Gleðihlaupið Þrístrendingur fór fram í sjötta sinn laugardaginn 20. júní sl. Að vanda var safnast saman að morgni dags á hlaðinu á Kleifum í Gilsfirði „rétt undir háum Hafurskletti“ og með Gullfoss í baksýn. Þarna fæddist Jóhannes Stefánsson (Jói á Kleifum) inn í stóran systkinahóp fyrir 105 árum og fimm árum síðar fæddist mamma (Gitta í Gröf) þarna líka inn í sama systkinahóp. Dofri, barnabarn Jóa, átti upphaflegu hugmyndina að Þrístrendingi fyrir nokkrum árum og síðan þá höfum við staðið fyrir þessu í sameiningu. Reyndar er þetta ekkert flókið. Fólk bara mætir heim að Kleifum tiltekinn laugardagsmorgun um Jónsmessuleytið, hleypur allan daginn, kynnist öðru fólki, upplifir náttúruna, stekkur yfir læk, drekkur úr læk, veður læk og líður vel um kvöldið. Einföld uppskrift!
Við lögðum fimmtán af stað frá Kleifum þennan morgun í ágætu og þurru veðri, svolitlum norðan kalda og 10 stiga hita. Veðurspáin sagði eitthvað um norðanátt og þoku í Húnaflóa og þá getur verið kalt. Svoleiðis var það alla vega á árum áður þegar ég var að alast upp við þennan flóa. Svoleiðis veður hét norðanfýla og þótti hvorki skemmtilegt né hentugt til heyskapar. Þennan morgun var greinilega einhver þoka á fjöllum en hún gat átt eftir að hopa. Stundum verða hlýindin kuldanum yfirsterkari.
Það leit reyndar út fyrir að við yrðum bara fjórtán, því að Birkir bóndi í Tröllatungu renndi ekki í hlað fyrr en við vorum rétt í þann mund að leggja af stað um hálfellefuleytið. Hann hafði orðið seinn fyrir og þurft að taka Jimmyinn sinn aðeins til kostanna á leiðinni. Það rauk enn úr förunum á Steinadalsheiðinni þegar við hlupum þar yfir.

Búin til brottfarar á hlaðinu á Kleifum. F.v.: Kristinn, Gunnar Viðar, Birkir, Þórir, Stefán, Nanna, Stefán Haukur, Guðrún Nýbjörg, Tómas, Ásdís, Sigrún María, Einar, Auður, Ágúst Karl, Bryndís María, Dofri. Hafursklettur á bak við alla og Gullfoss á bak við Dofra.
Okkur sóttist vel hlaupið á fyrsta áfanganum yfir Steinadalsheiði. Reyndar tíðkast ekkert endilega að hlaupa upp heiðina. Það er þreytandi. En spölurinn niður að norðanverðu er alþýðlegri. Heiðin var snjóléttari en ég hafði reiknað með, nýbúið að opna leiðina fyrir bílaumferð og allt í besta standi. Niðri í Steinadal þarf að vaða tvær ár en það vafðist ekki fyrir neinum. Þar var líka áð við Hestastein, sem sagan (les: Dofri) segir að hafi verið vitni í barnsfaðernismáli á sínum yngri árum. Þar var ekki stofnað til neinna nýrra barnsfeðernismála í þessari ferð.

Í lúxushlaupinu Þrístrendingi er nokkuð víða hægt að verða sér úti um fótabað og kalda bakstra. Snjóflóðaleitartíkin Hneta ryður brautina og Gunnar Viðar og Tómas Orri fylgja á eftir. Dofri tók myndina og á líka heiðurinn af fyrri hluta myndatextans. Myndin var tekin í leyfisleysi af FB-síðunni hans.
Eftir 18,99 km og 2:11 klst. vorum við komin að Stóra-Fjarðarhorni þar sem fyrsta áfanga hlaupsins lýkur jafnan með góðri áningu. Sumir voru reyndar ögn fljótari og aðrir lengur. Í svona hlaupi hefur hver þetta eins og honum hentar best, en liðið safnast þó alltaf saman í lok hvers áfanga. Það er miklu minna gaman að gera þetta einn!
Það er orðinn fastur liður í undirbúningi Þrístrendings að hringja í Vegagerðina á Hólmavík til að kanna hvort búið verði að opna Steinadalsheiðina. Það hefur oft staðið glöggt en alltaf bjargast dagana fyrir hlaup. Reyndar geta hlauparar sem best hlaupið yfir ófærar heiðar, en birgðaflutningar verða erfiðari ef vegurinn er ófær. Þá þarf að keyra um Þröskulda sem er talsvert lengri leið. En þennan dag var heiðin sem sagt orðin fær og þegar við komum að Stóra-Fjarðarhorni var Dofri mættur þar með nesti fyrir þá sem höfðu verið svo forsjálir að senda með honum kost norður yfir.
Eftir áningu við Stóra-Fjarðarhorn var lagt á Bitruháls. Leiðin yfir hann er hvorki brött né löng, en þó talsvert togandi upp að norðanverðu, rétt um 400 m hækkun á 4 km kafla. Af hálsinum sáum við til ferða Húnaflóaþokunnar úti í flóanum en við vorum sýnilega heppin þennan dag. Sólin var meira að segja farin að skína á okkur og gera okkur mögulegt að fækka fötum smátt og smátt. Gott veður er gott.
Í Móhosaflóa er hefðbundinn áningarstaður Þrístrendingshlaupara á Bitruhálsi. Í mínu ungdæmi var þarna brú yfir læk, búin til úr gömlum símastaurum og keflum innan úr símavírsrúllum. Á þeim undrastutta tíma sem liðinn er frá þessu ungdæmi eru keflin horfin og staurarnir einir eftir. Á staurunum kemur í ljós hvaða hlauparar eru meiri fimleikastjörnur en aðrir.
Segir nú ekki af ferðum okkar fyrr en við vorum komin niður af hálsinum og að myndarbýlinu Gröf í Bitru. Áfangi nr. 2 var sem sagt að baki og hafði lagt sig á 9,44 km og 1:32 klst. Í Gröf fæddist ég undir súð upp úr miðri síðustu öld í horfnum heimi þar sem rafmagn, skóli og ferðalög flokkuðust undir sjaldgæfan munað. Á þeim tíma kom eina rafmagnið á bænum frá vindrafstöð á þakinu sem dugði rétt fyrir tvær 12 volta ljósaperur. Þegar vindurinn blés almennilega var rafmagni safnað í rafgeyma til að hægt væri að hlusta á útvarpið í logni. Eina sem ég man eftir af þessum rafgeymum eru ferkantaðar glerkrúsir sem voru notaðar undir gróft salt í grautinn eftir að þær voru hættar að geyma rafmagn, blý og sýru. Skólaganga barna miðaðist í mesta lagi við þriggja mánaða kennslu á hverjum vetri í farskóla Fells- og Óspakseyrarskólahverfis, auk ótæpilegs heimanáms á köflum. Og helstu ferðalög voru búðarferðir að Óspakseyri á þýskum Farmal vor og haust, að ógleymdum kirkjuferðum og ýmsu snatti sem tengdist sláturtíð og öðru fjárragi. Jú, og svo labbaði maður stundum á næsta bæ með bréf í póst eða til að sækja ábyrgðarbréf.
Þennan dag var enginn heima í Gröf því að bróðir minn og sambýliskona hans höfðu brugðið sér eitthvað af bæ. Viðmiðin hafa breyst frá því að ég fæddist og Farmallinn ekki lengur eina farartækið.

Nanna og Þórir fyrir ofan bæinn í Gröf. Í baksýn eru gamli hænsnakofinn sem pabbi smíðaði (líklega 1960) og Grafargilið með fossunum sem léku bakgrunnstónlist æskunnar.
Eftir góða áningu í Gröf var lagt upp í síðasta áfangann inn Krossárdal. Klukkan var orðin 3 síðdegis, sól hátt á lofti og fyrirséð að vindurinn myndi standa í bakið á okkur það sem eftir væri. Enn var því lag að fækka fötum.
Hlaupaleiðin um Krossárdal er miserfið. Fyrstu kílómetrana frá Gröf er hlaupið eftir góðum bílvegi, en þegar komið er inn fyrir Einfætingsgil tekur við jeppaslóði. Honum sleppir við Skáneyjargil, tæpa 6 km fyrir innan Gröf. Næstu 2-3 kílómetra liggur leiðin um mýrar og móa sem eiga það til að gera þreytta fætur enn þreyttari. Eftir það er komið á hestagötur sem eru þokkalega fastar undir fæti og greiðar yfirferðar.
Skáneyjargilið var óvenju vatnsmikið þennan dag enda hlýtt í veðri og nægur snjór á fjöllum fyrir sólina til að bræða. Allir komust þó klakklaust yfir. Ég er stundum spurður hvort maður hafi ekki með sér vaðskó í svona ferðir. Því er til að svara að þess gerist náttúrulega engin þörf. Maður veður bara út í og svo upp úr aftur og heldur áfram að hlaupa. Það er hvorki flókið né óþægilegt og reyndar bara gott að kæla fæturna annað slagið eða „skipta um vatn í skónum“ eins og Gunnar Viðar, hlaupafélagi minn, er vanur að orða það.
Mýrarnar og móarnir tóku líka enda og fyrr en varði vorum við komin að Krossárvatni. Þar tóku sumir það til bragðs að skipta aftur um vatn í skónum sínum og jafnvel öllum fötunum sínum líka. Sjálfur hef ég aldrei þorað að leggjast til sunds í fjallavötnum, en samt finnst mér eitthvað heillandi við svona tært vatn undir svona tærum himni. Kannski dýfi ég mér þarna ofaní næsta sumar ef veður leyfir.
Frá Krossárvatni er ekki ýkja langt „suður af“ eins og það er kallað á þessum slóðum. Þegar klukkuna vantaði korter í fimm var ég aftur staddur á hlaðinu á æskuheimili mömmu. Síðasti áfanginn mældist 12,2 km og skeiðklukkan sýndi 1:44 klst. Að baki voru samtals 40,8 km hlaup, ganga og útivera í svo góðum félagsskap að ég var sjálfur orðinn ögn betri en þegar ég lagði af stað. Sumir voru komnir á undan mér og höfðu jafnvel bætt á sig svolitlum aukaendaspretti til að ná dagskammtinum upp í heilt maraþon, þ.e.a.s. 42,2 km. Sjálfur nennti ég því ekki, enda var Birna búin að elda súpu sem snædd var á pallinum við nýrra íbúðarhúsið á Kleifum. Það hús smíðaði pabbi fyrir Jóa mág sinn, líklega á árunum í kringum 1965. Held að það hafi tekist vel. Alla vega virkar vel að elda í því kjötsúpu. Takk Birna!

Bryndís María, Einar og Ásdís á kjötsúpupallinum á Kleifum. Dofri tók myndina og ég tók hana traustataki.
Mér líður alltaf vel að kvöldi Þrístrendingsdaga. Mér finnst gaman að hlaupa og er þakklátur fyrir að geta það. Á hlaupum hef ég líka kynnst mörgu góðu fólki og í hlaupum á borð við Þrístrending, þar sem tíminn er nægur og náttúran allt í kring, verða þessi kynni enn meira gefandi. Ég er afskaplega lánsamur maður!
Eftirtaldir hlauparar tóku þátt í Þrístrendingi 2015:
- Alla leið (3 fjallvegir með tilheyrandi):
Auður Ævarsdóttir
Ágúst Karl Karlsson
Ásdís Káradóttir
Birkir Þór Stefánsson
Bryndís María Davíðsdóttir
Einar Ingimundarson
Guðrún Nýbjörg Brattberg Svanbjörnsdóttir.
Gunnar Viðar Gunnarsson
Kristinn Óskar Sigmundsson
Sigrún María Bjarnadóttir
Stefán Gíslason
Stefán Haukur Jóhannesson
Tómas Orri Ragnarsson
Þórir Rúnarsson - Tveir fjallvegir (Steinadalsheiði og Krossárdalur):
Nanna Logadóttir - Einn fjallvegur (Bitruháls):
Dofri Hermannsson
Filed under: Hlaup | Tagged: Þrístrendingur, Bitruháls, Gröf, Kleifar, Krossárdalur, Steinadalsheiði | 2 Comments »