Í dag er mikið um dýrðir, því að í dag eru liðin 6 ár frá því að ég gerðist bloggari. Þessum tímamótum hef ég fagnað með tedrykkju allan daginn, með hléum.
Þegar bloggferill minn hófst var óljóst hvert leiðin lægi. Svo er enn. Því er þó ekki að neita að bloggum hefur farið fækkandi eftir því sem árin hafa liðin, eins og sjá má á grófu línuriti yfir mánaðarlegan fjölda blogga, sem skýrist ef smellt er á litlu myndina hér efst til hægri. Þessi mikilvæga og stórkostlega gagnlega tölfræðilega greining bendir til eindreginnar en nokkuð óstöðugrar hnignunar. Öll á þróunin sínar skýringar, sem ég er örugglega búinn að gleyma. Þó hygg ég að eftir að ég hóf að leggja lag mitt við Fésbók á tveggja ára bloggafmælinu þann 11. janúar 2009 hafi bloggum fækkað smátt og smátt, enda auðvelt að fá útrás á Fésbókinni fyrir skrifþörf í litlum skömmtum. Stærri skrifþarfarköst leiða hins vegar enn til bloggskrifa. Annað sem skipti máli fyrir framgang þessara mála var ris og hnig Moggabloggsins. Þar var hægt að skrifa blogg um fréttir með einföldum og snöggsoðnum hætti. Það fannst mér stundum gaman. Hins vegar fannst mér ekki gaman þegar Moggabloggið eyðilagðist haustið 2009. Þegar rýnt er í línuritið má merkja ákveðið hrun nálægt miðri mynd, en það hrun átti sér einmitt stað sumarið 2009, nokkrum mánuðum eftir fyrstu kynni mín af Fésbókinni og nokkrum mánuðum fyrir brotthvarf af Moggablogginu.
Framhaldið er óljóst, en ég mun þó örugglega halda áfram að skrifa bloggpistla annað slagið. Reyndar hef ég síðustu mánuði fengið útrás fyrir hluta af skrifþörfinni og jafnframt ákjósanlegan farveg fyrir óráðstafaðan tíma á vefsíðunni http://2020.is. Þar er stefnt að linnulausu framhaldi enn um sinn.
Læt ég hér lokið afmælisfagnaðarskrifum að sinni. Teið drekkur sig ekki sjálft.
Filed under: Blogg um blogg |
Færðu inn athugasemd