Líklega er sumarið tíminn þegar fólk kaupir hvað mest af flöskuvatni, þó að reyndar sé mikið keypt af flöskuvatni allan ársins hring. Ég hef ekki séð tölur um söluna hérlendis, en einhvers staðar sá ég að salan á heimsvísu væri líklega um 200 milljarðar flaskna á ári, þar af um 25% í Bandaríkjunum þar sem búa þó aðeins um 4% mannkynsins. Heildarsalan á flöskuvatni á heimsvísu nemur líklega 50-100 milljörðum dollara á ári. Þetta gætu þá verið á bilinu 6 til 12 þúsund milljarðar íslenskra króna, sem lítur út fyrir að vera alveg þokkalega há upphæð.
Það er áhugavert að velta því fyrir sér hvers vegna fólk kaupi yfirleitt vatn á flöskum, sérstaklega í löndum þar sem nóg er til af rennandi vatni sem alla jafna er litið á sem sameiginlega auðlind. Ef við lítum á þetta í íslensku samhengi, þá getur flöskuvatn vissulega verið handhægt, en það er að sama skapi alveg óþarft ef betur er að gáð. Auðvitað ræður fólk því sjálft í hvaða formi það innbyrðir vatnið sitt, en það er samt áhugavert að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að fá fólk til að kaupa vöru á allt að því 5.000 sinnum hærra verði en því býðst sama vara annars staðar. Hvað myndi okkur til dæmis finnast um það ef samloka sem við getum keypt á 500 kall myndi allt í kosta tvær og hálfa milljón. Er það ekki bara rosalega mikil verðhækkun?
Jæja, þetta er nú kannski ekki alveg svona einfalt. Til dæmis er flöskuvatn sem við kaupum úti í búð ekki alveg sama vara og kranavatnið sem við getum fengið heima hjá okkur og látið renna í sams konar flösku og við hefðum annars keypt í búðinni. Flaskan í búðinni sparar okkur til dæmis ómakið að skrúfa frá krananum, tappinn á henni er hugsanlega fastari á og innihaldið ef til vill kaldara. Já, og svo eru kannski aðeins fleiri bakteríur í henni líka, en ég kem nánar að því síðar.
Vorið 2009, nánar tiltekið þann 25. apríl, keypti ég hálfslítersflösku af tyrknesku vatni í Krónunni í Mosfellsbæ, ekki vegna þess að mig vantaði beinlínis þessa vöru, heldur vegna þess að mig langaði til að kynnast þeirri athyglisverðu viðskiptahugmynd að flytja flöskuvatn til Íslands frá Tyrklandi. Flaskan hafði reyndar millilent í Danmörku á þessu langa ferðalagi sínu. Þar hafði verið settur á hana miði með danskri áletrun, þar sem m.a kom fram að tappinn hefði verið settur á flöskuna í Izmir í Tyrklandi 29. apríl 2008. Þetta ágæta vatn átti sem sagt ársafmæli fjórum dögum eftir að ég keypti það. Mér finnst rétt að taka fram að ég drakk aldrei þetta vatn, enda trúði ég því ekki að í flöskunni væri að finna uppsprettuna að heilbrigði mínu, jafnvel þó að á danska miðanum stæði „Kilden til DIN sundhed“.
Eins og ég nefndi áðan er kranavatn augljóslega mun ódýrara en flöskuvatn. En þar með er ekki öll sagan sögð. Gæði kranavatnsins eru nefnilega víðast hvar líka meiri en gæði flöskuvatnsins. Á þessu hafa verið gerðar margar rannsóknir, sem ég hef að sjálfsögðu ekki kynnt mér nema að litlu leyti. Það sem ég hef séð bendir þó allt til þess að kranavatnið hafi vinninginn, nema þar sem vatnsból eru menguð um lengri eða skemmri tíma. Í einni rannsókninni reyndust bakteríur í flöskuvatni til dæmis vera 50 sinnum fleiri en leyft er í kranavatni.
Ef við lítum nú aðeins á umhverfisáhrif flöskuvatns, þá lítur dæmið enn verr út. Þannig er flöskuvatn að jafnaði um 1500-2000 sinnum orkufrekara en kranavatn þegar tekið hefur verið tillit til framleiðslu og flutnings umbúða. Til að framleiða einn lítra af flöskuvatni þarf að meðaltali um 3 lítra af vatni, olían sem fer í að framleiða flöskurnar myndi líklega duga til að knýja milljón bíla í heilt ár, og svo falla til kynstrin öll af tómum plastflöskum. Hérlendis fer sem betur fer stór hluti þeirra í endurvinnslu, en eitthvað er samt urðað og einhverju er kastað á glæ á víðavangi þar sem það síðan velkist um aldir. Plastflöskur brotna mjög seint niður í náttúrunni og ég hef jafnvel séð því haldið fram að allt að helmingur plastruslsins í hafinu séu plastflöskur, þ.á.m. undan vatni.
Haustið 2009 var efnt til sérstaks átaks í bænum Farum í Danmörku til að vekja athygli á því að kranavatn væri í flestum tilvikum hreinna, heilnæmara, ódýrara og umhverfisvænna en vatn sem keypt er á flöskum. Átakið fólst í því að þáverandi umhverfisráðherra og einn af forsvarsmönnum sveitarfélagsins stóðu á aðaltorgi bæjarins og gáfu vegfarendum 2.300 karöflur undir kranavatn. Á karöflurnar voru grafin kjörorð átaksins, nefnilega „Skift vane – drik vand fra hane“, eða „Droppaðu vananum – drekktu úr krananum“ eins og kjörorðin hljóma í afar lauslegri íslenskri þýðingu. Karöflurnar áttu að auðvelda fólki ódýra og umhverfisvæna vatnsneyslu á heimilunum, því að þær hentuðu einkar vel til geymslu á kranavatni í ísskápum.
Allt það sem hér hefur verið sagt gildir í aðalatriðum líka um vatn úr svokölluðum vatnsvélum sem víða eru í notkun á vinnustöðum. Eflaust er gæðum drykkjarvatns á vinnustöðum víða áfátt, en líklega væri því fjármagni sem fer í kaup á vatni betur varið í endurbætur á vatnslögnum.
Margir kannast við heimildarmyndir Annie Leonard undir yfirskriftinni „Story of Stuff“ – eða saga af dóti. Ein þessara mynda fjallar einmitt um flöskuvatn, það er að segja myndin „Story of bottled water“. Ástæða er til að hvetja þá sem hafa áhuga á umhverfismálum að kynna sér þessar myndir, en þetta eru stuttar teiknimyndir á einfaldri ensku. Hægt er að nálgast þær á síðunni www.storyofstuff.com.
Svona að lokum er rétt að taka fram að ég hef ekki í hyggju að banna fólki að kaupa flöskuvatn, enda hef ég ekki umboð til þess. Þegar þessi mál eru skoðuð er líka mikilvægt að íhuga hvað væri drukkið í staðinn. Ef fólk velur flöskuvatn í stað sætra gosdrykkja, þá er það náttúrulega hið besta mál, bæði fyrir heilsuna og umhverfið. Standi valið hins vegar á milli flöskuvatns og kranavatns, þá hefur kranavatnið næstum alltaf vinninginn, hvort sem litið er á málið í fjárhagslegu, umhverfislegu eða heilsufarslegu samhengi. Lykilatriðið í þessu máli, rétt eins og í flestum öðrum málum er:
Gagnrýnin hugsun!
Takið svo endilega tómar flöskur með ykkur í sumarfríið og fyllið þær af fersku vatni í þar til gerðum krönum eða í frískum fjallalækjum, frekar en að borga fullt af peningum fyrir innpakkaða skammta af þessari sameiginlegu auðlind.
(Þessi pistill er samhljóða pistli sem fluttur var í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1 mánudaginn 1. júlí 2013).
Filed under: Heilsa, Sjálfbær þróun, Umhverfismál | Tagged: auðlind, flöskuvatn, RÚV |
Hæ Stebbi, alltaf fróðlegt og gaman að lesa pistlana þína.
Við kaupum dálítið af kolsýrðu vatni og höfum því verið að hugsa um að kaupa Soda-Stream tæki. Ég er dálítið forvitin að vita hvort það gæti skilað sér smækkun ‘kolefnisfótspors’ okkar Óskars 🙂 Hefurðu skoðað þetta eitthvað? Þessi tæki eru orðin mjög vinsæl aftur.
Takk fyrir fróðlegan pistil, ég velti þessu fyrir mér í nótt í flugstöðinni, langaði í vatn en finnst fáránlegt að kaupa vatn á íslandi…nú er spurning hvort ég geti breytt til í útlöndum og fyllt á af krananum…tók þessa umræðu við systur mína hér i katalóníu rétt í þessu og komst að því að hún drekkur úr krananum svo ég geri það líka 🙂 aftur takk fyrir infoið 🙂
Sælar og takk fyrir athugasemdirnar. 🙂
Guðrún Harpa, ég hef ekki skoðað kolefnisfótsporið, en ég er nokkuð viss um að Sodastreamið er fljótt að borga sig bæði í peningum og minni losun. Mæli hiklaust með Sodastream fyrir þá sem vilja gjarnan fá kolsýrt vatn!
Særún, kranavatnið er neysluhæft víðar en maður heldur, en alls ekki alls staðar. Ef „innfæddir“ drekka það, þá er það sjálfsagt í lagi, en annars er ráðlegt að spyrja þá sem þekkja til. Ég hef komið á staði þar sem manni er ekki einu sinni óhætt að bursta tennurnar úr kranavatni, hvað þá að drekka það. En ég býst við að þetta sé í þokkalegu lagi víðast í Evrópu.