• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • júlí 2013
    S M F V F F S
     123456
    78910111213
    14151617181920
    21222324252627
    28293031  
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Nokkur orð um lyfjaafganga

MedicineÁ flestum heimilum safnast upp eitthvað af lyfjum sem voru keypt á sínum tíma en ekki notuð þegar til kastanna kom. Flest lyf hafa einhver áhrif á heilsuna ef þau berast inn í líkama fólks, enda eru þau beinlínis til þess gerð. Á sama hátt er líklegt að flest lyf hafi einhver áhrif á umhverfið ef þau sleppa út í náttúruna. Þess vegna skiptir miklu máli hvað verður um ónotuð lyf.

Tveir flokkar ónotaðra lyfja
Í grófum dráttum má skipta ónotuðum lyfjum í tvo flokka eftir afdrifum þeirra, þ.e.a.s. annars vegar lyf sem skilað er til endurvinnslu eða förgunar og hins vegar lyf sem lenda í ruslafötunni. Þar ættu lyf reyndar aldrei að lenda, því að úr ruslafötunni liggur leiðin í flestum tilvikum á næsta urðunarstað, og þaðan geta efni úr lyfjunum borist út í náttúruna með tíð og tíma. Þar brotna þau seint niður, enda eru lyf yfirleitt gerð til að endast. Annars myndu þau líklega sjaldan komast óskemmd til þeirra líkamsparta sem þeim er ætlað að hafa áhrif á. En þó að ruslafatan sé slæm, þá er enn verra að sturta lyfjaafgöngum niður í klósettið eins og mér skilst að sumir geri. Úr klósettinu liggur leiðin nánast beint út í náttúruna, enda ráða hreinsistöðvar ekki við lyfjaleifar nema þá að mjög litlu leyti.

Skilið lyfjaafgöngunum!
Lyf geta gert mikinn usla úti í náttúruna, því að þegar þangað er komið halda þau áfram að sinna hlutverki sínu eins og ekkert hafi í skorist. Til að fyrirbyggja þetta er afskaplega mikilvægt að skila öllum lyfjaafgöngum í næsta apótek, sem sér um að koma þeim áfram í viðeigandi förgun. Þetta gildir jafnt um eina eða tvær töflur og um heilu lyfjapakkana. Öll apótek, lítil sem stór, hvar sem er á landinu, taka við lyfjaafgöngum og senda þau áfram til förgunar í viðurkenndri brennslustöð.

Umhverfisáhrif notaðra lyfja
Það eru ekki bara „lyf sem eru ekki notuð“ sem skipta máli frá umhverfislegu sjónarmiði. Lyf sem búið er að nota geta líka endað úti í náttúrunni. Lyfin verða nefnilega ekki að engu í líkamanum, heldur skilar drjúgur hluti þeirra sér út með þvagi. Víða í hinum vestræna heimi má finna mælanlegt magn af hinum ýmsu lyfjum í vötnum og setlögum. Sem dæmi má nefna að Ibuprofen hefur fundist í setlögum í norskum fjörðum og Diclofenac hefur líka víða greinst í fráveituvatni, en Diclofenac þekkja menn sjálfsagt best undir vöruheitinu Voltaren. Þau lyf sem oftast eru nefnd í þessu sambandi eru þó getnaðarvarnarpillur, eða nánar tiltekið ethynýlestradíól, sem er kjarninn í flestum tegundum pillunnar. Þetta efni skilar sér út í höf og vötn um allan heim jafnt og þétt alla daga ársins. Rannsóknir hafa sýnt fram á skaðleg áhrif þessa efnis á fiska sem halda til í grennd við útrásir fráveitukerfa. Einkennin birtast meðal annars í minnkandi sæðisframleiðslu og fjölgun tvíkynja einstaklinga. Innan Evrópusambandsins er rætt um að setja sérstök hámarksgildi fyrir ethynýlestradíól, Diclofenac og eitt algengt lyfjaefni til viðbótar inn í ákvæði um vatnsgæði í tengslum við vatnatilskipun sambandsins.

Lyf sem ekki eru keypt
Lítum loks aðeins á „lyf sem eru ekki keypt“. Þau hafa svo sem engin áhrif á umhverfið, nema náttúrulega þar sem þau eru framleidd. Það er sem sagt að öðru jöfnu góður kostur frá umhverfislegu sjónarmiði að sleppa því að kaupa lyf. En auðvitað er málið ekki alveg svo einfalt. Reyndar getur vel verið að við kaupum of mikið af lyfjum. Kannski hættir okkur til að líta á þau sem fyrsta valkost til meðhöndlunar á hvers konar kvillum, þó að stundum væri nærtækara að leita lækninga í bættu mataræði, útivist og hreyfingu. En það er efni í annan pistil.

Niðurstaðan
Og hver er þá niðurstaðan úr þessu öllu saman? Jú, henni má eiginlega skipta í tvö aðalatriði eða heilræði:

  • Annars vegar ættum við aldrei að kaupa lyf sem við þurfum ekki á að halda.
  • Hins vegar eigum við aldrei að henda lyfjaleifum í ruslið eða í klósettið, alveg sama hvaða lyf á í hlut og alveg sama hversu magnið er lítið.

Lokaorð um pilluna og Voltaren
Framangreindum heilræðum er auðvelt að fylgja. Þetta með getnaðarvarnarpilluna og áhrif hennar á umhverfið er hins vegar erfiðara viðfangs. Fyrsta skrefið er þó að vera meðvitaður um þessi áhrif og fylgjast vel með þróun mála, því að framleiðendur vinna stöðugt að því að þróa pillu sem gerir sem mest gagn og veldur sem minnstum skaða. Þeir sem vilja fræðast um gagnsemi og skaðsemi einstakra tegunda pillunnar ættu endilega að spyrja starfsfólk heilbrigðisstofnana og apóteka og fá þannig aðstoð við að velja besta kostinn. Ég ætla sem sagt alls ekki að leggja til að konur heimsins hætti að taka pilluna af umhverfisástæðum. Hins vegar má fólk alveg hætta að taka Voltaren mín vegna. Ef diclofenac hverfur úr skolprörunum er alla vega búið að fækka umhverfisvandamálunum um eitt.

(Þessi pistill er að mestu leyti samhljóða pistli sem fluttur var í útvarpsþættinum Sjónmál á Rás 1 fimmtudaginn 2. maí 2013).

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: