurhlaupara Júlíusson – og ýmsa fleiri. Hins vegar fann ég hvergi Ingimund Grétarsson, stórvin minn og hlaupafélaga. Gerði ráð fyrir að hann væri spölkorn á undan mér, enda betur undirbúinn.

Fréttir af Ingimundi
Næstu kílómetra hélt ég nokkurn veginn sama hraða, eða bætti kannski heldur í. Meiðslin gerðu lítið vart við sig og hálsbólgan var horfin og gleymd. Við 18 km markið á Kirkjusandi var ég þó aðeins farinn að finna fyrir þreytu. Þá streymdu líka hlauparar fram úr mér, en líklega voru það aðallega þátttakendur í hálfu maraþoni, byrjaðir á endaspretti. Rétt eftir 18 km markið skiljast leiðir, hálfmaraþonhlauparar taka strikið eftir Sæbrautinni niður í bæ, en maraþonhlauparar beygja upp Kringlumýrarbrautina. Einmitt þar í beygjunni hitti ég Sigurð Pétur, fyrrv. Íslandsmeistara í maraþoni. Hann sagði mér að Ingimundur væri kominn vel á undan, sem mér fundust reyndar góðar fréttir. Það er alltaf gott til þess að vita að félagarnir séu í góðum gír.

Betri en fyrir 27 árum?
Eftir 20 km var millitíminn 1:36:08 klst. Ég hafði sem sagt verið 48:06 mín með 10 km kafla nr. 2, hafði með öðrum orðum haldið mjög jöfnum hraða. Og eftir hálft maraþon sýndi klukkan 1:41:23 klst. Einhvern tímann hef ég verið næstum 7 mínútum fljótari með fyrri helming maraþonhlaups, en allt er þetta afstætt. Í fyrsta sinn sem ég hljóp hálft maraþon tók það t.d. 1:43:43 klst. Það var fyrir 27 árum. Bendir þetta ekki til framfara?

Akureyrarhlaupið rifjað upp
Stuttu eftir að hlaupið var hálfnað kom ég auga á Ingibjörgu Kjartansdóttur spölkorn á undan mér. Við höfum einu sinni áður fylgst að drjúgan hluta úr maraþonhlaupi. Það var á Akureyri sumarið 2009. Reyndar vill svo skemmtilega til að því hlaupi lauk ég á nákvæmlega sama tíma og þessu hlaupi, alveg upp á sekúndu. Meira um það síðar. En núna vann Ingibjörg alla vega til silfurverðlauna í kvennaflokki og var vel að þeim komin!

Þegar 30 km eru búnir er mikið búið
Þriðji 10 km skammturinn var afgreiddur á 48:47 mín. Tíminn eftir 30 km var sem sagt 2:24:55 mín. Hef oft verið fljótari, en stundum lengur. Þegar 30 km eru búnir er mikið búið. Þá er hægt að fara að spá í líklegan lokatíma. Hmmmm, rúmir 12 km eftir og líklegt að eitthvað eigi eftir að hægjast á manni. Ég reiknaði út að ef hraðinn minnkaði ekki mikið gæti ég kannski klárað þessa 12 km á 65 mínútum. Þá myndi lokatíminn verða um 3:3o klst. Það þótti mér bara vel ásættanlegt og setti mér nýtt markmið um að verða undir 3:30.

Ingimundur eltur uppi
Eftir 31 km kom ég auga á kunnuglegan baksvip framundan. Ég var sem sagt farinn að draga á Ingimund. Bilið var líklega ekki nema 200 metrar, en það tók mig samt 6 km að vinna það upp. Náði honum yst úti á Seltjarnarnesi þegar u.þ.b. 37 km voru að baki. Þrjátíuogsjö kílómetra markið finnst mér alltaf mikilvægur áfangi. Þá eru bara rúmir 5 km eftir, sem ætti að vera hægt að ljúka á 25-30 mín. Að þessu sinni ákvað ég að miða við 27-32 mín. Þarna var tíminn næstum því nákvæmlega 3:00 klst. Þar með þóttist ég viss um að geta lokið hlaupinu á 3:27-3:32 klst. Ákvað að halda fast við fyrra markmið um að vera undir 3:30.

Leikur að tölum
Eins og glöggir lesendur hafa tekið eftir er nokkuð um tölur í þessum pistli. Ég hef reyndar sérstakt yndi af að leika mér að tölum á meðan ég hleyp; reikna meðalhraða, gera áætlanir um lokatíma o.s.frv. Hins vegar hef ég oft tekið eftir því að á síðustu kílómetrum maraþonhlaups dregur mjög úr reiknifærninni. Þetta gerðist þó ekki í þessu hlaupi, sem var auðvitað vísbending um að ég hefði hlaupið skynsamlega og hvorki ofgert líkama né sál. Ég fór meira að segja létt með að reikna að ef maður hleypur 37 km á 3 klst, þá hefur hver kílómetri tekið rétt um 4:52 mín að meðaltali. Þarna var með öðrum orðum farið að hægjast dálítið á mér, enda sá ég það á hlaupaúrinu. Hver kílómetri var farinn að taka um 5 mínútur í stað 4:45-4:50 í fyrri hluta hlaupsins. En mér var alveg sama um þetta. Mér leið vel og það var allt sem ég óskaði mér.

Gæsahúð
Mér finnst alltaf sérstaklega gaman að hlaupa síðustu kílómetrana í maraþoni, já eða næstum alltaf. Ef líðanin er góð fyllist hugurinn af gleði yfir því að þetta sé að verða búið, yfir því að maður geti yfirleitt hlaupið, yfir veðrinu eða bara yfir hverju sem er. Að þessu sinni var líðanin góð og veðrið dásamlegt; hægur vindur, sólarglæta en ekki steikjandi sólskin, og hitinn um 15 stig. Gleðin var enda svo mikil að jaðraði við gæsahúð.

Endaspretturinn
Útreikningarnir héldu áfram. Eftir 40 km á 3:15:19 klst. var ég viss um að lokatíminn yrði á bilinu 3:27-3:29 klst. Þá fann ég líka að ég átti nóg eftir. Í svona hlaupum er alltaf skemmtilegt að eiga eftir orku til að taka sig sæmilega út á endasprettinum í Lækjargötunni. Ég jók því hraðann jafnt og þétt án nokkurra vandkvæða, hvattur áfram af mannfjöldanum á marksvæðinu, sem mér fannst náttúrulega að væri allur þarna saman kominn til að fagna mér. Síðustu 200 metrana hljóp ég á 48 sek., sem dugar skammt til afreka á Ólympíuleikum, en lítur út fyrir að vera góður hraði í Lækjargötunni. Þegar ég skeiðaði í markið klökkur af gleði var klukkan ekki enn smollin í 3:26 klst. Endanlegur tími var 3:25:56, nákvæmlega sami tími og á Akureyri 2009.

Heilsufarsmæling í markinu
Þegar ég kom í mark sagði þulurinn í hátalarakerfið að þarna kæmi Stefán Gíslason. Hann liti út fyrir að vera læknir, af því að hann væri svo (stutt umhugsun) … læknalegur. Ég var ekki alveg viss um hvort þetta væri jákvætt eða neikvætt, en áttaði mig svo á því að það er auðvitað miklu betra að líta út sem læknir í markinu, en sjúklingur. Mér fannst ég líka vera alheilbrigður. Ég nota gjarnan tímatökuflöguna á hlaupaskónum mínum sem mælikvarða á heilsuna eftir maraþonhlaup. Ef ég get beygt mig nógu mikið til að ná henni af hjálparlaust, þá er heilsan í góðu lagi. Í gær fór ég létt með þetta, þannig að ástandið var greinilega gott!

Mesta ríkidæmið
Eftir hlaupið sat ég lengi og spjallaði við fólk, enda er félagslega hliðin mikilvægur hluti af þessu öllu saman. Reykjavíkurmaraþonið er eins konar árshátíð. Þar hittist fólk og miðlar hvert öðru af reynslu sinni og gleði. Eftir spjallið var svo kominn tími á að finna fjölskylduna mína sem var mætt á marksvæðið. Það er ómetanlegt að eiga fjölskyldu sem styður mann í sérviskunni og tekur á móti manni eftir svona skemmtanir. Björk, konan mín, hefur verið í því hlutverki í áratugi.

Fyrir 16 árum
Eins og ég nefndi í upphafi þessa pistils eru liðin nákvæmlega 16 ár frá fyrsta maraþonhlaupinu mínu. Tíminn í því hlaupi var 3:35:56 klst., þ.e. nákvæmlega 10 mínútum lengri en í gær. Það hlaup var líka miklu erfiðara. Þá hafði ég reyndar æft miklu meira, en mig vantaði samt kílómetra í lappirnar og reynslu í kollinn. Reynslan skiptir miklu máli í þessu, enda ræðst árangurinn ekki síst af hugarfarinu. Fyrir 16 árum tíðkaðist heldur ekki að taka með sér nesti, eða það gerði ég að minnsta kosti ekki þá. Þegar aðgengilegar orkubirgðir líkamans voru uppurnar helltist yfir mig óendanlega mikil þreyta. Ég hljóp á vegg, eins og það er kallað, eftir 34 km. Núorðið leysi ég þetta mál með orkugeli sem ég gleypi í mig á u.þ.b. 7 km fresti. Og vegginn hef ég ekki hitt lengi.

Tja, svona í meðallagi – og talan 56 enn á ferð
Ég nefndi það líka að tíminn í gær hefði verið nákvæmlega sá sami og á Akureyri 2009. Þessi árangur verður að teljast í meðallagi, því að í þessum 10 hlaupum hef ég fjórum sinnum hlaupið hraðar og fjórum sinnum hægar. Og svona rétt til gamans má geta þess að í 4 skipti af 10 hefur lokatíminn endað á „:56“. Tölur eru skemmtilegar.

Eintóm gleði!
Þegar ég hugsa til hlaupsins í gær, stendur gleðin upp úr. Það eru forréttindi að geta átt svona áhugamál og stundað það ár eftir ár þótt árin færist yfir. Þessi gleði á eftir að nýtast mér vel í verkefnum næstu daga, bæði í leik og í starfi.

Kominn í mark, búinn að finna fjölskylduna í mannhafinu og byrjaður að fagna öðrum hlaupurum. Jóhanna Stefáns tók þessa mynd af okkur hjónunum.