• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • desember 2012
    S M F V F F S
     1
    2345678
    9101112131415
    16171819202122
    23242526272829
    3031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Nýr texti við Hallelúja Leonards Cohen

Borgarneskirkja 160Fyrr í vetur var ég beðinn um íslenskan texta við lag Leonards Cohen, Hallelúja, til flutnings á Þorláksmessutónleikum í Borgarneskirkju. Tónleikarnir voru í kvöld og þar var þessi texti sunginn í fyrsta sinn af þeim Jóhönnu Stefánsdóttur, Birnu Karen Einarsdóttur, Bjarna Waage og Benedikt Birgissyni, við undirleik Steinunnar Árnadóttur og Hafsteins Þórissonar. Textinn fer hér á eftir:

Hallelúja
(Lag: Leonard Cohen)
(Íslenskur texti: Stefán Gíslason)

Nú hátíð fer að höndum ein,
sem hlýjar, bætir, læknar mein
í hverri sálu, sama hverju þær trúa.
Í hverju hjarta lifnar ljós,
í Líbanon og uppi í Kjós.
Við sameinumst í söngnum hallelúja.

Þó fyllum við í hasti hver
þau hagfræðinnar mæliker
sem fyrr en varir verða að ryði og fúa.
Samt megna engin krítarkort
að kaupa gæfu af þeirri sort,
sem býr í eigin hjörtum – hallelúja.

Við finnum strauma fortíðar.
Það flögra um hugann minningar
um bakgrunn okkar, bernskutímann ljúfa,
um lyng í haga, lygnan fjörð,
um lítil börn, um Móður Jörð,
um stjörnuskin á húsvegg, hallelúja.

Hver örsmá stund, hvert augnablik,
hver andardráttur, sérhvert hik
er fyrirheit um framtíð bjarta og ljúfa.
En gleymum ekki því sem þarf,
sem þjóðin fékk í móðurarf
af nægjusemi og nýtni – hallelúja.

Er skuggar leika um loft og þil
er ljúft að geta fundið til
og sinnt um þá sem þjást af sorg og lúa.
Eitt fallegt orð, eitt hugljúft hrós
í hjarta getur tendrað ljós
og yljað þungum huga – hallelúja.

Nú kætast börn í koti og höll.
Nú kætast álfar, menn og tröll.
Og hamingjan í hjörtum fær að búa.
Við eigum saman indæl jól.
Við eigum von um friðarsól,
sem lýsir öllum heimi – hallelúja.