• Heimsóknir

    • 119.600 hits
  • nóvember 2013
    S M F V F F S
     12
    3456789
    10111213141516
    17181920212223
    24252627282930
  • Nýlegar færslur

  • Færslusafn

Í minningu vonar um betra stjórnarfar

IgnorantNú eru liðin þrjú ár frá því að íslenska þjóðin gerði tilraun til að kjósa sér stjórnlagaþing. Sú tilraun mistókst, í fyrsta lagi vegna þess að afturhaldsöflum tókst að fá niðurstöður kosningarinnar ógiltar, þrátt fyrir að ekkert benti til að ágallarnir hefðu haft áhrif á niðurstöðuna og í öðru lagi vegna þess að Alþingi skorti kjark til að þoka málinu áleiðis eftir að fulltrúar í stjórnlagaráði höfðu lagt á sig mikla og aðdáunarverða vinnu við að semja drög að þessu grunnskjali íslensks stjórnkerfis.

Þegar horft er til baka yfir þessi þrjú ár blasir við döpur mynd: Við sitjum enn uppi með úrelta stjórnarskrá sem að grunni til var samin í Danmörku á 5. áratug þarsíðustu aldar (árið átjánhundruðfjörutíuogeitthvað), stjórnarskrá sem okkur hefur allan þennan tíma skort víðsýni og samstöðu til að breyta, ef frá eru taldar nokkrar takmarkaðar leiðréttingar. Enn eru mörkin milli löggjafarvalds, framkvæmdavalds og dómsvalds svo óskýr að hætta stafar af, enn er verksvið forseta Íslands svo óljóst að sá sem gegnir því embætti getur túlkað hlutverk sitt nánast að vild og yfirtekið að hluta það vald sem aðrir eru kosnir til að fara með, enn eru úrræði til þess að leita álits þjóðarinnar á álitamálum sem upp koma í starfi löggjafans svo takmörkuð að meirihluti Alþingis á hverjum tíma getur farið fram eins og honum sýnist svo lengi sem forsetinn grípur ekki í taumana upp á sitt einsdæmi og enn leyfist mönnum að einkavæða gróða af nýtingu náttúruauðlinda og þjóðnýta tapið þegar illa fer.

Fyrir þremur árum var ég einn þeirra sem gaf kost á mér til setu á stjórnlagaþingi. Úrslit kosninga voru mér mikil vonbrigði á þeim tíma, því að 25 einstaklingar náðu kjöri og ég lenti í 27. sæti af 522 frambjóðendum. Ég var með öðrum orðum „næststigahæsta tapliðið“. Minnstu munaði að ég yrði eftir sem áður kvaddur til starfa í stjórnlagaráði eftir að einn fulltrúinn dró sig í hlé. Þar með var „stigahæsta tapliðið tekið inn í mótið“ og ég var fremstur í flokki þeirra sem stóðu fyrir utan. Eftir á að hyggja var þetta besta niðurstaða sem ég get hugsað mér, því að ég hefði ómögulega viljað leggja mig allan fram mánuðum saman til þess eins að láta hafa alla þá vinnu að engu.

Nú hefur Alþingi skipað enn eina stjórnarskrárnefndina. Hún er skipuð mætasta fólki, en samt er augljóst að þar verður engin ný nóta slegin. Enn er þar reynd sú aðferð sem hefur verið margreynd áður og ávallt mistekist.

Vonin um betra stjórnarfar lifði góðu lífi haustið 2010. Nú er sú von minningin ein. Framtíðin kemur, en þeir sem ráða ferðinni telja hag sínum betur borgið með því að sniðganga tækifærin sem gefast til að móta hana. Viðhorf fortíðar munu ráða ferðinni enn um sinn.

Eitt svar

  1. Takk fyrir góðan pistil.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: