• Heimsóknir

    • 119.010 hits
  • mars 2023
    S M F V F F S
     1234
    567891011
    12131415161718
    19202122232425
    262728293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Nýr texti við Hallelúja Leonards Cohen

Borgarneskirkja 160Fyrr í vetur var ég beðinn um íslenskan texta við lag Leonards Cohen, Hallelúja, til flutnings á Þorláksmessutónleikum í Borgarneskirkju. Tónleikarnir voru í kvöld og þar var þessi texti sunginn í fyrsta sinn af þeim Jóhönnu Stefánsdóttur, Birnu Karen Einarsdóttur, Bjarna Waage og Benedikt Birgissyni, við undirleik Steinunnar Árnadóttur og Hafsteins Þórissonar. Textinn fer hér á eftir:

Hallelúja
(Lag: Leonard Cohen)
(Íslenskur texti: Stefán Gíslason)

Nú hátíð fer að höndum ein,
sem hlýjar, bætir, læknar mein
í hverri sálu, sama hverju þær trúa.
Í hverju hjarta lifnar ljós,
í Líbanon og uppi í Kjós.
Við sameinumst í söngnum hallelúja.

Þó fyllum við í hasti hver
þau hagfræðinnar mæliker
sem fyrr en varir verða að ryði og fúa.
Samt megna engin krítarkort
að kaupa gæfu af þeirri sort,
sem býr í eigin hjörtum – hallelúja.

Við finnum strauma fortíðar.
Það flögra um hugann minningar
um bakgrunn okkar, bernskutímann ljúfa,
um lyng í haga, lygnan fjörð,
um lítil börn, um Móður Jörð,
um stjörnuskin á húsvegg, hallelúja.

Hver örsmá stund, hvert augnablik,
hver andardráttur, sérhvert hik
er fyrirheit um framtíð bjarta og ljúfa.
En gleymum ekki því sem þarf,
sem þjóðin fékk í móðurarf
af nægjusemi og nýtni – hallelúja.

Er skuggar leika um loft og þil
er ljúft að geta fundið til
og sinnt um þá sem þjást af sorg og lúa.
Eitt fallegt orð, eitt hugljúft hrós
í hjarta getur tendrað ljós
og yljað þungum huga – hallelúja.

Nú kætast börn í koti og höll.
Nú kætast álfar, menn og tröll.
Og hamingjan í hjörtum fær að búa.
Við eigum saman indæl jól.
Við eigum von um friðarsól,
sem lýsir öllum heimi – hallelúja.

Frá Landsmóti hagyrðinga 2011

Í gærkvöldi tók ég í fyrsta sinn þátt í Landsmóti hagyrðinga, sem að þessu sinni var haldið í Stykkishólmi. Reyndar lít ég ekki á mig sem hagyrðing þó að ég hafi alist upp við kveðskap – og þó að tilfinning fyrir forminu sé mér líklega í blóð borin. Ég stunda nefnilega enga vísnagerð að staðaldri og hef nánast engin tengsl við „hagyrðingasamfélagið“, ef svo má að orði komast. En þarna var ég nú samt, nánar tiltekið sem fulltrúi Vesturlands í 6 manna hagyrðingapallborði frá öllum landshlutum. Dofri Hermannsson stjórnaði pallborðinu, sem e.t.v. skýrir þátttöku mína að einhverju leyti. Dofri er frændi minn.

Pallborðsumræður af því tagi sem hér segir frá, fara yfirleitt þannig fram að þátttakendur fá send yrkisefni með sæmilegum fyrirvara og mæta undirbúnir til leiks. Síðan skiptast þeir á að tjá sig í bundnu máli um hvert yrkisefni fyrir sig. Og stundum verða nýjar vísur til í hita leiksins. Þær eru oft skemmtilegastar. Það er nefnilega með vísur eins og fleira, að þær verða ekki endilega safaríkari eftir því sem þær eru soðnar lengur.

Hagyrðingapallborðið í Stykkishólmi var svipað öðrum slíkum. Þarna sátum við sem sagt 6 saman eins og fyrr segir, og höfðum öll fengið yrkisefnin send frá Dofra með góðum fyrirvara. Auk mín sátu þarna þau Magnús Stefánsson á Fáskrúðsfirði fyrir Austurland, Davíð Hjálmar Haraldsson á Akureyri fyrir Norðurland, Guðmundur Stefánsson í Hraungerði fyrir Suðurland, Halla Gunnarsdóttir í Reykjavík fyrir höfuðborgarsvæðið og Helga Guðný Kristjánsdóttir í Botni II í Súgandafirði fyrir Vestfirði.

Hér á eftir ætla ég að opinbera hluta af framlagi mínu til pallborðsumræðnanna. Reyndar er eðlilegt að byrja á vísu sem varð til áður en ég lagði af stað, þó að hún kæmi ekki fram á pallborðinu:

Sólin brosir sumarleg.
Set ég í bílinn dótið.
Stykkishólmur, hér kem ég
á hagyrðingamótið.

Eitt af yrkisefnunum var hækkandi meðalaldur bænda, en nýliðun í þeirri stétt hefur af ýmsum ástæðum verið óþarflega lítil. Ég nefndi í inngangi að kveðskap mínum um þetta efni, að ég hefði eiginlega verið bóndi í æsku, enda skráður fyrir 30 kindum þegar best lét á menntaskólaárunum.

Ef ég bóndi yrði að nýju,
yngjast myndi fljótt og létt,
því karlar undir 80
eru unglingar í þeirri stétt.

Og svo bættist önnur við, sem ég setti reyndar saman fyrir 2-3 árum:

Búskapur hefur breyst eins og gengur,
bændamenningin orðin klén.
Mógrafir sjást ekki í sveitinni lengur,
en sínu meira um skuldafen.

Sjálfstæði þjóðarinnar var næsta yrkisefni:

Sjálfstæðið er heilagt okkur öllum,
en óþarfi að kveðja það með sút,
ef Kínverjar gista á Grímsstöðum á Fjöllum
og geta borgað skikkanlega út.

Á Fróni er fallvölt gæfan,
„fyrst um dags morgunstund“:
Um Grímsstaði, Tíbet og Taiwan
ég tipla á kínverskri grund.

 Eitt af frumlegri yrkisefnunum voru transfitusýrur, en þátttakendur í pallborðinu voru ekki allir jafnhrifnir af því viðfangsefni.

Af hollustu hraustur mig fylli
og hráfæði útbý af snilli
og fiskrétt með glans,
en svo fell ég í trans-
fitusýrur á milli.

Framsóknarflokkurinn hefur, hvernig sem á því stendur, löngum legið betur við höggi en aðrar stjórnmálahreyfingar hvað vísnagerð varðar. Að þessu sinni var m.a. lagt til að fjallað yrði um brotthvarf Guðmundar Steingrímssonar úr flokknum og e.t.v. einnig um yfirstandandi megrunarkúr formanns flokksins.

Framsókn er orðin alveg bakk.
Að henni meinin sverfa:
Erfðaprinsinn farinn á flakk
og formaðurinn að hverfa.

Ég hef áður gert nokkrar framsóknarvísur af mismunandi tilefnum. Mér hefur t.d. stundum gengið illa að fylgjast með því hverjir séu í flokknum og hverjir ekki, eða jafnvel hvaða flokkur þetta sé yfirleitt. Einhvern tímann leiddi þetta til eftirfarandi samsuðu, sem ég lét líka fljóta með í gærkvöldi:

Síkvikur stjórnmálasærinn er
sem ég bý við:
Framsókn er gengin úr sjálfri sér.
Svona er lífið.

Undir lokin áttu þátttakendur að útskýra ágæti eigin landshluta umfram aðra. Ég hlaut því að yrkja um yfirburði Vesturlands:

Fyrir norðan ég norðurljós best fann
og nóg getur Suðurland hresst mann.
Svo er Austurland flott,
samt er ekkert eins gott 
og að vera með mér fyrir vestan.

Síðasta verkefnið var „vísa að eigin vali“ eins og það var orðað í forskrift stjórnandans:

Í Hólminum fylltu hagyrðingar sali,
og hetjukvæðin voru í röðum flutt.
En þetta er bara vísa að eigin vali,
voða stutt.

Ég get svo sem bætt við þetta einni vísu, sem ég gerði á staðnum í framhaldi af erindi sem heiðursgestur mótsins, Dr. Ragnar Ingi Aðalsteinsson hélt, en þar færði hann m.a. sterk rök fyrir því að vísnaformið væri síður en svo að deyja út. Þvert á móti stæði vísnagerð í blóma sem aldrei fyrr, og jafnvel grunnskólabörn sýndu mikla færni á þessu sviði, hvað sem liði öllu tali um afar háan meðalaldur hagyrðinga. Seinna um kvöldið hafði Gísli Einarsson, sem stjórnaði samkomunni, orð á því að við eitt borðið í salnum sæti hópur af fólki sem lækkaði meðalaldurinn í salnum mjög verulega. Þetta kallaði hann „barnaborðið“. Við annað tækifæri var óskað eftir vísum úr sal, og þá hvatti Gísli landsmótsgesti til að yrkja eins og … (eitthvað sem ekki verður nefnt í óbundnu máli á svona virðulegri bloggsíðu). En út úr þessu kom alla vega þetta:

Gömul kvæðagen að virkja
gengur seint – til notkunar.
En hiklaust börnin ungu yrkja
eins og moðerfokkerar.

Lýkur hér að segja frá mínum þætti í Landsmóti hagyrðinga. Ég get þó upplýst að lokum að fólki leiddist ekkert þarna, enda var margt fleira til skemmtunar en hagyrðingapallborðið, svo margt að dagskráin stóð linnulaust í fjóran og hálfan klukkutíma. Þá er harmonikkuballið ekki meðtalið, enda fór ég heim áður en það byrjaði.

Inn á þingið

Kosningabaráttan tekur á sig ýmsar myndir, eins og hér má sjá: 🙂

Síðan um hrun er ég hrjáður af stjórnmálakveisu.
Ég hlusta á fréttir um vesen og endaleysu.
Titrandi sit ég og tárvotur stari í askinn
– og traustið á kerfinu alveg farið í vaskinn.

En þetta lagast – sama hvað þið syngið.
Ég segi það og skrifa: Kjósum okkur þinglið!
Ég ætla að hætta að væla og velja mér fólk

inn á þingið okkar ……

Ég vil sjálfbærni, jöfnuð og jákvæðni.
Ég vil jólastemmingu og áræðni.
Ég vil þjóðina alla á þing,
því ég elska hvern Íslending.

Ég vil kjósa bæði karlfausk og smápíu.
Ég vil kjósa, en mér duga ekki 30.
Ég vil fá miklu fleiri en svo.
Ég vil 2072

inn á þingið okkar ……

Það eina sem ég veit

Sauðárkrókur, Bíldudalur, Borgarnes og Hlaðir,
Berufjörður, Vestmannaeyjar, Sandgerði og Egilsstaðir,
Grafarvogur, Hólmavík og Hrísey:
Hér býr ekki nokkur maður sem að kýs ei
á Stjórnlagaþingið.
Svo man ég ekki meir.
Það eina sem ég veit – er 2072.
🙂

Kveðið um 2072

Margt rekur á fjörur manns í kosningabaráttunni! 🙂

Hann á þolgæði í þykkum stöflum.
Hann er sterkur, en mannlega meir.
Hann er sérlega sjálfbær á köflum.
Hann er 2072.

Hann er yfirleitt geislandi glaður.
Hann er nærgætinn norðanþeyr.
Hann er týpískur maraþonmaður.
Hann er 2072.

Hann er grænn eins og lauf á lyngi.
Hann er seigur sem sef eða reyr.
Hann er Stefán á Stjórnlagaþingi.
Hann er 2072.

Vor í lofti?

Þegar veturinn ríkir og döggin á grasinu deyr
og dæmalaust langt í að aftur taki að hlána,
er léttir að vita að 2072
er til í að reyna að þíða upp stjórnarskrána.
🙂

(Stefán Gíslason, frambjóðandi nr. 2072 til Stjórnlagaþings)