• Heimsóknir

    • 119.039 hits
  • mars 2023
    S M F V F F S
     1234
    567891011
    12131415161718
    19202122232425
    262728293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Sjötti Þrístrendingurinn

10369715_10206733265545355_4467836070695262165_n 200Gleðihlaupið Þrístrendingur fór fram í sjötta sinn laugardaginn 20. júní sl. Að vanda var safnast saman að morgni dags á hlaðinu á Kleifum í Gilsfirði „rétt undir háum Hafurskletti“ og með Gullfoss í baksýn. Þarna fæddist Jóhannes Stefánsson (Jói á Kleifum) inn í stóran systkinahóp fyrir 105 árum og fimm árum síðar fæddist mamma (Gitta í Gröf) þarna líka inn í sama systkinahóp. Dofri, barnabarn Jóa, átti upphaflegu hugmyndina að Þrístrendingi fyrir nokkrum árum og síðan þá höfum við staðið fyrir þessu í sameiningu. Reyndar er þetta ekkert flókið. Fólk bara mætir heim að Kleifum tiltekinn laugardagsmorgun um Jónsmessuleytið, hleypur allan daginn, kynnist öðru fólki, upplifir náttúruna, stekkur yfir læk, drekkur úr læk, veður læk og líður vel um kvöldið. Einföld uppskrift!

Við lögðum fimmtán af stað frá Kleifum þennan morgun í ágætu og þurru veðri, svolitlum norðan kalda og 10 stiga hita. Veðurspáin sagði eitthvað um norðanátt og þoku í Húnaflóa og þá getur verið kalt. Svoleiðis var það alla vega á árum áður þegar ég var að alast upp við þennan flóa. Svoleiðis veður hét norðanfýla og þótti hvorki skemmtilegt né hentugt til heyskapar. Þennan morgun var greinilega einhver þoka á fjöllum en hún gat átt eftir að hopa. Stundum verða hlýindin kuldanum yfirsterkari.

Það leit reyndar út fyrir að við yrðum bara fjórtán, því að Birkir bóndi í Tröllatungu renndi ekki í hlað fyrr en við vorum rétt í þann mund að leggja af stað um hálfellefuleytið. Hann hafði orðið seinn fyrir og þurft að taka Jimmyinn sinn aðeins til kostanna á leiðinni. Það rauk enn úr förunum á Steinadalsheiðinni þegar við hlupum þar yfir.

Búin til brottfarar á hlaðinu á Kleifum. F.v.: Kristinn, Gunnar Viðar, Birkir, Þórir, Stefán, Nanna, Stefán Haukur,  Guðrún Nýbjörg, Tómas, Ásdís, Sigrún María, Einar, Auður, Ágúst Karl, Bryndís María, Dofri. Hafursklettur á bak við alla og Gullfoss á bak við Dofra.

Búin til brottfarar á hlaðinu á Kleifum. F.v.: Kristinn, Gunnar Viðar, Birkir, Þórir, Stefán, Nanna, Stefán Haukur, Guðrún Nýbjörg, Tómas, Ásdís, Sigrún María, Einar, Auður, Ágúst Karl, Bryndís María, Dofri. Hafursklettur á bak við alla og Gullfoss á bak við Dofra.

Okkur sóttist vel hlaupið á fyrsta áfanganum yfir Steinadalsheiði. Reyndar tíðkast ekkert endilega að hlaupa upp heiðina. Það er þreytandi. En spölurinn niður að norðanverðu er alþýðlegri. Heiðin var snjóléttari en ég hafði reiknað með, nýbúið að opna leiðina fyrir bílaumferð og allt í besta standi. Niðri í Steinadal þarf að vaða tvær ár en það vafðist ekki fyrir neinum. Þar var líka áð við Hestastein, sem sagan (les: Dofri) segir að hafi verið vitni í barnsfaðernismáli á sínum yngri árum. Þar var ekki stofnað til neinna nýrra barnsfeðernismála í þessari ferð.

Í lúxushlaupinu Þrístrendingi er nokkuð víða hægt að verða sér úti um fótabað og kalda bakstra. Snjóflóðaleitartíkin Hneta ryður brautina og Gunnar Viðar og Tómas Orri fylgja á eftir. Dofri tók myndina og á líka heiðurinn að fyrri hluta myndatextans. Myndin var tekin í leyfisleysi af FB-síðunni hans.

Í lúxushlaupinu Þrístrendingi er nokkuð víða hægt að verða sér úti um fótabað og kalda bakstra. Snjóflóðaleitartíkin Hneta ryður brautina og Gunnar Viðar og Tómas Orri fylgja á eftir. Dofri tók myndina og á líka heiðurinn af fyrri hluta myndatextans. Myndin var tekin í leyfisleysi af FB-síðunni hans.

Eftir 18,99 km og 2:11 klst. vorum við komin að Stóra-Fjarðarhorni þar sem fyrsta áfanga hlaupsins lýkur jafnan með góðri áningu. Sumir voru reyndar ögn fljótari og aðrir lengur. Í svona hlaupi hefur hver þetta eins og honum hentar best, en liðið safnast þó alltaf saman í lok hvers áfanga. Það er miklu minna gaman að gera þetta einn!

Það er orðinn fastur liður í undirbúningi Þrístrendings að hringja í Vegagerðina á Hólmavík til að kanna hvort búið verði að opna Steinadalsheiðina. Það hefur oft staðið glöggt en alltaf bjargast dagana fyrir hlaup. Reyndar geta hlauparar sem best hlaupið yfir ófærar heiðar, en birgðaflutningar verða erfiðari ef vegurinn er ófær. Þá þarf að keyra um Þröskulda sem er talsvert lengri leið. En þennan dag var heiðin sem sagt orðin fær og þegar við komum að Stóra-Fjarðarhorni var Dofri mættur þar með nesti fyrir þá sem höfðu verið svo forsjálir að senda með honum kost norður yfir.

Eftir áningu við Stóra-Fjarðarhorn var lagt á Bitruháls. Leiðin yfir hann er hvorki brött né löng, en þó talsvert togandi upp að norðanverðu, rétt um 400 m hækkun á 4 km kafla. Af hálsinum sáum við til ferða Húnaflóaþokunnar úti í flóanum en við vorum sýnilega heppin þennan dag. Sólin var meira að segja farin að skína á okkur og gera okkur mögulegt að fækka fötum smátt og smátt. Gott veður er gott.

Dofri átti langtilkomumesta stökk dagsins. Sú var tíðin að þarna var fært yfir með hestakerru.

Dofri átti langtilkomumesta stökk dagsins. Sú var tíðin að þarna var fært yfir með hestakerru.

Í Móhosaflóa er hefðbundinn áningarstaður Þrístrendingshlaupara á Bitruhálsi. Í mínu ungdæmi var þarna brú yfir læk, búin til úr gömlum símastaurum og keflum innan úr símavírsrúllum. Á þeim undrastutta tíma sem liðinn er frá þessu ungdæmi eru keflin horfin og staurarnir einir eftir. Á staurunum kemur í ljós hvaða hlauparar eru meiri fimleikastjörnur en aðrir.

Fimleikahæfileikar Ásdísar komu berlega í ljós í Móhosaflóa.

Ásdís er meiri fimleikastjarna en aðrir.

Segir nú ekki af ferðum okkar fyrr en við vorum komin niður af hálsinum og að myndarbýlinu Gröf í Bitru. Áfangi nr. 2 var sem sagt að baki og hafði lagt sig á 9,44 km og 1:32 klst. Í Gröf fæddist ég undir súð upp úr miðri síðustu öld í horfnum heimi þar sem rafmagn, skóli og ferðalög flokkuðust undir sjaldgæfan munað. Á þeim tíma kom eina rafmagnið á bænum frá vindrafstöð á þakinu sem dugði rétt fyrir tvær 12 volta ljósaperur. Þegar vindurinn blés almennilega var rafmagni safnað í rafgeyma til að hægt væri að hlusta á útvarpið í logni. Eina sem ég man eftir af þessum rafgeymum eru ferkantaðar glerkrúsir sem voru notaðar undir gróft salt í grautinn eftir að þær voru hættar að geyma rafmagn, blý og sýru. Skólaganga barna miðaðist í mesta lagi við þriggja mánaða kennslu á hverjum vetri í farskóla Fells- og Óspakseyrarskólahverfis, auk ótæpilegs heimanáms á köflum. Og helstu ferðalög voru búðarferðir að Óspakseyri á þýskum Farmal vor og haust, að ógleymdum kirkjuferðum og ýmsu snatti sem tengdist sláturtíð og öðru fjárragi. Jú, og svo labbaði maður stundum á næsta bæ með bréf í póst eða til að sækja ábyrgðarbréf.

Þennan dag var enginn heima í Gröf því að bróðir minn og sambýliskona hans höfðu brugðið sér eitthvað af bæ. Viðmiðin hafa breyst frá því að ég fæddist og Farmallinn ekki lengur eina farartækið.

Nanna og Þórir fyrir ofan bæinn í Gröf. Í baksýn eru gamli hænsnakofinn sem pabbi smíðaði (líklega 1960) og Grafargilið með fossunum sem léku bakgrunnstónlist æskunnar.

Nanna og Þórir fyrir ofan bæinn í Gröf. Í baksýn eru gamli hænsnakofinn sem pabbi smíðaði (líklega 1960) og Grafargilið með fossunum sem léku bakgrunnstónlist æskunnar.

Eftir góða áningu í Gröf var lagt upp í síðasta áfangann inn Krossárdal. Klukkan var orðin 3 síðdegis, sól hátt á lofti og fyrirséð að vindurinn myndi standa í bakið á okkur það sem eftir væri. Enn var því lag að fækka fötum.

Hlaupaleiðin um Krossárdal er miserfið. Fyrstu kílómetrana frá Gröf er hlaupið eftir góðum bílvegi, en þegar komið er inn fyrir Einfætingsgil tekur við jeppaslóði. Honum sleppir við Skáneyjargil, tæpa 6 km fyrir innan Gröf. Næstu 2-3 kílómetra liggur leiðin um mýrar og móa sem eiga það til að gera þreytta fætur enn þreyttari. Eftir það er komið á hestagötur sem eru þokkalega fastar undir fæti og greiðar yfirferðar.

Skáneyjargilið var óvenju vatnsmikið þennan dag enda hlýtt í veðri og nægur snjór á fjöllum fyrir sólina til að bræða. Allir komust þó klakklaust yfir. Ég er stundum spurður hvort maður hafi ekki með sér vaðskó í svona ferðir. Því er til að svara að þess gerist náttúrulega engin þörf. Maður veður bara út í og svo upp úr aftur og heldur áfram að hlaupa. Það er hvorki flókið né óþægilegt og reyndar bara gott að kæla fæturna annað slagið eða „skipta um vatn í skónum“ eins og Gunnar Viðar, hlaupafélagi minn, er vanur að orða það.

Nanna, Þórir og Sigrún María hjálpast að á leið yfir Skáneyjargilið.

Nanna, Þórir og Sigrún María hjálpast að á leið yfir Skáneyjargilið.

Mýrarnar og móarnir tóku líka enda og fyrr en varði vorum við komin að Krossárvatni. Þar tóku sumir það til bragðs að skipta aftur um vatn í skónum sínum og jafnvel öllum fötunum sínum líka. Sjálfur hef ég aldrei þorað að leggjast til sunds í fjallavötnum, en samt finnst mér eitthvað heillandi við svona tært vatn undir svona tærum himni. Kannski dýfi ég mér þarna ofaní næsta sumar ef veður leyfir.

Sigrún María á leið í land eftir sundsprett í Krossárvatni.

Sigrún María á leið í land eftir sundsprett í Krossárvatni.

Frá Krossárvatni er ekki ýkja langt „suður af“ eins og það er kallað á þessum slóðum. Þegar klukkuna vantaði korter í fimm var ég aftur staddur á hlaðinu á æskuheimili mömmu. Síðasti áfanginn mældist 12,2 km og skeiðklukkan sýndi 1:44 klst. Að baki voru samtals 40,8 km hlaup, ganga og útivera í svo góðum félagsskap að ég var sjálfur orðinn ögn betri en þegar ég lagði af stað. Sumir voru komnir á undan mér og höfðu jafnvel bætt á sig svolitlum aukaendaspretti til að ná dagskammtinum upp í heilt maraþon, þ.e.a.s. 42,2 km. Sjálfur nennti ég því ekki, enda var Birna búin að elda súpu sem snædd var á pallinum við nýrra íbúðarhúsið á Kleifum. Það hús smíðaði pabbi fyrir Jóa mág sinn, líklega á árunum í kringum 1965. Held að það hafi tekist vel. Alla vega virkar vel að elda í því kjötsúpu. Takk Birna!

Bryndís María, Einar og Ásdís á kjötsúpupallinum á Kleifum. Dofri tók myndina og ég tók hana traustataki.

Bryndís María, Einar og Ásdís á kjötsúpupallinum á Kleifum. Dofri tók myndina og ég tók hana traustataki.

Mér líður alltaf vel að kvöldi Þrístrendingsdaga. Mér finnst gaman að hlaupa og er þakklátur fyrir að geta það. Á hlaupum hef ég líka kynnst mörgu góðu fólki og í hlaupum á borð við Þrístrending, þar sem tíminn er nægur og náttúran allt í kring, verða þessi kynni enn meira gefandi. Ég er afskaplega lánsamur maður!

Eftirtaldir hlauparar tóku þátt í Þrístrendingi 2015:

  • Alla leið (3 fjallvegir með tilheyrandi):
    Auður Ævarsdóttir
    Ágúst Karl Karlsson
    Ásdís Káradóttir
    Birkir Þór Stefánsson
    Bryndís María Davíðsdóttir
    Einar Ingimundarson
    Guðrún Nýbjörg Brattberg Svanbjörnsdóttir.
    Gunnar Viðar Gunnarsson
    Kristinn Óskar Sigmundsson
    Sigrún María Bjarnadóttir
    Stefán Gíslason
    Stefán Haukur Jóhannesson
    Tómas Orri Ragnarsson
    Þórir Rúnarsson
  • Tveir fjallvegir (Steinadalsheiði og Krossárdalur):
    Nanna Logadóttir
  • Einn fjallvegur (Bitruháls):
    Dofri Hermannsson
Hinn hefðbundni Þrístrendingur.

Hinn hefðbundni Þrístrendingur.

Fimmti Þrístrendingurinn

Sonja SSJ 160Gleðihlaupið Þrístrendingur var háð í fimmta sinn sl. laugardag, en í þessu hlaupi er skeiðað tvisvar þvert yfir Ísland sama daginn, að vísu þar sem það er mjóst. Hlaupið er hugarfóstur Dofra Hermannssonar, frænda míns frá Kleifum í Gilsfirði, en við frændurnir höfum hjálpast að við að láta það þroskast. Nú hefur hlaupið verið haldið fimm sinnum og alltaf verið framúrskarandi skemmtilegt (að okkar mati).

Fimmti Þrístrendingurinn hófst á hlaðinu á Kleifum, rétt eins og allir hinir Þrístrendingarnar. Ævi okkar Dofra hófst eiginlega líka á þessu hlaði, þ.e.a.s. ef tildrögin er rakin hæfilega langt aftur í tímann, til dæmis til ársins 1851 þegar Jón Ormsson, langalangafi minn og langalangalangafi Dofra settist að á Kleifum. Hann var talinn vel gáfaður, ráðhollur og gestrisinn. Þessir eiginleikar eru misarfgengir. Afkomendur Jóns bjuggu á Kleifum æ síðan þar til búskapur lagðist af einhvern tímann um aldamótin 2000. En hvað sem því líður var fríður hópur hlaupara samankominn þarna á hlaðinu  á 11. tímanum á laugardagsmorgun í býsna efnilegu veðri. Einhverjar spár gerðu ráð fyrir rigningu, en það gerðum við Dofri ekki. Í samræmi við það var þurrt, skýjað, hægur vindur, örlítil þoka til fjalla og hitinn rétt um 11°C. Þetta flokkast sem gott hlaupaveður.

Samtals lögðu 12 manns hlaupandi af stað frá Kleifum þennan morgun og einn á hjóli. Brottfarartíminn var ekki alveg samræmdur, þar sem sumir reiknuðu með að fara hægar yfir en aðrir 0g lögðu því fyrr af stað. En síðustu menn lögðu alla vega í hann stundvíslega kl. 10:51. (Þegar betur er að gáð á þessi tímasetning reyndar ekkert skylt við stundvísi, þar sem hlaupið átti annað hvort að byrja kl. 10:30 eða 11:00. Enginn veit hvort er rétt).

Allt tilbúið á hlaðinu á Kleifum. (Ljósm. Þröstur Árnason).

Allt tilbúið á hlaðinu á Kleifum. (Ljósm. Þröstur Árnason).

1. áfangi: Kleifar – Stóra-Fjarðarhorn, 18,88 km, 1:54:26 klst, 9,90 km/klst.
(Áður en lengra er haldið er rétt að taka fram að tölfræðin sem kemur hér fram í millifyrirsögnum skiptir engu máli, nánar tiltekið alls engu, sérstaklega ekki klukkustundafjöldinn. Þrístrendingur er tímalaust hlaup, þar sem þúsund ár verða sem einn dagur, eða öfugt. Hins vegar hefur höfundur pistilsins unað sér við leik að tölum í meira en hálfa öld og er illfáanlegur til að leggja þá áráttu til hliðar).

Leiðin lá að vanda niður heimreiðina frá Kleifum, þvert fyrir botn Gilsfjarðar og áleiðis upp Brekkudal upp á Steinadalsheiði. Ég fór mér hægt á uppleiðinni og spjallaði margt við Ragnar bónda á Heydalsá. Stefán sonur hans var þarna á hjóli, og þá verða ferðalög upp brekkur seinleg. Reyndar geta ferðalög upp þessar tilteknu brekkur verið seinleg á fleiri farartækjum. Stundum rifja ég upp bílferðir um þessar slóðir í lok 8. áratugs síðustu aldar. Fararskjótarnir mínir á þeim tíma áttu það til að hrökkva úr gír í brekkum, eða hreinlega að afþakka hvers konar klifur, sérstaklega í lausamöl. Þá var þrautalendingin að bakka upp.

Stefán Snær á leið upp Steinadalsheiðina.

Stefán Snær á leið upp Steinadalsheiðina.

Þegar komið var lengra upp í brekkurnar sást glöggt að nýliðinn vetur hafði verið óvenju snjóþungur sunnanvert í heiðinni. Hins vegar benti flest til að veturinn hefði verið snjóléttur að norðanverðu. Þetta kom heim og saman við staðhæfingar kunnugra um að snjóalögum hefði verið óvenju misskipt þennan vetur. Þannig er því líka oft varið með önnur heimsins gæði.

Efst á Steinadalsheiðinni var svolítil þoka, en samt var norðangolan ekki tiltakanlega köld. Þarna skildi ég við feðgana frá Heydalsá og einsetti mér að ná fyrstu mönnum. Það tókst ekki fyrr en komið var niður undir jafnsléttu að norðanverðu. Fátt bar annars til tíðinda, vöðin voru álíka blaut og venjulega og skórnir sömuleiðis, og sögurnar sem ég sagði líklega líka þær sömu og í fyrra.

Áning, Stóra-Fjarðarhorn, 20:12 mín, nokkrar skonsusneiðar og hópmynd
Við Stóra-Fjarðarhorn beið okkar bíll sem komið hafði með eitthvað af fólki og vistum frá Kleifum, þ.á.m. forláta kælibox sem ég hafði fyllt af mat og drykk fyrr um morguninn til að reyna að kaupa mér vinsældir. Veit ekki hvort það tókst, en eitthvað lækkaði alla vega í boxinu. Svo var tekin hefðbundin hópmynd, og eftir það hurfu sumir til síns heima og aðrir bættust í hópinn. Þrístrendingur er nefnilega svo frjálslegt hlaup að þar er fólki frjálst að koma og fara að vild. Hins vegar er bannað að týnast.

2. áfangi: Stóra-Fjarðarhorn – Gröf, 9,45 km, 1:31:12 klst, 6,22 km/klst.
Næsta mál á dagskrá var Bitruháls. Þar fer hlaupabrautin hæst í 400 m. y.s. sem er hæsti punktur leiðarinnar. Leiðin liggur upp Fjarðarhornssneiðinga sem voru einu sinni færir hestakerru, en síðan þá eru liðin mörg ár og fáein ræsi. Eitt þessara opnu ræsa er orðið að skyldumyndastað í Þrístrendingshlaupum, enda brúnir þess vel hlaðnar og Þrúðardalur grösugur í baksýn. Núna var reyndar þokuslæðingur þarna norðanvert í hálsinum og útsýni því nokkuð skert. En veðrið lék engu að síður við okkur með hægum vindi og hlýindum. Langermastakkar voru óþarfir.

Á leið upp Fjarðarhornssneiðinga.

Á leið upp Fjarðarhornssneiðinga.

Atli og Sonja byggðu brú yfir ræsið svo að allir kæmust yfir.

Atli og Sonja byggðu brú yfir ræsið svo að allir kæmust yfir.

Meðal helstu kennileita á leiðinni yfir Bitruháls eru upptök Broddár. Þau eru merkileg meðal annars vegna þess að þar eru landamerki ættaróðalsins í Gröf. Að þessum landamerkjum kom ég þó ekki fyrr en á fullorðinsárum, einfaldlega vegna þess að ég átti ekkert erindi þangað. Á æskuárunum var erindisleysa lítið í tísku.

Greinileg upphlaðin hestagata liggur áleiðis niður Bitruhálsinn frá Broddá. Þegar komið er niður í svonefndan Móhosaflóa verður á vegi manns brú, eða öllu heldur eitthvað sem einu sinni var brú, búin til úr símastaurum og símavírakeflum. Nú hafa veður og fúi náð að tortíma keflunum, en staurarnir liggja eftir, líklega hættir að verða grænir aftur þótt sólin skíni, en engu að síður hentugir til jafnvægisæfinga.

Á brúnni í Móhosaflóa. Hún hefur látið mikið á sjá á örstuttum tíma (síðustu 45 árum).

Á brúnni í Móhosaflóa. Hún hefur látið mikið á sjá á örstuttum tíma (síðustu 45 árum).

Ég og skíðin sem pabbi smíðaði fyrir mig um daginn. (Ljósm. Dofri).

Ég og skíðin sem pabbi smíðaði fyrir mig um daginn. (Ljósm. Dofri).

Segir nú ekki af ferðum okkar niður hálsinn að öðru leyti en því að við frændurnir gættum þess að segja öllum hlaupafélögunum frá því hversu einstaklega fótvissir við værum í ósléttu og grýttu landi, enda hefðum við alist upp við þessi skilyrði og lært að tipla fislétt á tám. Skipti það enda engum togum að ég rak tærnar í og steyptist fram yfir mig í grjótið. Þetta leit ekki vel út, eða var með öðrum orðum hvorki kúl né fallegt á að horfa. En meiðslin voru óveruleg. Þakklætið fyrir að hafa sloppið svona vel fylgdi mér það sem eftir var dagsins og næstu daga þar á eftir.

Hænsnakofinn ofan við túngarðinn í Gröf er að verða að föstum viðkomustað í Þrístrendingshlaupum, því að þar liggja enn skíðin sem pabbi smíðaði handa mér á ofanverðri síðustu öld. Þau höfðu sínar takmarkanir en voru engu að síður mikið notuð í skíðaferðum í hlíðinni fyrir ofan bæinn. Sjálfur átti pabbi miklu stærri skíði sem hann notaði til ferðalaga. Mig minnir að hann hafi líka átt skíðastafi, en oftast notaðist hann þó við einn langan og þungan broddstaf sem hægt var að renna sér á einum og sér niður brattar brekkur. Þá list lærði ég aldrei.

Áning, Gröf í Bitru, 44:21 mín, gestrisni og pönnukökur
Rögnvaldur bróðir minn og Arnheiður sambýliskona hans tóku að vanda vel á móti hlaupurunum þegar þeir birtust á hlaðinu við nýja glæsihúsið í Gröf. Nokkrir úr hópnum brugðu sér í stutta skoðunarferð í gamla bæinn þar sem ég fæddist undir súð einhvern tímann fyrir löngu í frekar vondu veðri síðla vetrar, en aðalverkefnið í þessari hvíld var að gæða sér á pönnukökum húsfreyjunnar. Þessar pönnukökur eru fyrir löngu orðnar eitt helsta aðdráttarafl Þrístrendings. Algengt er að boðið sé upp á kökur að hlaupum loknum, en mikið vantar upp á að það sama sé gert í miðjum hlaupum. Þarna hefur Þrístrendingur nokkra sérstöðu. Að vísu hafa sumir haft á orði að erfitt sé að hlaupa áfram eftir þessar móttökur, en ég lít á það sem skammtímavandamál, eða kannski bara upprifjun á því hvernig manni leið í gamla daga þegar maður var kominn í stígvélin á leið aftur út í heyskap eftir góðan kaffitíma síðdegis.

Við veisluborðið í Gröf. Hér fylgist Arnheiður húsfreyja með því að Fjölnismenn (og Gunnar) vanhagi ekki um neitt.

Við veisluborðið í Gröf. Hér fylgist Arnheiður húsfreyja með því að Fjölnismenn (og Gunnar) vanhagi ekki um neitt.

3. áfangi: Gröf – Kleifar, 11,84 km, 1:30:02 klst, 7,89 km/klst.
Við Gitta mín fylgdumst að fyrsta spölinn frá Gröf áleiðis fram í Krossárdal. Fátt er skemmtilegra en að hlaupa með börnunum sínum – og það breytist ekkert þó að þau séu farin að nálgast þrítugt. Já, og við vorum sem sagt á leiðinni fram í Krossárdal, því að á mínum bernskuslóðum fer maður fram til dala og út til sjávar. Þetta veldur stundum misskilningi hjá þeim sem fara inn til dala og fram til sjávar.

Það teygðist töluvert úr hlauparahópnum á leiðinni fram dalinn, en þó ekki meira en svo að hver og einn sæi ekki til næsta manns á undan. Þannig minnka líkur á að einhver villist, en þarna er ekki greinileg slóð alla leið. Norðanmennirnir Gunnar Atli og Gísli Einar fóru mikinn á þessum kafla og Gunnar Viðar fylgdi þeim eftir, enda lítið fyrir að dragast aftur úr. Ekki sáust þreytumerki á nokkrum manni þó að kílómetrarnir væru farnir að nálgast fjórða tuginn. Sporin léttust enn frekar þegar komið var suður að Krossárvatni. Sumir gengu svo langt að leggjast til sunds í vatninu, en aðrir nutu þess að vera aftur komnir á greinilega götu og mjúkt undirlag.

Dofri á sundi í Krossárvatni. Tíkin Hneta er greinilega þreytt á þessu athæfi (en líklega vön).

Dofri á sundi í Krossárvatni. Tíkin Hneta er greinilega þreytt á þessu athæfi (en líklega vön).

Og þá opnaðist okkur sýn út á Breiðafjörð. (Ljósm. Sonja Sif).

Og þá opnaðist okkur sýn út á Breiðafjörð. (Ljósm. Sonja Sif).

Þykkir skaflar voru sums staðar í Kleifunum, en leiðin var samt öll greiðfær. Fyrr en varði opnaðist sýn út á Breiðafjörðinn og veðrið, sem hafði í raun leikið við okkur allan daginn, varð jafnvel enn betra. Sólin kíkti meira að segja á okkur til að auka enn á gleðina. Loks var ekkert annað eftir en að tipla niður Hafursgötuna og niður túnið á Kleifum. Þangað kom ég rétt fyrir klukkan 5. Atli, Gísli og Gunnar voru hvergi sjáanlegir, enda höfðu þeir brugðið sér út að hlaupa niður á þjóðveg. Dagleiðin var nefnilega ekki orðin nema rúmlega 41 km, og auðvitað fannst þeim ekki taka því að hætta fyrr en fullri maraþonvegalengd væri náð. Við hin létum það hjá líða, nema hvað ég skokkaði aftur upp túnið og uppundir Hafursgötu til móts við þá síðustu í hópnum.

Sonja Sif á brúninni. Góður dagur og 41 km senn að baki.

Sonja Sif á brúninni. Góður dagur og 41 km senn að baki.

Sögulok og kjötsúpa
Fyrr en varði höfðu allir skilað sér og eftir einhver fataskipti og almenna tiltekt í farangrinum var sest að veisluborði úti undir vegg á Kleifum. Þar hafði tengdamóðir Dofra galdrað fram dýrindis kjötsúpu sem var einstaklega vel þegin að loknu dagsverki. Þetta gat varla orðið betra!

Birna, Dofri og Birgitta á pallinum á Kleifum í kjötsúpuveislu að hlaupi loknu.

Birna, Dofri og Birgitta á pallinum á Kleifum í kjötsúpuveislu að hlaupi loknu.

Hlaupafélagar dagsins
Eftirtaldir hlauparar tóku þátt í Þrístrendingi 2014:

  • Alla leið (3 fjallvegir með tilheyrandi):
    Dofri Hermannsson
    Gautur Þorsteinsson
    Gísli Einar Árnason
    Gottskálk Friðgeirsson
    Gunnar Atli Fríðuson
    Gunnar Viðar Gunnarsson
    Karl Jón Hirst
    Magnús Jónsson
    Rósa Friðriksdóttir
    Sonja Sif Jóhannsdóttir
    Stefán Gíslason
  • Tveir fjallvegir (Steinadalsheiði og Krossárdalur):
    Birna Guðmundsdóttir
  • Tveir fjallvegir (Bitruháls og Krossárdalur):
    Birgitta Stefánsdóttir
  • Einn fjallvegur (Steinadalsheiði):
    Ragnar Bragason
    Stefán Snær Ragnarsson (hjól)
  • Einn fjallvegur (Krossárdalur):
    Hulda Lilja Guðmundsdóttir

Þrjú skemmtihlaup framundan

Thristrend2013 086webNæstu tvær vikur eru þrjú skemmtihlaup á dagskránni hjá mér, þ.e.a.s. hlaup sem ég hef átt þátt í að gera að veruleika í þeim tilgangi að gleðja sjálfan mig og aðra. Í þessum hlaupum vinna allir en enginn tapar. Hér á eftir gefur að líta örlítið nánari upplýsingar um þessa bráðskemmtilegu viðburði.

1. Leggjabrjótur, miðvikud. 18/6 kl. 16:00
Á miðvikudaginn ætla ég að gera aðra tilraun til að komast yfir Leggjabrjót frá Botnsskála í Hvalfirði að þjónustumiðstöðinni á Þingvöllum. Þetta verður 35. hlaupið í fjallvegahlaupaverkefninu sem ég gaf sjálfum mér í fimmtugsafmælisgjöf vorið 2007. Já, þetta er sem sagt 2. tilraun, því að þann 24. maí sl. varð ég frá að hverfa eftir að hafa streðað upp úr Hvalfirðinum í hvössum mótvindi, vatnsverði og þoku. Við lögðum af stað 28 saman og komust öll til einhverra byggða á næstu klukkutímum, fæstir þó til þeirra byggða sem upphaflega var ætlunin. Sem betur fer varð engum meint af.

Veðurspáin er betri en síðast, en samkvæmt framtíðarspá Veðurstofunnar verður suðvestan og vestanátt og rigning hérna megin á landinu og hitinn líklega um 9 stig á láglendi. Þetta er reyndar ekkert óskaplega ólíkt því sem var 24. maí, nema hvað vindurinn verður ívíð hægari en síðast og blæs rigningunni í bakið á hlaupurunum en ekki fangið. Mig grunar að þetta verði bara fínt. En maður þarf samt að klæða sig sómasamlega.

Öllum er sem fyrr velkomið að slást í för með mér á eigin ábyrgð. Upplýsingar um hlaupið er að finna á hlaup.is og á Facebooksíðu fjallvegahlaupahópsins.

Við upphaf ferðarinnar sem aldrei var farin (nema af 6 ofurhetjum) yfir Leggjabrjót 24. maí 2014. (Ljósm. Ólafur Gunnar Sæmundsson).

Við upphaf ferðarinnar sem aldrei var farin (nema af 6 ofurhetjum) yfir Leggjabrjót 24. maí 2014. (Ljósm. Ólafur Gunnar Sæmundsson).

2. Þrístrendingur, laugard. 21/6 kl. 11:00
Laugardaginn 21. júní verður fjalla- og skemmtihlaupið Þrístrendingur haldið í fimmta sinn. Þarna er ekki keppt við tímann heldur miklu frekar keppst við að njóta dagsins og félagsskaparins. Hlaupið er öllum opið og þátttakendur velja sjálfir hvort þeir hlaupa alla leiðina eða bara einn eða tvo áfanga af þremur. Heildarvegalengdin er rétt um 41 km í þremur áföngum (u.þ.b. 20+10+11 km). Fyrsti áfanginn er frá Kleifum í Gilsfirði yfir Steinadalsheiði að Stóra-Fjarðarhorni í Kollafirði. Þessi spölur er allur hlaupinn á bílvegi, sem er einmitt nýbúið að opna fyrir sumarumferð. Vegurinn er fær öllum fjórhjóladrifnum bílum en varasamur fyrir eindrifsbíla. Næsti áfangi er frá Stóra-Fjarðarhorni yfir Bitruháls að Gröf í Bitru, þar sem ábúendur taka á móti hlaupurum með kaffi og pönnukökum. Lokaáfanginn er svo frá Gröf um Krossárdal aftur að Kleifum. Þarna er sem sagt hlaupið tvisvar þvert yfir Ísland á einni dagstund. Oft er hægt að fá far milli áfangastaða, en hlaupahaldarar skipuleggja enga flutninga. Nánari upplýsingar er að finna á hlaup.is, auk þess sem Internetið er hálffullt af ferðasögum úr Þrístrendingum síðustu fjögurra ára. Svo er Þrístrendingur líka til sem viðburður á Facebook. Þar er upplagt að láta vita af þátttöku, enda nauðsynlegt að hafa sæmilega hugmynd um fjöldann til að hægt sé að baka nóg af pönnukökum. (Þeir sem vilja renna fyrir lax í leiðinni geta keypt veiðileyfi á www.krossa.is). 🙂

Frá Þrístrendingi í fyrra. Blíðviðri, frelsi og friður.

Frá Þrístrendingi í fyrra. Blíðviðri, frelsi og friður.

3. Hamingjuhlaupið, laugard. 28/6 kl. 10:50
Laugardaginn 28. júní er röðin komin að hinu árlega Hamingjuhlaupi, en það fer nú fram í 6. sinn í tengslum við bæjarhátíðina Hamingjudaga á Hólmavík. Leiðin breytist ár frá ári og liggur að þessu sinni frá Kleifum í Gilsfirði um Vatnadal til Steingrímsfjarðar og áfram eftir veginum til Hólmavíkur, en þessa leið riðu móðurbræður mínir á sínum yngri árum áleiðis á böll á Ströndum. Síðan eru liðin mörg ár, enda téðir móðurbræður fæddir um aldamótin 1900. Frómt frá sagt verða hófför bræðranna þó ekki þrædd alveg frá byrjun, því að leiðin er valin með hliðsjón af því að hún sé sem aðgengilegust. Þess vegna verða fyrstu kílómetrarnir úr Þrístrendingi endurnýttir og lagt af stað áleiðis upp á Steinadalsheiði. Þar verður beygt þvert úr leið um vegleysur yfir í Vatnadal og svo áfram sem leið liggur niður dalinn.  Heildarvegalengdin er um 37 km og er seinfarin að hluta. Á Hólmavík mun eitt glæsilegasta hnallþóruhlaðborð Evrópska efnahagssvæðisins bíða hlauparanna, sem njóta munu þeirra forréttinda að fá að skera fyrstu sneiðarnar og sporðrenna þeim. Til að ekkert fari úrskeiðis (þ.e. til að enginn sleppi í terturnar á undan hlaupurunum) er nauðsynlegt að hlaupinu ljúki á fyrirfram ákveðnum tíma, þ.e.a.s. stundvíslega kl. 16:00. Til að auðvelda þetta og gera fólk kleift að slást í hópinn einhvers staðar á leiðinni fer hlaupið fram eins og hver önnur strætóferð, í þeim skilningi að hlaupararnir verða á tilteknum stöðum á tilteknum tímum. Tímatöflu og aðrar helstu upplýsingar er að sjálfsögðu að finna á hlaup.is. Þar eru líka tenglar á glaðlegar frásagnir af fyrri hamingjuhlaupum.

Frá Hamingjuhlaupinu í fyrra. Svona lagað er aðeins á færi hamingjusamra. Aðrir geta yfirleitt ekki flogið.

Frá Hamingjuhlaupinu í fyrra. Svona lagað er aðeins á færi hamingjusamra. Aðrir geta yfirleitt ekki flogið.

Þrístrendingur í fjórða sinn

Thristrend2013 048 160Fjalla- og skemmtihlaupið Þrístrendingur var háð í fjórða sinn laugardaginn 22. júní sl., en eins og allir vita snýst þetta hlaup um að fara tvisvar þvert yfir Ísland sama daginn, nánar tiltekið með því að fara um þrjár sýslur, þrjár strandir og þrjá fjallvegi. Dofri Hermannsson, frændi minn frá Kleifum í Gilsfirði, sló upphaflega fram hugmyndinni um þetta hlaup, og síðan þá höfum við hjálpast að við að láta hana verða að veruleika. Það er óháð og hlutlaust mat mitt að alltaf hafi vel tekist til, þó sjaldan eins vel og í þetta skipti.

Kleifar í Gilsfirði eru sjálfsagður upphafsstaður fyrir Þrístrending af því að Kleifar eru einmitt upphafsstaður okkar Dofra beggja. Það tiltekna upphaf má rekja aftur til ársins 1851 þegar Jón Ormsson flutti frá Króksfjarðarnesi að Kleifum. Þessi Jón var langalangafi minn og langalangalangafi Dofra og var talinn „vel gáfaður, ráðhollur og gestrisinn“. (Þessar mikilvægu upplýsingar er að finna í 2. bindi Dalamanna eftir séra Jón Guðnason, (bls. 517), sem gefið var út í Reykjavík á kostnað höfundar 1961). Sonur Jóns var Eggert langafi minn á Kleifum (talinn vitur maður og lögkænn). Dóttir hans var Anna Eggertsdóttir, sem bjó á Kleifum með Stefáni Eyjólfssyni eiginmanni sínum. Meðal barna þeirra voru Birgitta móðir mín og Jóhannes afi Dofra. Þannig var nú það og þaðan er Stefánsnafnið komið. Lýkur hér þessum ættfræðilega inngangi.

Veðrið á laugardaginn var svo gott að vafi leikur á að annað eins hafi sést á þessum slóðum, nema í Þrístrendingi í fyrra þegar það var jafnvel enn betra. Hægur vindur blés úr óskilgreindri átt, fá ský á himni og sólin skínandi glöð. Hitastig á láglendi var um 8°C um morguninn en var komið nálægt 15°C síðdegis.

Glaðir hlauparar á hlaðinu á Kleifum á sólbjörtum laugardagsmorgni. Hafursklettur og Gullfoss í baksýn.

Glaðir hlauparar á hlaðinu á Kleifum á sólbjörtum laugardagsmorgni. Hafursklettur og Gullfoss í baksýn.

Á slaginu 11:07 að morgni þessa sólríka laugardags lagði fríður hópur hlaupara af stað frá Kleifum sem leið liggur niður heimreiðina. Þarna voru samtals 11 hlauparar á ferð, nógu harðsnúnir til að leggja í Þrístrending allan. Fleiri áttu eftir að bætast við síðar. Höfuðpaurinn Dofri tók að sér að vera bílstjóri, auk þess sem hann sá um að allt færi sómasamlega fram, dyggilega studdur af yngstu dóttur sinni Rún. Bílferðin kom sér vel, því að með henni sköpuðust tækifæri til að senda fólk og vistir milli staða eftir þörfum.

Á harðaspretti niður heimreiðina á Kleifum. Bara 41 km eftir! Bæjarstjórahjónin á Ísafirði fremst í flokki.

Á harðaspretti niður heimreiðina frá Kleifum. Bara 41 km eftir! Bæjarstjórahjónin á Ísafirði fremst í flokki.

Hlaupið allt gekk eins og í skemmtilegri sögu. Steinadalsheiðin reyndist enginn farartálmi, enda vegurinn orðinn vel jeppafær eftir veturinn. Við Heiðarvatn var áð um stund, en þar liggur vegurinn yfir hæðina hæst (um 340 m.y.s.). Þegar komið var norður af heiðinni og niður í Steinadal þurfti að fara yfir tvö vöð. Stundum hafa Þrístrendingsfarar reynt að stikla þar á steinum og komast yfir þurrum fótum, en að þessu sinni var óvenjumikið vatn í ám og ekkert annað að gera en vaða sem leið lá.

Heitir þetta ekki „að ráðast á vaðið þar sem það er blautast“? Hér eru Helgi og Birkir á fullri ferð.

Heitir þetta ekki „að ráðast á vaðið þar sem það er blautast“? Hér eru Helgi og Birkir á fullri ferð.

Við Stóra-Fjarðarhorn var áð að vanda og tekið upp nesti skammt þar frá sem eitt sinn stóð samkomuhús Ungmennafélagsins Gróðurs í Kollafirði. Það var reist sumarið 1936 en er nú löngu horfið frá þessum stað og tekið til við að þjóna sem vélageymsla í nágrenni Hólmavíkur ef mig misminnir ekki. Faðir minn sá um „að innrétta húsið, og unnu félagar [í ungmennafélaginu] að því með honum“, eins og segir í samantekt Sigurðar Jónssonar um Ungmennafélagið Gróður í bókinni Strandir 2 (bls. 436), sem Búnaðarsamband Strandamanna gaf út 1985. Í þessu húsi fór ég á eina af mínum fyrstu skemmtunum, nánar tiltekið félagsvist og jafnvel líka dansleik, líklega árið 1969.

Áð við Stóra-Fjarðarhorn. Alltaf sama blíðan! Samt fannst þarna aðeins fyrir innlögninni inn Húnaflóann. Hún er sjaldan tiltakanlega hlý.

Áð við Stóra-Fjarðarhorn. Alltaf sama blíðan! Samt fannst þarna aðeins fyrir innlögninni inn Húnaflóann. Hún er sjaldan tiltakanlega hlý.

Víkur nú sögunni aftur að hlaupum til að sporna við þeirri viðleitni pistilsins að breytast í ævisögu eða ættfræðirit. Við Stóra-Fjarðarhorn bættust óþreyttir liðsmenn í hópinn og að sjálfsögðu átti þessi öflugi flokkur ekki í neinum vandræðum með Bitruhálsinn. Þar bar eftirfarandi helst til tíðinda:

  1. Allir fóru nánast beint upp hlíðina þar til komið var á hestagötuna upp Fjarðarhornssneiðinga, í stað þess að fara meira á ská til hægri og lenda í hálfgerðum ógöngum eins og stundum hefur borið við.
  2. Talsverð aurbleyta var efst á hálsinum, svo mjög að lá við skótjóni.
  3. Enginn snjór var við upptök Broddár
  4. Fyrstu mönnum (les: Birki) lá svo á að hefðbundin áning við Móhosaflóalæk fórst fyrir. Þar með missti hópurinn af árlegum fræðslufyrirlestri um tannhirðu barna í ungdæmi mínu á ofanverðri 19. öld (eða var það sú tuttugasta)?
Á fullri ferð efst á Bitruhálsi. Arnar ofurhlaupari og Helgi Kárason í fararbroddi.

Á fullri ferð efst á Bitruhálsi. Arnar ofurhlaupari og Helgi Kárason í fararbroddi. Strandafjöllin í baksýn. Eins og sjá má er gatan yfir hálsinn greiðfær. Þarna var farið með hestakerrur í gamla daga.

Um kl. 3 voru allir komnir í hlað á æskuheimili mínu í Gröf. Þar tóku foreldrar mínir við búi vorið 1956, rétt um það bil 9 mánuðum áður en ég fæddist, og bjuggu þar alla tíð síðan meðan báðum entist aldur. Þar býr nú Rögnvaldur bróðir minn og Arnheiður sambýliskona hans. Þau tóku vel á móti hlaupurunum að vanda og veittu kaffi, pönnukökur, skinkuhorn og fleira að miklum rausnarskap. Einhverjir úr hópnum gáfu sér líka tíma til að líta sem snöggvast á fornminjar sem þarna eru frá uppvaxtarárum mínum (og jafnvel enn eldri).

Inga Dís, Sigurður Freyr, Lína og Dofri í slökun á hlaðinu í Gröf. Ef vel er gáð má sjá Arnheiði húsfreyju vinstra megin á myndinni og Rögnvald bónda við húsvegginn. Og Rósmundur skíðagöngukappi er þarna líka.

Inga Dís, Sigurður Freyr, Lína og Dofri í slökun á hlaðinu í Gröf. Ef vel er gáð má sjá Arnheiði húsfreyju vinstra megin á myndinni og Rögnvald bónda við húsvegginn. Og Rósmundur skíðagöngukappi er þarna líka.

Eftir þessa góðu áningu í Gröf var ekkert eftir nema skokka þriðja og síðasta hluta leiðarinnar, suður Krossárdal að Kleifum. Reyndar liggur leiðin í vestur en ekki suður, en samkvæmt málvenju er þetta samt suður. Maður fer líka „fram“ dalinn en ekki „inn“ á leið sinni frá sjónum. Þessi síðasti hluti er lágur en seinfarinn, því að hluti leiðarinnar liggur um mýrar og móa sem vefjast iðulega fyrir fótum. Yfirferðin varð því hæg á köflum, en þess meira spjallað.

Sigríður, Inga Dís og Sigurlín komnar suður (vestur) fyrir Krossárvatn, (sem er þó ekki vatnið sem sést á myndinni). Stutt eftir suður (vestur) af.

Sigríður, Inga Dís og Sigurlín komnar suður (vestur) fyrir Krossárvatn, (sem er þó ekki vatnið sem sést á myndinni). Felix skammt undan. Stutt eftir suður (vestur) af.

Þegar komið var fram á brúnina við Hafursklett ofan við Kleifar var sólin enn í hátíðarskapi. Ætli það hafi ekki einmitt verið þá sem ég mundi að mér hafði einhvern tímann verið sagt að fólk sem er hvítt á hörund ætti e.t.v. að prófa að nota sólarvörn ef það er fáklætt úti í sólskini í 6 klukkutíma samfleytt. Dofri hlaupstjóri kom á móti okkur þarna upp í brúnina og hafði meira að segja gefið sér tíma til að kasta steinum úr Hafursgötunni, en svo nefnist heldur brött gata eða einstigi niður með Hafurskletti niður á graslendið við Kleifar.

Horft niður Hafursgötuna, heim að Kleifum og út á Gilsfjörð. Hafursklettur til hægri.

Horft niður Hafursgötuna, heim að Kleifum og út á Gilsfjörð. Hafursklettur til hægri.

Nokkrum mínútum síðar var allur hópurinn saman kominn á hlaðinu á Kleifum, sumir sjálfsagt „lúnir eftir langan dag í sólinni“, eins og segir í kvæðinu, en aðrir svo tilfinnanlega óþreyttir að þeir þurftu endilega að bæta á sig svo sem einum kílómetra til að dagleiðin næði 42,2 km. Á hlaðinu var kíkt í nestispoka og kannski skipt um skó eða föt, já og reyndar líka um eitt jeppadekk sem hafði fengið nóg af vestfirskum vegum. Síðan rann upp kveðjustund og hlaupararnir héldu hver til síns heima (eða í sund á Reykhólum). Ef gleði væri tekin með í útreikninga á vergri landsframleiðslu hefði sést greinileg sveifla í línuritum Hagstofunnar þennan dag!

ÍR-ingar á hlaðinu á Kleifum að loknu góðu dagsverki í góðu veðri. F.v.: Inga Dís, Sigurður Freyr, Felix, Sigurlín, Helgi, Jón, Sigríður, Arnar, Dofri Þ.

ÍR-ingar á hlaðinu á Kleifum að loknu góðu dagsverki í góðu veðri. F.v.: Inga Dís, Sigurður Freyr, Felix, Sigurlín, Helgi, Jón, Sigríður, Arnar, Dofri Þ.

Eftirtaldir hlauparar tóku þátt í Þrístrendingi 2013:

  • Alla leið (3 fjallvegir með tilheyrandi):
    Arnar Aðalgeirsson
    Birkir Þór Stefánsson
    Daníel Jakobsson
    Felix Sigurðsson
    Helgi Kárason
    Hólmfríður Vala Svavarsdóttir
    Jón Grímsson
    Sigríður Gísladóttir
    Sigurlín Birgisdóttir
    Stefán Gíslason
  • Tveir fjallvegir (Steinadalsheiði og Krossárdalur):
    Dofri Þórðarson
  • Tveir fjallvegir (Bitruháls og Krossárdalur):
    Rósmundur Númason
    Sigurður Freyr Jónatansson
  • Einn fjallvegur (Krossárdalur):
    Inga Dís Karlsdóttir

Þrístrendingur í einmunablíðu

Gleðihlaupið Þrístrendingur var háð í þriðja sinn í gær. Þetta hlaup var sérstakt að tvennu leyti frá mínum bæjardyrum séð. Annars vegar var veðurblíðan í gær sú mesta sem elstu menn rámar í og hins vegar var þetta í fyrsta sinn sem ég varð að láta mér nægja að fylgjast með Þrístrendingi af hliðarlínunni.

Þrístrendingur heitir Þrístrendingur af því að hlaupaleiðin liggur um þrjár strandir, þrjá firði, þrjár sýslur og þrjá fjallvegi. Hlaupið hefst á hlaðinu á Kleifum í Gilsfirði þar sem móðir mín heitin ólst upp snemma á síðustu öld. Þaðan er hlaupið norður Steinadalsheiði um sýslumörk Dalasýslu, Austur-Barðastrandarsýslu og Strandasýslu þar til komið er í Kollafjörð. Næst er hlaupið yfir Bitruháls að æskuslóðum mínum að Gröf í Bitru og loks suður Krossárdal að Kleifum. Dofri Hermannsson frá Kleifum átti upphaflega hugmyndina að þessu hlaupi, en síðan höfum við frændurnir þróað hugmyndina í sameiningu og gert hana að veruleika. Þarna er engin keppni og lítið um tímatöku, en langmest lagt upp úr gleði og samveru.

Ég fékk far vestur að Kleifum í gærmorgun með Ingimundi Grétarssyni, stórhlaupara úr Borgarnesi. Ingimundur er einn af þessu aðdáunarverða fólki, sem engum hefði dottið í hug fyrir 10 árum að nokkurn tímann myndi geta hlaupið, en rúllar nú upp hverju maraþonhlaupinu á fætur öðru. Allt er mögulegt!

Við vorum frekar seinir fyrir, en það skipti svo sem engu máli. Ég var hvort sem er ekki í standi til að hlaupa vegna lítilsháttar meiðsla í framanverðri mjöðm og Ingimundi var alveg sama þótt hann legði af stað á eftir hinum. Reyndar var ætlunin að hafa ráshópana tvo, þannig að þeir sem teldu sig hægfara legðu í ‘ann kl. 10:30, en hinir kl. 11:00. Það gekk ekki eftir, því að sjálfsagt töldu allir sig hægfara. Slík var hógværðin að mér fjarverandi. Flestir lögðu víst af stað um svipað leyti, líklega um kl. 10:50. Þegar við nálguðumst Kleifa sáum við nokkra hlaupara í grennd við Brekkuána, alla í litklæðum eins og tíðkaðist þegar hetjur riðu um héruð til forna, nema hvað þá voru menn ekki í „dry-fit“.

Á Kleifum tókum við svolítið af trússi og ókum síðan af stað í humátt á eftir hinum. Við vegamót Steinadalsheiðar við brúna yfir Brekkuá yfirgaf Ingimundur bifreiðina og lagði af stað hlaupandi. Ég sat einn eftir undir stýri, í nýju hlutverki sem trússari. Það var ekki óskastaða, en ágætis áminning um það hvers virði hlaupin eru mér og hversu lítið sjálfsagt það er að geta yfirleitt hlaupið tugi kílómetra eins og ekkert sé.

Ingimundur tilbúinn að leggja á Steinadalsheiðina, lundin létt en svipurinn ekki í neinu samræmi við veðrið.

Bílferðin norður Steinadalsheiði hófst í rykmekki. Landið var óskaplega þurrt og engin regnský sjáanleg, né heldur ský yfirleitt. Og hitastigið var örugglega komið vel yfir 15 gráður. Fljótlega hitti ég þrjú úr hópnum, þau Önnu Siggu,  Gísla og Sigurjón. Þau höfðu neyðst til að nema staðar í brekkunum upp heiðina til að gera við slitna keðju. Ég leit á kílómetramælinn og sá að Ingimundur þyrfti að vinna upp 3ja km forskot ef hann ætlaði ekki að vera einn á ferð yfir heiðina.

Gert við slitna keðju á Steinadalsheiði.

Áfram hélt ég norður yfir með stuttri viðkomu til að spjalla við hlauparana sem voru komnir mislangt upp brekkurnar. Fremstar voru þær Björg Árna og Þuríður sem voru komnar upp að Heiðarvatni á hjólum.

Á leið upp Steinadalsheiðina að sunnanverðu.

Dofri frændi og Valdi bróðir, öðru nafni Rögnvaldur bóndi í Gröf, á fullri ferð upp heiðina.

Segir nú fátt af ferðum mínum þar til komið var að vaðinu á Norðdalsá, spölkorn innan við bæinn í Steinadal. Þar lagði ég bílnum, settist út í sumarblíðuna, tók upp nesti og beið eftir hinum. Reyndar náðu Björg og Þuríður mér eftir smástund og hitt hjólreiðafólkið birtist nokkru síðar. Keðjuviðgerðin hafði reynst vel.

Ingimundur, Sigga Bryndís og Sigrún Erlends birtust fyrst af hlaupurunum. Ingimund hafði greinilega ekkert munað um að vinna upp forskotið. Síðan komu hlaupararnir einn af öðrum, hver öðrum sáttari í blíðunni. Þarna var ég kominn með fjölda þátttakenda á hreint, enda finnst mér alltaf betra að hafa tölfræðina í lagi.  Samtals höfðu 10 hlauparar og 5 hjólreiðamenn lagt af stað frá Kleifum, og enginn hafði helst úr lestinni.

Dofri og Vala komin að vaðinu á Norðdalsá. Sól skín í heiði.

Dofri, Jóhanna, Arndís og Valdi við Norðdalsá.

Við Stóra-Fjarðarhorn hitti ég eiginmann Þuríðar, Sigurð Kristófersson úr Borgarnesi. Hann var að festa hjólið hennar Þuríðar á bílinn. Dekkin á hjólinu höfðu reynst illa og hún hafði ákveðið að leggja gangandi á Bitruhálsinn. Anna Sigga, Gísli og Sigurjón voru líka lögð af stað, enda seinlegt að koma hjólum þarna upp. Björg hafði hins vegar sagt skilið við hópinn og hjólað áleiðis til Hólmavíkur. Hún var að glíma við meiðsli og ekki árennilegt að leggja í miklar torfærur.

Hjól Þuríðar bundið á bíl. Dekkin, sem áttu að vera bæði götudekk og fjalladekk, reyndust vera hvorugt.

Ingimundur kom fyrstur hlauparanna að Stóra-Fjarðarhorni, en þar er jafnan áð í Þrístrendingshlaupum. Hin skiluðu sér fyrr en varði og ég deildi út drykkjum og þess háttar úr kæliboxi sem ég hafði gripið með mér um morguninn til að reyna að verða ómissandi í hlaupinu þó að ég hlypi ekki sjálfur. Þetta virkaði vel, enda vissu fæstir að margfalt betri veitingar biðu þeirra í Gröf. Þetta er allt spurning um að spila út trompunum í réttri tímaröð.

Ingimundur kominn léttklæddur að Stóra-Fjarðarhorni, fyrstur hlauparanna.

Dofri, Sigga Bryndís, Sigrún Erlends og Vala renna í hlað.

Arndís og Jóhanna við Stóra-Fjarðarhorn í Kollafirði, sáttar.

Hópmynd af öllum hlaupurunum við Stóra-Fjarðarhorn. Standandi f.v.: Rögnvaldur, Jóhanna, Arndís, Hólmfríður Vala, Ingimundur. Krjúpandi f.v.: Guðlaug Rakel, Sigrún Barkar, Sigríður Bryndís, Sigrún Erlends. Liggjandi: Dofri Hermannsson. Hjólreiðafólkið var lagt af stað upp Bitruháls, nema Björg sem var á leið til Hólmavíkur. Engin mynd náðist af henni.

Ég sá fram á að Golfinn hans Ingimundar myndi ekki drífa upp móana fyrir ofan Stóra-Fjarðarhorn. Næsti áfangi hjá mér var því bílferð út á Ennisháls og inn Bitrufjörð til Arnheiðar mágkonu minnar í Gröf. Þar gerði ég stuttan stans og rölti síðan áleiðis frá bænum upp á Bitruháls til að taka á móti hlaupurunum og fá minn skammt af útiveru. Þetta var dásamleg gönguferð, enda veðrið líklega það besta sem ég hef upplifað í gönguferðum um þetta svæði, og eru þær þó orðnar nokkur hundruð síðustu 50 ár.

Við Móhosaflóalæk lét ég staðar numið, en þangað eru líklega um 2,5 km frá bænum í Gröf. Klukkan var u.þ.b. 14:30 og von á fyrstu hlaupurunum á hverri stundu. Ég þurfti heldur ekki lengi að bíða. Ingimundur og Sigrún Barkardóttir birtust að vörmu spori og síðan hver af öðrum. Þarna var áð um stund, fætur kældir í læknum og veðrið dásamað.

Ingimundur og Sigrún Barkar komu fyrst allra í Móhosaflóann. Þarna var einu sinni brú úr notuðum vírakeflum, en nú eru bara undirstöðurnar eftir.

Sigga Bryndís og Sigrún Erlends á „brúnni“.

Langþráð kæling.

… og örlítil slökun. Lífið er dásamlegt, sérstaklega í svona veðri!

Ég stóðst ekki mátið að skokka smávegis á leiðinni niður af hálsinum. Mjöðmin var til friðs og tilfinningin góð.

Í Gröf var Arnheiður búin að útbúa þvílíkt kaffihlaðborð að kæliboxið mitt gleymdist á augabragði. Einhver í hópnum hafði það á orði að þetta væri eina fjallahlaupið á Íslandi þar sem boðið væri upp á pönnukökur á miðri leið. Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að allir þátttakendurnir í hlaupinu hafi verið glaðir allan daginn, en aldrei þó glaðari en yfir veitingunum í Gröf.

Glatt á hjalla við veisluborðið í Gröf: Vala, Sigrún, Sigurjón og Sigrún.

Jóhanna, Sigrún B. og Anna Sigga við borðið í Gröf.

Arnheiður Guðlaugsdóttir húsfreyja í Gröf var mikill gleðigjafi í þessari ferð. Veitingar gerast ekki betri í fjallahlaupum hérlendis!

Þuríður og Anna Sigga á hlaðinu í Gröf. Líður að brottför.

Við brottför frá Gröf. Efri röð: Sigrún E., Vala, Sigga Bryndís, Gísli, Sigrún B., Sigurjón, Jóhanna, Ingimundur og Valdi. Neðri röð: Þuríður, Dofri og Anna Sigga.

Eftir dágóða áningu í Gröf var lagt af stað í síðasta áfangann. Ég fór á bílnum fram á Móholtið neðan við Einfætingsgil til að taka myndir og upplifa aðeins meira. Síðan lá leiðin til baka um Ennisháls, Kollafjörð og Steinadalsheiði aftur að Kleifum. Þar renndi ég í hlaðið um kl. 17:00.

Hlauparnir tínast upp á Móholtið, Dofri og Ingimundur fremstir. Í baksýn er veiðihúsið við Krossá, Gröf fjær og Vatnsnesið lengst í fjarska, handan Húnaflóans.

Við endamarkið á Kleifum bólaði ekki á hlaupurum. Það fannst mér ágætt, því að þá gafst mér tími til að rölta áleiðis á móti þeim. Mætti Ingimundi efst í Hafursgötunni, og upp á brúninni hitti ég Völu, Siggu Bryndísi og Sigrúnu Barkar. Dofri kom skömmu síðar og tók að sér að vísa þeim sem síðar kæmu á Hafursgötuna, en hún er eina færa leiðin þarna niður brattann.

Kleifar síðdegis. Leitun að fallegra bæjarstæði. Gullfoss í Kleifaá í baksýn.

Ingimundur kominn af stað niður Hafursgötuna. Þar borgar sig að kunna fótum sínum forráð.

Vala „on the edge“.

Sigrún Barkar, Sigríður Bryndís og Hólmfríður Vala á brúninni við Hafursklett.

Ég rölti nú niður Hafursgötuna og náði svolitlu skokki heim túnið á Kleifum. Ingimundur var hvergi sjáanlegur, enda hafði hann haldið áfram spottann sem hann átti eftir frá því um morguninn, þ.e. frá Kleifum að vegamótunum við Brekkuá.

Þá var ekkert eftir nema að kveðja og þakka fyrir góðan dag, því að þessi dagur var mjög góður, líka fyrir mig þó að ég gæti ekki hlaupið. Þetta var bara ný og öðruvísi reynsla, sem ég þurfti greinilega á að halda.

Þessum línum fylgja bestu þakkir til allra þeirra sem áttu þátt í því að gera þennan dag jafn ánægjulegan og raun bar vitni. Næsta ár verður Þrístrendingur hlaupinn í 4. sinn. Ég kem með.

Eftirtaldir hlauparar og hjólreiðagarpar tóku þátt í Þrístrendingi 2012:

  • Alla leið (3 fjallvegir með tilheyrandi):
    Anna Sigríður Arnardóttir (á hjóli)
    Arndís Steinþórsdóttir
    Dofri Hermannsson
    Gísli Reynisson (á hjóli)
    Hólmfríður Vala Svavarsdóttir
    Ingimundur Grétarsson
    Jóhanna Eggertsdóttir

    Rögnvaldur Gíslason
    Sigríður Bryndís Stefánsdóttir
    Sigrún Barkardóttir
    Sigrún Erlendsdóttir
    Sigurjón Þorkelsson (á hjóli)
  • Tveir fjallvegir (Steinadalsheiði og Bitruháls):
    Þuríður Helgadóttir (á hjóli og gangandi)
  • Einn fjallvegur (Steinadalsheiði):
    Björg Árnadóttir (á hjóli)
    Guðlaug Rakel Guðjónsdóttir

Þrístrendingur 23. júní 2012

Laugardaginn 23. júní nk. verður fjalla- og skemmtihlaupið Þrístrendingur haldið í þriðja sinn. Þarna verður ekki keppt við tímann heldur miklu frekar keppst við að njóta dagsins og félagsskaparins. Hlaupið er öllum opið og þátttakendur velja alveg sjálfir hvort þeir hlaupa alla leiðina eða bara einn eða tvo áfanga af þremur. Þetta verður sem sagt afar óformlegt og galopið hlaup, og um leið skemmtileg hlaupaæfing og tilbreyting frá daglegu amstri. Í fyrra tóku rúmlega 20 manns þátt í þessu ævintýri og margt bendir til ört vaxandi þátttöku. Þess vegna er óskað eftir því að fólk skrái sig (sjá upplýsingar neðst í þessari færslu), því að aðstandendur hlaupsins þurfa að skipuleggja tvö eða þrjú smáatriði þar sem fjöldinn skiptir máli.

Aðstandendur
Aðstandendur hlaupsins eru allir þeir sem taka þátt í því, en þó aðallega frændurnir Dofri Hermannsson frá Kleifum í Gilsfirði og Stefán Gíslason frá Gröf í Bitrufirði. Eins og ráða má af því sem hér fer á eftir, liggur leiðin einmitt um æskuslóðir þessara frænda.

Fyrsti áfangi: Steinadalsheiði
Hlaupið hefst á hlaðinu á Kleifum í Gilsfirði laugardaginn 23. júní eins og fyrr segir. Þeir sem telja sig frekar hægfara leggja af stað kl. 10:30, en þeir sem telja sig fljótari í förum leggja af stað kl. 11:00. Þegar heimreiðin að Kleifum er að baki er beygt til hægri, hlaupinn smáspölur fyrir botn Gilsfjarðar og svo aftur beygt til hægri upp á Steinadalsheiði. Vegurinn yfir heiðina fer mest í 330 m hæð við Heiðarvatn. Þegar komið er niður af heiðinni að norðanverðu liggur leiðin yfir tvær ár, sem stundum er hægt að stikla yfir, en sjaldnast þó þurrum fótum. Leiðin liggur framhjá bæjunum Steinadal, Miðhúsum og Felli og skömmu síðar er komið niður á aðalveginn við botn Kollafjarðar. Þar er enn beygt til hægri og hlaupinn smáspölur fyrir fjarðarbotninn, framhjá bænum Undralandi. Þessum fyrsta hluta hlaupsins lýkur við heimreiðina að Stóra-Fjarðarhorni, en þangað eru 19-20 km frá Kleifum. Í ljósi reynslunnar má ætla að allir verði komnir að Stóra-Fjarðarhorni um kl. 13:00. Þar verður áð og stefnt að því að allir leggi samtímis upp í næsta áfanga.

Annar áfangi: Bitruháls
Frá Stóra-Fjarðarhorni liggur leiðin skáhallt upp hlíðina um þúfur og móa þar til komið er á gamla hestagötu. Henni er fylgt upp á Bitruháls, sem fer mest í u.þ.b. 380 hæð í svonefndum Skörðum,og áfram niður með Grafargili að bænum Gröf, þar sem Arnheiður húsfreyja og Rögnvaldur bóndi taka á móti hópnum með kaffi og pönnukökum fyrir þá sem vilja. Leiðin yfir hálsinn er tæpir 10 km. og líklegt að ferðalagið þar yfir taki a.m.k. einn og hálfan klukkutíma. Því má reikna með að hópurinn verði í Gröf um kl. 15:00.

Þriðji áfangi: Krossárdalur
Eftir hæfilega áningu í Gröf hefst endaspretturinn niður túnið og áfram inn Krossárdal, framhjá bæjunum Árdal og Einfætingsgili. Þangað er prýðilegur bílvegur, en innar í dalnum tekur við jeppafær slóði og síðan mýrar og móar. Leiðin suður dalinn (það er alltaf talað um að fara suður Krossárdal þó að leiðin liggi í raun í vestur) fer mest í 240 m hæð við Krossárvatn. Áfram er haldið með vatnið á vinstri hönd og áfram eftir hestagötum þar til komið er fram á klettabrún fyrir ofan Kleifar. Þaðan blasir Gilsfjörðurinn við. Loks liggur leiðin niður bratt og fremur laust einstigi sem nefnist Hafursgata. Þegar henni sleppir er ekkert eftir nema mjúkt graslendi heim að Kleifum. Leiðin þangað frá Gröf er rúmlega 11 km. Ekki er ósennilegt að flestir verði komnir að Kleifum um kl. 17:00. Annars skipta tímasetningar engu máli og eru bara settar fram hér til viðmiðunar.

Tímataka og veitingar
Engin formleg tímataka verður í hlaupinu, heldur notar hver og einn nærtækar klukkur eða dagatöl eftir því sem færi gefst. Drykkjarstöðvar verða hins vegar við hvern læk. Þær eru ómannaðar, nema drykkjarstöðin í Gröf, þar sem búið verður að hella upp á kaffi eins og fyrr segir. Að hlaupi loknu verður boðið upp á grillaðstöðu á Kleifum svo að hlauparar geti fengið sér eitthvað bitastætt áður en þeir skella sér aftur heim, nú eða í heita pottinn á Reykhólum sem er auðvitað besti endirinn á svona degi. Eins er upplagt að lengja ferðina og finna sér hentugan gististað nóttina eftir hlaup.

Smáa letrið
Þrístrendingur er í senn þriggja stranda hlaup, þriggja sýslna hlaup og þriggja fjallvega hlaup. Lagt er upp í Dalasýslu og komið við í Austur-Barðastrandarsýslu og Strandasýslu, áður en dagsverkinu lýkur í Dalasýslu á ný. Og svo koma strendur Gilsfjarðar, Kollafjarðar og Bitrufjarðar við sögu, þó að ekki verði endilega farið niður í allar tiltækar fjörur. Þeir sem taka þátt í hlaupinu gera það á eigin ábyrgð.

Lesefni og nánari upplýsingar
Hægt er að fá hugmynd um inntak og eðli Þrístrendings með því að skoða eftirfarandi síður:
Þrístrendingur 2010: Frásögn en engar myndir   
Þrístrendingur 2011: Frásögn og myndir
Fjallvegahlaup.is: Leiðarlýsing Steinadalsheiði
Fjallvegahlaup.is: Leiðarlýsing Bitruháls
Fjallvegahlaup.is: Leiðarlýsing Krossárdalur (í „öfuga átt“)
Síðast en ekki síst er ástæða til að benda á Fésbókarsíðu Þrístrendings 2012. Fésbókarsíðan er hin eiginlega miðstöð undirbúningsins, því að þar fara fram skoðanaskipti og hvers kyns spjall um hlaupið. Þeir sem hafa áhuga á að vera með eru vinsamlegast beðnir að skrá sig þar.

Allar nánari upplýsingar veita
Dofri Hermannsson, dofrihermannsson[á]gmail.com og
Stefán Gíslason, stefan[á]environice.is.

Þetta kort gefur hugmynd um leiðina, en á Fésbókarsíðunni er annað kort, örlítið nákvæmara.

Þessi mynd var tekin við upphaf hlaupsins í fyrra:

Fjallvegahlaup 2012

Nú er löngu kominn tími til að kunngjöra fjallvegahlaupaáætlun ársins 2012. Reyndar sendi ég hana út á fjallvegahlaupapóstlistann minn fyrir allnokkru síðan, en hér birtist hún almenningi í fyrsta sinn. Ég geri fastlega ráð fyrir að þjóðin hafi beðið í ofvæni eftir þessu!
 
1. Kerlingaskarð í maí (Fjallvegahlaup nr. 25)
Kerlingaskarð á Snæfellsnesi verður fyrsta fjallvegahlaup sumarsins. Ég er enn ekki búinn að ákveða dagsetninguna endanlega, en líklega verður þetta seint í mánuðinum. Miðvikudagurinn 23. maí og laugardagurinn 26. maí hafa verið nefndir í þessu sambandi, en enn er allt galopið hvað þetta varðar – og allar ábendingar vel þegnar. Yfirleitt set ég fjallvegahlaupin á helgar, en vegna staðsetningar sinnar og hóflegrar vegalengdar er svo sem vel hægt að hlaupa Kerlingaskarð síðdegis á virkum degi. Þetta eru líklega um 17 km á aflögðum bílvegi, sem fer mest í 311 m hæð. Ég á eftir að ákveða hvort hlaupið verður til norðurs eða suðurs. Kannski er upplagt að hlaupa til norðurs og enda daginn á málsverði í Stykkishólmi. Þigg allar tillögur um þetta með þökkum.

2. Þrístrendingur, laugard. 23. júní
Nú verður Þrístrendingur hlaupinn í þriðja sinn – og sem fyrr lagt upp frá Kleifum í Gilsfirði. Þeir sem telja sig hægfara leggja væntanlega af stað kl. 10:30 árdegis, en þeir sem telja sig hraðskreiðari fara kl. 11:00. Frá Kleifum verður hlaupið norður Steinadalsheiði að Stóra-Fjarðarhorni við botn Kollafjarðar á Ströndum. Þangað eru um 19 km frá Kleifum. Við Stóra-Fjarðarhorn verður hópurinn sameinaður á ný og síðan hlaupið yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf og loks þaðan suður Krossárdal að Kleifum. Leiðin öll er rúmir 40 km, og á henni eru þrír fjallvegir. Þetta er samt ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu mínu, því að þessar leiðir hef ég allar farið áður. En þetta er upplagt æfinga- og skemmtihlaup í góðum félagsskap. Í fyrra fóru 16 manns alla leið og 7 til viðbótar einn eða tvo leggi af þremur. Hægt er að fræðast meira um þetta tiltæki og lesa ferðasöguna frá því í fyrra og í hitteðfyrra í samtímaheimildum. Nánari upplýsingar um fyrirkomulag hlaupsins á sumri komanda verða birtar fljótlega.

3. Hamingjuhlaupið, laugard. 30. júní
Nú verður Hamingjuhlaupið þreytt í 4. sinn, en þar er ekki keppt við tímann heldur er keppst við að auka hamingju þátttakenda, svo og þeirra sem bíða eftir því að þeir skeri fyrstu sneiðina af tertunum á hinu heimsfræga hnallþóruhlaðborði Hamingjudaga á Hólmavík. Reyndar er ekki búið að ákveða fyrirkomulagið á tertuskurðinum, en hlaupaleiðin er löngu ákveðin, eins og sjá má á heimasíðu Hamingjudaganna. Hamingjuhlaupið hefst að þessu sinni við Árnes í Trékyllisvík að morgni dags. Hlaupið verður um Naustvíkurskörð til Reykjarfjarðar, áfram eftir veginum til Djúpuvíkur, þaðan um Trékyllisheiði að Bólstað við botn Steingrímsfjarðar og loks eftir veginum síðasta spölinn til Hólmavíkur. Alls eru þetta á að giska 53 km, og líklega verða teknar í þetta 7-8 klst. Drög að tímaáætlun eru komin inn á fyrrnefnda Hamingjudagasíðu. Hægt er að rifja upp hamingjuhlaup fyrri ára með lestri viðeigandi bloggpistla frá 2011, 2010 og 2009. Hamingjuhlaupið er orðið árvisst, en það er svo sem ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu. Nánari upplýsingar um hlaupið verða birtar þegar nær dregur.

4. Laugavegurinn, laugard. 14. júlí
Laugavegurinn er ekki hluti af fjallvegahlaupaverkefninu, en ég nefni hann samt hér til þess að ég muni örugglega eftir að hlaupa hann.

5. Snjáfjallahringur, laugard. 28. júlí (Fjallvegir nr. 26, 27 og 28)
Þennan laugardag ætla ég að hlaupa þrjá fjallvegi norðan Ísafjarðardjúps, nánar tiltekið í fyrsta lagi frá Unaðsdal, út Snæfjallaströnd og yfir Snæfjallaheiði til Grunnavíkur (um 29 km), í öðru lagi frá Grunnavík um Staðarheiði inn í Leirufjörð (um 18 km) og í þriðja lagi yfir Dalsheiði úr Leirufirði að Unaðsdal (um 15 km). Samtals er þetta því ágætis dagleið, eða samtals á að giska 62 km. Upplagt er að skella sér í góða útilegu við Dalbæ (rétt hjá Unaðsdal) í tengslum við þetta, en þar er tjaldsvæði og ýmiss önnur þjónusta – og margt að skoða í nágrenninu fyrir fylgdarfólk sem ekki hugnast svona dagleiðir. Snæfjallaheiðin og Staðarheiðin koma mjög við sögu í „Harmi englanna“ eftir Jón Kalman Stefánsson, að vísu undir öðrum nöfnum. Því er mælt með lestri þessarar bókar (og hinna tveggja í þríleik Jóns) áður en hlaupið er af stað.

Lengra er ég ekki kominn í skipulagningunni. Samt inniheldur þessi upptalning bara fjóra nýja fjallvegi. Þyrfti helst að ná tveimur í viðbót til að komast upp í 30 samtals. Allar tillögur eru vel þegnar! Á svo sem slatta af hugmyndum á fjallvegahlaupasíðunni minni. Þetta er bara spurning um val (af þeim lista eða öðrum) og hentugar tímasetningar.

Öllum er velkomið að taka þátt í þessu tómstundagamni með mér. Í fjallvegahlaupunum er engin keppni, engin tímataka (umfram það sem hver og einn ákveður fyrir sjálfan sig), engin þátttökugjöld, engar drykkjarstöðvar nema í ám og lækjum, engin öryggisgæsla – og bara yfirleitt ekkert nema góður félagsskapur og íslensk náttúra. Og þeir sem slást í hópinn gera það alfarið á eigin ábyrgð.

Heimasíða fjallvegahlaupaverkefnisins er www.fjallvegahlaup.is.

Þarna lauk fjallvegahlaupum síðasta árs, í Finnafirði, að loknu hlaupi nr. 24.