• Heimsóknir

  • 119.600 hits
 • nóvember 2014
  S M F V F F S
   1
  2345678
  9101112131415
  16171819202122
  23242526272829
  30  
 • Nýlegar færslur

 • Færslusafn

Fjögurra vikna haustfrí á enda

mebÉg hef ekki hlaupið neitt í fjórar vikur, nánar tiltekið alveg síðan í Münchenmaraþoninu 12. október. Ástæðan er hvorki heilsubrestur, elli né leti, heldur er þetta einfaldlega hluti af æfingaáætlun ársins. Og það verður gaman að byrja aftur!

Síðustu árin hef ég lengst af verið þeirrar skoðunar að það væri varasamt fyrir rígfullorðna hlaupara eins og mig að taka sér langt hlé frá æfingum, því að þá yrði svo erfitt að komast aftur í sama form og maður var í fyrir hlé. Fyrir nokkrum árum var mig reyndar farið að gruna að þetta væri kannski misskilningur og á síðasta ári var ég orðinn alveg viss um hið gangstæða, þ.e.a.s. að hvíldin væri hreinlega nauðsynlegur hluti af því að halda sér í formi. Síðasta haust tók ég mér þess vegna þriggja vikna frí frá hlaupum og það sama ætlaði ég að gera núna í haust. Áætlunin hljóðaði sem sagt upp á að taka mér frí frá hlaupum eftir haustmaraþonið 25. október og byrja svo aftur mánudaginn 17. nóvember. Þessi áætlun raskaðist reyndar aðeins, því að nokkrum dögum eftir Münchenmaraþonið, rétt í þann mund sem ég taldi tímabært að byrja að hlaupa aftur, settist að mér frekar þrálát hálsbólga. Þetta var hreint engin drepsótt og truflaði mig svo sem ekkert í vinnunni, en samt nógu slæm til þess að ég efaðist um að útihlaup myndu bæta stöðuna. Þetta ástand stóð alveg fram að haustmaraþoni, sem ég varð þar af leiðandi að neita mér um, og þá bjó ég til nýja áætlun sem hljóðaði upp á fjögurra vikna frí frá og með mánudeginum 13. október. (Þetta er víst það sem kallast „afturvirk ákvörðun“, sem þykir ekki fínt hugtak í lögfræði en sjálfsagt vel brúklegt í sjálfhverfri hlaupaáætlunargerð fullorðinna). Ég ætla sem sagt að hefja æfingar á nýjan leik á morgun, mánudaginn 10. nóvember, eða í síðasta lagi dagana þar á eftir ef vinnan eða aðrir utanaðkomandi þættir ná að breyta áætlun morgundagsins.

Nú kann einhver að spyrja hver sé eiginlega spekin á bak við þetta. Því er til að svara að ég er enginn fagmaður í íþróttafræðum. Hins vegar tek ég mikið mark á mér yngri og reyndari mönnum sem mér finnst ástæða til að taka mikið mark á. Í þeim hópi eru m.a. hlaupararnir Meb Keflezighi, Bernard Lagat, Kim Collins og Þorkell Stefánsson. Þrír þeir fyrstnefndu eiga það sameiginlegt að vera komnir fast að fertugu og vera enn í framför þrátt fyrir að hafa verið í hópi bestu hlaupara heims í tvo áratugi. Sá fjórði er líka í framför og hefur verið óþreytandi við að benda mér á fordæmi hinna. Allir þessir menn leggja áherslu á hvíld og hóflegt álag á æfingum sem lykilatriði í því að ná árangri og viðhalda honum. Líkaminn þarf nefnilega ráðrúm til að vinna úr því sem lagt er á hann. Meira er ekki alltaf betra og sígandi lukka er best!

Hlakka til að byrja aftur. Ég sakna hreyfingarinnar, hlaupafélaganna í Flandra og útiverunnar!

(Myndin efst til hægri er tekin ófrjálsri hendi af einhverri vefsíðu og sýnir Meb vinna Bostonmaraþonið sl. vor á persónulegu meti (2:08:37 klst.) tveimur vikum fyrir 39 ára afmælið sitt. Hann stefnir á að verða í maraþonliði Bandaríkjanna á Ólympíuleikunum í Ríó 2016).

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s

%d bloggurum líkar þetta: