• Heimsóknir

  • 119.667 hits
 • desember 2013
  S M F V F F S
  1234567
  891011121314
  15161718192021
  22232425262728
  293031  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Hlaupaannáll 2013 og markmiðin 2014

RM 2013 Valgerður 235Nú er hlaupaárið 2013 á enda og nýtt ár framundan. Á svoleiðis tímamótum er ég vanur að horfa um öxl, velta fyrir mér því sem hlaupin hafa gefið mér og kennt á liðnu ári og íhuga hvert skuli stefnt á hlaupum á nýja árinu. Hlaup hafa verið eitt mitt helsta áhugamál og skemmtun í rúma 4 áratugi, en fyrir mér eru hlaup ekki bara hlaup. Vangavelturnar í kringum þau eru ekki síður mikilvægar. Hlaupin eru líka svolítið eins og smækkuð mynd af lífinu. Á báðum stöðum þarf úthald og seiglu til að ná árangri og á báðum stöðum skiptir máli að vita hvert maður ætlar, að setja sér markmið og vinna staðfastlega að því að ná þeim, að leggja ekki árar í bát þótt á móti blási og að skilja að ekkert hefst án fyrirhafnar, skilja að maður getur hvergi stytt sér leið. Hvorki í lífinu né í hlaupunum getur maður uppskorið án þess að sá eða fiskað án þess að róa.

Besta hlaupaárið til þessa
Ég byrjaði að hlaupa mér til gamans árið 1970 eða þar um bil og hef gert það meira eða minna allar götur síðan. En af öllum þessum árum var árið 2013 án nokkurs vafa allra besta hlaupaárið. Í stuttu máli gekk allt upp sem ég ætlaði mér – og jafnvel gott betur. Afraksturinn voru m.a. persónuleg met í hálfu maraþoni, maraþoni og á Laugaveginum og meiri gleði en ég mundi eftir að hægt væri að hafa af þessari iðju. Það er líka einhvern veginn þannig að maður kann betur að meta það sem vel gengur eftir því sem árin færast yfir. Það er nefnilega ekkert sjálfsagt að maður hafi heilsu langt fram á sextugsaldurinn til að hlaupa um hæðir og hóla að vild, hvað þá að maður fari hraðar yfir ár frá ári. Þetta eru forréttindi sem verða seint fullþökkuð.

Öll markmiðin náðust – nema það auðveldasta
Í ársbyrjun setti ég mér sjö markmið fyrir hlaup ársins, eins og lesa má um í þar til gerðum pistli frá 6. janúar 2013. Ég ætlaði sem sagt að 1) hlaupa Laugaveginn undir 6 klst, 2) hlaupa a.m.k. sex fjallvegahlaup, 3) hlaupa a.m.k. 2 maraþonhlaup, 4) bæta mig í maraþoni, 5) bæta mig í hálfu maraþoni, 6) hlaupa a.m.k. 2.500 km á árinu og 7) hafa gleðina með í för í öllum hlaupum. Öll þessi markmið náðust, nema það auðveldasta, þ.e.a.s. að hlaupa sex fjallvegi. Þeir urðu bara fimm.

Hvernig er þetta hægt?
Ég hef oft verið spurður að því síðustu mánuði hvernig standi eiginlega á því að ég sé enn að bæta mig, orðinn 56 ára gamall. Oftast hef ég svarað því til að þetta séu engin geimvísindi, ég hafi einfaldlega æft betur en nokkru sinni fyrr. Stundum minni ég líka á að enginn sé eldri en honum finnst hann vera, og að ég hafi auk þess gætt þess að „toppa ekki of snemma“. Vissulega keppti ég í hlaupum á mínum yngri árum, en aldrei lengra en 10 km. Þá tíma á ég ekki möguleika á að slá. Hins vegar byrjaði götuhlaupaferillinn ekki fyrr en 1985 og þar hefur árangurinn farið batnandi jafnt og þétt samfara meiri reynslu og meiri og skynsamlegri æfingum. Annars er ekki til neitt eitt rétt svar við þessari spurningu frekar en flestum öðrum spurningum. Svarið er margþætt. Ég hljóp oftar og lengra en áður og æfingarnar voru miklu fjölbreyttari, meira um sprettæfingar, styrktaræfingar, hægar æfingar og hlaup með öðru fólki. Allt þetta skiptir máli. Hér gilda engar skyndilausnir eða kínalífselexírar.

Eftirfarandi þrjár skýringarmyndir segja nokkurn veginn það sem segja þarf um lykilinn að framförum mínum á þessu nýliðna ári. Sú fyrsta sýnir hlaupamagn eftir vikum 2013, sú næsta hlaupamagn eftir mánuðum og sú þriðja samanlagt hlaupamagn á hverju ári á tímabilinu 1991-2013.

Hlaup 2013 vikur web

Hlaup 2013 mán web

Hlaup 2013 ár web

Hlaupaæfingar ársins
Grunnurinn að góðum árangri ársins var lagður með góðum æfingum fyrstu þrjá mánuðina. Þessa mánuði lagði ég samtals 922 km að baki en mest hafði ég áður hlaupið 636 km í janúar-mars 2011. Í mars 2013 hljóp ég til dæmis 324 km, sem er það mesta sem ég hef náð í einum mánuði til þessa. Og vika nr. 9, 25. febrúar til 3. mars, var sömuleiðis lengsta vikan á ferlinum, 102,11 km. En magnið er ekki allt. Fjöldi æfinga og innihald þeirra skiptir ekki síður máli. Þegar best lét hljóp ég 6 sinnum í viku, þar af eina sprettæfingu, eina langa æfingu (um 30 km), eina meðallanga æfingu, eina styrktaræfingu og tvær örhægar æfingar. Inn í lengstu æfingarnar setti ég hraðari kafla, t.d. þannig að síðari hlutinn væri um 10% hraðari en fyrri hlutinn. Allt tók þetta mið af einhverri áætlun sem ég fann á netinu og aðlagaði eigin þörfum með sérstöku tilliti til Parísarmaraþonsins sem var á dagskrá 7. apríl. Og allt byggði þetta á ákvörðun sem ég tók einhvern tímann undir lok ársins 2012, um að prófa að æfa meira og betur en fyrr og athuga hverju það myndi skila.

Eftir Parísarmaraþonið dró ég töluvert úr æfingamagninu en hélt mér þó vel við efnið með tiltölulega hröðum æfingum. Ætlaði að bæta miklum brekkuæfingum í pakkann þegar kæmi lengra fram á vorið til að undirbúa mig fyrir Laugaveginn, en minna varð úr því en áformað var. Fór þrjár ferðir á Hafnarfjallið í júní, en meira var það nú ekki.

Eftir Reykjavíkurmaraþonið seint í ágúst minnkaði ég æfingarnar enn frekar. Ætlaði reyndar að halda nokkurn veginn mínu striki fram að haustmaraþoni, en annríki í vinnu kom í veg fyrir að sú áætlun gengi upp. Í raun hljóp ég því frekar lítið í september og október. Eftir haustmaraþonið í lok október tók ég mér svo þriggja vikna frí frá hlaupum, en svoleiðis nokkuð hef ég ekki gert ótilneyddur mörg síðustu ár. Þetta ákvað ég með löngum fyrirvara. Taldi rétt að hvíla skrokkinn aðeins eftir óvenjumikið hlaupaálag það sem af var árinu, jafnvel þótt ég fyndi engin merki um þreytu né krankleika. Allur er varinn góður.

Síðustu vikur ársins tók ég því áfram frekar rólega. Einsetti mér þó að hlaupa a.m.k. þrisvar í viku, samtals a.m.k. 40 km. Þann skammt lít ég á sem viðhaldsþjálfun á tímum þegar langt er í næsta stóra hlaupaverkefni. Þegar upp var staðið voru kílómetrar ársins orðnir samtals 2.731 sem gerir þetta ár að langlengsta hlaupaárinu mínu hingað til. Fyrra metið var 2.428 km á árinu 2011.

Það sem stendur upp úr þegar ég lít til baka yfir æfingar ársins er meiðslaleysið. Hlaupaárið 2012 fór að miklu leyti í vaskinn vegna meiðsla, og sú reynsla nýttist mér vel 2013. Í upphafi árs var ég orðinn nokkuð góður og tókst að verja þá stöðu með því að beita þokkalegri skynsemi. Meiðsli roskinna langhlaupara eiga sér flest eina og sömu orsök, sem heitir í stuttu máli „of mikið of fljótt“. Það er t.d. ekki góð hugmynd fyrir fólk eins og mig að taka sprettæfingar á fullu álagi daginn eftir erfið hlaup, sérstaklega þegar kalt er í veðri. Reynslan getur verið strangur kennari, en það borgar sig að taka mark á henni.

Keppnishlaupin
Árið 2007 ákvað ég að gera hlaupin að lífsstíl. Þá var ætlunin að leggja mesta áherslu á fjallvegahlaupaverkefnið mitt, en síðan hef ég í raun leiðst meira og meira út í götuhlaupin. Árið 2013 var ég t.d. að eigin mati talsvert sterkari á malbikinu en í fjalllendi. Mér finnst skemmtilegt að blanda þessu saman, því að þannig verður upplifunin fjölbreyttari.

Samtals urðu keppnishlaupin 11 talsins þetta árið og hafa bara einu sinni verið fleiri (2011). Fyrsta hlaupið var Poweradehlaup 14. febrúar. Leit á það sem góða hraðaæfingu fyrir Parísarmaraþonið, en ætlaði mér að öðru leyti ekkert sérstakt. Tíminn, 41:58 mín, kom mér þægilega á óvart, enda var þetta þriðji besti 10 km götuhlaupatíminn frá upphafi (í 25 hlaupum). Þetta var staðfesting á því að undirbúningurinn fyrir París væri á réttri leið.

Hjálparhellurnar mínar Birgitta og Jóhanna við Foch Avenue að hlaupi loknu.

Hjálparhellurnar mínar Birgitta og Jóhanna við Foch Avenue að loknu Parísarmaraþoni.

Næst var það svo sjálft Parísarmaraþonið 7. apríl. Þar stefndi ég óhikað að því að ná mínum besta maraþontíma, en áður hafði ég best hlaupið á 3:17:07 klst. í Reykjavík 2009. Miðað við gengi mitt á æfingum vetrarins átti þetta ekki að vera mikið vandamál, og ég sá jafnvel fram á að geta hlaupið nálægt 3:10 klst. Slæm kvefpest og önnur skakkaföll dagana fyrir hlaupið gerðu það þó að verkum að ég var ekkert sérlega vel upplagður þennan morgun á breiðgötunni Champs-Élysées. Væntingarnar snerust því fyrst og fremst um að ég fengi notið hlaupsins. Allt annað væri kaupauki. Skemmst er frá því að segja að allt gekk eins og best verður á kosið og ég kom í mark á 3:14:44 klst. vel studdur af dætrum mínum tveimur sem áttu stærstan þátt í að gera þessa Parísarferð að sannkölluðu ævintýri. Ferðasagan öll er skráð annars staðar á þessum vef.

Þriðja keppnishlaup ársins var Víðavangshlaup ÍR sumardaginn fyrsta, en þar mætti ég síðast til leiks fyrir 39 árum. Þarna náði ég þeim langþráða áfanga að hlaupa 5 km á skemmri tíma en 20 mínútum, nánar tiltekið á 19:59 mín. Þetta var besti tíminn minn í 5 km götuhlaupi, en síðast hljóp ég undir 20 mín í brautarhlaupi á Blönduósi sumarið 1980.

Næst var röðin komin að Icelandairhlaupinu 2. maí, en þetta er árlegt 7 km hlaup í kringum Vatnsmýrina, sem ég tók nú þátt í fjórða árið í röð. Enn gekk allt eins og í sögu og ég náði mínum langbesta tíma til þessa, 28:16 mín. Þetta var enn skemmtilegra fyrir þá sök að þrír aðrir Flandrafélagar voru með í för, auk þess sem ég hafði góðan félagsskap af Evu Skarpaas alla leiðina.

Fimmta hlaupið var 10 km styrktarhlaup fyrir Heimsleika líffæraþega (WTG). Hlaupið var haldið í Fossvogi þann 15. maí á sömu braut og árlegt Fossvogshlaup. Ég hafði verið á einhverjum misskemmtilegum fundum í Reykjavík þennan dag og var hreint ekki vel upplagður til hlaupa. Lét mig þó hafa það, en var laus við allar væntingar. Tókst þó að halda jöfnum og góðum hraða í gegnum allt hlaupið og ljúka því á 41:03 mín, sem var vel að merkja bara 3 sek. frá besta tímanum mínum í 10 km götuhlaupi frá upphafi. Þeim tíma náði ég í Ármannshlaupinu 1996.

Þann 1. júní var röðin komin að Mývatnsmaraþoninu, en ferðin norður var um leið fyrsta eiginlega keppnisferð hlaupahópsins Flandra. Ég ákvað að skella mér í heilt maraþon, ákveðinn í að spara samt kraftana til þess að taka ekki of mikinn toll af skrokknum og möguleikum á að standa sig í hlaupum næstu daga og vikur þar á eftir. Stefndi að því að hlaupa á u.þ.b. 3:20 klst. án mikillar áreynslu. Þetta gekk eftir, nema hvað áreynslan varð ívið meiri en að var stefnt, einkum vegna stöðugs mótvinds á fyrri hluta hlaupsins. Lokatíminn var 3:20:41 klst. sem dugði mér í 2. sætið á eftir Sigurjóni Sigurbjörnssyni. Það er ekki leiðinlegt að vera næstur á eftir slíkum ofurhlaupara!

Flandragleði að loknu Mývatnsmaraþoni. (Ljósm. Björk Jóhanns).

Flandragleði að loknu Mývatnsmaraþoni. (Ljósm. Björk Jóhanns).

Laugavegurinn 13. júlí var enn eitt ævintýrið. Þar stefndi ég að því að hlaupa á skemmri tíma en 6 klst. og vissi svo sem vel að það átti ekki að reynast mér mjög erfitt. Þetta var annað Laugavegshlaupið mitt, en sumarið 2007 hafði ég farið leiðina á 6:41 klst. með miklu minni undirbúning og reynslu en nú. Veðrið var að vísu ekki hagstætt, frekar kalt og blautt og vindurinn að mestu leyti í fangið. Hvað sem því líður var þetta ein stærsta upplifun ársins. Sérstaklega er mér eftirminnilegt augnablikið þegar ég kom að skálanum í Emstrum rétt áður en klukkan small í 4 klst. Því átti ég satt best að segja ekki von á. Lokatíminn var 5:52:33 klst., sem er reyndar næst besti tími sem 55-59 ára Íslendingur hefur náð á þessum spotta það sem af er. Aðeins Sigurjón Sigurbjörnsson hefur gert betur. Að hlaupi loknu kom líka í ljós að ég hafði unnið 50 ára flokkinn nokkuð örugglega. Það fannst mér heldur ekkert leiðinlegt. Og til að gera þetta enn skemmtilegra var Birkir Þór Stefánsson, skíðagöngukappi og bóndi í Tröllatungu, með mér í þessu ferðalagi. Laugavegurinn var án efa einn af hápunktum ársins, bæði í hlaupunum mínum og lífinu yfirleitt.

Síðustu skrefin á Laugaveginum, 3 sek. eftir í mark. (Klukkan á myndinni er 5 mín. of fljót). (Ljósm. Hlaup.is).

Síðustu skrefin á Laugaveginum, 3 sek. eftir í mark. (Klukkan á myndinni er 5 mín. of fljót). (Ljósm. Hlaup.is).

Áttunda keppnishlaup ársins var Hreppslaugarhlaupið sem var haldið í fyrsta sinn 15. ágúst. Þarna var hlaupinn 14,2 km hringur neðst í Skorradal, sem ég þekki reyndar vel. Hafði hlaupið þennan sama hring nákvæmlega 22 sinnum áður á æfingum. Ég var ekki vel stemmdur fyrir þetta hlaup, en þar gekk þó allt eftir áætlun eins og í öðrum hlaupum ársins. Ég hafði látið mig dreyma um að hlaupa hringinn á 1 klst. og var býsna nálægt því. Kom í mark á 1:00:16 klst., annar á eftir margnefndum Sigurjóni. Þessi tími lofaði góðu fyrir Reykjavíkurmaraþonið rúmri viku síðar.

Reykjavíkurmaraþonið 24. ágúst var eitt allsherjar ævintýri frá upphafi til enda. Ég fór ekki í þetta hlaup til að slá met, hvorki persónuleg né önnur, heldur fyrst og fremst til þess að njóta dagsins og gleðjast. Ég vissi alveg að ég var í góðu formi, en undirbúningurinn hafði samt ekki verið sérlega markviss. Raunhæft markmið var að ná mínum næstbesta tíma til þessa, þ.e. undir 3:17 klst, en ég gerði mér engar grillur um að bæta „metið“ frá París. Vissi þó að það gat svo sem alveg fallið ef allt gengi upp, án þess að það væri sérstaklega á dagskrá. Í stuttu máli fór þetta allt fram úr björtustu vonum. Ég lauk hlaupinu á 3:08:19 klst, en þeim tíma hafði mig eiginlega aldrei dreymt um að ná í lífinu. Þetta var svo sannarlega efni í langa bloggfærslu. Og mér sem þykir svo einstaklega gaman að spá í tölur og afrekaskrár, fannst þetta heldur ekkert verra þegar ég komst að því að þetta var þriðji besti tími 55-59 ára karls frá upphafi.

Í faðmi fjölskyldunnar eftir besta maraþon ævinnar í Rvík 2013. (Ljósm. Valgerður Gísladóttir).

Í faðmi fjölskyldunnar eftir besta maraþon ævinnar í Rvík 2013. (Ljósm. Valgerður Gísladóttir).

Eftir Reykjavíkurmaraþonið rifaði ég seglin eins og áður hefur komið fram. Gat þó ekki stillt mig um að hlaupa 10 km í Fossvogshlaupinu 5 dögum síðar. Lauk því á 41:46 mín, sem var miklu betri tími en mér hafði dottið í hug að ná með maraþonið í fótunum. Reyndar var þetta mjög óskynsamlegt, því að 5 dagar eru allt of stuttur tími til að jafna sig á maraþoni. Mér leið líka illa í fótunum á meðan á hlaupinu stóð. En ég slapp við meiðsli. Slapp með öðrum orðum með skrekkinn, en lofaði sjálfum mér að gera þetta aldrei aftur.

Síðasta keppnishlaup ársins var hálft maraþon í haustmaraþoni Félags maraþonhlaupara 26. október. Þarna var ég hættur að vera í toppformi enda æfingarnar minni en æskilegt hefði verið. Bjóst samt allt eins við að ná mínum besta tíma. Það gekk eftir, því að ég lauk hlaupinu á 1:31:12 klst. og bætti þar með persónulega metið mitt frá vorinu 2010 um 1:26 mín.

Í stuttu máli gekk allt upp í keppnishlaupum ársins. Afraksturinn var besti tími ævinnar í 5 km götuhlaupi, hálfu maraþoni, heilu maraþoni og á Laugaveginum. Og í 1o km götuhlaupi vantaði bara 3 sekúndur.

Á heiðarvaði í Hrútá inn af Fáskrúðsfirði þar sem komið er niður af Stuðlaheiði. Þarna er allt sem hugur fjallvegahlauparans girnist. (Ljósm. Sævar Skaptason).

Á heiðarvaði í Hrútá inn af Fáskrúðsfirði þar sem komið er niður af Stuðlaheiði. Þarna er allt sem hugur fjallvegahlauparans girnist. (Ljósm. Sævar Skaptason).

Fjallvegahlaupin
Síðastliðið sumar var 7. sumarið af 10 í fjallvegahlaupaverkefninu mínu, en áður en sumrin 10 eru liðin ætla ég að vera búinn að hlaupa 50 fjallvegi. Afrakstur sumarsins á þessu sviði voru 5 fjallvegir, nánar tiltekið Selvogsgata sem ég hljóp í góðum félagsskap í maí og fjórir fjallvegir á Austurlandi sem voru lagðir að baki á tveimur hlýjum og sólríkum sumardögum í júlí. Tveir þessara fjallvega, þ.e.a.s. Stuðlaheiði og Reindalsheiði, eru án efa í hópi þeirra eftirminnilegustu það sem af er. Þar var allt sem hugurinn girnist á svona ferðalögum: Einstök veðurblíða, há fjöll, fannir, straumþung vatnsföll, einsemd og félagsskapur, auðnir og gróskumikill gróður. Sérstaklega er mér minnisstæð leiðin af Reindalsheiði niður í Fossdal, sem gengur norður úr norðurdal Breiðdals. Þarna var skjól fyrir vindi og öðru heimsins amstri, sól skein í heiði og hitamælirinn hefði sýnt 20°C ef hann hefði á annað borð verið til staðar. Og ekki spilltu upplifuninni veitingarnar sem biðu okkar heima á Gilsá að hlaupi loknu.

Þegar þetta er ritað er ég búinn með 34 fjallvegi af 50, sem er reyndar einum minna en það ætti að vera. Sú skekkja verður leiðrétt fyrr en síðar. Og af því að ég hef svo gaman að tölum sakar ekki að nefna að það sem af er hafa samtals 42 hlauparar tekið einhvern þátt í þessu með mér. Þarna hafa skapast kynni sem eru gerð til að endast. Öllum fjallvegahlaupunum mínum eru gerð skil á heimasíðu verkefnisins, fjallvegahlaup.is. Reyndar er ég á eftir áætlun með ferðasögurnar, en allt kemur þetta inn með tímanum.

Skemmtihlaupin
Árlega stend ég fyrir eða á að minnsta kosti einhvern þátt í þremur skemmtihlaupum, sem hvorki eru keppnishlaup né formleg fjallvegahlaup. Þar ber fyrst að nefna hinn árlega Háfslækjarhring sem jafnan er hlaupinn á uppstigningardag. Síðasta vor var þetta hlaup þreytt í 4. sinn þann 9. maí. Umræddur hringur er í nágrenni Borgarness, rúmlega 21 km að lengd heiman að frá mér og heim. Þetta er eiginlega boðshlaup, því að hluti af uppákomunni er kjötsúpa sem lífsförunauturinn hún Björk galdrar fram að hlaupi loknu úr hráefni frá Rögnvaldi bróður mínum, bónda í Gröf í Bitru. Og svo er það heiti potturinn, sem nýtur sívaxandi vinsælda. Þetta árið voru þátttakendur eitthvað um 15 talsins, þar af 10 sem hlupu hringinn allan. Sjálfur var ég að hlaupa hringinn í 95. sinn, en þar hef ég eytt mörgum laugardagsmorgninum síðustu 6 ár.

Þrístrendingur er annað skemmtihlaup sem komin er ákveðin hefð á. Reyndar var það Dofri Hermannsson, frændi minn frá Kleifum í Gilsfirði, sem átti hugmyndina að þessu hlaupi og hefur haldið utan um það frá upphafi með smáaðstoð frá mér. Leiðin liggur um þrjár firði, þrjá fjallvegi, þrjár sýslur og þrjár strendur, þ.e. úr Gilsfirði norður Steinadalsheiði til Kollafjarðar, þaðan yfir Bitruháls að æskuheimili mínu í Gröf og loks suður (eða vestur) Krossárdal, aftur að Kleifum. Hringurinn allur er um 40 km, en staðhættir þannig að auðvelt er að taka bara einn eða tvo áfanga af þremur ef heildarvegalengdin vex mönnum í augum. Núna var Þrístrendingur hlaupinn í 4. sinn og bar hlaupið upp á laugardaginn 22. júní. Þátttakendur voru 14 þegar allt er talið, þar af 10 sem létu sig ekki muna um að skokka alla leiðina. Veðrið var með því besta sem gerist, endalaus sól og blíða. Og ekki spilltu veitingarnar hjá Rögnvaldi og Arnheiði í Gröf upplifun dagsins.

ÍR-ingar á hlaðinu á Kleifum að loknum Þrístrendingi 2013.

ÍR-ingar á hlaðinu á Kleifum að loknum Þrístrendingi 2013.

Þriðja árlega skemmtihlaupið er Hamingjuhlaupið sem tengist bæjarhátíðinni Hamingjudögum á Hólmavík. Leiðin er mismunandi ár frá ári, en fyrirkomulagið alltaf svipað. Þarna er fylgt svipaðri áætlun og hjá Strætó, þ.e.a.s. komið við á ákveðnum stöðum á ákveðnum tíma og mikið lagt upp úr því að koma hvorki of seint né of snemma á leiðarenda. Hlaupið var nú þreytt 5. árið í röð og fór fram laugardaginn 29. júní. Lagt var upp frá Árnesi í Trékyllisvík um hádegisbil og komið til Hólmavíkur um 8-leytið um kvöldið eftir 53 km hlaup um heiðar og dali. Nánar tiltekið lá leiðin yfir Trékyllisheiði sem mörgum þykir í hrjóstugra lagi. Að minnsta kosti hélt  Jakob Thorarensen skáld frá Gjögri því fram í kvæði sem birtist í Sunnanfara árið 1914, að þar væri „jafn þurlegt og í dómssal, eins þögult og í gröf“. Það átti ekki vel við þennan dag, því að miklar fannir voru á heiðinni en veðurblíðan slík að þess gerast fá dæmi. Móttökurnar á Hólmavík voru líka höfðinglegar og sérstök forréttindi að fá að skera fyrstu sneiðina af heimsfrægu hnallþórhlaðborði heimamanna að hlaupi loknu.

Hlaupahópurinn Flandri
Ég get ekki sagt skilið við hlaupaárið 2013 án þess að minnast á þátt hlaupafélaga minna í hlaupahópnum Flandra í Borgarnesi í eigin velgengni. Ég átti þátt í að koma þessum hóp á laggirnar haustið 2012 og bjóst þá við að hann myndi heldur verða til þess að hægja á mér á hlaupunum frekar en hitt. En annað kom á daginn: Flandri bætti tilgangi við hlaupin mín og veitti um leið ákveðið aðhald, því að sem einn af forsvarsmönnum hópsins bar mér viss skylda til að mæta á reglubundnar hlaupaæfingar hópsins þrisvar í viku. Þar með komst betri regla á hlaupin en áður, því að þessir tímar voru fráteknir, nánast sama hvað á gekk í vinnu og öðrum verkum. Hlaupamagnið hjá mér þurfti eðlilega að vera meira en hjá flestum öðrum í hópnum, þar sem markmiðin mín snerust um lengri hlaup en hjá hinum. En þetta var auðvelt að leysa með því að hlaupa góðan spöl áður en æfingarnar byrjuðu. Þannig náði ég líka að stytta vegalengdirnar í huganum, því að hlaup sem áður var t.d. 30 km varð allt í einu bara 20 km og síðan 10 km með félögum mínum í Flandra. Oft tók ég t.d. laugardaginn snemma, hljóp fyrst 10 km eitthvað út í buskann á frekar litlum hraða (t.d. 20% hægar en áætlaður maraþonhraði) og aðra 10 til baka á meiri hraða (10% hægar en maraþon). Svo var haldið aftur af stað eftir nokkurra mínútna hlé í þriðja 10 km spölinn með félögunum, sem sumir voru vel að merkja orðnir hraðskreiðari en ég á styttri vegalengdum.  Félagsskapurinn skiptir miklu máli, líka fyrir menn eins og mig sem hafa hlaupið einir áratugum saman!

Á fjölmennri Flandraæfingu 22. apríl 2013.

Á fjölmennri Flandraæfingu 22. apríl 2013.

Markmiðin 2014
Eins og áður sagði náði ég öllum þeim markmiðum sem ég setti mér fyrir hlaupaárið 2013, nema hvað fjallvegahlaupin urðu einu of fá. Ég horfi því fram á við fullur bjartsýni. Í samræmi við það eru markmiðin fyrir árið 2014 sem hér segir:

 1. Bæting í maraþoni (undir 3:08:19 klst).
 2. Hálft maraþon undir 1:30 klst.
 3. Bæting í 10 km götuhlaupi (undir 41:00 mín).
 4. A.m.k. sex fjallvegahlaup
 5. Gleðin með í för í öllum hlaupum

Allt eru þetta kunnugleg markmið, en sum eru ívið meira krefjandi en undanfarin ár, sérstaklega það fyrsta. En ef síðasta markmiðið næst er ég sáttur, því að þar með er tryggt að ég leggst ekki í þunglyndi þótt hin markmiðin náist ekki.

Helstu dagsetningar
Til að styðja við markmiðin hér að framan og sjálfum mér til minnis datt mér í hug að bæta við nokkrum lykildagsetningum sem hafðar verða í huga á árinu 2014:

 • Laugard. 26. apríl 2014: Vormaraþon FM, stefnt að góðum tíma í hálfmaraþoni
 • Fimmtud. 29. maí 2014: Uppstigningardagur: Hinn árlegi Háfslækjarhringur og minn hundraðasti
 • Laugard. 7. júní 2014: Mývatnsmaraþon, hópferð með Flandra og heilt maraþon á rólegum nótum
 • Laugard. 21. júní 2014: Þrístrendingur í 5. sinn
 • Laugard. 28. júní 2014: Hamingjuhlaupið í 6. sinn, hugsanlega úr Gilsfirði um Vatnadal til Hólmavíkur
 • Helgin 18.-20. júlí 2014: Hlaupahátíð á Vestfjörðum, hópferð með Flandra og 45 km Vesturgata á sunnudegi
 • Laugard. 23. ágúst 2014: Reykjavíkurmaraþon: Heilt maraþon 6. árið í röð
 • Sunnud. 12. okt. 2014: Münchenmaraþon með Bændaferðum og Flandra: Bæting í heilu maraþoni
 • Júlí 2015: Laugavegurinn í 3. sinn
 • Síðsumars 2016: Fimmtugasta og síðasta hlaupið í Fjallvegahlaupaverkefninu
 • Júlí 2017: Laugavegurinn í 4. sinn
 • Sept. 2017: Berlínarmaraþon á góðum tíma miðað við aldur og fyrri störf

Þakkir
Svei mér þá ef ég verð ekki þakklátari með hverju ári sem líður. Að einhverju leyti er þetta vaxandi þakklæti eintóm eigingirni, því að þakklæti er nefnilega góð tilfinning fyrir þann sem hefur hana. En fyrst og fremst hef ég þó ærna ástæðu til að vera þakklátur; þakklátur forsjóninni fyrir að hafa leyft mér að njóta þessa áhugamáls í meira en 40 ár án nokkurra verulega skakkafalla, þakklátur Björk fyrir að umbera áhugamálið síðustu 35 ár og fyrir að styðja mig í því á alla lund, m.a. með ómældri aðstoð í tengslum við fjallvegahlaupin, þakklátur Þorkeli syni mínum fyrir að hlaupa stundum með mér og miðla mér af þekkingu sinni á þjálfun hlaupara, þakklátur dætrunum Birgittu og Jóhönnu fyrir að hafa gaman að öllu saman og sérstaklega fyrir að fylgja mér til Parísar, þakklátur hlaupafélögunum í Flandra fyrir áhuga, stuðning og samveru, þakklátur þeim sem hafa fylgt mér yfir fjallvegi í góðum veðrum og slæmum og þakklátur öllum hinum sem hafa hvatt mig og sýnt áhuga sinn í orði og verki. Ég er svo heppinn að það er ofaxið skilningi mínum. Og inn í allt þetta þakklæti blandast tilhlökkunin til alls þess sem framundan er. Árið 2014 verður gott ár, hvernig sem einstökum markmiðum reiðir af.

2 svör

 1. […] í að miða við þetta vikulega æfingamagn fram til 20. febrúar eða þar um bil. Stærsta hlaupamarkmiðið mitt á þessu ári er að bæta mig í Münchenmaraþoninu í október, þannig að mér liggur ekkert á. Sígandi […]

 2. […] náði ég fjórum af þeim fimm markmiðum sem ég setti mér í ársbyrjun og lesa má um í þar til gerðum pistli frá 31. desember 2013. Ég ætlaði sem sagt að 1) bæta mig í maraþoni (hlaupa undir 3:08:19 klst), 2) hlaupa hálft […]

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: