• Heimsóknir

    • 119.667 hits
  • janúar 2013
    S M F V F F S
     12345
    6789101112
    13141516171819
    20212223242526
    2728293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Hlaupaannáll 2012 og markmið fyrir hlaupaárið 2013

RM Endasprettur SG webNú er hlaupaárið 2012 að baki og 2013 tekið við. Því er mál að líta um öxl og framávið, rifja upp hvernig til tókst á liðnu ári og gefa yfirlýsingar um helstu markmiðin framundan.

Hlaupaárið 2012 var einkum sérstakt af tveimur ástæðum. Annars vegar var þetta ekki bara hlaupaár heldur líka hlaupár og hins vegar var þetta ár meiðsla hvað sjálfan mig varðar. Meiðsli hafa sem betur fer verið fátíð, en stundum fer eitthvað úrskeiðis. Ástæðan er eiginlega alltaf sú sama. Ég gerði einfaldlega „of mikið of fljótt“. Þrátt fyrir það var þetta alls ekki afleitt hlaupaár.

Aðeins 20% markmiðanna náðust, en samt…..
En lítum fyrst á markmiðin sem ég setti mér í upphafi ársins. Þau voru 5 eins og lesa má um í þar til gerðum pistli frá 15. janúar 2012. Ég ætlaði sem sagt að 1) Hlaupa Laugaveginn undir 6 klst, 2) hlaupa a.m.k. sex fjallvegahlaup, 3) hlaupa a.m.k. 2 maraþonhlaup, 4) bæta mig í maraþoni og 5) hafa gleðina með í för í öllum hlaupum. Af þessum markmiðum náði ég bara einu, nefnilega þessu með gleðina. Laugavegurinn fór forgörðum vegna fyrrnefndra meiðsla og maraþonhlaupið varð bara eitt og enginn grundvöllur fyrir bætingu. Hins vegar náðist fjallvegahlaupamarkmiðið næstum því. Fjallvegirnir urðu sem sagt 5. En ég gerði líka sitthvað sem ég hafði ekki stefnt sérstaklega að. Til dæmis átti ég þátt í því með tveimur góðum hlaupafélögum að stofna hlaupahópinn Flandra í Borgarnesi. Það uppátæki átti eftir að færa mér og mörgum fleirum þó nokkrar ánægjustundir síðustu mánuði ársins.

Best og skemmtilegast
Þegar ég lít til baka finnst mér fæðing Flandra standa upp úr öðru fremur. Snjáfjallahringurinn er líka mjög eftirminnilegur, svo og fjallvegahlaupið um Ólafsskarð í maí. Fleira mætti nefna – og í öllum tilvikum kemur góður félagsskapur þar við sögu. Ég er ekki frá því að félagslegi þátturinn skipti mig sífellt meira máli.

Við upphaf fyrstu æfingar hlaupahópsins Flandra í Borgarnesi 6. september 2012.

Við upphaf fyrstu æfingar hlaupahópsins Flandra í Borgarnesi 6. september 2012.

Söguleg tímamót
800m 720819 webÞann 19. júlí 2012 voru liðin 40 ár frá því að ég keppti fyrst í hlaupum, en það var á héraðsmóti HSS í Sævangi við Steingrímsfjörð. Þessu gerði ég að sjálfsögðu ítarleg skil í þar til gerðum bloggpistli. Svona tímamót eru svo sem ekki stór í eilífðinni, en fyrir mig voru þau tækifæri til að horfa um öxl og fyllast þakklæti. Ég get ekki annað en litið á það sem forréttindi að hafa haft heilsu og tækifæri til að sinna þessu áhugamáli mínu með litlum hléum allan þennan tíma!

Önnur tímamót á árinu, allt annars eðlis, voru lestur bókarinnar Born to run eftir Christopher McDougall. Mér fannst merkilegt að upplifa hvernig ein svona lítil bók gat sett hlaupin í nýtt samhengi! Mæli eindregið með lestri hennar.

Æfingar ársins
Fyrstu vikur ársins miðuðust æfingarnar einkum við þátttöku í Vormaraþoni Félags maraþonhlaupara í lok apríl. Allt fór þetta mjög vel af stað þrátt fyrir að færðin væri oft erfið og veðrið stundum leiðinlegt. Seint í janúar þótti mér þó sýnt að vegna annríkis í vinnu yrði ég að draga úr æfingamagninu og e.t.v. sleppa maraþoninu. Það var svo ekki fyrr en um 20. mars sem ég komst almennilega af stað aftur. Náði þó m.a. 4 æfingum 30 km og lengri í mars og var kominn í allgott langhlaupastand í lok mánaðarins. Setti Vormaraþonið þá aftur á dagskrá, en úr því varð ekki vegna smávægilegra meiðsla á síðustu stundu.

Þessa fyrstu mánuði var ég duglegur að taka styrktaræfingar að ráði Þorkels frumburðar, og taldi mig sjá ágætan árangur af því. Óþægindi í mjóbaki, sem höfðu angrað mig frá því í júní 2010 voru t.d. næstum horfin um vorið. Ég get svo sem ekki sannað neitt um ástæðurnar, en ég held að styrktaræfingarnar hafi haft þar langmest að segja. Svoleiðis æfingar verða sjálfsagt enn mikilvægari eftir því sem aldurinn færist yfir. Þær verða fastur liður á árinu 2013.

Þann 24. maí kom mikið bakslag í hlaupin þegar ég tognaði framan í vinstri mjöðm á óskynsamlegri hraðaæfingu tveimur dögum eftir langt fjallvegahlaup um Ólafsskarð. Næstu tvo mánuði hljóp ég varla neitt nema með hálfum huga. Náði þó að safna slatta af kílómetrum í júlí. Meiðslin fylgdu mér það sem eftir var ársins, en háðu mér svo sem lítið nema þessa fyrstu tvo mánuði. Fékk líka góða aðstoð heilara og sjúkraþjálfara til að flýta fyrir batanum.

Á Snjáfjallahringnum 28. júlí urðu önnur þáttaskil. Þann dag lagði ég rúma 60 km að baki, sem var lengsta dagleiðin í lífinu. Mjöðmin versnaði ekki að ráði við þetta og þar með endurheimti ég líka hlaupasjálfstraustið að mestu leyti. Kom mér að vísu upp nýju meiðsli í vinstri ökkla þegar ég rann fram af einhverri brún og lenti harkalega í gjótu. Þau meiðsli fylgdu mér líka út árið en voru sjaldan til stórra vandræða.

Ágúst varð prýðilegur æfingamánuður og ég skellti mér meira að segja í heilt Reykjavíkurmaraþon án þess að það hefði nein sérstök eftirköst. Mestu og jákvæðustu umskipti ársins urðu þó með tilkomu Flandra í byrjun september. Auður H Ingólfsdóttir og Sigríður Júlía Brynleifsdóttur komu með þessa hugmynd til mín og fyrr en varði vorum við farin að hlaupa saman þrisvar í viku hvað sem á gekk, oftast 10-15 saman. Í þessum hópi voru margir byrjendur, þannig að ég bjóst eiginlega ekki við að þetta myndi hjálpa mér mikið. En raunin var önnur. Þarna var kominn fastur punktur í hlaupatilveruna og æfingarnar urðu miklu skemmtilegri en áður. Septembermánuður varð sá lengsti í sögunni (172 km) og sama gilti um desember. Reyndar hef ég aldrei hlaupið jafn mikið síðustu 4 mánuði nokkurs árs – og gott ef hraðinn var ekki líka með mesta móti.

Á árinu 2012 hljóp ég samtals 2.026 km, sem gerir árið að því þriðja lengsta í sögunni. Það finnst mér vel sloppið miðað við það strik sem meiðslin settu í reikninginn. Æfingadagar ársins urðu samtals 144, sem er líka með mesta móti. Þegar á heildina er litið er ég því ágætlega sáttur og þykist vel tilbúinn að takast á við nýtt hlaupaár. Meiðsli eru líka ágæt að því leyti að þau kenna manni eitt og annað. Yfirleitt gengur miklu betur að læra af eigin mistökum en annarra.

Fjallvegahlaupin
Eins og fyrr segir hljóp ég 5 fjallvegi á árinu. Fyrsta viðfangsefnið var Ólafsskarð frá Litlu kaffistofunni í Svínahrauni til Þorlákshafnar 22. maí. Þetta var afskaplega ánægjuleg ferð og fylgdarliðið fjölmennara en nokkru sinni fyrr. Veðrið var líka alveg prýðilegt. Það sama gilti ekki á Kerlingarskarði fjórum dögum síðar. Sú leið var hlaupin í sunnan hvassviðri og rigningu, en góðar veitingar Bjargar Ágústsdóttur í Grundarfirði að hlaupi loknu gerðu þetta samt að einkar góðum degi. Bæði skarðið og Björg eiga þó skilið að fá svona heimsókn í betra veðri. Þarna var ég nýtognaður, en lét hvorki það né veðrið aftra mér í að halda fyrirfram gerðri áætlun. Stundum er maður kannski aðeins of þrjóskur. Næstu þrír fjallvegir voru svo hlaupnir 28. júlí á Snjáfjallahringnum. Þann dag lögðum við upp 6 saman frá Dalbæ á Snæfjallaströnd, hlupum út ströndina og yfir Snæfjallaheiði til Grunnavíkur, þaðan um Staðarheiði inn að Dynjanda í Leirufirði og loks yfir Dalsheiði aftur að Dalbæ. Þessi dagleið var rétt um 60 km og hlutar leiðarinnar mjög erfiðir vegna hrjóstrugs undirlags. En allt gekk þetta vel, veðrið lék við okkur og ekki spilltu veitingarnar í Grunnavík og Dynjanda fyrir. Ferðasöguna í heild er að finna í afskaplega löngu hlaupabloggi frá 3. ágúst.

Á göngubrúnni yfir Innraskarðsá á Snæfjallaströnd. Möngufoss í baksýn.

Á göngubrúnni yfir Innraskarðsá á Snæfjallaströnd. Möngufoss í baksýn.

Sérverkefni
Á árinu tók ég þátt í nokkrum sérverkefnum á hlaupum, með beinum eða óbeinum hætti. Óbeini hátturinn var afleiðing meiðsla. Fjögur sérverkefni standa upp úr þegar horft er til baka.

Fyrsta sérverkefnið var hinn árlegi Háfslækjarhringur, en sú hefð hefur skapast að ég hlaupi hann með nokkrum frískum Borgfirðingum á uppstigningardag á hverju vori. Vorið 2012 var það þriðja í röðinni, en þar fyrir utan hef ég hlaupið hringinn býsna oft mér til dægrastyttingar og styrkingar. Alls luku 9 manns hinu árlega hlaupi að þessu sinni, sem er 50% aukning frá fyrra ári. Hringurinn er rúmlega 21 km heiman frá mér og heim aftur, og auðvitað er ekkert sjálfsagt að fólk geti hlaupið svoleiðis spotta hvenær sem því dettur í hug. Vaxandi þátttaka bendir ótvírætt til vaxandi hreysti Borgfirðinga. Að hlaupi loknu bauð Björk upp á kjötsúpu fyrir alla þátttakendur, en kjötsúpan er mikilvægur hluti af þessari þriggja ára hefð.

Á hraðferð í gegnum fólkvanginn í Einkunnum á uppstigningardag 2012.

Á hraðferð í gegnum fólkvanginn í Einkunnum á uppstigningardag 2012.

Næsta sérverkefni var Þrístrendingur 23. júní, en hann var nú þreyttur í þriðja sinn. Þetta hlaup var sérstakt að tvennu leyti frá mínum bæjardyrum séð. Annars vegar átti veðurblíðan sér enga hliðstæðu í minni elstu manna og hins vegar var þetta í fyrsta sinn sem ég varð að láta mér nægja að fylgjast með af hliðarlínunni. Reyndar náði ég að skokka smáspotta hér og þar, svona rétt til að sýnast. Í Þrístrendingi er hlaupið frá Kleifum í Gilsfirði norður Steinadalsheiði að Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði, áfram yfir Bitruháls að æskuslóðum mínum að Gröf í Bitru og loks suður Krossárdal að Kleifum. Að þessu sinni buðu Rögnvaldur bróðir minn og Arnheiður sambýliskona hans til pönnukökuveislu í Gröf að loknum tveimur áföngum af þremur. Þetta mæltist afskaplega vel fyrir og hefur eflaust létt mörgum síðasta áfangann. Leiðin öll er um 40 km að lengd, og að þessu sinni fóru 9 hlauparar og 3 hjólreiðamenn alla leiðina. Í Þrístrendingi er engin keppni og lítið um tímatöku, en langmest lagt upp úr gleði og samveru.

Léttklæddir Þrístrendingshlauparar við Stóra-Fjarðarhorn.

Léttklæddir Þrístrendingshlauparar við Stóra-Fjarðarhorn.

Þriðja sérverkefnið var Hamingjuhlaupið 30. júní, sem að þessu sinni hófst um hádegisbil við Handverkshúsið Kört í Árnesi í Trékyllisvík og lauk við upphaf tertuhlaðborðs á Hamingjudögum á Hólmavík um kl. hálfníu um kvöldið. Þarna var veðurblíðan litlu minni en í Þrístrendingi, en þrátt fyrir það náði enginn hlaupari að hlaupa alla leiðina (um 54 km). Sjálfum tókst mér bara að hökta með á stuttum köflum. En leiðin öll var hlaupin engu að síður, og undir lokin var hlauparahópurinn orðinn býsna stór og mjög hamingjusamur. Þetta var 4. formlega Hamingjuhlaupið, en það er að verða býsna rótgróinn hluti Hamingjudaganna.

Hlaupurum fagnað við komuna til Hólmavíkur. (Ljósm.: Strandabyggð - Ingibjörg Valgeirsdóttir / Jónas Gylfason)

Hlaupurum fagnað við komuna til Hólmavíkur. (Ljósm.: Strandabyggð – Ingibjörg Valgeirsdóttir / Jónas Gylfason)

Síðasta sérverkefnið tengdist því ótrúlega uppátæki Tékkans René Kujan að hlaupa umhverfis Íslands á 30 dögum, rúmlega eina maraþonvegalengd á dag, til að safna fé fyrir fatlaða íþróttamenn í Tékklandi og á Íslandi. Ég slóst í för með honum þriðja síðasta daginn (20. október) frá Dýrastöðum í Norðurárdal niður í Borgarnes. Þetta var skemmtileg upplifun, og enn skemmtilegri vegna þess að myndarlegur hópur Flandrahlaupara bættist í hópinn síðustu kílómetrana. Veðrið lék líka við hvern sinn fingur eins og svo oft á þessu merkisári.

Sprækir Flandrahlauparar á sprettinum með René Kujan ofan við Borgarnes 20. október. Sjálfur er René lengst til vinstri á myndinni. Sól skín í heiði.

Sprækir Flandrahlauparar á sprettinum með René Kujan ofan við Borgarnes 20. október. Sjálfur er René lengst til vinstri á myndinni. Sól skín í heiði.

Keppnishlaup
Keppnishlaupin mín voru ekki mörg þetta árið, enda lítið gaman og ekkert skynsamlegt að keppa meiddur. Sem fyrr segir var ætlunin að taka þátt í Vormaraþoninu, en það fór sem sagt forgörðum. Fyrsta keppnishlaupið var Icelandairhlaupið 3. maí, 7 km í kringum Vatnsmýrina. Þetta gekk bara vel, ég var að vísu ekki í neinu toppformi, en náði þó að klára málið á 29:18 mín, sem er svona í meðallagi hvað mig varðar. Sjálfum fannst mér ég vera nokkuð léttur og sterkur eftir styrktaræfingar vetrarins. Icelandairhlaupið er alltaf skemmtilegt. Að vísu er oft þröng á þingi fyrsta spölinn, en stemmingin að sama skapi góð að hlaupi loknu og margt spjallað. Ég missti reyndar af þessari eftirmeðferð að þessu sinni. Þurfti að stökkva beint upp í bíl til að halda einhvern fyrirlestur í Mosfellsbæ skömmu síðar.

Næsta hlaup – og það fyrsta eftir meiðsli – var Reykjavíkurmaraþonið 18. ágúst. Ég ákvað að halda mínu striki og hlaupa heilt maraþon, þrátt fyrir að æfingar sumarsins hefðu verið allt aðrar og fátæklegri en þörf er á fyrir slíkt, auk þess sem ég var nýbúinn að krækja mér í hálsbólgu. Reyndar hef ég aldrei lagt af stað í maraþonhlaup eins illa undirbúinn. Eðlilega stillti ég væntingunum í hóf, en þóttist þó vita að ég gæti lokið hlaupinu á 3:24-3:38 klst. Það gekk eftir. Lokatíminn var 3:25:56 klst., sem var ekki nema 9 mínútum frá mínu besta, þrátt fyrir allt. Mér leið vel allt hlaupið, fann eiginlega hvergi til óþæginda, varð ekkert var við krampa í fótum og gat tekið tímatökuflöguna af hlaupaskónum mínum í markinu hjálparlaust. Stundum afþakka fæturnir svoleiðis æfingar að loknum maraþonhlaupum.

Alsæll á leið í mark í Reykjavíkurmaraþoninu 2012.

Alsæll á leið í mark í Reykjavíkurmaraþoninu 2012.

Reykjavíkurmaraþonið var vafalítið með bestu stundum ársins í hlaupalegu tilliti, ekki bara vegna þess að ég komst alla leiðina klakklaust á gleðinni, heldur líka vegna þess að veðrið var svo gott og vegna þess að fólkið mitt tók á móti mér á marksvæðinu. Auk þess var hlaupið einkar gott fyrir sjálfstraustið. Ég veit ekki um aðra, en það skiptir máli fyrir mig að fá annað slagið staðfestingu á getunni. Hefði ég sleppt maraþoninu hefði ég sjálfsagt farið öllu lúpulegri en ella inn í haustið, hversu kjánalega sem það kann að hljóma. Auk þess var þetta 10. maraþonið mitt frá upphafi. Alltaf gaman að svoleiðis áföngum.

Tólf dögum eftir Reykjavíkurmaraþonið var röðin komin að Fossvogshlaupinu. Þar hljóp ég 10 km á 43:18 mín, sem var framar vonum og reyndar alveg sambærilegt við árangur minn á síðustu árum þegar meiðsli voru ekki til trafala. Þarna hitti ég líka skemmtilegt fólk, þ.á.m. nokkra hlaupara úr Borgarnesi. Og ekki spillti tertuhlaðborðið í Víkingsheimilinu fyrir upplifuninni.

Fjórða keppnishlaup ársins var Vetrarhlaup UFA á Akureyri 24. nóvember, í góðu veðri en vetrarfærð. Þetta var eina hlaupið þar sem árangurinn var ekki vonum framar, en eins og fram kom í uppgjöri mínu að hlaupi loknu snerist málið ekki um slakan árangur, heldur óraunsæjar vonir. Hver er nefnilega sinnar gæfu smiður í þessum efnum sem fleirum. Eftir á að hyggja var þetta bráðskemmtilegt hlaup. Og árangurinn, 10 km á 45:02 mín, var vel að merkja hálfri mínútu betri en á sömu vegalengd í Reykjavíkurmaraþoninu fyrir 19 árum. Ástæðulaust að vera ósáttur við það!

Síðast tók ég svo þátt í Flandraspretti nr. 3  í Borgarnesi 20. desember. Flandrasprettirnir eru að hluta til á mína ábyrgð, þannig að þátttaka mín í þeim er háð því að nógu margir aðrir starfsmenn fáist til að sjá um framkvæmdina. Þetta kvöld vantaði ekkert upp á þetta, þannig að ég skellti mér með í hlaupið. Kláraði þessa 5 km á 20:47 mín, sem er svipaður tími og ég hef vanist síðustu 30 árin eða svo. Þetta var gaman!

Afrekaskráin
Ég hef haft það fyrir sið í pistlum á borð við þennan að gera ítarlega grein fyrir stöðu minni á afrekaskrá Íslendinga í maraþoni frá upphafi, ekki vegna þess að lesendur pistlanna hafi kallað ákaft eftir slíkum upplýsingum, heldur einfaldlega vegna þess að ég hef sjálfur slíkan áhuga á afrekaskrám að jaðrar við röskun. Eftir að hlaupavefurinn hlaup.com hrundi á liðnu sumri eru þessar bráðnauðsynlegu upplýsingar hins vegar ekki lengur tiltækar. Í upphafi ársins var ég í 221. sæti á þessari ágætu skrá, og þar sem maraþonhlaupurum Íslands fjölgar gríðarlega á ári hverju er næsta víst að ég hafi hrapað langt niður eftir listanum á árinu. Sé hins vegar litið á afrekaskrá ársins 2012 eina og sér, þykist ég vita að þar sé ég nálægt 75. sæti af öllum körlum og í 12. sæti í hópi þeirra sem orðnir eru fimmtugir. Sé aðeins litið á aldursflokkinn 55-59 ára var ég meira að segja með besta tíma ársins samkvæmt opinberri afrekaskrá aldursflokka á hlaup.is. Til þess að koma mér í toppsætið þurfti þó að grípa til alþjóðlegra reglna til að útiloka a.m.k. tvo spræka hlaupara sem urðu ekki 55 ára fyrr en síðar á árinu. Árangur þeirra lenti því í 50 ára flokknum. Þetta er örugglega í fyrsta sinn sem ég sit í efsta sæti á einhverri svona skrá. Það ýtir að sjálfsögðu undir sjálfsálit og metnað. Hvorugt var þó naumt skammtað fyrir.

Markmiðin 2013
Eins og fram hefur komið náðist ekkert af hlaupamarkmiðum ársins 2012, að frátöldu því markmiði að hafa gleðina með í för í öllum hlaupum. Því liggur beint við að endurnota sömu markmið 2013, enda hlýtur slíkt að teljast einkar umhverfisvænt. Varla ætti þó að saka að bæta eins og tveimur markmiðum (nr. 5 og 6) við til að gera listann enn tilkomumeiri. Markmiðin fyrir árið 2013 eru því sem hér segir:

  1. Laugavegurinn undir 6 klst.
  2. A.m.k. sex fjallvegahlaup
  3. A.m.k. tvö maraþonhlaup
  4. Bæting í maraþoni
  5. Bæting í hálfu maraþoni
  6. A.m.k. 2.500 km á árinu
  7. Gleðin með í för í öllum hlaupum

Þakkir
Mér finnst gaman að hlaupa. En til þess að geta sinnt þessu áhugamáli, eins tímafrekt og eigingjarnt og það getur stundum verið, þarf baklandið að vera fullt af þolinmæði og umburðarlyndi. Þessu baklandi er ég afskaplega þakklátur, og þar stendur eiginkonan Björk auðvitað fremst í flokki. Börnin okkar þrjú, sem öll eru að vísu komin á þrítugsaldurinn, fá líka sinn skerf af þakklæti, sérstaklega Þorkell sem hefur komið með sífellt fleiri og gagnlegri ábendingar um æfingar sem stuðla að viðhaldi heilsu og árangurs, auk þess að gauka að mér bókinni Born to run, sem fyrr var nefnd. Af mörgum öðrum sem hafa átt þátt í að gera þetta áhugamál mitt eins skemmtilegt og raun ber vitni, ber fyrst að nefna ferðafélaga mína í fjallvegahlaupum og hlaupafélagana í Flandra. Nokkur nöfn koma í hugann öðrum fremur, en listinn verður aldrei tæmandi og því betra að hver taki til sín sína sneið af þakklætinu óbeðinn. Ég er ekki lítið heppinn að eiga allt þetta góða fólk að!

Björk - og kvöldhiminn á Snæfjallaströnd um miðnætti á laugardagskvöldi eftir Snjáfjallahring og gúllassúpu Bjarkar.

Björk – og kvöldhiminn á Snæfjallaströnd um miðnætti 28. júlí 2012 eftir Snjáfjallahring og gúllassúpu Bjarkar.

Eitt svar

  1. […] Í ársbyrjun setti ég mér sjö markmið fyrir hlaup ársins, eins og lesa má um í þar til gerðum pistli frá 6. janúar 2013. Ég ætlaði sem sagt að 1) hlaupa Laugaveginn undir 6 klst, 2) hlaupa a.m.k. sex fjallvegahlaup, […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: