• Heimsóknir

  • 118.534 hits
 • júní 2013
  S M F V F F S
   1
  2345678
  9101112131415
  16171819202122
  23242526272829
  30  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Þrístrendingur í fjórða sinn

Thristrend2013 048 160Fjalla- og skemmtihlaupið Þrístrendingur var háð í fjórða sinn laugardaginn 22. júní sl., en eins og allir vita snýst þetta hlaup um að fara tvisvar þvert yfir Ísland sama daginn, nánar tiltekið með því að fara um þrjár sýslur, þrjár strandir og þrjá fjallvegi. Dofri Hermannsson, frændi minn frá Kleifum í Gilsfirði, sló upphaflega fram hugmyndinni um þetta hlaup, og síðan þá höfum við hjálpast að við að láta hana verða að veruleika. Það er óháð og hlutlaust mat mitt að alltaf hafi vel tekist til, þó sjaldan eins vel og í þetta skipti.

Kleifar í Gilsfirði eru sjálfsagður upphafsstaður fyrir Þrístrending af því að Kleifar eru einmitt upphafsstaður okkar Dofra beggja. Það tiltekna upphaf má rekja aftur til ársins 1851 þegar Jón Ormsson flutti frá Króksfjarðarnesi að Kleifum. Þessi Jón var langalangafi minn og langalangalangafi Dofra og var talinn „vel gáfaður, ráðhollur og gestrisinn“. (Þessar mikilvægu upplýsingar er að finna í 2. bindi Dalamanna eftir séra Jón Guðnason, (bls. 517), sem gefið var út í Reykjavík á kostnað höfundar 1961). Sonur Jóns var Eggert langafi minn á Kleifum (talinn vitur maður og lögkænn). Dóttir hans var Anna Eggertsdóttir, sem bjó á Kleifum með Stefáni Eyjólfssyni eiginmanni sínum. Meðal barna þeirra voru Birgitta móðir mín og Jóhannes afi Dofra. Þannig var nú það og þaðan er Stefánsnafnið komið. Lýkur hér þessum ættfræðilega inngangi.

Veðrið á laugardaginn var svo gott að vafi leikur á að annað eins hafi sést á þessum slóðum, nema í Þrístrendingi í fyrra þegar það var jafnvel enn betra. Hægur vindur blés úr óskilgreindri átt, fá ský á himni og sólin skínandi glöð. Hitastig á láglendi var um 8°C um morguninn en var komið nálægt 15°C síðdegis.

Glaðir hlauparar á hlaðinu á Kleifum á sólbjörtum laugardagsmorgni. Hafursklettur og Gullfoss í baksýn.

Glaðir hlauparar á hlaðinu á Kleifum á sólbjörtum laugardagsmorgni. Hafursklettur og Gullfoss í baksýn.

Á slaginu 11:07 að morgni þessa sólríka laugardags lagði fríður hópur hlaupara af stað frá Kleifum sem leið liggur niður heimreiðina. Þarna voru samtals 11 hlauparar á ferð, nógu harðsnúnir til að leggja í Þrístrending allan. Fleiri áttu eftir að bætast við síðar. Höfuðpaurinn Dofri tók að sér að vera bílstjóri, auk þess sem hann sá um að allt færi sómasamlega fram, dyggilega studdur af yngstu dóttur sinni Rún. Bílferðin kom sér vel, því að með henni sköpuðust tækifæri til að senda fólk og vistir milli staða eftir þörfum.

Á harðaspretti niður heimreiðina á Kleifum. Bara 41 km eftir! Bæjarstjórahjónin á Ísafirði fremst í flokki.

Á harðaspretti niður heimreiðina frá Kleifum. Bara 41 km eftir! Bæjarstjórahjónin á Ísafirði fremst í flokki.

Hlaupið allt gekk eins og í skemmtilegri sögu. Steinadalsheiðin reyndist enginn farartálmi, enda vegurinn orðinn vel jeppafær eftir veturinn. Við Heiðarvatn var áð um stund, en þar liggur vegurinn yfir hæðina hæst (um 340 m.y.s.). Þegar komið var norður af heiðinni og niður í Steinadal þurfti að fara yfir tvö vöð. Stundum hafa Þrístrendingsfarar reynt að stikla þar á steinum og komast yfir þurrum fótum, en að þessu sinni var óvenjumikið vatn í ám og ekkert annað að gera en vaða sem leið lá.

Heitir þetta ekki „að ráðast á vaðið þar sem það er blautast“? Hér eru Helgi og Birkir á fullri ferð.

Heitir þetta ekki „að ráðast á vaðið þar sem það er blautast“? Hér eru Helgi og Birkir á fullri ferð.

Við Stóra-Fjarðarhorn var áð að vanda og tekið upp nesti skammt þar frá sem eitt sinn stóð samkomuhús Ungmennafélagsins Gróðurs í Kollafirði. Það var reist sumarið 1936 en er nú löngu horfið frá þessum stað og tekið til við að þjóna sem vélageymsla í nágrenni Hólmavíkur ef mig misminnir ekki. Faðir minn sá um „að innrétta húsið, og unnu félagar [í ungmennafélaginu] að því með honum“, eins og segir í samantekt Sigurðar Jónssonar um Ungmennafélagið Gróður í bókinni Strandir 2 (bls. 436), sem Búnaðarsamband Strandamanna gaf út 1985. Í þessu húsi fór ég á eina af mínum fyrstu skemmtunum, nánar tiltekið félagsvist og jafnvel líka dansleik, líklega árið 1969.

Áð við Stóra-Fjarðarhorn. Alltaf sama blíðan! Samt fannst þarna aðeins fyrir innlögninni inn Húnaflóann. Hún er sjaldan tiltakanlega hlý.

Áð við Stóra-Fjarðarhorn. Alltaf sama blíðan! Samt fannst þarna aðeins fyrir innlögninni inn Húnaflóann. Hún er sjaldan tiltakanlega hlý.

Víkur nú sögunni aftur að hlaupum til að sporna við þeirri viðleitni pistilsins að breytast í ævisögu eða ættfræðirit. Við Stóra-Fjarðarhorn bættust óþreyttir liðsmenn í hópinn og að sjálfsögðu átti þessi öflugi flokkur ekki í neinum vandræðum með Bitruhálsinn. Þar bar eftirfarandi helst til tíðinda:

 1. Allir fóru nánast beint upp hlíðina þar til komið var á hestagötuna upp Fjarðarhornssneiðinga, í stað þess að fara meira á ská til hægri og lenda í hálfgerðum ógöngum eins og stundum hefur borið við.
 2. Talsverð aurbleyta var efst á hálsinum, svo mjög að lá við skótjóni.
 3. Enginn snjór var við upptök Broddár
 4. Fyrstu mönnum (les: Birki) lá svo á að hefðbundin áning við Móhosaflóalæk fórst fyrir. Þar með missti hópurinn af árlegum fræðslufyrirlestri um tannhirðu barna í ungdæmi mínu á ofanverðri 19. öld (eða var það sú tuttugasta)?
Á fullri ferð efst á Bitruhálsi. Arnar ofurhlaupari og Helgi Kárason í fararbroddi.

Á fullri ferð efst á Bitruhálsi. Arnar ofurhlaupari og Helgi Kárason í fararbroddi. Strandafjöllin í baksýn. Eins og sjá má er gatan yfir hálsinn greiðfær. Þarna var farið með hestakerrur í gamla daga.

Um kl. 3 voru allir komnir í hlað á æskuheimili mínu í Gröf. Þar tóku foreldrar mínir við búi vorið 1956, rétt um það bil 9 mánuðum áður en ég fæddist, og bjuggu þar alla tíð síðan meðan báðum entist aldur. Þar býr nú Rögnvaldur bróðir minn og Arnheiður sambýliskona hans. Þau tóku vel á móti hlaupurunum að vanda og veittu kaffi, pönnukökur, skinkuhorn og fleira að miklum rausnarskap. Einhverjir úr hópnum gáfu sér líka tíma til að líta sem snöggvast á fornminjar sem þarna eru frá uppvaxtarárum mínum (og jafnvel enn eldri).

Inga Dís, Sigurður Freyr, Lína og Dofri í slökun á hlaðinu í Gröf. Ef vel er gáð má sjá Arnheiði húsfreyju vinstra megin á myndinni og Rögnvald bónda við húsvegginn. Og Rósmundur skíðagöngukappi er þarna líka.

Inga Dís, Sigurður Freyr, Lína og Dofri í slökun á hlaðinu í Gröf. Ef vel er gáð má sjá Arnheiði húsfreyju vinstra megin á myndinni og Rögnvald bónda við húsvegginn. Og Rósmundur skíðagöngukappi er þarna líka.

Eftir þessa góðu áningu í Gröf var ekkert eftir nema skokka þriðja og síðasta hluta leiðarinnar, suður Krossárdal að Kleifum. Reyndar liggur leiðin í vestur en ekki suður, en samkvæmt málvenju er þetta samt suður. Maður fer líka „fram“ dalinn en ekki „inn“ á leið sinni frá sjónum. Þessi síðasti hluti er lágur en seinfarinn, því að hluti leiðarinnar liggur um mýrar og móa sem vefjast iðulega fyrir fótum. Yfirferðin varð því hæg á köflum, en þess meira spjallað.

Sigríður, Inga Dís og Sigurlín komnar suður (vestur) fyrir Krossárvatn, (sem er þó ekki vatnið sem sést á myndinni). Stutt eftir suður (vestur) af.

Sigríður, Inga Dís og Sigurlín komnar suður (vestur) fyrir Krossárvatn, (sem er þó ekki vatnið sem sést á myndinni). Felix skammt undan. Stutt eftir suður (vestur) af.

Þegar komið var fram á brúnina við Hafursklett ofan við Kleifar var sólin enn í hátíðarskapi. Ætli það hafi ekki einmitt verið þá sem ég mundi að mér hafði einhvern tímann verið sagt að fólk sem er hvítt á hörund ætti e.t.v. að prófa að nota sólarvörn ef það er fáklætt úti í sólskini í 6 klukkutíma samfleytt. Dofri hlaupstjóri kom á móti okkur þarna upp í brúnina og hafði meira að segja gefið sér tíma til að kasta steinum úr Hafursgötunni, en svo nefnist heldur brött gata eða einstigi niður með Hafurskletti niður á graslendið við Kleifar.

Horft niður Hafursgötuna, heim að Kleifum og út á Gilsfjörð. Hafursklettur til hægri.

Horft niður Hafursgötuna, heim að Kleifum og út á Gilsfjörð. Hafursklettur til hægri.

Nokkrum mínútum síðar var allur hópurinn saman kominn á hlaðinu á Kleifum, sumir sjálfsagt „lúnir eftir langan dag í sólinni“, eins og segir í kvæðinu, en aðrir svo tilfinnanlega óþreyttir að þeir þurftu endilega að bæta á sig svo sem einum kílómetra til að dagleiðin næði 42,2 km. Á hlaðinu var kíkt í nestispoka og kannski skipt um skó eða föt, já og reyndar líka um eitt jeppadekk sem hafði fengið nóg af vestfirskum vegum. Síðan rann upp kveðjustund og hlaupararnir héldu hver til síns heima (eða í sund á Reykhólum). Ef gleði væri tekin með í útreikninga á vergri landsframleiðslu hefði sést greinileg sveifla í línuritum Hagstofunnar þennan dag!

ÍR-ingar á hlaðinu á Kleifum að loknu góðu dagsverki í góðu veðri. F.v.: Inga Dís, Sigurður Freyr, Felix, Sigurlín, Helgi, Jón, Sigríður, Arnar, Dofri Þ.

ÍR-ingar á hlaðinu á Kleifum að loknu góðu dagsverki í góðu veðri. F.v.: Inga Dís, Sigurður Freyr, Felix, Sigurlín, Helgi, Jón, Sigríður, Arnar, Dofri Þ.

Eftirtaldir hlauparar tóku þátt í Þrístrendingi 2013:

 • Alla leið (3 fjallvegir með tilheyrandi):
  Arnar Aðalgeirsson
  Birkir Þór Stefánsson
  Daníel Jakobsson
  Felix Sigurðsson
  Helgi Kárason
  Hólmfríður Vala Svavarsdóttir
  Jón Grímsson
  Sigríður Gísladóttir
  Sigurlín Birgisdóttir
  Stefán Gíslason
 • Tveir fjallvegir (Steinadalsheiði og Krossárdalur):
  Dofri Þórðarson
 • Tveir fjallvegir (Bitruháls og Krossárdalur):
  Rósmundur Númason
  Sigurður Freyr Jónatansson
 • Einn fjallvegur (Krossárdalur):
  Inga Dís Karlsdóttir

100% náttúrulegur grænþvottur

100% náttúrulegtÁ leið heim úr vinnunni í gær kom ég við í matvöruverslun til að kaupa rúsínur og fleira góðgæti til heimilisins. Þar sá ég hvar allsendis óvottuðum rúsínum frá fyrirtækinu Heilsa ehf. hafði verið stillt upp innan um lífrænt vottaðar rúsínur og aðrar slíkar vörur í hillu, sem mér hefur skilist að sé sérstaklega ætluð lífrænt vottuðum vörum og e.t.v. heilsuvörum. Umræddur rúsínupoki var kyrfilega merktur með áletruninni „100% náttúrulegt“, en á pokanum var hins vegar engin önnur áletrun sem staðfesti þessa yfirlýsingu um innihaldið. Þetta er dæmi um það sem kallað er „grænþvottur“ (e. greenwash). Ég hef svo sem séð þessar rúsínur þarna áður, en bara ekki komið því í verk að blogga um þær.

Verslunin sem í hlut á er Nettó í Borgarnesi. Þar er jafnan gott úrval af lífrænt vottuðum vörum, sérstaklega í fyrrnefndri hillu. Þangað ven ég komur mínar tíðum. Ég er nokkuð viss um að þessi staðsetning óvottaða rúsínupokans var ekki til þess ætluð að villa um fyrir kaupandanum, heldur finnst mér líklegra að starfsfólk verslunarinnar hafi ekki áttað sig á tómarúminu á bak við orðin „100% náttúrulegt“ og því sett pokann þarna í þeirri góðu trú að hann væri vel að þessari staðsetningu kominn. Réttara hefði verið að setja hann í hilluna þar sem öllum hinum rúsínunum sem ekki eru lífrænt vottaðar er stillt upp. Þrjár slíkar tegundir fengust í Nettó í gær.

Orðin „100% náttúrulegt“ þýða í stuttu máli ekki neitt, eða þá bara hvað sem er, eftir því hvernig hver og einn kýs að skilja þau. Engin samræmd skilgreining er til á þessum orðum, og því geta framleiðendur notað þau að vild án þess að vera beinleinis að ljúga að einum né neinum. Hins vegar gefur þessi áletrun óneitanlega til kynna að varan sé á einhvern hátt náttúrulegri en önnur vara til sömu nota. Í því felst grænþvotturinn í þessu tilviki, þ.e.a.s. í því að nota áletrun sem villir um fyrir neytendum og fær þá til að ofmeta umhverfislegt ágæti vörunnar. Ég hef áður skrifað sitthvað um grænþvott, m.a. í all ítarlegri bloggfærslu frá 5. nóvember 2011, þar sem ég reyndi að útskýra fyrirbærið. Grænþvegnu rúsínurnar myndu flokkast þar sem „Grænþvottasynd nr. 3:  Óræð skilaboð (e. Sin of Vagueness)“, en sú synd er drýgð með því að nota orð eða hugtök sem hafa svo óljósa eða breiða merkingu að auðvelt sé að misskilja þau eða oftúlka.

Skilaboð dagsins eru þessi: Yfirlýsingar framleiðenda eða seljenda vöru um umhverfislegt ágæti vörunnar eru lítils virði nema þær séu staðfestar af óháðum aðila. Það er ekki bannað að segja að einhver vara sé „100% náttúruleg“, en þau orð hafa nákvæmlega enga þýðingu. Þau eru í besta falli sett fram í hugsunarleysi, en í versta falli vísvitandi til að blekkja neytendur. Verslanir sem láta glepjast af slíkum yfirlýsingum auka enn á áhrif „syndarinnar“.

Þessum rúsínupakka tókst að villa á sér heimildir og stilla sér upp á milli tveggja pakka af lífrænt vottuðum rúsínum.

Þessum rúsínupakka tókst að villa á sér heimildir og stilla sér upp á milli tveggja pakka af lífrænt vottuðum rúsínum.

Hillan góða í Nettó. Mæli með henni, en mæli líka með gagnrýnu hugarfari.

Hillan góða í Nettó. Mæli með henni, en mæli líka með gagnrýnu hugarfari.

2310 km skór

13 006 160Yfirleitt þykir ekki ráðlegt að hlaupa meira en 1.000 km í sömu hlaupaskónum. Ég tek svona ráðleggingar hins vegar hóflega alvarlega, sérstaklega nú í seinni tíð. Hvort tveggja er að hlaupaskór eru frekar dýrir og eins hitt að það er „eðli mannsins að forvitna“ eins og mig minnir að standi í einhverri bók, jafnvel í því merka riti Speculum regale. Þess vegna geri ég mér það stundum að leik að nota skóna örlítið lengur en ráðlegt þykir. Ég er auk heldur fremur efnislítill og stíg því létt til jarðar.

Fyrir tveimur árum skrifaði ég innblásið blogg um eitt af mínum ágætu skópörum, sem ég hafði þá pínt með mér yfir þúsund mílna mörkin (1.609 km). Nú er ég hins vegar búinn að bæta um betur, því að lífsreyndustu hlaupaskórnir mínir hafa nú lagt 2.310 km að baki (eða undir hæl). Þetta eru skór af gerðinni Asics GT Trainer, sem keyptir voru á netinu 4. dag aprílmánaðar 2010 fyrir 13.067 kr. Síðan þá eru þeir m.a. búnir að þola 3 maraþonhlaup, nokkra Hvanneyrarhringi, nokkra tugi Háfslækjarhringja og margar ferðir um flestar götur Borgarness, svo eitthvað sé nefnt. Nú er komið á þá dálítið stórt gat og botninn orðinn misþunnur. Býst ekki við að þeir verði notaðir meira.

Sem fyrr segir tek ég ráðleggingum um hóflega notkun á skóm með hóflegri alvöru. Samt hvet ég fólk til að gæta hófs í því að fylgja fordæmi mínu á þessu sviði. Ég þekki alveg tilfinninguna þegar maður veit að hlaupaskór eiga ekki lengur samleið með manni. Því er um að gera að vera gætinn, sérstaklega ef maður slítur skónum sínum skakkt. Sjálfsagt getur maður leyft sér meira kæruleysi eftir því sem hlaupaárunum fjölgar. Mín eru orðin mörg.

En svona almennt talað held ég að hlaupaskór séu ofmetin fyrirbæri. Margt bendir til þess að maðurinn hafi lifað af sem tegund árþúsundum saman, einmitt vegna þess að hann gat hlaupið lengur en önnur kvikindi. Að viðbættum örlitlum klókindum dugði það langt í lífsbaráttunni. Þessir forfeður okkar áttu ekki skó en hlupu samt svo klukkutímum og jafnvel dögum skipti á misgóðu undirlagi. Þetta þýðir þó ekki að vér kyrrsetumenn getum hent af okkur blankskónum og hlaupið berfættir út um allar trissur. Við höfum aðlagast því að ganga í skóm og venjum okkur ekkert af því á einum degi þó að innst í 0kkur búi berfættur hlaupari.

Mér finnst við hæfi að ljúka þessu óábyrga skóspjalli með því að segja frá tilraun sem Davíð nokkur Smyntek, hlaupari og sjúkraþjálfari, gerði á sjálfum sér fyrir nokkrum árum, hugsi yfir því að þeir sem segja fólki að skipta oft um hlaupaskó eru yfirleitt þeir sömu og selja fólkinu skóna. Davíð lét sér ekki nægja að gjörslíta skónum, heldur víxlaði hann þeim og hljóp í krummafót þegar ekki var með nokkru móti hægt að druslast lengur með skóna á réttum fótum. Þannig gat hann látið skóna endast í nokkur ár þrátt fyrir mikil hlaup.

Ég ætla ekki að hlaupa í fótspor Davíðs Smyntek með hægri skóinn á vinstri fætinum og öfugt. En ég ætla að halda áfram að taka sem flestu af því sem mér er sagt með fyrirvara, hvort sem það snýst um hlaupaskó eða eitthvað annað. Ekki er allt sem sýnist.

Jú, vissulega voru þessir skór einu sinni fallegri en þeir eru núna. Síðan eru liðnir 2.310 km.

Jú, vissulega voru þessir skór einu sinni fallegri en þeir eru núna. Síðan eru liðnir 2.310 km.

(Nánar er sagt frá skótilraun Davíðs Smyntek („Crazy Foot Experiment“) í bók Christophers McDougall, „Born to Run“, (Profile Books, London, 2009). Mæli eindregið með lestri hennar)!

Hvernig verður ál til?

AlverkSíðustu daga hefur álframleiðslu stöku sinnum borið á góma í fjölmiðlum. Þar hefur meðal annars verið sagt frá þeirri ákvörðun matsfyrirtækisins Moody’s að færa lánshæfiseinkunn Alcoa niður í ruslflokk og vilja stjórnvalda til að stuðla með auknum krafti að uppbyggingu álvers í Helguvík. Þetta gefur tilefni til að rifja upp nokkur grunnatriði varðandi framleiðslu á áli og helstu umhverfisþætti sem þar koma við sögu.

Byrjar í báxíti
Álframleiðslan sem stunduð er í álverum á Íslandi, þ.e.a.s. í Straumsvík, á Grundartanga og á Reyðarfirði, er bara hluti af lengra ferli. Allt byrjar þetta í báxítnámum einhvers staðar úti í heimi, t.d. í Ástralíu þar sem stærstu báxítnámurnar er að finna. Báxít er málmgrýti sem inniheldur mikið af áli og álframleiðslan snýst einfaldlega um að ná álinu úr berginu, þannig að hægt sé að breyta því í nýtilega hluti á borð við vélarhluta, bjórdósur, álpappír eða kertabotna, svo fátt eitt sé nefnt.

Heitt vítissódabað
Svo við förum nú fljótt yfir sögu, þá er fyrsta stóra skrefið í álframleiðslunni fólgið í því að leysa malað báxít upp í allt að því 280 stiga heitri vítissódalausn. Í framhaldinu er svo hluti af því sem út úr þessu kemur hitaður enn meira, eða upp í u.þ.b. 1.000 gráður. Út úr öllu þessu ferli kemur aðallega tvennt, það er að segja annars vegar fíngert hvítt duft, þ.e.a.s. súrál eða öðru nafni áltríoxíð – og hins vegar þykk rauð leðja, sem inniheldur m.a. vítissóda og ýmis önnur efni sem leystust úr báxítinu í vítissódabaðinu. Reyndar koma fleiri efni þarna við sögu, hvort sem við lítum á það sem fer inn í ferlið eða það sem kemur út úr því, en magn þeirra er hverfandi í hlutfalli við hin, þannig að við tökum þau bara út fyrir sviga í þessari einföldu samantekt.

Rauða leðjan
Rauða leðjan er helsta umhverfisvandamálið sem fylgir báxítvinnslunni, ef frá eru talin vandamál sem tengjast landnotkun á námusvæðunum. Leðjan inniheldur vítissóda og sitthvað fleira eins og áður var nefnt og er alla jafna til einskis gagns. Fræðilega séð er reyndar hægt að þurrka hana og nýta í vegfyllingar eða jafnvel í flísaframleiðslu, en oftast er henni þó safnað í lekaþéttar þrær til varanlegrar geymslu. Ef þessar þrær eru ekki nægjanlega sterkbyggðar getur farið illa. Þannig muna sjálfsagt margir eftir mengunarslysi sem varð í Ajka í Ungverjalandi í október 2010, en þar brast einmitt veggur í svona leðjuþró, með þeim afleiðingum að u.þ.b. milljón rúmmetrar af leðjunni sluppu út og flæddu yfir u.þ.b. 40 ferkílómetra landssvæði, þar með talið yfir bæina Kolontár og Devecser. Í þessu slysi dóu 10 manns og eitthvað á annað hundrað slasaðist. Og þremur dögum eftir slysið var eitthvað af leðjunni komið út í Dóná.

Úr súráli í ál
Að meðaltali má gera ráð fyrir að eitt tonn af báxíti gefi af sér hálft tonn af súráli og hálft tonn af rauðri leðju. Þetta getur þó verið talsvert breytilegt eftir gæðum báxítsins. Hvað sem verður svo um leðjuna, þá er súrálið flutt til vinnslu í álveri, oftar en ekki um langan veg á stað þar sem hægt er að tryggja öruggan aðgang að ódýrri raforku. Í álverinu fer síðari meginhluti álframleiðslunnar fram, þ.e.a.s. vinnsla á hreinu áli úr súráli. Þessi framleiðsla er mjög orkufrek enda fer mikill hluti hennar fram við hátt hitastig, nánar tiltekið með rafgreiningu í u.þ.b. 960 stiga heitri kríólítlausn. Þessi mikla orkuþörf er einmitt ástæða þess að álver hafa verið reist hérlendis.

Eitt tonn af báxíti orðið að 250 kg af áli
Ef við höldum okkur við þetta eina tonn af báxíti sem ég nefndi til sögunnar áðan, þá er það sem sagt orðið að u.þ.b. hálfu tonni af súráli, en hitt hálfa tonnið, þ.e.a.s. rauða leðjan er úr sögunni í bili. Úr þessu hálfa tonni af súráli er hægt að framleiða u.þ.b. fjórðung úr tonni af hreinu áli. Til þess þarf reyndar sitthvað fleira, svo sem rafskaut sem gefa frá sér kolefni sem er nauðsynlegt í vinnsluna. Þess vegna losa álver líka talsvert af koltvísýringi út í andrúmsloftið, jafnvel þótt þau gangi fyrir kolefnishlutlausu rafmagni.

Efna- og orkunotkun pr. tonn
Áðan talaði ég um 1 tonn af báxíti, sem að endanum verður að fjórðungi úr tonni af áli. Ef við skoðum reikningsdæmið hins vegar út frá lokaafurðinni, þ.e.a.s. álinu, þá lítur það nokkurn veginn svona út:

Til að framleiða 1 tonn af áli þarf um það bil

 • 4 tonn af báxíti,
 • 100 kg af 50% vítissóda,
 • 400 kg af kolefni
 • og 15.000 kwst af raforku.

Auk þess þarf meðal annars

 • 100 kg af kalki,
 • 20 kg af álflúoríði
 • og hátt í 10.000 lítra af vatni, svo eitthvað sé nefnt.

Við þetta verða til m.a. um það bil

 • 2 tonn af rauðri leðju,
 • 1,5 tonn af koltvísýringi,
 • og dálítið af flúoríði, brennisteinsoxíði, ryki o.fl. sem sleppur að einhverju leyti út í andrúmsloftið frá hreinsivirkjum álveranna.

(Rétt er að taka fram að allt eru þetta meðaltalstölur með allt að því 50% skekkjumörk).

Endurvinnsla borgar sig – (en þarf ekki ódýra orku)!
Áður en við segjum skilið við þessa einfölduðu yfirferð yfir álframleiðsluna er ekki úr vegi að bera frumframleiðslu á áli saman við endurvinnslu. Það vill nefnilega svo vel til að fræðilega séð er hægt að endurvinna ál óendanlega oft án þess að gæðin rýrni. Þegar nýtt ál er búið til úr álúrgangi þarf ekkert báxít og engan vítissóda. Og í þokkabót myndast engin rauð leðja og raforkunotkunin er bara 5% af því sem þarf til að frumvinna sama magn af áli. Orkusparnaðurinn í endurvinnslunni er sem sagt hvorki meira né minna en 95% miðað við frumvinnslu, og endurunna álið er alveg nákvæmlega eins og hitt. Endurvinnsla á áli er hins vegar ekki stunduð á Íslandi, enda skiptir ódýr raforka litlu máli í þeirri grein.

Langar einhvern að spara 95%?
Báxítvinnsla og álframleiðsla snerta venjulegan Íslending ekki sérlega mikið, enda er aðeins hluti af þessu ferli sjáanlegur hérlendis. Þessi sami venjulegi Íslendingur getur hins vegar lagt sitt af mörkum til að spara þær auðlindir sem þarf til að framleiða ál. Einfaldasta leiðin til þess er að skila öllum álúrgangi í endurvinnslu, þar með töldum smáhlutum á borð við álpappír og kertabotna, svo ekki sé nú minnst á bjórdósirnar. Reyndar er til nóg af báxíti í heiminum, en manni bjóðast sjaldan tækifæri til 95% sparnaðar eins og raunin er þegar ál er endurunnið. Margur drífur sig á útsölu fyrir minni afslátt en það.

(Þessi pistill er nær samhljóða pistli sem fluttur var í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1 þriðjudaginn 4. júní 2013).