• Heimsóknir

    • 119.009 hits
  • nóvember 2012
    S M F V F F S
     123
    45678910
    11121314151617
    18192021222324
    252627282930  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Fjórðapartstunnur í allar búðir!

Í bloggpistli sem ég skrifaði um síðustu helgi kom fram – og var haft eftir Matvett í Noregi – að u.þ.b. fjórði hver innkaupapoki sem kemur heim úr matvörubúðinni fari beint í ruslið. Ég hef verið mjög hugsi yfir þessu síðan, en nú tel ég mig loksins vera kominn með lausn á málinu. Það þarf einfaldlega að koma upp fjórðapartstunnum í öllum matvöruverslunum ekki seinna en strax.

Það fylgir því augljóslega gríðarlegt umstang og erfiði að bera heim innkaupapoka fullan af matvörum, til þess eins að henda honum þegar heim er komið. Þetta á sérstaklega við um fólk eins og mig sem fer stundum gangandi í búðina og dröslast svo með allan varninginn heim á tveimur jafnfljótum. Og hugsið ykkur allt erfiðið og óþörfu ferðirnar upp og niður stiga og út að ruslatunnu í misjöfnum vetrarveðrum, allt til þess að losa sig við þennan fjórðapart af innkaupunum. Þetta er kannski engin ofraun einstaka sinnum, en þegar málið er skoðað á ársgrundvelli er augljóst hversu gríðarlegt álag fylgir þessum fjórða innkaupapoka, sem hvort sem er verður hent!

Af framanskráðu er augljóst hversu mikið hagsmunamál það er fyrir neytendur að settar verði upp fjórðapartstunnur í öllum búðum, helst við hliðina á búðarkössunum, þar sem fólk getur strax hent fjórða hverjum poka og haldið svo hamingjusamt heim með þá þrjá fjórðuparta af matnum sem ætlunin er að nota aðeins lengur. Það er eiginlega furðulegt að enginn skuli hafa sinnt þessu brýna hagsmunamáli fyrr. Verst að ég er hættur í stjórn Neytendasamtakanna. Annars hefði ég örugglega reynt að fá þau til að beita sér í þessu.

Krafan er skýr: Fjórðapartstunnur í allar búðir!

(Þess má geta í lokin að fjórðapartstunnan er ekki að öllu leyti ný hugmynd, þó að hana sé enn sem komið er ekki að finna í íslenskum verslunum. Ég fékk t.d. einu sinni ágæta kynningu á svipaðri hugmynd í Noregi, eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi).

Að búa til vonbrigði

Ég tók þátt í Vetrarhlaupi UFA á Akureyri í gær. Það er ekki í frásögur færandi. Þetta voru 10 km sem ég lauk á 45:02 mínútum í góðu veðri en frekar mikilli hálku. Það er heldur ekki í frásögur færandi. Ég var vonsvikinn að hlaupi loknu. Það er kannski ekki heldur í frásögur færandi, en samt er fróðlegt að velta ástæðunni fyrir sér. Þetta voru nefnilega heimasmíðuð vonbrigði. Vonbrigði eru það oft.

Ég hef stundað hlaup í nokkra áratugi og tel mig þekkja takmörk mín á því sviði allvel. Ég þóttist til dæmis vita, að miðað við líkamlegt ástand mitt og færðina á götum Akureyrar í gærmorgun ætti ég að geta klárað þetta vetrarhlaup á 45-46 mín. Þegar leið á hlaupið benti allt til þess að þetta mat hefði verið raunhæft. Mér virtist jafnvel stefna í að tíminn yrði mun nær 45 mínútum en 46, sem var náttúrulega gleðiefni.

Eftir 8 km sá ég að með góðum hraða á síðustu tveimur kílómetrunum ætti ég að komast undir 45 mín. Þar með var orðið til nýtt markmið, sem ég náði sem sagt ekki. Þar vantaði 3 sekúndur upp á. Eftir sem áður var ég innan þeirra marka sem ég taldi raunhæf í upphafi – og meira að segja næstum búinn að gera enn betur. Samt varð ég fyrir vonbrigðum. Þau vonbrigði bjó ég sjálfur til við 8 km markið.

Þetta var hvorki löng saga né flókin. En hún hefur samt boðskap. Boðskapurinn er sá að það er ástæðulaust að búa sér til vonbrigði, hvort sem það er á hlaupum eða í öðrum viðfangsefnum í lífinu. Þessar örstuttu þrjár sekúndur sem málið snerist um í þessu tiltekna tilviki skiptu engan neinu máli, hvorki mig né nokkurn annan. Ég missti t.d. hvorki af verðlaunum né landsliðssæti né neinu öðru sem þessar þrjár sekúndur hefðu getað fært mér. Að hlaupi loknu hefði ég átt að upplifa þá þægilegu sigurtilfinningu sem fylgir því að hafa gert sitt besta – og því að ég hafi heilsu, tíma og getu til að stunda þetta skemmtilega áhugamál mitt með öðru fólki með sama áhugamál, þrátt fyrir að ég sé orðinn hálfsextugur, eða hvað sem þessi aldur annars er kallaður. En í staðinn varð ég fyrir vonbrigðum. Mér tókst sem sagt að spilla eigin upplifun með því einu að afstilla hugann á leiðinni.

Hugur manns ræður mestu um það hvernig manni líður, a.m.k. á meðan allt er í himnalagi. Málið er nefnilega „ikke hvordan man har det, men hvordan man tar det“, eins og amma norskrar vinkonu minnar sagði einu sinni.

Leiðir til að draga úr sóun matvæla

Flokkun úrgangs er afskaplega mikilvæg. En það er samt enn mikilvægara að koma í veg fyrir að úrgangur myndist, enda líklegt að fyrir hvert kíló sem fer í ruslið fari nokkur kíló til spillis einhvers staðar annars staðar við framleiðslu á viðkomandi vöru. Hvert kíló sem fer ekki í ruslið hefur því meira vægi en flesta grunar. Kíló er ekki bara kíló.

Tölum um mat
En hvernig kemur maður í veg fyrir að úrgangur myndist? Til þess eru ýmsar aðferðir, allt eftir því hvaða varningur á í hlut. Í þessum pistli verður eingöngu rætt um matvæli, en þar er sóunin líklega einna mest. Það er jafnvel talið að um helmingur allra matvæla sem framleidd eru í heiminum fari óétin í ruslið! Ef hægt væri að nýta þetta allt og dreifa því með sanngjörnum hætti um heiminn, þá hefðu allir nóg að borða!

Sóun á írskum veitingastöðum
Víða á Vesturlöndum hafa sprottið upp grasrótarsamtök og verkefni sem hafa það að markmiði að draga úr sóun matvæla. Frá einu slíku verkefni var sagt á umhverfisfróðleikssíðunni 2020.is 19. október sl. Þar var reyndar ekki beinlínis um grasrótarverkefni að ræða, því að kveikjan að því voru lög sem tóku gildi á Írlandi fyrir tveimur árum og gera veitingastöðum skylt að skilja matarúrgang frá öðrum úrgangi. Reyndar var engin vanþörf á að fara ofan í saumana á þessu, því að á hverju ári er matvælum að verðmæti um 125 milljónir sterlingspunda (um 25 milljarðar ísl. kr) hent á írskum veitingastöðum!

Lagasetningin varð til þess að eigendur veitingastaðanna lögðust í greiningar á því hvar í ferlinu úrgangurinn myndast. Í ljós kom að stærstur hluti úrgangsins, um 65%, voru matarleifar af diskum gesta!

Auðveld leið til að minnka matarleifar á diskum er að minnka skammtana. En þá kemur annað vandamál í ljós. Gestir á veitingahúsum í þessum heimshluta virðast nefnilega einhvern veginn hafa fengið þá flugu í höfuðið að það sé hallærislegt að fá litla skammta sem maður getur klárað. Þá fái maður ekki nógu mikið fyrir peninginn. En væri ekki betra að borga aðeins minna og fá bara það sem mann langar til að borða? Þá myndu allir græða; gesturinn, veitingahúsið og umhverfið!

Goðsögnin um síðasta söludag
Ein auðveldasta leiðin til að draga úr sóun matvæla heima hjá sér er að hætta að trúa því að vörur sem eru komnar fram yfir síðasta söludag séu óhæfar til neyslu. Þær eru þvert á móti yfirleitt alveg jafngóðar og þær voru daginn áður, enda síðasti söludagur alls ekki það sama og síðasti neysludagur. Einhvern tímann bloggaði ég um þetta, en eftirfarandi tafla gefur líka hugmynd um málið. Minnir að hún sé upphaflega byggð á norskum heimildum.

Tegund matvæla Endingartími eftir síðasta söludag
Hunang Nokkrar aldir
Niðursuðuvörur/þurrvörur Nokkur ár
Egg Nokkrir mánuðir
Jógúrt o.fl. Vika eða meira
Mjólk Nokkrir dagar

Matvett.no
Norska vefsíðan Matvett er dæmi um eitt þeirra fjölmörgu verkefna sem nú eru í gangi í kringum okkur og miða að því að draga úr sóun matvæla. Þar kemur fram að sóun matvæla sé hvergi meiri en á heimilum, og að u.þ.b. fjórði hver innkaupapoki sem kemur heim úr matvörubúðinni fari beint í ruslið. Um leið er þá væntanlega verið að henda u.þ.b. fjórðu hverrri krónu sem varið er til matarinnkaupa. Ætli það sé ekki svona 25 þúsund kall á mánuði á venjulegu íslensku heimili? Og til að geta keypt sér mat fyrir 25 þúsund kall þarf að vinna sér inn 40 þúsund kall ef miðað er við að tæp 40% af kaupinu fari beint í skatta. Og ef tímakaupið er 1.500 krónur, þá þurfa fyrirvinnurnar á heimilinu að vinna 27 klst. á mánuði aukalega, bara til að borga fyrir matinn sem hent er!

Er þetta ekki bara vitleysa?
Sjálfsagt telja margir sig nýta matinn miklu betur en hér er sagt. Rannsóknir benda líka til að fólk telji sig henda miklu minni mat en það gerir í raun. Eitt af góðu ráðunum á Matvett.no er að vigta allan þann mat sem fer í ruslið til að átta sig betur á raunverulegu umfangi vandans.

Að elska mat og hata úrgang
Breska síðan Love Food Hate Waste er annað gott dæmi um framtak sem stuðlar að aukinni meðvitund fólks um þá gríðarlegu sóun matvæla sem flest okkar taka virkan þátt í.

Ungt hugsandi fólk!
En við sitjum ekki öll í sömu súpunni. Fyrir tveimur árum hitti ég unga ruslara, þ.e.a.s. fólk sem kaupir aldrei í matinn, heldur hirðir fyrirtaks matvæli úr ruslinu. Þetta unga fólk var ekki drifið áfram af fátækt, heldur var það bara að nýta sér tækifæri sem liggja í fáránleikanum – og kannski að mótmæla fáránleikanum svolítið í leiðinni. Peningunum sem losnuðu við þetta gat það svo skipt fyrir önnur lífsgæði, eða þá að það sleppti því bara að vinna þessa 27 tíma á mánuði, eða hvað það nú var, og notaði þann tíma til að njóta lífsins.

Ekki bara kíló
Og gleymum því ekki, að fyrir hvert kíló sem fer til spillis heima hjá okkur liggja líklega mörg kíló dauð eftir einhvers staðar annars staðar. Kíló er ekki bara kíló!

(Þessi fimmtudagspistill er skrifaður í tilefni Nýtnivikunnar (European Week for Waste Reduction (EWWR) sem nú stendur yfir).

Að henda tímanum sínum

Við eignumst alls konar hluti um dagana, sem er merkilegt vegna þess að þegar við fæðumst eigum við ekki neitt, í það minnsta ekki peninga. Og allir þessir alls konar hlutir kosta peninga. En þegar betur er að gáð fæðumst við ekki eins allslaus og okkur hættir til að halda. Þegar við fæðumst eigum við nefnilega tíma. Tíminn er eini gjaldmiðillinn okkar í lífinu, eins konar spilapeningar sem við fáum afhenta á byrjunareit þessa mikla spils. Þessa spilapeninga getum við ekki talið. Við vitum sem sagt aldrei hvað er mikið eftir af þeim. En flest okkar fá heilan helling af þessum dýrmæta gjaldmiðli í vöggugjöf, sjálfsagt ein 80 ár að meðaltali.

Tímanum sem við fengum úthlutað við fæðingu getum við skipt út fyrir næstum hvað sem er, þ.á.m. fyrir peninga, sem við getum svo aftur skipt út fyrir alls konar hluti. Þess vegna er bæði hollt og rökrétt að meta verðmæti hluta í klukkustundum frekar en krónum.

Kannski keypti ég mér farsíma fyrir þremur árum á 30 þúsund krónur. Kannski er hann enn í góðu lagi, en samt úreltur af því að vinir mínir eru allir búnir að kaupa sér nýrri og fullkomnari farsíma með „spennandi nýtingarmöguleikum“. Peningalega er síminn minn einskis virði, ég get ekki selt hann, þrjátíuþúsundkallinn sem ég keypti hann fyrir er orðinn að engu. Og fyrst síminn minn er einskis virði get ég kannski bara lagt honum og keypt mér nýjan eins og vinirnir.

Þrjátíuþúsundkallinn er afskrifaður. Þegar grannt er skoðað var þessi þrjátíuþúsundkall heldur ekki hið raunverulega verð sem ég galt fyrir símann. Hann var bara ávísun sem ég fékk í skiptum fyrir 20 klukkustundir af tímaskammtinum sem ég fékk í vöggugjöf, þ.e.a.s. ef ég gef mér að ég hafi unnið mér inn 1500 krónur á tímann eftir skatta. Þessar stundir get ég ekki endurheimt. En ég á val um það hvort ég vilji láta aðrar 20 klukkustundir, já eða kannski 40, af vöggugjöfinni fyrir nýjan síma, eða hvort ég vilji nota þann tíma í annað. Og þegar og ef ég horfi á eftir gamla símanum mínum í ruslið (sem má náttúrulega ekki) eða í endurvinnslukerið fyrir rafeindatækjaúrgang, þá er mér hollt að hafa í huga að þarna liggur hálf vika frá því í október 2009.

Hugsum áður en við hendum – tímanum okkar. Sóun efnislegra gæða fækkar gæðastundunum í lífinu.

(Þessi föstudagspistill er skrifaður í tilefni Nýtnivikunnar (European Week for Waste Reduction (EWWR) sem byrjar á morgun – og með vísan í eina af uppáhaldsbókunum mínum, Tio tankar om tid eftir Bodil Jönsson).

Fjallvegahlaupin 2013

Nú er fjallvegahlaupatíð ársins löngu liðin og tímabært að huga að næsta ári. Samtals eru 29 hlaup að baki og 21 eftir miðað við upphaflegu áætlunina um 50 hlaup á 10 árum. Þetta er allt nokkurn veginn á pari, vantar reyndar eitt hlaup upp á töluna 30, sem reiknast vera hæfilegur skammtur á þessum sex sumrum sem liðin eru frá fimmtugsafmælinu mínu.

Horft um öxl
Sumarið 2012 var endasleppt í lífi mínu sem hlaupara. Aulaðist til að togna seint í maí og er ekki orðinn jafngóður enn. Fjallvegahlaupin sluppu þó fyrir horn. Fyrst hljóp ég um Ólafsskarð ótognaður í góðu veðri með glæsilegum hópi fólks. Síðan var það Kerlingarskarð, nýtognaður í roki og rigningu, sem var bætt upp með góðum móttökum og súpu í Grundarfirði. Loks var það Snjáfjallahringurinn í lok júlí, með þremur fjallvegum, góðum veitingum í Grunnavík, óvæntu kakói í Dynjanda og óskaplegu grjóti á Dalsheiði, í góðu veðri og í góðum félagsskap. Um þetta allt er ég búinn að skrifa hverja langlokuna á fætur annarri.

Sumarið 2013
En snúum okkur þá að fjallvegahlaupaskránni 2013, sem er reyndar löngu tilbúin í stórum dráttum og komin inn á fjallvegahlaupasíðuna. Læt líka fljóta með einhver önnur hlaupaáform, þótt þau teljist ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu.

1. Selvogsgata, frá Hafnarfirði í Selvog, þriðjudag 21. maí
Þetta ferðalag verður ekki alls ósvipað ferðinni um Ólafsskarð á liðnu vori. Ég reikna með að leggja af stað frá Reykjanesbrautinni kl. 15:00 og vera kominn í Selvog um 4 klst. síðar. Held að þetta sé 31 km, en auðvelt er að stytta leiðina með því að keyra upp í Kaldársel og hlaupa þaðan.

2. Þrístrendingur, laugardag 22. júní
Næsta sumar verður Þrístrendingur hlaupinn í fjórða sinn. Sem fyrr verður lagt upp frá Kleifum í Gilsfirði kl. 10 eða 11 árdegis, hlaupið norður Steinadalsheiði í botn Kollafjarðar á Ströndum, þaðan yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf og loks þaðan suður Krossárdal að Kleifum. Leiðin öll er rúmir 40 km, og á henni eru þrír fjallvegir. Þetta er samt ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu mínu, því að þessar leiðir hef ég allar farið áður. En þetta er upplagt æfinga- og skemmtihlaup í góðum félagsskap. Ferðasöguna frá liðnu sumri er að finna á vísum stað á bloggsíðunni minni.

3. Hamingjuhlaupið, laugardag  29. júní
Nú verður Hamingjuhlaupið þreytt í 5. sinn, en þar er ekki keppt við tímann heldur er keppst við að auka hamingju þátttakenda, svo og þeirra sem bíða eftir að þeir skeri fyrstu sneiðina af tertunum á hinu heimsfræga hnallþóruhlaðborði Hamingjudaga á Hólmavík. Hlaupaleiðin verður sú sama og í fyrra, þ.e. frá Árnesi í Trékyllisvík til Hólmavíkur um Naustvíkurskörð og Trékyllisheiði, sem eru svo sem 53 km. Hingað til hefur verið farin ný leið á hverju ári, en þessi tiltekna leið var eiginlega aldrei kláruð síðasta sumar. Þá var nefnilega enginn í standi til að hlaupa hana alla. Hlaupið hefst að öllum líkindum við Handverkshúsið Kört í Trékyllisvík um hádegisbil og lýkur á hátíðarsvæðinu á Hólmavík 7-8 klst. síðar. Auðvelt er að skipta leiðinni í áfanga og slást í hópinn þar sem best hentar, þ.e.a.s. ef fólk vill stytta þetta eitthvað. Gefin verður út nákvæm tímatafla með góðum fyrirvara, rétt eins og þeir þekkja sem ferðast stundum með strætó. Þarna eru sem sagt allar tímasetningar ákveðnar fyrirfram, þannig að tertuskurðurinn hefjist á réttum tíma. Frásögn af Hamingjuhlaupinu á liðnu sumri er að finna í bloggi frá 7. júlí sl.

4. Laugavegurinn, laugardag 13. júlí
Laugavegurinn varð útundan hjá mér í sumar sem leið vegna fyrrnefndra meiðsla. Þetta finnst mér alveg nauðsynlegt að bæta upp á næsta ári til að fara sem næst því að hlaupa hann á 5 ára fresti. Laugavegurinn er ekki hluti af fjallvegahlaupaáætluninni, ekki frekar en Þrístrendingur og Hamingjuhlaupið. En ég tel hann nú samt með í þessum pósti, svona til minnis. Opnað verður fyrir skráningar á www.marathon.is í janúar.

5. Þórdalsheiði, mánudag 22. júlí
Þórdalsheiðin verður fyrsta fjallvegahlaupið í fjögurra hlaupa seríu fyrir austan. Dagsetningin er valin með hliðsjón af niðjamóti í tengdafjölskyldunni minni, sem haldið verður á Héraði dagana þarna á undan. Þetta er kannski helst til stuttu eftir Laugaveginn, en það er þó alla vega skárra að gera þetta eftir helgina en fyrir helgina. Og svo þarf ég ekkert að flýta mér. Þórdalsheiði er jeppafær vegur frá Jóku í Skriðdal að Stuðlum í Reyðarfirði, alls um 18 km.

6. Stuðlaheiði, mánudag 22. júlí
Stuðlaheiði liggur frá Stuðlum í Reyðarfirði að Dölum í Fáskrúðsfirði. Ég veit svo sem ekkert um þessa leið, nema að hún á að vera u.þ.b. 14 km. Ég ætla að taka hana sama daginn og Þórdalsheiðina, en væntanlega með góðri hvíld á milli.

7. Reindalsheiði, þriðjudag 23. júlí
Reindalsheiði er u.þ.b. 14 km leið frá Tungu í Fáskrúðsfirði að Gilsá í Breiðdal. Hún verður þriðji fjallvegurinn í þessari hlauparöð.

8. Stafsheiði, þriðjudag 23. júlí
Stafsheiði liggur frá Gilsá í Breiðdal að Jóku í Skriðdal. Þetta munu vera einir 28 km, og eins og sjá má endar leiðin þar sem Þórdalsheiðin byrjaði. Þar með verður búið að loka hringnum í þessu Austurlandsævintýri. Það væri auðvitað freistandi að gera þetta allt á einum degi, en mér sýnist að hringurinn allur sé 74 km. Er ekki allt best í hófi?

Eruði með einhverjar góðar ábendingar?
Þetta er nú allt og sumt í bili. Eins og ég nefndi í upphafi er ég búinn með 29 heiðar – og hér bætast 5 við. Mér finnst alveg nauðsynlegt að taka eina til viðbótar til að vera á pari í lok næsta árs. Þá verða liðin 7 sumur af verkefninu, þannig að þá ætti ég helst að vera  búinn með 7×5=35 heiðar. Kannski tek ég bara einhverja aukaheiði sem liggur vel við höggi, t.d. nálægt heimahögunum á Ströndum, svo sem Skálmardalsheiði eða Haukadalsskarð, eða kannski bæði Siglufjarðarskarð og Reykjaheiði fyrir norðan, já eða bara eitthvað allt annað. Þið megið alveg koma með tillögur, hvort sem þær eru á listanum mínum eður ei. Þigg líka allar aðrar athugasemdir, ábendingar og tillögur með þökkum.

Allir velkomnir á eigin ábyrgð
Vonast til að sjá sem flest ykkar á þessum hlaupum. Samkvæmt hárnákvæmri Excelskrá sem ég held yfir alla hlaupafélaga frá upphafi hafa samtals 40 manns fylgt mér til þessa í a.m.k. einu fjallvegahlaupi. Félagsskapurinn hefur alltaf verið einstaklega góður, enda er ég ekki í vafa um að svona hlaup kalla það besta fram í hverjum manni. Sumir hafa auðvitað komið oftar með en aðrir eins og sjá má á þeim örlitla bút Excelskjalsins sem birtist á fjallvegahlaupasíðunni.

Lokaorð
Mér finnst þetta skemmtilegt.

Sprett úr spori í grennd við Ólafsskarð. Geitafell framundan.

Hjöðnun framundan!

Í bloggpistli sem ég skrifaði fyrir skemmstu komst ég að þeirri augljósu niðurstöðu að jarðarbúar gætu ekki viðhaldið velferð sinni öllu lengur með því að ganga sífellt meira á auðlindir jarðar. Hagvöxtur sem byggir á nýtingu náttúruauðlinda umfram árlega framleiðslugetu er fræðilega útilokaður til lengdar, eða með öðrum orðum „eðlisfræðilegur ómöguleiki“. Eina leiðin inn í framtíðina er sem sagt samfélag án slíks hagvaxtar. Reyndar þurfum við að ganga lengra en það, þegar haft er í huga að eins og staðan er í dag þarf mannkynið 1,51 jörð til að framfleyta sér. Við þurfum sem sagt að stefna að hjöðnun þangað til þessi tala er komin niður í 1,00. Eftir það snýst málið um að halda stöðugleikanum.

Matarkúr en ekki svelti!
Hugmyndin um hjöðnun er framandi þeim sem hafa allt sitt líf búið við trúna um að hagvöxtur sé nauðsynlegur. Þegar hjöðnun ber á góma dettur flestum líklega í hug einhvers konar sultarástand og samfélagslegar hamfarir. En þegar betur er að gáð þarf sú ekki að vera raunin. Hjöðnun er nefnilega miklu frekar sambærileg við matarkúr en svelti. Það er vel hægt að komast af með miklu minni efnisleg gæði án þess að velferð eða vellíðan minnki. Þvert á móti gæti velferð og vellíðan aukist til muna! Ofát er ekki munaður.

Leiðin til hjöðnunar
Í 2012-bindi bókarinnar State of the World skrifar Erik Assadourian áhugaverða hugvekju um hjöðnun undir yfirskriftinni „The Path to Degrowth in Overdeveloped Countries“. Þar færir hann rök fyrir því að ekki sé nóg að draga lítils háttar úr þeim neikvæðu áhrifum sem athafnir manna hafa á umhverfið, heldur þurfi að breyta hagkerfinu frá grunni. Það verkefni sé hreint ekki einfalt, þar sem menning Vesturlandabúa sé í raun byggð á trúnni á hagvöxt – og stjórnmálaleiðtogar fórni höndum í hvert sinn sem samdráttur verður í efnahagslífinu. Engin ein lausn sé til, heldur þurfi að vinna markvisst og skipulega á mörgum vígstöðvum.

Fortölur duga skammt
Eins og Erik bendir á er vonlítið að fá fólk til að draga úr neyslu með því einu að hvetja til þess í ræðu og riti, heldur verði stjórnvöld og atvinnulífið að stýra vali fólks. Þetta sé í raun hægt að gera með nákvæmlega sömu aðferðum og beitt hefur verið síðustu 50 ár til að stuðla að aukinni neyslu og hagvexti. Einfalt skref í rétta átt væri að hætta umhverfisskaðlegum niðurgreiðslum og styrkjum og beina þeim gríðarlegu fjármunum sem þannig losna í nýja og sjálfbærari farvegi, svo sem í styrki til lífrænnar landbúnaðarframleiðslu í smáum stíl og húsnæðisstyrki til fólks sem býr í litlum og sparneytnum íbúðum. Stundum þarf ekki nema litla breytingu á sköttum til að ná fram verulegri breytingu á hegðun fólks. Þegar settur var 5 centa skattur (rúmlega 6 ísl. kr.) á plastpoka í Washington 2010 hrundi t.d. plastpokasala úr 22,5 milljónum poka niður í 3 milljónir á einum mánuði! Samt skilaði skatturinn 2 milljónum dollara á einu ári, sem hægt var að nota til að hreinsa gríðarlegt magn af rusli úr Anacostia-ánni sem rennur í gegnum borgina.

Ofurskattar, Tobinskattar og auglýsingaskattar
Önnur einföld og áhrifarík leið til að breyta neyslumynstri fólks er tilfærsla á tekjusköttum. Þetta er auðvitað ákaflega viðkvæmt mál, en dæmin sýna að þetta er enginn „pólitískur ómöguleiki“. Þannig fóru jaðarskattar tekjuhæstu Bandaríkjamannanna upp í 94% á seinnistríðsárunum. Líklega létu menn þetta yfir sig ganga vegna þeirrar hættu sem þjóðinni var talin stafa af stríðinu, en í sjálfu sér er ekkert flókið að sýna fram á að umhverfisógnir nútímans stefni bandarísku þjóðaröryggi í meiri hætti en seinni heimsstyrjöldin á sínum tíma. Því væri lærdómsríkt að kynna sér hvernig stjórnvöld kynntu og réttlætu ofurskattana upp úr 1940.

Ofurskattar eru ekki endilega eina eða besta leiðin til að stýra neysluhegðun. Svonefndir Tobinskattar gætu einnig lyft Grettistaki hvað þetta varðar, en þar er um að ræða tiltölulega lítinn skatt á fjármagnsflutninga, svo sem verslun með gjaldeyri eða jafnvel hlutabréf, skuldabréf og skuldatryggingar. Á Íslandi hefur Guðfríður Lilja Grétarsdóttir alþingismaður verið einn helsti talsmaður slíkrar skattlagningar, en hugmyndin virðist einnig njóta vaxandi fylgis innan Evrópusambandsins. Tobinskattar eru ekki aðeins til þess fallnir að stuðla að ábyrgum viðskiptaháttum í fjármálageiranum, heldur gefa þeir einnig möguleika á verulegri fjáröflun til að stuðla að sjálfbærari neysluháttum.

Enn eitt dæmi um tækifæri sem liggja í breyttri skattlagningu er sérstök skattlagning auglýsinga, þar sem sérstakur aukaskattur væri lagður á auglýsingar um óhollustu, umhverfisskaðlegar vöru og eyðslufreka bíla. Tekjum af þessu mætti svo verja til kynningar og markaðssetningar neyslugrennri lífshátta.

Hvað á að gera við peninginn?
Einboðið er að verja tekjum af öllum þessum nýju sköttum til útgjalda sem styðja við uppbyggingu nýs hagkerfis, auka jöfnuð og milda áhrif breytinganna á þá hópa sem verða verst úti í þeim. Þetta getur m.a. falið í sér uppbyggingu ýmissrar grunnþjónustu og þjálfun nýrrar færni, auk endurbóta á innviðum sem gera fólk minna háð einkabílum, bæta möguleika þess til samveru, hreyfingar og útivistar o.s.frv. Um leið mætti fjármagna bókasöfn með mjög útvíkkað hlutverk, þar sem auk bóka væru lánuð út leikföng, tól og tæki sem draga myndu úr þörf fólk til að „eignast allt“.

Jöfnun vinnutímans
Mikilvægur liður í þeirri umbreytingu sem virðist ekki aðeins óumflýjanleg, heldur líka til þess fallin að auka lífsgæði fólks, er jafnari dreifing vinnustunda. Það er ekkert náttúrulögmál að allir vinni 40 tíma á viku eða þaðan af meira, enda er raunin víða sú að meðalvinnuvikan í Evrópu væri nær 20 tímum ef allri vinnu væri dreift nokkurn veginn jafnt á þá sem á annað borð teljast vinnufærir. Jöfnun vinnutímans myndi ekki aðeins bæta stöðu þeirra sem minnsta vinnu höfðu fyrir, heldur myndi hún einnig auka lífsgæði þeirra sem vinna mest og draga úr neikvæðum áhrifum þeirra á umhverfið, ef marka má rannsóknir sálfræðinga á fylgni þessara þátta. Jöfnun vinnutíma er ekki einföld í framkvæmd en stjórnvöld geta þó beint þróuninni í þá átt, þ.á.m. með ákvæðum um frítíma, fæðingarorlof o.m.fl. Þarna geta tekjuskattar líka komið við sögu. Um leið er losað um vinnuafl sem getur tekið til við að gera heimilið svolítið meira sjálfbjarga, hvort sem það er gert með matjurtaræktun, viðhaldi heimafyrir eða með öðrum hætti. Hér geta stjórnvöld enn látið til sín taka með fræðslu og námskeiðahaldi um holla og hagnýta tómstundaiðju af ýmsu tagi.

Matjurtagarðurinn
Matjurtaræktun heima fyrir eða í félagsgörðum er ákjósanlegt dæmi um þróun sem verður nær sjálfkrafa þegar fólk hefur rýmri tíma og/eða minni fjárráð. Slík ræktun getur átt stóran þátt í að auka matvælaöryggi og efla félagslega samstöðu. Sem dæmi um þetta má nefna þá þróun sem orðið hefur á Kúbu eftir hrun Sovétríkjanna. Í Havanna hafa t.d. sprottið upp rúmlega 26.000 matjurtagarðar þar sem framleidd eru 25.000 tonn af matvælum á ári. Og á Grikklandi hafa orðið til 32.000 ný störf í landbúnaði frá því að efnahagur landsins hrundi, á sama tíma og almennt atvinnuleysi hefur aukist úr 6% í 18%.

Sprotar af svipuðu tagi hafa vaxið upp sums staðar í Evrópu á síðustu misserum, án þess þó að nokkur neyð hafi rekið á eftir því, svo sem í Frakklandi og Hollandi þar sem stjórnvöld hafa aðstoðað samfélög við að byggja upp getu til aðgerða, svo sem með upprifjun á verklagi sem hafði gleymst á mesta hagvaxtarskeiðinu. Þannig hafa orðið til tækifæri til sjálfshjálpar og samhjálpar, og um leið hafa skapast ný staðbundin störf, samheldni samfélaga hefur aukist og geðheilsa batnað.

Máttur trúfélaga
Trúfélög geta leikið stórt hlutverk í því að þoka mannkyninu út úr þeim ógöngum sem það hefur komið sér í. Óhætt er að segja að trúfélögum hafi tekist misvel upp hvað þetta varðar, en þegar haft er í huga að um 80% jarðarbúa telja sig trúaða er ljóst að þarna liggur gríðarlegur máttur til góðra verka.

Félagsleg markaðsfærsla er lykilorð
Leiðin í átt að hjöðnun er vissulega ferðalag á móti straumi eins og staðan er í dag, enda gríðarlegum fjármunum varið til að markaðssetja nýjan varning og trúna á að hann færi fólki hamingju. Vel skipulögð félagsleg markaðsfærsla er lykilorð í þessu samhengi. Nú þegar má reyndar benda á nokkur einkar vel heppnuð verkefni í þá veru, svo sem verkefnið Story of Stuff, sem opnað hefur augu margra fyrir ógöngum neysluhyggjunnar. Þá hafa samtökin New Economics Foundation útbúið stutta heimildarmynd sem sýnir fram á hversu ómögulegur endalaus vöxtur er í reynd. Í myndinni er hamstur notaður sem dæmi og sýnt hvað myndi gerast ef hann héldi áfram að vaxa á sama hraða eftir að fullorðinsaldri er náð. Hamsturinn myndi þá vega 9 milljarða tonna á eins árs afmælinu og gæti étið alla kornframleiðslu heimsins á einum degi án þess að verða saddur. Í myndinni er komist að þeirri niðurstöðu, að „það sé ástæða fyrir því hvers vegna hlutir í náttúrunni vaxi aðeins þar til vissri stærð er náð. Hvers vegna halda þá hagfræðingar og stjórnmálamenn að hagkerfið geti vaxið endalaust“? Myndir á borð við Avatar og WALL-E hafa einnig gert sitt til að benda fólki á afleiðingar vaxtar og neysluhyggju. Tækifæri af svipuðu tagi er víðar að finna, svo sem í vinsælum tölvuleikjum og í hverju því sem fólk beinir athygli sinni að á hverjum tíma. Hér gildir að vera frumlegur í fræðslustarfinu í stað þess að boða breytta tíma með óbreyttum aðferðum í hópi jábræðra, og láta þar við sitja.

Af sjálfsdáðum eða tilneyddur?
Spurningin er ekki sú hvort við séum á leið inn í hjöðnunarskeið. Spurningin er eingöngu sú hvort náttúran neyði okkur inn á þá braut – og þá líklega ekki með neinum vettlingatökum – eða hvort að við sjáum tækifærin til að feta brautina af sjálfsdáðum og auka þannig velferð okkar og lífshamingju um leið og við gefum barnabörnunum tækifæri.

(Að mestu byggt á: Erik Assadourian (2012): The Path to Degrowth in Overdeveloped Countries“. Í State of the World 2012: Moving Toward Sustainable Prosperity. Island Press, Washington DC, USA). Bls. 22-37).

Er hagvöxtur málið?

Hagvöxtur er lykilorð í þjóðfélagsumræðu samtímans. Áherslan á hagvöxt er sérstaklega áberandi þessi misserin þegar íslenska þjóðin er smám saman að vinna sig upp úr niðursveiflunni sem varð í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Í þessu sambandi virðast forsvarsmenn vinstristjórnarinnar sama sinnis og hægrisinnuð stjórnarandstaða. Hagvöxtur er að beggja mati besti – eða kannski eini – mælikvarðinn á það hvernig okkur miðar á leiðinni út úr „kreppunni“. En þetta er ekki svona einfalt. Hagvöxtur getur sem best verið leið út úr þeirri kreppu sem við teljum okkur stödd í þessa stundina, en um leið gæti hann verið aðgöngumiði að miklu stærri kreppu í náinni framtíð.

Um endanlega stærð jarðarinnar
Jörðin okkar er kúla með u.þ.b. 40.000 km ummál. Leiðin beint í gegn er eitthvað um 12.700 km, örlítið mislöng eftir því hvar er farið. Þessar tölur skipta svo sem engu aðalmáli, að öðru leyti en því að þær eru fastar, þ.e. þær breytast ekki að neinu marki frá einu árþúsundi til hins næsta. Það þýðir líka að á jörðinni og í jörðinni er eitthvert ákveðið magn efna sem breytist ekki neitt, eða er með öðrum orðum endanlegt. Það þýðir líka að ekkert á þessari jörð getur vaxið endalaust.

Maður þarf ekki að velta staðreyndinni um endanlega stærð jarðarinnar lengi fyrir sér til að sjá að endalaus hagvöxtur er ekki fræðilega mögulegur, þ.e.a.s. ef hagvöxturinn byggir á því að nýta þær náttúruauðlindir sem jörðin hefur að bjóða, hraðar en þær endurnýjast. Augljósustu dæmin um slíkar auðlindir eru kol, olía og málmar, en önnur álíka mikilvæg en e.t.v. síður augljós dæmi eru andrúmsloft, drykkjarvatn og fosfór, svo eitthvað sé nefnt.

Endimörk vaxtarins
Hægt er að rekja umræðuna um endimörk vaxtarins a.m.k. rúm 200 ár aftur í tímann. Á árunum í kringum 1970 var farið að orða þetta svo, að rjúfa þyrfti tengsl hagvaxtar og eyðingar náttúruauðlinda, þ.e.a.s. að áframhaldandi hagvöxtur yrði að byggjast á öðru en vaxandi álagi á náttúruna. Upp úr þessu spruttu hugtökin aftenging (e. decoupling) og vistvirkni (e. eco-efficiency). Úr sama jarðvegi spratt hugmyndin um Faktor-4, sem Hermann Daley nefndi svo fyrstur manna 1976, en þar var á ferð hugmynd um að fjórfalda vistvirknina, t.d. með því að framleiða tvöfalt meiri verðmæti úr helmingi minna hráefni eða orku. Aðrir hafa jafnvel talað um Faktor-10 sem möguleika.

1,51 jörð
Samtökin Global Footprint Network hafa þróað aðferð til að reikna vistfræðilegt fótspor þjóða. Samkvæmt þeim útreikningum þarf mannkynið 1,51 jörð til að framfleyta sér eins og staðan er í dag. Neysla jarðarbúa er með öðrum orðum komin 51% fram úr því sem jörðin getur afkastað til lengdar. Ef við gætum fundið leiðir til að hætta umframneyslunni, þannig að fótsporið minnkaði niður í 1,00 jarðir, þá gætum við haldið áfram endalaust að lifa álíka góðu lífi og við gerum nú, en bara með því skilyrði að neyslan myndi ekki aukast á ný á kostnað náttúruauðlinda. Þetta ætti ekki að vera óyfirstíganlegt. Alla vega fer því fjarri að við þurfum að fjórfalda vistvirknina. Málið snýst bara um nokkra tugi prósenta.

Líf án hagvaxtar
Hugsum okkur að hægt sé að minnka fótspor mannkynsins niður í 1,00 jarðir með einu pennastriki, t.d. frá og með 1. janúar 2013. Þá værum við í býsna góðum málum. Ef við gerum hins vegar ráð fyrir 2% hagvexti ári upp frá því, sem allur væri til kominn vegna aukinnar nýtingar náttúruauðlinda, þá myndi fljótt sækja í sama farið. Árið 2034 væri fótsporið nefnilega aftur komið í 1,51 jörð. Ávinningurinn af pennastrikinu myndi sem sagt hverfa á 21 ári. Og ef við reiknum með 3% hagvexti tæki þetta ekki nema 14 ár. Niðurstaðan er einföld: Áframhaldandi hagvöxtur er útilokaður nema hann byggi alfarið á öðru en nýtingu náttúruauðlinda umfram árlega framleiðslugetu þeirra. Vangaveltur um líf án hagvaxtar eru efni í næsta pistil.

Fjöldi jarða sem mannkynið þarf til að framfleyta sér miðað við eina jörð 2013 og 3% árlegan hagvöxt upp frá því, sem allur byggist á nýtingu náttúruauðlinda umfram endurnýjun.