• Heimsóknir

    • 119.010 hits
  • september 2012
    S M F V F F S
     1
    2345678
    9101112131415
    16171819202122
    23242526272829
    30  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Erfðabreytt umræða á villigötum

Síðustu daga hefur mikið verið rætt um erfðabreyttar lífverur í kjölfar greinar eftir Gilles-Eric Séralini og félaga í vísindatímaritinu Food and Chemical Toxicology, þar sem fram kom hækkuð sjúkdóma- og dánartíðni hjá rottum sem fengu erfðabreyttan maís sem gerður hafði verið ónæmur fyrir plöntueitrinu Roundup, hvort sem maísinn hafði verið meðhöndlaður með eitrinu eður ei. Ég fagna þessari umræðu, en mér finnst hún samt hafa verið á villigötum. Mér finnst umræðan hafa snúist allt of mikið um áreiðanleika Séralinis og kosti og galla þeirra aðferða sem hann og félagar hans beittu. Aðalatriði málsins hefur að mínu mati orðið útundan.

Aðalatriðið er þetta: Þessi eina rannsókn, hversu gölluð eða fullkomin sem hún er, sannar hvorki né afsannar staðhæfingar um skaðsemi eða skaðleysi erfðabreyttra lífvera. Hún undirstrikar fyrst og fremst þá staðreynd að skaðleysið hefur ekki verið sannað. Um leið undirstrikar hún að við þurfum að ráðast í mun meiri rannsóknir áður en lengra er haldið í nýtingu erfðabreyttra lífvera til fóðurs og manneldis. Í þessum rannsóknum er sérstaklega mikilvægt að huga að hugsanlegum langtímaáhrifum á heilsu manna. Það rannsóknarsvið er nánast óplægður akur!

Komandi kynslóðir eiga betra af okkur skilið en að við drepum á dreif málum sem geta skipt sköpum fyrir þær. Horfumst í augu við aðalatriðin og hættum að karpa um tölfræðileg álitamál og gáfnafar ritrýnenda!

Að lokum þykir mér rétt að minna á að áður en við tökum ákvarðanir um nýtingu erfðabreyttra lífvera til framtíðar þurfum við að rannsaka fleira en hugsanleg áhrif á heilsu manna. Vistfræðilegir og félagshagfræðilegir þættir eru ekki síður mikilvægir!

Flandri hleypur vel af stað!

Í dag fór fram fyrsta æfing Hlaupahópsins Flandra í Borgarnesi. Flandri er aðeins þriggja nátta gamall, því að hann fæddist að kvöldi 3. september sl. En þetta er bráðþroska og bráðfrískur hópur, sem sést best á því að 14 manns mættu á fyrstu æfingu hópsins síðdegis í dag. Svo mikill fjöldi fólks hefur naumast áður sést hlaupa um götur Borgarness á friðartímum.

Flandri er afskaplega opinn hlaupahópur sem öllum áhugasömum hlaupurum er rúmlega frjálst að slást í för með, óháð getu. Meginreglan á æfingum hópsins er að allir hafi gleðina í farteskinu, leggi af stað saman og komi helst um svipað leyti til baka. (Hópur þar sem félagarnir hittast aldrei er nefnilega enginn hópur).

Félagar í Flandra ætla að flandra víða á næstu mánuðum og árum, bæði í Borgarfirði og í öðrum héruðum heimsins. Fastlega má t.d. gera ráð fyrir að hópnum berist fljótlega boð um að koma í opinbera hlaupaheimsókn til Flæmingjalands (e. Flanders). Nánari fréttir af því heimboði verða fluttar strax og þær berast.

Hlaupahópurinn Flandri gerir út frá Íþróttamiðstöðinni í Borgarnesi og hefur þrjá fasta hlaupatíma í viku, óháð staðháttum, færð, veðri og ófærð:

  1. Mánudaga kl. 17:30
  2. Fimmtudaga kl. 17:30
  3. Laugardaga kl. 10:00

Fyrsta æfingin var í dag sem fyrr segir. Mæting á æfingar er vandlega skráð jafnóðum í þar til gert Excelskjal, og ötulustu hlaupararnir gætu jafnvel átt von á glaðningi þegar vorar. Hópnum gæti líka dottið í hug að standa fyrir ýmsum uppákomum, viðburðum, ferðalögum eða fræðslu, svo eitthvað sé nefnt. Slíkt verður kynnt þegar nær dregur á Fésbókarsíðu hópsins, sem jafnframt er heimavöllur hans í netheimum.

Fjórtán manns mættu á fyrstu hlaupaæfingu Flandra. Lilja S. Ólafsdóttir tók þessa fallegu mynd af þessu fallega fólki.

Þetta fólk sást á mjög hröðu flandri á Kvíaholti í Borgarnesi síðdegis í dag.

Vefsíðan 2020.is orðin að veruleika

Ég opnaði nýja vefsíðu á dögunum, vefsíðuna 2020.is. Þetta er vefsíða með stuttum, daglegum umhverfispunktum, sem ég hef lengi ætlað mér að koma upp, eiginlega alveg síðan „Íslenska Staðardagskrárverkefnið“ leið undir lok í árslok 2009. Hluti af því verkefni var sérstök síða með „Orðum dagsins“, þ.e.a.s. tilvitnunum og stuttum fréttum um umhverfismál. Árum saman hafði það verið ein helsta skemmtun mín í vinnunni að taka saman þessa punkta og klæða þá í búning sem ég taldi aðgengilegan fyrir lesendur. Þess vegna fannst mér svolítið leiðinlegt að hætta þessum skrifum. Fann bara ekki leiðina til að endurvekja þau – fyrr en nú.

Nú er eðlilegt að spurt sé hvort umfjöllun um umhverfismál hverfi þá af bloggsíðunni minni. Svarið er „nei“. Umfjöllunin á 2020.is er eingöngu í formi stuttra fróðleiksmola (5-15 línur), en eftir sem áður mun ég blogga í lengra máli um þau umhverfismál sem eru mér hugleiknust hverju sinni, þ.e. eftir því sem tími vinnst til. Báðar síðurnar flokkast undir tómstundagaman – og stundum myndast samkeppni á milli tómstundagamans og launaðrar vinnu. Þannig er lífið.

Reyndar hefur lítið farið fyrir umhverfismálum hérna á blogginu síðustu vikur, heldur hafa hlaupin verið nær allsráðandi. Þetta er alvanalegt á sumrin. Nú er hins vegar að koma haust og aldrei að vita nema ég setjist niður einhvern daginn og skrifi ógurlega langa bloggpistla um sjálfbæra hjöðnun, hanastélsáhrif eða skipulag hálendisins. Þeir sem nenna ekki að bíða eftir löngum pistlum sem birtast sjaldan ættu að byrja daginn með því að líta á nýjasta fróðleikinn á 2020.is. Þar verður eitthvert lífsmark flesta virka daga.